Hæstiréttur íslands

Mál nr. 202/2014


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Gengistrygging
  • Vextir


                                     

Fimmtudaginn 6. nóvember 2014.

Nr. 202/2014.

Ólafur Garðarsson og

Ágústa Sigrún Ágústsdóttir

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Hjördís Halldórsdóttir hrl.)

Skuldabréf. Gengistrygging. Vextir.

G og Á gáfu út skuldabréf til K hf., forvera A hf., en óumdeilt var að það hefði verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Aðila greindi á um uppgjör sín á milli vegna skuldabréfsins, nánar tiltekið um hvaða vexti skuldbindingin hefði átt að bera í ljósi þess að hún var í íslenskum krónum. Endurútreikningur A hf. tók mið af því að skuldbindingin bæri vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en samkvæmt gögnum málsins voru þeir vextir hærri en samningsvextir vegna þess tíma sem endurútreikningur tók til. A hf. hafði þó viðurkennt að vaxtagreiðslur til 1. desember 2008 hefðu falið í sér fullnaðargreiðslur og ætti A hf. því ekki rétt til frekar greiðslna vaxta vegna þess tímabils, en eftir þann dag höfðu greiðslur ekki verið inntar af hendi fyrr en eftir endurútreikning. G og Á báru því við að leggja skyldi samningsvexti samkvæmt skuldabréfinu til grundvallar uppgjöri aðila og höfðuðu af því tilefni mál þetta á hendur A hf. Með vísan til dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 var því slegið föstu að fyrirmæli skuldabréfsins hafi vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar verið ógilt í merkingu 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Var A hf. því sýknað af kröfum G og Á tengdum fyrrgreindum málatilbúnaði, en ein dómkrafa þeirra var talin fela í sér lögspurningu og var henni af þeim sökum vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. mars 2014. Þau krefjast að viðurkennt verði að  stefnda sé að hámarki heimilt að krefja þau um 3,08% ársvexti af skuldabréfi útgefnu af þeim til Kaupþings banka hf. 5. júní 2007 upphaflega að fjárhæð 23.000.000 krónur, svo og að eftirstöðvar skuldar samkvæmt bréfinu hafi á gjalddaga 1. mars 2012 numið 22.463.716 krónum. Einnig krefjast áfrýjendur þess að stefnda verði gert að greiða þeim 2.208.502 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. ágúst 2007 til 4. apríl 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárkrafa áfrýjenda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Ólafur Garðarsson og Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, greiði í sameiningu stefnda, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 27. mars 2013 og dómtekið 4. desember sl. Stefnendur eru Ólafur Garðarsson og Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, bæði til heimilis að Rjúpnasölum 12, Kópavogi. Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

                Stefnendur gera eftirfarandi kröfur: 1) Að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að notast við skilmála 1. gr. skuldabréfs nr. 0303-35-005452, útgefið 5. júní 2007, þar sem segir: ,,Í vexti af höfuðstól skuldar þessarar eins og hann er á hverjum tíma, ber skuldara að greiða breytilega vexti eins og þeir eru ákveðnir af Kaupþingi banka hf. á hverjum tíma og tekur það jafnt til kjörvaxta hverrar myntar og vaxtaálags. Kaupþingi banka hf. er heimilt að breyta vöxtunum á 3ja mánaða fresti til samræmis við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum.“; 2) Að viðurkennt verði að stefnda sé að hámarki heimilt að krefja stefnendur um 3,08% ársvexti af fyrrgreindu skuldabréfi; 3) Að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar skuldabréfsins hafi á gjalddaga 1. mars 2012 numið 22.463.716 krónum. 4) Að stefndi greiði stefnendum skuld að fjárhæð 2.208.502 krónur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 af 40 krónum frá 1.8.2007 til 3.9.2007, af 5.380 krónum frá 3.9.2007 til 1.10.2007, af 8.391 krónu frá 1.10.2007 til 1.11.2007, af 17.100 krónum frá 1.11.2007 til 3.12.2007, af 30.921 krónu frá 3.12.2007 til 3.1.2008, af 46.572 krónum frá 3.1.2008 til 1.2.2008, af 69.639 krónum frá 1.2.2008 til 3.3.2008, af 99.462 krónum frá 3.3.2008 til 1.3.2008, af 141.939 krónum frá 1.3.2008 til 2.5.2008, af 194.949 krónum frá 2.5.2008 til 2.6.2008, af 246.634 krónum frá 2.6.2008 til 1.7.2008, af 300.059 krónum frá 1.7.2008 til 1.8.2008, af 377.670 krónum frá 1.8.2008 til 1.9.2008, af 461.567 krónum frá 1.9.2008 til 1.10.2008, af 581.696 krónum frá 1.10.2008 til 3.11.2008, af 755.192 krónum frá 3.11.2008 til 1.12.2008, af 952.598 krónum frá 1.12.2008 til 14.2.20012, af 1.412.362 krónum frá 14.2.2012 til 1.3.2012, af 1.497.242 krónum frá 1.3.2012 til 2.4.2012, af 1.581.874 krónum frá 2.4.2012 til 1.5.2012, af 1.638.983 krónum frá 1.5.2012 til 3.6.2012, af 1.696.091 krónu frá 3.6.2012 til 3.7.2012, af 1.753.200 krónum frá 3.7.2012 til 1.8.2012, af 1.810.309 krónum frá 1.8.2012 til 3.9.2012, af 1.867.417 krónum frá 3.9.2012 til 1.10.2012, af 1.923.817 krónum frá 1.10.2012 til 1.11.2012, af 2.036.472 krónum frá 1.11.2012 til 30.11.2012, af 2.093.815 krónum frá 30.11.2012 til 3.1.2012, af 2.151.159 krónum frá 3.1.2012 til 2.2.2013, af 2.208.501 krónu frá 2.2.2013 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, af 2.208.502 krónum frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá er þess krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti skv. 12. gr. sömu laga. Stefnendur krefjast einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnenda verði lækkaðar. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Í greinargerð stefnda koma fram hugleiðingar um að ákveðnir kröfuliðir stefnenda kunni að varða frávísun án kröfu. Ekki var talin ástæða til að fjalla um mögulega sjálfkrafa frávísun málsins í sérstöku þinghaldi, sbr. meginreglu síðari málsliðar 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við aðalmeðferð málsins beindi dómari því hins vegar til lögmanna að þeir fjölluðu sérstaklega um þau atriði sem stefndi teldi að kynnu að varða sjálfkrafa frávísun málsins.

Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.

Málsatvik

                Atvik málsins eru að meginstefnu ágreiningslaus, meðal annars um að stefndi hafi tekið við réttindum Kaupþings banka hf. samkvæmt því skuldabréfi sem síðar greinir og teljist réttur aðili málsins til varnar.

Hinn 5. júní 2007 gáfu stefnendur út skuldabréf til Kaupþings banka hf. að jafnvirði 23 milljóna króna í japönskum jenum. Um var að ræða svonefnt erlent myntkörfulán, gengistryggt með breytilegum vöxtum og veði í tiltekinni fasteign. Við útgáfu skuldabréfsins voru þó einungis japönsk jen tilgreind sem mynt skuldarinnar. Ekki er umdeilt að um ólögmætt gengistryggt lán var að ræða. Hins vegar deila aðilar um þá vexti sem lánið hafi átt að bera með hliðsjón af því að lánið reyndist vera í íslenskum krónum.

Lánið var veitt til 25 ára og skyldu vextir reiknast frá kaupdegi. Gjalddagi fyrstu afborgunar var 1. júlí 2007 og skyldi lánið bera 1,78% grunnkjörvexti, auk 1,3% vaxtaálags, eða 3,08% vexti samtals. Í 1. gr. meginmáls skuldabréfsins sagði eftirfarandi um greiðslu og ákvörðun vaxta: „Í vexti af höfuðstól skuldar þessarar eins og hann er á hverjum tíma, ber skuldara að greiða breytilega vexti eins og þeir eru ákveðnir af Kaupþingi banka hf. á hverjum tíma og tekur það jafnt til kjörvaxta hverrar myntar og vaxtaálags. Kaupþingi banka hf. er heimilt að breyta vöxtunum á 3ja mánaða fresti til samræmis við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum. Ákveði Kaupþing banki hf. að breyta vaxtaálagi skuldabréfs þessa verður skuldara tilkynnt um það bréflega, en vilji skuldari ekki una breytingunni er honum heimilt að greiða skuldina upp með óbreyttu vaxtaálagi innan mánaðar frá dagsetningu tilkynningar.  Vexti ber að greiða eftir á, á sama tíma og afborganir.  Skuldara er heimilt að greiða upp skuldina á gjalddögum.“

Í tengslum við þessa lántöku undirrituðu stefnendur 31. maí 2007 „yfirlýsingu vegna lántöku í erlendu myntkörfuláni“. Kom þar fram að stefnendur gerðu sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem fælist í lántöku í erlendum myntum, með tilliti til breytinga á gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni sem og að bankanum væri heimilt að breyta vöxtum lánsins til samræmis við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum.

Stefnendur greiddu reglulegar afborganir höfuðstóls og vaxta af láninu frá 2. júlí 2007 og allt til 1. desember 2008, þó þannig að 18. september 2008 var gerð breyting á greiðsluskilmálum bréfsins sem ekki er ástæða til greina frá nánar. Lánið var svo „fryst“ samkvæmt samkomulagi aðila 29. desember 2008. Skyldi næsta afborgun vera 1. maí 2009 en jafnframt var umsamið að áfallnir vextir frá 1. desember 2008 til og með 1. apríl 2009 yrðu lagðir við höfuðstól lánsins og að þannig yrði nýr höfuðstóll myndaður. Vextir af nýjum höfuðstól skyldu reiknast frá 1. apríl 2009. Átti síðasti gjalddagi lánsins að vera sem fyrr 1. október 2032. Samkvæmt greinargerð stefnda greiddu stefnendur ekki af láninu eftir að frystingu lauk en höfðu uppi mótmæli við láninu með vísan til þess að um væri að ræða lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu. Ekki liggja fyrir í málinu nánari upplýsingar um hvort greitt hefur verið af láninu eftir höfðun málsins.

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu voru vextir 3,08% við fyrstu tvær afborganirnar en á gjalddaga 1. september 2007 hækkuðu þeir í 3,16% og héldu áfram að hækka fram til þess að stefnendur hættu að greiða af láninu í desember 2008. Samkvæmt stefnu hafði höfuðstóll bréfsins og greiðslur afborgana þá nærri þrefaldast vegna gengistryggingarinnar. Stefnendur sendu í framhaldinu bréf til stefnda, sem hafði tekið réttindum kröfuhafa samkvæmt skuldabréfinu, þar sem umræddri gengistryggingu var mótmælt. Í málinu kemur fram að stefndi hafi viðurkennt að um væri að ræða ólögmæta gengistryggingu í framhaldi af frávísunardómi héraðsdóms 22. júlí 2011 sem ekki er ástæða til rekja nánar.

Í stefnu er rakin ákvörðun Neytendastofu í máli nr. 6/2009 „Kvörtun Guðmundar Hauks Sigurðssonar yfir skilmálum myntkörfuláns Kaupþings banka hf.“ frá 9. febrúar 2009, en þar var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum 6. gr. og 9. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994, „með því að tilgreina ekki í skilmálum myntkörfulánasamnings með hvaða hætti vextir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytist“.  Með vísan til 26. gr. laganna bannaði Neytendastofa stefnda að notast við umþrætt ákvæði og skyldi bannið taka gildi við birtingu ákvörðunar Neytendastofu, þann 12. mars 2009. Með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála 25. september þess árs var ákvörðun Neytendastofu staðfest. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda brást hann þannig við ákvörðun Neytendastofu að hinn 25. mars 2010 var þeim sem tekið höfðu erlend myntkörfulán með kjörvöxtum send tilkynning um breytingu á 1. gr. skilmála skuldabréfa á borð við það sem deilt er um í þessu máli og skyldi breytingin taka gildi frá og með 1. apríl 2010. Í skilmálabreytingunni koma fram upplýsingar um útreikning kjörvaxta án þess að um sé að ræða breytingu á efnislegum réttindum og skyldum. Stefnendur kannast ekki við að hafa móttekið umrætt bréf stefnda.

Í málatilbúnaði aðila eru raktir dómar Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 sem staðfestu að lög heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla, svo og ýmsir eftirfarandi dómar Hæstaréttar um gengistryggingu, einkum dómur 16. september 2010 í málinu nr. 471/2010 um ákvörðun vaxta við þær aðstæður að lán hefði verið bundið gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þá er rakin setning laga nr. 151/2010 sem breyttu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem ekki er ástæða til að rekja nánar hér.

Hinn 7. febrúar 2011 var stefnendum sendur endurútreikningur á láni sínu samkvæmt grein X til bráðabirgða við lög nr. 38/2001, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 151/2010. Ágreiningslaust er að í endurútreikningnum fólst að upphaflegur höfuðstóll lánsins, í íslenskum krónum, var vaxtareiknaður miðað við vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, en frá þeirri fjárhæð voru dregnar greiðslur stefnenda reiknaðar miðað við sömu vexti. Í gögnum málsins eru rakin ýmis samskipti aðila eftir þennan endurútreikning, gerð grein fyrir höfðun máls stefnenda gegn stefnda sem lyktaði með fyrrnefndum frávísunardómi héraðsdóms 22. júlí 2011 og sagt frá samkomulagi aðila 26. apríl 2012 um tímabundna breytingu á greiðslutilhögun láns. Með hliðsjón af sakarefni málsins er ekki ástæða til að rekja þessi atvik sérstaklega. Hinn 18. mars 2013 var gerður nýr endurútreikningur á láni stefnenda í tilefni af dómum Hæstaréttar sem þá höfðu gengið um gildi fullnaðarkvittana fyrir greiðslu vaxta af gengistryggðum lánum. Var þar miðað við að ekki yrði krafist frekari vaxtagreiðslna til 1. desember 2008. Er þannig ágreiningslaust að stefndi eigi ekki frekari kröfu til samningsvaxta fram til 1. desember 2008 og því ekki deilt um gildi fullnaðarkvittana í málinu.

Samkvæmt greinargerð lækkaði höfuðstóll lánsins samkvæmt endurútreikningnum 18. mars 2013 um 4.980.771 krónu frá fyrri endurútreikningi og var nýr höfuðstóll þá 27.080.829 krónur. Segir jafnframt í greinargerð að stefnendur hafi þá verið taldir hafa ofgreitt 134.738 krónur vegna greiðslna sem höfðu átt sér stað í samræmi við fyrri endurútreikning 1. mars, 1. apríl, 2. nóvember og 20. nóvember 2012. Samkvæmt greinargerð stefnda var endurgreiðslunni ráðstafað til lækkunar á höfuðstól láns stefnenda.

Í málinu hafa verið lögð fram ýmis gögn um þróun kjörvaxta samanborið við LIBOR-vexti svo og skuldatryggingaálag Kaupþings banka hf. sem ekki þykir ástæða til að rekja sérstaklega.

Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnendur byggja málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að úrskurður Áfrýjunarnefndar neytendamála frá 25. september 2009 sem staðfesti ákvörðun Neytendastofu hafi verið bindandi gagnvart stefnda, en með úrskurðinum hafi stefnda verið bannað að nota þá skilmála sem séu til úrlausnar í málinu. Stefnendur vísa til þess rökstuðnings sem fram komi í ákvörðun Neytendastofu og þeirrar áherslu sem þar hafi verið lögð á að neytandi geti áttað sig á því til hvaða breytinga geti komið þegar um sé að ræða breytilega vexti og við hvaða aðstæður vextir séu breytilegir. Á grundvelli skilmála láns eigi neytandi að geta áttað sig á því hvenær og við hvaða skilyrði aðstæðurnar koma upp og hvernig þær leiði til þess að vextir lánsins muni breytast. Hafi ekki verið fallist á rök stefnda þess efnis að ákvæði 1. gr. fælu í sér með fullnægjandi hætti upplýsingar um hvernig vextir væru breytilegir og við hvaða aðstæður kjörvextir skyldu breytast sbr. 9. gr. laga nr. 121/1994. Þá vísa stefnendur til forsendna áfrýjunarnefndar neytendamála, einkum eftirfarandi rökstuðnings:

,,Ekki er unnt að fallast á að ,,vextir sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum“ séu þær ,,aðstæður“ í skilningi 9. gr. sem tilgreina skal í samningi um lán með breytilega vexti. Í raun og veru felur lánsskilmálinn bankanum sjálfdæmi um það hverjir vextirnir skuli vera.“

,, [...] er tilgangur frumvarpsins meðal annars að bæta möguleika lántakenda til að bera saman mismunandi tilboð lánveitanda og þar með gera lántakanda auðveldara að meta hvort hann vill taka lánið. Vandséð er hvernig ná má fram þeim tilgangi nema 9. gr. laganna sé skýrð á þann hátt að orðalagi ,, ... tilgreint skal með hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast“ sé túlkað þannig að lánveitanda sé skylt að upplýsa lántaka um allar breytur sem áhrif hafa til hækkunar eða lækkunar á hlutfalli vaxtanna.“

,,Hið umþrætta ákvæði lánssamningins veitir engar leiðbeiningar um það hvaða aðstæður geti leitt til breytinga á vöxtunum. Verður að gera þá kröfu til bankans að hann tilgreini, þannig að ekki sé neinum vafa undiropið, hverjar þessar aðstæður eru svo lántaki geti með fullnægjandi hætti gert sér grein fyrir hvernig vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast eins og skýrlega er kveðið á um í 9. gr. laga nr. 121/1994. Einungis þannig verður gagnsæi lánskjaranna tryggt.“

Stefnendur byggja á því að ákvörðun Neytendastofu um að stefnda sé bannað að notast við skilmála 1. gr. skuldabréfsins gagnvart neytendum sé bindandi fyrir stefnda og því geti hann ekki breytt vöxtum skuldabréfsins gagnvart stefnendum sem eru neytendur í skilningi laga nr. 121/1994. Stefnendur vísa til þess að samkvæmt 4. mgr. 25. gr. laga nr. 121/1994 verði aðili, sem ekki vill una úrskurði áfrýjunarnefndar, að höfða mál til ógildingar fyrir dómstólum innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Þetta hafi stefndi ekki gert og sé hann því bundinn af úrskurðinum, þ.e. að nota umræddan skilmála í lánssamningum við neytendur, þ. á m. stefnendur. Þar sem málshöfðunarfrestur sé liðinn telja stefnendur að dómstólar geti ekki endurskoðað efnislega ákvörðun Neytendastofu, enda brjóti hann ekki gegn ákvæðum stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þessu felist að stefnda sé óheimilt að krefja stefnendur um hærri vexti en skuldabréfið sjálft beri með sér, þ.e. 3,08% sem sé krafa stefnenda í öðrum kröfulið. Þar sem umræddur skilmáli hafi farið gegn lögum nr. 121/1994 frá upphafi þá krefjist stefnendur einnig að viðurkennt verði með dómi rétt þeirra til endurgreiðslu ofgreiddra vaxta sem farið hafa fram yfir 3,08% af ógengistryggðum höfuðstól skuldabréfsins.

Verði ekki fallist á að framangreindur úrskurður áfrýjunarnefndar sé bindandi byggja stefnendur á því að umrætt ákvæði skuldabréfsins uppfylli ekki upplýsingaskyldu lánveitanda skv. lögum nr. 121/1994 og samsvarandi ákvæði tilskipunar 87/103/EB sem standi að baki hinum íslenskum lögum. Óumdeilt sé að téð skuldabréf eigi undir ákvæði laganna skv. 1. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 4. gr. laganna, en lögin kveði á um upplýsingaskyldu lánveitanda gagnvart neytendum við lánveitingu, einkum í 6. og 9. gr. þeirra. Þá vísa stefnendur til þess að í 14. gr. laganna segi að séu vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindur í samningi þá sé lánveitanda ekki heimilt að krefja neytenda um greiðslu hans. Í 15. gr. sé svo kveðið á um skaðabótaábyrgð lánveitanda vegna brots á lögunum.

Stefnendur byggja á því að í fyrrgreindu ákvæði 1. gr. skuldabréfsins séu ekki uppfyllt þau skilyrði sem fram koma í 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um það með hvaða hætti vextir séu breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast. Í ákvæðinu sé einungis tekið fram að stefnda sé heimilt að breyta vöxtunum á þriggja mánaða fresti til samræmis við vexti á nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum. Í raun hafi stefndi því haft frjálst val um það hvenær vextir breyttust og við hvaða aðstæður. Neytandi hafi því aldrei áttað sig á því hvenær vextir myndu breytast. Þannig hafi stefndi í raun boðið lán með mjög lágum vöxtum sem hækkuðu statt og stöðugt út lánstímann með algerlega ófyrirséðum hætti, byggt á eigin ákvörðunum stefnda sjálfs. Á þeim 18 gjalddögum sem stefnendur greiddu af bréfinu fram að framangreindum málaferlum megi sjá að einungis á tveimur fyrstu gjalddögunum hafi stefnendum borið að greiða vexti miðað við efni skuldabréfsins sjálfs eða 3,08%. Vextirnir hækkuðu svo jafnt og þétt úr 3,08% í 5,03% eða um nærri 2% á þessum tíma en aldrei kom til lækkunar á vöxtunum. Verði einnig að horfa til þess að miðað við upphaflegan höfuðstól skuldabréfsins jafngildi 1% hækkun á vöxtum 230.000 króna breytingu á vaxtakostnaði á ári. Þá sé þess að geta að jafnvel þótt ákvæðið væri orðað með þessum hætti hafi verið brotið gegn skilmálanum strax eftir tvo mánuði. eins og áður er lýst.

Stefnendur vísa til þess að í fyrrgreindum úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála hafi verið fallist á þessar málsástæður og vísa til forsendna úrskurðarins til stuðnings máli sínu. Telja þeir að af þessu leiði að stefndi hafi ekki átt rétt á vöxtum umfram 3,08% og eigi stefnendur kröfu um endurgreiðslu hinna ofteknu vaxta á tímabilinu.

Stefnendur vísa til þess að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 hafi orðið ákveðin straumhvörf varðandi vaxtaákvæði í gengistryggðum lánssamningum, en stuttu síðar, eða í desember , hafi lög nr. 151/2010 verið sett og endurútreikningur 7. febrúar 2011 skv. bráðabirgðaákvæði X laganna verið gerður. Stefnendur árétta að þeir hafi mótmælt útreikningnum enda hafi bráðabirgðaákvæðið  falið í sér að aðeins skyldi miða við seðlabankavexti fyrstu fimm ár eftir endurútreikning en þá skyldi endurskoða vaxtakjör og væri lánveitanda þá heimilt að ákveða einhliða vaxtakjör sem miðuðust við sambærilegar lánveitingar. Hafi stefnendur talið að gengistrygging skuldabréfsins væri ólögmæt og ætti endurútreikningur því ekki að miðast við umrætt bráðabirgðaákvæði. Þá væri óeðlilegt að lánveitandi hefði sjálfdæmi um það hvaða vexti hann byði upp á að loknum þessum fimm árum. Hins vegar hafi stefnendur, í kjölfar viðurkenningar stefnda á því að lánið væri bundið ólögmætri gengistryggingu, ákveðið að hefja aftur greiðslur samkvæmt endurútreikningnum með fyrirvara um betri rétt sinn.

Þótt vextir hafi verið endurreiknaðir með tilliti til fullnaðarkvittana telja stefnendur að stefndi hafi aldrei haft rétt til þess að krefja um hærri vexti en fram hafi komið í upphaflegu skuldabréfi. Stefnendur byggja á sömu málsástæðum sem fram koma að framan um að stefnda hafi verið óheimilt að breyta vöxtum skuldabréfsins. Þá er einnig byggt á því að stefnda hafi verið óheimilt að breyta vöxtum í samræmi við niðurstöðu Áfrýjunarnefndar neytendamála, enda hafi úrskurðurinn verið bindandi gagnvart lánssamningum stefnda til neytenda.

Stefnendur leggja á það áherslu að forsendur Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 eigi ekki við í málinu þar sem þeim kjörvöxtum sem vísað hafi verið til í skuldabréfinu verði ekki jafnað til LIBOR-vaxta. Í fyrsta lagi benda stefnendur á að í skuldabréfinu sjálfu er hvergi minnst á LIBOR-vexti. Einungis er fjallað um að ,,Grunnkjörvextir“ séu 1,78%, ,,Vaxtaálag“ sé 1,3% og að ,,vegnir vextir“ séu samtals við undirritun bréfsins 3,08%. Neðar segir að bréfið sé gengistryggt miðað við JPY og að ,,grunnvextir“ séu 1,78%. Í 1. gr. skilmála bréfsins er svo sagt að vextirnir séu breytilegir og taki það jafnt til ,,kjörvaxta“ hverrar myntar og vaxtaálags. Þá er ekkert minnst á LIBOR-vexti í greiðsluáætlun skuldabréfsins. Í öðru lagi byggja stefnendur á því að stefndi hafi sjálfur lýst því yfir að ekki væri um LIBOR-vexti að ræða og vísa því til stuðnings einnig til fyrrnefnds úrskurðar áfrýjunarnefndar neytendamála. Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að þrátt fyrir að LIBOR-vextir hafi verið einn af þeim þáttum sem höfðu áhrif á útreikning kjörvaxta þá hafi stefndi verið í einhliða aðstöðu til þess að hækka þá vexti þegar honum sýndist. Þannig hafi kjörvextirnir ekki fylgt LIBOR-vöxtum á tímabilinu og verið mun hærri. Vísa stefnendur til tölulegra útreikninga sem fyrir liggja í málinu þessu til stuðnings.

Þá byggja stefnendur á 3. mgr. 36. gr. c í samningalögum nr. 7/1936 með síðar breytingum. Ljóst sé að gengistrygging samningsins hafi verið ólögmæt og hafi gengistryggingunni því verið vikið til hliðar skv. samningnum. Þýðir það þó ekki að sjálfkrafa verði að víkja vöxtum til hliðar að sama skapi. Stefnendur sem séu neytendur í skilningi laga hafi þannig rétt á því að samningurinn skuli gilda að öðru leyti án breytinga þannig að stefnendur skuli greiða þá vexti sem skuldabréfið ber með sér, þ.e. 3,08%. Byggja stefnendur á því að þau séu neytendur og vísa til neytendaverndar í því sambandi. Þá gildi lög um neytendalán sem og 36. gr. a-d í samningalögum gagnvart neytendum og séu sérlög hvað þetta atriði varðar sem ganga framar almennum lögum.

Þriðja stefnukrafa byggist á því að allar raunafborganir samkvæmt kvittunum dragist frá upphaflegum höfuðstól skuldabréfsins og 3,08% vextir leggist við höfuðstól fyrir það tímabil þegar stefnendur greiddu ekki af skuldabréfinu fram til dagsetningar endurútreiknings, þ.e. frá 1.12.2008 til 15.8.2011. Samkvæmt útreikningum stefnenda nam höfuðstóll skuldabréfsins samkvæmt þessu þann 1.3.2013 22.463.716 krónum. Forsendur þess útreiknings eru að stefnda hafi verið óheimilt að breyta vöxtum skuldabréfsins í samræmi við málsástæður stefnenda. Með hliðsjón af því að ekki er uppi tölulegur ágreiningur um þessa kröfu stefnenda er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir útreikningi kröfunnar.

Fjórða krafa stefnenda byggist á því að stefnendur hafi ofgreitt á lánstímanum vexti sem samsvarar fjárhæð kröfunnar. Byggist töluleg fjárhæð kröfunnar á útreikningum sem stefnendur hafa lagt fram og sýna að strax frá öðrum gjalddaga 2.8.2007 ofgreiddu stefnendur af láninu. Stefnendur vísa hér til þriggja tímabila. Á fyrsta tímabili skuldabréfsins, þ.e. þegar stefnendur greiddu af bréfinu gengistryggðu, hafi ofgreiðslur numið 952.598 krónum. Við hafi tekið tímabil þar sem stefnendur greiddu ekkert af bréfinu og í stað þess að skuldajafna ofgreiðslunni á skuldabréfinu hafi vextir verið lagðir við höfuðstólinn. Á þriðja tímabilinu hafi stefnendur svo ofgreitt vexti að fjárhæð 1.255.903 krónur og sé það bæði vegna þess að stefndi hafi reiknað vexti af of hárri fjárhæð skv. endurútreikningi og svo einnig vegna þess að skuldabréfið hafi, eftir endurútreikning, borið vexti skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 38/2001, sem stefnendur telji óheimilt.

Stefnendur byggja á því að þau eigi rétt á umræddum fjármunum á grundvelli almennra reglna um oftekið fé og 18. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt 5. gr. 18. gr. laga nr. 38/2001 beri kröfuhafa að „endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft“ vegna ólögmætra vaxta. Ákvæði 5. gr. hafi komið til sögunnar með gildistöku laga nr. 151/2010. Í dómum Hæstaréttar hafi þó verið litið til þess að óheimilt sé fyrir löggjafann að ganga inn í samningssamband aðila með íþyngjandi og afturvirkum hætti. Stefnendur byggja því kröfu sína einnig á ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 eins og það var fyrir gildistöku laga nr. 151/2010 og telja að um sé að ræða fjárhæð sem stefndi hafi ranglega haft af stefnendum í skilningi ákvæðisins. Telja stefnendur augljóst að sé fallist á málsástæður þeirra viðvíkjandi fyrstu tveimur stefnukröfunum eigi þau peningakröfu á hendur stefnda vegna ofgreiðslna á vöxtum. Vaxtakrafa stefnenda byggist á ákvæðum 18. gr. laga nr. 38/2001 um að reikna skuli svokallaða Seðlabankavexti en stefnendur hafa lagt fram sérstaka útreikninga þar að lútandi.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi á því byggð að með endurútreikningi og uppgjöri við stefnendur hafi stefndi greitt að fullu það fé sem þeir ofgreiddu vegna ólögmætrar gengistryggingar.

Stefndi vísar til þess að hann sé bundinn af 3. gr., 4. gr., 14. gr. og 18. gr. laga nr. 38/2001, þar með talið 5. mgr. þeirrar greinar, sem kveður á um útreikning á stöðu skuldar í tilviki ólögmætrar verðtryggingar. Þar sem lán stefnenda hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu gildi ekki samningsvextirnir á grundvelli 1. gr. skilmála skuldabréfsins um breytilega vexti, heldur vextir samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá stofndegi kröfu. Ekki sé því um að ræða, svo sem gert sé í stefnu, að horfa eigi til mismunandi tímabila eftir uppsögu dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 og gildistöku laga nr. 151/2010. Stefndi vísar einnig til þess að með síðari endurútreikningi hafi verið tekið fullt tillit til fullnaðarkvittana vegna þeirra vaxta sem stefnendur greiddu.

Stefndi telur að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið á milli samningsvaxta og ólögmætrar gengistryggingar og eigi þannig við dómur Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010 andstætt því sem byggt sé á af hálfu stefnenda, en sama niðurstaða leiði af skýringu fyrrnefndri 18. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi telur það ekki hagga þessari niðurstöðu að umrætt skuldabréf kvað á um kjörvexti en ekki LIBOR-vexti. Stefndi vísar einnig til þess að aðilar hafi verið sammála um að lánið félli undir bráðabirgðaákvæði X í a-lið 2. gr. laga nr. 151/2010 og yrði endurreiknað til samræmis við lögin við meðferð máls fyrir Hæstarétti sem síðar var fellt niður. Stefndi vísar til þess að kjörvextir hafi meðal annars miðast við LIBOR-vexti. Þótt fleiri þættir hafi ráðið kjörvöxtum bendi það ekki til þess að kjörvextir hafi verið óháðir gengistryggingu lánsins.

Stefndi bendir á að kjörvextir hafi verið ákveðnir sérstaklega fyrir hverja erlenda mynt. Þá hafi skuldabréfið borið skýrlega með sér að um erlent myntkörfulán var að ræða og hafi vextir af lánum í íslenskri mynt því aldrei gilt um það. Eina myntbreytingin sem hafi verið heimil hafi verið yfir í aðra erlenda mynt. Ekki hafi með nokkru móti verið unnt að skýra ákvæði skuldabréfsins þannig að þeir hafi getað gilt um lán í íslenskum krónum. Meira máli skiptir þó að vextir af lánum í íslenskri mynt hafi verið af lánum sem voru verðtryggð, með vísitölu neysluverðs grundvöll verðtryggingar. Kjörvextir af óverðtryggðum skuldabréfalánum í íslenskri mynt hafi einnig verið að miklum mun hærri en kjörvextir af verðtryggðum skuldabréfalánum. 

Allt að einu byggir stefndi á því að þar sem verðtrygging sé ógild verði að líta svo á að forsendur hafi brostið eða reynst rangar fyrir umsömdum vöxtum. Ljóst megi vera að samningur við stefnendur um vaxtahæð hafi verið bundinn forsendu um gengistryggingu lánsins og sú forsenda mátt vera stefnendum kunn. Sé sanngjarnt og eðlilegt að stefnendur beri áhættuna af röngum eða brostnum forsendum að þessu leyti, enda jafnan litið svo á að reynist loforðsmóttakandi óbundinn af loforði sínu sé loforðsgjafi einnig óbundinn af sínu loforði. Einnig bendir stefndi á að lánveitendur væru að hagnast á röngum eða brostnum forsendum, á kostnað stefnda, ef sú staðreynd að um ólögmæta gengistryggingu hafi verið að ræða hefði engin áhrif á vaxtahæð.

Stefndi mótmælir málsástæðum stefnenda byggðum á lögum nr. 141/1994 og ógildingarákvæðum laga nr. 7/1936, með síðari breytingum en telur þó þessar málsástæður óskýrar. Stefndi telur stefnendur ekki hafa rökstutt hvernig niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála hefur það í för með sér að óheimilt hafi verið að nota svonefnda Seðlabankavexti samkvæmt fyrirmælum áðurgreindra laga. Ekki sé ljóst hvers vegna stefnendur vísi til 3. mgr. 36. gr. c í lögum nr. 7/1936, enda eigi ákvæðið við um það tilvik þegar samningi sé vikið til hliðar. Skilmála 1. gr. skuldabréfsins um breytilega vexti, eins og hann var í upphafi, hafi ekki verið vikið til hliðar á þeim grundvelli að hann sé ósanngjarn og eigi ákvæði 36. gr. a-d í lögum nr. 7/1936 því alls ekki við um réttarstöðu stefnenda. Þá hafi stefnendur engar málsástæður sett fram um að víkja skuli skilmála 1. gr. lánssamnings þeirra til hliðar á grundvelli samningalaga. Lög nr. 38/2001 mæli fyrir um hvernig skuli fara með ólögmæt gengistryggð lán og gangi þau framar samningalögum sem og lögum um neytendalán. Allt að einu verði ekki séð að árekstur sé í raun milli lagabálka um umþrætt atriði. Hvorki lög um neytendalán né samningalög varði með nokkrum hætti þau atriði sem kveðið sé á um 4. gr. og 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. einnig 2. málslið 1. mgr. 14. gr. laga um neytendalán.

Stefndi byggir á því að honum hafi verið heimilt að innheimta breytilega vexti af láni stefnenda fyrir þann tíma sem það hafi verið gert, þ.e. frá 2. júlí 2007 til og með 1. desember 2008, en eftir þann tíma hafi í reynd verið heimtir seðlabankavextir, sbr. síðari endurútreikning láns stefnenda. Það standist hins vegar ekki að miða endurútreikning við 3,08% vexti, hvorki fyrir þetta tímabil né síðar.

Stefndi mótmælir því einnig að fyrrgreind ákvörðun Neytendastofu og úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála hafi haft einkaréttarleg áhrif þannig að umræddir skilmálar teljist ógildir. Hlutverk Neytendastofu sé að sinna opinberu markaðseftirliti og ákvarðanir Neytendastofu lúti að því hvort aðilar hafi brotið gegn ákvæðum laga og geti stofan gripið til tiltekinna allsherjarréttarlegra úrræða, m.a. bannað tiltekna háttsemi. Neytendastofa leysi hins vegar ekki úr einkaréttarlegum ágreiningi sem rísi í tengslum við þau lög sem henni sé ætlað að framfylgja.

Stefndi vísar einnig til þess að engar forsendur séu fyrir því að dómstólar geti ekki endurskoðað efnislega ákvörðun Neytendastofu í tilefni af einkaréttarlegum ágreiningi í alls ótengdu máli. Allar takmarkanir á rétti manna til að fá skorið úr um rétt sinn fyrir dómi beri að skýra mjög þröngt til samræmis við ákvæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þurfi ávallt að taka fram í lögum að stjórnvaldsúrskurður sé endanlegur og að mál verði ekki borin undir dómstóla og jafnvel þótt það sé tekið fram geti slík ákvæði verið ógild. Í þessu tilviki hefði þurft að taka skýrlega fram í lögum að ákvörðun Neytendastofu eða úrskurður Áfrýjunarnefndar neytendamála ætti að hafa bindandi áhrif í einkaréttarlegum ágreiningi. Stefndi vísar einnig til þess að umrædd ákvörðun hafi einungis haft framvirk áhrif. Sé það ástæða þess að stefndi ákvað að höfða ekki dómsmál í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndar heldur sendi öllum lántökum tilkynningu um skilmálabreytingu. Telur stefndi sig þannig að hafa hlýtt umræddum úrskurði, þó þannig að ekki hafi með neinum hætti verið viðurkennt að stefndi hafi brotið gegn 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 eða að bannið hefði einkaréttarleg áhrif. Hvað sem þessu líður leggur stefndi áherslu á að stefnendur geti einungis byggt rétt á ákvörðun Neytendastofu frá gildistöku hennar, þ.e. 12. mars 2009, en engar kröfur séu gerðar vegna þess tímabils.

Stefndi mótmælir málsástæðum stefnenda byggðum á 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 og telur að í 1. gr. skuldabréfsins um breytilega vexti komi nægilega fram þau atriði sem skuli tilgreina þegar samið er um að vextir séu breytilegir. Hann vísar til þess að í bréfinu komi fram, bæði í fyrirsögn og í 1. gr. þess, að um sé að ræða gengistryggt lán með breytilegum vöxtum. Þetta hafi stefnendum ekki getað dulist auk þess sem þau rituðu undir sérstaka yfirlýsingu þess efnis að þau gerðu sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem fælist í lántöku í erlendum myntum, hvort tveggja með tilliti til breytinga á gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni sem og að stefnda væri heimilt að breyta vöxtum lánsins til samræmis við þá vexti sem giltu gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum. Af 1. gr. skuldabréfsins hafi leitt að vextir gátu breyst við endurskoðun stefnda á þriggja mánaða fresti með þeim hætti að miðað yrði við þá vexti sem giltu gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum á hverjum tíma, bæði til hækkunar og lækkunar. Telur stefndi þessar upplýsingar í 1. gr. skilmála skuldabréfsins vera fullnægjandi tilgreiningu á því með hvaða hætti vextirnir séu breytilegir (samkvæmt ákvörðun stefnda, á þriggja mánaða fresti) og við hvaða aðstæður þeir geti breyst (þegar breyting á vöxtum vegna nýrra sambærilegra og/eða hliðstæðra lána gefur tilefni til). 

Stefndi leggur áherslu á að hvergi, hvorki í fyrrgreindum lagaákvæðum, lögskýringargögnum, né í reglugerð um neytendalán nr. 377/1993 sé þess krafist að gerð sé grein fyrir því hvaða breytur það séu í hverju tilviki sem hafi áhrif á vaxtaákvörðun. Hvergi sé það sett sem skilyrði að þær breytur sem miðað sé við séu útlistaðar nákvæmlega í samningi aðila. Tilvitnuð tilskipun veiti ekki frekari leiðbeiningar hér um, en hafi auk þess engin bein réttaráhrif hér á landi. Um sé að ræða íþyngjandi ákvæði fyrir lánveitanda sem verði ekki túlkað á annan hátt heldur en eftir orðanna hljóðan. Hafi það verið vilji löggjafans að gera ríkari kröfur en þær sem lesnar verði beinlínis úr texta laganna, s.s. að lánveitanda væri skylt að upplýsa lántaka um allar breytur sem haft gætu áhrif til hækkunar eða lækkunar vaxtaprósentu, hefði þurft að lögleiða þær kröfur. Orðalag ákvæðisins gefi ekki tilefni til verulegs vafa og ekki sé ástæða til að víkja frá orðum þess á grundvelli lögskýringarsjónarmiða. 

Stefndi bendir á að kjörvextir (e. prime rate, prime lending rate) séu lægstu útlánavextir lánastofnana og telur það hugtak vel þekkt, gagnsætt og lýsandi. Stefndi telur einnig að „vaxtaálag“ sé þekkt hugtak sem stefnendur hafi mátt skilja. Kjörvextir séu notaðir þegar lánaáhætta sé lítil eða engin að mati viðkomandi lánastofnunar. Vaxtaálag sé svo sú prósenta sem komi til viðbótar og endurspegli mat lánastofnunar á útlánaáhættu vegna útláns. Í ákvörðun um vaxtaálag sé þannig tekið tillit til afskrifta vegna útlána. Með verðtryggingu, hvort sem hún vísar til vísitölu eða gengi erlendrar myntar, leitist lánastofnun við að láta lánsfjárhæð halda verðgildi sínu. Megi þannig með nokkurri einföldun segja að vextir séu endurgjald fyrir lánafyrirgreiðslu, og þar af séu kjörvextir þeir vextir sem innheimtir séu til að standa undir kostnaði, en vaxtaálag varði hagnað lánveitanda af lánveitingunni, að teknu tilliti til áhættu. Með samskonar einföldun megi segja að verðtrygging sé aðgerð til að láta höfuðstól skuldar fylgja breyttu verðlagi eða gengisþróun. 

Hugtakið kjörvextir feli ekki í sér tilvísun til LIBOR-vaxta, enda sé hugtakið kjörvextir ekki bundið við lán sem tengd séu erlendri mynt. Það leiði hins vegar af eðli máls að lán til viðskiptavinar lánastofnunar, tengt erlendri mynt, varði erlenda lántöku lánastofnunar. Megi almennt vænta þess að kjör þeirrar lántöku lánastofnunar ráðist af LIBOR-vöxtum, þ.e. vöxtum sem bjóðast á millibankamarkaði í London. LIBOR-vextir séu reiknaðir af helstu gjaldmiðlum heims, þar með talið japönskum jenum. Einungis allra traustustu bankar megi þó búast við því að greiða LIBOR-vexti án álags.

Samkvæmt þessu megi ætla að kjörvextir endurspegli að langmestu leyti fjármögnunarkostnað lánastofnunar hverju sinni, vegna lántöku hennar í erlendum myntum. Þá liggi það í hlutarins eðli að séu kjörvextir hærri en sem nemur LIBOR-vöxtum sé fjármögnunarkostnaður lánastofnunar hærri en sem nemur LIBOR-vöxtum. Hvað varðar vaxtaálagið sérstaklega bendir stefnandi á að vaxtaálagið hafi ekki verið gagnrýnt af áfrýjunarnefnd neytendamála og engar málsástæður séu settar fram í stefnu sem varði það. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnenda um að hann hafi boðið lán með lágum vöxtum en notið heimildar til að hækka vexti einhliða með ófyrirséðum hætti. Hækkun kjörvaxta á umræddu tímabili endurspegli hækkun á fjármagnskostnaði stefnda og sé ekki um að ræða geðþóttaákvarðanir. Stefndi vísar einnig til þess að lánastofnanir sem miðuðu við LIBOR-vexti sem grunnvexti hafi áskilið sér hærri viðbótarvexti en stefndi.

Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnenda að ekki hafi mátt breyta vöxtum fyrr en í október 2007. Það hafi einungis verið fyrir handvömm stefnda sem kjörvextir voru þann 1. ágúst 2007 reiknaðir 3,08% þegar þeir hefðu átt að vera 3.16%, en stefnendur hafi notið góðs af þessari handvömm stefnda.

Telji dómurinn að stefndi hafi brotið með einhverjum hætti gegn 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 er því mótmælt að ætlað brot hafi þær afleiðingar í för með sér að óheimilt hafi verið að beita 1. gr. skilmála skuldabréfsins þannig að einungis hafi mátt heimta 3,08% vexti af láni stefnenda. Stefndi vísar til þess að afleiðingar brots á lögum nr. 121/1994 séu ekki nauðsynlega ógildi og vísar til meginreglunnar um að samningar sé bindandi samkvæmt efni sínu. Afleiðingar brots á lögunum séu fyrst og fremst bótaábyrgð, sbr. 15. gr. þeirra, eða allsherjarréttarleg viðurlög. Í öðru lagi sé það grundvallaratriði að 9. gr. laganna heimili töku breytilegra vaxta. Í þriðja lagi byggir stefndi á því að þar sem ekki sé mælt sérstaklega fyrir um ógildi skilmála í tilviki sem þessu í lögum nr. 121/1994, verði skilmálinn ekki talinn ógildur eða honum vikið til hliðar. Færir stefndi rök að því að vilji löggjafans standi til þessarar niðurstöðu.

Stefndi bendir einnig á að stefnendur byggi ekki á því að víkja eigi til hliðar 1. gr. skuldabréfsins, heldur sé þvert á móti byggt á ákvæðum laga nr. 7/1936 þannig að þrátt fyrir ólögmæta gengistryggingu eigi stefnendur rétt á að láta ákvæði um samningsvexti í skuldabréfinu halda gildi sínu, þó þannig að samningsvextir skuli vera fastir 3,08%. Þá byggi stefnendur ekki á 36. gr. laganna. Að því er varðar málsástæðu stefnenda byggða á 36. gr. c í lögum nr. 7/1936 telur stefndi að ekkert bendi til þess að umþrættur samningsskilmáli hafi strítt gegn góðum viðskiptaháttum þegar skuldabréfið var gefið út í júní árið 2007. Það hafi verið stefnendur sem leituðu til stefnda um lánafyrirgreiðslu og það hafi verið stefnendur sem höfðu ákvörðunarvald um það hvers konar lán þau kusu sér. Hafi stefnendur ákveðið sjálfir að velja sér lán með breytilegum vöxtum. Ekkert bendi heldur til þess að skilmálinn hafi með nokkrum hætti raskað jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila en lög heimili berum orðum að samið sé um breytilega vexti. Þá byggir stefndi á því að við heildstætt sanngirnismat yrði að líta til þeirrar staðreyndar að skv. 1. gr. skilmála skuldabréfsins var stefnendum heimilt að greiða upp skuldina á gjalddögum án uppgreiðslugjalds. Stefnendur hafi ekki haldið því fram að ítarlegri upplýsingar um breytingu vaxta af láninu hefðu haft áhrif á ákvörðun þeirra um að taka umdeilt lán og liggi því ekkert fyrir um afleiðingar af ætluðu broti. Sé því ekki raunhæft að ætla að meiri upplýsingar af hálfu stefnda hefðu haft nokkra þýðingu fyrir samningsgerð af hálfu stefnenda. Telur stefndi að það færi gegn tilgangi 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 að láta hið meinta brot hafa þær afleiðingar að horft yrði fram hjá 1. gr. skilmála skuldabréfsins um breytilega vexti. Stefndi rökstyður einnig að 1. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, sem fjalli um þá aðstöðu að vextir eða annar lántökukostnaður er ekki tilgreindur í lánssamningi, eigi ekki við í málinu.

Stefndi byggir jafnframt á því að með því að greiða athugasemdalaust af láninu með breytilegum vöxtum frá 2. júlí 2007 til 1. desember 2008 og með því að mótmæla ekki töku breytilegra vaxta með skýrum hætti fyrr en með málshöfðun á hendur stefnda 16. mars 2010, hafi stefnendur sýnt af sér slíkt tómlæti að það leiði til mótbárumissis stefnenda gagnvart breytingu stefnda á vöxtum láns þeirra. Stefndi vísar til þess að mótmæli sem fram komu fyrir 21. apríl 2009 hafi í meginatriðum lotið að gengistryggingu lánsins en ekki töku breytilegra vaxta.

Að því er lýtur að þriðju kröfu stefnenda telur stefndi alfarið óljóst hvers vegna miðað er við 1. mars 2012 en fjárhæð í kröfu eigi sér ekki stoð í endurútreikningi stefnenda. Hvað sem því líður mótmælir stefndi forsendum þessarar kröfu stefnenda með sömu rökum og áður greinir, þ. á m. ákvæða 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og fordæma Hæstaréttar. Í kjölfar dóma Hæstaréttar hafi stefndi endurreiknað lán stefnenda 18. mars 2013 og nýr höfuðstóll lánsins reynst vera 27.080.829 krónur, en við þann útreikning hafi verið tekið tillit til fullnaðarkvittana stefnenda fyrir greiðslu vaxta til 1. desember 2008. Færir stefndi rök að því með ýmsum útreikningum að sú fjárhæð sem vísað sé til í þriðju stefnukröfu eigi ekki við rök að styðjast.

Að því er varðar fjórðu stefnukröfu telur stefndi að um sé að ræða kröfu um endurgreiðslu greiddra samningsvaxta. Málið sé höfðað 27. mars 2013, en stefnendur hafi síðast greitt samningsvexti 1. desember 2008. Endurgreiðslukrafa sé því fyrnd, sbr. skv. 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og 3. gr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, en fyrningarfrestur skv. XIV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 eigi hér ekki við. Stefndi mótmælir tilvísun stefnenda til „almennra reglna um oftekið fé“ og telur með öllu óljóst til hvaða reglna sé vísað. Stefnendur hafi engar málsástæður lagt fram sem lúti að mati til réttar til endurgreiðslu í hverju tilviki fyrir sig, svo sem með tilliti trúar móttakanda greiðslu, hvort greiðandi hafi gefið móttakanda greiðslu ástæðu til að ætla að greiðslan væri endanleg o.fl. Stefndi byggir einnig sem fyrr á 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og fordæmum Hæstaréttar. Hann bendir á að ekki sé á því byggt af stefnendum að hróflað hafi verið við réttindum þeirra með afturvirkum hætti. Byggir stefndi á því að því séu engin efni til að byggja á öðru en 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, þó þannig að gætt sé fullnaðarkvittana, en sama niðurstaða leiði af eldra ákvæði 18. gr. vaxtalaga. Hvorugt ákvæðið standi til þess að endurgreiða skuli stefnendum mismun á vaxtagreiðslu reiknaðri af gengistryggðum höfuðstól annars vegar og af ógengistryggðum höfuðstól hins vegar. Stefndi mótmælir einnig sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta í fjórðu stefnukröfu og telur aldrei tilefni til þess að reikna dráttarvexti fyrr en mánuði eftir birtingu stefnu. Þá bendir stefndi á rangfærslu í dráttarvaxtaútreikningi stefnenda.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda gerir stefndi þá kröfu til vara að dómkröfur stefnenda í fjórða kröfulið verði stórlega lækkaðar og byggir þá kröfu á sambærilegum málsástæðum og aðalkröfu sína, einkum því að útreikningar stefnenda séu rangir. Áréttar stefndi að útreikningsaðferð stefnenda í fjórða kröfulið sé í andstöðu við meginreglur kröfuréttar og þá undantekningarreglu sem lýst sé í tilteknum dómum Hæstaréttar. Fjárhæð vaxta, sem reiknaðir hafi verið á gengistryggðan höfuðstól, geti ekki haft áhrif á endurútreikning ef þeir teljast greiddir samkvæmt fullnaðarkvittun. Stefndi telur einnig að ganga verði út frá því að óheimilt hafi verið frá upphafi að innheimta fasta 3,08% vexti af gengistryggðum höfuðstól og hafi því vextir samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 átt að gilda. Þannig hafi stefnendur allt að einu ekki ofgreitt hærra en sem nemur 638.270 krónum vegna tímabilsins fram til 1. desember 2008. 

Að lokum bendir stefndi á að stefnendur hafi enga lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um fyrstu kröfu sína. Sé í raun um að ræða málsástæðu en ekki eiginlega dómkröfu, þar sem fjárkrafa sem byggi á sömu forsendum sé sett fram í fjórða lið. Sama eigi við um annan kröfulið. 

Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningslaust að útgáfa skuldabréfsins 5. júní 2007 var þáttur í lánssamningi stefnenda og Kaupþings banka hf. sem fól í sér ólögmæta gengistryggingu. Liggur jafnframt fyrir að stefndi, sem tekið hefur við réttindum og skyldum Kaupþings banka hf. samkvæmt skuldabréfinu, hefur endurreiknað lán stefnenda miðað við að það sé lán í íslenskum krónum og beri vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, þó þannig að litið hefur verið á vaxtagreiðslur stefnanda til 1. desember 2008 sem fullnaðargreiðslur. Liggur þannig fyrir viðurkenning stefnda á því að hann eigi ekki rétt til frekari vaxta fyrir tímabilið 5. júní 2007 til 1. desember 2008, en óumdeilt er að á þessu tímabili voru samningsvextir lægri en vextir samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Samkvæmt framangreindu lýtur meginágreiningur aðila að því hvort ákvæði 1. gr. meginmáls skuldabréfsins um vexti eigi að gilda um lánið í stað vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, þó þannig að stefnandi telur að heimild stefnda til vaxtabreytinga samkvæmt ákvæðinu hafi verið andstæð lögum og því að vettugi virðandi. Efnislega felur málatilbúnaður stefnanda þannig í sér kröfu um að hann greiði óbreytta samningsvexti frá og með útgáfudegi skuldabréfsins miðað við að höfuðstóll lánsins hafi verið í íslenskum krónum.

A

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, segir að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljist ógild skuli peningakrafan bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna enda eigi önnur ákvæði greinarinnar ekki við. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 151/2010 segir að með ákvæðinu sé lögð til skýrari regla um tengsl verðtryggingar og vaxtaákvæða og sú staðreynd verði endurspegluð í lögunum að órjúfanleg tengsl eru á milli ákvæða um verðtryggingu og samninga um vexti af fjárskuldbindingum. Af þessu leiði að ef annað hvort ákvæði samninga um vexti eða verðtryggingu (eða hvorutveggja) sé ógildanlegt á grundvelli laganna verði að koma til heildarendurskoðunar í samræmi við ákvæðin í 4. gr. laganna, þ.e. að litið sé á þá aðstöðu eins og ekki hafi verið samið um tiltekna vexti eða verðtryggingu. Þá kemur fram í umræddum athugasemdum að þessi regla sé í fullu samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í dómi 16. september 2010 í máli nr. 471/2010.

Í máli þessu liggur fyrir að skuldabréfið 5. júní 2007 fól í sér gengistryggingu í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001 og var þannig ótvírætt um að ræða ólögmætt samningsákvæði um endurgjald fyrir lánveitingu í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Verður að skilja málatilbúnað stefnenda á þá leið að ólögmæti skuldabréfsins að þessu leyti leiði ekki til þess að ákvæði 1. gr. þess um vexti teljist í heild sinni ógilt þannig að regla 18. gr. laganna um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. eigi við. Í þessu sambandi verður enn fremur að skilja málflutning stefnenda þannig að á því sé byggt að umræddur dómur Hæstaréttar 16. september 2010 eigi ekki við um úrlausn málsins.

B

Með áðurgreindum dómi Hæstaréttar var leyst úr áhrifum ólögmætrar gengistryggingar á vexti af láni sem samkvæmt skuldabréfum áttu að ráðast af vöxtum á millibankamarkaði í London, svonefndum LIBOR-vöxtum, af þeim myntum sem hin ólögmæta gengistrygging tók mið af. Í forsendum dómsins sagði meðal annars að fullljóst væri að slík vaxtakjör af láni hefðu aldrei komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess sem nú lægi fyrir að óheimilt hefði verið að kveða á um. Í því ljósi og með hliðsjón af því að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæða um gengistryggingu og vexti var talið að hvorki væri unnt að styðjast við fyrirmæli um vexti óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir LIBOR-vextir af lánum í íslenskum krónum.

Fyrir liggur að skuldabréfið 5. júní 2007 kvað á um svonefnda kjörvexti að viðbættu vaxtaálagi. Er upplýst að kjörvextir voru reiknaðir fyrir hverja og eina þeirra mynta sem stefndi stundaði lánaviðskipti með. Í málinu hafa verið lögð fram gögn um skilgreiningu kjörvaxta og töluleg gögn sem sýna þróun kjörvaxta með hliðsjón af skuldatryggingaálagi lánveitanda. Með hliðsjón af þessum gögnum verður að teljast sannað að ákvörðun kjörvaxta í hverri mynt hafi, a.m.k. að einhverju marki, miðast við vaxtakjör lánveitanda sjálfs á millibankamarkaði í hlutaðeigandi mynt, en LIBOR hlaut eðli málsins samkvæmt að vera einn ákvörðunarþáttur í þessum kjörum. Af hálfu lánveitanda voru ekki reiknaðir kjörvextir af óverðtryggðum íbúðalánum í íslenskum krónum. Hins vegar liggur fyrir að kjörvextir af almennum óverðtryggðum lánum í íslenskum krónum voru margfalt hærri en þeir kjörvextir í japönskum jenum sem aðilar sömdu um við útgáfu skuldabréfsins 5. júní 2007.

Að þessu virtu telur dómurinn hafið yfir allan vafa að umrædd vaxtakjör hefðu aldrei komið til greina nema í tengslum við gengistryggt lán. Er þá einnig litið til þess að ekki var um að ræða kjörvexti í íslenskum krónum fyrir lán af þeirri tegund sem hér um ræðir. Þegar einnig er tekið tillit til þess að um var að ræða kjörvexti fyrir hverja erlenda mynt, svo og litið til upplýsinga um ákvörðun og þróun kjörvaxta, telur dómurinn að bein og órjúfanleg tengsl hafi verið á milli gengistryggingar og þeirra kjörvaxta í japönskum jenum sem vísað var til í skuldabréfinu.

Í samræmi við fyrrgreindar forsendur dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, sem hér ber að leggja til grundvallar sem fordæmi, er það samkvæmt þessu niðurstaða dómsins að ákvæði skuldabréfsins 5. júní 2007 um vexti hafi verið ógilt í skilningi fyrrnefndrar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001.

C

Samkvæmt framangreindu leiðir af fortakslausum fyrirmælum 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 að 1. gr. meginmáls skuldabréfsins um vexti verður ekki beitt samkvæmt efni sínu. Dómurinn lítur svo á að hér sé um að ræða sérreglu í settum lögum sem taki til þeirrar aðstöðu að ákvæði um vexti telst ógilt. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur geta hvorki ákvæði laga nr. 121/1994 um neytendalán né þær ógildingarreglur um neytendasamninga sem fram koma í 36. gr. a-d í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr.einkum 2. til 5. gr. laga nr. 14/1995, gengið framar þessu ákvæði.

                Svo sem áður greinir hefur stefndi tekið tillit til vaxtagreiðslna stefnenda fyrir tímabilið 5. júní 2007 til 1. desember 2008. Er jafnframt óumdeilt að þessar vaxtagreiðslur voru lægri en vextir reiknaðir samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Í málinu reynir því ekki á það hvaða skorður 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, setur afturvirkum heimildum til töku vaxta. 

D

Með fyrstu kröfu sinni krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé „óheimilt að notast við skilmála“ sem fram koma í fyrstu tveimur málsgreinum fyrstu greinar þess skuldabréfs sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Verður að skilja þessa kröfu þannig að þess sé krafist að viðurkennt verði að umræddir skilmálar séu ógildir þannig að stefndi geti ekki byggt á þeim rétt til vaxta.

Í upphafsorðum téðrar greinar skuldabréfsins kemur fram almennt ákvæði þess efnis að lántaki greiði umsamda vexti á höfuðstól. Önnur til fjórða krafa stefnenda byggist á því að umrætt ákvæði sé gilt með þeim hætti að stefndi eigi ekki rétt til vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 heldur einungis samkvæmt umræddu ákvæði bréfsins. Er fyrsta stefnukrafa þannig, að þessu leyti, ósamrýmanleg öðrum kröfum og um leið meginmálsástæðum stefnenda. Sjónarmið á þá leið að stefnendum beri ekki að greiða vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 fyrir tímabilið 5. júní 2007 til 1. desember 2008 með vísan til reglna um fullnaðarkvittanir eru einnig ósamrýmanlegar þessari kröfugerð stefnenda.

Síðari hluti fyrstu greinar skuldabréfsins felur efnislega í sér heimild lánveitanda til breytinga á samningsvöxtum. Verður og að líta svo á að fyrsta krafa stefnenda beinist fyrst og fremst að því að fá skorið úr um gildi þessarar heimildar stefnda til breytingar vaxta. Eins og áður segir er það niðurstaða dómsins að þessi heimild til breytinga á vöxtum hafi aldrei verið fyrir hendi þar sem ákvæði skuldabréfsins um vexti var ógilt í skilningi 18. gr. laga nr. 38/2001 og gilti því um lánið ófrávíkjanleg vaxtaregla 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Þótt fallist yrði á málsástæðu stefnenda þess efnis að lánveitanda hafi verið óheimilt að nota téða heimild til vaxtabreytingar liggur þannig fyrir að sú niðurstaða gæti hvorki leitt til þess að stefnendur ættu endurkröfu vegna þegar greiddra vaxta eða rétt á því að greiða lægri vexti til framtíðar. Felur umrædd kröfugerð þannig að þessu leyti í sér lögspurningu í andstöðu við fyrirmæli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framangreindu verður fyrstu dómkröfu stefnenda vísað sjálfkrafa frá dómi. Að öðru leyti verður stefndi hins vegar sýknaður af kröfum stefnenda.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða stefnendur dæmdir sameiginlega til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst hæfilegur 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til málskostnaðar.

Af hálfu stefnenda flutti málið Bragi Dór Hafþórsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Hjördís Halldórsdóttir hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Fyrstu dómkröfu stefnenda, Ólafs Garðarssonar og Ágústu Sigrúnar Ágústsdóttur, er vísað frá dómi. Að öðru leyti skal stefndi, Arion banki hf., vera sýkn af kröfu stefnenda.

                Stefnendur greiði stefnda sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað.