Hæstiréttur íslands
Mál nr. 582/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Þriðjudaginn 12. október 2010. |
|
Nr. 582/2010. |
Ákæruvaldið
(Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Gæsluvarðhald.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi
allt til fimmtudagsins 4. nóvember 2010. Hins vegar var henni gert að sæta
farbanni samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hennar, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 4. nóvember 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur nú setið í gæsluvarðhaldi síðan 18. júní 2010, fyrst á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 en frá 10. september 2010 á grundvelli b. liðar málsgreinarinnar. Hafa úrskurðir þar að lútandi komið til kasta Hæstaréttar alls sjö sinnum. Ákæra á hendur varnaraðila var gefin út 8. september 2010, málið var þingfest 22. sama mánaðar og er aðalmeðferð fyrirhuguð 1. nóvember 2010. Að virtum gögnum málsins eins og þau liggja fyrir Hæstarétti verður ekki fallist á að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt fyrir því að framlengja gæsluvarðhald varnaraðila. Tafir á rannsókn og meðferð málsins hafa ekki verið nægilega réttlættar. Verður heldur ekki fallist á að við þessi skilyrði megi framlengja gæsluvarðhaldið með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Þess í stað verður beitt heimild í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 og ákveðið að varnaraðila skuli í stað gæsluvarðhalds bönnuð för frá Íslandi þann tíma sem gæsluvarðhaldi var ætlað að gilda samkvæmt hinum kærða úrskurði.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til fimmtudagsins 4. nóvember 2010 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2010.
Ríkissaksóknari
hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, þýskum
ríkisborgara, fæddri [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðahaldi þar til
dómur fellur í máli hennar þó eigi lengur en til fimmtudagsins 4. nóvember
2010, kl. 16.00.
Í
greinargerð Ríkissaksóknara kemur fram að ákærða hafi ásamt Y verið handtekin á
Seyðisfirði þann 17. júní sl. við komu þeirra til landsins með Norrænu. Í VW Passat bifreið, með skráningarnúmer [...], í eigu Y hafi
fundist 19.750 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa
falinn í eldsneytistanki bifreiðarinnar. Við rannsókn málsins hafi Y skýrt frá
því að maður að nafni Z hafi gefið henni umrædda bifreið. Hann hafi farið með
henni á bílasölu og greitt fyrir bifreiðina í peningum. Hann hafi einnig skilið
eftir nokkurt magn af peningum hjá henni til þess að greiða fyrir Íslandsferð.
Að hennar sögn hafi verið um að ræða vinargreiða. Y og X hafi farið saman á
ferðaskrifstofuna en Y hafi greitt fyrir Íslandsferðina með peningum frá Z. Í
byrjun júní hafi Y ekið VW Passat bifreiðinni, ásamt
vinkonu sinni, A, frá Þýskalandi til Litháen. Hafi Z lagt út fyrir kostnaði
ferðarinnar og hitt þær í Litháen. Þar hafi hann tekið við bifreiðinni og
skilað henni daginn eftir með þeim tilmælum að aka einungis 300 km og taka svo
eldsneyti. Hafi hann einnig tekið við upplýsingum um bifreiðina og
ferðaupplýsingum hennar og X til Íslands. Eftir ferð til Litháen hafi Y og X
ekið frá Þýskalandi til Danmerkur og þaðan með farþegaferjunni Norrænu til
Seyðisfjarðar.
Umræddur
Z, fæddur [...], hafi hlotið fjögurra ára fangelsisrefsingu hér á landi með
dómi Hæstaréttar í máli nr. 420/2006 fyrir að hafa flutt hingað til lands tvo
lítra af amfetamínvökva og brennisteinssýru. Í samráði við Litháísk yfirvöld
hafi verið reynt að hafa uppi á Z, en án árangurs. Ákærða X, sem var farþegi
bifreiðarinnar, hafi neitað allri aðild að málinu. Hafi hún skýrt frá því að
hún hafi komið hingað til landsins í boði Y. Y og X séu vinkonur og nágrannar til
margra ára og tilgangur ferðarinnar hafi verið að fara í Bláa lónið.
Gögn
málsins renni stoðum undir ætlaðan þátt ákærðu í hinu stórfellda
fíkniefnabroti. Það sé því mat ákæruvalds að sterkur grunur sé um að ákærða
hafi átt þátt í að flytja til landsins mikið magn fíkniefna ætluðum til
söludreifingar hér á landi. Málið hafi borist ríkissaksóknara 3. september sl.
og hafi ákæra verið gefin út þann 8. september sl. og send héraðsdómi. Þar er X
ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 17. júní
2010, staðið saman með Y að innflutningi til Íslands á 19.750 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa ætlaðan til
söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni og unnt hafi verið að framleiða úr allt
að 20,9 kg af hreinu amfetamínsúlfati sem samsvarar 153 kg af efni miðað við
10% styrkleika. Ætlað brot ákærðu teljist varða við 173. gr. a almennra
hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu varði fangelsi allt að 12 árum. Málið hafi
verið þingfest 22. september sl. og hafi ákærða X neitað sök í málinu. Ákærða
hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald þann 18. júní sl. og hafi verið í
gæsluvarðhaldi síðan. Fyrst á grundvelli a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um
meðferð sakamála nr. 88/2008 og frá 10. september sl. á grundvelli b-liðar 1.
mgr. og 2. mgr. 95. gr. sömu laga, sem staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar
í máli nr. 535/2010.
Almannahagsmunir
krefjist þess að ákærða verði í gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hennar
og er vísað til dómvenju í þeim efnum. Staða ákærðu í málinu þyki sambærileg
stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. t.d. mál Hæstaréttar nr.
635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004,
269/2004, 417/2000 og 471/1999. Þar hafi sakborningum verið gert að sæta
gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms en fyrir hafi legið sterkur grunur um
beina aðild þeirra að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki
sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum
málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og er talið að skilyrðum
2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem
hér um ræðir.
Þá
sé það mat ríkissaksóknara að einnig sé nauðsynlegt að ákærðu verði gert að
sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þar
sem ákærða hafi engin tengsl við landið og því líklegt að hún muni reyna að
komast úr landi og þannig undan málsókn. Það sé því afar brýnt að tryggð verði
nærvera hennar á meðan mál hennar til meðferðar hjá dómstólum.
Með
vísan til framangreinds, framlagðra gagna, og tilvitnaðra lagaákvæða sé þess
krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Samkvæmt
framangreindu og rannsóknargögnum er fyrir hendi rökstuddur grunur um að ákærða
hafi brotið gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur
allt að 12 ára fangelsi. Um er að ræða umfangsmikið brot á
fíkniefnalöggjöfinni. Rannsókn málsins er lokið og hefur ákæra verið gefin út
og mál gegn ákærðu þingfest 22. september sl. Fallist er á það með
Ríkissaksóknara að brotið sé þess eðlis að brýn nauðsyn sé að tryggja að ákærða
gangi ekki laus á meðan mál hennar er til meðferðar. Ákærða er erlendur
ríkisborgari og hefur engin tengsl við landið. Samkvæmt þessu og með vísan til
b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þykir verða að fallast á kröfuna eins
og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Jón
Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákærða,
X, fd. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur
fellur í máli hennar, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 4. nóvember nk., kl.
16.00.