Hæstiréttur íslands

Mál nr. 481/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Föstudaginn 30

 

Föstudaginn 30. janúar 2004.

Nr. 481/2003.

JT International S.A. og

JT International Finland OY

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tveimur kröfuliðum af þremur í máli tveggja erlendra fyrirtækja á hendur íslenska ríkinu var vísað frá dómi. Var þess annars vegar krafist að viðurkennt yrði að fyrirtækjunum væri heimilt þrátt fyrir ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir að miðla tilteknum staðreyndum varðandi tóbaksvörur til tiltekinnar tóbaksverslunar hér á landi og hins vegar að öðru fyrirtækinu yrði með vísan til 3. töluliðar sama ákvæðis heimilað að birta tiltekinn texta í íslenskum fjölmiðlum. Fallist var á að áskilnaður um lögvarða hagsmuni stæði því ekki í vegi að fyrirtækin gætu fengið dóm um fyrstnefnda kröfuliðinn auk þess sem krafan þótti nægilega skýr og afmörkuð til að dómur yrði lagður á hana, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi síðari kröfuliðinn var tekið fram að textinn væri afmarkaður og auðvelt að henda reiður á efni hans. Vafalaust væri að breyting sú, sem um væri fjallað í textanum, gæti haft áhrif á sölu til neytenda. Var fallist á að fyrirtækið gæti haft lögvarða hagsmuni af því að textinn yrði birtur í fjölmiðlum hér á landi. Var úrskurðurinn að því er varðaði þessa tvo kröfuliði því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þá til efnismeðferðar

 

Dómur Hæstaréttar.

Málið dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2003, þar sem öðrum og þriðja kröfulið í máli sóknaraðila og Tóbaksverslunarinnar Bjarkar á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar þessa tvo kröfuliði og lagt fyrir héraðsdómara að taka þá til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Í öðrum lið kröfugerðar fyrir héraðsdómi krefjast báðir sóknaraðilar þess að viðurkennt verði að þeim sé heimilt þrátt fyrir ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir að miðla staðreyndum um tjöru- og nikótínmagn, tóbaksblöndun, umbúðir, uppruna, vörumerkjaréttindi, markaðshlutdeild og verð varðandi tóbaksvörur sóknaraðilans JT International S.A. til Tóbaksverslunarinnar Bjarkar. Í þriðja lið kröfugerðarinnar krefst sóknaraðilinn JT International S.A. þess að viðurkennt verði að honum sé heimilt þrátt fyrir ákvæði 3. töluliðar 3. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2002 að birta textann á héraðsdómsskjali nr. 3 í íslenskum fjölmiðlum. Er í hinum kærða úrskurði gerð grein fyrir tengslum sóknaraðilanna innbyrðis og með hvaða hætti hvor þeirra kemur að því að setja á markað hér á landi margs kyns tóbaksvörur, sem seldar eru í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), sem aftur selur þær smásölum, þar á meðal Tóbaksversluninni Björk.

II.

Fyrir Hæstarétti mótmæla sóknaraðilar því að þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta um annan kröfulið í málinu svo sem héraðsdómur hafi komist að niðurstöðu um. Vísar þeir í því sambandi til samskipta sinna við heildsala og smásala um sölu á tóbaksvörum. Vegna upptalningar í kröfuliðnum benda sóknaraðilar á að þeir hafi sérstaka hagsmuni af því að mega miðla umræddum upplýsingum til smásala í ljósi reglna nr. 796/2002 um innkaup og sölu tóbaks og skilmála í viðskiptum við birgja. Samkvæmt þeim sé ekki unnt að flytja inn og selja nýjar tóbakstegundir nema þær fari áður í svokallaðan reynsluflokk í 24 mánuði. Nái varan ekki 0,2% af heildarsölu vöruflokksins sé hún tekin af söluskrá og sölu hætt. Af þessu leiði að sé sóknaraðilum óheimilt að senda „staðreyndaupplýsingar“ til smásala til að veita þeim upplýsingar um tilvist og eiginleika vörunnar, sé nánast ókleift að öðlast lágmarkshlutdeild í tóbakssölu sem til þarf svo koma megi nýjum tóbaksvörum á markað hérlendis. Án þessara upplýsinga geti smásalar ekki sinnt nauðsynlegri upplýsingaskyldu gagnvart tóbaksneytendum. Þá hafi sóknaraðilar sjálfstæða viðskiptalega hagsmuni af því að mega kynna fyrir tóbakssmásölum t.d. niðurstöður prófana og mælinga á vörum sínum, einum sér eða í samanburði við vörur annarra tóbaksframleiðanda, til að ná forskoti í samkeppni við aðra. Að því er varðar þriðja kröfuliðinn tekur sóknaraðilinn JT International S.A. fram að kröfuliðurinn sé skýr og afmarkaður. Telur sóknaraðilinn að með héraðsdómsskjali nr. 3 séu veittar „staðreyndaupplýsingar um fyrirtæki sóknaraðila sem hann telur rétt að koma á framfæri við neytendur.“ Sé textinn á dómsskjalinu saminn í þeim tilgangi að birta hann í fjölmiðlum í ákveðnum viðskiptalegum tilgangi, það er að geta veitt neytendum upplýsingar um staðreyndir, sem varði vöru hans. Sé augljóst að sóknaraðilinn hafi verulega viðskiptalega hagsmuni af því að mega birta textann í fjölmiðlum.

Varnaraðili bendir á að annar kröfuliðurinn sé óskýr og ekki hafi verið bætt úr því fyrir Hæstarétti. Taki krafan til fjölmargra atriða, sem séu ólík innbyrðis og lítt eða ekkert útskýrð, auk þess sem ekkert komi fram um það hvaða „staðreyndir“ það eru sem miðla ætti milli málsaðila. Þá komi ekki nákvæmlega fram hvaða upplýsingar það eru sem sóknaraðilar telja Tóbaksverslunina Björk hugsanlega skorta. Að auki hafi sóknaraðilar ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfuna. Að því er varðar þriðja kröfulið sóknaraðilans JT International S.A. eru rök varnaraðila í meginatriðum rakin í hinum kærða úrskurði. Bendir varnaraðili á að sóknaraðilinn reki ekki fjölmiðil hér á landi. Hljóti að felast í kröfunni „beiðni um lögfræðilegt álit að afla dóms um einhverja þá athöfn sem háð yrði afstöðu stjórnenda þess fjölmiðils sem í hlut kynni að eiga um birtingu á skjali.“ Krafa, sem þannig sé algerlega háð afstöðu eða vilja þriðja manns, sé því ódómhæf vegna ákvæða 25. gr. og 26. gr. laga nr. 91/1991. Skorti sóknaraðilann þannig einnig lögvarða hagsmuni af því að fá fyrirfram viðurkenningardóm um kröfuna þar sem hann hafi ekki þá stöðu að lögum að geta tekið ákvörðun um það upp á sitt eindæmi hvort texti verði birtur í íslenskum fjölmiðlum.

III.

Í hinum kærða úrskurði eru raktar þær skýringar, sem sóknaraðilar hafa veitt um samskipti sín og umboðsmanns þeirra hér á landi við heildsala og smásala vegna viðskipta með tóbak. Er þannig fram komið að umsvifum sóknaraðila vegna viðskiptanna lýkur ekki með öllu við það að varningur þeirra er seldur ÁTVR. Samkvæmt því og að virtum skýringum sóknaraðila, sem raktar eru í II. kafla að framan, verður fallist á að áskilnaður um lögvarða hagsmuni standi því ekki í vegi að sóknaraðilar geti fengið dóm um annan kröfulið sinn í málinu. Krafan felur í sér að sóknaraðilum verði heimilað að miðla réttum upplýsingum um átta nánar tilgreind atriði til Tóbaksverslunarinnar Bjarkar, en öll varða þau varning frá sóknaraðilum sem seldur er í smásölu í nefndri verslun. Er krafan nægilega skýr og afmörkuð til að dómur verði á hana lagður, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Sóknaraðilinn JT International S.A. krefst þess í þriðja lið kröfugerðar að mega birta texta á héraðsdómsskjali nr. 3 í íslenskum fjölmiðlum. Er um að ræða umfjöllun um breytingu á heiti vöruflokka sóknaraðilans og markaðshlutdeild móðurfyrirtækis þess hér á landi. Texti þessi er afmarkaður og auðvelt að henda reiður á efni hans. Vafalaust er að breyting sú, sem um er fjallað í textanum, geti haft áhrif á sölu til neytenda. Verður því að fallast á að sóknaraðilinn geti haft lögvarða hagsmuni af því að textinn verði birtur í fjölmiðlum hér á landi. Með þessu krefst hann viðurkenningar á tilteknum réttindum sér til handa, sem eru skýr og afmörkuð. Sú málsástæða varnaraðila, sem er á því reist að sóknaraðilinn ráði ekki yfir fjölmiðli, er málinu óviðkomandi og haldlaus með öllu.

Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða málsins sú að fellt verður úr gildi ákvæði í hinum kærða úrskurði um að vísa frá dómi öðrum og þriðja kröfulið sóknaraðila og lagt fyrir héraðsdóm að taka þá til efnismeðferðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi ákvæði í hinum kærða úrskurði um að vísa frá dómi öðrum og þriðja kröfulið sóknaraðila, JT International S.A. og JT International Finland OY. Er lagt fyrir héraðsdóm að taka þá kröfuliði til efnismeðferðar.

Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðilum samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2003.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 23.  f.m. er höfðað með stefnu útgefinni 18. febrúar 2003 og var málið þingfest sama dag.

   Stefnendur eru JT  International S.A., 14 Chemin Riev, Genf, Sviss, JT International Finland OY, Kauppiasakatu 11E 42, Turku, Finnlandi, og Tóbaksverslunin Björk, kt. 570485-0329, Bankastræti 6, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnenda eru:

1. Að viðurkennt verði með dómi að stefnanda Tóbaksversluninni Björk sé heimilt að hafa tóbaksvörur meðstefnanda, JT International S.A, s.s. Camel, Salem. Winston, Mild Seven og Gold Coast, með lögmæltum varúðarmerkingum, sýnilegar viðskiptavinum Tóbaksverslunarinnar Bjarkar í verslun stefnanda að Bankastræti 6, Reykjavík, þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 7. gr. laga 6/2002;

2. Að viðurkennt verði með dómi að stefnendum JT International S.A. og JT International Finland OY sé heimilt að miðla staðreyndum um tjöru- og nikótínmagn, tóbaksblöndun, umbúðir, uppruna, vörumerkjaréttindi, markaðshlutdeild og verð varðandi tóbaksvörur JT International S.A. til Tóbaksverslunarinnar Bjarkar, þrátt fyrir ákvæði 1.tölul. 3.mgr. 7. gr. laga 6/2002;

3. Að viðurkennt verði með dómi að stefnanda JT International S.A. sé heimilt að birta textann á dskj. nr. 3 í íslenskum fjölmiðlum, þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 7. gr. laga 6/2002;

4. Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða eftir mati dómsins, ef reikningur verður ekki fram lagður, og verði við ákvörðun málskostnaðar tekið tillit til umfangs málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað sem stefnandi hefur haft af rekstri máls þessa.

Dómkröfur stefnda eru aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og að stefnendum verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda að loknum munnlegum málflutning þann 23. f.m.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að í 1. mgr.  7. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002 er lagt bann við hvers konar auglýsingum á tóbaki og reykfærum. Þrátt fyrir bannið er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt að gefa út verðskrá fyrir tóbak og birta skrá yfir skaðleg efni í tóbaksvörum.

Í 2. mgr. 7. gr. laganna segir: „Með auglýsingum er í lögum þessum m.a. átt við:

1. hvers konar tilkynningar til almennings eða sérstakra markhópa, þar á meðal vörukynningar, útstillingar í gluggum verslana, hvers konar skilti og svipaðan búnað,

2. alla notkun hefðbundinna tóbaksvörumerkja  (heita og auðkenna) eða hluta þeirra; undanskildar eru þó vörur sem framleiddar eru undir slíkum merkjum, enda gilda auglýsingatakmarkanir laganna um þær að öðru leyti,

3. hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra,

4. dreifingu vörusýna til neytenda.”

Í 6. mgr. 7. gr. laganna segir: „Tóbaki og vörumerkjum tóbaks skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum.”

Eins og fram kemur í kröfulið 1. hér að ofan snýr kröfugerð stefnenda að því að fá hnekkt  því banni sem lagt er í 6. mgr. 7. gr. laganna við því að hafa tóbaksvörur stefnenda sýnilegar viðskiptavinum í Tóbaksversluninni Björk.

Í 2. kröfulið virðist, eftir því, sem fram kemur í kröfunni, gert ráð fyrir því, að að stefnendum, JT International S.A. og JT International Finland OY sé samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2002 óheimilt að miðla staðreyndum um tjöru- og nikótínmagn, tóbaksblöndun, umbúðir, uppruna, vörumerkjaréttindi, markaðshlutdeild og verð varðandi tóbaksvörur framleiðsluvörur sínar til stefnandans Tóbaksvöruverslunarinnar Bjarkar og er krafan þá um að dómurinn veiti viðurkenningu þess, að stefnendum, JT International S.A. og JT International Finland OY, verði þrátt fyrir þetta bann heimilað að miðla þessum upplýsingum til stefnanda Tóbaksverslunarinnar Bjarkar.

Í 3. kröfulið er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi, að JT International S.A. sé heimilt að birta texta, sem fram kemur á dskj. nr. 3 í íslenskum fjölmiðlum, þrátt fyrir ákvæði 3. tl. 3. mgr. 7. gr. laga 6/2002. Á dskj. nr. 3 í máli þessu er að finna eftirfarandi texta:

 

„Blaðagrein til birtingar í íslenskum blöðum:

 

Tóbaksfyrirtæki breyta heitum á vörutegundum, en ekki vörunni sjálfri

 

Tóbaksfyrirtækið Japan Tobacco mun skipta út heitum eins og, “Lights”, “Super-Lights” og “Extra Lights” á tóbaksvörumtegundum sínum, en vörurnar sjálfar  verða hins vegar óbreyttar. Breyting á vörulínunni (eða lýsingum vörunnar) er í samræmi við hina evrópsku stefnu um endurmerkingar og þróun evrópskra reglna og landsréttar.

 

Japan Tobacco samstæðan hefur notið ríflegrar hlutdeildar á íslenskum markaði. Fyrirtækið framleiðir Camel, Winston, Salem, Mild Seven og Gold Coast sígarettur sem seldar eru á Íslandi. Á árinu 2002 nam hlutdeild þessara tegunda um 65.1% af íslenska markaðnum.

 

Japan Tobacco samstæðan, sem heyrir undir móðurfyrirtækið í Japan, hefur aukið hlutdeild sína á Evrópumarkaði síðan 1999. Í maí 1999 keypti samstæðan alþjóðlegan hluta fyrirtækisins RJR Tobacco International, sem er fyrirtæki í Bandaríkjunum, en með starfsemi í Evrópu, með það í huga að þróa frekar starfsemina í Evrópu. Höfuðstöðvar samstæðunnar í Evrópu eru í Genf í Sviss, og meirihluti sígarettna er framleiddur innan EES, í Þýskalandi og Sviss. Minni hluti framleiðslunnar kemur annars staðar að í Evrópu.

 

Samstæðan hefur ákveðið að breyta um vöruheiti svo sem; “Lights”, “Super Lights” og “Extra Lights” og koma af stað öðru nafnakerfi a tegundir, svo sem “Balanced Flavours”, “Smooth Flavours”, og “Refined Flavours”. Samstæðan vill reyna að aðgreina vörur sínar með því að nota slík auðkenni. Í tengslum við hönnun á umbúðum mun hið nýja nafnakerfi koma fram á pökkunum undir vöruheitinu. Hinn hluti umbúðanna mun verða í aðalatriðum óbreyttur. Umbúðirnar munu að sjálfsögðu einnig bera með sér innihald tjöru, nikotíns og kolsýrings, svo að neytendum fái hlutlægar upplýsingar um magn eiturefna í tóbakinu. Viðvörunarmerkingar munu vera vel sýnilegar á umbúðunum til að undirstrika að það er engin hættulaus sígaretta. Japan Tobacco samstæðan hefur sagt að það komi til með að verða nokkur tími breytinga frá gömlu lýsingunum yfir í nýja nafnakerfið.

 

Japan Tobacco samstæðan hefur lýst yfir að þó að um endurmerkingar á vörum þeirra verði að ræða þá mun innihald varanna vera það sama eftir sem áður. Sama vara mun einfaldlega verða kynnt undir nýju nafnakerfi.”

 

                Í stefnu hafa stefnendur gert grein fyrir aðild sinni að málinu með eftirgreindum hætti:

                Stefnandi, JT International SA (hér eftir  JTI) er skráð hlutafélag samkvæmt lögum Sviss með höfuðstöðvar í Genf. JTI er hluti af fyrirtækjasamstæðu Japan Tobacco en móðurfyrirtæki þess er Japan Tobacco, Inc. (hér eftir JT), þriðji stærsti tóbaksframleiðandi heims, með höfuðstöðvar í Japan. JTI hefur með höndum framleiðslu, markaðssetningu, og sölu á tóbaksvörum JT í 60 löndum, þar á meðal innan allra aðildarríkja Evrópusambandsins. JTI framleiðir m.a. MILD SEVEN sígarettur til sölu innan EES í verksmiðju sinni í TRIER í Þýskalandi.  JTI hefur með höndum innflutning á tóbaksvörum JT í gegnum JTI Trading S.A, sem er systurfyrirtæki JTI innan fyrirtækjasamstæðu JT og annast sölu tóbaksvara beint til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fyrir hönd JTI, en ÁTVR annast dreifingu vörunnar til útsölustaða.

                Fjöldi fólks um gjörvallan heim starfar með beinum hætti í tóbaksiðnaðinum fyrir JT. Skattlagning tóbaksvara er gríðarleg; á árinu 2001 voru tekjur íslenska ríkisins af sölu tóbaks u.þ.b. fimm milljarðar.

                Stefnandi JT International Finland OY (hér eftir JTI-F), er einnig hluti af fyrirtækjasamstæðu JT og sinnir sölu og markaðsmálum JTI á Norðurlöndum, þ.m.t. á Íslandi. JTI-F annast sölumál á tóbaksvörum og hefur með höndum samskipti við smásala á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila stefnanda, JTI og JTI-F, Rolf Johansen & Co, kt. 550394-2359 (hér eftir RJ).

                Stefnandi Tóbaksverslunin Björk (hér eftir Björk), kt. 570485-0329, hefur leyfi til sölu á tóbaki í smásölu. Björk er sérverslun með tóbaksvörur sem hefur haft með höndum verslun í u.þ.b. 20 ár.

                JT og JTI eru skráðir rétthafar að mörgum verðmætum vörumerkjum.  JT er skráður eigandi og rétthafi að vörumerkjunum Camel, Winston, Salem, MILD SEVEN og Gold Coast á Íslandi samkvæmt skráningu í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofunnar (sbr. dskj. nr. 5). Stefnandi JTI hefur nytjaleyfi á vörumerkjum JT samkvæmt sérstökum leyfissamningi (sbr. dskj. nr. 6).

          Málsástæður stefnanda:

                Framleiðsla, sala og markaðssetning tóbaks er lögleg viðskiptastarfsemi.

                Stefnendur telja að þrátt fyrir sívaxandi reglusetningu varðandi  meðferð tóbaks eigi  að vera heimilt að miðla tilteknum staðreyndum til smásala á ábyrgan hátt. Þar sem lög heimila slíkt auglýsir stefnandi JTI af þremur ástæðum: Til að viðhalda vörumerkja tryggð; til að hvetja þá sem reykja tegundir samkeppnisaðila til að skipta yfir í tegundir JTI; til að koma á framfæri upplýsingum til fullorðinna reykingamanna um framleiðsluvörur JTI. Hinsvegar auglýsir JTI hvorki til að hvetja til reykinga né beinir auglýsingum til fólks undir lögaldri. JTI er umhugað um að markaðssetja vörur sínar með ábyrgum hætti og vill sýna þá stefnu í verki. Stefnandi telur að miðlun framleiðsluupplýsinga um tóbaksvörur til smásala falli ekki undir auglýsingar og teljist því fullgildur og lögmætur hluti af viðskiptum stefnanda JTI á alþjóðavísu.

                Viðurkennt er að tóbak sé skaðleg vara.  Er því játað að íslenska ríkið hafi nokkuð svigrúm til þess að setja lög og reglur til að stjórna neyslu á tóbaki enda sé það gert á lögmætan máta. Að mati stefnenda séu bannákvæði 7.gr. l. nr. 6/2002 um tóbaksvarnir hinsvegar ekki sett með þeim hætti sem aðild Íslands að EES samningnum mælir fyrir um þegar um tæknilegar viðskiptahindranir er að ræða og því sé löggjöfin óskuldbindandi. Auk heldur sé ekki gætt meðalhófs við setningu laganna. Er það mat stefnenda að bannákvæði 7. gr. tóbaksvarnarlaganna séu óhófleg og því brot á meginreglu íslensk stjórnskipunarréttar svo og Mannréttindasáttmála Evrópu og EES réttar um að gætt skuli meðalhófs við setningu íþyngjanda löggjafar sem hafi í för með sér skerðingu á grundvallarréttindum sbr:

                Bann við því að miðla framleiðsluupplýsingum um tóbaksvörur til smásala, sbr. 7gr., 3. mgr. 1. tl. tóbaksvarnarlaganna.

                Bann við umfjöllun um einstakar tóbaksvörur í fjölmiðum nema til að vara við skaðlegu eiginleikum tóbaks sbr. 7gr., 3. mgr. 3. tl. tóbaksvarnarlaganna.

                Bann við því að tóbaksvörur og tóbaksvörumerki megi vera sýnileg á sölustöðum; sbr. 6. mgr. 7 gr. tóbaksvarnalaganna

                Að mati stefnenda séu framangreind bannákvæði tóbaksvarnarlaganna, óhófleg í því skyni að draga úr neyslu á tóbaki og leiði til hindrunar á eðlilegum samskiptum á milli annarsvegar tóbaksframleiðanda, mismununar einstakra tóbaksframleiðenda innbyrðis og röskunar á samkeppni milli einstakra tóbaksvöruframleiðenda um sölu tóbaks á Íslandi með þeim hætti að fari í bága við atvinnufrelsis-, tjáningarfrelsis- og eignaréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (“EES”).

Stefnendur byggja á því að stefnda sé óheimilt að beita ákvæðum laga nr. 95/2001 gagnvart þeim þar sem stefndi hafi ekki gætt undanfarandi tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA skv. tilskipunum 98/34/EB og 98/48/EB, um setningu hindrana af því tagi sem löggjöfin geymir og áður voru ekki leiddar í lög, s.s. um sýnileikabann, vörukynningarbann og bann við umfjöllun um tóbak í fjölmiðlum nema í því skyni að vara við skaðsemi tóbaks.

                Samkvæmt dómum Evrópudómstólsins er afleiðing þess að tilkynna ekki í samræmi við tilskipun 98/34/EB og 98/48/EB sú að aðildarlandi er óheimilt að beita löggjöfinni gagnvart 3ja aðila.

   Ágreiningslaust er að hindranir á sölu tóbaks, sem felast í l. 95/2001, teljast til tæknilegra reglugerða í skilningi tilskipananna sbr. sú staðreynd að stefndi kynnti Eftirlitsstofnun EFTA drög að lagabreytingum árið 1996 sem urðu lög nr. 101/1996, breytingarlög við lög um tóbaksvarnir nr. 74/1984.

                Stefndi kynnti Eftirlitsstofnun EFTA ekki fyrirhugaðar breytingar á tóbaksvarnarlögum sem felast í lögum 95/2001. Af þessum ástæðum er stefnda óheimilt að beita ákvæðum laga nr. 95/2001 gagnvart stefnendum þessa máls og er dóminum rétt, í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. EES samningnum, að að verða við öllum kröfum stefnenda.

                Byggt er á eftirgreindum málsástæðum ef ekki er fallist á aðalmálsástæðuna.

                Stefnendur byggja á því að tilvitnuð ákvæði 7. gr. l. nr. 95/2001, sbr. l. nr. 6/2002, að því leyti sem þau fela í sér algert upplýsingabann, sýnileikabann og fjölmiðlabann, séu andstæð (a) stjórnarskrá Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr.   97/1995 og  (b) skuldbindingum Íslands skv. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sbr. l. nr. 2/1993 þar sem lagasetningin fullnægi ekki grundvallarreglum um að meðalshófs skuli gætt við setningu íþyngjandi lagafyrirmæla.

   Eins og fram kemur í umfjöllun hér að framan er tilgangur löggjafans með setningu hinna umdeildu bannákvæða 7. gr. að koma í veg fyrir að tóbaksvörum sé komið á framfæri, annaðhvort beint til neytenda eða til smásala eða óbeint með umfjöllun í fjölmiðlum. Í þeim tilgangi eru settar afar víðtækar sölutakmarkanir á tóbaksvörur sem banna öll samskipti tóbaksframleiðanda við aðra sem tengjast söluferli tóbaks.

Stefnendur telja að hin umdeildu bannákvæði séu andstæð ákvæðum 72.gr., 73. gr. og 75 gr. stjórnarskrárinnar þar sem að bannákvæðin skerði með óhóflegum hætti eignaréttindi, frelsi til að stunda atvinnu og frelsi til tjáningar. 

Í 72.gr., 73. gr. og 75. gr. er löggjafanum heimilað að skerða hin stjórnarskrárvörðu réttindi en þó aðeins í tilteknum afmörkuðum lögmætum tilgangi. Verði að gæta meðalhófs við skerðingu réttindanna, þannig að ekki megi ganga lengra í skerðingunni en nauðsynlegt er til að ná lögmætu markmiði. Skilyrði þau sem löggjafinn þarf að uppfylla til að meðalhófs teljist vera gætt af hans hálfu koma bæði til skoðunar í umfjöllun um íslensku stjórnarskrána og um EES samninginn.

 

Löggjafinn hefur sönnunarbyrðina um að meðalhófs hafi verið gætt við skerðingu hinna borgaralegu réttinda. Í samræmi við framangreint ber íslenska ríkið sönnunarbyrðina fyrir því að sú frelsisskerðing sem felst í lögtöku 7. gr. l. 6/2002 uppfylli skilyrðin um meðalhóf.

Málsástæður stefnenda um að heimilt sé að miðla upplýsingum um tóbak til smásala eru þessar:

Aðallega, að þrátt fyrir orðalag 7. gr. 3.mgr. 1.tl. ( um að vörukynningar teljist til auglýsinga) sé stefnanda JTI og JTI-F ekki bannað að miðla framleiðsluupplýsingum um tóbaksvörur sínar til smásala, eins og stefnanda Bjarkar.

Til vara er byggt á því að bann við því að koma á framfæri nauðsynlegum framleiðsluupplýsingum um löglegar tóbaksvörur til smásala eins og Bjarkar, í því skyni að þeir séu upplýstir um eiginleika þeirra vara sem þeir selja, sé andstætt stjórnarskránni.

Fyrir liggur að grundvöllur með setningu tóbaksvarnarlaganna er að draga úr reykingum almennings.  Svo sem 73. gr. kveður á um verður sú skerðing á tjáningarfrelsi sem felst í bannákvæðunum því aðeins lögmæt, að gætt hafi verið meðalhófs, þ.e. að skerðingin teljist "nauðsynleg og samrýmast lýðræðishefðum" .

Þrátt fyrir víðtækt orðalag 7 gr. 3.mgr. 1. tl.  er bersýnilegt að löggjafinn hefur ekki ráðgert að banna að miðla megi nauðsynlegum framleiðsluupplýsingum um tóbak til smásala eins og Bjarkar í samræmi við eðlileg viðskipti með tóbak. Benda stefnendur á að sífelldar laga- og reglubreytingar séu á framleiðslu og sölu tóbaks í heiminum. Af þeim sökum sé stefnanda JTI bæði rétt og skylt að upplýsa tóbakssmásala  um staðreyndir sem lúta m.a. að slíkum reglubreytingum. Þar sem löggjafinn heimili sölu tóbaks á Íslandi teljist tóbakssalar ekki til þess hóps í 1.tl. 3.mgr. sem ætlunin er að forða frá áreiti. Smásalar með tóbak og starfsfólk þeirra verði að hafa aðgang að upplýsingum um tóbaksvörur, eins og aðrar vörur sem seldar eru með löglegum hætti. Af þeim ástæðum taki bannið um að ekki megi senda vörukynningarefni skv. 1.tl. 3. mgr., eðli málsins samkvæmt, ekki til þess fólks sem starfar við sölu tóbaks. Stefnendur telja því að skýra beri 1.tl. 3.mgr. þröngri lögskýringu í samræmi við tilgang löggjafans. Með tilliti til þessa sé stefnendum JTI og JTI-F heimilt þrátt fyrir ákvæði 1.tl. 3.mgr. að senda framleiðsluupplýsingar af því tagi sem krafist er til Bjarkar.

Í 73. gr. stjórnarskrár segir: Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Ákvæði 73 gr. á fyrirmynd sína í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Hefur MSE lagagildi á Íslandi sbr. l. nr. 62/1994 og eru stjórnskipunarlög nr. nr. 97/1995 sett til þess að lögtaka þau grundvallarmannréttindi sem sáttmálinn fjallar um.

Samkvæmt 46 gr. l. 62/1994 er íslenskum stjórnvöldum skylt að hlýta dómum Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem þeir eru aðilar að. Í 32. gr. gr. l. 62/1994 m.a: “Lögsaga dómstólsins skal ná til allra málefna varðandi túlkun og framkvæmd samningsins og samningsviðauka við hann, sem vísað er til hans í samræmi við 33., 34. og 47. gr.” Með hliðsjón af fordæmisgildi dóma MDE eru íslensk yfirvöld skuldbundin til þess að virða ákvarðanir dómstólsins í öðrum málum.

MDE hefur viðurkennt að miðlun upplýsinga í viðskiptum (commercial communication) njóti verndar skv. 10. gr. MSE.

Telji dómurinn að 7.gr.3.mgr.1.tl. feli í sér bann við því að stefnendur JTI og JTI-F megi miðla framleiðsluupplýsingum um vörur sínar til tóbakssmásala,  er því fram að slík takmörkun á samskiptum við smásala sé andstæð 73. gr. stjórnarskrárinnar. Í því ákvæði felist ótvíræður réttur til að eiga viðskiptaleg samskipti við löglega seljendur tóbaks.Sé bannákvæðið því ólögmæt skerðing þeirra réttinda sem stefnendum er veitt í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Heimild 73 gr. stjórnarskrárinnar til löggjafans til þess að skerða frelsi stefnenda til að tjá sig gagnvart viðskiptaaðilum með tóbak er háð því að meðalhófs hafi verið gætt við skerðinguna og slík skerðing á tjáningarfrelsinu hafi verið eina mögulega leiðin til að ná umræddu markmiði. Því skilyrði hefur hinsvegar ekki verið fullnægt að mati stefnenda.

Í 73. gr. stjórnarskrárinnar er við mat á meðalhófsskilyrðinu byggt á sömu lagasjónarmiðum og greinir í gr. 1o (2) í MSE.

Málsástæða stefnenda um að bann að sýna tóbak og tóbaksvörumerki á sölustað tóbaks sé ólögmætt er eftirfarandi:

Að sýnileikabannið í 7. gr. 6. mgr. tóbaksvarnarlaganna sé andstætt 72.gr. 73.gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.

                Í  75. gr. 1.mgr. segir: Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.
Bann 7.gr. 6.mgr. hefur það markmið að hindra smásala tóbaks eins og Björk í að stilla tóbaksvörum og vörumerkjum upp á sölustað með þeim hætti að neytendur geti virt fyrir sér tegundir og vörumerki tóbaks sem til sölu sé. Slík hindrun hefur áhrif á hvaða tóbakstegundir eru keyptar en ekki áhrif á hvort að tóbak sé keypt. Er samkeppni um sölu á tóbaksvörum því raskað. Áhrif bannsins eru því einvörðungu að skerða stjórnarskrárbundin réttindi stefnanda Bjarkar til stunda þá löglegu atvinnustarfsemi sem hann kýs, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.

   Heimild 75 gr. stjórnarskrárinnar til löggjafans til þess að skerða frelsi stefnanda Bjarkar til að stunda löglega atvinnustarfsemi er háð því að almenningshagsmunir krefjist þess. Er það lagaskilyrði, eins og í tilviki 73. gr., að meðalhófs hafi verið gætt við skerðinguna og ekki hafi verið unnt að ná umræddu markmiði í þágu hagsmuna almennings nema með að banna alla sýningu á tóbaksvörum á sölustað. Því skilyrði hefur hinsvegar ekki fullnægt.

   Sýnileikabann 7 gr. 6 mgr. skerðir einnig stjórnarskrárbundið tjáningarfrelsi stefnenda. Bannið skerðir frelsi stefnanda JTI og JTI-F til að eiga samskipti með upplýstum hætti við smásala um tóbaksvörur sínar. Með sýnileikabanninu er stefnendur sviptir síðasta möguleikanum til að geta stundað löglega samkeppni við aðra tóbaksframleiðendur sem selja vörur sínar á Íslandi. Með sýnileikabanninu er samkeppni við önnur vörumerki (inter-brand) í raun gerð að engu. Ákvæði 73.gr. er m.a. ætlað að vernda rétt fyrirtækja til að eiga eðlileg samskipti við smásala.

   Með sama hætti er stefnandi JTI og JTI-F sviptur frelsi til að eiga nauðsynleg viðskiptaleg samskipti við smásala.

   Í  72. gr. stjórnarskr. eru lögfest þau grundvallarréttindi að mega hagnýta sér eignir sínar með löglegum hætti og bann sett við ólögmætri skerðingu eignarréttinda. Túlka ber 72. gr. í samræmi við 1. gr.  samningsviðauka 1 við MSE þar sem segir: ”Öllum mönnum og lögaðilum ber réttur til að njóta eigna sinna í friði. Skal engan svipta eign sinni, nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðaréttar.” Er ákvæði þetta augljós fyrirmynd 72. gr. stjórnarskrárinnar með tilliti til ummæla í greinargerð með frumvarpi að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995, að við breytingu á mannréttindaákvæðum stjórnarskrár var sérstaklega tekið mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hafði gengist undir með því að gerast aðili að alþjóðlegum sáttmálum til verndar mannréttinda, þ.m.t. MSE.

   MDE hefur staðfest að vörumerki og einkaleyfi séu eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1 við MSE.

   Á grundvelli sömu sjónarmiða, telst fjárhagslegur ábati sem leiðir af lögmætri viðskiptalegri starfsemi einnig til eignar í skilningi 72. gr. og 1. gr. í samningsviðauka 1. við MSE og nýtur því verndar. Af þessu leiðir að þær takmarkanir sem eru í 7. gr. 6. mgr. fyrir stefnanda JTI til að hagnýta sér eignarréttindi sín á hinum skrásettu vörumerkjum með því að sýna sýna og nota þessi auðkenni sín í frjálsum viðskiptum teljast ótvírætt til skerðinga á stjórnarskrárvernduðum eignaréttindum stefnanda.

  Af framangreindu leiðir að séu ekki lagaskilyrði uppfyllt til að skerða  vörumerkjaréttindi JTI þ.e. að 1) almannaþörf krefji, 2) með lögum, og 3) að fullt verð komi fyrir og jafnframt að séu skilyrðin uppfyllt en skerðingin ekki að fullu bætt er skerðingin ólögmæt

Með þingsályktun á Alþingi árið 1994 samþykkti Ísland samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, World Trade Organization, (WTO). Viðauki 1C er samningur um hugverkarétt í viðskiptum, Trade Related Aspects of Intellectual Property Rights (TRIPS). Í samningnum er m.a. fjallað um lágmarksvernd hugverkaréttinda og hvernig sú vernd skuli tryggð.

Í 8. gr. TRIPS er kveðið á um að aðildarríki að WTO megi í sinni löggjöf kveða á um aðferðir til að vernda heilsu almennings (public health and nutrition) enda séu þær aðferðir í samræmi við ákvæði samningsins að öðru leyti.

Í 17. gr. TRIPS segir að aðildarríki WTO  megi takmarka eða þrengja vörumerkjaréttindi s.s. vegna eðlilegrar notkunar á lýsandi hugtökum, þó þannig að löglegra hagsmuna vörumerkjarétthafans sé gætt.

Í 20 gr. TRIPS er kveðið á um að ekki megi tálma notkun á vörumerki í viðskiptum með sérstökum og íþyngjandi kröfum.

Í ljósi framangreinds er 7. gr.6. mgr. brot á hugverkaréttindum stefnanda JTI skv. alþjóðlegum skuldbindingum Íslands skv. samningnum um Alþjóðaviðskipta-stofnunina.

Sú ákvörðun löggjafans að banna að fjalla um tóbak í fjölmiðlum nema til að fjalla um skaðlega eiginleika þess er bersýnilegt brot á 73. gr. Þó að í ákvæðinu sé heimilað að takmarka tjáningafrelsi í þágu verndar á lífi og heilsu almennings, er undir engum kringumstæðum heimilt að beita ritskoðun af hálfu yfirvalda. Í ákvæði 7. gr. 3 .mgr. 3. tl. felst bersýnilega ritskoðun og því brot gegn 73. gr. Að öðru leyti halda stefnendur því fram að ákvæðið sé óhóflegt og brot á grundvallarreglunni um meðalhóf.

Að mati stefnenda eru bannákvæðin í andstöðu við 11.gr., og 36 gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sbr. l. l. 2/ 1993. Samkvæmt téðum greinum er öll mismunun á grundvelli þjóðernis óheimil og mælt fyrir um frelsi til að stunda viðskipti á efnahagssvæðinu. Í 36 gr. er kveðið á um að “...engin höft [skulu] vera á frelsi ríkisborgara aðildarríkja EB og EFTA-ríkja til að veita þjónustu á yfirráðasvæði samningsaðila enda þótt þeir hafi staðfestu í öðru aðildarríki EB eða EFTA-ríki en sá sem þjónustan er ætluð..”,  sbr. ákvæði IX. – XI. í viðauka um frelsi til að veita þjónustu. Aðildarríkin mega takmarka þetta frelsi í tilteknum skilgreindum tilfellum en þó þannig að grundvallar reglunnar um meðalhóf sé gætt í hvívetna.

Aðildarríki EES hefur sönnunarbyrðina um að takmörkun á viðskiptafrelsi sé réttlætanleg.

Bann við upplýsingamiðlun gerir stefnendum JTI og JTI-F fyrir milligöngu RJ ókleift að veita smásölum eins og Björk viðeigandi þjónustu til viðbótar við tóbakssölu, svo að þeir megi öðlast upplýsingar um vörur JTI í tengslum við samkeppni milli tóbaksvörutegunda (inter-brand). Þá gerir ákvæði 7.gr. 1.mgr. stefnanda JTI og JTI-F ómögulegt að kaupa kynningarplass af útgefendum innlendra tímarita svo unnt sé að dreifa upplýsingum um tóbaksvörur JTI til smásala og annarra fagaðila.

Á grundvelli 36 gr. EES-samningsins um frelsi til að veita þjónustu innan EES svæðisins felst réttur til þess að veita þjónustu hvar sem er á svæðinu. Er 36 gr. sambærileg við 49 gr. Rómarsáttmálans (EC) og ber að túlkast með sama hætti sbr. 6. gr. EES samningsins. Skulu dómar og úrskurðir Evrópudómstólsins vera fordæmi við skýringu og beitingu Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA dómstólsins á einstökum ákvæðum EES samningsins.

Samkvæmt dómum Evrópudómstólsins nær grundvallarregla 36. gr. (49.gr. EB) einnig til frelsis til þess að fá þjónustu hvar sem er á efnahagssvæðinu. Í þessu felst að aðildarlöndin mega ekki skerða frelsi til að fá þjónustu yfir landamæri. Við skýringu á víðfeðmi þjónustukaflans í Rómarsáttmálanum hefur Evrópudómstóllinn kveðið upp úr að 49 gr. eigi við þegar um sé að ræða "mögulega" (e.potential) kaupendur þjónustu. Á grundvelli þessa leiðir samskiptabann 7. gr. 3. mgr. 1. tl. til þess að stefnendur JTI og JTI-F fá ekki notið þjónustu frá íslenskum fyrirtækjum og skerða því réttindi þeirra skv. 36 gr. EES.

Evrópudómstóllinn hefur dæmt að gr. 49 í Rómarsáttmálanum ( sambærileg 36 gr. EES) eigi við þegar landsréttur í aðildarríki takmarkar rétt útgáfufyrirtækis til að bjóða kynningarpláss í útgáfum til mögulegra kaupenda þjónustunnar í öðrum aðildarlöndum. Upplýsingamiðlunarbannið takmarkar því frelsi íslenskra fjölmiðla til að bjóða þjónustu sína til stefnanda JTI og JTI-F og annarra tóbakframleiðenda innan EES.

Samkvæmt Evrópudómstólnum telst dreifing upplýsinga í atvinnuskyni jafngilda viðskiptalegri starfsemi ( e. economic activity ). Af því leiðir að miðlun upplýsinga frá tóbaksframleiðanda til smásala, í tengslum við sölu á tóbaki, fellur undir þjónustufrelsi 36 gr. EES-samningsins og bannákvæði 7. gr. 3.mgr., 1.tl. því skerðing á frelsi stefnenda til þess að veita og fá þjónustu á Íslandi. Að mati Evrópudómstólsins skiptir ekki máli að landsréttur geri ekki upp á milli innlendra og erlendra aðila til þess að ákvæði 36 gr. eigi við.

Í nýrri óbirtri tilskipun ESB um samræmingu aðildarríkjanna á lögum um auglýsingar og fjárstuðning (sponsorship) vegna tóbaks, sem ætlað er að koma í stað tilskipunar 98/43/EC um sama efni sem var ógilt af Evrópudómstólnum er viðurkennt í 3. gr. að tóbaksframleiðendur þurfi að miðla efni til smásala um vörur sínar.  Er þar kveðið á um að auglýsingar og annað opinbert prentefni skuli takmarkað við útgáfu sem sé sérstaklega ætluð starfsfólki í tóbaksiðnaði. Samkvæmt þessu er almennt viðurkennt innan EB að nauðsynlegt sé miðla upplýsingum á milli fagaðila í tóbaksiðnaði eins og Bjarkar. Bann 7. gr. 3. mgr. 1. tl. er því í andstöðu við viðurkennd sjónarmið innan Evrópubandalagsins um upplýsingamiðlun innan tóbaksiðnaðarins.

Tilskipun 2001/37/EC EB um samræmingu aðildarríkjanna á lögum og reglum um framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaksvörum gr. 6 (3) gerir ráð fyrir að neytendur skuli vera vel upplýstir um öll innihaldsefni tóbaks og annað sem skiptir máli. Miðlun á framleiðsluupplýsingum um tóbak frá tóbaksframleiðendum til smásala er því fyllilega í samræmi við viðurkennd sjónarmið innan EB um nauðsyn þess að upplýsa neytendur vel um innhald tóbaks.

Að mati stefnenda er bann tóbaksvarnarlaganna við miðlun upplýsinga til smásala um innihald tóbaks óhóflegt og í andstöðu við skuldbindingar Íslands skv. EES-samningnum.

Sú hindrun á sölu tóbaks sem felst í 7.gr. 6.mgr. er andstæð því viðskiptafrelsi sem er verndað af EES samningnum.Bersýnilegt er að stefnanda JTI og JTI-F er gert erfitt fyrir að selja vöru sína á Íslandi þegar  meinuð eru öll samskipti við neytendur á sölustað. Stefnanda JTI og JTI er líka meinað að framleiða og láta af hendi til smásala eins og Bjarkar sér hannaðan búnað til útstillingar á tóbaksvörum stefnenda. Í 7.gr. 6. mgr. hindrar stefnendur JTI og JTI-F að bjóða vörur sínar á markaði á Íslandi. Er bent á að sala áfengis, sem er háð strangari aldursskilyrðum sbr. l. nr. 75/1998, þarf ekki að sæta sambærilegum hindrunum í vörukynningu á sölustað, þó að tilgangur laganna sé sambærilegur og tóbaksvarnarlaganna, þ.e. að vinna gegn misnotkun áfengis.

Í nýrri óbirtri tilskipun ESB varðandi tóbaksauglýsingar er, þrátt fyrir að tóbaksauglýsingar beri að takmarka, viðurkennd nauðsyn þess að neytendur fái fullnægjandi upplýsingar um einstakar tóbaksvörur á sölustað sbr.  hér að ofan.  Bann við sýnileika á sölustað fer þvert gegn framangreindum sjónarmiðum.

Að áliti stefnenda er bann tóbaksvarnarlaganna við sýningu tóbaks og tóbaksvörumerkja á sölustað óhóflegt og í andstöðu við skuldbindingar Íslands skv. EES-samningnum.

Bannákvæði 7.gr. 3. mgr. 3. tl. skerðir réttindi stefnenda til að fjalla um vörur sínar í fjölmiðlum án þess að geta sérstaklega um skaðsemi þeirra. Bannið girðir fyrir að stefendur geti keypt umfjöllun um sig og vörur sínar í fjölmiðlum, án tillits hvort að útgáfunni sé beint að fagfólki eða almenningi. Að auki leiðir bannið til þess að þeim er óheimilt að kaupa þjónustu fjölmiðla, án tillits til hvort að útgáfunni er beint að fagfólki eða almenningi, til að fjalla um þær vörur sínar sem innihalda minna af skaðlegum efnum en aðrar.

Með vísan til umfjöllunar um röksemdir gegn banni við sýnileika á sölustað leiðir ákvæði 7. gr.3.mgr.3.tl. til ólögmætrar skerðingar á frelsi stefnenda til þess að veita og fá þjónustu, svo og til að stunda viðskiptastarfsemi á Íslandi. Er ákvæðið því andstætt skuldbindingum Íslands skv. samningnum um EES.

Það er sameiginlegt í málsástæðum stefnenda, hvort heldur hin umdeildu bannákvæði fara gegn íslensku stjórnarskránni eða skuldbindingum Íslands skv. EES-samningnum, að ólögmæti bannákvæðanna felst í því að ekki hefur verið gætt meðalhófs við setningu ákvæðanna. Það er viðurkennt að íslenska ríkið hefur, bæði að landsrétti og EES-rétti heimildir til þess að skerða það frelsi sem  stefnendum er annarsvegar fengið í íslensku stjórnarskránni og hinsvegar EES-samningnum. Hinsvegar er ljóst að íslenska ríkið er bundið af meðalhófsreglunni og ber stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að meðalhófs hafi verið gætt við setningu hinna umdeildu bannákvæða. Stefnendur byggja á því að setning bannákvæðanna, hvert og eitt og öll saman, séu brot á meginreglunni um meðalhóf við setningu frelsisskerðandi löggjafar.

Hvort heldur sem byggt er á meðalhófsreglunni að íslenskum stjórnskipunarrétti, Mannréttindadómstól Evrópu, EB eða að EES-rétti er inntak reglunnar það sama.

Í meðalhófsreglunni skv. íslenskum stjórnskipunar- og stjórnsýslurétti felst í fyrsta lagi, að þegar er um val úrræða að ræða beri að velja vægasta úrræðið sem kemur að gagni. Í öðru lagi felst í henni að hóf verður að vera í beitingu úrræðisins, miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru hverju sinni.Því tilfinnanlegri sem skerðingin sé sem leiðir af ákvörðun stjórnvalda, þeim mun strangari kröfur verði að gera til sönnunar á nauðsyn ákvörðunar eða athafnar. Í meðalhófsreglunni felst því takmörkun á "frjálsu mati" stjórnvalda.

Í skilgreiningu MDE á meðalhófsreglunni felst að því úrræði ber að beita sem minnst íþyngjandi er í þeim tilgangi að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með lögunum; jafnvægi verði að vera á milli krafna í þágu samfélagsins og krafna um verndun grundvallar mannréttinda.

Í meðalhófsreglunni skv. EB rétti felst að takmörkun á efnahagslegri starfsemi er háð því að takmörkunin sé hófleg og nauðsynleg til að ná lögmætu markmiði; þegar um sé að ræða val á milli margra kosta verði að velja þann hagfelldasta og takmörkunin má ekki vera meira íþyngjandi en þarf til að ná markmiðinu. Evrópudómstólinn hefur löngum viðurkennt að við túlkun ákvæða sem veita aðildarríkjum EB rétt til að takmarka grundvallarréttindi samkvæmt Sáttmála sambandsins og grundvallar mannréttindi þá beri að beita þröngri lögskýringu á slík undantekningar ákvæði. Því hvílir á íslenska ríkinu að leggja fram sannfærandi sönnunargögn um að hin umdeildu bannákvæði uppfylli skilyrði meðalhólfsreglunnar.

Stefnendur JTI og JTI-F telja að bann við því að smásölum eins og Björk séu veittar framleiðsluupplýsingar um söluvörur JTI sé alls ekki hóflegt úrræði af hálfu íslenska löggjafans til að ná því markmiði sem að er stefnt í tóbaksvarnarlögunum.

 Stefnendur halda því fram, í fyrsta lagi,  fram að framleiðsluupplýsingar sem slíkar geti ekki með nokkru móti talist til auglýsinga fyrir tóbak. Um sé að ræða framleiðsluupplýsingar um vöruna sem seljanda sé þörf á að hafa undir höndum við sölu. Í öðru lagi, teljist smásalar ekki til neytenda sem lögin beinast að, því smásalar hafi tóbaksvörur sífellt fyrir augunum og því þjóni takmörkun á upplýsingamiðlun til þeirra engum tilgangi. 
 Sú staðreynd að ákvæði 1.tl. 3.mgr. 7.gr. gengur lengra í skerðingu réttinda en nauðsynlegt er, undirstrikast enn frekar í því að þrátt fyrir ítarlegan undirbúning hefur ekki verið talið nauðsyn innan EB við setningu löggjafar um bann við tóbaksauglýsingum, að banna upplýsingamiðlun til smásala með tóbak. Íslensk löggjöf gengur því mun lengra en gert er  í  löggjöf EB án þess að nokkur rök séu færð  fyrir því að slíkt sé óhjákvæmileg nauðsyn. Er beinlínis um að ræða óskýrt ósamræmi í lögunum ef bann við miðlun framleiðsluupplýsinga til smásala, líkt og Bjarkar, sé talið nauðsynlegt, á sama tíma og löggjafinn beinlínis heimilar, án takmarkana, sölu á erlendum tímaritum til almennings á Íslandi sem innihalda tóbaksauglýsingar sbr. dskj. 11. Er ljóst að upplýsingamiðlun til smásala er ekki unnt að jafna til þeirra tóbaksauglýsinga sem getur að líta í erlendum tímaritum á Íslandi. Að því leyti sem upplýsingamiðlunarbannið útlokar stefnanda JTI frá því að miðla upplýsingum til smásala þá er stefnanda ennfremur gert ókleift að tryggja að neytendur séu upplýstir um einstakar tóbaksvörur stefnanda. Bannið gerir því neytendum mjög erfitt fyrir að nálgast fullnægjandi upplýsingar, og nýjungar varðandi þær tóbaksvörutegundir sem þeir kjósa að reykja. Er slíkt hvortveggja andstætt ríkjandi sjónarmiðum um tóbaksvarnarlöggjöf í Evrópu um að reykingamenn skuli eiga kost á fullnægjandi framleiðsluupplýsingum um tóbak og svo því að heimilt sé markaðssetja nýjar tóbakstegundir án takmarkana svo fremi sem þær uppfylli skilyrði þar um.

                Stefnendur telja að útstillingarbann 6.mgr. 7.gr. sé brot á meðalhófsreglunni þar sem löggjafinn hafi ekki fært sönnur á að óhjákvæmilegt hafi verið að banna útstillingu tóbaksvara og vörumerkja á sölustað.

   Ísland mun vera eina landið í heiminum þar sem sýnileikabann á tóbak og tóbaksvörumerki hefur verið lögleitt. Í héraðsdómsmálinu nr. E- 11015/2002 hefur íslenska ríkið viðurkennt að ekki hafi legið fyrir kannanir eða rannsóknir á áhrifamætti slíks banns áður en það var lögfest. Þetta sýnir að lögjafinn hefur innleitt ákvæði sem banna útstillingu tóbaksvara og vörumerkja án þess að sýnt hafi verið fram á að slíkt skili árangri. Löggjafinn hefur því ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að bannið hafi verið nauðsynlegt eða hóflegt.   

Stefnendur telja ákvæðið óhóflegt á grundvelli eftirgreindra raka: Í fyrsta lagi jafngildi útstilling á sölustað ekki auglýsingu á tóbaki. Aðeins sé verið að koma á framfæri hlutlausum upplýsingum um að tiltekin vara sé í boði á sölustaðnum. Það að neytendum er gert ljóst að ákveðin lögleg vara er á boðstólum, felur í sér lágmark þeirra samskipta milli kaupanda og seljanda sem nauðsynleg eru til að stunda viðskipti með tóbak. Bann við grundvallarsamskiptum í viðskiptalegri starfsemi er hvorki nauðsynleg né hófleg þegar um er að ræða löglega starfsemi.

Í öðru lagi felst talsvert minna áreiti í útstillingu tóbaksvara og/eða tóbaksvörumerkja á sölustað en t.d. beinum tóbaksauglýsingum í erlendum tímaritum á Íslandi eða reykingum á almannafæri eða í fjölmiðlum, sbr. dskj. 11 og 12. Sé höfð hliðsjón af lagakröfum um áberandi viðvörunarmerkingar á tóbakspökkum má færa gild rök fyrir því að meiri forvörn sé fólgin í útstillingu tóbaks á sölustað en því að fela vöruna á sölustað. Hvað börn og unglinga varðar þá er ljóst að víðtæk fræðsla gegn tóbaksreykingum í skólum og annarsstaðar hefur í för með sér að að fráleitt er að börn og unglingar líti á tóbak sem sjálfsagða neysluvöru. Útstilling tóbaks með viðvörunarmerkingum er þvert á móti áminning um hættueiginleika tóbaks.

Bann við útstillingu á tóbaki á sölustöðum hefur fyrst og fremst í för með sér samkeppnisröskun og gerir stefnanda ókleift að keppa við aðrar löglegar tóbaksvörutegundir á jafnréttisgrundvelli, m.a. vegna reglna ÁTVR um skilyrði þess að mega selja tóbakstegund á Íslandi. Neytendum er ekki unnt að ganga úr skugga um úrval tóbaksvörutegunda, eða verð vörunnar, þar sem ekki er unnt að stilla vörunni út. Bannið gerir stefnanda JTI og JTI-F ókleift að veita smásölum þjónustu í formi búnaðar til útstillingar á tóbaksvörum JTI. Bann við sýningu vörunnar á útsölustöðum ( líkt og bann við upplýsingamiðlun til smásala ) hindrar stefnanda JTI og JTI-F í að koma nýjum vörutegundum á markað en leiðir ekki til minnkunar á framboði tóbaks á sölustað. Sýnileikabannið hefur aðeins áhrif á hvaða tegundir tóbaks neytandinn kaupir, en ekki á hvort tóbak sé keypt eða ekki og dregur þessvegna ekki úr reykingum.

Bann við útstillingu á sölustöðum leiðir til óhóflegrar íþyngjandi truflunar á hagnýtingu stefnanda JTI á hugverkaréttindum sínum. Tilgangur vörumerkis er að benda á uppruna tiltekinnar vöru. Grafið er undan vörumerkjaréttinum ef neytendur eiga ekki þess kosta að þekkja uppruna vöru af vörumerkinu sjálfu.

Augljóst er að aðrir minna íþyngjandi kostir eru fyrir hendi. Þó það sé ekki hlutverk stefnanda er nærtækt að benda á að íslensk stjórnvöld hefðu getað náð markmiði laganna með úrræðum sem skertu ekki rétt stefnenda. Sem dæmi má nefna að stjórnvöld hefðu getað krafist þess (i) að stórum varúðarmerkingum væri komið fyrir á útsölustöðum, (ii)  söluaðilum yrði gert skylt að afhenda neytendum bækling þar sem varað væri við skaðsemi reykinga áður en tóbak væri keypt, (iii) heimilað að tóbaksvörur væru listaðar upp, ásamt verði hverrar tegundar á útsölustað, eða (iv) að heimilað að takmörkuðu magni, jafnvel einum pakka af hverju merki væri komið fyrir til sýnis á sölustað.

Er ástæða til að benda á að EB löggjöf, sem takmarkar auglýsingar á tóbaki og fjárstuðning við tóbak, hefur ekki að geyma nein álíka ákvæði um bann við sýningu vörunnar á útsölustað.  Allt undistrikar þetta að íslensk stjórnvöld  hafa ekki gætt meðalhófs í lagasetningu sinni varðandi ákvæðið um bann við sýningu vörunar á útsölustað.

                Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að takmarkað svigrúm sé til að skerða tjáningarfrelsi á grundvelli sjónarmiða um heilsu almennings og hefur lýst yfir að nauðsynlegt sé að þrengja hin viðurkenndu mörk þegar ekki er í húfi  ákveðin “viðskiptaleg” staðhæfing einstaklings, heldur þátttaka í umræðu sem hefur almenna skírskotun, t.d. um almannaheilsu. Mannréttindadómstóllinn hefur á sama hátt úrskurðað að beiting strangra skilyrða í nálgun á málefnum auglýsinga sé ekki samhljóma við tjáningarfrelsi og notkun á slíkum mælikvarða sé líklegur til að hefta blöð í framkvæmd starfa síns sem miðill upplýsinga og varðhundur almennings. Stefnandi JTI leggur fram nokkrar blaðagreinar þar sem fjallað er um einstakar tóbaksvörur í erlendum blöðum til að sýna umfjöllun um JTI í fjölmiðlum einstakra Evrópulanda, sem gengur mun lengra en JTI fer fram á í máli þessu, sbr. dskj. 13.

   Svo sem kom fram í nefndaráliti heilbrigðisnefndar Alþingis við setningu l. 101/1996 og leiddi til lagabreytinga getur umræða um tóbaksvörur í fjölmiðlum þjónað almannaheill þegar umræðan beinist að þróun minna skaðlegra tóbaksvara. Hið algjöra bann við umfjöllun um tóbak er því óhóflegt m.t.t. þess markmiðs sem ætlað er að ná.

   Af framangreindu leiðir að útilokun allrar umræðu í fjölmiðlum nema hún beinist eingöngu að skaðlegum afleiðingum tóbaks er ekki samrýmanleg því markmiði að veita neytendum fræðslu og upplýsingar um tóbaksvörur í því skyni að draga úr reykingum. Eigi stefnandi JTI því rétt á að greina frá í fjölmiðlum um vísindalega þróun varðandi tóbak og notkun tóbaks, og skuli ekki sæta takmörkun á miðlun upplýsinga um  eiginleika tóbaks.  Slíkar frásagnir í blöðum eru fullkomlega í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið með auglýsingabanninu, sbr. dskj. 13.

   Augljóst er að aðrir minna íþyngjandi kostir eru fyrir hendi. Þó það sé ekki hlutverk stefnenda er nærtækt að benda á að íslensk stjórnvöld hefðu getað náð markmiði laganna með úrræðum sem skertu ekki rétt stefnenda. Sem dæmi má nefna að stjórnvöld hefðu getað krafist þess að við umfjöllun um tóbak í fjölmiðlum mætti ljúka með áminningu um skaðsemi tóbaks; að sérhver jákvæð umfjöllun um tóbaksvörur fylgdi umfjöllun um neikvæðar afleiðingar tóbaksneyslu.Þessi úrræðu myndu síður skerða grundvallarréttindi stefnenda til að stunda viðskipti með löglega vöru.

   Ritskoðun af því tagi sem felst í banni við allri umfjöllun í fjölmiðlum, nema um skaðlega eiginleika tóbaks, er ekki nauðsynleg til að ná markmiðum löggjafans. Hvergi er að finna sambærileg ákvæði í EB löggjöf um að nauðsynlegt sé að skerða frelsi til að fjalla um tóbak í fjölmiðlum til að draga úr reykingum. Af ofangreindum ástæðum telja stefnendur að fjölmiðlabannið sé óhófleg skerðing á réttindum þeirra umfram það sem nauðsyn ber til. Af þessu leiðir að ákvæði 3.tl. 7.gr. brýtur gegn meðalhófsreglunni.

   Tilvísun til helstu lagaákvæða:

   Stefnendur vísa til 73.gr.stjórnarskrárinnar sem og 10.gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr 62/1994 um tjáningarfrelsið, en til 72.gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar og 1.gr. 1 viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er vísað til 75.gr. stjórnarskrárinnar varðandi atvinnufrelsi. Þá er vísað til 7.gr. laga nr. 95/2001 sbr. l. nr. 6/2002.

   Þá er vísað til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, gr. 11 og gr. 36 og viðauka II, kafla XIX. Viðeigandi tilskipanir Evrópusambandsins eru:

   Tilsk. 98/34/EB um reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra staðla og reglugerða, sbr. breytingar með tilsk. 98/48/EB. Tilskipun 89/622/EBE, með síðari breytingum um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi merkingar á tóbaksvörum; tilskipun 90/239/EBE, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi leyfilegt hámark tjöru sem vindlingar mega gefa frá sér; tilskipun 89/104/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkja um vörumerki; óbirt tilskipun um tóbaksauglýsingar og fjárstuðning (í stað 98/43/EC); tilskipun 2001/37/EC um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaksvörum.

   Um rétt til þess að krefjast viðurkenningardóms vísast til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um samlagsaðild stefnenda er vísað til 1.mgr. 27.gr. sömu laga.

   Málskostnaðarkrafan byggir á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

   Um varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda vísuðu stefnendur til þess, að það sé stjórnarskrárbundinn réttur þeirra og grundvallarréttindi að geta borið ágreining um réttarstöðu sína upp við dómstóla landsins. Þeir vara við því sjónarmiði sem stundum heyrist að vegna þess hversu tóbak sé umdeild vara og skaðleg, eigi réttarstaða þeirra  sem höndla með tóbak, af hvaða tagi sem er, að vera lakari en annarra.

Lögvarðir hagsmunir verði ekki skilgreindir með einföldum hætti; það fari eftir eðli málsins, sé litið til úrlausna Hæstaréttar, hvort lögvarðir hagsmunir teljist vera fyrir hendi. Í stuttu má draga þá ályktun af úrlausnum Hæstaréttar að lögvarðir hagsmunir séu til staðar ef dómsmáli er ætlað að leiða til lykta tiltekinn ágreining og réttarstaða stefnanda eftir niðurstöðuna., ef krafan er tekin til greina, er önnur en hún var við upphaf málsins.

Þá er því mótmælt, að kröfugerð stefnenda feli í sér lögspurningar, enda sé það eðli lögspurninga að leysa ekki úr tilteknum afmörkuðum hagsmunum sem hafa áhrif á réttarstöðu manna.

Loks mótmæltu stefnendur því, að kröfur þeirra væru svo óskýrar, að ekki mætti leggja dóm á málið af þeim sökum.

Málsástæður stefnda:        

   Frávísunarkrafa stefnda byggist í fyrsta lagi á því að stefnendur hafi ekki gert grein fyrir hverja lögvarða hagsmuni þeir geti haft af úrlausn um dómkröfur málsins. Lítið liggur fyrir um starfsemi hinna erlendu stefnenda, þ.e. hvort fyrirtækin hafi stöðu framleiðanda eða selji fyrir eigin reikning. Nokkuð óljóst er um tengsl stefnenda við fyrirtækjasamstæðuna svonefndu. Með vísan til þessa telur stefndi að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að eiga aðild að þeim hagsmunum sem kynnu að teljast lögvarðir til að afla viðurkenningardóms, sbr. 24. gr., 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Í þessu sambandi byggir stefndi sérstaklega á því að stefnendur hafa ekki lagt fram nægar útskýringar á réttarstöðu sinni með tilliti til þess hvort þeim geti, einum eða fleirum, verið kleift að byggja kröfur sínar á reglum EES-réttar og með hliðsjón af reglum EB-réttar, þar sem um er að ræða annars vegar svissneskt fyrirtæki og hins vegar finnskt. Hið síðarnefnda kveðst sinna sölu- og markaðsmálum hins fyrrnefnda og að bæði séu þau hluti að fyrrtækjasamstæðu JT hvar móðurfyrirtækið sé japanskt. Hvorki Sviss né Japan eru aðilar að Evrópusambandinu eða Evrópska efnahagssvæðinu. Um það hvort finnska fyrirtækið selur vörur og sinnir markaðsmálum fyrir hönd þess svissneska eða japanska, eða er sjálfstætt, liggja ekki nægjanlega nákvæmar upplýsingar fyrir.

                Stefnendur hafa meðal annars byggt á því að vörumerkjaréttur sé skertur af völdum 6. mgr. 7. gr. tóbaksvarnalaga. Hins vegar liggur fyrir að þau vörumerki tóbaks sem nefnd eru í stefnu eru samkvæmt gögnum málsins ekki skráð vörumerki stefnenda, heldur Japan Tobacco Inc. í Japan. Kröfur stefnenda að því leyti sem þær eru reistar á vörumerkjarétti eru vanreifaðar, enda liggur fyrir að engir stefnenda eru skráðir eigendur vörumerkjanna sem nefnd eru í stefnu. Nægir að mati stefnda ekki þótt fyrir hendi séu leyfi til að nota vörumerkin (nytjaleyfi) þar sem skráðir eigendur þeirra hljóti að vera einir til þess bærir að ráðstafa hagsmunum í dómsmáli tengdum þeim rétti og inntaki hans, sbr. ákvæði vörumerkjalaga nr. 45/1997, t.d. 25. gr. og V. kafla þeirra, en mál þetta varðar ekki þá réttarvernd vörumerkja sem VII. kafli laganna lýtur að. Þótt svo yrði talið verður ekki séð af gögnum málsins að skilyrði 46. gr. laganna sé uppfyllt, t.d. um tilkynningu. Þá verður ekki ráðið af nytjaleyfissamningum á dskj. nr. 6 að heimild sé til ráðstafana eins og málshöfðunar þessarar.

                Fyrsti liður dómkrafna veit aðeins á beiðni um lögfræðilega álitsgerð þar sem stefnendur JTI og JTI-F hafa hvorugir með höndum tóbaksútsölu á Íslandi né heildsölu. Engu að síður verður ekki betur séð en allir stefnendur standi að kröfunni undir lið 1.1. Hinir erlendu stefnendur hafa því enga lögvarða hagsmuni eða aðild að lögvörðum hagsmunum um þau atriði sem kröfugerð þessi varðar. Atbeini þeirra stefnenda að því hvernig varan er meðhöndluð á útsölustöðum á Íslandi er því enginn enda ekki um að ræða viðskiptasamband þeirra við íslenska útsölustaði hvorki almennt né gagnvart Björk. Þeir hagsmunir sem felast í ákvæði tóbaksvarnalaga í 6. mgr. 7. gr., og skipta máli eru fyrst og síðast almannahagsmunir og því allsherjar­réttarlegs eðlis, en í þeim samanburði vega einstaklegir hagsmunir stefnenda lítt eða ekki. Engin rök mæla því með því að stefnendum séu játaðir lögvarðir hagsmunir í skilningi 25. gr. laga nr. 91/1991 til að fá efnisdóm um kröfuna.

                Undir öðrum lið (1.2) er krafist viðurkenningar á því að stefnendum JTI og JT-F sé heimilt að miðla staðeyndum um tjöru- og nikótínmagn, tóbaksblöndun, umbúðir, uppruna, vörumerkjaréttindi, markaðshlutdeild og verð varðandi tóbaksvörur stefnanda JTI til stefnanda Tóbaksverslunarinnar Bjarkar. Ekki er upplýst um viðskiptasamband milli þessara stefnenda og eru engar löglíkur á að það sé fyrir hendi. Af því verður ráðið að samskipti þeirra á milli geti ekki verið annars konar en til kynningar og markaðssetningar á tóbaksvörum. Dómkrafan tekur til nokkurra þátta sem erfitt er að henda reiður á. Ekkert er afmarkað í kröfugerðinni hvaða „staðreyndir“ átt er við um einstök efnisatriði. Að því er varðar tjöru- og nikótínmagn kann að vera átt við magn í einstökum vörutegundum, en á hinn bóginn eru skýr ákvæði um merkingar á sígarettupökkum í lögum og reglugerð þar sem sams konar upplýsingar komast til skila. Hvaða staðreyndir átt er við varðandi tóbaksblöndum, umbúðir eða uppruna kemur ekkert fram um í stefnu, en sitthvað af staðreyndum um það kemur fram á þeim tóbaksvörum JT sem Tóbaksbúðin Björk kann að selja. Alls er því óvíst um inntak þessarar kröfu. Hvað átt er við með að miðla staðeyndum um vörumerkjaréttindi er allt of víðtækt þannig að unnt væri að dæma um. Hvað varðar markaðshlutdeild og verð þá verður með engu móti séð hver geti verið tilgnagurinn með slíkri miðlun. Þegar skoðuð væru almennt einstök atriði í kröfunni er ugglaust svo um sum þeirra að lög standa því ekki í vegi að vissar upplýsingar berist til söluaðila, enda er framleiðendum tóbaks beinlínis skylt að standa straum af kostnaði við að tóbaksvörur séu merktar á tiltekinn hátt sem inniheldur margar af staðreyndum um þau atriði sem kröfugerðin gæti náð til. Vegna óskýrleika hennar og því hver tengsl geta verið milli JTI og JTI-F annars vegar og Tóbaksbúðarinnar Bjarkar hins vegar virðist kröfunni ætlað að ná markmiði sem stríðir gegn ákvæðum 7. gr. tóbaksvarnalaga. Þessi kröfuliður er svo óljós að hann uppfyllir ekki áskilnað 25. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýrleika..

                Þriðji liður dómkrafna (1.3) geymir tilvísun í dómskjal og uppfyllir að mati stefnda ekki áskilnað 1. og 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt greindum ákvæðum verður krafa um viðurkenningu réttinda eða réttarsambands að koma fram og vera orðuð í stefnu. Efnislegt inntak dómkröfu verður að koma fram í stefnu þannig að ljóst sé að krafist sé dóms sem myndi ráða tilteknu sakarefni til fullnaðarlykta á einn veg eða annan. Ekki nægir að vísa til dómskjals. Hvað varðar textann á dskj. nr. 3 þá er hann margvíslegur. Verði ekki fallist á frávísunarkröfu er engu að síður ljóst að birting textans væri skýlaust brot á 7. gr. tóbaksvarnalaga, sbr. skilgreiningu 3. töluliðs 3. mgr. 7. gr. tóbaksvarnalaga.

Niðurstaða:

Vegna ákvæðis 6. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2002 er þeim, sem selja tóbak, hvorki heimilt að hafa vöruna sýnilega viðskiptavinum né vörumerki tóbaks. Má ganga út frá því, að slíkar hömlur séu líklegar til að hafa áhrif á sölu  til neytenda á varningi frá sóknaraðilum, en árangur í sölustarfi smásalans, stefnandans Tóbaksverslunarinnar Bjargar, hefur augljós áhrif á hagsmuni allra stefnenda. Með vísan til þessa og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar þann 29. október sl. í málinu nr. 388/2003, verður fallist á, að stefnendur eigi lögvarða hagsmuni af því, að fá dóm um þessa kröfu. Verður því að hafna kröfu stefnda um frávísun hennar frá dómi.

   Eins og 2. og 3. kröfuliðir stefnenda eru fram settir, eru þær spurningar um annars vegar, hvort nánar tiltekin tilvik, þ.e. hvort stefnendum JTI og JTIF sé heimilt að miðla nánar tilteknum upplýsingum til stefnanda Tóbaksverslunarinnar Bjarkar, og hvort þeim sé heimilt að birta nánar tiltekinn texta í íslenskum fjölmiðlum, falli undir ákvæði 7. gr. laga nr. 6/2002 um bann við auglýsingum á tóbaki og tóbaksvörum, og hins vegar um það hvort þessi sömu ákvæði í lögunum séu stjórnskipulega gild, þar sem þau fari í bága við ákvæði stjórnarskrár og alþjóðlegra samninga, sem Íslands er aðili að. Verður ekki annað séð, en að stefnendur krefji dóminn álits um hreint lögfræðilegt efni, enda verður að líta svo á, að texti sá, sem skírskotað er til í kröfugerðp og er að finna á dskj. nr. 3, hafi verið saminn í dæmaskyni og til þess eins að láta á hann reyna í máli þessu. 

Stefnendur hafa ekki sýnt fram á, að þeir eigi lögvarða hagsmuni af því, að fá viðurkennt með dómi fyrirfram, að þeim sé heimilt að senda meðstefnanda sínum Tóbaksversluninni Björk þær upplýsingar, sem nefndar eru í kröfulið 2, eða aðrar upplýsingar, eða að þeir eigi lögvarða hagsmuni að því, að fá viðurkennt með dómi fyrirfram, að þeim sé heimilt að birta texta þann, sem skírskotað er til í kröfulið 3.

Ber með vísun til 1. og 2. mgr.  25. gr. laga nr. 91/1991  að vísa kröfuliðum 2 og 3 frá dómi.

Málskostnaður verður ekki úrskurðaður í þessum þætti málsins.

Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o ð:

Kröfu stefnda, íslenska ríkisins, um að vísað verði frá dómi 1. kröfulið í kröfugerð stefnenda, J.T. International S.A., J.T. International Finland OY., og Tóbaksverslunarinnar Bjarkar, er hafnað.

Vísað er frá dómi 2. og 3. kröfulið stefnenda, J.T. International S.A. og J.T. International Finland OY.

Málskostnaður fellur niður.