Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-86
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattalög
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Skilorð
- Sekt
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 11. júní 2024 leitar Gunnar Viðar Bjarnason leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. maí sama ár í máli nr. 57/2023: Ákæruvaldið gegn Gunnari Viðari Bjarnasyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 14. maí 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri Spár ehf. rekstrarárið 2019, sem daglegum stjórnanda allt tímabilið og stjórnarmanni og prókúruhafa félagsins til 5. ágúst 2019. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin sjö mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár og var honum gert að greiða sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 66.500.000 krónur.
4. Í dómi Landsréttar var kröfu leyfisbeiðanda um frávísun málsins frá héraðsdómi hafnað en þá kröfu byggði hann einkum á því að málið hefði ekki verið nægilega rannsakað og að saksókn hefði farið í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Sýknukröfu sína byggði leyfisbeiðandi á því að greiðslum Spár ehf. á sköttum og gjöldum hefði ekki verið ráðstafað í samræmi við þau fyrirmæli sem um það gilti og nú sé kveðið á um í reglum nr. 797/2016 um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda. Landsréttur taldi ekkert fram komið í málinu sem gæfi tilefni til að ætla að greiðslum félagsins fram til þess að greiðsluáætlun komst á milli Skattsins og félagsins eða ráðstöfun greiðslna á grundvelli hennar hefði verið í andstöðu við vilja ákærða eða opinber fyrirmæli og dómaframkvæmd.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu. Hann vísar til þess að verulegu máli skipti að borgarar séu ekki sakfelldir þegar verulegir misbrestir hafi verið á rannsókn máls og sönnunarfærslu um atriði sem hafi mikil áhrif á saknæmi og refsinæmi háttsemi sem ákæra laut að. Þar vísar hann til þess að hann hafi ítrekað gert kröfu um að rannsakað yrði hvort eldri greiðslum félagsins hafi verið ráðstafað í andstöðu við reglur nr. 797/2016. Það hafi ákæruvaldið og rannsakendur ekki gert og leyfisbeiðandi hafi ekki aðgang að upplýsingum um hvernig þeim greiðslum hafi verið ráðstafað. Þá telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulega þýðingu um gildi fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 6/2021 um meðferð skattalagabrota. Einnig byggir leyfisbeiðandi á því að meðferð málsins hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.