Hæstiréttur íslands

Mál nr. 319/1999


Lykilorð

  • Leigusamningur
  • Lausafé


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. janúar 2000.

Nr. 319/1999.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Ljóninu ehf.

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

 

Leigusamningur. Lausafé.

Umboðsmaður tryggingarfélagsins T fór þess á leit við bílaleiguna L, að hún legði K til bifreið til afnota meðan bifreið K væri í viðgerð eftir umferðaróhapp, en T og L höfðu gert með sér sérstakan samning um leiguverð bifreiða. L afhenti K bifreiðina, en að kvöldi sama dags eyðilagðist bifreiðin við ákeyrslu. L krafði T um skaðabætur fyrir bifreiðina, þar sem T hefði verið leigutaki hennar og borið ábyrgð á skemmdum, sem á henni kynnu að verða meðan hann hefði umráð hennar. T taldi hins vegar K hafa verið leigutaka bifreiðarinnar og því bera ábyrgð á skemmdunum. Talið var, að í málatilbúnaði L fælist staðhæfing um að T hefði með samningi við L ábyrgst afnot tjónþola af bifreiðum, sem þeir fengju tímabundið til umráða. Var talið að slík skuldbinding væri óvenjuleg og umfram þá, sem T hefði áður undirgengist í vátryggingarsamningum. Þótti L bresta sönnun fyrir því, að efni samninga málsaðila hefði verið þess efnis, sem hann hélt fram. Var T sýknað af kröfu L um skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 1999. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem rakið er í héraðsdómi á ágreiningur málsaðila rætur að rekja til þess að 4. september 1997 sendi stefndi, sem rekur Bílaleiguna Erni á Ísafirði, umboðsmanni áfrýjanda þar svohljóðandi tilboð: „Samkv. símtali í dag geri ég eftirfarandi tilboð f. alla meðalstóra fólksbíla. Kr. 1.470 pr dag + vsk = 1.830.-“ Á skjalið er ritað samþykki viðtakanda. Eru málsaðilar sammála um að í október sama árs hafi þeir breytt samningnum þannig að daggjald yrði 2.580 krónur, en í þeirri fjárhæð væri jafnframt innifalin greiðsla fyrir 30 kílómetra akstur á dag. Er fram komið að ástæðan fyrir þeirri breytingu hafi verið óánægja þeirra, sem fengu umráð bifreiða samkvæmt samningi málsaðila, með að þurfa sjálfir að greiða fyrir öll afnot bifreiðar önnur en fast daggjald.

Í nóvember 1997 fór umboðsmaður áfrýjanda þess á leit við stefnda að hann legði Katrínu Jónsdóttur til bifreið, sem hún hefði afnot af meðan bifreið sú, er hún hafði umráð yfir, væri í viðgerð eftir umferðaróhapp. Afhenti stefndi Katrínu af þessu tilefni bifreiðina PV 013 hinn 24. sama mánaðar. Að kvöldi sama dags eyðilagðist bifreiðin við ákeyrslu, en ökumaður var þá sonur nefndrar Katrínar. Ekki hafði verið keypt húftrygging fyrir bifreiðina. Krefur stefndi áfrýjanda um skaðabætur fyrir hana á þeim grundvelli að hinn síðarnefndi hafi verið leigutaki bifreiðarinnar samkvæmt samningi við stefnda og borið ábyrgð á skemmdum, sem kynnu að verða á henni meðan hann hefði umráð hennar. Áfrýjandi telur sig hins vegar ekki hafa tekið bifreiðina á leigu, heldur hafi Katrín gert það með nafnritun sinni á samninginn, er hún tók við bifreiðinni. Beri hún samkvæmt því ábyrgð á tjóninu. Mótmælir hann því jafnframt að hafa látið í ljós við stefnda ósk um að ekki yrði keypt húftrygging vegna afnota Katrínar af bifreiðinni. Engu geti skipt fyrir niðurstöðu málsins þótt stefndi hafi einhliða og án heimildar ritað nafn áfrýjanda sem leigutaka í þar til gerðan reit á stöðluðu eyðublaði fyrir leigusamning.

II.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að í samningi aðila hafi ekki falist annað en ákvörðun um afslátt á daggjaldi fyrir afnot bifreiða stefnda. Ætti það við bæði þegar starfsmenn áfrýjanda þyrftu á bifreið að halda og þegar áfrýjandi yrði að bæta tjónþolum afnotamissi bifreiða sinna vegna óhappa, sem þeir lentu í, og áfrýjandi væri skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi til að bæta þeim. Í báðum tilvikum skyldi áfrýjandi greiða gjaldið beint til stefnda. Aðeins í fyrrnefndu tilvikunum væri réttmætt að áfrýjandi teldist sjálfur leigutaki þegar stefndi afhenti samkvæmt ósk hans bifreið til afnota með stoð í samningnum um gjald fyrir þau. Eðli máls samkvæmt ætti það hins vegar alls ekki við í síðargreindu tilvikunum. Þar yrði að líta til þess að áfrýjandi hefði ekki skuldbundið sig til að bæta annað en tjón á bifreið við tilteknar aðstæður og kostnað tjónþolans af því að missa afnot hennar meðan á viðgerð stæði. Það gerði hann með því að greiða fyrir hann fast gjald fyrir afnot leigubifreiðar og akstur að ákveðnu marki. Með vátryggingarsamningi hefði hann hins vegar ekki tekið á sig að ábyrgjast afnot af slíkri bifreið og þar með tjón, sem á henni kynni að verða fyrir sök notandans. Það væri áfrýjanda óviðkomandi og hann hafi ekki aukið við skyldur sínar með samningi við stefnda um afslátt á daggjaldi. Samningur málsaðila hefði hins vegar orðið þeim báðum til hagsbóta. Stefnda hafi með honum verið tryggð viðskipti og öruggar greiðslur hjá áfrýjanda, en hinn síðarnefndi lækkað með þessu kostnað, sem hann þyrfti að bera vegna afnotamissis tjónþola af eigin bifreiðum. Jafnframt feli samningurinn í sér einföldun á uppgjöri bóta fyrir afnotamissi bifreiða, því í stað þess að tjónþolar greiði sjálfir fyrir afnot leigubifreiða og endurkrefji síðan áfrýjanda, greiði hann beint til stefnda fyrir afnotin að því marki, sem í samningnum greini.

III.

Fram er komið að auk leigugjalds fyrir hvern dag krafði stefndi um gjald fyrir hvern kílómetra, sem leigutaki ók bifreið í hans eigu. Eru sérstakir reitir á stöðluðu eyðublaði leigusamningsins fyrir hvort tveggja. Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að hann hafi ekki talið sér heimilt að krefja áfrýjanda um síðarnefnda gjaldið samkvæmt samningi þeirra 4. september 1997 eða gjald umfram 30 kílómetra akstur á dag eftir breytingu, sem gerð var á samningnum í október sama árs. Er fram komið að frá september 1997 til 24. nóvember sama árs afhenti stefndi tjónþolum bifreiðir í þrem tilvikum, þar sem hann tiltók áfrýjanda sem leigutaka í samingunum. Hann hefur hins vegar enga skýringu gefið á því með hvaða rétti hann taldi sig geta krafið notandann um greiðslu fyrir akstur bifreiðanna, fyrst hann taldi sig hafa stofnað til samningssambands við áfrýjanda sem leigutaka þeirra.

Í málatilbúnaði stefnda felst staðhæfing um að áfrýjandi hafi með samningum við sig tekist á herðar skuldbindingu um að ábyrgjast afnot tjónþola af bifreiðum, sem þeir fengju tímabundið til umráða. Telja verður að slík skuldbinding væri óvenjuleg og umfram þá, sem áfrýjandi hafði áður undirgengist í vátryggingarsamningum. Brestur stefnda sönnun fyrir því að efni samninga málsaðila hafi verið þess efnis, sem hann heldur fram. Engin skýring er heldur fram komin á því hvert samningssamband stefndi telji hafa verið milli sín og notenda bifreiðanna.  Að öllu þessu virtu getur ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins þótt stefndi hafi skráð áfrýjanda sem leigutaka í þrem fyrri samningum, þar sem tjónþolar fengu afnot bifreiða stefnda fyrir milligöngu áfrýjanda. Er þá einnig til þess að líta að Bílaleigan Ernir hafði enn áður tvívegis veitt tjónþolum umráð bifreiða að ósk áfrýjanda, þar sem þeir voru í leigusamningi sjálfir skráðir leigutakar en ekki áfrýjandi. Eigendaskipti að bílaleigunni, sem urðu eftir það í maí 1997, breyta engu í því tilliti.

Samkvæmt öllu framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfu stefnda, Ljónsins ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 18. maí 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 20. apríl sl., að undangengnum munnlegum málflutningi, hefur Ljónið ehf., kt. 600269-7129, Skeiði 1, Ísafirði, höfðað hér fyrir dómi með stefnu 30. nóvember 1998 á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér kr. 600.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, frá 1. febrúar 1998 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 25/1987. Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Stefnandi rekur bílaleiguna Erni hér á Ísafirði. Þann 24. nóvember 1997 leigði hann út bifreið af gerð Mitsubishi Lancer og skráði stefnda sem leigutaka á samnings­eyðublað. Samningurinn er undirritaður af Katrínu Jónsdóttur. Sonur hennar ók bifreiðinni út af vegi sama dag og segir stefnandi hana hafa verið það mikið skemmda að ekki hefði svarað kostnaði að gera við hana. Í máli þessu krefur hann stefnda um bætur fyrir bifreiðina, en stefndi kveðst ekki hafa tekið bifreiðina á leigu og því ekki eiga að svara bótum fyrir hana.

Stefnandi kveðst hafa rekið nefnda bílaleigu um nokkurra ára skeið og meðal viðskiptavina sinna hafi verið tryggingafélög, sem hafi verið töluvert stórir við­skipta­vinir, þar sem þau hafi bæði leigt bifreiðir fyrir starfsmenn sína og vátryggða sem hafi lent í umferðaróhöppum og þurft á leigðum bifreiðum að halda á meðan gert væri við bifreiðir þeirra. Flest tryggingafélögin hefðu óskað eftir lægra leigugjaldi en almennt gerðist og hefði það átt við um stefnda, sem hefði fengið tilboð frá stefnanda 4. september 1997, um 1.830 króna leigugjald á dag og samþykkt það daginn eftir. Í október sama ár hefði samist um þá breytingu að gjaldið yrði 2.580 krónur, með 30 kílómetra akstri inniföldum. Segir stefnandi hafa verið farið eftir þessu samkomulagi að öllu leyti, er stefndi hefði tekið bifreiðir á leigu hjá sér.

Stefnandi segir umboðsmann stefnda, Vigni Jónsson, hafa haft samband við fyrirsvarsmann sinn þann 24. nóvember 1997 og óskað eftir bifreið á leigu fyrir Katrínu Jónsdóttur, og tjáð honum að Katrín kæmi að sækja bifreiðina. Hefði það gengið eftir, og Katrín sótt bifreiðina og undirritað leigusamninginn, sem hefði verið útbúinn hvað leigugjald varðaði, í samræmi við ofangreint samkomulag málsaðila um það. Hefði bifreiðin ekki verið húftryggð, enda hefði það verið undantekningarlaust að stefndi hefði ekki óskað eftir slíkri tryggingu er hann hefði leigt bifreiðir af stefn­anda.

Stefnandi kveðst telja stefnda hafa verið leigutaka samkvæmt samningi um leigu bifreiðarinnar og bera ábyrgð á tjóni á henni á leigutímanum. Bótaábyrgðina byggir hann á ákvæðum leigusamningsins sjálfs, sem kveður á um það að leigutaki beri ábyrgð á tjóni sem hann valdi á leigðri bifreið á leigutíma.

Því til sönnunar að stefndi hafi verið leigutaki bendir stefnandi á að það hafi verið forsenda af sinni hálfu fyrir lægra leigugjaldi en ella, því stefndi sé stór við­skipta­vinur og skilvís greiðandi. Hann hafi margoft leigt af stefnanda bif­reiðir, bæði þar sem starfsmenn hans hafi verið tilgreindir ökumenn, og þegar trygg­ingatakar stefnda hafi verið tilgreindir ökumenn. Í öllum tilvikum hafi stefndi verið tilgreindur sem leigutaki, en viðkomandi starfs­maður eða tryggingataki sem ökumaður. Hafi stefndi aldrei gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag og greitt reikninga og leigusamninga, sem settir hefðu verið upp með þessum hætti.

Stefnandi vísar um lagarök til meginreglna samningalaga og kaupalaga.

Stefndi kveður sig hafa verið bótaskyldan gagnvart Katrínu Jónsdóttur, vegna tjóns sem orðið hefði á bifreið hennar. Hefði hún m.a. átt rétt á bótum fyrir afnota­missi. Hefði stefndi samþykkt að greiða kostnað vegna bílaleigubifreiðar fyrir hana meðan bifreið hennar hefði verið í viðgerð. Umboðsmaður stefnda hefði því hringt í stefnanda og óskað þess að Katrín fengi að taka bifreið á leigu, enda myndi stefndi greiða fastagjaldið í samræmi við nýlega gerðan samning um það. Kveðst stefndi hins vegar ekki hafa samþykkt að vera leigutaki, eða að Katrín hefði umboð til að skuld­binda sig sem leigutaka. Telur stefndi að samningur aðila í október 1997 hafi ekki verið gerður á þeirri forsendu að stefndi teldist leigutakinn og að fyrri tilhögun bendi ekki til þess að stefndi hafi gefið þegjandi samþykki fyrir því að teljast leigutaki. Bendir hann á það að samningur aðila um daggjald hafi verið gerður í október 1997 og fram til 24. nóvember það ár hefði stefndi greitt kostnað vegna þriggja bifreiða sem tjónþolar hefðu tekið á leigu. Hefðu þeir reikningar verið greiddir 10. október og 4. nóvember 1997 og séu þá upp talin þau tilvik þar sem stefndi hefði greitt stefnanda kostnað vegna leigu á bifreiðum fyrir 24. nóvember 1997. Í þessum tilvikum hefði stefnandi skráð stefnda sem leigutaka. Telur stefndi að ekki verði dregin sú ályktun af þessum þremur tilvikum að stefndi hefði samþykkt einhliða skráningu stefnanda á sér sem leigutaka. Á árunum 1992-1997 hefði stefndi aðeins tvisvar sinnum greitt bílaleigukostnað til Bílaleigunnar Ernis, Odds hf. og í hvorugt skiptið verið skráður sem leigutaki. Þann 24. nóvember 1997 hefði því ekki verið komin á venja um að stefndi teldist leigutaki, er tjónþolar hefðu tekið bifreiðir á leigu. Eftir 24. nóvem­ber 1997 hefði verið gengið þannig frá málum að stefnandi ætti ekki að velkjast í vafa um að stefndi væri ekki leigutaki í þessum tilvikum, en stefnandi hefði þó ekki óskað eftir endurskoðun daggjalds og það sé því ljóst að daggjaldið hafi ekki verið ákveðið á þeirri forsendu að stefndi teldist leigutaki.

Við aðalmeðferð málsins gáfu Heiðar Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefn­anda og Vignir Jónsson, umboðsmaður stefnda á Ísafirði, skýrslur fyrir dómi. Kom fram í skýrslum beggja að sá síðarnefndi hefði hringt í þann fyrrnefnda og spurt sem svo hvort hann ætti bíl fyrir Katrínu Jónsdóttur. Játaði sá fyrrnefndi því. Að því búnu mun Katrín hafa farið á starfstöð stefnanda, þar sem hún undirritaði leigu­samning, sem fyrirsvarsmaður stefnanda fyllti út, þar sem stefndi var tilgreindur sem leigu­taki.

Í málinu liggur fyrir ofangreint tilboð stefnanda til umboðsmanns stefnda um ákveðið leigugjald á dag fyrir meðalstóra fólksbíla, áritað um samþykki af um­­boðs­­manninum. Tilboð þetta er dagsett 4. september 1997. Það er áritað um breyt­ingu í október 1997, þar sem tiltekið er leigugjald með inniföldum 30 kíló­metrum. Fram kom hjá fyrirsvarsmanni stefnanda að hér hefði verið um að ræða mun betri kjör en viðskiptavinum hans hefðu almennt verið boðin.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda hafði hann greitt þrjá reikninga frá stefnanda vegna bifreiða „sem tjónþolar höfðu tekið á leigu“, frá því að þessi samningur um leigugjald var gerður, fram til þess að ofangreind Lancerbifreið eyði­lagðist. Segir stefndi að reikningarnir hafi verið greiddir 10. október og 4. nóvember 1997. Stefndi hefur lagt fram ljósrit þessara leigusamninga og er hann til­greindur sem leigutaki í þeim öllum. Verður að telja að hann hafi bæði haft tilefni og ráðrúm til að hlutast til um það þá þegar er þeir bárust honum til greiðslu að breyting yrði gerð á þessu í síðari skiptum hans við stefnanda.

Samkvæmt ofansögðu var það eftir munnlegri beiðni umboðsmanns stefnda sem Katrín Jónsdóttir fékk bifreiðina hjá stefnanda. Skráði fyrirsvarsmaður stefnanda stefnda sem leigutaka. Fyrir liggur að það hafði hann áður gert með sama hætti í sambærilegum skiptum sínum við stefnda, án þess að hafa fengið athugasemdir. Í samningnum tilgreindi hann leiguverð í samræmi við samning sinn við stefnda.

Með tilliti til fyrri samskipta aðila og þess að það var að tilhlutan um­boðs­manns stefnda sem Katrín fékk bifreiðina hjá stefnanda, þykir verða að leggja hallann af því á stefnda að hafa ekki gert það nægilega ljóst að hann ætti ekki að vera leigutaki bifreiðarinnar. Verður því fallist á það með stefnanda að samningurinn hafi verið bindandi fyrir stefnda sem leigutaka. Ekki er deilt um það í málinu að leigutaki bifreiðarinnar sé bótaskyldur gagnvart stefnanda fyrir því tjóni sem á henni varð. Verður stefndi því dæmdur til greiðslu bóta fyrir bifreiðina.

Tjón stefnanda hefur ekki verið metið. Þann 12. desember 1997 gerði hann stefnda reikning fyrir andvirði bifreiðarinnar, kr. 850.000 og var stefnufjárhæð máls þessa byggð á þeim reikningi. Við aðalmeðferð málsins lýstu aðilar sig sammála um að virða tjónið á kr. 600.000 og lækkaði stefnandi dómkröfur sínar til samræmis við það. Með vísan til þessa verður fallist á mótmæli stefnda gegn upphafstíma dráttarvaxta, sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Skal ofangreind fjárhæð bera vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989, eins og nánar greinir í dómsorði, frá 24. nóvember 1997 til dómsuppsögu, en dráttarvexti upp frá því samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Málskostnaður ákveðst kr. 140.000.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, Ljóninu ehf., kr. 600.000, með vöxtum af þeirri fjárhæð eins og hér greinir: 0,8% ársvöxtum frá 24. nóvember 1997 til 1. janúar 1998, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1999, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til uppsögu þessa dóms, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags og kr. 140.000 í málskostnað.