Hæstiréttur íslands

Mál nr. 316/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 24. október 2013.

Nr. 316/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

Sigurður Snædal Júlíusson hdl.)

(Kristján Stefánsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Sératkvæði.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn A með því að hafa á tilteknu tímabili, þegar A var 14 til 15 ára, með ólögmætri nauðung margoft haft munnmök við A þegar hann var sofandi og gat ekki spornað gegn kynmökunum, í eitt skipti fengið A til að fróa sér og í eitt skipti reynt að hafa endaþarmsmök við A, en X hefði notfært sér yfirburðastöðu sína gagnvart A vegna aldurs, reynslu og líkamlegra yfirburða og brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart honum. Var X sakfelldur í héraði og gert að sæta fangelsi í þrjú ár. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að þótt framburður A hjá lögreglu og fyrir dómi hefði verið efnislega samhljóða og metin trúverðugur í héraðsdómi, hefði framburðurinn ekki þá stoð, sem gera yrði kröfu um í sakamáli, í skýrslum annarra vitna eða hlutrænum sönnunargögnum. Þá hefði X staðfastlega neitað sök. Taldi Hæstiréttur að ákæruvaldið hefði ekki axlað sönnunarbyrði samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fyrir því að X hefði framið þau brot sem honum voru gefin að sök. Var X því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar á refsingu. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði en til vara að hinn áfrýjaði dómur verið staðfestur um einkaréttarkröfu sína. Þá krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða sér kostnað „við að halda fram kröfum ... undir lögreglurannsókn“ að fjárhæð 277.675 krónur.

I

Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa á tímabilinu frá janúar til nóvember 2001 í íbúðarhúsnæði sínu við [...] í Reykjavík og síðar að [...] í Kópavogi margoft haft munnmök við A, sem ekki hafi getað spornað við kynmökunum, í eitt skipti fengið A til að fróa sér og fyrir tilraun til endaþarmsmaka við A í eitt skipti með því að ýta getnaðarlimi sínum að endaþarmi hans. Sakfellingin var einkum reist á því að framburður A var af héraðsdómi metinn trúverðugur og talið unnt að leggja hann til grundvallar í málinu, auk þess sem dómurinn taldi framburðinn fá stoð í framburðum vitna, sem reifaðir eru í forsendum dómsins. Ekki var sérstakt mat lagt á trúverðugleika framburðar ákærða að öðru leyti en því að í dóminum sagði að framburður hans um ætlaða hassneyslu A væri afar ótrúverðugur.

Mat héraðsdóms á trúverðugleika og þar með sönnunargildi framburðar A verður ekki endurmetið af Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem hann hefur ekki gefið skýrslu hér fyrir dómi. Á hinn bóginn verður að gera kröfu til þess að framburðurinn, eigi hann að vera grundvöllur sakfellingar, fái næga stoð í framburði ákærða, eða annarra vitna en A eða öðrum sönnunargögnum, sem teflt er fram í málinu.

II

Ákærði hefur eindregið neitað sök. Er samræmi í skýrslum hans um atvik máls hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi. Framburður hans um atvik sem lúta að sakargiftum þeim, sem eru bornar á hann, hefur ekki verið metinn ótrúverðugur í hinum áfrýjaða dómi.

Vitnið E, sem gaf símaskýrslu hjá lögreglu 22. september 2011,  upplýsti þar að hann hefði verið sjómaður og búið hjá ákærða í landlegum er ákærði bjó í [...] og á [...]. Hann kvað A hafa komið í íbúðina og gist þar nokkuð og verið þá með móður sinni. Hann kvaðst ekki hafa rætt við A og aldrei hafa séð né heyrt að neitt kynferðislegt hafi verið á milli ákærða og A. Fyrir dómi kvaðst þetta vitni hafa gist hjá ákærða þegar hann var í landi. Hann hafi alltaf verið fullur í landlegum og að auki verið að afplána fangelsisrefsingu frá 1. maí til 7. nóvember 2001. Hann var spurður hvort hann hefði orðið var við að einhver kynferðisleg háttsemi hafi verið milli ákærða og A og neitaði hann því. Ítrekað spurður sagði hann að í eitt skipti er hann hafi komið af sjónum til að gista hjá ákærða hafi sér fundist það skrýtið er ákærði hafi komið til dyra að hann var tannlaus, svo vitnið hafi ekki þekkt hann. Vitnið hafi farið inn í stofu íbúðarinnar, en ákærði inn í herbergi  og stuttu síðar hafi A komið út úr herberginu. Vitnið kvaðst hafa hugsað um hvað A væri að gera þarna, en hann hafi oft verið búinn að sjá A þarna og vitað til þess að það væru vandræði hjá honum. Hann kvaðst hafa fengið eitthvað á tilfinninguna ,,andrúmsloftið eða hvað það var. Það var bara eitthvað sem ég fann eða fannst, en kynferðislegt sá ég aldrei neitt með berum augum.“ Vitnið E er hið eina af þeim vitnum, sem skýrslu gáfu hjá lögreglu eða fyrir dómi, sem kemst nærri því að hafa getað borið af eigin raun um atvik máls, sem ákært er fyrir. Af skýrslu þessa vitnis verða ekki með neinni vissu dregnar ályktanir sem stutt geta sakargiftir á hendur ákærða.

Engin hlutræn sönnunargögn renna stoðum undir að ákærði hafi framið þau brot sem hann er sakaður um í málinu og önnur vitni en E reisa öll frásögn sína um málsatvik á upplýsingum frá A.

Móðir A gaf skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi en hún þekkti ákærða frá gamalli tíð og höfðu þau umgengist bæði meðan þau bjuggu í [...] og eftir að þau fluttu á höfuðborgarsvæðið. Af framburði hennar er ekki ljóst hve mikið hún vandi komur sínar með A til ákærða, en þó liggur fyrir að hún kom þar nokkuð. Hún kvaðst fyrir dómi hvorki hafa orðið vör við né vitað til þess að ákærði væri að brjóta gegn A kynferðislega og kvaðst ekki einu sinni hafa grunað það. C, bróðir A, sem bjó annars staðar á þessum tíma, bar að hann hefði ekki vitað um að ákærði hefði brotið á A fyrr en nokkru síðar. A mun hafa greint móður sinni og bróður frá ætluðum brotum ákærða þegar A dvaldi til meðferðar á geðdeild seint á árinu 2001.

Með bréfi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 6. desember 2001 til lögreglu var óskað eftir því að rannsakað yrði hvort brotið hefði verið kynferðislega gegn A. Í bréfinu var þess auk annars getið að ábendingar hefðu borist nefndinni um kynferðislega misnotkun á honum og meðal annars að móðir hans hafi haft milligöngu um slíkt. Málið var rannsakað af hálfu lögreglu og teknar skýrslur af vitnum meðal annars af A fyrir dómi 25. janúar 2002. Þar bar A sakir á tiltekinn mann um að hann hefði áreitt hann kynferðislega, en þótt hann væri ítrekað spurður um ætluð brot ákærða gegn honum neitaði hann að tjá sig um þau. Í upplýsingaskýrslu lögreglu 1. nóvember 2002 kom fram að í ágúst sama ár hafi verið óskað eftir því að skýrsla yrði tekin af A fyrir dómi um ætluð kynferðisbrot ákærða. A hafi á síðari stigum greint starfsmanni Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá því að hann myndi ekki tjá sig um þetta efni og teldi lögregla því ekki ástæðu til annars en að afturkalla beiðni um skýrslutöku. Rannsókn lögreglu vegna beiðni Barnaverndarnefndar Reykjavíkur leiddi ekki til þess að ákæra yrði gefin út.

Framburður vitnisins Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings, er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Ótvírætt er að A tjáði sig við hann á árinu 2002 um ætluð brot er A dvaldi á meðferðarheimilinu [...] í [...] þar sem Jón Friðrik starfaði. Jón Friðrik ritaði bréf til lögreglu að hennar beiðni 4. nóvember 2011 sem hann reisir á minnispunktum sínum frá þeim tíma er hann vann á [...]. Í bréfinu er ætluðum brotum ákærða lýst í stuttu máli og er það gert nokkuð á sama hátt og A bar síðar og ákært er fyrir í málinu. Vitnisburður þriggja annarra heilbrigðisstarfsmanna, sem með einum eða öðrum hætti komu að læknismeðferð á A og gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi, ber ekki skýrlega með sér að A hafi tjáð sig við þau sérstaklega um þau brot sem ákært er fyrir í þessu máli, fremur en önnur brot sem hann telur sig hafa orðið fyrir í [...] eða þau sem til rannsóknar voru að tilhlutan Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og heilbrigðisstarfsfólk hafði skráðar upplýsingar um. Skýrsla starfsmanns nefndarinnar fyrir dómi verður heldur ekki talin styðja sakargiftir á hendur ákærða í máli þessu.

A mætti hjá lögreglu 16. nóvember 2010 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir þær sakir, sem síðar var ákært fyrir í málinu. Það var níu árum eftir að ætluðum brotum á að hafa lokið. Þótt framburður A hjá lögreglu og fyrir dómi hafi verið efnislega samhljóða og metinn trúverðugur hefur framburðurinn ekki þá stoð, sem gera verður kröfu um í sakamáli, í skýrslum annarra vitna eða hlutrænum sönnunargögnum. Ákærði hefur sem fyrr segir staðfastlega neitað sök. Þótt hann hafi með dómi Hæstaréttar [...], sem birtur er á síðu 639 í dómasafni réttarins það ár, verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum drengjum á aldrinum níu til tólf ára, fær það í þessu máli ekki breytt þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið hefur ekki axlað sönnunarbyrði samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um að ákærði hafi framið þau brot, sem hann er hér sakaður um. Verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Samkvæmt þessu verður einkaréttarkröfu A vísað frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi verður felldur á ríkissjóð ásamt þóknun Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, vegna réttargæslu fyrir A á rannsóknarstigi, sem ákveðst 125.500 krónur og útlögðum kostnaði hans vegna sérfræðilegrar álitsgerðar 43.500 krónur. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns A sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.

Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, að viðbættri þóknun réttargæslumanns A við lögreglurannsókn 125.500 krónur og útlögðum kostnaði hans 43.500 krónur.

Sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur og þóknun réttargæslumanns A, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Sératkvæði

Ingibjargar Benediktsdóttur

Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi hefur brotaþoli lýst kynferðislegri háttsemi ákærða gagnvart sér á sama veg bæði við rannsókn málsins og fyrir dómi. Framburður hans var skýr og greinargóður og enginn misbrestur talinn vera á honum. Mat héraðsdómur framburð brotaþola trúverðugan. Fær hann stoð í vitnisburði Jóns Friðriks Sigurðssonar prófessors og sálfræðings fyrir dómi, en samkvæmt vætti hans og bréfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 7. ágúst 2002 skýrði brotaþoli honum frá því að ákærði hafi misnotað hann kynferðislega. Staðfesti Jón Friðrik fyrir dómi að þegar brotaþoli var á meðferðarheimilinu [...] á árinu 2002 hafi hann lýst því að ákærði hafi brotið gegn sér kynferðislega með þeim hætti sem lýst er í ákæru og á sama veg og brotaþoli hefur skýrt frá við rannsókn og meðferð þessa máls. Kom jafnframt fram í vitnisburði Jóns Friðriks að brotþoli hafi ekki verið reiðubúinn að skýra lögreglu frá misnotkuninni, hann hafi viljað „láta þetta bíða“. Á þessum tíma hafi drengurinn verið í frekar slæmu ástandi og liðið mjög illa. Um þetta sagði brotaþoli fyrir dómi að hann hafi skýrt Jóni Friðrik fyrstum frá misnotkuninni, en ekki verið tilbúinn í skýrslum sínum hjá lögreglu í janúar 2002 að skýra frá því að ákærði hafi brotið gegn sér. Móðir hans hafi ekki vitað á þessum tíma um þetta og hann ekki viljað leggja fram kæru á hendur ákærða þar sem hún hafi verið grunuð um að „að selja mig til homma“. Honum hafi verið sama um að skýra frá broti tiltekins manns þar sem það hafi verið minni háttar og sá maður hafi ætlað að kæra móður hans til barnaverndarnefndar, en á hinn bóginn „ekki alveg sama hvað ég sagði um X“. Það hafi verið „mun persónulegra.“ Þessar skýringar brotaþola hefur héraðsdómur metið trúverðugar og eru engin efni til að draga það mat í efna. Líta verður ennfremur til þess að brotaþoli var 14 til 15 ára á þeim tíma sem ætluð brot ákærða áttu sér stað og var því eðlilegt að hann legði ekki fram kæru fyrr en hann hafði aldur og þroska til þess. Hefur löggjafinn með setningu sérstakra fyrningarákvæða, annars vegar í 2. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/2007, og hins vegar í 1. mgr. 82. gr. laganna, miðað við að tiltekin kynferðisbrot gegn barni fyrnist ekki eða fyrning þeirra skuli teljast frá þeim degi er barn nær 18 ára aldri og þannig komið til móts við það sjónarmið að barn, sem hefur orðið fyrir kynferðisbroti verði að hafa náð þeim þroska sem nauðsynlegur er til þess að gera sér grein fyrir eðli háttseminnar sem það varð að þola, eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps til laga nr. 61/2007. Í þessu ljósi verður það ekki metið brotaþola í óhag að hann hafi ekki lagt fram kæru á hendur ákærða fyrr en raun varð á.

Brotaþoli bar sem fyrr segir að hann hafi ekki skýrt móður sinni frá framangreindri háttsemi ákærða þegar hann gaf skýrslur fyrir dómi í janúar 2002 og við rannsókn máls þessa í nóvember 2010, en í vætti hennar við aðalmeðferð málsins kemur fram að henni hafi ekki verið um þetta kunnugt fyrr en skömmu áður en hún gaf skýrslu sína þar. Á þeim tíma sem ætluð brot ákærða fóru fram naut brotaþoli hvorki athvarfs né stuðnings hjá móður sinni, sem þá var í mikilli óreglu. Var því ekki við að búast að hann skýrði móður sinni frá ætluðum brotum ákærða gegn sér á þessum tíma. Á hinn bóginn átti brotaþoli á sama tíma húsaskjól hjá ákærða og fékk hjá honum að auki mat og peninga.

Að virtu því sem að framan greinir en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms tel ég að staðfesta eigi niðurstöðu hans um sakfellingu ákærða. Ég er sammála heimfærslu héraðsdóms á háttsemi ákærða til refsiákvæða, niðurstöðu hans um refsingu, miskabætur og sakarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. mars 2013.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 27. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 6. júlí 2012, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], „fyrir kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], með því að hafa, á tímabilinu 2000 til nóvember 2001, þegar A var 14 til 15 ára, á heimilum ákærða í bílskúr í [...] í Reykjavík, sem ákærði leigði um tíma, og að [...] í Kópavogi, með ólögmætri nauðung notfært sér yfirburðastöðu sína gagnvart A vegna aldurs, reynslu og líkamlegra yfirburða og brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart A sem leitaði til ákærða, er fjölskylda hans varð húsnæðislaus, og fékk hjá honum húsaskjól, mat og pening fyrir nesti í skólann, auk þess sem ákærði hélt að honum fíkniefnum:

1.       Margoft haft munnmök við A er hann var sofandi og gat ekki spornað við kynmökunum.

2.       Í eitt skipti fengið A til að fróa sér.

3.       Í eitt skipti reynt að hafa endaþarmsmök við A með því að ýta getnaðarlimi sínum að endaþarmi hans.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, áður 195. gr. sömu laga, og 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem brot samkvæmt 1. ákærulið telst jafnframt varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, áður 196. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 2.732.175 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. júní 2010 til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta skv. 6. gr. sbr. 5. gr. til greiðsludags. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr hendi ákærða, brotaþola að skaðlausu, samkvæmt framlögðum reikningi.“

Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafa sæti lækkun. Loks er krafist hæfilegra málsvarnarlauna, sem að a.m.k. að hluta til verði lögð á ríkissjóð.

II.

Málsatvik eru þau að þriðjudaginn 16. nóvember 2010 mætti brotaþoli, A, að eigin frumkvæði á skrifstofu rannsóknadeildar lögreglu til að leggja fram kæru á hendur ákærða í máli þessu fyrir kynferðisbrot gagnvart sér þegar hann var á aldrinum 5-6 ára í [...] og 14-15 ára á heimilum ákærða í [...] í Reykjavík og á [...] í Kópavogi. Skýrði brotaþoli frá síðari brotunum á sama hátt og hann gerði hér fyrir dómi, en fyrri brotin voru talin fyrnd og var því ekki ákært vegna þeirra.

Á meðal gagna málsins eru rannsóknargögn í lögreglumáli nr. [...], en rannsókn þess máls beindist aðallega að ætlaðri kynferðislegri misnotkun móður brotaþola á honum, þ.e. að hún hefði selt hann mönnum gegn því að því að fá hass til eigin nota, en einnig að ákærða og þremur öðrum mönnum. Vísaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur málinu til rannsóknar hjá lögreglu með bréfi 6. desember 2001 eftir að brotaþoli hafði verið lagður inn á geðdeild og starfsmenn þar urðu varir við kynferðislega hegðun brotaþola gagnvart öðrum börnum á deildinni, en einnig eftir að maður, sem óskaði nafnleyndar, tilkynnti nefndinni um grun sinn um kynferðislega misnotkun móður á brotaþola.

Tekin var skýrsla af brotaþola í Barnahúsi 25. janúar 2002, en þá vildi brotaþoli ekki tjá sig um meint kynferðisbrot og sagði að um væri að ræða sín einkamál. Ákærði sagðist þó hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni þegar hann var 6 ára, sem hann vildi ekki lýsa frekar, og þá sagði hann að maður að nafni B, sem búið hefði á [...] í [...], hefði reynt að kyssa sig. Sérstaklega aðspurður um hugsanlega kynferðislega misnotkun ákærða sagðist brotaþoli ekki vilja ræða það og sagði að samskipti hans og ákærða væru fín. Þá kom fram hjá brotaþola að hann hefði oft gist hjá ákærða.

Vegna framangreindrar rannsóknar var gerð húsleit á heimili ákærða 8. janúar 2002, en ekkert fannst við leitina, sem tengdist hugsanlegu kynferðisbroti ákærða gegn brotaþola. Í skýrslu lögreglu vegna húsleitarinnar segir þó að í fataskáp undir samanbrotnum fötum hafi fundist gróf klámblöð, en um hafi verið að ræða fullorðinsklámblöð og því hafi þau ekki verið haldlögð.

Á meðal rannsóknargagna þessa máls er upplýsingaskýrsla lögreglu, dags. 1. nóvember 2002. Þar kemur fram að 7. ágúst 2002 hafi lögreglunni í Reykjavík borist bréf barnaverndarnefndar Reykjavíkur þess efnis að brotaþoli vildi tjá sig um kynferðisbrot, sem hann hefði orðið fyrir af hálfu ákærða. Hinn 21. ágúst 2002 hafi lögregla óskað eftir því við héraðsdóm að tekin yrði skýrsla af brotaþola, en skýrslutökunni hafi verið frestað að ósk réttargæslumanns brotaþola. Lögregla hafi rætt við Helgu Einarsdóttur starfsmann barnaverndarnefndar og hafi hún tjáð lögreglu að hún hefði nýverið rætt við brotaþola og hann hefði tjáð henni að hann ætlaði ekki að tjá sig um þau kynferðisbrot, sem hann hefði orðið fyrir. Hafi því verið ákveðið að afturkalla beiðni um skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi þar sem sýnt hafi þótt að brotaþoli myndi ekki tjá sig um málið. Rannsókn á málinu var hætt með ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík 26. nóvember 2002.

Í ódagsettri lokasamantekt Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans segir að brotaþoli hafi lagst inn á deild 32C aðfaranótt 24. nóvember 2001. Hann hafi verið tekinn af lögreglu að kvöldi 23. nóvember þar sem hann hafi verið að skemma bíla og ráðast að fólki. Þá hafi brotaþoli berháttað sig í fangaklefa og hafi þá verið farið með hann á slysvarðstofu og í framhaldi af því hafi hann verið lagður inn á deild 32C. Við komu á Barna- og unglingageðdeild 27. nóvember 2002 hafi brotaþoli verið í psykotísku ástandi, en hann hafi sýnt ögrandi hegðun og viljað komast út. Einnig hafi hann verið með kynferðislega áreitni við kvenkyns starfsmenn og hafi berháttað sig inni í herbergi. Í samantektinni er því lýst að brotaþoli hafi ekki verið áttaður á stað og stund þegar hann var lagður inn og hafi þolað lítið áreiti frá umhverfinu. Hann hafi lent í átökum við starfsfólk, sem hafi þurft að sprauta hann niður nokkrum sinnum. Þá hafi brotaþoli verið með ranghugmyndir og heyrt raddir. Jafnframt hafi borið á þráhyggjuhegðun, sérstaklega í tengslum við hreinlæti og uppvask. Smám saman hafi ranghugmyndir brotaþola minnkað og í janúar hafi hann að mestu verið laus við þráhyggjuhegðun. Þegar hann hafi komist úr psykótísku ástandi hafi hann virst vera ljúfur og kurteis drengur. Hann hafi verið samvinnufús, yfirleitt öruggur með sig og opinn í samskiptum, bæði við starfsfólk og aðra sjúklinga. Hann hafi verið fljótur að kynnast öðrum sjúklingum og virst vinsæll meðal þeirra. Þá segir að brotaþoli hafi sótt [...]skólann og gengið vel og hafi hann lagt áherslu á að klára samræmdu prófin um haustið. Hann hafi virst áhugasamur um námið og rætt um að hann vildi læra [...] eins og bróðir hans. Þá segir að brotaþoli hafi kímnigáfu, sé vel máli farinn og hafi góða almenna greind. Jafnframt segir að brotaþoli hafi verið mjög grannur og illa nærður við komu, en matarlyst hafi verið mjög góð og hann hafi þyngst um 10 kíló á meðan hann dvaldist á deildinni. Loks segir að brotaþoli hafi útskrifast af deildinni 19. febrúar 2002 á meðferðarheimilið [...] í [...].

Í framlögðu bréfi Jóns Friðriks Sigurðssonar prófessors og yfirsálfræðings, dags. 4. nóvember 2011, segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi beðið hann um að taka saman nokkrar línur í tilefni af kæru brotaþola um það sem brotaþoli hefði tjáð honum í meðferðarviðtali árið 2002 um kynferðislega misnotkun sem hann hefði orðið fyrir sem barn og unglingur. Í vottorðinu segir m.a. eftirfarandi:

„Ég hafði A í meðferð á meðferðarheimilinu [...] í [...] í um það bil eitt ár frá því í febrúar 2002 þar til í febrúar 2003. Í viðtali sumarið 2002 skýrði hann frá því að hafa verið misnotaður kynferðislega nokkrum sinnum þegar hann var fimm til sex ára gamall af manni er heitir X. Ef ég skildi A rétt þá mun þetta hafa gerst er hann bjó í [...] þriggja til fimm ára gamall og var X fjölskylduvinur að hans söng. A lýsti einu atvikinu þannig að X hefði sett „klámspólu“ í myndbandstækið í stofunni þegar hann og eldri bróðir hans voru viðstaddir. Bróðir hans hefði farið, en þá hefði X látið sig hafa munnmök við sig og skipað sér að kyngja sæðinu. Í framhaldi af því hefði X ætlað að hafa munnmök við A en hætt því hann hefði ekki viljað það. A sagðist muna eftir fjórum til fimm skiptum sem þetta hefði gerst.

Þá sagðist A hafa verið misnotaður af X veturinn áður en hann var vistaður á [...] eða veturinn 2001-2002. Hann lýsti því á þann veg að hann hefði að áeggjan vinar síns beðið X um að útvega þeim hass, sem hann gerði. A sagðist hafa gist hjá X á þessum tíma og einu sinni vaknað við að hann var að hafa munnmök við sig. Það hefði svo endurtekið sig mjög oft og X hefði í tvígang reynt að hafa endaþarmsmök við sig en hann hefði ekki viljað það. Þá sagðist hann einu sinni hafa fróað X að hans beiðni.

A leið fremur illa þegar hann var vistaður á [...] og hann átti erfitt með að greina frá þessum atvikum og vildi ekki ræða þau frekar.“

Á meðal gagna málsins er útprentun úr dagbók lögreglu þar sem fram kemur að frá 16.-27. júlí fór fram leit að brotaþola að beiðni barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Fannst brotaþoli ásamt móður sinni í vinnuskúr í [...] skammt frá [...]. Í skúrnum voru einnig þrír karlmenn og ein kona. Í framhaldinu var brotaþoli fluttur á Stuðla.

Í gögnum, sem fylgdu læknisvottorði vegna umsóknar brotaþola um örorkubætur á árinu 2010 kemur fram að brotaþoli hafi margsinnis strokið af meðferðarheimilinu [...] á meðan hann dvaldist þar og því verið endurtekið lagður inn á Stuðla á þeim tíma. Þegar hann hafi útskrifast af meðferðarheimilinu í febrúar 2003 hafi bróðir hans C fengið forræði yfir honum og hafi hann dvalið hjá honum í eitt og hálft ár áður en hann flutti til [...] til móður sinnar þar sem  hann hafi dvalið í þrjú ár. Í [...] hafi hann endurtekið fengið geðrof og verið lagður þar inn þrisvar sinnum, en hann hafi þá tekið lyf stopult. Þau mæðginin hafi síðan misst húsnæði sitt og fengið að gista hjá vinum, en á endanum hafi brotaþoli fengið nóg og flutt heim til Íslands á árinu 2008. Í kjölfarið hafi hann komist í eftirlit hjá geðlækni. Fram kemur í gögnum þessum að brotaþoli búi í íbúð afa síns á [...] og stundi nám í [...].

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir:

Ákærði sagðist hafa kynnst brotaþola í gegnum móður hans, D, um 1989 eða 1990. Kvaðst hann oft hafa komið á heimili móður brotaþola á þessum tíma ásamt fleirum, en hjá henni hefði alltaf verið opið hús og þar hefði verið drukkið og reykt. Ákærði sagðist ekki muna eftir neinum samskiptum við brotaþola á þessum tíma, en sagði að hann og bróðir hans hefðu báðir verið á heimilinu á þessum tíma. Ákærði sagðist hafa farið í meðferð í desember 1989 og kvaðst þá hafa lokið á alla vini og kunningja sem voru í neyslu.

Ákærði kvaðst hafa slasast á sjó 1997 eða 1998 og flutt skömmu eftir það frá [...] og til Reykjavíkur. Nokkru eftir það kvaðst hann hafa byrjað að umgangast móður brotaþola, en hún hefði verið með íbúð uppi í [...]. Sagði ákærði að þau hefðu haldið áfram að sukka, þ.e. drekka og reykja hass. Ákærði sagðist ekki muna eftir að hafa átt nein samskipti við brotaþola á þessum tíma, en sagðist þó muna eftir að hafa lánað honum einu sinni íbúðina sína til að halda upp á 15 eða 16 ára afmælið sitt. Ákærði sagði að þessi íbúð hefði verið í bílskúr í [...] og sagðist hann hafa búið þar í um það bil tvö ár, en þaðan hefði hann flutt á [...].

Ákærði sagði að samskipti hans og brotaþola hefðu verið ágæt á þessum tíma. Eftir að hann flutti á [...] hefði ákærði farið að venja komur sínar til hans til að fá að gista vegna slæmra aðstæðna heima fyrir. Aðspurður um hvenær þetta var kvaðst ákærði halda að þetta hefði verið eftir árið 2000. Ákærði sagði að brotaþoli hefði komið við og við og fengið að gista í einn eða tvo daga, en síðan hefði hann horfið þess á milli í einhverja daga og þá hefði hann verið hjá einhverjum vini sínum. Kvaðst ákærði halda að þetta hefði staðið yfir í þrjá til fjóra mánuði, en sagðist þó ekki vera viss. Ákærði sagði að á þessum tíma hefði félagi hans og vinur, E, fengið að gista hjá honum í landlegum og í fríum, þ.e. bæði þegar hann bjó í [...] og á [...]. Hann hefði stundum verið á heimilinu þegar brotaþoli fékk að gista, en að sjálfsögðu hefði það einnig komið fyrir að þeir brotaþoli hefðu verið einir í íbúðinni á [...]. Ákærði sagðist ekki muna eftir hvort ákærði gisti einhvern tíma hjá honum á meðan hann var í [...], en þó gæti það verið.

Ákærði sagði að samskipti þeirra brotaþola hefðu verið góð, en brotaþoli hefði haft áhyggjur af móður sinni og þá hefði verið búið að taka yngri systur hans frá móður þeirra. Ákærði sagði að brotaþoli hefði fengið að gista hjá honum því hann hefði ekki átt í nein hús að venda. Móðir hans hefði aldrei verið heima og jafnvel verið búin að missa íbúðina og því hefði brotaþoli þvælst á milli staða og fengið að gista hjá hinum og þessum. Ákærði sagði að brotaþoli hefði farið hjólandi í skólann á morgnana á meðan hann var hjá honum, en þá hefði brotaþoli verið í 8. eða 9. bekk. Kvaðst ákærði hafa vaknað á morgnana og sagt honum að fara í skólann. Ákærði sagði að brotaþoli hefði fengið að borða hjá honum og þá sagðist hann hafa öðru hverju gefið brotaþola peninga til að kaupa nesti. Þá hefði brotaþoli stundum átt peninga sjálfur.

Ákærði lýsti húsakynnunum á [...] með þeim hætti að úr anddyrinu hefði verið gengið inn í eldhús, en þar fyrir innan hefði verið eitt stórt herbergi, sem hefði bæði verið stofa og svefnherbergi, en inn af því hefði verið salerni. Sagði ákærði að brotaþoli hefði annað hvort sofið á dýnu á gólfinu eða á sófanum. Ákærði sagðist hafa reykt hass á þessum tíma, en kvaðst ekki kannast við að hafa otað hassi að brotaþola. Þá sagðist hann ekki hafa orðið var við að ákærði væri í hassneyslu. Ákærða var þá bent á að brotaþoli hefði verið lagður inn á geðdeild í nóvember 2001 m.a. vegna mikilla hassreykinga. Sagði ákærði að þessi neysla hefði þá farið fram hjá sér, en brotaþoli hefði ekkert reykt heima hjá honum. Brotaþoli hefði hins vegar gist á fleiri stöðum, en heima hjá honum. Ákærði sagðist ekki hafa hugsað út í það að hafa samband við barnaverndarnefnd á þessum tíma vegna aðstæðna brotaþola. Hann sagði að brotaþoli hefði stundum verið dapur vegna þess að systir hans hefði verið tekin, en annars hefði brotaþoli verið hress og í góðu lagi. Ákærði neitaði því að hafa verið með klámefni á glámbekk á heimilinu, en sagði að rétt væri að við húsleit á heimili hans í janúar 2002 hefðu fundist klámblöð inni í fataskáp undir fötum. Sagðist ákærði hafa átt þessi klámblöð.

Ákærði sagðist aðspurður hafa verið með falskar tennur í um þrjátíu ár. Um væri að ræða tennur, sem hægt væri að taka út. Ákærði sagði að brotaþoli hefði á þessum árum verið líkamlega þroskaður miðað við aldur. Hann hefði verið hávaxinn og ekki nein rengla.

Ákærði sagði að ekki væri rétt svo sem fram kæmi í skýrslu hans hjá lögreglu í janúar 2002, merktri III-2-1, að D hefði haft fullan aðgang að íbúð hans á [...] og dvalið hjá honum ásamt brotaþola mest allt árið 2001. Ákærði kannaðist við undirskrift sína undir framangreinda skýrslu. Hann sagði að D hefði hins vegar komið öðru hverju og fengið að gista ásamt brotaþola. Hún hefði alltaf verið velkomin, en hún hefði hins vegar ekki dvalið hjá honum allt árið. Ákærða var bent á að í skýrslu hans hjá lögreglu 14. október 2011 hefði hann borið um það að brotaþoli hefði byrjað að gista hjá honum á árinu 2000. Ákærði sagði þá að tímasetningarnar væru óskýrar í huga sér. Ákærði sagðist geta fullyrt það eitt að brotaþoli hefði fengið að gista öðru hverju hjá honum eftir að hann flutti á [...].

Ákærði sagðist ekki hafa kynferðislegar hvatir til barna. Ákærða var þá bent á að hann hefði fengið dóm á árinu [...], sem staðfestur hefði verið í Hæstarétti árið [...], fyrir að hafa brotið kynferðislega á fjórum drengjum á aldrinum 9-12 ára. Sagði ákærði þá að það mál væri afgreitt og hann væri búinn að taka út sinn dóm. Ákærða var þá bent á framburð hans hjá lögreglu [...] þar sem hann hefði tjáð lögreglu að ein af orsökum skilnaðar hans hefði, auk drykkjunnar, verið að hann hefði leitað á átta ára gamlan dreng innan fjölskyldunnar á árinu [...] á heimili þeirra hjóna. Ákærði svaraði því svo til að hann hefði leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingum og félagsráðgjöfum eftir þetta og kvaðst telja að hann hefði unnið bug á þessum hvötum.

Framburður brotaþola hjá lögreglu var borinn undir ákærða, þ.e. að þegar brotaþoli hefði verði 14 til 15 ára hefði hann fengið hass hjá honum fyrir vin sinn og í framhaldinu hefði hann gist hjá ákærða og vaknað upp við það að ákærði hefði verið að hafa við sig munnmök. Ákærði sagðist ekki kannast við þetta. Ákærði sagðist aðspurður hafa búið á [...] þegar systir brotaþola hefði verið tekin frá móður sinni. Sagði hann að brotaþoli hefði komið með systur sína á [...] og ætlað að fela hana þar, en síðan hefði lögreglan komið og náð í barnið. Hann sagðist hins vegar ekkert vita hvort nágrannar D hefðu rænt barninu af heimilinu. Ákærði neitaði því að hafa látið brotaþola fá hass til neyslu. Hann kannaðist við að hafa reykt hass úr fötu á þessum tíma og sagðist hafa gert það í eldhúsinu og haft lokað fram í stofu. Hann sagðist ekki hafa reykt hass fyrir framan brotaþola. Ákærði sagði að ekki væri rétt að hann hefði haft munnmök við brotaþola á meðan hann var sofandi. Þá væri hvorki rétt að hann hefði í eitt skipti fengið brotaþola til að fróa sér né að hann hefði í eitt skipti reynt að hafa endaþarmsmök við hann. Loks væri ekki rétt að hann hefði verið með „perraklám“ í vörslum sínum.

Ákærði sagði að samskiptum þeirra brotaþola hefði lokið á árinu 2001 eða 2002, en þá hefði brotaþoli horfið og sagðist ákærði hafa frétt síðar að hann væri kominn til afa síns uppi á [...]. Ákærði kannaðist ekki við að samskiptum þeirra hefði lokið vegna lögreglurannsóknar, sem hefði hafist um áramótin 2001 og 2002, á ætluðum kynferðisbrotum ákærða gegn brotaþola. Kvaðst hann halda að brotaþoli hefði horfið skömmu fyrir jólin 2001 og sagðist ákærði ekki hafa heyrt frá honum síðan. Sagðist ákærði ekki geta skýrt það af hverju brotaþoli væri að bera á hann þessar sakir.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 9. júní og 14. október 2011 og neitaði þá einnig sök. Skýrði ákærði frá atvikum á svipaðan veg og fyrir dóminum. Hann sagði að brotaþoli hefði dvalið hjá honum af og til á [...] í sex mánuði eða allt að einu ári. Í síðar skýrslunni sagði ákærði að hann héldi að brotaþoli væri að bera sig þessum sökum vegna áhrifa frá móður hans, sem væri alltaf á eftir einhverjum aurum.

Brotaþoli A sagði að ákærði hefði verið vinur móður hans, en hún hefði kynnst honum í gegnum bróður ákærða. Hann sagði að ákærði hefði oft komið í heimsókn á heimili þeirra í [...] þegar brotaþoli var mjög ungur og sagði að ákærði hefði verið ágætur í byrjun. Brotaþoli sagði að einu sinni hefði ákærði passað hann og eldri bróður hans á heimili þeirra í [...] og kvaðst brotaþoli halda að hann hefði þá verið þriggja til fjögurra ára, en þetta hefði verið skömmu eftir að hann flutti til [...]. Bróðir hans hefði verið sofandi uppi í risi en hann hefði verið niðri hjá ákærða. Þá hefði ákærði sett klámspólu í myndbandstækið og viljað að hann horfði á hana með sér. Þarna hefði ákærði brotið gegn honum í fyrsta skipti og uppfrá þessu hefði misnotkunin hafist og staðið þar til brotaþoli varð sjö ára.

Brotaþoli sagði að síðar hefðu hann og fjölskylda hans búið í íbúð í [...] í Reykjavík og þá hefði ákærði flutt í bílskúr í [...], sem hefði verið búið að breyta í íbúð og þá hefði hann byrjað að koma aftur í heimsókn til þeirra. Í fyrstu hefði hann ekkert viljað tala við ákærða, en smám saman hefði það breyst. Hann hefði síðan farið að heimsækja ákærða í bílskúrinn og hefði hann t.d. hjálpað honum að mála. Einnig hefði hann vitað að ákærði reykti hass, en vinum brotaþola hefði litist vel á það og viljað að brotaþoli útvegaði þeim hass hjá ákærða, sem hann hefði og gert. Kvaðst brotaþoli halda að ákærði hefði flutt í [...] einhvern tímann á árinu 2000, en í mars eða apríl 2001 hefði hann síðan flutt á [...] í Kópavogi. Í millitíðinni eða í febrúar 2001 hefðu nágrannar þeirra rænt systur brotaþola og komið henni til barnaverndarnefndar og hefði móðir hans verið svipt forsjá hennar í kjölfarið. Sagðist brotaþoli einmitt hafa verið staddur hjá ákærða í [...] þegar systir hans var tekin. Móðir hans hefði síðan misst húsnæðið og lent á götunni. Kvaðst brotaþoli ekki hafa átt í nein hús að venda og því hefði hann endað hjá ákærða í Kópavoginum þar sem hann hefði getað notað hassreykingar til að deyfa sig. Brotaþoli staðfesti að sumarið 2001 hefði hann rænt systur sinni af [...] og farið með hana heim til ákærða á [...].

Brotaþoli sagði að ákærði hefði byrjað að brjóta gegn honum kynferðislega í janúar 2001 á meðan ákærði bjó í bílskúrnum í [...], en þar sagðist brotaþoli stundum hafa gist. Brotaþoli lýsti fyrsta skiptinu með þeim hætti að þeir ákærði hefðu verið að reykja hass og síðan hefði hann farið að sofa. Hann hefði síðan vaknað upp við að ákærði var að hafa við hann munnmök. Brotaþoli sagði að sér hefði brugðið en af einhverjum ástæðum hefði hann ekkert gert heldur þóst vera sofandi. Ákærði hefði haldið áfram og sagði brotaþoli að þetta hefði endað með því að hann hefði fengið fullnægingu. Brotaþoli sagðist hafa þóst vera sofandi allan tímann og eftir að hann fékk fullnægingu sagðist hann bara hafa farið að sofa. Hann sagði að þeir ákærði hefðu ekkert rætt þetta. Brotaþoli sagði að þetta hefði gerst oftar þarna í [...] eða um það bil fimm sinnum. Brotaþoli sagði að þetta hefði alltaf gerst á sama hátt, þ.e. hann hefði oftast vaknað upp við að ákærði var að brjóta gegn honum, en stundum hefði þetta átt sér stað þegar hann var vakandi. Þá hefði komið fyrir að hann streittist á móti með því að draga sig undan ákærða og ýta honum frá sér. Brotaþoli sagði að mjög óþægilegt hefði verið að vakna upp við þetta, en hann hefði alltaf þóst vera sofandi. Hann sagði að ákærði hefði örugglega stundum orðið var við það að hann væri vakandi, en brotaþoli sagðist hins vegar ekkert hafa sagt við ákærða. Brotaþoli sagði að ákærði hefði tekið út úr sér tennurnar þegar hann hafði við hann munnmök. Sagðist brotaþoli ekki hafa tekið eftir því í fyrstu, en síðar eða á [...] hefði tekið eftir því. Hann sagði að ákærði hefði aldrei tekið út úr sér tennurnar við önnur tækifæri.

Brotaþoli sagði að eftir að ákærði flutti í Kópavoginn hefði hann haldið áfram að hafa við hann munnmök og hefði ákærði alltaf vakið hann með þessum hætti, en hann þóst vera sofandi. Kvaðst brotaþoli halda að þetta hefði gerst í nokkur tugi skipta á [...]. Hann sagði að ákærði hefði einnig verið með ýmiskonar klámspólur í íbúðinni, m.a. dýraklám. Eitt kvöldið á [...], sennilega um sumarið 2001, hefði ákærði verið að hafa við hann munnmök á meðan hann sat í sófastólnum í stofunni og þá hefði hann einnig reynt að hafa við hann endaþarmsmök, þ.e. hann hefði reynt að setja liminn inn í endaþarminn á honum. Sagðist brotaþoli hafa legið á bakinu í stólnum og með fæturna upp. Sagðist brotaþoli ekki hafa viljað þetta og klemmt rassinn saman þannig að ákærði hefði ekki getað þröngvað sér inn. Brotaþoli sagði að ákærði hefði einu sinni beðið hann um að fróa sér þar til hann fengi fullnægingu og kvaðst brotaþoli hafa gert það á meðan ákærði hafði við hann munnmök. Þeir hefðu þá verið á dýnum í stofunni hjá honum. Brotaþoli sagðist halda að ákærði hefði síðast brotið gegn honum í nóvember 2001.

Brotaþoli sagðist síðast hafa heyrt í ákærða þegar ákærði hefði hringt í hann þar sem hann var staddur fyrir utan [...] við [...]skóla, en þá hefði hann verið í 10. bekk. Ákærði hefði viljað fá hann inn í Kópavog og sagðist brotaþoli hafa spurt hann hvers vegna. Ákærði hefði þá svarað: „Þú veist af hverju.“ Brotaþoli sagði að þetta hefði verið um það leyti sem hann hefði verið að fara yfir um. Nokkrum dögum síðar hefði hann verið lagður inn á geðdeild eða í lok nóvember 2001 og sagði brotaþoli að brot ákærða hefðu átt sinn þátt í því. Kvaðst ákærði hafa fengið hita og kvef skömmu áður og legið heima, þ.e. hjá bróður sínum á [...], og lesið bókina Hobbitann, en upp úr því hefði hann fengið ranghugmyndir. Sagðist brotaþoli hafi legið í rúminu í þrjá til fjóra daga og hugsaði um líf sitt og sagðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að líf hans gæti ekki verið raunverulegt heldur væri það eins og kvikmynd eða leikrit. Sagðist brotaþoli ekki hafa verið með réttu ráði í nokkra daga áður en hann var lagður inn, en þá hefði hann verið handtekinn á Hlemmi eftir að hafa gengið þar berserksgang. Eftir vistun á geðdeild 32C og Barna- og unglingageðdeild í um tvo mánuði hefði hann verið vistaður á meðferðarheimilinu [...].

Spurður um ástæður þess að hann hefði alltaf farið aftur til ákærða þrátt fyrir brot hans sagði brotaþoli að hann hefði ekki átt í nein önnur hús að venda. Þá hefði hann komist í hass og vímu hjá ákærða og það hefði gert þetta allt saman bærilegt þar til hann hefði farið yfir um. Brotaþoli sagði að ákærði hefði gefið sér að borða og stundum peninga fyrir nesti, en brotaþoli sagðist einnig hafa látið ákærða fá peninga.

Brotaþoli sagðist telja að líkamlegur þroski hans hefði verið eðlilegur á þessum tíma og í samræmi við aldur. Brotaþoli sagði að líðan sín hefði verið mjög slæm á þessum tíma og sagðist hann ekki hafa getað sagt neinum frá brotum ákærða. Brotaþoli sagðist fyrst hafa sagt Jóni Friðriki sálfræðingi á meðferðarheimilinu [...] frá þessu, en það hefði verið best að tala við hann af sálfræðingunum þremur sem voru á meðferðarheimilinu.

Brotaþoli sagðist ekki hafa greint frá þessu við rannsóknina sem fór fram um áramótin 2001 og 2002 því barnaverndarnefnd hefði ætlað að kæra móður hans fyrir að misnota hann. Hún hefði verið sökuð ranglega um að hafa selt hann samkynhneigðum mönnum og því hefði hann ekki viljað tjá sig um þetta. Kvaðst hann hafa óttast um móður sína og viljað halda hlífiskildi yfir henni. Brotaþola var bent á að á árinu 2002 hefði verið tekin skýrsla af honum í Barnahúsi og þar hefði komið fram að C bróðir hans vissi til þess að ákærði hefði misnotað hann kynferðislega, en brotaþoli hefði ekki viljað ræða það mál og sagt að það væri hans einkamál. Brotaþoli sagði þá að hann hefði ekki viljað ræða þetta mál vegna grunsemda barnaverndarnefndar gagnvart móður hans.

Brotaþoli kvaðst hafa ákveðið að fara til lögreglu og leggja fram kæru átta árum síðar vegna þess að hann óttaðist að málið kynni að fyrnast ef hann biði lengur. Í millitíðinni kvaðst brotaþoli hafa verið í [...] og sagðist hann hafa átt við geðsjúkdóma að stríða. Kvaðst hann vera með þrjár greiningar, þ.e. psykosu, maníu og geðklofa. Sagðist brotaþoli hafa verið dofinn tilfinningalega og aðeins hafa fundið fyrir slæmum tilfinningum. Sagðist brotaþoli m.a. tengja þessa vanlíðan við hin meintu brot ákærða. Brotaþoli sagðist ekki hafa treyst neinum eftir að ákærði braut fyrst gegn honum. Brotaþoli sagðist vera með lyfseðil, en kvaðst taka lyf þegar honum fyndist að hann þyrfti á því að halda. Hann kvaðst hafa leitað aðstoðar hjá sálfræðingum á geðdeild á árunum 2010 eða 2011.

Brotaþoli sagðist hafa sagt bróður sínum og móður frá brotum ákærða eftir að hann sagði Jóni Friðriki sálfræðingi á [...] frá þeim. Brotaþola var þá bent á að í lögregluskýrslum af C bróður frá árinu 2002 kæmi fram að brotaþoli hefði tjáð honum og móður þeirra frá þessu á meðan brotaþoli lá inni á Barna- og unglingageðdeild, þ.e. áður en hann fór á meðferðarheimilið [...]. Brotaþoli sagðist ekki muna eftir þessu og sagði að það væri ekki undarlegt því hann hefði verið út úr heiminum á meðan hann lá inni á geðdeildinni þar sem hann hefði verið á röngum lyfjum í tvo mánuði á meðan hann lá þar inni.

Sérstaklega aðspurður af verjanda kvaðst brotaþoli hafa verið tilbúinn til þess á árinu 2002 að tjá sig um kynferðislega áreitni af hálfu manns að nafni B, sem bjó á [...], vegna þess að B þessi hafði kært móður hans til barnaverndarnefndar og fleiri aðila og orðið þess valdandi að hann hefði verið vistaður á Stuðlum og verið lokaður þar inni í 7 daga. Honum hefði verið því sama þótt hann segði frá broti B, en ekki frá brotum ákærða því þau hefðu verið persónulegri.

Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki muna eftir E, en sagðist þó muna eftir að einhver maður hafi fengið að gista hjá ákærða í nokkur skipti. Aðspurður sagðist brotaþoli vera gagnkynhneigður.

Vitnið D, móðir brotaþola, sagðist hafa þekkt ákærða frá því að hann var krakki, en þau væru bæði frá [...] og hefðu búið við sömu götu. Sagðist hún hafa verið góður vinur bróður ákærða og ákærði hefði mikið verið í kringum þau. Vitnið sagði að ákærði hefði sótt mikið á heimili hennar í [...] og henni hefði ekki fundist neitt athugavert við það. Hún sagðist ekki hafa séð neitt athugavert við samskipti ákærða og brotaþola úti í [...], en eftir á hefði hún áttað sig á því að eldri bróðir brotaþola, C, hefði forðast ákærða. Hún sagðist hins vegar ekki hafa tekið eftir þessu á sínum tíma því C væri þannig gerður að hann gæfi sig ekki að hverjum sem væri. Brotaþoli væri hins vegar opnari persóna en bróðir hans.

Vitnið sagðist hafa hitt ákærða á förnum vegi eftir að hún flutti með börn sín til Reykjavíkur og þá hefði hann byrjað að venja komur sínar til þeirra, en þau hefðu verið með íbúð í [...] á þessum tíma. Kvaðst hún ekki hafa orðið vör við nein óeðlileg samskipti hans við brotaþola á þessum tíma. Vitnið sagðist hafa flutt heim frá [...] á árinu 2000 og fengið íbúðinni úthlutað 19. desember, en hvaða ár sagðist hún ekki muna eftir. Hún sagðist ekki muna hvenær ákærði fór að venja komur sínar á heimilið, en sagðist muna það eitt að hann hefði komið aftur inn í líf þeirra á þessum tíma. Þá hefði ákærði búið í [...], en síðar hefði hann flutt í Kópavoginn. Hún sagðist halda að hún hefði búið í [...] í tvö ár og sagði að nágrannar hennar hefðu rænt dóttur hennar frá henni í febrúar 2001.

Vitnið sagðist í rauninni ekki vita um nein samskipti á milli ákærða og brotaþola. Ákærði hefði bara verið peyi sem hún þekkti frá [...] og verið mjög almennilegur við hana og viljað allt fyrir hana gera. Hún sagðist átta sig á því nú af hverju það hefði verið. Vitnið sagðist síðan hafa misst húsnæði sitt og þá hefði fjölskyldan ekki átt í nein hús að venda og flosnað upp. Þá hefði ákærði boðið brotaþola að vera hjá sér, en sjálf sagðist hún hafa verið annars staðar. Hún sagði að þau hefðu reynt að dreifa sér og vera ekki öll í einu og ekki of lengi á sama staðnum. Hún sagði að C hefði fengið inni hjá vini sínum. Sagðist hún halda að hún hefði verið húsnæðislaus í meira en ár. Hún sagðist ekki hafa orðið vör við að brotaþoli væri í hassneyslu á þessum tíma, en brotaþoli hefði tjáð sér löngu síðar að ákærði hefði otað því mjög að honum. Hún sagðist ekki hafa vitað af því á þessum tíma að ákærði væri að brjóta gegn brotaþola kynferðislega og sagðist ekki einu sinni hafa grunað það. Hún sagðist fyrst hafa heyrt á það minnst þegar brotaþoli hefði legið inni á Barna- og unglingageðdeild. Hún sagðist ekki hafa rætt þetta við hann þá, enda hefði það ekki verið hægt því hann hefði verið mjög sljór af lyfjum. Henni hefði síðan verið meinað að hitta hann á meðan hann var á geðdeildinni. Hún sagði að sig rámaði þó í það að hafa rætt við brotaþola á meðan hann var á deildinni í gegnum síma C, en þá hefði C sagt henni að ákærði hefði misnotað brotaþola kynferðislega. Sagðist hún fyrst hafa spurt brotaþola út í þessa hluti fyrir um mánuði síðan, en hann hefði átt erfitt með að segja henni frá þessu og hún hefði sömuleiðis átt erfitt með að hlusta á frásögn hans. Hún sagði að þessi tími hefði verið mjög erfiður hjá sér. Hún hefði misst húsnæðið og nágrannar hennar rænt dóttur hennar og það hefði verið mikið áfall. Því væri þessi tími óskýr í huga sér. Aðspurð hvort hún hefði sjálf verið í áfengisneyslu eða annarri óreglu á þessum tíma svaraði vitni því til að hún hefði fyrst og fremst verið í gríðarlegri sorg vegna dóttur sinnar og því væri mjög erfitt að rifja þetta upp.

Hún sagðist ekki muna eftir að brotaþoli hefði sagt sér frá misnotkun ákærða á meðan þau bjuggu í [...]. Hún sagðist hins vegar aldrei hafa skilið af hverju brotaþola leið svona einkennilega á þessum tíma. Hún sagðist ekki muna hvenær hún varð vör við breytingar á hegðun hjá brotþola, en sagðist muna að það hefði átt sér stað á veitingastaðnum [...]. Brotaþoli hefði verið mjög ör, sagst elska heiminn og viljað knúsa hana og knúsa og síðan hefði hann rokið út. Skömmu síðar hefði lögreglan hringt í hana og tjáð henni að hún væri með brotaþola í haldi. Hún sagði að undanfarin ár hefði brotaþoli ekki viljað vera innan um fólk, en það væri í rauninni mjög ólíkt honum. Hún sagði að brotaþoli hefði byrgt þetta inni í öll þessi ár og átt erfitt með að ræða þetta. Kvaðst hún halda að það sem hrjáð hefði brotaþola í gegnum tíðina væru allt afleiðingar þessarar misnotkunar, sem hefði byrjað þegar hann var ungur drengur.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 19. ágúst 2011, sem er í meginatriðum í samræmi við skýrslu hennar fyrir dóminum. Þar sagði hún þó að brotaþoli hefði sagt sér frá munnmökum ákærða þegar þau voru úti í [...]. Einnig að E, sem hefði búið með ákærða, hefði aldrei sagt neitt við hana, en eftir á fyndist henni að hann hefði verið að reyna að segja henni eitthvað með háttalagi sínu, en hann hefði t.d. lagt til við hana að þau færu eitthvað annað. Þá kvaðst hún ekki muna eftir að hafa rætt símleiðis við brotaþola á meðan hann lá inni á Barna- og unglingageðdeildinni um kynferðislega áreitni ákærða.

Vitnið E, bróðir brotaþola, sagðist ekki beinlínis hafa orðið var við það að ákærði væri að brjóta gegn brotaþola kynferðislega, en sagði að ákærði hefði hins vegar brotið gegn honum sjálfum. Hann sagði að brotaþoli hefði fyrst tjáð sér fyrir um 15 til 20 árum að ákærði hefði brotið gegn honum. Hann sagði að brotaþoli hefði aðeins sagt að ákærði hefði brotið gegn sér kynferðislega, en ekki farið út í nein smáatriði. Brotaþoli hefði þó sagt að þetta hefði byrjað á meðan þau bjuggu í [...], en síðan hefði þetta haldið áfram eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. Vitnið sagðist hins vegar ekki vita hvar eða hvenær það átti sér stað, en hann sagðist ekki hafa verið í daglegu sambandi við brotaþola á þessum tíma. Hann sagði að þeir brotaþoli hefðu ekki rætt þetta frekar, en hann sagðist hafa hvatt brotaþola til að leggja fram kæru. Hann sagði að brotaþoli hefði búið hjá sér eftir að kerfið gafst upp á brotaþola þegar hann var 17 til 18 ára gamall. Hann hefði þá fengið forræði yfir brotaþola því enginn annar hefði verið til staðar. Á þessum tíma hefði brotaþoli byrjað að ræða þetta við sig af einhverri alvöru. Hann sagði að brotaþoli hefði átt mjög erfitt á meðan hann lá inni á Barna- og unglingageðdeildinni, en þá hefði hann átt við að stríða mjög erfitt andlegt ástand. Hann sagðist minnast þess að hafa verið viðstaddur þegar brotaþoli og móðir þeirra ræddu þetta, en sagðist þó ekki muna eftir neinum smáatriðum. Á þessum tíma hefði farið af stað rannsókn vegna ásakana gagnvart móður þeirra og það hefði orðið til þess að þau hefðu rætt hvað hefði raunverulega gerst. Hann sagðist minnast þess að þau þrjú hefðu rætt þetta í gegnum farsíma hans þegar hann var í heimsókn hjá brotaþola á geðdeildinni.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 24. ágúst 2011, sem er í meginatriðum í samræmi við skýrslu hans fyrir dóminum.

Vitnið F, faðir brotaþola, sagði að móðir brotaþola hefði sagt sér fyrir fimm til sex árum frá meintum kynferðisbrotum ákærða gagnvart brotaþola. Hún hefði tjáð sér að einhver X hefði brotið á brotaþola, en síðan hefði þetta ekki verið rætt frekar. Hann sagðist ekki minnast þess að brotaþoli hefði rætt þetta við sig. Hann sagðist muna eftir að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu í lok árs 2001 vegna rannsóknarinnar, sem fram fór þá, en þá hefði hann ekki vitað af meintum brotum ákærða. Framburður hans þá var kynntur fyrir honum og sagði hann að hann hljóti þá að hafa vitað af brotum ákærða á þessum tíma. Hann sagðist ekki hafa verið í tengslum við brotaþola á þessum tíma og sagðist yfir höfuð hafa verið í mjög litlum tengslum við hann.

Vitnið E sagði að ákærði hefði verið vinur föður hans. Þeir hefðu báðir verið í hassneyslu og sagðist vitnið hafa verið heimilislaus á þessum tíma, en verið á sjó. Ákærði hefði í mörg ár leyft sér að gista hjá sér í landlegum. Þetta hefði verið samkomulag hans og ákærða, þ.e. hann hefði ekki greitt leigu en hann hefði hins vegar keypt brennivín og mat á meðan hann var í landi. Sagðist hann hafa séð brotaþola af og til á þessum tíma. Á árinu 2001 sagðist vitnið halda að ákærði hefði búið á [...] í Kópavogi. Sagðist ákærði hafa afplánað dóm á þessum tíma, þ.e. frá 1. maí til 7. nóvember 2001. Hann sagðist oft hafa orðið var við brotaþola á heimili ákærða og sagðist halda að hann hefði gist þar. Hann sagðist ekki geta sagt að hann hefði orðið var við kynferðislega háttsemi ákærða gagnvart brotaþola og sagðist aldrei hafa séð slíkt berum augum. Nánar aðspurður sagði hann að á árinu 2000 eða 2001 þegar ákærði bjó í [...] hefði hann verið að koma heim af sjónum og þá hefði ákærði komið til dyra tannlaus og sagðist vitnið varla hafa þekkt ákærða. Hann sagðist hafa farið inn í stofu og ákærði hefði farið inn í herbergi. Stuttu síðar hefði brotaþoli komið þaðan út og sagðist hann hafa hugsað mér sér hvað hann hefði verið að gera þarna inni. Þá sagði hann að andrúmsloftið hefði verið skrýtið og hann hefði fengið eitthvað á tilfinninguna. Hann sagðist oft hafa verið búinn að sjá A þarna og kvaðst hafa hafa vitað að það væru vandræði heima hjá honum og sagðist því hafa skrifað þetta á það. Aðspurður sagðist hann ekki vita hvort brotaþoli var í hassneyslu á þessum tíma.

Lögregla ræddi við vitnið í síma 22. september 2011. Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði gist á [...] ásamt móður sinni. Kvaðst hann hvorki hafa séð né heyrt af neinu kynferðislegu á milli ákærða og brotaþola. Hann sagðist þó hafa haft sínar grunsemdir, bæði vegna þess að ákærði hefði alltaf verið svo góður við alla, en einnig vegna þess að ákærði hafði áður fengið dóm fyrir sams konar brot. Síðar í skýrslunni sagðist vitnið ekki hafa haft neinn helvítis grun því það hefðu aldrei verið nein börn í kringum þá. Kvaðst vitnið vera ölvað og sagðist vera að fara inni á Vog daginn eftir.

Vitnið Bertrand Andre Marc Lauth, geðlæknir á Barna- og unglingageðdeild Landspítala, sagði að brotaþoli hefði fyrst verið lagður inn á bráðageðdeild fyrir fullorðna, þ.e. deild 32C, 23. nóvember 2001 eftir að hafa verið handtekinn af lögreglu, en brotaþoli hafði skemmt bíla og ráðist að fólki. Hann hefði síðan verið fluttur á Barna- og unglingadeild 27. nóvember. Þá hefði brotaþoli verið með geðrofseinkenni og ekki verið vel áttaður. Þá hefði ákærði sýnt kynferðislega hegðun gagnvart starfsfólki og streitueinkenni. Hann sagði að brotaþoli hefði náð sér út úr þessu geðrofsástandi eftir nokkra daga. Fyrst hefði hann sýnt árásargirni, en það hefði lagast eftir 1. desember. Þá hefði brotaþoli verið með ranghugmyndir, en þær hefðu smám saman horfið og verið alveg horfnar í janúar. Við útskrift 15. janúar 2002 hefði brotaþoli verið í góðu ástandi, en verið greindur með áfallastreituröskun og tímabundnar raskanir, þ.e. hann hefði verið óáttaður og með skert raunveruleikatengsl í nokkra daga og með ranghugmyndir, jafnvel ofskynjanir. Hann sagði að ljóst hefði verið að brotþoli hefði verið með geðrofseinkenni í tengslum við áfallastreitu, en þetta hefði lagast mjög fljótt og því verið um tímabundið ástand að ræða. Geðrofseinkennin hefðu því ekki tengst geðklofasjúkdómi. Hann sagði að líkamlegt eirðarleysi og mikill einbeitingarskortur hefði hrjáð brotaþola, en hann hefði róast mikið eftir nokkra daga á deildinni. Þá hefði hann sofið betur og tengst betur starfsfólki og öðrum sjúklingum. Hann sagði að ákærði hefði sýnt þráhyggjuhegðun á deildinni, þ.e. í tengslum við hreinlæti og uppvask, en hann hefði haft mikinn áhuga á því að þvo sér. Þetta hefði síðan lagast mikið í lok dvalarinnar.

Hann sagði að hassneysla gæti orsakað geðrofseinkenni. Fram hefði komið hjá brotaþola að hann hafði mikinn áhuga á efnum og greinilegt hefði verið að hann þekkti þau. Læknar hefðu hins vegar ekki tengt þessi einkenni við hassneyslu brotaþola.

Hann sagði að starfsfólk deildarinnar hefði haft veður af því að brotaþoli hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Það hefði verið skilningur lækna á deildinni að það sem brotaþoli hefði lent í og upplifað hefði valdið honum mikilli streitu og þar með þessum einkennum. Kvaðst hann telja að eitthvað mikið hefði átt sér stað gagnvart brotaþola rétt áður en hann lagðist inn á deildina, sem hefði valdið þessum einkennum, því þau hefðu síðan lagast fljótlega. Hann sagði að kynferðislegt ofbeldi gæti haft í för með sér slík einkenni. Erfiðar heimilisaðstæður brotaþola hefðu þó áreiðanlega verið þáttur í þessum einkennum. Að því er varðar kynferðislega hegðun gagnvart starfsfólki sagði vitnið að brotaþoli hefði verið að bera sig og sýnt óviðeigandi hegðun á meðan hann var í geðrofsástandi. Í lok innlagnarinnar hefði hann ekki sýnt af sér slíka hegðun. Vitnið sagðist hafa reynt að ræða við brotaþola um meinta kynferðislega misnotkun, en brotaþoli hefði ekki viljað tjá sig um hana. Hann hefði vitað að rannsókn stæði yfir gagnvart móður sinni og hann hefði viljað verja hana. Brotaþoli hefði hugsað mikið til systur sinnar og hann hefði óskað þess að hún kæmi til baka og að fjölskyldan sameinaðist.

Vitnið sagði að starfsfólkið hefði orðið vart við óviðeigandi hegðun móður brotaþola gagnvart honum, þ.e. að hún hefði strokið honum um kynfæri og læri, en sjálfur sagðist hann ekki hafa séð það. Einnig hefði hún reynt að fara honum með honum einum inni á baðherbergi. Síðar hefði verið sett nálgunarbann á hana vegna þessa. Vitnið kvaðst alls ekki minnast þess að brotaþoli hefði verið að skálda upp sögur á meðan hann dvaldi á deildinni, heldur hefði starfsfólkið verið sannfært um að hann liði miklar þjáningar. Fólk hefði alls ekki haft á tilfinningunni að brotaþoli væri að ljúga eða skálda upp sögum, heldur miklu frekar að hann byggi yfir leyndarmáli sem hann mátti ekki og vildi ekki segja frá. Vitnið staðfesti vottorð sitt á skjali merktu IV-6-2.

Vitnið Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur sagðist hafa starfað sem sálfræðingur á meðferðarheimilunum [...] og [...] í nokkur ár, m.a. á þeim tíma er brotaþoli dvaldist þar. Hann sagði að brotaþoli hefði verið lagður inn á Barna- og unglingadeildina í nóvember árið áður með nokkuð alvarleg geðrofseinkenni og í framhaldi af því hefði hann verið vistaður nauðugur á meðferðarheimilinu [...] í [...] af hálfu barnaverndaryfirvalda, bæði vegna þessara veikinda og vegna erfiðra heimilisaðstæðna. Með hefði fylgt að grunur léki á að hann hefði verið misnotaður kynferðislega og í einu viðtalinu hefði brotaþoli upplýst hann um ákveðin tilvik, þ.e. annars vegar þegar hann var þriggja til fimm ára og bjó í [...] og hins vegar árið áður en hann var vistaður á [...], en gerandinn hefði verið sá sami, þ.e. ákærði. Að því er varðaði seinna tilvikið hefði brotaþoli tjáð honum að félagi hans hefði hvatt hann til að útvega þeim hass og það hefði hann gert hjá ákærða. Á þeim tíma hefði hann gist hjá ákærða og eina nóttina hefði hann vaknað upp við það að ákærði var að hafa við hann munnmök og þannig hefði það gengið áfram í nokkur skipti. Brotaþoli hefði lýst því að hann hefði fengið fullnægingu og þá hefði hann minnst á að ákærði hefði viljað hafa við sig endaþarmsmök, sem hann hefði ekki viljað og neitað því.

Vitnið sagðist hafa tilkynnt þetta á sínum tíma. Hann sagðist vita til þess að brotaþoli hefði ekki viljað tjáð sig við lögreglu og sagði að hann hefði tjáð sér að hann vildi láta þetta bíða aðeins og að hann væri ekki tilbúinn til að ræða þetta mál frekar. Hann sagði að brotaþoli hefði verið í frekar slæmu ástandi af og til á þessum tíma og liðið mjög illa, þó að líðanin hefði verið sveiflukennd. Honum hefði stundum gengið vel í skólanum, en stundum illa eins og algengt væri með unglinga á þessum heimilum. Vitnið sagðist hafa átt afskipti af brotaþola í um það bil eitt ár og sagðist hafa náð að kynnast honum nokkuð vel og átt gott meðferðarsamband við hann. Hann sagði að ekki hefði hvarflað að sér að brotaþoli væri að skálda þessa frásögn og það hvarflaði ekki að honum enn þann dag í dag. Hann sagðist hins vegar ekki hafa framkvæmt mat á trúverðugleika framburðar hans, enda hefðu þessar upplýsingar verið fremur takmarkaðar.

Hann sagði að brotaþoli hefði rætt það aðeins að hann hefði verið í hassneyslu á þessum tíma. Hann sagðist ekki vita til þess að brotaþoli hefði verið að skálda upp sögur á meðan hann dvaldi á meðferðarheimilinu [...]. Vitnið sagði að geðrof væri einkenni á mjög alvegarlegum geðsjúkdómum eins og geðklofa, en gæti einnig komið til vegna alvarlegra áfalla og áfallastreituröskunar.

Vitnið sagði að það væri klínísk reynsla sín og í samræmi við það sem hann hefði lesið um slík brot og áhrif þeirra að unglingur, sem hefði vit á því sem gerðist ætti erfitt með að segja frá brotunum, t.d. vegna þess að hann hefði upplifað vellíðan þegar brotið var framið. Þetta hefði komið fram hjá brotaþola, þ.e. að hann hefði fengið fullnægingu þegar ákærði hafði við hann munnmök, en bara þetta gerði unglingum erfitt fyrir að segja frá. Þeir fengju hugmyndir um að þeir væru samkynhneigðir vegna þess að þeim liði vel við það sem væri gert við þá. Unglingur í erfiðu ástandi hefði tilhneigingu til að halda áfram samskiptum við meintan geranda þrátt fyrir að vera ekki að fullu sáttir og líða illa yfir þessu síðar meir. Hann sagði að það virtist vera erfiðara fyrir drengi en stúlkur að segja frá slíkum atburðum vegna þess að þegar karlmenn væru áreittir kynferðislega yrðu þeir fyrir örvun, þ.e. þeim risi hold og bara það vekti hugmyndir hjá þeim um að þeir vildu það sem væri verið að gera. Brotaþoli hefði hins vegar talað um þetta sem brot gagnvart sér, en hann hefði einnig minnst á hugmyndir um samkynhneigð og að þær hefðu sótt að honum. Einnig hefði hann minnst á það í tengslum við geðrofsástand sitt í nóvember 2001, þ.e. að hann hefði heyrt raddir sem hefðu sagt honum að hann væri samkynhneigður. Aðspurður hvort þessar minningar væri að rekja til geðrofsins sagði hann að reynsla sín segði sér að geðrof leiddi ekki til slíkra minninga. Hann sagði að brotaþoli hefði ekki verið í geðrofi þegar þeir hefðu rætt saman á [...]. Vitnið sagði að þótt brotaþoli hefði ekki sagt sér mikið frá þessum atburðum hefði hann þó greint frá þeim í svolitlum smáatriðum, sérstaklega atvikunum, sem áttu að hafa átt sér stað þegar hann var lítill. Slík dæmi gæfu til kynna vissan trúverðugleika, þ.e. þegar lýst væri öðru en sjálfu brotinu, en brotaþoli hefði lýst því að þegar ákærði hefði sett klámspólu í tækið hefði eldri bróðir hans farið, en þetta væru atvik sem gerðust í atburðarásinni en tengdust ekki brotinu á honum sjálfum. Hann staðfesti að brotþoli hefði tjáð sér að ákærði hefði oft haft við sig munnmök, tvisvar reynt að hafa við sig endaþarmsmök og einu sinni hefði hann fróað ákærða að hans beiðni. Hann sagði að í minningunni hefði þessi frásögn brotaþola verið trúverðug og hann hefði átt mjög erfitt með að segja frá þessu.

Vitnið Helga Einarsdóttir, starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur, sagðist hafa tekið við máli brotaþola sumarið 2002, en hún sagðist hafa verið búin að fylgjast með málinu áður. Hún sagði að eftir að brotaþoli hafði tjáð sig við Jón Friðrik sálfræðing hefði verið óskað eftir að tekin yrði lögregluskýrsla af brotaþola, en þegar til þess hefði komið hefði brotaþoli ekki viljað tjá sig við lögreglu. Í millitíðinni hefði brotaþoli heimsótt systur sína sumarið 2002 en ekki skilað sér til baka. Hann hefði síðan fundist með móður sinni uppi í [...] og verið mjög illa staddur á eftir og verið lagður inn á Barna- og unglingageðdeild. Kvaðst hún halda að hann hefði verið í burtu af meðferðarheimilinu í einn og hálfan mánuð. Í kjölfar þess hefði hann lýst því yfir að hann vildi ekki tjá sig við lögreglu um ætluð kynferðisbrot og sagðist halda að það hefði komið fram á samráðsfundi á [...] í október 2002. Hún sagðist sjálf ekki hafa rætt þessa hluti við brotaþola.

Vitnið Halldóra Ólafsdóttir, yfirlæknir á göngudeild og bráðamóttöku geðdeildar á Landspítala háskólasjúkrahúsi, sagði að brotþoli hefði leitað til deildarinnar skömmu eftir að hann flutti heim frá [...], en þar hefði brotaþoli fengið greininguna geðklofi. Hún sagðist hafa séð það í læknanótum að brotaþoli greindi frá því að hann hefði verið misnotaður þegar hann var fjögurra ára, en sjálf sagðist hún ekki muna eftir því. Um hefði verið að ræða rútínuspurningu, en meðferð brotaþola hefði ekki lotið að þessu. Hún sagðist sjálf ekki minnast þess að brotaþoli hefði greint frá því að hann hefði verið misnotaður sem unglingur, en sagði að það kæmi fram í einni læknanótunni frá læknanema sem hefði tekið mjög ítarlega greiningarskýrslu af brotaþola og vísaði til dskj. nr. 23, bls. 6-7. Hún sagði að brotaþoli hefði verið meðhöndlaður með geðrofslyfjum sem væru notuð við geðklofa. Brotaþoli hefði þó ekki verið með geðrofseinkenni eða geðklofaeinkenni, en brotaþoli hefði lýst því að hann hefði gagn af þessum lyfjum. Eftir því sem tíminn leið hefði hún þó velt því fyrir sér hvort þetta væri rétt greining, þ.e. hvort brotþoli væri ekki frekar með geðhvarfageðklofa eða geðhvörf því brotaþoli hefði komið mjög eðlilega fyrir. Hún sagði að sér fyndist frekar ólíklegt að saga brotaþola um hina kynferðislegu misnotkun væri uppspuni sem tengdist geðsjúkdómi hans. Brotaþoli væri afskaplega greinargóður og frekar greindur piltur, sem hefði komið vel fyrir og verið einlægur í sinni frásögn. Hún sagðist þó taka fram að hún hefði ekki séð hann í veikindaástandi. Hún sagði að brotaþoli hefði haft furðugott sjúkdómsinnsæi af jafn ungum pilti að vera á meðan hann var í meðferð hjá henni.

Vitnið Tómas Zoega geðlæknir sagðist hafa meðhöndlað brotaþola við innlögn á geðdeild á árunum 2010 til 2012. Hann sagði að í þau skipti sem brotaþoli hefði lagst inn á geðdeild hefði hann verið mjög veikur, þ.e. mjög manískur og hátt uppi og stundum hefði verið grunur um að hann hefði verið í neyslu. Hann hefði hins vegar jafnað sig bærilega á milli. Hann sagði að brotaþoli hefði talað um það nokkrum sinnum að hann hefði verið misnotaður sem unglingur og þá virst vera trúverðugur og sagt að þetta væri óuppgert mál í sínum huga. Hann sagði að brotaþoli hefði legið inni á deildinni frá 31. október til 16. nóvember 2010 og þá hefði verið skráð við útskrift að brotaþoli hefði ákveðið að kæra þá kynferðislegu misnotkun sem hann hefði orðið fyrir sem unglingur. Einnig að hann ætti pantaðan tíma hjá lögreglu og ætlaði að fara þangað einn síns liðs. Kvaðst hann halda að brotaþoli hefði farið til lögreglu beint af sjúkrahúsinu. Hann sagði að brotaþoli væri með geðhvarfasjúkdóm þar sem skiptust á geðhæðir og geðlægðir. Við innlögn hefði hann verið mjög órólegur og árásargjarn í garð annarra, bæði starfsmanna og annarra sjúklinga. Þá væri vitað að brotaþoli hefði misnotað lyf. Hann sagði að brotaþoli hefði verið greindur með geðklofa á meðan hann bjó í [...], en hann sagðist ekki halda að ekki væri líklegt að brotaþoli væri haldinn þeim sjúkdómi því hann jafnaði sig alveg á milli og væri einkennalítill eða einkennalaust á milli.

Hann sagði að mjög ólíklegt væri að brotaþoli væri að búa það til að hann hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Það væri ekki aðalatriðið í hans huga þegar hann væri lagður inn, en þetta væri hins vegar að plaga hann þegar hann væri kominn í meira jafnvægi.

III.

Ákærði hefur staðfastlega neitað sök í málinu. Hann hefur viðurkennt að hafa verið í óreglu á þeim tíma um sem um ræðir í málinu, þ.e. bæði í áfengis- og kannabisneyslu. Ákærði hefur borið um að brotaþoli hafi oft gist hjá honum á meðan hann bjó á [...] og kvað ekki útilokað að hann hefði einnig gist hjá honum í [...] þar sem hann bjó áður.

Ljóst er að brotaþoli bjó við afar erfiðar aðstæður og átti hvergi höfði sínu að halla frá því snemma árs 2001 þar til hann var lagður inn á geðdeild í lok nóvember sama ár. Er fram komið að brotaþoli var á þvælingi á milli staða á þessum tíma og snapaði sér gistingu hér og þar, m.a. hjá ákærða. Þrátt fyrir að vera kunnugt um þessar aðstæður brotaþola kvaðst ákærði ekki hafa hugleitt að hafa samband við barnaverndaryfirvöld vegna drengsins.

Framburður brotaþola fyrir dóminum var skýr og greinargóður og kom brotaþoli vel fyrir að mati dómsins. Hefur framburður hans verið staðfastur en framburður hans fyrir dóminum er í öllum meginatriðum í samræmi við framburð hans hjá lögreglu. Enginn misbrestur þykir vera á framburði brotaþoli. Brotaþoli hefur allt frá því að hann greindi fyrst frá atvikum málsins á meðferðarheimilinu [...] á árinu 2002, skömmu eftir að atvikin áttu sér stað, skýrt frá á sama veg, þ.e. að ákærði hafi margoft haft við hann munnmök er hann var sofandi, í eitt skipti fengið hann til að fróa sér og í annað skipti reynt að hafa við hann endaþarmsmök. Hefur þessi frásögn brotaþola á meðferðarheimilinu verið staðfest af vitninu Jóni Friðriki Sigurðssyni, sem þá var sálfræðingur á heimilinu. Í frásögn brotaþola koma fyrir smáatriði, sem þykja gera framburð hans trúverðugan. Hefur brotaþoli t.d. borið um það að ákærði hafi ávallt tekið út úr sér tennurnar þegar hann hafði við hann munnmök, en brotaþoli kvaðst ekki hafa tekið eftir því í fyrstu og ekki fyrr en brotin áttu sér stað á heimili ákærða á [...]. Einnig hefur brotaþoli borið um að þeir ákærði hafi legið á dýnum á stofugólfinu á [...] þegar ákærði bað hann um að fróa sér og fyrir dóminum sagði brotaþoli að ákærði hefði á sama tíma haft við hann munnmök. Loks hefur brotaþoli borið um það að hafa setið í svokölluðum sófastól þegar ákærði reyndi að hafa við hann endaþarmsmök, en hann kvaðst hafa klemmt saman rassinn og komið þannig í veg fyrir að ákærði gæti þrýst limnum inn.

Ákærði hefur sjálfur staðfest að hann hafi verið með falskar tennur í 30 ár. Vitnið E hefur borið um það að ákærði hafi eitt sinn komið tannlaus til dyra í íbúð sinni í [...] þegar vitnið hafi komið til hans af sjónum. Það hafi komið vitninu á óvart, sem og að ákærði hafi strax farið inn í svefnherbergi og að þaðan hefði brotaþoli síðan komið stuttu síðar. Sagði vitnið jafnframt að andrúmsloftið hefði verið skrýtið. Þykir þetta renna nokkrum stoðum undir framburð brotaþola um kynferðisbrot ákærða, en brotaþoli hefur borið um að ákærði hafi ekki tekið út úr sér tennurnar við önnur tækifæri en þegar hann hafði við hann munnmök. Þykir það og samræmast framburði vitnisins E, sem kvaðst varla hafa þekkt ákærða þegar hann kom tannlaus til dyra.

Brotaþoli hefur borið um að hann hafi reykt hass hjá ákærða og að ákærði hafi látið honum efnið í té. Í skýrslum brotaþola hjá lögreglu kemur og fram að hann hafi reykt hass úr svokallaðri fötu hjá ákærða. Fyrir dóminum kannaðist ákærði við að hafa reykt hass úr fötu á þessum tíma, en sagðist ekki hafa gert það fyrir framan brotaþola. Kvaðst hann hafa stundað hassreykingarnar í eldhúsinu og haft lokað fram í stofu á meðan. Hann neitaði því að hafa látið brotaþola í té hass til eigin neyslu. Þessi framburður ákærða þykir ekki trúverðugur í ljósi þess að ákærði bjó samkvæmt gögnum málsins afar þröngt á þessum tíma og átti því væntanlega óhægt um vik að leyna hassreykingum sínum. Þá verður að líta til þess að í lok nóvember 2001 var brotaþoli lagður inn á geðdeild, m.a. vegna mikilla hassreykinga, en þá hafði brotaþoli dvalið meira og minna hjá ákærða frá því í byrjun sama árs. Þykir framburður ákærða um hassneyslu brotaþola afar ótrúverðugur.

Ljóst er að samskiptum ákærða og brotaþola lauk mjög skyndilega í lok árs 2001, en ákærði hefur borið um að brotaþoli hafi horfið skömmu fyrir jólin 2001. Kvaðst ákærði ekki hafa heyrt í brotaþola síðan. Hann kannaðist ekki við að samskiptum þeirra hafi lokið svo snögglega vegna grunsemda barnaverndaryfirvalda og rannsóknar lögreglu á ætluðu kynferðisbrotum hans gagnvart brotaþola.

Þegar brotaþoli veiktist og var lagður inn á geðdeild með geðrofseinkenni í umrætt sinn var hann aðeins 15 ára gamall. Samkvæmt framburði móður hans og bróður greindi brotaþoli þá í fyrsta skipti frá því að hann hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða, en fór ekki út í frekari smáatriði. Nánari lýsing á háttsemi ákærða kom fyrst fram hjá brotaþola í samtali við vitnið og sálfræðinginn Jón Friðrik Sigurðsson á meðferðarheimilinu [...]. Skýringar brotaþola á því hvers vegna hann vildi ekki tjá sig um málið við lögreglu á þessum tíma þykja trúverðugar, en fram er komið að rannsókn lögreglu beindist aðallega að móður hans, sem hann sagði að hefði verið ranglega sökuð um að hafa misnotað hann kynferðislega.

Þá hafa vitnin Halldóra Ólafsdóttir geðlæknir og Tómas Zoega geðlæknir, sem bæði hafa haft brotaþola til meðferðar á síðustu árum, borið um það fyrir dóminum að brotaþoli hafi við læknismeðferð hjá þeim rætt um að hann hefði verið misnotaður kynferðislega sem unglingur.

Vitnið Bertrand Andre Marc Lauth, geðlæknir hefur borið um það að brotaþoli hafi við komu á Barna- og unglingageðdeild í lok nóvember 2001 sýnt kynferðislega hegðun gagnvart starfsfólki, sem og streitueinkenni. Kvað hann ljóst að brotaþoli hefði verið með geðrofseinkenni í tengslum við áfallastreitu, en læknar hefðu hvorki tengt þessi einkenni við geðklofasjúkdóm né hassneyslu brotaþola. Það hefði verið skilningur lækna á deildinni að það sem brotaþoli hefði lent í og upplifað hefði valdið honum mikilli streitu og þar með geðrofseinkennum. Þá sagði hann að kynferðislegt ofbeldi gæti haft í för með sér slík einkenni, þótt erfiðar heimilisaðstæður brotaþola gætu einnig hafa átt sinn þátt í einkennum hans.

Bertrand Andre Marc og Jón Friðrik kváðust hvorugir minnast þess að brotaþoli hefði skáldað upp sögur á meðan hann dvaldi á Barna-og unglingageðdeildinni annars vegar og á meðferðarheimilinu [...] hins vegar. Sagði vitnið Bertrand Andre Marc að starfsfólk geðdeildar hefði verið sannfært um að brotaþoli liði miklar þjáningar og byggi yfir leyndarmáli sem hann mátti ekki og vildi ekki segja frá. Vitnið Jón Friðrik sagði að ekki hefði hvarflað að sér, hvorki þá né nú, að brotaþoli væri að skálda upp frásögn sína af kynferðisbrotum ákærða. Frásögn brotaþola hefði verið trúverðug og sagði hann að brotaþoli hefði átt mjög erfitt með að segja frá reynslu sinni. Í sama streng hafa tekið vitnin Halldóra Ólafsdóttir og Tómas Zoega, en þau sögðu að frásögn brotaþola af kynferðisbrotunum hefði verið trúverðug. Tók Halldóra jafnframt fram að brotaþoli hefði komið vel fyrir og að frásögn hans hefði verið greinargóð og einlæg. Þau töldu bæði ólíklegt að frásögn brotaþola af kynferðisbrotunum væri uppspuni eða tengdist geðsjúkdómi hans.

Við mat á trúverðugleika framburðar brotaþola ber og að líta til framburðar vitnisins Jóns Friðriks og skýringa hans á því hvers vegna það reynist drengjum almennt erfiðara en stúlkum að greina frá slíkum brotum, en brotaþoli hefur borið um að hafa fengið fullnægingu þegar ákærði braut gegn honum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat dómsins að framburður brotaþola sé trúverðugur og að leggja beri hann til grundvallar í málinu.

Með vísan til framangreinds er því talið sannað að ákærð hafi haft í frammi háttsemi þá sem í ákæru greinir, að því tilskyldu að miða verður við að brotin hafi átt sér stað frá því í janúar 2001 og fram í nóvember sama ár.

Ljóst er að ákærði hafði yfirburðarstöðu yfir brotaþola þegar brotin voru framin, en brotaþoli var aðeins barn að aldri, sem átti hvergi höfði sínu að halla og naut lítils stuðnings. Þá er ljóst að brotaþoli dvaldi hjá ákærða með vitneskju og samþykki móður sinnar, sem þá fór með forsjá hans. Með vísan til framangreinds þykir háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni, að því tilskyldu að brot í 3. lið ákærunnar þykir einnig varða við 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Frá því ákærði framdi brot sín hafa almenn hegningarlög breyst eins og fram kemur í ákærunni varðandi heimfærslu brota til refsiákvæða. Ákærða er gerð refsing eftir nýrri lögunum, þó þannig að ekki verður beitt þyngri refsingu en heimilt var á þeim tíma er brotin voru framin, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði var ákærði með dómi [...] dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn börnum, þ.e. brot gegn þágildandi 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 25. desember [...] var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár á 100 daga eftirstöðvum refsingar. Ákærði stóðst reynslulausnina. Hinn 7. janúar 2000 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar vegna fíkniefnalagabrots og hinn 15. september 2010 gekkst ákærði undir greiðslu sektar hjá lögreglustjóra vegna sams konar brots. Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun viðurlaga í máli þessu.

Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði braut gegn barnungum dreng, sem leitaði til hans í neyð sinni og umkomuleysi og varð honum síðar háður, bæði um mat og húsaskjól. Brot hans eru mörg og alvarleg og höfðu miklar og alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ákærði brást trausti sem honum var sýnt. Hann á sér engar málsbætur. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í þrjú ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald, sem ákærði sætti vegna málsins frá 26. janúar til 8. febrúar 2013.

Brotaþoli, A, á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja bætur til hans hæfilega ákvarðaðar 2.000.000 króna, auk vaxta eins og greinir í dómsorði, en dráttarvextir reiknast frá 14. nóvember 2011 er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða.

Ákærði greiði 928.700 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 627.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola,Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 251.000 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.

Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari, Jón Höskuldsson héraðsdómari og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár, en til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna málsins frá 26. janúar til 8. febrúar 2013.

Ákærði greiði A 2.000.000 króna í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. nóvember 2010 til 14. nóvember 2011, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði 928.700 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 627.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 251.000 krónur.