Hæstiréttur íslands

Mál nr. 311/2015


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 311/2015.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Agnari Kristni Hermannssyni

(Bjarni Hauksson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Upptaka.

A var sakfelldur fyrir sjö fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot með því að hafa tvívegis ekið bifreið sviptur ökurétti og í annað skiptið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að A hefði alls níu sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og umferðarlögum nr. 50/1987. Þá hefði hann alls átta sinnum gengist undir sáttir eða viðurlagaákvarðanir fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Var refsing A ákveðin fangelsi í 7 mánuði auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Þá var honum gert að sæta upptöku á fíkniefnum og reiðufé.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af þeim sakargiftum að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni samkvæmt ákæruliðum 2, 3 og 6 í I. kafla ákæru, refsing hans verði milduð og hafnað kröfu um upptöku á 1.328.500 krónum.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Agnar Kristinn Hermannsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 608.298 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. mars sl., er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru, dagsettri 9. desember 2014, „á hendur Agnari Kristni Hermannssyni, kt. [...], Klapparstíg 7, Reykjavík, fyrir eftirtalin fíkniefna- og umferðarlagabrot framin árið 2014 í Reykjavík, nema annað sé tekið fram:

I.                   

Fíkniefnalagabrot,

  1. Með því að hafa þriðjudaginn 4. mars, að [...], haft í vörslum sínum 0,01 g af amfetamíni, 4,90 g af hassi, 0,40 g af kókaíni og 0,54 g af maríhúana, sem lögreglumenn fundu við leit.

M. 007-2014-[...]

  1. Með því að hafa á sama tíma og greinir í ákærulið I. 1., í bílskúr að [...], haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 387,79 g af maríhúana, sem lögreglumenn fundu við leit.

M. 007-2014-[...]

  1. Með því að hafa þriðjudaginn 8. apríl, að [...], haft í vörslum sínum  í sölu- og dreifingarskyni 39,57 g af maríhúana, sem lögreglumenn fundu við leit.

M. 007-2014-[...]

  1. Með því að hafa á sama tíma og greinir í ákærulið I.3., í bílageymslu við [...], haft í vörslum sínum 1,89 g af maríhúana sem ákærði kom fyrir bakvið loftræstirör rétt fyrir afskipti lögreglu.

M. 007-2014-[...]

  1. Með því að hafa á sama stað og tíma og greinir í ákærulið I.3. og I.4. haft í vörslum sínum 13,42 g af maríhúana, sem lögreglumenn fundu við leit á ákærða.

M. 007-2014-[...]

  1. Með því að hafa fimmtudaginn 27. mars, í bifreið sinni [...], á bifreiðaplani við N1 við Borgartún 39, haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni samtals 66,87 g af maríhúana, sem ákærði framvísaði við afskipti lögreglu.

M. 007-2014-[...]

  1. Með því að hafa á sama tíma og greinir í ákærulið I.6., að [...], haft í vörslum sínum 0,85 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla fann við leit.

M. 007-2014-[...]

Eru brot þessi talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

II.                 

Umferðarlagabrot, með því að hafa,:

  1. Miðvikudaginn 12. mars, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti vestur Dalveg í Kópavogi þar til lögregla stöðvaði aksturinn við Hlíðarhjalla í Kópavogi.

(Mál nr. 007-2014-13323)

  1. Aðfaranótt laugardagsins 17. maí, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 24 ng/ml) austur Skúlagötu og að Lindargötu við Frakkastíg, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

(Mál nr. 007-2014-[...])

Eru brot þessi talin varða við 1. mgr. 48. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a, allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt að ofangreind fíkniefni, samtals 510,08 g af maríhúana, 4,90 g af hassi, 0,01 g af amfetamíni, 0,40 g af kókaíni og 0,85 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og að gerðar verði upptækar samtals 1.328.500 kr., sem er ætlaður ávinningur ákærða af sölu fíkniefna, samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 1. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa, að upptöku á 1.328.500 krónum verði hafnað og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

                1., 4., 5. og 7. tl. I. kafla og II. kafli ákæru.

                Ákærði hefur játað sök samkvæmt þessum liðum ákæru. Með vísan til þeirrar játningar ákærða, sem samrýmist gögnum málsins, verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum liðum ákæru og er háttsemi ákærða þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

                2., 3. og 6. tl. I. kafla ákæru. 

                Samkvæmt skýrslu lögreglu, frá þriðjudeginum 4. mars 2014, fór lögregla kl. 15.15 þann dag að [...] í Reykjavík en henni hafði verið tilkynnt um að á umliðnum sólarhring hefðu margir lagt þangað leið sína. Talið var að sala fíkniefna færi fram á staðnum. Í skýrslunni greinir frá því að þegar komið hafi verið inn á stigagang hússins hafi mátt heyra mikið rifrildi frá risíbúð. Tekin hafi verið ákvörðun um að fara inn í íbúðina þar sem skilja hafi mátt af öskrum að átök ættu sér stað. Ákærði og sambýliskona hans hafi verið innandyra og hafi ákærði heimilað lögreglu leit í íbúðinni. Þar hafi fundist efni sem lögreglu hafi grunað að væri amfetamín, hass, kókaín og maríhúana. Hassið hafi verið í sölueiningum. Þá hafi fundist töluvert af reiðufé í íbúðinni. Þannig hafi samtals 299.500 krónur í peningaseðlum verið í plastboxi á efri hæð. Í stofunni hafi verið tvær krukkur með peningum og hafi 25.000 krónur í seðlum verið í annarri og í hinni 18.000 krónur. Á stofuborði hafi verið 28.000 krónur og loks 557.000 krónur í peningaskáp í íbúðinni. Lagt hafi verið hald á fíkniefnin og fjármunina, sem og tvo farsíma, sem grunur léki á að væru notaðir við sölu fíkniefna. Einnig hafi verið lagt hald á blað sem talið hafi verið að væri skuldalisti vegna fíkniefnasölu. Í peningaskáp hafi fundist leigusamningur um bílskúr að [...] í Reykjavík. Ákærði hafi í fyrstu ekki viljað kannast við að leigu sína á skúrnum. Lögregla hafi þá gert honum grein fyrir því að hún myndi aðgæta hvort lyklar í fórum hans gengju að bílskúrnum og hafi hann þá gengist við leigunni og sagt að þar væru 250 g af maríhúana       

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að eftir leit að [...] hafi lögregla ásamt ákærða farið að [...] og hafi lögreglan fundið þar kannabislykt. Mikið hafi fundist þar af tómum umbúðum utan af álpappírsrúllum og plastpokar sem innihaldið hafi leifar af kannabis, auk þess sem í skúrnum hafi verið átta tómar tíu lítra fötur með kannabisleifum. Í bílskúrnum hafi verið læstur skápur og á lyklakippu ákærða lykill, sem gengið hafi að þeim skáp. Í skápnum hafi verið tvær tíu lítra fötur og í þeim mikið magn af maríhúana, tveir litlir plastpokar með maríhúana og tvær grammvogir, báðar með leifum af fíkniefnum á. Á meðal rannsóknargagna málsins eru ljósmyndir er teknar voru við leit lögreglu að [...] og [...].

                Í skýrslu lögreglu frá 6. júní 2014 kemur fram að ákærði hafi greint frá því í skýrslutökum að hann ásamt sambýliskonu sinni hafi safnað þeim fjármunum, sem fundust á [...], í næstum tvö ár. Ákærði kvaðst hafa nótur fyrir peningaúttektum og væru þær í peningakassa í íbúðinni að [...]. Þegar nóturnar hafi verið skoðaðar hafi komið í ljós að þær voru frá árunum 2011, 2012 og 2013; elsta nótan frá 2. ágúst 2011 en sú nýjasta frá 3. apríl 2013. Allir peningaseðlar í peningaskáp hafi verið með raðnúmeri í röð frá E 47982255-63, alls 9 stykki af þúsund króna seðlum. Starfsmaður Seðlabanka Íslands hafi staðfest að peningaseðlar með þessum raðnúmerum hafi farið í umferð 10. febrúar 2014. 

                Tæknideild lögreglu rannsakaði þau efni sem haldlögð voru í íbúðinni að [...] og bílskúrnum að [...]. Að því er greinir í efnaskýrslunni voru að  [...] haldlögð 0,01 g af amfetamíni, 4,90 g af hassi, 0,40 g af kókaíni og 0,54 g af maríhúana og í [...] 387,79 g af maríhúana. 

                Samkvæmt skýrslu lögreglu um símhlustun, frá 30. apríl 2014, á tímabilinu 13. mars til og með 9. apríl 2014, þar sem tvö farsímanúmer ákærða voru í hlustun, kom fram að þann 8. apríl kl. 17.45 ætlaði ákærði að hitta kaupendur við bensínstöð Olíss við Skúlagötu í Reykjavík. Gripið hafi verið inn í söluferlið og tveir kaupendur hafi verið stöðvaðir. Þegar ákærði hafi orðið þess áskynja hafi hann hlaupið yfir Sæbraut í átt að sjónum. Lögreglumenn hafi hlaupið á eftir honum og veitt því athygli að hann hafi hent frá sér efnum í sjóinn sem ætla mætti að hafi verið fíkniefni. Ákærði hafi verið handtekinn og lögreglumenn náð að finna einhvern hluta þeirra efna sem hann hafi kastað frá sér. Þá hafi ætluð fíkniefni fundist á ákærða.

Í skýrslunni er greint frá því að lögregluskýrsla hafi verið gerð um kaupendur fíkniefnanna og í bifreið þeirra hafi fundist eins pakkningar undir efnin og fundist hafi á ákærða. Kaupendurnir hafi verið látnir lausir eftir vettvangsskýrslutöku. Farið hafi verið með ákærða á heimili hans, að [...] í Reykjavík. Með samþykki ákærða hafi verið framkvæmd leit í íbúð hans. Ætluð fíkniefni hafi fundist í eldhúsi íbúðarinnar og í peningaskáp samtals 251.000 krónur í reiðufé. Hald hafi verið lagt á fíkniefnin og fjármunina.

Vegna grunsemda sem vöknuðu við símhlustunina þess efnis að ákærði hefði verið staddur í bílageymslu hússins að [...] við sölu fíkniefnanna, hafi verið leitað að efnum í bílageymslunni. Í ruslageymslu hússins hafi fundist plastílát, en búið hafi verið að troða því á bak við loftræstirör. Í ílátinu hafi ætluð fíkniefni fundist í eins sölueiningum og fundist hefðu á ákærða og þeim kaupendum sem afskipti hefðu verið höfð af. Fram kemur að við leit í íbúðinni að [...] hafi meðal annars fundist umbúðir utan af NOVA símakortum. Búið hafi verið að skrifa á hvort um sig tölustafina [...] og [...]. Samkvæmt skýrslu lögreglu fundust upplýsingar um símakortakaup á símanúmerunum [...] og [...]. Bæði símanúmerin hafi verið til rannsóknar vegna ætlaðrar sölu og dreifingar fíkniefna.

Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu lagði lögregla hald á 39,57 g af maríhúana í íbúðinni að [...] og 1,89g í bílageymslunni við [...]. Í lögregluskýrslu kemur fram að tölva úr íbúð ákærða hafi verið tekin til rannsóknar. Tölvan hafi verið spegluð í rannsókn og þegar farið hafi verið í gegnum gögn úr tölvunni hafi fundist ljósmyndir af fíkniefnum sem og myndskeið. Á myndskeiði hafi sést hvar maður hafi verið að handleika maríhúana í málningarfötum og að viðkomandi hafi verið með fæðingarblett á vinstra handarbaki nær þumalputta. Þegar lögregluskýrsla hafi verið tekin af ákærða hafi verið ákveðið að ljósmynda hendur hans. Þá hafi komið í ljós  að ákærði var með samsvarandi fæðingarblett á hendi. 

Í skýrslu lögreglu frá 4. júní 2014 kemur fram, að því er varðar tengsl á milli símanúmera og bankareikninga, að ákærði hafi verið skráður fyrir símanúmerinu [...]. Símanúmerin [...] og [...] hafi verið sett í símhlustun en þessi símanúmer hafi komið fram á fésbókarsíðu seljanda fíkniefna. Við yfirferð á bankareikningum ákærða hafi mátt sjá að ákærði hafi keypt inneign á ýmis símanúmer, þ. á m. [...], [...] og [...]. Alls hafi hann fjórum sinnum keypt inneign á númerið [...], fimm sinnum á númerið [...]. Bæði væru símanúmerin skráð á A. Þá kemur fram að rannsókn hafi upphaflega hafist á ætlaðri sölu ákærða og A í tengslum við fésbókarsíðu þar sem fíkniefni hafi verið boðin til sölu. Notandanafn á fésbókarsíðunni hafi verið B. Við skoðun á sölusíðum hafi komið fram að B hafi verið með fíkniefni til sölu á 8 sölusíðum og hafi þær heitið mismunandi nöfnum. Samtals hafi auglýsingarnar verið 388. Sum þeirra myndskeiða og sumar þeirra ljósmynda er hafi verið inni á sölusíðunum hafi fundist í fartölvu á heimili ákærða að [...].

Samkvæmt sektargerð lögreglu frá 3. október 2014, sem frammi liggur í málinu, hefur tilgreindur einstaklingur gengist undir sektargerð vegna vörslu fíkniefna við bensínstöð Olíss við Skúlagötu 8. apríl 2014 kl. 17.50. Samkvæmt skýrslu lögreglu, sem fylgir sektargerðinni, var um að ræða einstakling sem lögregla hafði grunsemdir um að hefði keypt fíkniefni af ákærða umrætt sinn. Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar lögreglu var um að ræða 1,85 g af maríhúana. Í vettvangsskýrslu þess máls kemur fram að kaupandinn hafi hringt í farsímanúmerið [...] til að kaupa efnið.    

Í skýrslu lögreglu frá 12. maí 2014 kemur fram að lögregla var þann 27. mars 2014 við bensínstöð N1 við Borgartún í Reykjavík. Fram kemur að klukkan 20.30 hafi lögregla veitt athygli bifreið, með skráningarnúmerið [...], sem lagt hafi verið við bensínstöðina. Ákærði hafi setið í framsæti bifreiðarinnar, farþegamegin. A hafi gengið frá bifreiðinni að bensínstöðinni og lögreglumenn gefið sig á tal við ákærða. Málningarfata hafi verið á gólfi bifreiðarinnar fyrir framan ákærða og  hann hafi aðspurður sagt að í fötunni væru fíkniefni og talið að um 30 g væri að ræða. Við leit á ákærða hafi fundist 150.000 krónur í reiðufé. Á meðan lögregla hafi rætt við hann og A hafi maður nálgast bifreiðina. Virst hafi sem maðurinn væri að bíða eftir því að geta rætt við ákærða og A og hafi hann verið spurður að því hvort hann ætlaði að eiga viðskipti við ákærða og hann svarað því játandi. Manninum hafi verið gerð grein fyrir því að hann væri að ræða við lögreglumenn og hafi hann þá haldið sína leið. Hald hafi verið lagt á ætluð fíkniefni og reiðufé í þágu málsins en samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar lögreglu var þar um að ræða 66,87 g af maríhúana og það reiðufé er fundist hafi á ákærða.

                Við aðalmeðferð málsins gaf ákærði skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslu fyrir dómi A og fyrrum sambýliskona ákærða. Þá komu fyrir dóminn lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins.

                Ákærði kvaðst játa að hafa haft í vörslum sínum að [...] í Reykjavík, 4. mars 2014, 387,79 g af maríhúana. Hann hafi ekki verið með efnið í sölu og dreifingu. Ákærði kvaðst hafa verið með bílskúrinn á leigu í um eitt ár. Hafi hann geymt fjórhjól í bílskúrnum. Í leigu fyrir skúrinn hafi hann greitt um 30.000 krónur á mánuði. A, vinur ákærða, hafi átt fíkniefnin í skúrnum á móti honum. Efnin sem ákærði hafi átt þar hafi hann fengið að launum frá A, fyrir að leyfa A að nota skúrinn og geyma þar fíkniefnið. Kvaðst ákærði telja að hann hafi átt um 200 g af efninu.

Á þessum tíma hafi ákærði verið í neyslu og ætlað efnið til eigin nota. Er lögregla hafi lagt hald á efnið hafi ákærði verið hættur í neyslu og geymt efnið þarna. A hafi auk ákærða verið með aðgang að skúrnum. A hafi pakkað efnunum í skúrnum og umbúðir verið frá honum. Ákærði kvaðst hafa átt aðra vogina sem fundist hafi, þá minni. Hafi hann notað vogina til að vigta neysluskammta fyrir sjálfan sig. Að því er varðaði svonefndan skuldalista sem lögregla hafi lagt hald á að [...], þá kvaðst ákærði ekki geta skýrt tilvist hans. Margir hafi komið á heimili ákærða og hann hafi ekki búið nefndan lista til. Hann kvaðst hafa safnað töluverðum fjármunum til fasteignakaupa, ásamt þáverandi sambýliskonu sinni. Um hafi verið að ræða þá fjármuni er lögregla hafi lagt hald á heimili hans að [...]. Að því er varðaði efni sem lögregla hafi lagt hald á að [...] kvaðst ákærði viðurkenna að hafa haft efnið í sínum vörslum og það hafi ekki verið ætlað til sölu og dreifingar. Ákærði hafi keypt umrætt efni til eigin neyslu í sölueiningum. Hann kvaðst hafa verið búinn að kaupa sér efnið og orðið hræddur er einhver hafi kallað nafn hans. Af þeim ástæðum hafi hann hlaupið á brott. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa verið með símanúmerið [...]. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa ætlað að hitta einhverja einstaklinga hjá bensínstöðinni Olís, 8. apríl 2014. Efnið sem lögregla hafi lagt hald á við bensínstöðina N1, 27. mars 2014, hafi verið efni sem

 hafi átt og hafi ákærði á sínum tíma tekið á sig efnið fyrir A. Hann kvaðst ekki muna hvers vegna hann hafi verið með 150.000 krónum í reiðufé þennan dag. Hann gæti hafa grætt einhverja peninga í ,,póker play“, auk þess sem sennilega hafi eitthvað verið eftir af endurgreiddri tryggingu sem hann hafi fengið til baka vegna leigusamnings við [...]. Ákærði hafi verið í námi í Tækniskólanum og notið þar skólastyrks sem numið hafi um 150.000 krónum á mánuði. Ákærði kvað rétt vera að hann hafi verið með skuld á skattframtali sínu fyrir árið 2013 að fjárhæð 3.900.000 krónur. Hann hafi ekkert greitt af skuld sinni en hann hafi haft tekjur af skólastyrknum. Ákærði kvaðst telja að A hafi staðið að baki sölu á fésbókinni undir notandanafninu B. A hafi sennilega verið með þær myndir er fundist hafi í tölvu á heimili ákærða að [...].

                A kvaðst hafa þekkt ákærða frá í æsku og kvaðst kannast við að hafa átt síma sem lögregla hafi lagt hald á undir rannsókn málsins með símanúmerunum [...] og [...]. Hann hafi keypt umrædd símanúmer fyrir sjálfan sig, en ekki ákærða. Hann vissi ekki hvort ákærði hafi einhverju sinni notað þessa síma. A hafi verið til sjós á þessum tíma og lítið í landi. Er hann hafi verið í landi hafi hann notað umrædda síma. Hann hafi ekki alltaf tekið símana með sér á sjóinn. A kvaðst kannast við notandanafnið B á fésbókinni. Hafi það verið notandanafn hans og hann sett auglýsingu inn á fésbókina undir þessu notandanafni þar sem fíkniefni hafi verið boðin. A kvaðst hafa átt fíkniefni í bílskúrnum að [...]. Hafi ákærði geymt efnin fyrir sig. Fyrir þetta hefði ákærði fengið greitt, ýmist í formi fíkniefna eða peninga. Umbúðir til að pakka efnum inn hafi verið í eigu A. A kvaðst kannast við er lögregla hafi haft afskipti af honum og ákærða 27. mars 2014, við bensínstöðina N1, og kvaðst hafa átt það efni sem lögregla hafi fundið. A kvaðst kannast við að hafa notað tölvu á heimili ákærða að [...] og verið með í tölvunni ljósmyndir og myndskeið er hann hafi notað við sölu á fésbókinni.

                Fyrrum sambýliskona ákærða kvaðst, ásamt ákærða, hafa átt sjóð til væntanlegra fasteignakaupa þeirra. Ekki hafi hún og ákærði verið búin að safna eins miklum fjármunum og lögregla hafi lagt hald á heima hjá þeim 4. mars 2014. Þau hafi verið búin að safna fjármunum í um tvö ár.

Niðurstaða:

                Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft fíkniefni, samkvæmt 2., 3. og 6. tl. I. kafla ákæru, í vörslum sínum. Hefur hann neitað því að hafa haft vörslurnar í sölu- og dreifingarskyni og staðhæft að A hafi að mestu verið eigandi efnanna.

                Við mat á sök ákærða er til þess að líta að upphaf eftirlits lögreglu með ákærða og A má rekja til þess að lögregla varð þess áskynja að sala á fíkniefnum var boðin á fésbókinni undir notandanafninu B. Var um átta mismunandi síður að ræða með alls 388 auglýsingum. Á þessum síðum komu fram tvö símanúmer, númerin [...] og [...]. Bæði þessi símanúmer eru skráð á A. Við símhlustun þessara númera sannreyndi lögregla að ákærði var að bjóða fíkniefni til sölu. Þá hefur rannsókn á bankareikningum ákærða leitt í ljós að hann hefur ítrekað lagt fjárhæðir inn á þessi símanúmer. Lögregla réðst síðan í húsleit á heimili ákærða að [...] í Reykjavík, 4. mars 2014. Við það tækifæri fundust 927.500 krónur í reiðufé í íbúðinni, geymdar á mismunandi stöðum. Leigusamningur fannst í peningaskáp, þar sem ákærði var skráður leigutaki að bílskúr að [...] í Reykjavík. Í þeim skúr fannst töluvert magn fíkniefna, eða 387,79 g af maríhúana. Þá fundust fíkniefni í sölueiningum og umbúðir til að setja fíkniefni í sölueiningar. Nokkru síðar, eða 27. mars 2014, hafði lögregla afskipti af ákærða á bílastæði við bensínstöðina N1 við Borgartún í Reykjavík. Var ákærði þá með 66,87 g af maríhúana í sölueiningum í bifreiðinni. Þá var ákærði með 150.000 krónur af reiðufé á sér. Er lögregla var að ræða við ákærða kom þar að einstaklingur sem hugðist kaupa fíkniefni úr bifreið þeirri er ákærði var í. Þá leiddi símhlustun lögreglu til þess að hún komst á snoðir um að ákærði ætlaði að selja einstaklingum fíkniefni í bílageymslu við [...] í Reykjavík. Ákærði var handtekinn þar skammt frá og fundust við leit á honum fíkniefni í sölueiningum. Hafði hann náð að kasta af sér fíkniefnum, sem einnig voru í sölueiningum.

Lögregla hafði þennan dag afskipti af tveim einstaklingum sem keypt höfðu fíkniefni af ákærða. Kváðust þeir hafa haft samband við sölumanninn í gegnum símanúmerið [...]. Vettvangsskýrsla lögreglu var rituð vegna þessa og liggur fyrir í málinu sektargerð hennar vegna annars þess einstaklings er viðskipti átti við ákærða þennan dag. Sölueiningar er fundust á ákærða, þær er hann kastaði frá sér og þær sölueiningar sem fundust á þeim einstaklingum er áttu viðskipti við ákærða, voru allar eins úr garði gerðar. Loks er til þess að líta að við leit heima hjá ákærða þennan dag fundust í tölvu á heimili ákærða myndskeið og myndir samsvarandi þeim er voru inni á fésbókarsíðum, er fíkniefni voru seld á, undir notandanafninu B. Þar var einnig að finna umbúðir utan af símakortum með símanúmerunum [...] og [...].

                A synjaði á rannsóknarstigi málsins fyrir að hafa verið eigandi þeirra fíkniefna er um ræðir. Hefur hann breytt framburði sínum hér fyrir dóminum og kveðst nú hafa verið eigandi þeirra fíkniefna er um ræðir og verið með efnin til sölu og dreifingar. Dómurinn telur breyttan framburð A ekki trúverðugan í ljósi þess að skýring hans á breyttum framburði, sem tengist ætlaðri óvild í garð ákærða, er ekki sennileg. Þá er einkar ósennilegt, í ljósi afraksturs þeirra rannsóknaraðgerða lögreglu sem hér að framan er lýst, að A hafi, svo sem hann heldur sjálfur fram, staðið einn að sölunni. Í þessu ljósi verður ótrúverðugum framburði A hér fyrir dómi hafnað. 

                Þegar til allra þeirra atriða er litið sem hér að framan greinir er hafið yfir allan vafa að ákærði hafi staðið í sölu og dreifingu fíkniefna í mars og apríl 2014. Á myndskeiði inni á fésbókarsíðu þar sem fíkniefni voru seld undir notendanafninu B, mátti sjá hönd með fæðingarbletti er kemur heim og saman við fæðingarblett er ákærði ber. Mikið magn reiðufjár fannst á mismunandi stöðum á heimili ákærða að [...]. Var það geymt í peningaskáp, en einnig í plastkrukkum og öðrum ílátum víðsvegar um íbúðina. Slíkt magn reiðufjár, geymt með þeim hætti og á sama stað og fíkniefni í sölueiningum fundust, bendir ótvírætt til að fjármunirnir hafi verið afrakstur fíkniefnasölu. Með hliðsjón af því verður það talið sannað.

Ákærði var handtekinn 27. mars og aftur 8. apríl 2014. Í bæði skiptin var ákærði staðinn að sölu fíkniefna og með umtalsvert magn reiðufjár í vörslum sínum. Bendir það ótvírætt til þess að um andvirði ólöglegrar sölu fíkniefna hafi verið að ræða. Með hliðsjón af því verður það talið hafið yfir skynsamlegan vafa. Þegar öll þessi atriði eru virt er sannað að ákærði hafi verið með þau fíkniefni er um getur í ákæru í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessum liðum ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.  

                Ákærði er fæddur í febrúar 1987. Hann á að baki sakaferil frá árinu 2004. Frá þeim tíma hefur ákærði alls níu sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Þá hefur ákærði á sama tíma alls átta sinnum gengist undir sáttir eða viðurlagaákvarðanir fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Með hliðsjón af sakarefni málsins og sakaferli ákærða er refsing hans ákveðin fangelsi í 7 mánuði. Ekki er unnt að skilorðsbinda refsinguna.  

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í ævilangt.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs fíkniefni sem greinir í dómsorði. Hér að framan hefur því verið slegið föstu að haldlagðir fjármunir hjá ákærða hafi verið afrakstur sölu fíkniefna. Verða fjármunir þessir því gerðir upptækir eins og í dómsorði er mælt fyrir um.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Agnar Kristinn Hermannsson, sæti fangelsi í 7 mánuði. 

                Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs fíkniefni sem haldlögð voru við rannsókn málsins, samtals 510,08 g af maríhúana, 4,90 g af hassi, 0,01 g af amfetamíni, 0,40 g af kókaíni og 0,85 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, og ætlaður ávinningur ákærða af sölu fíkniefna samtals að fjárhæð 1.328.500 krónur.

                Ákærði greiði 871.495 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,  Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 757.020 krónur.