Hæstiréttur íslands
Mál nr. 442/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 22. júní 2012. |
|
Nr. 442/2012. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Björgvin Halldór Björnsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Garðar Gíslason hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. júlí 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá er krafist „hæfilegra málsvarnarlauna til skipaðs verjanda varnaraðila.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2012.
Ríkissaksóknari krafðist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...], [...] í [...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfresti stendur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 18. júlí nk. kl. 16:00.
Ákærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Krafan er reist á því að ákærði hafi í dag í máli nr. S-215/2012 verið dæmdur til að sæta fangelsi í fjögur ár fyrir alvarlega líkamsárás.
Í greinargerð sinni vísar ríkissaksóknari að öðru leyti til þess að með ákæru dags. 14. mars 2012 hafi ríkissaksóknari höfðað sakamál á hendur ákærða o.fl. fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Ákærði hafi nú verið sakfelldur og með hliðsjón af því og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur.
Ákærði var í dag dæmdur í fangelsi í fjögur ár fyrir alvarlega líkamsárás og hefur hann áfrýjað dómnum. Fallist verður á með ríkissaksóknara að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt í málinu. Með vísan til 3. mgr. 97. gr., sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála verður krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett í beiðni. Dómfelldi verður því úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 18. júlí nk. kl. 16:00.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Dómfellda, X, er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 18. júlí nk., kl. 16:00.