Hæstiréttur íslands

Mál nr. 352/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Kæruheimild
  • Vanreifun


                                     

Þriðjudaginn 3. júní 2014.

Nr. 352/2014.

Íris Baldursdóttir

(Tómas Hrafn Sveinsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Kæruheimild. Vanreifun.

Staðfest voru ákvæði í héraðsdómi um að máli Í á hendur L hf. væri vísað frá dómi að hluta sökum vanreifunar, en þær kröfur Í sem vísað var frá lutu að endurheimtu ætlaðs ofgreidds fjár úr hendi L hf. vegna kaupleigusamnings aðilanna.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærð eru ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2014 um að vísa frá tveimur kröfum, sem sóknaraðili gerði í máli sínu á hendur varnaraðila, annars vegar aðalkröfu um greiðslu á 429.268 krónum og hins vegar varakröfu um greiðslu á 384.401 krónu. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst að þessi ákvæði dómsins um frávísun málsins að hluta verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka fyrrgreindar kröfur til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hin kærðu ákvæði héraðsdóms verði staðfest. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í héraðsdómi deila aðilarnir um endurútreikning á skuld sóknaraðila samkvæmt samningi, sem hún gerði við varnaraðila 20. apríl 2007 um kaupleigu á nánar tilgreindri bifreið, en ekki er ágreiningur um að samningurinn hafi í reynd tekið til láns í íslenskum krónum, sem bundið var á ólögmætan hátt við gengi tveggja erlendra gjaldmiðla. Í málinu gerði sóknaraðili fyrrgreindar kröfur á hendur varnaraðila, aðallega og til vara, en þær voru báðar reistar á þeirri forsendu að í endurútreikningi á skuld sóknaraðila, sem varnaraðili gerði 26. október 2010, hafi ranglega verið lagt til grundvallar að samhliða því að virt yrðu að vettugi ákvæði um gengistryggingu skuldarinnar og vexti, sem tækju mið af skuldbindingum í erlendum gjaldmiðlum, væri varnaraðila heimilt að reikna frá öndverðu vexti af skuldinni eftir 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Taldi sóknaraðili þess í stað að varnaraðili yrði að una við að litið yrði svo á að greiðslur, sem hún innti af hendi til hans vegna gjalddaga af skuldinni á tímabilinu frá 5. júní 2007 til 5. júní 2010, væru endanlegar og girtu reglur fjármunaréttar um gildi fullnaðarkvittana fyrir að hann gæti haft uppi viðbótarkröfu. Vegna þessa hafi greiðslur sóknaraðila ekki aðeins nægt til að gera full skil á skuldinni, heldur jafnframt að mynda inneign hjá varnaraðila, sem næmi fjárhæð samkvæmt aðalkröfu eða varakröfu. Að þessu frágengnu krafðist sóknaraðili þess að viðurkennt yrði að varnaraðila væri óheimilt við endurútreikning á skuld samkvæmt samningi þeirra að krefjast frekari greiðslna en þegar hafi verið inntar af hendi vegna gjalddaga á fyrrgreindu tímabili. Í héraðsdóminum var þessi síðastgreinda krafa sóknaraðila tekin til greina, en sem áður segir var aðalkröfu og varakröfu vísað frá dómi.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ítrekað verið slegið föstu að í 143. gr. laga nr. 91/1991 felist heimild til að kæra til réttarins ákvæði í dómi héraðsdóms um frávísun máls að hluta án þess að úrlausn hans um efni þess komi á þann hátt til endurskoðunar, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 9. mars 1999 í máli nr. 77/1999, 21. janúar 2002 í máli nr. 9/2002, 6. nóvember 2008 í máli nr. 566/2008, 18. júní 2013 í máli nr. 363/2013 og 31. mars 2014 í máli nr. 207/2014. Krafa varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti er því með öllu haldlaus.

Í málatilbúnaði varnaraðila fyrir héraðsdómi voru varnir hans meðal annars reistar á því að útreikningar að baki aðalkröfu sóknaraðila og varakröfu væru efnislega rangir af nánar greindum ástæðum, sem vörðuðu forsendur þeirra. Eins og málið liggur fyrir er ekki unnt að líta svo á að sóknaraðili hafi hnekkt röksemdum, sem varnaraðili færði fram að þessu leyti. Að því virtu eru þessar dómkröfur sóknaraðila vanreifaðar og er þannig ófært að fella efnisdóm á þær. Samkvæmt þessu verða ákvæði héraðsdóms um frávísun málsins að hluta látin standa óröskuð og verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um frávísun málsins að hluta skulu vera óröskuð.

Sóknaraðili, Íris Baldursdóttir, greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2014.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 22. október 2013 og dómtekið 23. apríl sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Íris Baldursdóttir, Grundarhvarfi 5, Kópavogi. Stefndi er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu 429.268 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. júlí 2013 til greiðsludags, en til vara að stefndi greiði 384.401 krónu með sömu vöxtum. Til þrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt, við endurútreikning lánssamnings málsaðila nr. 70049156, að krefja stefnanda um frekari greiðslur en stefnandi innti af hendi vegna gjalddaga frá og með 5. júní 2007 til og með 5. júní 2010. Til frekari vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að téður lánssamningur sé að fullu uppgreiddur og stefndi endurgreiði stefnanda 49.333 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi. Í öllum tilfellum krefst stefnandi þess að stefnda verði gert skylt að gefa út afsal til stefnanda fyrir bifreiðinni NA-779 sem er af gerðinni Volvo S60. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.

Málsatvik

Ágreiningur aðila lýtur að endurútreikningi stefnda á gengistryggðu láni sem stefnandi tók hjá stefnda með svonefndum bílasamningi 20. apríl 2007, auðkenndur nr. 70049156. Lánið var að fjárhæð 3.232.265 krónur og var hið leigða bifreiðin NA-779 sem er af gerðinni Volvo S60. Fjárhæð lánsins var grundvölluð á kaupverði bifreiðarinnar auk stofngjalds stefnda og vaxta frá útborgunardegi. Í samningnum kom fram að leigutími væri frá 20. apríl 2007 til 5. maí 2014, að fyrsti gjalddagi væri 5. júní 2007 og fjöldi leigugreiðslna væri 84 talsins. Í 4. gr. samningsins sagði að allar fjárhæðir samningsins væru gengistryggðar og bundnar „erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: JPY 50% og CHF 50%“. Óumdeilt er að í umræddum samningi fólst gengistryggt lán í íslenskum krónum í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 13. gr. sömu laga.

 Meðal gagna málsins eru skilmálabreytingar 21. nóvember 2008, 19. mars 2009 og 18. nóvember þess árs auk þess sem fyrir liggur að stefnandi greiddi ekki af láninu með samþykki stefnda frá og með gjalddaga 20. maí 2010 þar til gerður var endurútreikningur 26. október 2010. Ekki er um það deilt að stefnandi stóð í skilum við stefnda samkvæmt skilmálum samningsins eða síðari skilmálabreytingum og/eða samkomulagi aðila, allt þar til stefnandi lét greiðslur falla niður á árinu 2013 á þeim forsendum að lánið hefði verið að fullu upp greitt.

Svo sem áður greinir var stefnanda hinn 26. október 2010 tilkynnt um niðurstöðu endurútreiknings á skuldbindingu sinni miðað við að lánið hefði verið ógengistryggt lán í íslenskum krónum, en þá höfðu fallið dómar Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, svo og dómur réttarins 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Niðurstaðan endurútreiknings var sú að eftirstöðvar lánsins töldust vera 2.175.888 krónur í stað 5.327.070 króna. Var sú fjárhæð grundvölluð á því að eftirstöðvar lánsins væru 2.086.911 krónur en við þá fjárhæð ættu að bætast 88.977 krónur sem stefnandi taldist hafa vangreitt stefnda miðað við endurútreikninginn. Af hálfu stefnanda er þessum útreikningi stefnda mótmælt sem röngum án tillits til þess hvort fallist er á málsástæður hans um fullnaðarkvittanir.

Stefndi hefur bent á að samkvæmt fyrrgreindum endurútreikningi hafi stefnandi verið talinn hafa ofgreitt af láninu sem nam 110.720 krónum miðað við 5. júní 2010. Greiðslur stefnanda hafi hins vegar legið niðri í júlí, ágúst, september og október og því hafi staða stefnanda orðið neikvæð þótt inneign hans hafi verið ráðstafað inn á lánið. Þá er á það bent að samkvæmt útreikningi stefnda hafi verðmæti leigumunarins verið 2.754.190 krónur á umræddum degi samkvæmt mati starfsmanns stefnda sem lagt hefur verið fram. Stefndi bendir einnig á að engar athugasemdir hafi borist frá stefnanda við endurútreikning stefnda né skuldajöfnuð, en viðskiptavinir stefnda hafi þó verið hvattir til að hafa samband við stefnda ef einhverjar athugasemdir væru.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi haldið áfram að greiða af láninu eftir að endurútreikningur lá fyrir og þá í samræmi við greiðsluáætlun stefnda sem fylgdi endurútreikningi. Hinn 3. júní 2013 tilkynnti lögmaður stefnanda stefnda að stefnandi myndi frá og með 1. maí 2013 ekki inna frekari greiðslur af hendi enda væri ljóst að lánið væri fyrir löngu að fullu greitt ef tekið væri tillit til reglna um fullnaðarkvittanir samkvæmt dómum Hæstaréttar. Jafnframt var þá krafist afsals fyrir áðurnefndri bifreið.

                Meginágreiningur aðila snýr að því hvort stefnda hafi verið heimilt að miða endurútreikning téðs láns við vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 gegn kvittunum stefnanda fyrir fullnaðargreiðslu samningsvaxta. Aðila greinir einnig á um fjárhæðir við þær aðstæður að stefnda hafi talist heimilt að miða vexti við 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá upphafi.

                Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir kröfur sínar á því að gengistrygging lánsins hafi verið ólögmæt og stefndi hafi með ólögmætum hætti krafið sig um hærri fjárhæð en honum bar að greiða af láninu með vísan til reglna um fullnaðarkvittanir. Endurútreikningur stefnda hafi verið rangur hvort sem miðað sé við fullnaðarkvittanir stefnanda eða 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi vísar í þessu sambandi í fyrsta lagi til nánar tiltekinna fordæma Hæstaréttar máli sínu til stuðnings. Stefnandi vísar til þess að með endurútreikningi stefnda hafi hann verið krafinn um vexti að fjárhæð 1.384.934 krónur en þeir vextir sem stefnandi greiddi í raun hafi numið samtals 569.019 krónum. Viðbótarkrafa stefnda á hendur stefnanda nemi því 815.915 krónum.  Sú fjárhæð teljist umtalsverð ef mið sé tekið af upphaflegri lánsfjárhæð eða heildarvaxtagreiðslum. Stefnandi mótmælir sjónarmiðum stefnda á þá leið að hann eigi ekki rétt á nýjum endurútreikningi þar sem við endurreikning hafi myndast inneign á veltureikningi. Þá stangist fullyrðingar stefnda um inneign stefnanda á veltureikningi algerlega á við skjöl stefnda sjálfs um endurútreikninginn þar sem fram komi að skuld hafi verið  á veltureikningi að fjárhæð 88.977 krónur. Stefnandi vill að hafður sé í huga aðstöðumunur málsaðila, þ.e. að stefnandi sé neytandi en stefndi fjármálafyrirtæki. Stefnandi hafi engin tök haft á því að átta sig á því að stefndi beitti útreikningsaðferðum stefnanda í óhag eða að aðferðir stefnda samræmdust ekki 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Þegar af þeim sökum eigi ekki að koma til álita möguleg sjónarmið stefnda um tómlæti stefnanda hvað þetta varðar.

Stefnandi skýrir fjárhæð aðalkröfu á þá leið að fundin sé fjárhæð með því fyrst að reikna saman þær greiðslur sem stefnandi greiddi inn á höfuðstól lánsins frá lántökudegi fram að endurútreikningsdegi 26. október 2010 og draga samtölu þeirra greiðslna frá upphaflegum höfuðstól lánsins í samræmi við gildi fullnaðarkvittana og fyrrgreinda dóma Hæstaréttar þess efnis. Niðurstaða þess útreiknings sé að á endurútreikningsdegi 26. október 2010 hafi höfuðstóll lánsins átt að standa í 1.298.777 krónum, en ekki 2.175.888 krónum eins og endurútreikningur stefnda kvað á um. Til að leiðrétta lánið, stöðu þess og þróun eftir 26. október 2010 „er beitt þeirri aðferðafræði sem kveðið er á um í 18. gr. vaxtalaga, þ.e. að vaxtareikna höfuðstól lánsins með “seðlabankavöxtum” og draga frá þeirri tölu allar innborganir, vaxtareiknaðar með sama hætti.  Í þeim útreikningi kemur í ljós að með afborgun þann 6. ágúst 2012 greiddi stefnandi lánið upp. Hluti þeirrar afborgunar stefnanda og allar síðari greiðslur stefnanda til stefnda voru því ofgreiðslur. Með samlagningu þeirra greiðslna kemur fram kröfufjárhæð stefnanda.“ Varakrafa stefnanda er fundin út með sama hætti og aðalkrafa en þannig að tekið hefur verið tillit til athugasemda stefnda um að stefnandi hafi ofmetið ofgreiðslur sínar með því að meðhöndla samningsbundin greiðslugjöld sem innborganir á eftirstöðvar samningsins auk þess sem höfuðstóll lánsins hafi ekki verið vaxtareiknaður frá 5. júní 2010 til 26. október 2010 eða höfuðstólsfærður. Í endanlegri kröfugerð stefnanda er ekki lengur krafist vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 vegna aðal- og varakröfu.

Stefnandi lítur svo á að þrautavarakrafa hans feli í sér að viðurkennt sé að stefnda hafi verið óheimilt að krefja stefnanda um frekari greiðslur en stefnandi innti af hendi vegna gjalddaga frá og með 5. júní 2007 til og með 5. júní 2010.  Feli sú krafa í raun í sér kröfu um að stefndi endurútreikni lánið á nýjan leik í samræmi við það að vaxtagreiðslur stefnanda fyrir fyrrgreint tímabil hafi talist fullnaðargreiðslur vaxta. Vísast hvað þessa kröfu varðar til sömu sjónarmiða og rakin eru til stuðnings aðalkröfu. Þriðja varakrafa stefnanda byggir á því að jafnvel þótt stefnda hafi verið heimilt endurútreikna lánið miðað við vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 eigi hann að endurgreiða stefnanda 49.333 krónur ásamt dráttarvöxtum. Er krafan studd við útreikninga stefnanda á grundvelli 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 sem ekki er ástæða til rekja frekar.

Stefnandi telur ljóst að hvernig sem á málið er litið þá liggi fyrir að umræddur lánssamningur sé uppgreiddur. Í samræmi við 5. og 8. gr. áðurlýsts lánssamningsins krefst stefnandi því þess að stefndi gefi út afsal til stefnanda fyrir hinni leigðu bifreið.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi mótmælir því ekki að um hafi verið að ræða lánssamning í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Hann telur hins vegar að fyrrgreindur endurútreikningur stefnda á samningi aðila hafi verið réttur og í samræmi við lög nr. 38/2001, sbr. breytingalög nr. 151/2010 og fordæmi Hæstaréttar. Telur stefndi að ekkert tilefni hafi verið til að víkja frá meginreglunni um fullar efndir og beita undantekningarreglunni um fullnaðarkvittanir. Stefndi mótmælir því að í endurútreikninginum felist viðbótarkrafa um greiðslu vaxta fyrir liðna tíð. Fyrir liggi að við endurútreikninginn lækkuðu eftirstöðvar skuldarinnar um 3,2 milljónir króna og stefnandi hafi átt inneign hjá stefnda miðað við lok fullnaðarkvittanatímabils sem hafi verið greidd inn á lánið.

Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi ekki lagt fram útreikning í málinu sem sýni að hann eigi kröfur á hendur stefnda. Útreikningsaðferðir sem kröfur stefnanda byggja á feli meðal annars í sér kröfu um vexti á endurgreiðslukröfu allt frá júní 2010. Þá er byggt á því að ekki séu skilyrði til beitingar undantekningarreglu um fullnaðarkvittanir þótt hún yrði talin eiga við. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir  fjárhagslegri röskun vegna „viðbótarkröfu“ auk þess sem stefnandi hafi ekki getað haft væntingar um annað en að lánið yrði reiknað með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 í samræmi við efni samnings og dóma Hæstaréttar. Í því efni vísar stefndi meðal annars til þess að sú bifreið sem fjármögnuð var með umræddu láni hafi hækkað í að raunvirði. Fjárhagsleg röskun hafi því orðið hverfandi eða jafnvel ekki nein. Þá er vísað til þess að skilmálar samnings hafi ekki verið efndir frá nóvember 2008 vegna skilmálabreytinga og greiðslujöfnunar. Hafi því skort á festu við framkvæmd samningsins. Einnig er þá það bent að skuldbindingin hafði þegar verið greidd að mestu leyti þegar stefnandi bar fyrir sig fullnaðarkvittanir. Stefnandi hafi verið búinn að ljúka við að greiða 71 af 84 samningsgreiðslum eða um 6 ár af 7 ára samningi. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við endurútreikning stefnda í  tvö og hálft ár sem sýni að hann hafi ekki haft væntingar um annað en að útreikningurinn væri réttur og að hann hafi ekki orðið fyrir verulegri frjáhagslegri röskun. Raunveruleg efnahagsleg áhrif samningssambands aðila séu þau að stefnandi hafi greitt mjög hóflega vexti þar sem hann fái afhenta bifreið sem sé hlutfallslega meira virði en þegar samningur var gerður. Ef aðalkrafa stefnanda sé tekin til greina muni stefnandi ekki einu sinni greiða til baka höfuðstól skuldbindingarinnar þegar virðisaukning bifreiðar sé tekin með í reikninginn.

Stefndi mótmælir réttmæti útreikninga stefnanda og vísar meðal annars til þess að stefnandi ráðstafi ekki greiðslum mánaðarlega til greiðslu vaxta- og afborgunarhluta samnings heldur miði við samtölu allra greiðslna, auk áfallina vaxta, sem ráðstafað sé inn á höfuðstól. Þá eru í greinargerð stefnda gerðar athugasemdir við útreikninga stefnanda sem hann hefur tekið tillit til í varakröfu sinni sem sett var fram fyrir aðalmeðferð málsins. Þá er því hreyft í greinargerð stefnda að vísa eigi þrautavarakröfu stefnanda sjálfkrafa frá dómi sökum þess að hún sé óljós. Verði kröfunni ekki vísað frá dómi eru færð fyrir því rök að sýkna eigi af kröfunni með sambærilegum rökum og áður greinir um greiðslukröfur stefnanda. Þá hafnar stefndi því að endurútreikningur hans hafi verið rangur eða í ósamræmi við 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 sem síðar tók gildi. Stefndi telur með vísan til framangreinds að hafna eigi kröfu stefnanda um afhendingu fyrrgreindrar bifreiðar. Þá er vaxtakröfum stefnanda mótmælt.

Niðurstaða

Í máli þessu er óumdeilt að áðurlýstur samningur stefnanda við stefnda 20. apríl fól í sér lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Megin ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnandi geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiðslu vaxta af láninu fram til 5. júní 2010, en aðila greinir þó einnig um lögmæti endurútreiknings stefnda ef þessari málsástæðu er hafnað.

Óumdeilt er að þær fjárhæðir, sem stefnandi greiddi stefnda í vexti af höfuðstól á þeim gjalddögum, sem áður er lýst, voru í samræmi við greiðslutilkynningar útgefnar af stefnda.  Er og ekki um það deilt að stefndi tók við greiðslum stefnanda vegna vaxta og gaf út fyrirvaralausar kvittanir vegna þeirra. Eins og málið liggur fyrir verður því að leggja til grundvallar að stefnandi hafi greitt þá vexti sem tilgreindir voru á greiðsluskjölum stefnda í góðri trú um lögmæti lánsins.

Að mati dómsins er ljóst að aðstöðumunur var með aðilum þar sem stefndi er fjármálafyrirtæki sem starfar á lánamarkaði og hafði þar boðið viðskiptavinum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu en ekkert er fram komið í málinu um að stefnandi hafi búið yfir sérstakri þekkingu á gjaldeyrisviðskiptum. Stóð það því stefnda almennt nær að gæta að því að lánssamningurinn væri í samræmi við lög og bera áhættuna af því ef svo væri ekki.

Eins og áður greinir innti stefnandi skilvíslega af hendi afborganir á 37 gjalddögum yfir þriggja ára tímabil og hafði hann þannig greitt upp verulegan hluta lánsins þegar greiðslur voru látnar falla niður með samkomulagi við stefnanda á árinu 2010. Var því um að ræða nægilega festu við framkvæmd samningsins og geta skilmálabreytingar eða frestun greiðslna samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi aðila ekki haggað þeirri niðurstöðu.

Af endurútreikningi stefnda verður ráðið að vextir af samningnum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 fram til 5. október 2010 hafi átt að vera 1.384.394 krónur, en þeir samningsvextir sem stefnandi greiddi í reynd hafi numið 569.019 krónum. Nemur krafa stefnda um viðbótarvexti samkvæmt þessu 815.375 krónum. Er sú fjárhæð umtalsverð hvort sem litið er til höfuðstóls lánsins eða heildargreiðslu samningsvaxta. Liggur einnig í hlutarins eðli að viðbótargreiðsla, eins og sú sem hér er um að ræða, felur í sér röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara. Er haldlaus sú málsástæða stefnda að í þessu efni eigi að líta til þess að láninu hafi verið varið til kaupleigu bifreiðar sem hafi hækkað að raunvirði vegna gengisbreytinga og stefnandi eigi rétt á því að fá afsalað í lok lánstímans. Þá verður ekki á það fallist að stefnandi hafi glatað rétti til að bera fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna tómlætis við að hafa uppi mótmæli við endurútreikningi stefnda eða fyrirvaralausum greiðslum eftir að sá útreikningur lá fyrir.

Að öllu virtu og með vísan til þeirra viðmiða sem ítrekað hafa verið lögð til grundvallar í fordæmum Hæstaréttar er það álit dómsins að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu á framangreindum vaxtagjalddögum lánsins. Samkvæmt þessu er á það fallist að stefnda sé óheimilt að krefja stefnanda um viðbótargreiðslur vegna greiddra og gjaldfallina vaxta vegna gjalddaga frá og með 5. júní 2007 til 5. júní 2010, svo sem þrautavarakrafa hans gerir ráð fyrir.

Samkvæmt útreikningum stefnanda, sem ekki hefur verið mótmælt tölulega af stefnda, námu afborganir hans af höfuðstól á umræddu tímabili 1.933.488 krónum og nam höfuðstóll lánsins því 1.298.777 krónum miðað við 26. október 2010, en ekki 2.175.888 krónum, svo sem endurútreikningur stefnda kvað á um. Liggur þannig fyrir endurútreikningur stefnda fól í sér of háar mánaðargreiðslur sem stefnandi innti af hendi. Er það álit dómsins að stefnandi kunni að eiga rétt á endurgreiðslu þess fjár sem hann sannanlega ofgreiddi stefnanda með þessum hætti. Stefnandi hefur hins vegar hagað kröfugerð sinni á þá leið að hann hefur annars vegar reiknað upp höfuðstól lánsins miðað við stöðu þess 26. október 2010 og hins vegar innborganir stefnanda eftir þetta tímamark og til og með 6. ágúst 2012, sbr. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Telur hann samkvæmt þessu að lánið hafi að fullu verið greitt upp 6. ágúst 2012 þegar uppreiknaðar heildarinnborganir stefnanda námu uppreiknuðum höfuðstóli lánsins og raunar gott betur.

Í málinu er á það líta að samkvæmt samningi aðila skyldi lánið endurgreiðast með 84 greiðslum og skyldi síðasta afborgun vera 5. maí 2014. Greiðslukröfur stefnanda jafngilda hins vegar því að honum hafi verið heimilt að greiða upp umrætt lán mun hraðar en samningur aðila kvað á um. Að mati dómsins fær slík kröfugerð hvorki stoð í samningi aðila eða fyrirmælum laga. Þá verður ekki á það fallist að stefndi hafi heimilað slíka uppgreiðslu lánsins með óbeinum hætti með því að ofkrefja stefnanda um mánaðarlegar afborganir á grundvelli áðurlýsts endurútreiknings. Gegn andmælum stefnda, og án tillits til sjálfstæðrar kröfu stefnanda um endurgreiðslu sem hann hafði fyrst uppi með bréfi lögmanns 3. júní 2013, gat stefnandi því ekki litið svo á að lánið væri að fullu greitt 6. ágúst 2012. Jafnframt verður þá að hafna kröfu stefnanda um stefnda verði gert skylt að gefa út afsal fyrir áðurlýstri bifreið með vísan til þess að lánið sé að fullu greitt.

Í málinu liggja fyrir ekki fyrir neins konar útreikningar um þær fjárhæðir sem stefnandi ofgreiddi stefnda með mánaðarlegum greiðslum sínum eftir 26. október 2010 til maí 2012 eða gögn sem gætu varpað ljósi á þennan þátt málsins. Er tölulegur grundvöllur fjárkrafna stefnanda því svo óljós að ekki verður úr bætt. Er því óhjákvæmilegt að vísa fjárkröfum stefnanda sjálfkrafa frá dómi af þessum sökum. Hins vegar verður fallist á þrautavarakröfu stefnanda um að við endurútreikning sinn hafi stefnda verið óheimilt að krefja stefnanda um frekari greiðslu samningsvaxta en stefnandi innti af hendi í reynd frá upphafi greiðslna til og með 5. júní 2010, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda stærstan hluta málskostnaðar hans sem þykir samkvæmt þessu hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurvin Ólafsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Jóhannes Sigurðsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Aðal- og varakröfu stefnanda, Írisar Baldursdóttur, gegn stefnda, Lýsingu hf., er vísað frá dómi.

Viðurkennt er að stefnda sé óheimilt, við endurútreikning samnings aðila nr. 70049156 frá 20. apríl 2007, að krefja stefnanda um frekari greiðslu samningsvaxta en stefnandi innti af hendi vegna gjalddaga 5. júní 2007 til og með 5. júní 2010.

Stefndi skal vera sýkn af kröfu stefnanda um útgáfu afsals fyrir bifreiðina NA-779.

Stefndi greiði stefnanda 750.000 krónur í málskostnað.