Hæstiréttur íslands

Mál nr. 172/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Lögskilnaður
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 5

 

Miðvikudaginn 5. apríl 2006.

Nr. 172/2006.

K

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

gegn

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Hjón. Lögskilnaður. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kröfu K um lögskilnað frá eiginmanni sínum M var vísað frá dómi þar sem ekki var talið uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að áður en skilnaður sé veittur skuli annað hvort vera fyrir hendi samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti hafin vegna fjárslita. Yfirlýsing annars hjóna um eignaleysi var ekki talin nægja til skilyrði 95. gr. sömu laga teldust uppfyllt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2006, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2006.

             Stefnandi er K, [heimilisfang].

             Stefndi er M, [heimilisfang].

             Málið var höfðað 10. desember 2005.

Stefnandi krefst þess að sér verði með dómi veittur lögskilnaður við stefnda. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Af hálfu stefnda voru gerðar þær dómkröfur aðallega að vísað yrði frá dómi kröfu stefnanda um lögskilnað og til vara að kröfunni yrði hafnað og í báðum tilvikum að honum yrði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

Frávísunarkrafa stefnda var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum mál­flutningi um hana 8. þ.m.  Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi og að sér verði úrskurðaður málskostnaður.  Stefnandi krefst þess að ekki verði fallist á frávísunarkröfu stefnda og að sér verði úrskurðaður málskostnaður.

-----

 Aðilar hófu sambúð 1993, gengu í hjónaband í ágúst 1996 og slitu samvistir í ágúst 2003.  Þau eignuðust tvö börn á samvistartímanum.  Dómur um forsjá barnanna var kveðinn upp hér fyrir dómi [...] 2005.  Stefnandi óskaði þ. 23. október 2003 við embætti sýslumannsins í Reykjavík skilnaðar að borði og sæng á grundvelli 34. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.  Sýslumaður tilkynnti aðilum 12. mars 2004 að með vísan til þess að ekki hefði verið mætt af hálfu aðila þrátt fyrir ítrekaðar boðanir gæti hann ekki orðið við ósk um skilnað og væri málinu vísað frá embættinu.  Krafa stefnda um framfærslueyri og lífeyri er til meðferðar hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík  samkvæmt því sem greinir í stefnu.  Við höfðun máls þessa var til meðferðar hér fyrir dómi mál (nr. E-5176/2005) sem stefndi hafði höfðað 26. ágúst 2005 til heimtu skaðabóta úr hendi stefnanda þessa máls á þeim grundvelli að hún hefði valdið sér tjóni með því að misfara með hjúskapareignir sínar.

Krafa stefnanda um lögskilnað grundvallast á 37. gr. hjúskaparlaga enda hafi samvistarslit staðið í yfir tvö ár.  Stefnandi telur ljóst að engin hrein eign sé til staðar sem stefndi geti átt tilkall til samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga og lýsir því yfir eignaleysi.  Tilgangur 44. gr. hjúskaparlaga sé að tryggja að skilnaður verði ekki veittur nema aðilar hafi annað hvort náð samningum um fjárskipti eða opinber skipti séu hafin vegna fjárskipta.  Með einkamálinu sem stefndi hafi höfðað á hendur stefnanda sé tilgangi ákvæðisins náð og því heimilt að mati stefnanda að veita henni lög­skilnað við stefnda.  Ekki sé nauðsynlegt að fram fari opinber skipti vegna fjárslita milli aðila enda væri þá verið að fjalla um ætlaðar kröfur stefnda bæði fyrir dómi og undir opinberum skiptum.

Framangreindu dómsmáli (nr. E-5176/2005) var vísað frá dómi af sjálfsdáðum með úrskurði 30. desember 2005 með þeim meginröksemdum að krafa slík sem stefnandi hefði uppi gæti í fyrsta lagi orðið til við fjárskipti eftir skilnað eða við opinber skipti til fjárslita  hjóna án skilnaðar, þ.e. við það tímamark sem greinir í 101. gr. laga nr. 31/1993.

Greinargerð stefnda var lögð fram 26. janúar s.l.

Frávísunarkrafa stefnda er reist á því að skilyrðum 44. gr. hjúskaparlaga fyrir lögskilnaði sé ekki fullnægt.  Yfirlýsingu stefnanda um eignaleysi er mótmælt.  Stefndi telur að stefnanda beri að krefjast opinberra skipta vilji hún fá lögskilnað.

-----

Málsaðilar hafa ekki komist að samkomulagi um fjárskipti sín á milli og ágreiningur er um eignastöðu.

Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal áður en skilnaður er veittur annað tveggja vera samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti vera hafin vegna fjárslita.  Undir fyrirsögninni:  “Fjárskiptasamningur” ræðir síðan í 95. gr. tilvitnaðra laga annars vegar um fjárskiptasamning til að ráða til lykta fjárskiptum hjóna vegna skilnaðar og hins vegar um yfirlýsingu þeirra um eignaleysi, staðfesta fyrir sýslumanni eða dómara eftir því hvar skilnaðarmálið er til meðferðar.  Um hið síðargreinda er vafalaust af orðalagi og samhengi að yfirlýsing annars hjóna um eignaleysi nægir ekki.

Samkvæmt þessu er ekki fullnægt lögmæltu skilyrði fyrir höfðun máls þessa og ber að fallast á frávísunarkröfu stefnda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

             Máli þessu er vísað frá dómi.

             Málskostnaður fellur niður.