Hæstiréttur íslands
Mál nr. 14/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 1. febrúar 2012. |
|
Nr. 14/2012.
|
B (Marteinn Másson hrl.) gegn A (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður. Gjafsókn.
Aðila greindi á um málskostnað. Hæstiréttur féllst á að hækka bæri gjafsóknarþóknun lögmanna málsaðila en staðfesti að öðru leyti hinn kærða úrskurð um að fella niður málskostnað milli aðila.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. janúar 2012 og barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2011, þar sem málskostnaður milli aðila var felldur niður en kveðið á um gjafsóknarkostnað þeirra úr ríkissjóði. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað vegna reksturs málsins í héraði, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, og að málflutningsþóknun lögmanna hennar verði ákveðin hærri en í hinum kærða úrskurði.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 3. janúar 2012 og krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér málskostnað vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, og að málflutningsþóknun lögmanns hans verði ákveðin hærri en í hinum kærða úrskurði. Þá er þess krafist að hafnað verði kröfum sóknaraðila.
Af hálfu málsaðila eru ekki gerðar kröfur um kærumálskostnað.
Báðir málsaðilar styðja kröfur sínar um hækkun á málflutningsþóknun lögmanna sinna við tímaskýrslur lögmannanna sem lagðar voru fram við meðferð málsins í héraði. Samkvæmt tímaskýrslum lögmanna sóknaraðila vörðu þeir 71,5 útseldum stundum til málsins. Tímaskýrsla lögmanns varnaraðila sýnir 60 útseldar stundir. Tímaskýrslur þessar eru trúverðugar og verður með vísan til þess fallist á með málsaðilum að hækka beri gjafsóknarþóknun lögmannanna á þann veg sem í dómsorði greinir.
Hinn kærði úrskurður verður staðfestur um að fella niður málskostnað milli aðila.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða úrskurðar um að fella niður málskostnað í héraði er staðfest.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, B, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, Marteins Mássonar hæstaréttarlögmanns og Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur til hvors þeirra.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, A, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Valborgar Þ. Snævarr hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2011.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar í dag, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A [...], á hendur B [...], með stefnu birtri 9. nóvember 2010.
Stefnandi krefst þess að honum verði falin óskipt forsjá [C] og ákveðin verði umgengni hennar við stefndu. Þá er gerð krafa um einfalt meðlag. Málskostnaðar úr hendi stefndu er krafist eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Stefnda krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Að beiðni lögmanna var málið tekið til sáttamiðlunar og varð sátt í málinu um annað en málskostnað. Báðir málsaðilar gera kröfu um málskostnað sér til handa úr hendi hins eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Gjafsóknarleyfi stefnanda er frá 8. september 2011 og er gjafsóknin takmörkuð við réttargjöld, þóknun lögmanns og kostnað við undirmatsgerð.
Gjafsóknarleyfi stefndu er frá 8. desember 2011 og takmarkast við réttargjöld og þóknun lögmanns. Í upphafi fór Oddgeir Einarsson hdl. með málið fyrir hönd stefndu en síðan tók Marteinn Másson hrl. við því.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður og hvor aðili um sig beri sinn hluta kostnaðar af málinu.
Mál þetta er gjafsóknarmál til sóknar og varnar. Því greiðist allur kostnaður þess úr ríkissjóði. Þóknun lögmanna málsins þykir hæfilega ákveðin í úrskurðarorði og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Valborgar Snævarr hrl., 400.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hennar, Marteins Mássonar hrl., 200.000 krónur og Oddgeirs Einarssonar hdl. 200.000 kr.