Hæstiréttur íslands
Mál nr. 22/2002
Lykilorð
- Börn
- Kynferðisbrot
- Ákæra
- Rannsókn
- Aðfinnslur
|
|
Miðvikudaginn 24. apríl 2002. |
|
Nr. 22/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn X (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Börn. Kynferðisbrot. Ákæra. Rannsókn. Aðfinnslur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni Y, fæddri 1985. Skýrsla sem tekin var af Y í Barnahúsi þótti óljós um ýmis atriði og auk þess voru gerðar athugasemdir við rannsókn málsins. Þá þótti ákæra ónákvæm og ekki svo glögg sem skyldi. Eins og rannsókn og sönnunarfærslu var háttað var ekki talið, gegn eindreginni neitun X, að ákæruvaldinu hefði tekist að færa fram nægilega sönnun um sök hans, sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991. X var því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess, að sakfelling ákærða verði staðfest, refsing hans þyngd og hann dæmdur til að greiða 800.000 krónur í miskabætur.
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og skaðabótakröfu vísað frá dómi. Til þrautavara er þess krafist, að refsing verði milduð verulega.
I.
Ákærði reisir kröfur sínar um ómerkingu héraðsdóms meðal annars á því, að engar skýrslur hafi verið teknar af A eftir að hún gaf skýrslu í Barnahúsi 1. desember 2000. Ófullnægjandi rannsókn hefði legið til grundvallar ákæru. Er ákæra var gefin út 18. júní 2001 hafi einungis legið fyrir, auk kæru móður stúlkunnar, framangreind skýrsla hennar og skýrsla af ákærða svo og skýrsla af unnusta stúlkunnar og sambúðarkonu ákærða. Þá hafi legið fyrir skýrsla Barnahúss vegna greiningar og meðferðar á stúlkunni. Ekki hefði verið aflað allra tiltækra gagna um verknaði þá, sem ákært er fyrir, stað og stund og öll nánari atvik, sem skipt gætu máli. Þá hafi engin rannsókn farið fram á þroska og heilbrigðisástandi ákærða.
II.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram er ákærði sakaður um kynferðisbrot gagnvart A með því að hafa á árunum 1993 til 1998 í hlöðu og inni á heimilinu að [...], þar sem stúlkan, sem fædd er 1985, var í sumardvöl hjá foreldrum ákærða, margoft káfað á henni innan og utan klæða, í nokkur skipti kysst hana tungukossum, í nokkur skipti sett og reynt að setja fingur inn í leggöng hennar og í eitt skipti árið 1997 eða 1998 fengið hana til að strjúka kynfæri hans. Ákærða er einnig gefið að sök að hafa sumarið 1996 í tjaldi á hestamannamóti á [...] reynt að þvinga stúlkuna til samræðis, og að hafa við haustsmölun fyrir [...] árið 1999 káfað innanklæða á brjóstum hennar og kynfærum utanklæða. Þá er ákærði einnig sakaður um að hafa hótað stúlkunni að skjóta hana, ef hún segði frá kynferðisbrotunum og margoft veitt henni áfengi. Ákærði hefur frá upphafi staðfastlega neitað sök. Orð stendur því gegn orði, framburður stúlkunnar og ákærða.
III.
Hinn 28. nóvember 2000 lagði móðir stúlkunnar fram kæru á hendur ákærða. Tveimur mánuðum áður hafði telpan ritað foreldrum sínum bréf, þar sem hún greindi frá því, að ákærði hefði byrjað að sýna sér kynferðislega áreitni, er hún var 8 ára gömul, sem hefði svo gengið lengra og hann hótað að drepa hana, ef hún segði frá. Seinast hefði þetta gerst í byrjun sumars 1999.
Skýrslutaka fyrir dómi af stúlkunni fór fram í Barnahúsi 1. desember 2000. Var skýrslan tekin af sálfræðingi undir stjórn dómstjóra Héraðsdóms Vesturlands og sett á myndband. Þar skýrði hún svo frá, að hún hefði verið 8 ára gömul, er ákærði áreitti hana fyrst. Það hefði verið úti í hlöðu og hann hefði tekið utan um hana og kysst hana. Hún kvaðst muna þetta vel, því að hún hefði skrifað þetta í dagbók sína, sem hún hefði síðar brennt. Hún sagði, að seinna hefði hann káfað á sér alls staðar, og aðspurð sagði hún hann einnig hafa káfað á kynfærum hennar. Hún var spurð um það, hvort ákærði hefði einhvern tíma gert tilraun til að setja fingurinn inn í leggöngin, og svaraði hún á þá leið, að lítið hefði verið um það, en hann hefði líka gert það. Hann hefði gert það um það bil 10 sinnum og hún hefði verið á aldrinum 10 til 13 ára. Stúlkan var einnig spurð að því, hvort ákærði hefði einhvern tíma látið hana gera eitthvað við sig, og sagði hún að það hefði gerst einu sinni. Spurð að því, hvar þessir atburðir hefðu gerst, svaraði hún því til, að þetta hefði oft gerst í hlöðunni, þar sem hún og ákærði hefðu verið tvö ein í gegningum, og alvarlegasta tilvikið hefði verið í fyrsta skiptið, er hann kyssti hana tungukossi. Tilvikin í hlöðunni hefðu verið eitthvað um 25. Annars hefði þetta gerst í stofunni í íbúðarhúsinu, utan einu sinni í hans herbergi. Síðasta atvikið sagði telpan hafa gerst við haustsmölun 1999. Að því er varðar atvikið, sem átti að hafa gerst á hestamannamóti á [...] sumarið 1996, sagði telpan, að tjald það, sem hún, ákærði og sambúðarkona hans voru í, hefði verið afskekkt frá öðrum tjöldum. Sagði hún, að ákærði hefði komið drukkinn inn í tjaldið til sín um kvöldið og reynt að hafa við sig mök en hefði hætt við, er hann varð þess var að sambúðarkonan kom akandi niður túnið. Telpan sagði, að ákærði hefði hótað því að hleypa af byssu, ef hún segði einhverjum frá þessu, og hefði hann nokkrum sinnum hleypt af, meðal annars þegar foreldrar hennar og systkini voru í tjaldi skammt frá bænum. Hún sagði ákærða mjög oft hafa gefið sér áfengi alveg frá því að hún var 8 ára gömul. Hún hefði drukkið það og fundið fyrir áhrifum og kastað því upp. Þetta hefði yfirleitt verið að nóttu til, þegar allir voru farnir að sofa.
IV.
Eins og að framan greinir hefur ákærði staðfastlega neitað öllu því, sem á hann er borið. Skýrsla sú, sem tekin var af stúlkunni 1. desember 2000, er óljós um ýmis atriði. Fallast verður á það með ákærða, að skýrslan sé ekki nægilega nákvæm um það hvar og hvenær atburðir eiga að hafa gerst, sem fyrri töluliður I. kafla og II. kafli ákæru taka til, auk þess sem þeir eru ekki nægilega sundurgreindir. Þá segir stúlkan ekki alltaf sjálfstætt frá heldur leiðir spyrjandinn skýrslugjöf um of, sérstaklega varðandi ætlaðar athafnir ákærða, sem alvarlegastar eru samkvæmt ofangreindum tölulið. Í tengslum við þau atvik að ákærði hafi sett fingur inn í leggöng telpunnar, var ekki spurt um það, hvar þau hefðu átt sér stað, en hún sagði, að það hefði hvorki verið í húsinu né í hlöðunni.
Eins og staðið var að rannsókn málsins eru mörg óvissuatriði um það, sem hafði átt að gerast á hestamannamótinu. Sambúðarkona ákærða sagði, að það hefðu mörg tjöld verið í grennd við þeirra tjald. Hún hefði farið með unga dóttur þeirra ákærða heim að [...] áður en dansleikur byrjaði, en komið aftur einhvern tíma á milli kl. 10 og 11, og þá hefði telpan og ákærði verið á ballinu. Þau hafi síðan farið öll saman í tjaldið og lagst þar til svefns. Í héraðsdómi er engin afstaða tekin til sönnunargildis framburðar sambúðarkonunnar og ekki var kannað um staðsetningu tjaldsins. Þá er ekki að sjá, að reynt hafi verið að afla vitnisburðar um viðveru þeirra þriggja á dansleiknum umrætt sinn og annað því tengt. Foreldrar og sambúðarkona ákærða voru ekki spurð um það, hvort merki hefðu verið um áfengisneyslu telpunnar, sem hún sagði að átt hefði sér stað margoft að nóttu til, eða hvort hún hefði ritað dagbók, er hún var þar í sumardvöl. Þá var ekki kannað nánar um atvikið, sem átti að hafa gerst við haustsmölunina að öðru leyti en því, að leiða mann, sem stúlkan var með við smölunina, og vinkonu hennar, en framburður þeirra er tæpast til stuðnings framburði stúlkunnar.
V.
Ákæra máls þessa er ónákvæm og ekki svo glögg sem skyldi. Eins og að framan greinir eru ýmsir agnúar á rannsókn málsins fyrir ákæru einkum að því leyti, að óskýr atriði í framburði stúlkunnar hafa ekki verið rannsökuð sem skyldi. Þegar kæran kom fram var ekki svo langt um liðið frá því að atvik þau, sem ákært er fyrir áttu sér stað, að tök hefðu verið á að rannsaka málið betur. Úr því að ákveðið var að ákæra á þessum grunni var mikilvægt, að ákæruvaldið hefði frumkvæði að miklu ítarlegri og nákvæmari sönnunarfærslu fyrir dómi en hér hefur orðið raunin. Eins og meðferð málsins var á hinn bóginn hagað er lítil von til þess að frekari rannsókn beri árangur. Er skýrsla var tekin af stúlkunni var hún tæpra 15 ára gömul. Við aðalmeðferð málsins var hún 16 ára. Samkvæmt 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 16. gr. laga nr. 36/1999, þurfti hún ekki að koma aftur fyrir dóm nema dómarar teldu sérstaka ástæðu til, þótt fallast megi á, að fullt tilefni hefði verið til þess. Ekki verður séð, að ástæða hafi verið til að rannsaka þroska og heilbrigði ákærða. Eins og mál þetta liggur fyrir þykja ekki efni til að fallast á ómerkingarkröfu ákærða vegna þeirra ágalla, sem áður hafa verið nefndir, en þeir hljóta þó að hafa áhrif á sönnunarmatið.
Dómarar Hæstaréttar hafa skoðað myndband það af skýrslu stúlkunnar, sem fyrir liggur í málinu. Fallast má á það með héraðsdómi, að framburður hennar sé út af fyrir sig trúverðugur. Eins og að framan greinir eru þó ýmis atriði í skýrslunni óljós og fá ekki stuðning af gögnum málsins. Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi, verður Hæstiréttur að meta, hvort ákæruvaldinu hafi í heild tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. gr. og 46. gr. laganna. Eins og rannsókn og sönnunarfærslu var háttað verður ekki talið, gegn eindreginni neitun ákærða, að ákæruvaldinu hafi tekist slík sönnun. Samkvæmt þessu verður því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 ber að vísa bótakröfu stúlkunnar frá dómi.
Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugast, að í héraðsdómi eru teknar upp orðréttar vitnaleiðslur, sem færðar eru inn í heilu lagi, án nokkurrar úrvinnslu. Er það í andstöðu við fyrirmæli réttarfarslaga, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1994.
Dómsorð:
Ákærði, X, skal sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Miskabótakröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola eins og þau voru ákveðin í héraðsdómi, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.