Hæstiréttur íslands

Mál nr. 393/2007


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn


Þriðjudaginn 18

 

Þriðjudaginn 18. mars 2008.

Nr. 393/2007.

Benedikta Gísladóttir

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Öryggismiðstöð Íslands hf.

(Anton Björn Markússon hrl.)

og gagnsök

 

Ráðningarsamningur. Uppsögn.

Ágreiningur aðila snérist um launauppgjör aðila í kjölfar uppsagnar B. Í málinu byggði B á því að ráðningarsamningur hefði komist á milli sín og Ö og að samkvæmt honum skyldi miða uppgjörið við þriggja mánaða uppsagnarfrest. Ö mótmælti því að slíkur samningur hefði komist á og byggði á því að uppgjörið skyldi taka mið af gildandi kjarasamningum. Ekki lá fyrir í málinu skriflegur samningur milli aðila en talið var að B bæri sönnunarbyrðina fyrir því að til ráðningarsamningsins hefði stofnast. Að virtri neitun þáverandi fjármálastjóra Ö, þótti B ekki hafa sýnt fram á að slíkur samningur hefði komist á. Var Ö sýknað af kröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 16. maí 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. júní sama ár og var héraðsdómi áfrýjað öðru sinni 23. júlí 2007.  Aðaláfrýjandi krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 725.279 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 270.000 krónum frá 1. október 2005 til 1. nóvember sama ár, en af 725.279 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 14. september 2007. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem hann krefst úr hendi aðaláfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2007.

 

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 26. apríl 2006 og dómtekið 7. febrúar sl. Stefnandi er Benedikta Gísladóttir, Erluási 1, Hafnarfirði. Stefndi er Öryggismiðstöð Íslands hf., Borgartúni 31, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 725.279 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 270.000 krónum frá 1. október 2005 til 1. nóvember 2005 og frá þeim degi af stefnu­fjárhæð til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Hann krefst einnig málskostnaðar.

 

I

Málsatvik

Atvik málsins eru í veigamiklum atriðum umdeild.

Aðilar eru sammála um að stefnandi hafi komið í atvinnuviðtal hjá stefnda, fyrir milligöngu ráðningarþjónustu, og í framhaldi af því hafið störf sem innheimtu­fulltrúi 2. maí 2005. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda fyrir dómi var um það samið í atvinnuviðtalinu að stefnandi yrði fastráðinn frá byrjun. Samkvæmt framburði vitnis­ins Sigurðar L. Sævarssonar, fyrrverandi fjármálastjóra stefnda, fyrir dómi lagði stefnandi áherslu á það í atvinnuviðtalinu að hann lækkaði ekki í launum frá sínu fyrra starfi. Hafi af þessum sökum orðið að samkomulagi að laun stefnanda yrðu 270.000 krónur í stað 230-240.000 króna byrjunarlauna og þá tekið fram að ekki yrði um hækkun að ræða að loknum þriggja mánaða reynslutíma. Vitnið bar hins vegar að stefnanda hafi verið kynnt að um kjör hans að öðru leyti færi samkvæmt kjara­samningi. Hefði það jafnframt verið almenn vinnuregla við ráðningar hjá stefnda.

Í málinu er ágreiningslaust að um miðjan eða síðari hluta maí afhenti áðurgreindur Sigurður L. Sævarsson stefnanda óundirritaðan en skriflegan ráðningar­samning. Í 2. gr. skjalsins kom meðal annars fram að uppsagnarfrestur stefnanda skyldi vera þrír mánuðir. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda undirritaði hann skjalið og afhenti Sigurði, en tók óundirritað afrit með sér. Samkvæmt vitnaskýrslu Sigurðar fór stefnandi með skjalið heim með sér í þeim tilgangi að lesa það yfir að ósk Sigurðar. Næsta dag hafi svo stefnandi komið til Sigurðar og gert athugasemdir við ákvæði skjalsins viðvíkjandi orlofi. Samkvæmt framburði Sigurðar kom aldrei til þess að hann undirritaði skjalið. Þá bar hann að hjá stefnda væri skjalið ekki til á öðru formi en sem tölvutækt uppkast að samningi, en gengið hefði verið úr skugga um hvort samningur­inn væri til undirritaður í skjalageymslu stefnda. Fyrir dómi gaf Sigurður þá skýringu á þriggja mánaða uppsagnarákvæði fyrirhugaðs samnings að um hefði verið að ræða klaufaskap og hefði ákvæðið slæðst inn vegna þess að tiltekinn starfsmaður hefði verið ráðinn á þessum kjörum stuttu áður. Það hefði þó aldrei verið ætlunin að stefnandi yrði ráðinn á þessum kjörum.

Í málinu er ágreiningslaust að 5. júlí 2005 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda. Samkvæmt framburði Sigurðar L. Sævarssonar var stefnandi ósáttur við uppsögnina og lýsti því yfir að hann myndi ekki vinna uppsagnarfrestinn. Í framburði vitnisins kom fram að það hafi verið afstaða hans sem yfirmanns stefnanda að knýja stefnanda ekki til að vinna út uppsagnarfrestinn. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda féllst Sigurður einnig á að stefnandi ynni ekki í uppsagnarfresti. Í málinu liggur jafnframt fyrir að stefnandi fékk greidd laun til loka júlímánaðar.

Hinn 31. ágúst 2005 voru greidd út laun fyrir ágústmánuð til starfsmanna stefnda. Fékk stefnandi þá greidd full mánaðarlaun, eða 183.662 krónur útborgaðar. Kveðst stefnandi hafa talið að þessi greiðsla væri í samræmi við þriggja mánaða uppsagnarfrest hans. Samkvæmt launaseðli sem stefnanda var síðar sendur átti hann hins vegar einungis að fá 69.587 krónur útborgaðar, en þar var aðallega um að ræða orlof stefnanda. Í aðilaskýrslu sinni lýsti stefnandi því að hann hefði af þessu tilefni haft sambandi við starfsmanna stefnda og þá verið tjáð að um mistök hefði verið að ræða og hann ætti von á bréfi vegna þessa. Í skýrslum fyrrgreinds Sigurðar L. Sævarssonar og Ólafar Ólafsdóttur, þáverandi gjaldkera stefnda, kom fram að við greiðslu launa til starfsmanna stefnda í ágúst 2005 hefðu þau mistök verið gerð að greiðsluskjal fyrir júlí í stað ágúst hefði verið sent viðskiptabanka stefnda og bankinn greitt út í samræmi við það. Af þessum sökum hefði stefnanda, sem og öðrum starfsmönnum stefnda, verið greidd sömu laun 31. ágúst 2005 og greidd höfðu verið fyrir júlí.

Í málinu liggur fyrir bréf stefnda til stefnanda 1. september 2005, þar sem stefnanda er tilkynnt að mistök í launakeyrslu hafi átt sér stað og hann beðinn um að endurgreiða ofgreidd laun að fjárhæð 114.075 krónur. Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu mótmælti stefnandi kröfu stefnda og sneri sér til stéttarfélags síns. Er ekki ástæða til að rekja samskipti aðila eftir þetta tímamark.

Í tilefni af áskorun stefnda hefur stefnandi lagt fram gögn um tekjur sínar í ágúst, september og október 2005. Sýna þess gögn að stefnandi var ekki með launa­tekjur á umræddum tíma.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni Sigurður L. Sævarsson, fyrrverandi fjármálastjóri stefnda, og Ólöf Ólafsdóttir, launa­fulltrúi og fyrrverandi gjaldkeri stefnda. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur frekar en þegar hefur verið gert.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því að komist hafi á gildur ráðningarsamningur um að hann ætti rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hann vísar til þess að um þetta hafi verið samið í atvinnuviðtali stefnanda hjá Sigurði L. Sævarssyni og að þetta hafi komið fram í ráðningarsamningi sem honum hafi verið afhentur röskum tveimur vikum eftir að hann hóf störf.

Í munnlegum málflutningi lagði stefnandi áherslu á að framangreindum samn­ingi, sem stefnanda var afhentur, hefði í raun verið framfylgt, sbr. einkum ákvæði samningsins um fjárhæð launa stefnanda. Þá vísaði hann til þess að ákvörðun stefnda um að greiða stefnanda laun í júlí og ágúst væri til marks um að talið hefði verið að stefnandi nyti þriggja mánaða uppsagnarfrests í samræmi við samninginn.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt ákvæðum greinar 1.10.1 í kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins sé skylt að gera skrif­legan ráðningarsamning innan tveggja mánaða frá því starfsmaður hefur störf. Sam­kvæmt þessu beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að það skjal sem stefnanda var afhent í maí 2005 hafi ekki verið ráðningarsamningur eða bindandi tilboð um ráðningar­samning.

Stefnandi vísar einnig til verkefna stefnda og telur ólíklegt að hann hafi ekki viljað tryggja að stefnandi undirritaði samning sem innihéldi ákvæði um þagnar- og trúnaðarskyldur.

Krafa stefnanda er sundurliðuð sem hér segir:

 

Laun í september

270.000 krónur

Laun í október

270.000 krónur

Orlof 2. maí til 31. október 2005

149.515 krónur

Desemberuppbót 2005

26.000 krónur

Orlofsuppbót

9.764 krónur

Samtals

725.279 krónur

 

Stefnandi styður kröfu sína við lög nr. 30/1987 um orlof, meginreglur kröfuréttar, megin­reglur vinnuréttar og kjarasamninga Verslunarmannafélags Reykjavíkur og vinnu­veitanda auk bókana.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnda

 Af hálfu stefnda eru sýknukröfur á því byggðar að hann hafi efnt að fullu og öllu leyti skyldur sínar gagnvart stefnanda og eigi stefnandi því engar frekari kröfur á hendur honum. Af hálfu stefnda er á því byggt að skriflegur ráðningarsamningur hafi ekki verið gerður á milli stefnda og stefnanda við upphaf ráðningar. Af ákvæðum laga og meginreglum íslensks vinnuréttar leiði að um starfskjör og réttindi stefnanda hafi farið samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Verslunarmanna­félags Reykjavíkur, en kjarasamningur kveði á um lágmarkskjör sem leggja beri til grundvallar að svo miklu leyti sem ekki sé samið á annan veg í ráðningarsamningi, sbr. m.a. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyris­réttinda. Af ákvæði 12. kafla kjarasamnings leiði að fyrstu 3 mánuðir starfstíma teljist reynslutími og sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur ein vika. Ráðningarsamningi hafi verið sagt upp innan þess tíma og hafi stefnanda verið greidd laun til loka upp­sagnarfrests. Stefnandi eigi samkvæmt því engar frekari kröfur á stefnda.

Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda að skriflegur ráðningar­samningur hafi verið gerður þeirra í milli við upphaf ráðningar. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að slíkur samningur hafi verið gerður. Það sé gildisskilyrði ráðningarsamnings að hann sé samþykktur af báðum aðilum og gegn andmælum stefnda verði stefnandi að færa sönnur á efni hans og/eða bera hallann af því að geta ekki framvísað samningi undirrituðum af báðum aðilum. Stefndi vísar einnig til vinnureglna um ráðningar hjá fyrirtækjum og hjá stefnda og hefur þessu til stuðnings lagt fram afrit ýmissa ráðningarsamninga. Vísar hann til þess að hin almenna regla sé sú að fyrstu þrír mánuðir starfs séu reynslutími.

Að því er varðar útborgun launa fyrir ágúst 2005 er vísað til þess að laun stefnanda hafi verið greidd fyrir mistök og hafi stefnanda hvorki verið greidd laun fyrir september né október, eins og annars hefði orðið raunin. Stefndi byggir á því að almenn mistök við launaútborgun stofni engan rétt til handa stefnanda enda verði stefnandi að færa sönnur á rétt sinn með öðrum hætti.

Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnanda þess efnis að stefndi beri sönnunar­byrði fyrir því að það hafi þýðingu að skriflegur ráðningarsamningur hafi ekki verið gerður innan tveggja mánaða, sbr. grein 1.10.1. í kjarasamningi. Stefnandi geti hvað sem þessu líði ekki reist rétt á óundirrituðu ráðningarsamningsformi. Stefnandi beri þrátt fyrir þetta sönnunarbyrðina fyrir því að samningur tiltekins efnis hafi komist á, en sönnun um þetta hafi ekki tekist.

Stefndi gerir þá varakröfu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verði ekki fallist á sýknukröfu hans. Hann telur að draga eigi frá kröfu stefnanda öll laun og/eða tekjur sem hann hafi þegið frá 1. ágúst 2005 til 31. október 2005.  Hann byggir einnig lækkunarkröfu sína á því að stefndi hafi aldrei leyst stefnanda undan vinnuskyldu í uppsagnarfresti.

Stefndi vísar til meginreglna vinnuréttar, samningaréttar og kröfuréttar. Þá vísar stefndi til kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og VR. Enn fremur vísar stefndi til ákvæða laga nr. 55/1980. Um varakröfu vísar stefndi til meginreglna íslensks vinnuréttar og skaðabótaréttar en samkvæmt því sæta laun og aðrar tekjur stefnanda á viðmiðunartímabili frádrætti, þannig að hann verði eins settur fjárhagslega og ella. 

 

IV

Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningslaust að stefnandi réð sig til starfa hjá stefnanda í byrjun maí 2005 og voru umsamin mánaðarlaun hans 270.000 krónur. Þá er ekki um það deilt að stefnanda var sagt upp störfum 5. júlí sama árs. Í málinu er jafnframt ágreiningslaust að um starf stefnanda fór samkvæmt ákvæðum kjarasamnings milli Verslunar­mannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins með gildistíma frá 16. apríl 2004 til 31. desember 2007. Samkvæmt grein 12.1 í framangreindum kjara­samningi skyldi uppsagnarfrestur starfsmanns vera ein vika á fyrstu þremur mánuðum starfs, sem væri reynslutími, en að honum loknum einn mánuður á næstu þremur mánuðum. Samkvæmt greininni skyldi uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir eftir sex mánaða starf. Samkvæmt ákvæðum kjarasamnings var uppsagnarfrestur stefnanda í starfi hans hjá stefnda hinn 5. júlí 2005 því aðeins ein vika. Í máli þessu heldur stefnandi því fram að stofnast hafi til samnings um að hann ætti rétt til lengri uppsagnarfrests, þ.e. þriggja mánaða uppsagnarfrests. Samkvæmt almennum reglum ber stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að til slíks samnings hafi stofnast.

Stefnandi hefur borið fyrir dómi að í atvinnuviðtali hjá stefnda, sem fram fór áður en stefnandi hóf umrætt starf, hafi þáverandi fjármálastjóri stefnda, Sigurður L. Sævarsson, samþykkt að stefnandi yrði „fastráðinn“. Nefndur Sigurður staðfesti fyrir dómi að með „fastráðningu“ væri venjulega átt við að starfsmaður nyti sömu réttinda og starfsmenn, sem lokið hefðu reynslutíma, þar á meðal með tilliti til uppsagnar­frests. Hins vegar neitaði Sigurður því að samið hefði verið um annað í umræddu atvinnuviðtali en að um kjör stefnanda að þessu leyti færi samkvæmt kjarasamningi. Að virtri neitun Sigurðar telst ósannað að í umræddu viðtali hafi komist á munnlegur samningur um að stefnandi nyti lengri uppsagnarfrests en leiddi af kjarasamningi.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að áðurnefndur Sigurður L. Sævarsson hafi gert við hann formlegan ráðningarsamning um miðjan maí 2005, þar sem í 2. gr. hafi verið kveðið á um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Af hálfu stefnanda er þó viðurkennt að það skjal, sem vísað er til í þessu sambandi, var ekki undirritað af hálfu fyrirsvarsmanns stefnda. Að þessu virtu, svo og að teknu tilliti til framburðar Sigurðar L. Sævarssonar fyrir dómi, er ekki unnt að fallast á að umrætt skjal hafi falið í sér bindandi tilboð vinnuveitanda um tiltekin starfskjör eða að formlegur ráðningar­samningur hafi komist á með samningu og afhendingu skjalsins til stefnanda. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt sú launafjárhæð sem tilgreind er í skjalinu sé sú hin sama og stefnanda var greidd samkvæmt launaseðlum.

Að mati dómara getur sú ákvörðun stefnda að greiða stefnanda laun út júlí­mánuð eftir að honum hafði verið sagt upp störfum, án þess að stefnandi innti af hendi vinnu, ekki talist haldbær sönnum um að litið hafi verið svo á að stefnandi nyti þriggja mánaða uppsagnarfrests. Þvert á móti bendir tímasetning uppsagnar stefnanda fremur til þess að að af hálfu stefnda hafi verið litið svo á að svokölluðum reynslutíma stefnanda væri enn ólokið í júlí 2005. Með framburði Sigurðar L. Sævarssonar og Ólafar Ólafsdóttur, fyrrverandi gjaldkera stefnda, svo og bréfi stefnda til stefnanda 1. september 2005, telst enn fremur sannað að greiðsla launa stefnanda í ágúst 2005 orsakaðist af mistökum í launabókhaldi stefnda og fól ekki í sér neina viðurkenningu á því að stefnandi ætti rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests.

Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að stefndi hafi vanrækt þá skyldu sína að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda innan tveggja mánaða frá því hann hóf störf, sbr. grein 1.10.1 í áðurnefndum kjarasamningi. Þótt á þetta verði fallist með stefnanda getur það ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að stefnandi eigi ríkari rétt en kveður á um í gildandi kjarasamningi.

Samkvæmt öllu framangreindu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að samist hafi um lengri uppsagnarfrest en leiðir af gildandi kjarasamningi. Á hann þar af leiðandi ekki rétt til greiðslu launa fyrir september og október 2005, eins og krafist er í stefnu. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.

Í ljósi þess vafa, sem uppi var um staðreyndir málsins fram að aðalmeðferð þess, verður málskostnaður látinn falla niður með heimild í 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðmundur B. Ólafsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Anton Björn Markússon hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Öryggismiðstöð Íslands hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Benediktu Gísla­dóttur.

Málskostnaður fellur niður.