Hæstiréttur íslands
Mál nr. 203/2009
Lykilorð
- Líkamsárás
- Brot gegn valdstjórninni
- Umferðarlagabrot
- Ávana- og fíkniefni
- Þjófnaður
- Skilorðsrof
- Ökuréttarsvipting
|
|
Mánudaginn 21. desember 2009. |
|
Nr. 203/2009. |
Ákæruvaldið(Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari) gegn Baldri Bragasyni(Jón Egilsson hdl.) |
Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni. Umferðalagabrot. Ávana- og fíkniefni.
Þjófnaður. Skilorðsbrot. Ökuréttarsvipting.
B var borinn sökum með tveimur ákærum, útgefnum 9. febrúar 2009 og 4. mars sama ár. B gekkst í öllum atriðum við sakargiftum samkvæmt síðari ákærunni en neitaði sök samkvæmt þeirri fyrri. Með henni voru honum gefin að sök brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hjólað á lögreglumann, sem var við skyldustörf, þannig að hún féll aftur fyrir sig í götuna, en við þetta hafi hún hlotið brot á neðri enda sveifar í hægri framhandlegg. Líta varð svo á að héraðsdómur hefði talið sannað að B hefði hjólað á lögreglumanninn af ásetningi og ekkert væri fram komið, sem gæfi tilefni til að hnekkja því mati. Talið var að sú háttsemi að hjóla á lögreglumanninn væri í eðli sínu hættuleg og fallin til að valda þeim manni alvarlegum meiðslum, sem fyrir verður, svo sem hér varð og raunin. Var B því sakfelldur fyrir brotin, sem greindi í ákærunni 9. febrúar 2009 og voru þau talin rétt heimfærð til refsiákvæða. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu B fyrir brot samkvæmt ákæru 4. mars 2009 var ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og stóð hún því óröskuð. Með brotunum samkvæmt ákæru 4. mars 2009 rauf B skilorð samkvæmt fyrri dómi. Að því virtu var refsing B hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2009 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru 9. febrúar sama ár og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru 9. febrúar 2009 og jafnframt án tillits til þess að refsing verði milduð.
Í málinu er ákærði borinn sökum með tveimur ákærum, annarri útgefinni af ríkissaksóknara 9. febrúar 2009 en hinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 4. mars sama ár. Ákærði hefur í öllum atriðum gengist við sakargiftum samkvæmt síðari ákærunni, en neitar sök samkvæmt þeirri fyrri. Með henni voru honum gefin að sök brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að hafa „að morgni föstudagsins 6. apríl 2007, á göngustíg á milli [...] og [...] í Reykjavík, hjólað á lögreglumanninn A, sem þar var við skyldustörf, þannig að hún féll aftur fyrir sig í götuna“, en við þetta hafi hún hlotið brot á neðri enda sveifar í hægri framhandlegg.
Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að sannað væri að fyrrnefndur lögreglumaður hafi handleggsbrotnað við það að ákærði hjólaði á hana umrætt sinn. Jafnframt var hafnað þeirri viðbáru ákærða að lögreglumaðurinn hafi legið í leyni fyrir honum og stokkið fyrir hann svo skjótt að honum hafi ekki gefist ráðrúm til að forðast árekstur, en hún hafi ásamt tveimur öðrum nafngreindum lögreglumönnum borið að hún hafi fært sig inn á miðjan göngustíginn nokkru áður en ákærði hjólaði á hana. Þá þótti einnig sannað með framburði fimm tiltekinna vitna að ákærði hafi beinlínis aukið hraðann á reiðhjólinu þegar hann nálgaðist lögreglumanninn. Líta verður svo á að með þessu öllu hafi héraðsdómur talið sannað að ákærði hafi hjólað á lögreglumanninn af ásetningi og er ekkert fram komið, sem gefur tilefni til að hnekkja því mati. Í ákæru 9. febrúar 2009 er verknaði ákærða sem áður segir lýst með þeim orðum að hann hafi „hjólað á lögreglumanninn“. Slík háttsemi er í eðli sínu hættuleg og fallin til að valda þeim manni alvarlegum meiðslum, sem fyrir verður, svo sem hér varð og raunin. Eru því ekki efni til að fallast á með héraðsdómi að á skorti að í ákæru sé lýst háttsemi, sem feli í sér vísvitandi líkamsárás í skilningi 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og að ákærði hafi með ofbeldi ráðist á lögreglumann við skyldustörf, sbr. 1. mgr. 106. gr. sömu laga. Ákærði verður því sakfelldur fyrir brotin, sem greinir í þessari ákæru, og eru þau rétt heimfærð til refsiákvæða. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða fyrir brot samkvæmt ákæru 4. mars 2009 er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og stendur hún því óröskuð.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir sakaferli ákærða, þar á meðal að hann hafi 25. apríl 2008 verið dæmdur til að sæta fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu þeirrar refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Brot samkvæmt ákæru 4. mars 2009 voru framin eftir að sá dómur gekk og rauf ákærði þannig skilorð samkvæmt dóminum, en brotin samkvæmt ákæru 9. febrúar sama ár voru á hinn bóginn framin fyrir þann tíma. Verður því að gæta að ákvæðum 60. gr., 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Að því virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Þrátt fyrir að tafir hafi orðið á rannsókn og saksókn vegna þeirra brota, sem um ræðir í ákæru 9. febrúar 2009, eru ekki næg efni til að binda refsinguna skilorði að hluta eða öllu leyti.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sviptingu ökuréttar skulu vera óröskuð.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða gert að greiða 108.774 krónur í sakarkostnað auk helmings af 150.000 króna málsvarnarlaunum verjanda síns, sem jafnframt er skipaður verjandi hans fyrir Hæstarétti. Áfrýjunarkostnaður í málinu nemur samkvæmt framlögðu yfirliti ríkissaksóknara 26.677 krónum, en við þá fjárhæð bætast málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem eru ákveðin 311.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði verður dæmdur til að greiða þennan kostnað allan eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Baldur Bragason, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sviptingu ökuréttar skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 596.701 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, samtals 461.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2009.
Málið er höfðað með tveimur ákæruskjölum á hendur ákærða, Baldri Bragasyni, 300468-4629, Baldurshaga, Hellu á Rangárvöllum.
Í fyrsta lagi er málið höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 9. febrúar sl., á hendur ákærða “fyrir brot gegn valdstjórninni og líkamsárás, með því að hafa að morgni föstudagsins 6. apríl 2007, á göngustíg á milli [...] og [...] í Reykjavík, hjólað á lögreglumanninn A, sem þar var við skyldustörf, þannig að hún féll aftur fyrir sig í götuna. Af þessu hlaut A brot á neðri enda sveifar í hægri framhandlegg.
Brot ákærða telst varða við 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007 og 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakar-kostnaðar.”
Þá er málið höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 4. mars sl. á hendur ákærða, “fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2008:
I.
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 30. apríl, í verslun Fjarðarkaupa, Hólshrauni 1, Hafnarfirði, stolið mat- og snyrtivörum samtals að verðmæti kr. 16.998.
Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Fíkniefnalagabrot, með því að hafa að morgni sunnudagsins 21. desember, fyrir utan Hrafnhóla, Reykjavík, haft í vörslum sínum 5,61 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit á ákærða.
Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
III.
Umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 20. desember, ekið bifreiðinni MI-969, hemlalausri og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, á bensínstöðvarplani Select, Suðurfelli, Reykjavík uns bifreiðin stöðvaði á B, sem var gangandi vegfarandi á bensínstöðvarplaninu, með þeim afleiðingum að B klemmdist á milli bifreiðar ákærða og annarrar bifreiðar.
Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a, 59., sbr. 60. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. og 10. gr. laga nr. 66, 2006, 14. gr. laga nr. 44/1996 og 6. gr. reglugerðar nr. 822, 2004.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006. Þá er gerð krafa um að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.”
Fyrri ákæran
Málavextir
Fyrir liggur að föstudagsmorguninn 6. apríl 2007 var ákærði á ferli á reiðhjóli sínu um Fellahverfi í Breiðholti. Hafði hann skömmu áður haft samband við konu í [...], C, sem hann hafði eitt sinn verið í tygjum við. Þar sem konan taldi sig hafa orðið fyrir endurteknu ónæði af ákærða hálfu hringdi hún til lögreglu og kvartaði yfir þessu. Fóru lögreglumenn heim til konunnar og fóru svo að svipast um eftir ákærða. Lögreglumaðurinn A, klædd einkennisbúningi lögreglu, var stödd ofarlega á göngustíg sem er á milli fjölbýlishúsa við [...] og [...] annars vegar og fjölbýlishúsa við [...] og [...] hins vegar. Kom ákærði hjólandi upp stíginn á nokkurri ferð og lenti hjól hans á A sem við það féll og handleggsbrotnaði. Brotnaði neðri endi sveifar rétt fyrir ofan hægri úlnlið samkvæmt því sem segir í óstaðfestu vottorði Skúla Bjarnasonar læknis á slysa- og bráðadeild Fossvogsspítala, dagsettu 22. apríl 2008. Segir þar að handleggurinn hafi verið talsvert aflagaður að sjá og kemur það einnig fram á ljósmynd sem fylgir málinu. Reynt var að rétta brotið og spelka lögð við það. Þegar konan kom aftur á slysadeild viku síðar sást að um 20° skekkja var í því. Undirgekkst hún því aðgerð hjá bæklunarlækni sem setti spöng ofan á handlegginn og festi með fimm skrúfum. Samkvæmt vottorðinu greri brotið í réttri stöðu en hreyfigeta um úlnliðinn var verulega skert. A var spurð út í þessi meiðsli í dómi og sýndi hún bæði að hún getur enn ekki beygt úlnliðinn að fullu og eins sást stórt ör eftir aðgerð bæklunarlæknisins frá úlnlið og upp á handlegginn. Fram er komið í málinu að A hlaut varanlega örorku af þessum áverka.
Meðal gagna málsins eru allmargar ljósmyndir að vettvangi sem rannsóknardeild lögreglunnar mun hafa tekið og eins eru þar loftmyndir af hverfinu. Hafa þessar myndir ekki verið staðfestar af þeim sem þær tóku eða útveguðu en ákærði og sjónarvottar að atburðinum hafa skoðað myndirnar í dóminum og ekki gert athugasemdir við þær. Verður því slegið föstu að þær séu af brotavettvangi og álítur dómarinn að þær sýni glögglega aðstæður þar.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa viljandi hjólað á lögreglumanninn. Segir hann atburðinn hafa verið slys sem hafi orsakast af því að lögreglumaðurinn hafi beðið í leyni á bak við runna og stokkið þaðan án viðvörunar í veg fyrir hann þegar hann var mjög nálægt henni svo að hann hafði ekki ráðrúm til þess að stöðva hjólið eða sveigja hjá lögreglumanninum. Hann kveðst aðspurður hafa flúið af vettvangi en verið handtekinn skammt frá. Hafi hann haft ástæðu til þess að flýja vegna fyrri afskipta lögreglunnar af honum og eins hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að slys hafði orðið. Hann kveðst hafa verið búinn að sjá til annarra lögreglumanna ofar í brekkunni þegar þetta gerðist. Hann kveðst halda að lögreglumaðurinn hafi lent utan í hjólinu frekar en að hafa orðið beint fyrir því.
A hefur skýrt frá því að hún hafi gengið eftir göngustígnum og séð til ferða manns á hjóli. Hafi hún verið stödd fyrir miðjum stígnum þegar þetta varð. Hún hafi kallað til hinna lögreglumannanna í talstöð að hún sæi mann, líkan þeim sem leitað var að. Hafi maðurinn komið hjólandi í áttina til hennar en hún beðið hann að nema staðar til viðtals. Hann hafi ekki sinnt þessu en þó hægt á sér eins og hann ætlaði að nema staðar. Hafi hún endurtekið beiðnina en hann þá neitað því og staðið upp á hjólinu og stigið það áfram af fullu afli og beint framan á hana svo að framhjólið var á milli fóta henni. Hafi hún ósjálfrátt borið fyrir sig hendurnar til þess að taka um stýrið og svo skollið afturfyrir sig í götuna með hnakkann. Hún hafi svo séð að handleggurinn á henni var skakkur. Hafi enda komið í ljós á slysadeild að handleggurinn var brotinn. Aðspurð segist hún ekki hafa falið sig fyrir hjólreiðamanninum heldur verið á stígnum miðjum. Þá segir hún það ekki rétt að hún hafi stokkið fyrir hjólið. Ekki kveðst hún geta sagt hve langt maðurinn var frá henni þegar hún gaf honum fyrirmæli um að nema staðar. Segist hún hafa verið viss um að maðurinn ætlaði að hjóla hana niður þegar hann jók hraðann, þar sem göngustígurinn sé það breiður að auðvelt hafi verið að sveigja framhjá henni. Hafi maðurinn hjólað áfram og hún fundið hjól fara yfir fótinn á henni þar sem hún lá. Hún segist ekki hafa haft ráðrúm til þess að stíga til hliðar fyrir manninum þar sem ferðin hafi verið svo mikil á honum. Hún segist hafa verið frá vinnu í sjö mánuði vegna slyssins og eins hafi þetta háð henni mjög við heimilisstörf og umönnun smábarns sem hún eigi. Hún kveðst hafa farið í tvær læknisaðgerðir vegna þessa áverka, þá síðari nú fyrir jól og hafi þá öxlin eitthvað gengið til. Muni það svo útheimta þriðju aðgerðina.
Hallgrímur Hallgrímsson lögreglumaður var á gangi frá [...] frá hlið í átt að þeim stað sem A stóð á göngustígnum, nokkurn veginn fyrir miðju hans. Kveðst hann þá hafa séð ákærða koma á hjólinu og að hún sneri að manninum og lyfti upp hendinni til merkis um að hann skyldi nema staðar. Hafi hún einnig kallað til hans að hann skyldi gera það. Hafi hann virst hægja á sér um sinn en svo hafi hann stigið hjólið áfram af afli og aukið hraðann og rennt beint á hana. Hafi hann verið nokkra metra frá henni þegar hann jók hraðann og hann enga tilraun gert til þess að sneiða framhjá A. Hún hafi borið fyrir sig hendurnar og svo skollið til jarðar við áreksturinn. Maðurinn hafi hjólað áfram og horfið. Hann segist hafa séð áreksturinn frá þeim stað sem hann var og ekkert skyggt á. Þá segir hann það rangt að A hafi verið í felum og stokkið fyrir ákærða. Kveðst hann strax hafa séð hana á göngustígnum. Þá segir hann að ákærði hefði hæglega geta vikið framhjá henni á hjólinu.
Ragnar Svanur Þórðarson lögreglumaður hefur skýrt frá því að hann hafi verið staddur á göngu stígnum fyrir ofan A. Hafi hann séð manninn hjóla á hana þar sem hún stóð á göngustígnum. Kveðst hann hafa heyrt hana skipa manninum að nema staðar og fas hans gefið til kynna að hann ætlaði að gera það. Hann hafi svo staðið upp á hjólinu og knúið það áfram á auknum hraða og hjólað á hana. Hún hafi sett fyrir sig hendurnar og svo fallið aftur fyrir sig. Maðurinn hafi svo hjólað á brott. Hann segist ekki geta sagt hversu langt hafi verið á milli hennar og mannsins þegar hún kallaði á hann en hún hafi verið í kallfæri við hann. Hann kveðst aðspurður álíta að maðurinn hafi haft ráðrúm til þess að víkja fram hjá henni. Kveðst hann ekki hafa séð að A stykki úr leynum í veg fyrir hjólið, enda hafi hún staðið fyrir miðjum stígnum.
Stefán Jónsson lögreglumaður hefur skýrt frá því að þeir Ragnar hafi komið gangandi ofan stíginn og séð hvar maður kom á hjóli upp stíginn. Hafi A verið stödd við húsið nr. 50 við [...] og gengið inn á gangstíginn og tekið sér þar stöðu. Hafi hún beðið manninn um að nema staðar að tala við sig. Hafi maðurinn hins vegar aukið hraða hjólsins og hjólað beint framan á hana svo að hún féll. Ekki geti hann sagt hve langt frá manninum A var þegar hún kallaði til hans en nóg ráðrúm hafi verið fyrir ákærða að nema staðar. Kveðst hann halda að maðurinn hafi beinlínis stýrt hjólinu á konuna.
D, íbúi í [...], var staddur heima hjá sér í umrætt sinn og horfði út um gluggann og yfir vettvang. Sá hann hvar hjólreiðamaður nálgaðist og lögreglukona gekk afsíðis og í felur. Þegar hjólreiðamaðurinn nálgaðist hafi lögreglu-konan gengið út á miðjan gangstíginn en maðurinn þá aukið hraðann á hjólinu og hún rétt upp höndina, sagt honum að stöðva hjólið og að hann væri handtekinn. Hafi hann aukið hraðann mikið við það og keyrt í klofið á henni og hún rekið upp skaðræðis öskur við það. Hafi maðurinn forðað sér á brott á hjólinu. Hann kveðst álíta að þegar lögreglukonan gekk út á miðjan stíginn hafi hjólreiðamaðurinn verið staddur á móts við stað sem er mitt á milli fjölbýlishúsanna nr. 25-39 við [...] og nr. 44-50 við [...]. Hafi þá verið nægilegt ráðrúm til þess fyrir hjólreiðamanninn að nema staðar en þess í stað hafi hann aukið hraðann.
C, sem fyrr er nefnd, hefur komið fyrir dóminn. Hefur hún sagst hafa litið út um gluggann hjá sér þegar atvik málsins urðu. Hún segist hafa séð þegar ákærði hjólaði niður lögreglukonuna en segist ekki geta sagt hvort konan hljóp fyrir hjól hans eða hvort hún stóð kyrr, enda hafi hún ekki séð aðdragandann að því að hjólið lenti á lögreglukonunni.
Niðurstaða
Óumdeilt er að ákærði hjólaði á A og með framburði hennar um meiðslin, sem studdur er skjallegum gögnum í málinu, telst vera sannað að hún handleggsbrotnaði við það að ákærði hjólaði á hana. Ákærði hefur borið því við að hún hafi legið í leyni fyrir honum og stokkið fyrir hann svo snögglega að hann hafi ekki haft ráðrúm til þess að afstýra slysinu. Þessi viðbára ákærða er þó í andstöðu við það sem vitnin bera en frásögn þeirra Stefáns lögreglumanns Jónssonar og D er ekki unnt að skilja öðru vísi en svo að A hafi fært sig inn á miðjan stíginn nokkru áður en áreksturinn varð. Þá hafa A, hinir lögreglumennirnir þrír og Hafliði Helgason lýst því hvernig ákærði beinlínis jók hraðann á hjólinu þegar hann nálgaðist hana og telst það vera sannað í málinu.
Í ákærunni er verknaði ákærða lýst svo að hann hafi “hjólað á” lögreglumanninn, sem hafi verið við skyldustörf, og hafi lögreglumaðurinn handleggs-brotnað við það. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 20081 ber að greina í ákæru hvert það brot sé sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu. Í þessu vegur þyngst sjálf skilgreining brotsins eða verknaðarlýsingin, en hin atriðin, sem talin eru upp í lagaákvæðinu, heiti brotsins og heimfærsla til lagaákvæðis, skipta minna máli. Íslensk dómaframkvæmd og álit fræðimanna er á þann veg að í ákæru beri að lýsa broti manns svo að þar komi fram hvernig ákærði er talinn hafa með athæfi sínu gerst sekur um það brot sem um ræðir og einnig að lýsingin falli að efnislýsingu refsilagabrotsins og skýringu refsiréttarins á því. Í 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga er það inntak ofbeldisbrots gegn valdstjórninni að maður “ræðst með ofbeldi...á opinberan starfsmann” við skyldustörf og í 1. mgr. 218. gr. laganna er það inntak líkamsárásar að maður hafi “með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði”. Ekki er unnt að líta svo á að skilgreiningin “hjóla á” í ákærunni jafngildi því efnisatriði í 1. mgr. 106. gr. laganna að ráðast með ofbeldi á opinberan starfsmann. Þá verður þessi skilgreining ekki heldur talin jafngilda efnisatriði 1. mgr. 218. gr. laganna á líkamsárás sem tilgreint var. Er þó haft í huga að samkvæmt dómvenju eru sagnorðin að slá, berja, sparka eða önnur slík talin uppfylla þetta skilyrði, enda felst í slíkum orðum skilgreining á vísvitandi árás andstætt orðasambandinu “að hjóla á”. Samkvæmt því sem hér er rakið ber að sýkna ákærða af ákæru fyrir brot gegn valdstjórninni og af ákæru fyrir líkamsárás.
Í ákærunni er því lýst hvernig ákærði olli A umtalsverðu líkamstjóni með hinni stórháskalegu hjólreið sinni. Álítur dómurinn ákærða hafa gerst sekan um brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga, en einfalt gáleysi er huglægt refsiskilyrði þess brots, sbr. . Ber að sakfella ákærða fyrir það brot, enda hefur málið verið reifað í málflutningi að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála.
Síðari ákæran
Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem honum eru gefin að sök með síðari ákærunni. Telst hann vera sannur að því að hafa framið þau brot sem þar er lýst og réttilega eru þar færð til refsiákvæða.
Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði var árið 1991 dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 195. almennra hegningarlaga. Þá var hann sektaður fyrir minni háttar eignaspjöll árið 2006. Loks var hann dæmdur tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi, 25. apríl í fyrra, fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, þjófnað og umferðarlagabrot. Ákærði hefur rofið skilorð þessa dóms og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Það athugast að hluti af málsrannsókninni hefur dregist óhæfilega.
Dæma ber ákærða til þess að sæta upptöku á 5,61 grammi af amfetamíni samkvæmt þeim ákvæðum sem tilfærð eru í síðari ákæru málsins.
Þá ber að dæma ákærða til þess að vera sviptur ökurétti í tvö ár frá dómsbirtingu að telja.
Loks ber að dæma til þess að greiða verjanda sínum, Jóni Egilssyni hdl. 75.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði ber eftir málsúrslitum að greiða verjandanum 75.000 krónur í málsvarnarlaun. Dæmast málsvarnarlaunin með virðisaukaskatti.
Annan sakarkostnað, 108.774 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Baldur Bragason, sæti fangelsi í fimm mánuði.
Ákærði sæti upptöku á 5,61 grammi af amfetamíni.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði verjanda sínum, Jóni Egilssyni hdl. 75.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði greiðist verjandanum 75.000 krónur í málsvarnarlaun.
Annan sakarkostnað, 108.774 krónur, greiði ákærði.