Hæstiréttur íslands
Mál nr. 91/2006
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Áhættutaka
- Fyrning
- Siglingar
|
|
Fimmtudaginn 12. október 2006. |
|
Nr. 91/2006. |
Kristján Gíslason(Valgarður Sigurðsson hrl.) gegn Tindfjöllum ehf. (Kristín Edwald hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Áhættutaka. Fyrning. Siglingar.
K fór í bátsferð á vegum T niður Skaftá 1. ágúst 2001 ásamt vinnufélögum sínum á Hótel Kirkjubæjarklaustri. Var siglt niður svokallað efra svæði í Skaftá en sú leið er mun erfiðari yfirferðar en neðra svæðið. Lagt var af stað á þremur gúmmíbátum og var K í fremsta bátnum. Tveimur fyrstu bátunum hvolfdi og allir sem í þeim voru féllu útbyrðis, þar á meðal K. K komst að sjálfsdáðum upp úr ánni en varð fyrir meiðslum. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að sjónarmið um áhættutöku ylli því að K gæti ekki krafið T um bætur fyrir tjón sitt að því gefnu að T hefði staðið forsvaranlega að undirbúningi og framkvæmd ferðarinnar. Var talið sannað að K hefði, auk sérstaks björgunar- og hlífðarfatnaðar fengið nokkrar leiðbeiningar frá vönum leiðsögumönnum um hvernig hann skyldi bera sig að í ferðinni. Var T því sýknað af kröfu K um skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.177.968 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. mars 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hefur verið stefnt til réttargæslu en ekki hafa verið gerðar kröfur á hendur félaginu.
I.
Samkvæmt gögnum málsins starfaði áfrýjandi á Hótel Kirkjubæjarklaustri þegar hann ásamt 15 vinnufélögum sínum fór í bátsferð á vegum stefnda niður Skaftá 1. ágúst 2001. Lagt var af stað á þremur gúmmíbátum um klukkan 10 að kvöldi þaðan sem áin rennur við bæinn Hunkubakka og var ætlunin að taka land 10 til 12 kílómetrum neðar, við Kirkjubæjarklaustur. Sex menn voru í fyrstu tveimur bátunum en sjö í þeim síðasta. Leiðsögumaður frá stefnda var í hverjum bát, Frakki, Belgi og Íslendingur. Áfrýjandi var í fremsta bátnum. Stuttu fyrir neðan þann stað, sem lagt var frá, hvolfdi tveimur fyrri bátunum. Allir sem í þeim voru féllu útbyrðis og bárust með straumnum mislangt niður ána. Nutu sumir utanaðkomandi hjálpar við að komast á land en áfrýjandi mun hafa komist af sjálfsdáðum upp úr ánni. Við slysið hlaut áfrýjandi þau meiðsli sem lýst er í héraðsdómi. Samkvæmt skýrslu lögreglu var Skaftá fremur vatnsmikil og gruggug er slysið átti sér stað og var talið að vatnið hafi verið 6 gráðu heitt. Í skýrslunni segir að slysavettvangur hafi verið ofan við brú sem liggur yfir Skaftá neðan við Hunkubakka, þar sem áin rennur straumþung í þröngu gljúfri með háum bökkum á nokkur hundruð metra kafla. Þegar neðar dregur breikkar áin og verulega dregur úr straumþunga hennar. Við upphaf ferðarinnar mun öllum farþegunum hafa verið fenginn hlífðarbúnaður og var áfrýjandi því klæddur í flotgalla og sérstaka skó og með hjálm á höfði.
Hinn 3. maí 2001 veitti Siglingastofnun Íslands stefnda leyfi til að starfrækja siglingar á Markarfljóti, Innri Emstruá, Eystri Rangá, Hólsá og Skaftá á tilgreindum tegundum báta, með fimm nafngreindum starfsmönnum, tveimur svokölluðum formönnum og þremur svokölluðum röfturum. Annar formannanna er sá íslenski fararstjóri sem var með í för umrætt sinn, en í starfsleyfinu var ekki getið hinna tveggja leiðsögumannanna sem voru í ferðinni. Umsókn stefnda um téð leyfi mun hafa fylgt skýrsla hans um öryggisatriði sem farið yrði eftir í hverri ferð og útlistun á því hvernig farþegum yrði kynnt þau. Í leyfisbréfi Siglingastofnunar kom fram að starfsemi stefnda skyldi rekin í samræmi við öryggisáætlun samþykktri af stofnuninni 1. maí 2001 með fyrirvara um tilgreindar lagfæringar sem skyldi lokið fyrir 15. júní það ár. Starfsleyfið gilti frá 4. maí til 15. júní 2001 og var því fallið úr gildi er slysið varð. Fram kom hjá Trausta Traustasyni framkvæmdastjóra stefnda við skýrslugjöf hjá lögreglu eftir slysið að unnið væri að endurskoðun öryggisáætlunar og umsókn um endurnýjun á starfsleyfi. Þá sagði hann að í ferðum á vegum stefnda á Skaftá væri vanalega lagt af stað frá svokölluðu neðra svæði, sem væri fyrir neðan brúna yfir Skaftá við Hunkubakka. Bessi Þorsteinsson hótelstjóri á Hótel Kirkjubæjarklaustri hafi óskað eftir að lagt yrði af stað frá efra svæðinu. Trausti kvaðst þá hafa útskýrt vel fyrir honum að sú hætta væri alltaf til staðar að bát hvolfdi ef lagt væri af stað ofan við brúna og að slíkt hefði raunar gerst hjá stefnda áður. Eigi að síður hafi Bessi viljað hafa þennan hátt á ferðinni. Við skýrslugjöf hjá lögreglu staðfesti Bessi frásögn Trausta og sagði það hafa verið ósk starfsmanna að leggja upp frá efra svæðinu. Lét hann þess getið að áður hefðu nokkrir starfsmanna hótelsins siglt niður Skaftá. Hefðu sumir lagt af stað frá efra svæðinu, en aðrir frá því neðra. Hópurinn hafi hins vegar ákveðið að fara í þetta sinn frá efra svæðinu, því það hafi þótt meira spennandi.
Áfrýjandi bar fyrir dómi að hann hefði áður siglt með stefnda niður neðra svæðið. Hann hefði hins vegar ekkert haft um það að segja hvaðan lagt var af stað í þeirri ferð sem hér um ræðir. Leiðsögumenn hefðu ekki undirbúið farþega með öðrum hætti en þeim að láta þá fá flotbúninga, skó og hjálma og sýna þeim hvernig þau skyldu róa. Hins vegar hafi þeim ekki verið kynnt sérstaklega hvernig ætti að bregðast við ýmsum aðstæðum sem upp gætu komið. Hann bætti við: „Það var náttúrulega sagt við okkur að það væri sá möguleiki að eitthvað myndi geta komið fyrir, við gætum hugsanlega hvolft bátnum, en það var ekki sagt hvernig við ættum að bregðast við því.“ Nánar aðspurður um hvort ferðalangar hafi þá vitað að hætta væri samfara ferðinni svaraði áfrýjandi: „Ég held að bara heilbrigð skynsemi segi manni það að það má alveg búast við því.“
Leiðsögumennirnir þrír gáfu skýrslur hjá lögreglu eftir atvikið og einn þeirra, Jóhann Thorarensen, einnig fyrir dómi. Fram kom hjá Jóhanni að metnar hefðu verið sérstaklega aðstæður í ánni við efra svæðið sama kvöld og lagt var upp í ferðina. Leiðsögumenn hafi talið ána vera færa, meðal annars vegna þess hve mikið vatn hefði verið í henni. Báru þeir allir að þeir hefðu farið yfir öryggisatriði og kynnt farþegum þau áður en lagt var af stað. Í gögnum málsins eru lögregluskýrslur þriggja annarra farþega er fóru umrædda ferð. Sigríður Rut Gísladóttir, sem einnig gaf skýrslu fyrir dómi, var í öðrum þeirra báta er hvolfdi. Kvað hún þátttakendur í ferðinni hafa fengið öryggisklæðnað og hafi leiðsögumenn farið yfir öryggisatriði með þeim og kynnt hvernig þau ættu að bera sig að féllu þau útbyrðis. Þá hafi þau fengið stutta tilsögn í róðri áður en lagt var af stað. Framburður Sigríðar um þessi atriði fær nokkra stoð í framburði Vigfúsar Snæs Sigurðarsonar og Magneu Þórarinsdóttur hjá lögreglu.
II.
Málsástæðum og lagarökum er lýst í hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar er nánar rakið telur áfrýjandi að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið því að hann lenti í umræddu slysi. Stefndi hefur í fyrsta lagi borið því við að um kröfu áfrýjanda á hendur honum gildi 137. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og sé hún fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 215. gr. laganna. Féllst héraðsdómur á þessa málsástæðu stefnda.
Samkvæmt 1. gr. siglingalaga gilda þau um öll skip sem skráð eða skráningarskyld eru á Íslandi. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa, með síðari breytingum, er sérhvert skip sem er 6 metrar á lengd eða stærra, mælt stafna á milli, skráningarskylt. Þrátt fyrir málsástæðu sína um fyrningu hefur stefndi ekki lagt fram í málinu gögn um að bátarnir falli undir þessi lagaákvæði. Raunar verður helst ráðið af gögnum málsins að bátarnir hafi verið innan við fimm metrar að lengd og því ekki skráningarskyldir. Af þeirri ástæðu koma ekki til álita hin sérstöku ákvæði siglingalaga um fyrningu skaðabótakröfu á hendur farsala. Þá eru þýðingarlaus í lögskiptum málsaðila þau rök stefnda er lúta að því að í skilmálum stefnda um vátryggingu hjá réttargæslustefnda sé kveðið á um að fyrning krafna er falli undir vátrygginguna fari eftir XII. kafla siglingalaga.
Eins og að framan er rakið var sérstaklega óskað eftir að lagt yrði af stað í umrædda ferð frá efra svæði Skaftár fyrir ofan brúna við bæinn Hunkubakka, í stað þess að fara hættuminni ferð eins og þá sem áfrýjandi hafði áður farið. Farþegar fengu sérstaka flotgalla, hjálma og skó eins og öryggisreglur stefnda gerðu ráð fyrir. Kvaðst áfrýjandi einnig hafa gert sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgdi því að fara í siglingu á gúmmíbáti niður flúðir Skaftár. Verður því fallist á með stefnda að sjónarmið um áhættutöku valdi því að áfrýjandi geti ekki krafið stefnda um bætur fyrir tjón sitt að því gefnu að stefndi hafi staðið forsvaranlega að undirbúningi og framkvæmd ferðarinnar. Af framburði vitna verður að telja að farþegar hafi, auk sérstaks björgunar- og hlífðarfatnaðar, fengið nokkrar leiðbeiningar frá vönum leiðsögumönnum um hvernig þau skyldu bera sig að í ferðinni. Höfðu leiðsögumenn kannað sérstaklega aðstæður við umræddar flúðir áður en lagt var upp í ferðina. Hins vegar er fram komið að leyfi stefnda til siglinga á ánni var runnið út er ferðin var farin og nokkuð skorti á að hann hefði uppfyllt þau öryggisatriði til hins ítrasta sem starfsleyfi Siglingastofnunar kvað á um. Þannig var hvorki bifreið við ána né talstöðvar meðferðis auk þess sem í starfsleyfinu var ekki getið um tvo af hinum þremur leiðsögumönnum sem við sögu komu. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á að orsakasamband sé milli þessara atriða og slyss áfrýjanda. Að öllu framanrituðu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.
Með vísan til 3. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af meðferð málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. desember 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristjáni Gíslasyni, kt. 010756-3329, Birkihlíð 4a, Hafnarfirði, gegn Tindafjöllum ehf., kt. 650399-2429, Nýbýlavegi 20, Selfossi, með stefnu, sem birt var í desember 2004.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.177.968 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. mars 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðar-reikningi.
Ekki eru gerðar neinar kröfur á hendur réttargæslustefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður.
Helstu málavextir eru að stefnandi fór ásamt 15 manna hópi samstarfsfólks síns hjá Hótel Kirkjubæjarklaustri í svokallaða flúðasiglingu niður Skaftá í Skaftárhreppi að kvöldi 1. ágúst 2001. Farið var á þremur bátum niður ána. Tveimur þessara báta hvolfdi í ánni í flúð við Hunkubakka með þeim afleiðingum að leiðsögumenn og farþegar, m.a. stefnandi, fóru út í ána. Við það meiddist stefnandi.
Bessi Þorsteinsson gaf skýrslu hjá lögreglunni vegna slyssins og skýrði þannig frá:
Þessi umrædda skemmtisigling var farin á vegum starfsmannafélags Hótels Kirkjubæjarklausturs. Ég starfa þar sem hótelstjóri og var í forsvari fyrir ferðinni ásamt 2-3 öðrum starfsmönnum. Tilgangur ferðarinnar var að gera eitthvað saman fyrir verslunarmannahelgina en þá eru allir starfsmenn mínir í vinnu. Var ætlunin að kveikja smá varðeld og borða saman mat eftir ferðina. Ég hafði haft samband við Trausta framkvæmdastjóra Tindfjalla og pantað umrædda ferð með nokkra vikna fyrirvara. Var það ósk okkar að siglt yrði niður svo kallað efrasvæði á Skaftá en þá er siglt um þessi flúð sem bátunum hvolfdi í. Seint s.l. vetur hafði hluti starfsmanna hótelsins farið í siglingu niður Skaftána og höfðu sumir siglt niður efrasvæðið og niður á það neðra en aðrir einungis siglt niður neðrasvæðið. Þegar siglt er niður efrasvæði er lagt af stað ofan við bæinn Hunkabakka og siglt undir brúna niður á Klaustur. Þegar farið er neðrasvæðið er siglt af stað neðan við brúna og niður á Klaustur. Hópurinn ákvað því að fara í þetta sinn frá efrasvæðinu því það þótti meira spennandi. ... Við höfum áður farið í svona river rafting ferð með Tindfjöllum og þá á Hólmsá við Hrífunes í fyrra á svipuðum árstíma ... Þegar Tindfjallamenn voru að kanna aðstæður á Skaftá í vetur sem leið þá fengum við að fljóta með þeim og var það kveikjan að þessar ferð.
Með bréfi 5. desember 2003 fór lögmaður stefnanda þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að láta í té skriflegt og rökstutt álit um afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Niðurstaða matsgerðarinnar, sem dagsett er 10. mars 2004, er þannig orðuð:
Við slysið þann 01.08.2001 varð Kristján Gíslason fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:
Frá 05.03.2003 til 13.05.2003: 100%
2. Þjáningabætur skv. 3. grein:
Rúmliggjandi, ekkert.
Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, frá 05.03.2003 til 13.05.2003.
3. Stöðugleikatímapunktur: 13.05.2003.
4. Varanlegur miski skv. 4. grein: 8%
5. Varanleg örorka skv. 5. grein: 8%
Kröfufjárhæð sína tilgreinir stefnandi svo þannig:
Við ákvörðun á varanlegri örorku ber að miða við lágmarks árslaun, sbr. 2. mgr. 7. gr. kr. 1.200.000,00, auk verðbóta (3.282/4.682) eða samtals kr. 1.639.000,00, sbr. 15. gr. með vísan til skattframtala stefnanda, sbr. dskj. 29.
|
1. Þjáningarb. batnandi, ekki rúml. 69d (1000) |
kr. 69.000,00 |
|
2. Varanlegur miski 8% (5.462.500) |
kr. 437.000,00 |
|
3. Tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr. (69d.) |
kr. 323.922,00 |
|
4. Varanleg örorka, sbr. 5. gr. 8% (stuðull 9,014) |
kr. 1.181.916,00 |
|
5. Vextir 4,5% sbr. 16. gr. |
kr. 140.838,00 |
|
6. Útlagður kostnaður tjónþola |
kr. 25.292,00 |
|
Samtals |
kr. 2.177.968,00 |
Til viðbótar ofangreindri fjárhæð er krafist dráttarvaxta frá dags. matsgerðar 10. mars 2004 til greiðsludags, auk málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda að viðbættum 24,55 virðisaukaskatti á málskostnaðarfjárhæð.
Stefnandi byggir á því að stefndi og starfsmenn hans, sem stefndi beri húsbóndaábyrgð á, hafi valdið sér tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og þannig fellt á sig bótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.
Af hálfu stefnanda er talið að orsakir slyssins hafi m.a. verið rangt mat starfsmanna stefnda á áhættu þess að sigla af stað fyrir ofan brú og niður ána með óvanan hóp fólks á aldrinum 15 til 51 árs, þegar áin var auk þess óvenju vatnsmikil. Við þessar aðstæður hafi áin aðeins verið fær vönum og líkamlega sterkum mönnum.
Á því er byggt að ferðamönnunum hafi ekki verið kynntar öryggisreglur og ekki leiðbeint sem skyldi af starfsmönnum stefnda.
Þá er vísað til þess að starfsleyfi stefnda frá Siglingastofnun hafi runnið út 15. júní 2001, en stefndi hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem stofnunin gerði til öryggis og hafi starfsleyfið því ekki fengist framlengt.
Stefndi byggir aðallega á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Um skaðabótaábyrgð stefnda fari samkvæmt 137. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en þar sé kveðið á um að farsala sé skylt að bæta tjón sem hljótist af því að farþegi slasist meðan á ferð standi og tjónið megi rekja til yfirsjónar eða vanrækslu farsala sjálfs eða einhvers manns sem hann ber ábyrgð á. Samkvæmt 3. tl. 215. gr. siglingalaga fyrnist kröfur samkvæmt 137. gr. laganna að liðnum tveimur árum frá því að farþegi yfirgefur bát hafi þeim ekki verið fylgt eftir með lögsókn. Slysið hafi orðið 1. ágúst 2001. Tveimur árum síðar, eða 1. ágúst 2003, hafi fyrningarfresturinn liðið.
Verði ekki fallist á að krafa stefnanda á hendur stefnda sé fyrnd, byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi fyrirgert bótarétti sínum á grundvelli reglna skaðbótaréttarins um áhættutöku. Í öðru lagi er byggt á því að um óhapptilvik hafi verið að ræða. Ávallt sé ákveðin hætta á óhöppum sem þessum í flúðasiglingum. Ósannað sé að tjón stefnanda verði rakið til ólögmætrar og saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda, óforsvaranlegs mats af þeirra hálfu, ófullnægjandi leiðbeininga eða öryggisráðstafana, vanbúnaðar báta eða annarra atvika eða aðstæðna sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.
Varakröfu um lækkun bóta byggir stefndi á því að stefnandi verði að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar þar eð hann hafi ekki brugðist rétt við og í samræmi við leiðbeiningar er hann féll í ána umrætt sinn. Þá er byggt á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, vegna óhappsins, enda með öllu óljóst hvort stefnandi hefði verið í vinnu þann tíma sem hann var veikur vegna aðgerðar á öxl þann 5. mars 2003. Þá er vísað til þess að lágmarkslaun 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli uppreiknuð með lánskjaravísitölu til stöðugleikapunkts, þ.e. 13. maí 2003, en ekki til síðara tímamarks.
Stefndi gerir fyrirvara við fjárhæð almennra vaxta í kröfugerð stefnanda. Samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga skuli bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar og varanlegan miska bera 4,5% vexti frá því að tjón varð en bætur fyrir varanlega örorku skuli hins vegar bera 4,5% vexti frá stöðugleikapunkti, í þessu tilviki 13. maí 2003.
Að lokum er því mótmælt að skaðabótakrafa stefnanda beri dráttarvexti frá fyrra tímamarki en þegar mánuður var liðinn frá stefnubirtingardegi.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að upphaf þessa máls hafi verið að allir hefðu mætt upp eftir á ákveðnum stað [að kvöldi 1. ágúst 2001]. Þar hafi þau fengið afhenta galla til að fara í og hjálm og skó sem fylgdu með gallanum. Síðan hafi verið farið með þau um borð í bátinn. Þar hafi þeim verið sagt að þau yrðu að fara eftir öllum leiðbeiningum sem stjórnandi bátsins gæfi, eins og hvort þau ættu að róa hægra megin, vinstra megin eða aftur á bak, og yrðu þau að hlýða því. Síðan hafi verið lagt af stað.
Hann kvað þau ekki hafa farið langt þegar fyrsta bátnum hvolfdi. Báðum bátunum hvolfdi á sama stað [tveimur af þremur]. Hann sagði að fólk, sem var þarna á bakkanum og horfði á þetta, hafi síðar tjáð honum að þetta hafi verið eins og endurtekning í bíómynd, bátarnir hafi farið nákvæmlega eins báðir.
Stefnandi sagði að leiðangursstjórar hefðu ekki undirbúið þau undir þessa ferð að öðru leyti en með umræddum búnaði og fyrirmælum. Í þeim bát sem hann fór með hafi ekki verið farið yfir öryggisatriði ef eitthvað kæmi upp á.
Stefnandi kvaðst álíta að allt of mikill straumur í ánni, kunnáttuleysi og samskiptaleysi hafi verið orsök slyssins. Stjórnarmaður bátsins, sem hann var í, var franskur og talaði mjög lélega ensku og ekki gott að skilja hann.
Aðspurður kvaðst stefnandi hafa verið í fyrsta bátnum.
Stefnandi sagði að atburðarásin hefði verið hröð, straumurinn hafi tekið þau strax og kastað þeim utan í klettavegginn.
Stefnandi kvað bátnum hafa hvolft yfir þau og hafi hann farið í kaf ásamt öðrum. Síðan hafi hann borist með straumnum og kastast utan í klettaveggi á leiðinni niður eftir einhver hundruð metra. Hafi hann allan tímann verið með meðvitund, en honum hafi orðið mjög kalt og sopið mikið vatn. Hvergi hafi verið tak að finna til að komast upp úr fyrr en hann sá fyrir framan sig halla þar sem voru trjágreinar sem hann hafi náð að grípa í, en þær hefðu slitnað ein af annarri, en að lokum hafi hann náð í eina, þar sem hann hafi haldið sér góða stund, og að lokum hafi hann náð að renna niður gallanum og þá hafi fossað út vatn og síðan hafi hann náð að komast af sjálfsdáðum upp, þrjátíu til fjörutíu metra upp aflíðandi hlíð.
Þegar stefnandi lá uppi á bakkanum og var rétt að ná andanum kvaðst hann hafa séð bát er fór fram hjá. Kvaðst hann hafa séð að hann tók einn upp í hinum megin aðeins neðar. Síðan hafi hann ekki tekið eftir öðrum [bátsverjum]. Honum hafi verið kalt og fólk komið að og boðið honum að koma inn í tjald hjá sér. Hafi það lánað honum hlý föt og gefið honum kaffi o.fl. Er hann kom út aftur, sennilega tuttugu mínútum eða hálftíma seinna, þá hafi honum verið sagt að enn væru tveir ófundnir. Kvaðst hann þó ekki geta staðfest þetta. Síðan hafi honum verið ekið niður í félagsheimili þar sem komið hefði verið upp aðstöðu.
Aðspurður kvaðst hann ekki hafa gert sér grein fyrir að um hættulegar aðstæður væri að ræða í efri hluta árinnar áður en lagt var af stað.
Aðspurður kvaðst stefnandi hafa áður farið í flúðasiglingu nokkrum mánuðum áður frá öðrum stað eða neðar í ánni.
Stefnandi sagði að þeim hafi verið tjáð að fyrir gæti komið að bátnum hvolfdi en þeim hafi ekki verið sagt hvernig þau ættu að bregðast við því. Hann kvað heilbrigða skynsemi segja að alveg megi búast við að bát hvolfi í flúðasiglingu.
Jóhann Thorarensen gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði unnið hjá stefnda sem leiðsögumaður á þeim tíma sem hér um ræðir og verið einn af þeim þremur er umræddur atburður gerðist.
Jóhann kvaðst hafa verið búinn að starfa í flúðasiglingum hjá stefnda í tvö ár er þetta slys varð og verið búinn að fara um það bil fjörutíu til fimmtíu ferðir. Hinir leiðsögumennirnir hafi báðir verið erlendir, annar frá Frakklandi en hinn frá Belgíu. Hann kvaðst ekki vita hvort þeir voru keppnismenn en alla vega hefðu þeir verið mjög færir og staðið sig vel.
Jóhann sagði að lagt hefði verið af stað í umrædda ferð upp úr tíu um kvöldið. Birtuskilyrði hefðu verið ágæt. Hann sagði að farið hefði verið yfir öryggisreglur með farþegunum áður en lagt var í siglinguna eins og alltaf. Hópnum hafi verið skipt upp miðað við þrjá báta og hver hafi tekið sinn hóp. Venjulega sé til dæmis farið yfir hvernig eigi að synda í ánni, en alltaf eigi að snúa með fæturna niður ána þannig að þeir taki fyrst við ef árekstur verður. Farið hefði verið yfir hvernig staðið væri að því að róa og hvernig best væri að taka á, hvar ætti að halda í og hvernig ætti að draga menn um borð o.s.frv.
Jóhann sagði að allir hefðu verið með hjálma, flestir í flotgöllum og einhverjir í blautbuxum og þurrtopp með björgunarvesti. Í bátunum hafi verið öryggisútbúnaður, öryggisvesti og kastlínur. Sjúkrakassi hafi verið í einum bátanna.
Jóhann sagði að þeir hefðu skoðað aðstæður og þar með umræddar flúðir þar sem sérstaklega hefði verið beðið um að byrjað yrði þar fyrir ofan af þeim sem pöntuðu ferðina. Hann sagði að nokkuð mikið hafi verið í ánni og hafi flúðirnar ekki litið illa út en nokkuð þröngar, en menn hefðu verið sammála um að ekki væri hætta á strandi fyrir ofan og áin að öðru leyti fær.
Lögð var fyrir Jóhann lögregluskýrsla sem hann gaf af atburðinum 13. ágúst 2001, sbr. dskj. nr. 26. Hann kvað rétt eftir sér haft og staðfesti undirritun sína.
Sigríður Ruth Gísladóttir gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að hún hefði tekið þátt í þeirri ferð niður Skaftá er hér um ræðir. Ferðin hafi byrjað þannig að hópnum var skipt í báta og var þeim tjáð hvað þau ættu að gera, hvernig róa ætti og hvernig bregðast við ef menn dyttu útbyrðis. Fólkið hefði æft sig í þessu í smá stund áður en lagt var af stað.
Sigríður sagði að stuttu eftir að lagt var af stað hafi bátnum fyrirvarlaust hvolft. Hafi þá allt farið í upplausn. Stjórnendurnir hafi þó reynt sitt besta miðað við aðstæður. Sigríður sagði að þeim hefði ekki verið sagt hvernig bregðast ætti við umsnúningi bátsins á hvolf. Hún sagði að frekar dimmt hafi verið orðið er þetta gerðist.
Sigríður sagði að leiðsögumennirnir hefðu ekki haft stjórn á aðstæðum en reynt sitt besta.
Lögð var fyrir Sigríði Ruth lögregluskýrsla sem hún gaf af atburðinum 11. ágúst 2001, sbr. dskj. nr. 26. Hún kvað rétt eftir sér haft og staðfesti undirritun sína.
Ályktunarorð: Sýknukröfu sína byggir stefndi aðallega á því að ætluð skaðabótakrafa stefnanda sé fyrnd. Af hálfu stefnanda er því hins vegar haldið fram að krafan sé ekki fyrnd enda sé um 10 ára fyrningarfrest að ræða, sbr. ákv. 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905.
Svo sem stefndi vísar til fer um skaðabótaábyrgð stefnda samkvæmt 137. gr. siglingalaga nr. 34/1985 þar sem segir m.a. að farsala sé skylt að bæta tjón er hlýst af því að farþegi slasast meðan á ferð stendur vegna yfirsjónar eða vanrækslu farsala sjálfs eða einhvers manns sem hann ber ábyrgð á. Þá er kveðið á um í 3. tl. 1. mgr. 215. gr. sömu laga að kröfur samkvæmt umræddu ákvæði 137. gr. falli niður vegna fyrningar, hafi þeim ekki verið fylgt eftir með lögsókn innan tveggja ára frá því að farþegi yfirgaf skip. Slysið varð 1. ágúst 2001 en lögsókn hófst með birtingu stefnu 8. desember 2004.
Skarist lögfestar reglur siglingalaga um bótagrundvöll og ólögfestar reglur um skaðabótarétt, ganga hinar lögfestu reglur framar. Og þá gangi fyrningarreglur siglinga-laga, er gengu í gildi 1985, einnig framar ákvæðum um fyrningarfrest í eldri lögum.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Tindafjöll ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kristjáns Gíslasonar.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.