Hæstiréttur íslands
Mál nr. 334/2010
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Riftun
- Starfslok
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2011. |
|
|
Nr. 334/2010. |
EJS ehf. (Anton B. Markússon hrl.) gegn Guðna Þór Haukssyni (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Vinnusamningur. Riftun. Starfslok.
G sagði ráðningarsamningi sínum við E ehf. upp 2. janúar 2009 með þriggja mánaða fresti og voru starfslok ráðgerð 30. apríl sama ár. Á uppsagnarfrestinum fékk E ehf. í hendur gögn sem hann taldi sýna að G hefði, ásamt sex öðrum starfsmönnum, brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum. Vegna þessa var G boðaður á fund fjögurra yfirmanna E ehf. 5. febrúar 2009 og í kjölfarið var honum gert að yfirgefa vinnustaðinn. Þann 26. febrúar sama ár óskaði E ehf. eftir því við G að hann mætti til vinnu á ný og ynni út uppsagnarfrestinn, en G taldi sér það ekki skylt þar sem honum hefði verið vikið úr starfi. G höfðaði mál þetta gegn E ehf. til heimtu launa út uppsagnarfrest. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að E ehf. hefði staðið næst að tryggja sönnun fyrir því að G hefði verið gert ljóst á fundinum 5. febrúar 2009 að til þess gæti komið að hann yrði kallaður aftur til starfa á uppsagnarfresti, enda viðbúið að G gæti að öðrum kosti með réttu litið svo á að ráðningarsambandi þeirra hafi þar verið slitið. Slíka sönnun hefði E ehf. ekki tryggt sér og yrði því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að honum bæri að greiða G laun til enda uppsagnarfrests.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins réði stefndi sig til starfa hjá áfrýjanda 6. júlí 2005, en sá fyrrnefndi sagði ráðningarsamningnum upp 2. janúar 2009 með þriggja mánaða fresti og voru ráðgerð starfslok 30. apríl sama ár. Á uppsagnarfrestinum mun áfrýjandi hafa fengið í hendur gögn, sem hann taldi sýna að stefndi ásamt sex öðrum starfsmönnum hafi brotið alvarlega gegn starfskyldum sínum, og boðaði hann stefnda af því tilefni til fundar 5. febrúar 2009. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst stefndi hafa þar verið sakaður um að hafa „stolið trúnaðargögnum“ og verið „beðinn um að játa“. Hann kvað sér hafa verið vikið úr starfi á fundinum og minntist ekki að gerður hafi verið áskilnaður um að hann kynni að verða kallaður aftur til starfa á uppsagnarfresti, en þarna hafi verið „frekar mikil geðshræring“ og hann myndi ekki nánar eftir þessu. Fyrir héraðsdómi gaf jafnframt skýrslu framkvæmdastjóri þjónustusviðs áfrýjanda, sem staddur var á sama fundi ásamt þremur öðrum yfirmönnum hjá félaginu. Hann lýsti því meðal annars að á fundinum hafi stefnda verið tjáð að ekki væri óskað eftir að hann mætti til vinnu á meðan félagið væri að kanna nánar hvernig það myndi „verja hagsmuni“ sína vegna trúnaðarbrota starfsmanna. Önnur gögn liggja ekki fyrir í málinu um hvað fór fram á þessum fundi. Fram er komið að eftir fundinn var stefnda gert að yfirgefa vinnustaðinn og afhenda síma, sem hann hafi haft til afnota í starfi, auk þess sem tekin var úr sambandi nettenging fyrir tölvu hans. Þá sendi sýslumaðurinn í Reykjavík boðun til stefnda 13. febrúar 2009 vegna fram kominnar beiðni áfrýjanda um að lögbann yrði lagt meðal annars við því að stefndi hæfi störf hjá nánar tilgreindu félagi, svo og að hann hefði samband við viðskiptamenn áfrýjanda eða starfsmenn þeirra. Þegar þetta er virt verður að líta svo á að staðið hafi áfrýjanda næst að tryggja sönnur fyrir því að stefnda hafi þrátt fyrir þetta verið gert ljóst á fundinum að til þess gæti komið að hann yrði kallaður aftur til starfa á uppsagnarfresti, enda viðbúið að stefndi gæti að öðrum kosti með réttu litið svo á að ráðningarsambandi þeirra hafi þar verið slitið. Slíka sönnun tryggði áfrýjandi sér ekki og verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að honum beri að greiða stefnda laun til enda uppsagnarfrests. Samkvæmt málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti fékk hann á uppsagnarfrestinum greiddar úr fæðingarorlofssjóði 82.114 krónur, sem draga eigi frá fjárhæð kröfu hans. Því til samræmis og með því að kröfu stefnda um vexti hefur ekki sérstaklega verið mótmælt verður héraðsdómur staðfestur á þann hátt, sem nánar greinir í dómsorði.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, EJS ehf., greiði stefnda, Guðna Þór Haukssyni, 1.239.926 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2009 til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 10. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Guðna Þór Haukssyni, Eyjabakka 30, Reykjavík, á hendur EJS ehf., Grensásvegi 10, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 2. október 2009.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.322.040 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 5. febrúar 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er þess að auki krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp í málinu.
II
Stefndi er þekkt upplýsingatæknifyrirtæki sem hefur um árabil verið einn stærsti söluaðili landsins á tölvum, útstöðvum, miðlarabúnaði, afgreiðslutækjum og tilheyrandi þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga. Í júlí 2005 skrifaði stefnandi undir ráðningarsamning við stefnda. Stefnandi gegndi starfi sérfræðings á lausnasviði hjá félaginu, og fól það m.a. í sér að stefnandi var einn helsti sérfræðingur stefnda í Microsoft hugbúnaði. Stefnandi sagði upp störfum hinn 2. janúar 2009 frá og með 1. febrúar með þriggja mánaða uppsagnarfresti og skyldi hann því láta af störfum 30. apríl 2009, samkvæmt 2. gr. ráðningarsamnings aðila um þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Stefnandi lítur svo á, að honum hafi verið sagt upp störfum hinn 5. febrúar 2009, þar sem honum hafi verið gefið að sök að vinna gegn hagsmunum stefnda og í framhaldi látinn hætta tafarlaust störfum. Vegna þessa sendi stefnandi símskeyti til stefnda hinn 10. febrúar 2009, þar sem hann lýsti því yfir að hér væri um ólögmæta brottvísun úr starfi að ræða. Hann áskildi sér jafnframt rétt til greiðslu launa út uppsagnafrest og lýsti sig reiðubúinn að vinna út uppsagnarfrest. Stefnandi gaf stefnda frest til hádegis 12. febrúar 2009 til að bregðast við skeytinu. Hann fékk engin viðbrögð við skeytinu innan þess frests og kveðst því hafa litið svo á að stefndi hafi þar með rift ráðningarsamningi við stefnanda.
Hinn 13. febrúar fékk stefnandi í hendur boðun til fyrirtöku vegna lögbanns. Með ákvörðun 23. febrúar var lögbannsbeiðni stefnda hafnað hjá embætti Sýslumannsins í Reykjavík, þar sem stefndi hefði ekki sýnt fram á að stefnandi hefði þegar hafist handa um eða yfirvofandi væri sú háttsemi sem lögbann var krafist við og þar með að stefnandi hefði framið einhverja athöfn sem brjóti gegn lögvörðum rétti stefnda.
Stefnanda barst svarbréf við fyrrgreindu símskeyti er hann sendi stefnda 10. febrúar eftir að frestur til svars samkvæmt skeytinu rann út. Í svarbréfinu kemur fram að stefndi telur stefnanda hafa brotið gegn trúnaðarskyldum sínum. Stefndi tekur fram að meint brot séu þess efnis að stefndi hafi óumdeilanlegan rétt til þess að óska ekki eftir vinnuframlagi stefnanda á meðan uppsagnarfresti stendur. Í bréfinu áskildi stefndi sér þó rétt til að kalla stefnanda til starfa hvenær sem væri á uppsagnarfresti og taldi ekki vera um ólögmæta uppsögn að ræða. Hinn 26. febrúar 2009 barst stefnanda svo skeyti þar sem skorað var á hann að mæta aftur til starfa 27. þess mánaðar og vinna út uppsagnarfrestinn. Lögmaður stefnanda svaraði þeirri áskorun stefnda fyrir hönd stefnanda með bréfi, dagsettu 27. febrúar. Í bréfinu kemur fram að þar sem vinnuframlags stefnanda hafi ekki verið óskað þegar það hafi verið boðið fram líti hann svo á að honum hafi verið vikið úr starfi hinn 5. febrúar 2009, með ólögmætum hætti.
Hinn 25. mars 2009 barst stefnanda símskeyti frá stefnda. Í skeytinu vísar stefndi til fyrra skeytis frá 26. febrúar og segir að þar sem stefnandi hafi ekki mætt til starfa þrátt fyrir áskoranir þess efnis, sé ljóst að stefnandi hafi með ólögmætum hætti einhliða rift ráðningarsamningi sínum við stefnda og þannig fyrirgert rétti sínum til launa frá stefnda út uppsagnarfrest stefnanda. Auk framangreinds áskildi stefndi sér rétt til þess að krefja stefnanda um bætur fyrir ólögmætt brotthlaup úr starfi.
Með skeyti lögmanns stefnda, dagsettu 25. mars 2009, hafi því verið lýst yfir að þar sem stefnandi hefði ekki orðið við áskorun stefnda um að koma aftur til starfa, sbr. bréf þess efnis, dagsettu 26. febrúar, líti stefndi svo á að stefnandi hafi rift ráðningarsamningi sínum frá og með 1. mars 2009 og þannig fyrirgert rétti sínum til launa og orlofs frá og með sama tímamarki.
Stefndi kveður, að hinn 4. febrúar 2009 hafi framkvæmdastjóra stefnda borist trúverðug gögn og upplýsingar í formi útprentaðra tölvupósta, sem bent hafi eindregið til alvarlegra brota stefnda og sex annarra þáverandi/fyrrverandi starfsmanna stefnda á starfs- og trúnaðarskyldum gagnvart fyrirtækinu. Auk stefnanda hafi verið um að ræða þá Ægi Vopna Ármannsson, Ólaf Pál Ragnarsson, Guðjón Magnússon, Ragnar Eysteinsson, Jón Viggó Gunnarsson og Erlend Ísfeld. Umræddir einstaklingar hafi allir sagt upp störfum hjá stefnda á tímabilinu frá 26. september 2008 til 4. febrúar 2009. Hafi brot fyrrgreindra starfsmanna falist í því að þeir hefðu, um nokkurra mánaða skeið, markvisst og skipulega unnið að því að koma undan trúnaðargögnum og atvinnuleyndarmálum í eigu stefnda og komið á fót fyrirtæki sem hugði á samkeppni við stefnda. Tilgangur þessa hafi verið sá að nýta trúnaðargögnin og atvinnuleyndarmálin hjá umræddu nýju fyrirtæki. Upphaflega hafi staðið til að fyrirtækið héti XA ehf., og hafi fyrirtæki með því heiti verið stofnað í nóvember 2008. Síðar hafi verið fallið frá því nafni, m.a. vegna ruglingshættu við EXA ehf., dótturfélags stefnda EJS ehf. Eftir að upp hafi komist um áætlanir stefnanda og sexmenningana í febrúar 2009 hafi verið ákveðið að stofna nýtt fyrirtæki með nafninu UTF ehf. í stað þess að breyta nafninu á XA ehf., eins og upphaflega hafi staðið til. Samþykktir UTF ehf. séu dagsettar 1. mars 2009.
Stefndi kveður einn mikilvægasta birgi sinn vera fyrirtækið EMC, sem sé bandarískt stórfyrirtæki, sem sé leiðandi í heiminum á sviði gagnastæða og afritunarlausna. Stefndi hafi, í gegnum dótturfélag sitt EXA ehf. sem er alfarið í eigu stefnda, hafi um árabil verið eini umboðsaðili EMC á Íslandi. Stefndi kveðst hafa selt og þjónustað EMC búnað til fyrirtækja og annarra innlendra aðila um langt skeið, og fjárfest gríðarlega í þjálfun og þekkingu starfsmanna sinna. Til vitnis um mikilvægi EMC lausna fyrir starfsemi stefnda megi benda á að heildartekjur stefnda af EMC lausnum og þjónustu á síðastliðnum fimm árum séu nærri 750 milljónir króna, og sé EMC einn af fimm mikilvægustu og stærstu birgjum stefnda.
Nokkrir af umræddum tölvupóstum, einkum tölvupóstar frá Ægi Ármannssyni til m.a. stefnanda, dagsettir 14. og 17. nóvember 2008, sýni hvernig markvisst hafi verið unnið að því að ná EMC viðskiptum frá stefnda yfir til hins nýja fyrirtækis. Af þeim tölvupóstum, sem lagðir hafa verið fram í málinu, sé stefnandi móttakandi að þeim öllum, auk þess sem hann hafi sjálfur sent fjölmarga tölvupósta, t.d. dagsetta 6. og 20. nóvember og 3. og 17. desember 2008, sem staðfesti þátttöku hans í þeim aðgerðum sem þar sé lýst. Til dæmis sýni tölvupósturinn frá 3. desember hvernig stefnandi sendi trúnaðargögn og upplýsingar um þá viðskiptamenn stefnda sem reynt skuli að ná yfir í viðskipti til hins nýja fyrirtækis.
Stefndi kveður fyrirtækið UTF ehf. nú þegar vera komið í harða samkeppni við stefnda, einkum varðandi EMC þjónustu hér á landi. Þannig hafi stefndi fengið það staðfest frá EMC birgja sínum í Noregi hinn 24. júní sl., að UTF ehf. væri komið með viðskiptasamning við EMC, sem heimilaði fyrirtækinu ekki einasta að kaupa EMC búnað heldur einnig þjónusta EMC búnað hér á landi, auk þess sem, samkvæmt upplýsingum af heimasíðu www.utf.is, hafi verið skrifað undir samstarfssamning við EMC. Efni og innihald tölvupóstanna hafi verið þess eðlis að fyrirsvarsmenn stefnda, EJS ehf., hafi talið verulegar líkur á að stefnandi hefði meðal annars gerst brotlegur við 16. gr. c laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, auk ákvæða 8. og 9. gr. ráðningarsamnings stefnanda um trúnaðarskyldur. Í ljósi alvarleika hinna meintu brota hafi stefndi óskað eftir því við sýslumanninn í Reykjavík, hinn 10. febrúar 2009, að hann setti lögbann annars vegar við því að stefnandi hæfi störf hjá umræddu fyrirtæki XA ehf., eða kæmi nærri rekstri þess, og hins vegar við því að hann hefði samband við birgja og/eða viðskiptamenn stefnda EJS ehf.
Kröfum sínum til stuðnings hafi stefndi, EJS ehf., lagt fram umrædda tölvupósta, sem honum hafi áskotnast nokkrum dögum fyrr. Sýslumaður hafi hins vegar talið skilyrði lögbanns ekki vera fyrir hendi í málinu sbr. ákvörðun sýslumanns.
Stefndi tekur fram, að við fyrirtöku lögbannsmálsins hjá sýslumanni, hafi réttmæti tölvupóstanna sem slíkra aldrei verið mótmælt af hálfu stefnanda. Í þessu felist viðurkenning á réttmæti þess sem tölvupóstarnir beri með sér og lýst sé að ofan.
Auk þess bendir stefndi á, að Ægir Ármannsson og Guðjón Magnússon, fyrrum starfsmenn stefnda sem minnst er á að ofan, hafi nú höfðað skaðabótamál á hendur stefnda, þar sem krafist sé miskabóta frá stefnda fyrir að hafa aflað sömu tölvupósta og lagðir hafi verið fram í lögbannsmálinu á hendur stefnanda og í þessu máli. Með þeirri málshöfðun felist að mati stefnda ótvíræð viðurkenning þeirra Ægis og Guðjóns á því að hafa vissulega skrifað og móttekið þá tölvupósta sem lagðir voru fram hjá sýslumanni sem og í þessu máli, enda hvergi haldið fram í þeim stefnum að efni og innihald tölvupóstanna sé falsað eða að því hafi verið breytt, heldur einungis að þeim hafi verið breytt frá upprunalegri mynd til að fela uppruna þeirra og hvaðan þeir voru prentaðir út. Með hliðsjón af þessu verði að telja að sönnunargildi tölvupóstanna sé ótvírætt. Daginn eftir að stefndi hafi fengið í hendur upplýsingar og gögn um alvarleg brot stefnanda á starfsskyldum sínum, þ.e. útprentanir tölvupósta, eða hinn 5. febrúar 2009, hafi stefnandi verið kallaður á fund yfirmanna stefnda til að útskýra aðkomu sína að málinu. Á þeim fundi hafi stefnandi viðurkennt að hafa tekið þátt í þeim aðgerðum sem efni tölvupóstanna beri með sér að væru í gangi og lýst sé að ofan, en að hann hafi verið hættur við þátttöku í aðgerðunum. Þetta staðfesti trúverðugleika tölvupóstanna og hafi enn frekar styrkt grun stefnda um alvarleg brot stefnanda og sexmenninganna á starfsskyldum sínum. Í kjölfarið hafi stefnanda verið tilkynnt um að vinnuframlag hans væri afþakkað meðan unnið væri að því að verja hagsmuni félagsins, og að samband yrði haft við hann um vinnuskyldu á uppsagnarfresti. Áskilnaður stefnda, EJS ehf., um rétt til að kalla stefnanda til starfa á uppsagnarfresti hafi svo verið ítrekaður með bréfi lögmanns stefnda, sem borist hafi stefnda 13. febrúar. Þar hafi jafnframt verið áréttað að engum samningi hefði verið rift við stefnanda og að ráðningarsamningur aðila væri enn í fullu gildi. Stefnandi hafi í kjölfarið verið kallaður aftur til vinnu með símskeyti hinn 26. febrúar 2009. Þar hafi verið skorað á stefnanda að koma aftur til starfa hjá stefnda út uppsagnarfrestinn. Með svarbréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 27. febrúar, hafi því verið lýst yfir að stefnandi hygðist ekki mæta aftur til starfa með vísan til þess að stefndi hefði þegar rift ráðningarsamningi við hann.
Með innheimtubréfi lögmanns stefnda, dagsettu 4. september 2009, til stefnda, hafi verið krafist launa og orlofs fyrir mars- og aprílmánuð 2009. Kröfum stefnanda hafi verið hafnað með svarbréfi lögmanns stefnda, dagsettu 16. september 2009.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að með einhliða ákvörðun hinn 5. febrúar 2009 hafi stefndi rekið stefnanda úr starfi með ólögmætum hætti og með því að greiða honum ekki uppsagnarfrest hafi hann brotið gegn ráðningarsamningi þeirra. Hinn 4. september 2009 hafi lögmaður stefnanda, fyrir hans hönd, sent stefnda innheimtubréf, þar sem honum hafi verið gefinn 10 daga frestur til þess að greiða stefnanda vangreidd laun á uppsagnarfresti. Í svarbréfi sem borist hafi eftir þann frest sem gefinn hafi verið, eða hinn 17. september 2009, sé vísað til fyrrnefnds símskeytis frá 26. febrúar 2009 og því hafnað að á stefnda hvíli frekari greiðsluskylda.
Þar sem innheimtuaðgerðir hafa engan árangur borið sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu launakröfunnar. Stefnandi hefur sundurliðað kröfu sína með eftirgreindum hætti í stefnu:
|
|
Útgáfudagur |
Gjalddagi |
Fjárhæð |
|
Laun í apríl |
05.02.2009 |
05.02.2009 |
600.000 |
|
Laun í mars |
05.02.2009 |
05.02.2009 |
600.000 |
|
Orlof í apríl |
05.02.2009 |
05.02.2009 |
61.020 |
|
Orlof í mars |
05.02.2009 |
05.02.2009 |
61.020 |
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttarins og samningalaga nr. 7/1936.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, með síðari breytingum.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum númer 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
IV
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi sjálfur sagt upp starfi sínu hinn 2. janúar, frá og með 1. febrúar 2009, með umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í samræmi við meginreglur íslensks vinnuréttar eigi vinnuveitandi það ákvörðunarvald hvort hann krefji starfsmann um vinnuframlag á uppsagnarfresti, annað hvort að fullu leyti eða að hluta. Undir öllum kringumstæðum sé það forsenda launagreiðslna vinnuveitanda til starfsmanns að starfsmaður inni vinnuframlag af hendi í samræmi við fyrirmæli vinnuveitanda á hverjum tíma. Tímabundin höfnun stefnda á vinnuframlagi stefnanda í uppsagnarfresti, einkum þegar aðstæður og atvik séu með þeim hætti, sem hér hafi verið lýst, jafngildi ekki riftun stefnda á vinnusamningi. Hafa verði í huga að stefnanda hafi verið sagt upp störfum hinn 2. janúar 2009, en hinn 4. febrúar hafi stefnda áskotnast trúverðug gögn sem bendi eindregið til þess að stefnandi hafi gerst sekur um alvarleg brot á meginreglum vinnuréttar um trúnaðarskyldur starfsmanna gagnvart vinnuveitanda og á ráðningarsamningi sínum, einkum hvað varði 8. og 9. gr. um trúnaðarskyldur. Raunar hafi stefnandi staðfest, á fundi með yfirmönnum stefnda hinn 5. febrúar 2009, að svo hafi verið, en haldið því jafnframt fram að hann hafi hætt við þátttöku í hinum brotlegu aðgerðum. Í kjölfar þessara gagna og upplýsinga hafi stefndi ákveðið að afþakka vinnuframlag stefnanda meðan unnið hafi verið að því tryggja hagsmuni fyrirtækisins, meðal annars með lögbannsbeiðni, dagsettri 10. febrúar 2009, enda rökstuddur grunur um að hætta væri á að stefnandi hefði átt þátt í að koma viðkvæmum atvinnuleyndarmálum og trúnaðarupplýsingum út úr fyrirtækinu með þeim hætti sem hafi verið lýst. Stefndi hafi gætt þess allt frá fyrstu stundu að áskilja sér rétt til þess að kalla stefnanda aftur til starfa, ef og þegar aðstæður leyfðu. Þessi áskilnaður hafi verið ítrekaður af hálfu lögmanns stefnda með bréfi, dagsettu 12. febrúar og skeyti, dagsettu 26. febrúar.
Í skeyti lögmanns stefnda, dagsettu 26. febrúar, hafi jafnframt verið áréttað að ráðningarsamningi stefnanda hefði ekki verið rift og að hann væri enn í fullu gildi. Skorað hafi verið á stefnanda að mæta aftur til starfa út uppsagnarfrest sinn, og stefnandi jafnframt upplýstur um, ef það yrði ekki gert, yrði litið svo á að hann hefði kosið að rifta vinnusambandi aðila. Lögmaður stefnanda, hafi svarað með bréfi, dagsettu 27. febrúar 2009, þar sem því sé lýst yfir að stefnandi muni ekki mæta frekar til starfa.
Stefndi kveðst því líta svo á að stefnandi hafi sjálfur ákveðið, með því að sinna ekki áskorun um að mæta aftur til starfa, að rifta ráðningarsamningi sínum frá og með 1. mars 2009. Þar með hafi hann fyrirgert rétti sínum til launa og orlofs frá því tímamarki.
Samkvæmt íslenskum vinnurétti eigi starfsmaður aldrei rétt á að skilyrða forsendur vinnuréttarsambands við að aðgerðir vinnuveitanda verði miðaðar við einhver tiltekin tímamörk nema um annað hafi verið sérstaklega samið. Stefndi hafnar því að stefnandi geti einhliða ákveðið, svo bindandi sé, að gefa stefnda tæplega tveggja sólarhringa frest til að svara skeyti sínu, dagsettu 10. febrúar, og að þar sem stefnanda hafi borist svar með ábyrgðarbréfi stefnanda hinn 13. febrúar en ekki hinn 12., eins og óskað hafi verið, geti stefnandi með réttu litið svo á að ráðningarsamningi við hann hafi verið rift. Augljóslega sé um allt of stuttan svarfrest að ræða auk þess sem stefnandi sé í engri aðstöðu til að setja stefnanda slíka afarkosti um ráðningarsamband aðila. Þessi krafa stefnanda sé marklaus enda í fullkomnu ósamræmi við annars vegar efni uppsagnar og uppsagnarfrest aðila og hins vegar meginreglur íslensks vinnuréttar um rétt vinnuveitanda til að afþakka vinnuframlag að fullu eða öllu leyti á uppsagnarfresti.
Með þeim athöfnum sem stefnandi hafi viðhaft um margra vikna skeið fram að uppsögn hans hjá stefnda, og lýst hefur verið hér að ofan, sé ljóst að hann hafi gróflega brotið gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sinni gagnvart stefnda. Telja verði að umrædd brot stefnanda hafi verið það gróf að þau hafi ein og sér réttlætt riftun á ráðningarsambandi aðila. Fráleitt sé að telja að stefnandi eigi rétt til launa á uppsagnarfresti eftir þau grófu brot á ráðningarsamningi sem hann hafi gerst sekur um.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda, telur stefndi að lækka eigi dómkröfur stefnanda að mati dómsins með vísan til þeirra málsástæðna sem að ofan greini. Þá skuli kröfur hans lækka að því marki sem hann hafi haft tekjur annars staðar á uppsagnarfresti. Skorað er á stefnanda að leggja fram staðgreiðsluyfirlit frá Ríkisskattstjóra vegna sama tímabils og gerð sé launakrafa um.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar og samningaréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur aðila er sprottinn af starfslokum stefnanda hjá stefnda. Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann hafi með ólögmætum hætti verið rekinn úr starfi sínu hinn 5. febrúar 2009. Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi sjálfur sagt starfi sínu lausu hinn 2. janúar 2009 með umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti og hafnar því að hann, þ.e. stefndi, hafi rift vinnusamningi aðila. Hafi stefnandi því borið að inna vinnuframlag af hendi á uppsagnartímanum, ef stefndi óskað eftir því. Einnig byggir stefndi á því að stefnandi hafi brotið gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sinni og að þau brot ein og sér réttlæti riftun á ráðningarsamningi aðila.
Eins og að framan hefur verið lýst liggur fyrir að stefnandi sagði upp starfi sínu hjá stefnda hinn 2. janúar 2009. Þá liggur fyrir að stefnandi var kallaður á fund stefnda hinn 5. febrúar 2009, þar sem stefndi taldi sig hafa undir höndum gögn, sem gæfu til kynna að stefnandi, ásamt öðrum starfsmönnum stefnda, hefði gerst sekur um trúnaðarbrot. En stefnandi hefði átt þátt í því að koma undan viðkvæmum atvinnuleyndarmálum og trúnaðarupplýsingum úr fyrirtæki stefnda og að stefnandi, ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum stefnda, hygðist stofna fyrirtæki í samkeppni við stefnda. Aðila greinir á um hvað nákvæmlega fór fram á þessum fundi, en þó liggur fyrir að stefnanda var gert að hætta störfum hjá stefnda. Byggir stefndi á því, að stefnanda hafi aðeins verið gert að mæta ekki til vinnu meðan stefndi kannaði hvort meintar ávirðingar ættu við rök að styðjast. Stefnandi kveðst hins vegar hafa litið svo á að á þessum fundi hafi stefndi rift ráðningarsamningi aðila. Stefndi taldi brot stefnanda þess eðlis að það gæfi tilefni til að óska eftir því við sýslumanninn í Reykjavík, að hann setti lögbann á það, að stefnandi hæfi störf hjá umræddu fyrirtæki og að hann hefði samband við viðskiptamenn stefnda. Beiðni þessi er dagsett 10. febrúar 2009 og var lögbannsbeiðnin tekin fyrir hinn 13. febrúar 2009. Sýslumaður hafnaði síðan kröfu stefnda um lögbann við ætlaðri starfsemi stefnanda, sem byggðist á þeim gögnum sem stefndi hafði undir höndum, hinn 23. febrúar 2009. Þá liggur fyrir að stefnandi sendi sama dag og lögbanns var krafist símskeyti til stefnda, þar sem hann lýsti því yfir að um væri að ræða ólögmæta brottvísun hans úr starfi, en lýsti sig þó reiðubúinn til að vinna út uppsagnarfrestinn. Var stefnda gefinn frestur til hádegis 12. febrúar 2009 til að bregðast við skeytinu.
Óumdeilt er að stefndi svaraði ekki stefnanda innan þess frests sem veittur var í fyrrgreindu símskeyti hans, en sendi honum bréf, dagsett 12. febrúar, þar sem hann áskildi sér rétt til þess að kalla stefnanda aftur til starfa þegar aðstæður leyfðu.
Kemur þá fyrst til skoðunar hvort stefnandi hafi mátt líta svo á, eftir áðurgreindan fund aðila hinn 5. febrúar 2009, að um fyrirvaralausa uppsögn hefði verið að ræða. Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að honum hafi verið sagt upp störfum og er vinnuveitanda heimilt að ákveða að starfsmaður skuli ekki skila vinnuframlagi í uppsagnarfresti. Stefndi kveðst hafa óskað eftir því við stefnanda, á fyrrgreindum fundi aðila, þar sem bornar voru á stefnanda áðurnefndar ávirðingar, að hann kæmi ekki til vinnu meðan hann kannaði meint brot stefnanda á vinnusamningi aðila. Greinir aðila hins vegar á um þetta atriði, og voru engin vitni að samtali þeirra. Verður að telja, eins og atvikum var háttað, að stefnda hafi verið rétt að gera stefnanda það ljóst með skriflegum hætti, ef hann hygðist, í framhaldi af þeim sökum sem hann bar á stefnanda, fá stefnanda aftur til vinnu síðar. Þegar það er virt sem og atburðarrásin næstu daga, en í framhaldinu krafðist stefndi lögbanns á notkun stefnanda á upplýsingum um viðskiptamenn sem og fyrirhugaða starfsemi stefnanda, verður ekki talin trúverðug sú fullyrðing stefnda, að hann hafi, á þeim tímapunkti, síðar ætlað að fá stefnanda til áframhaldandi starfa hjá fyrirtækinu. Er og ekkert það fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu hans. Í ljósi þess og eftir að stefnandi sendi stefnda símskeyti hinn 10. febrúar 2009, þar sem hann óskaði eftir viðbrögðum stefnda fyrir hádegi 12. febrúar 2009, verður talið að stefnda hefði verið rétt að bregðast við því skeyti innan þess frests, sem þar var gefinn. Þar sem stefndi gerði það ekki og með vísan til alls framanritaðs verður fallist á það með stefnanda að honum hafi verið rétt að líta svo á, að honum hafi verið sagt upp störfum hjá stefnda hinn 5. febrúar 2009. Eins og málatilbúnaði stefnda er háttað, en hann byggir aðallega á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti, með því að verða ekki við áskorun sinni um að mæta til vinnu, er sú málsástæða hans, sem fram kemur í greinargerð hans, að brot stefnanda réttlæti riftun á ráðningarsambandi aðila, í andstöðu við þann málatilbúnað, en er fremur til þess fallinn að styðja þá fullyrðingu stefnanda að stefndi hafi í raun rift samningi aðila á áðurnefndum fundi. Þar sem stefndi heldur því hins vegar fram, að hann hafi ekki rift ráðningarsamningnum kemur ekki til skoðunar í máli þessu hvort honum hafi verið það heimilt.
Samkvæmt framansögðu ber því að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu launa í uppsagnarfresti, eins og krafist er, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu, og ekkert liggur fyrir um það að stefnandi hafi notið launa annars staðar í uppsagnarfresti, sem koma eigi til frádráttar launagreiðslum hans í uppsagnarfresti. Dráttarvextir reiknast eins og krafist er í stefnu, en upphafsdegi dráttarvaxtakröfu var ekki mótmælt sérstaklega.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur, og hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, EJS ehf., greiði stefnanda, Guðna Þór Haukssyni, 1.322.040 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. febrúar 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.