Hæstiréttur íslands
Mál nr. 692/2015
Lykilorð
- Akstur sviptur ökurétti
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Skilorðsrof
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða en refsing hans milduð. Ekki er gerð krafa um ökuréttarsviptingu ákærða.
Ákærði krefst þess aðallega að honum verði ekki gerð refsing í málinu, en til vara að refsing hans verði milduð.
Ákærði hefur játað að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana-og fíkniefna 16. september 2013 eins og nánar er getið í ákæru. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu hans.
Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun 28. september 2011 meðal annars fyrir að aka ölvaður og sviptur ökurétti og var honum gerð sekt og hann sviptur ökurétti í 18 mánuði. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2013 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot gegn 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, fíkniefnabrot og fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti og fleiri umferðarlagabrot. Jafnframt var hann sviptur ökurétti í þrjú ár frá 7. júlí 2013. Voru brot hans framin í nóvember 2011 og á árinu 2012. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. október 2013 var hann dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, og sviptur ökurétti í fimm ár frá 7. júlí 2016 fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot og fyrir að aka í fimm skipti undir áhrifum fíkniefna og jafnframt í eitt þeirra fyrir akstur sviptur ökurétti. Voru brot hans framin á tímabilinu 19. apríl til 26. maí 2013 eða eftir uppkvaðningu dómsins frá 5. febrúar 2013, en honum var þrátt fyrir það dæmdur hegningarauki, sbr. hins vegar dóm Hæstaréttar 30. október 2008 í máli nr. 92/2008.
Með brotum þeim sem hér eru til meðferðar rauf ákærði skilorð dómsins frá 5. febrúar 2013 og verður nú dæmd upp sú skilorðsbundna refsing er hann hlaut samkvæmt þeim dómi eftir 60. gr. almennra hegningarlaga. Þá eru brot hans nú framin fyrir uppsögu dómsins frá 22. október 2013 og verður því jafnframt að ákveða refsingu sem samsvari þeirri þyngingu refsingar sem kynni að hafa orðið ef brotið hefði verið dæmt með þeim dómi, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Í ljósi kröfugerðar ákæruvaldsins verður refsing ákærða ákveðin með hliðsjón af framansögðu og 77. gr. almennra hegningarlaga, fangelsi í sex mánuði en fullnustu refsingar þriggja mánaða hennar verður frestað eins og nánar greinir í dómsorði.
Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds og samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, Jóhann Gunnlaugsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, sem alls er 617.166 krónur, en þar af eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 515.220 krónur. Sakarkostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2015.
Mál þetta, sem þingfest var 12. maí sl. og dómtekið 9. september sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 7. apríl 2015, á hendur Jóhanni Gunnlaugssyni, kt. [...], Skógarbraut 930, 230 Reykjanesbæ, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 16. september 2013 ekið bifreiðinni SH-399, við Garðskagaveg í Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 3,5 ng/ml).
Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.
Við þingfestingu málsins mætti verjandi ákærða en ákærði ekki. Var málinu því frestað til 26. maí sl. til að fá afstöðu ákærða. Mætti ákærði þá ásamt verjanda sínum og kvaðst vilja lengri frest þar sem hann hefði ekki getað kynnt sér gögn málsins með verjanda sínum en óskaði jafnframt eftir því að ákæruvaldið legði fram gögn varðandi sakavottorð ákærða. Var málinu þá frestað til 12. júní í því skyni. Var því þinghaldi flýtt til 9. júní sl. Krafðist verjandi ákærða þá þess að dómarinn viki sæti með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 og vísaði til óvildar dómara í garð verjanda. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði þann 10. júní sl. Var sá úrskurður ekki kærður til Hæstaréttar Íslands. Var aftur fyrirtaka þann 9. september sl. og kom ákærði þá fyrir dóminn og játaði greiðlega sök. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Ákærði krafðist vægustu refsingar. Er játning ákærða í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín en þau eru í ákæru rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Samkvæmt sakavottorði, sem liggur frammi í málinu, gekkst ákærði undir sátt þann 3. júlí 2009 fyrir brot gegn 48. gr., 20. og 37. gr. umferðarlaga og var gert að greiða 175.000 krónur í sekt til ríkissjóðs auk þess að vera sviptur ökurétti í fjóra mánuði. 12. október 2009 var ákærði dæmdur til að greiða 475.000 krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir brot gegn 1., sbr. 3., mgr. 37. gr. og 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Var ákærði þá sviptur ökurétti í níu mánuði frá 2. desember 2009. 28. september 2011 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun og var gert að greiða 300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir brot gegn 1. mgr. 64. gr., 2. mgr. 35. gr., 1., sbr. 4., gr., 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Var ákærði sviptur ökurétti í átján mánuði frá 20. febrúar 2011. Þann 5. febrúar 2013 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr., 1., sbr. 3., mgr. 37. gr., 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. og 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga, 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga og 2., sbr. 5. og 6., gr. laga um ávana- og fíkniefni. Var ákærði einnig sviptur ökurétti í þrjú ár frá 7. júlí 2013. 22. október 2013 var ákærði dæmdur í sextíu daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 2., sbr. 4., mgr. 37. gr., 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga og 2., sbr. 5. og 6., gr. laga um ávana- og fíkniefni. Var ákærði sviptur ökurétti í fimm ár frá 7. júlí 2016. Var síðastnefndi dómurinn hegningarauki.
Brot það sem ákærði er sakfelldur fyrir nú framdi hann 16. september 2013 eða áður en síðastnefndi dómurinn gekk. Verður ákærða því gerð refsing skv. reglum 78., sbr. 77., gr. almennra hegningarlaga. Var dómur sem gekk þann 5. febrúar 2013 birtur ákærða 7. júlí 2013. Ákærði kveður brot samkvæmt dómi frá 5. febrúar 2013 ekki hafa áhrif við ákvörðun refsingar fyrr en eftir 7. júlí 2013, þar sem dómurinn hafi fyrst verið birtur ákærða þá. Þá telur ákærði dóm frá 5. febrúar 2013 ekki hafa ítrekunaráhrif með vísan til 61. gr. almennra hegningarlaga þar sem dómurinn sé skilorðsbundinn. Tekur dómari ekki undir þau sjónarmið ákærða þar sem sakaferill ákærða og dómaframkvæmd ráða mestu um ákvörðun refsingar þegar um ölvunarakstur og akstur sviptur ökuréttindum er að ræða. Við ákvörðun refsingar nú verður að taka tillit til þess að ákærða var fyrst gerð refsing fyrir að aka ölvaður og sviptur ökuréttindum 12. október 2009. Aftur var ákærða gerð refsing fyrir að aka ölvaður og sviptur ökuréttindum í september 2011. Í þriðja sinn var ákærða gerð refsing fyrir að aka ölvaður og sviptur ökuréttindum í febrúar 2013. Var sá dómur birtur ákærða 7. júlí 2013 eins og áður segir. Með dómi þann 22. október 2013 var ákærða gerð refsing fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna í fimm skipti og að aka sviptur ökuréttindum í eitt skipti. Áttu þau brot sér stað frá 19. apríl til 26. maí 2013. Þar sem fyrri dómur var ekki birtur fyrr en 7. júlí 2013 gerði dómarinn ákærða hegningarauka við ákvörðun refsingar vegna umferðarlagabrotanna í dóminum 22. október 2013. Við mat á refsingu nú verður refsing ákveðin eins og hún hefði verið dæmd með þeim dómi fyrir utan að ákærði braut nú af sér eftir að honum hafði verið birtur dómur frá 5. febrúar 2013. Þá ber að horfa til þess að með broti sínu 16. september 2013 rauf ákærði skilorð dómsins frá 5. febrúar 2013. Eftir 60. gr. almennra hegningarlaga verður refsing samkvæmt þeim dómi því tekin upp og dæmd með þeirri refsingu sem ákærða verður nú gerð. Jafnframt verður refsing ákærða ákveðin sem hegningarauki við dóm Héraðsdóms Reykjaness 22. október 2013 eftir reglum 78. gr., sbr. 77. gr., almennra hegningarlaga.
Með hliðsjón af sakaferli ákærða, eins og hann er rakinn hér að framan, og dómaframkvæmd er refsing hans ákveðin fangelsi í sjö mánuði en eins og niðurstöðu dómara í dómum frá 5. febrúar og 22. október 2013 er háttað verður að skilorðsbinda fjóra mánuði refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga frá birtingu dóms þessa.
Þá ber að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti 76.841 króna, auk þóknunar skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 143.220 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Jóhann Gunnlaugsson, sæti fangelsi í sjö mánuði en fresta skal fullnustu fjögurra mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 220.061 krónu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 143.220 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.