Hæstiréttur íslands

Mál nr. 619/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skilorð
  • Dráttur á máli
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 16. janúar 2014.

Nr. 619/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.

Auður Björg Jónsdóttir hdl.)

(Björgvin Jónsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skilorð. Dráttur á máli. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa að heimili sínu haft samræði við A og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Var háttsemin talin varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í 2 ár, en rétt þótti að fresta fullnustu 21 mánaðar af refsingunni skilorðsbundið í 3 ár, m.a. með vísan til þess mikla dráttar sem orðið hefði á meðferð málsins. Þá var X gert að greiða A 800.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. ágúst 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2009 til 13. ágúst 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu, en með vöxtum eins og að framan greinir.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni og tildrög þess bréfs sem ákærði ritaði í viðurvist bróður brotaþola. Ákæruvaldið heldur því fram að bréfið hafi sönnunargildi, en af hálfu ákærða er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að því verði hafnað sem sönnunargagni í málinu.

Ekki er fyrir að fara í íslenskum lögum reglu sem útilokar að stuðst verði við gagn, sem kann að hafa verið aflað án þess að fylgt hafi verið ákvæðum laga um öflun sönnunargagna í sakamálum. Þegar litið er til aðdraganda ritunar bréfsins, sem rakinn er í héraðsdómi, verður það þó ekki talið hafa sérstakt sönnunargildi fyrir sekt ákærða, sbr. 137. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Á hinn bóginn eru ekki komin fram atriði í málinu sem leiða til þess að vefengja skuli mat fjölskipaðs héraðsdóms á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola. Samkvæmt því og þeim atriðum öðrum sem rakin eru í niðurstöðu héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar sem verður ákveðin fangelsi í tvö ár, en með vísan til þeirra atriða sem rakin eru í héraðsdómi þykir mega binda hluta refsingarinnar almennu skilorði eins og segir í dómsorði.

Að því gættu að takmarkaðra gagna nýtur um miska brotaþola verður niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð einkaréttarkröfu staðfest með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr., sbr. 4. mgr. 220. gr., laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um þóknun skipaðs verjanda ákærða vegna starfa á rannsóknarstigi, útlagðan kostnað hans og málsvarnarlaun verða staðfest. Í málinu liggja ekki fyrir gögn til að styðjast við um þóknun réttargæslumanns brotaþola vegna meðferðar málsins hjá lögreglu og í héraði, sem í hinum áfrýjaða dómi var ákveðin hærri en málsvarnarlaun verjanda. Verður þóknun þessi ákveðin eins og í dómsorði greinir, en staðfest ákvæði um greiðslu útlagðs kostnaðar réttargæslumannsins. Um fjárhæð sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti fer eins og segir í dómsorði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár, en fresta skal fullnustu 21 mánaðar af refsingunni og sá hluti hennar niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2009 til 13. ágúst 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði, 793.378 krónur, þar með talda þóknun verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi, útlagðan kostnað hans og málsvarnarlaun, samtals 465.364 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur, ásamt útlögðum kostnaði hennar, 77.014 krónum.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 606.958 krónur, þar með talin málsvarnarlaun áðurgreinds verjanda síns, 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. júlí 2013.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 27. júní sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 13. mars sl. á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...], [...],

„fyrir nauðgun, með því að hafa, aðfaranótt eða að morgni sunnudagsins 22. nóvember 2009, að [...], [...], haft samræði við A, kennitala [...], en ákærði notfærði sér að A gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Telst brot ákærða varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 21. nóvember 2009 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.“

Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað en að öðrum kosti verði hann einungis dæmdur til að þola vægustu viðurlög vegna þess brots sem hann kann að verða sakfelldur fyrir. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði eftir mati dómsins.

Málavextir.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu mætti A, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöð þann 5. júlí 2011 í þeim tilgangi að leggja fram kæru á hendur ákærða. Er haft eftir henni að hún hafi dáið áfengisdauða heima hjá ákærða og verið lögð þar til. Hún hafi vaknað við það að ákærði hafi verið að hafa við hana mök. Hafi þetta gerst á heimili ákærða fyrir um einu og hálfu ári. Haft hafi verið samband við lögmann sem tekið hafi að sér réttargæslu fyrir brotaþola og ákveðið að skýrsla yrði tekin af henni daginn eftir.  Í þeirri skýrslu kvaðst brotaþoli hafa farið í bílskúrspartí til ákærða að [...] í [...] í nóvember 2009, en tilefnið hafi verið 19 ára afmæli ákærða. Í partíinu hafi hún drepist áfengisdauða og verið lögð til í eitt herbergja hússins með ælufötu. Hún hafi síðan vaknað við það að ákærði hafi verið að eiga við hana kynmök inni í herberginu. Hann hafi hætt þeim einhverra hluta vegna þegar hún hafi vaknað, en hún hafi verið nokkra stund að átta sig á því hver væri að hafa kynmök við hana, enda hafi hún enn verið talsvert drukkin. Henni hafi þótt skrýtið að sími hennar hafi verið stilltur á „silent“, en það geri hún aldrei. Kvað hún fjölda fólks hafa reynt að hringja í hana á þessum tíma. Hún kvað ákærða hafa boðist til að aka sér heim og hafi hún þegið far hjá honum. Á leiðinni hafi hún sagt ákærða að hún myndi drepa hann ef hann segði frá þessu. Brotaþoli kvaðst hafa hágrátið þegar heim var komið og hefði móðir hennar veitt því athygli. Hún hafi ekki sagt henni hvað hefði gerst heldur logið einhverri sögu að henni. Seinna um daginn hafi hún hitt B, vinkonu sína og hafi þær farið á rúntinn. Hún hafi sagt B frá því sem gerðist og sagst hata ákærða fyrir að hafa riðið henni þegar hún hafi verið drykkjudauð. Brotaþoli kvaðst ekki vita hvort ákærði hafi fengið sáðlát og þá kvaðst hún fyrr um kvöldið hafa drukkið hálfan vodkapela og eina hvítvínsflösku. Hún kvaðst ekki hafa neytt annarra vímuefna eða lyfja. Hún kvaðst hafa verið berleggjuð, í brúnum silkikjól, svartri hnepptri peysu og í nærfötum, brjóstahaldara og g-streng þegar hún hafi komið í partíið. Hún kvaðst hafa fundið nærbuxur sínar á gólfinu þegar hún vaknaði. Hún kvaðst ekki vita hvernig ákærði hafi verið klæddur þegar hann hafi verið að eiga kynmök við hana.

Brotaþoli kvað sér hafa liðið mjög illa þegar þetta gerðist. Hún hafi verið full sjálfsásökunar og fundið fyrir skammartilfinningu. Hún hefði glímt við þunglyndi, lífslöngun hennar hefði horfið um tíma, hún hefði drukkið mjög illa, fengið martraðir og oft vaknað í svitakófi. Hún kvaðst hafa leitað ráðgjafar hjá Stígamótum og í kjölfarið ákveðið að leggja fram kæru.

   Brotaþoli  skýrði frá því að nokkrum dögum fyrir skýrslugjöfina hefði hún sagt bróður sínum, C, frá þessu, en hann hafi orðið nokkuð uppveðraður við frásögn hennar. Kvað hún C hafa farið heim til ákærða og rætt við hann og föður hans, en hann sé [...] í [...]. Hann hafi komið til baka með afsökunarbréf sem ákærði hafi skrifað henni. Sagði hún bréfið skrifað inni í bíl og hafi faðir ákærða verið viðstaddur þegar hann hafi skrifað það. C hafi tekið mynd af ákærða skrifa bréfið. Þá hafi komið fram hjá C að ákærði hafi viðurkennt brot sitt fyrir föður sínum.

Umrætt bréf er meðal gagna málsins og er það svohljóðandi:

„A,

Ég vil byrja á því að biðja þig afsökunar. Ég tók vitlaust á þessu máli þegar þú sendir mér mailið og líður mjög illa að hafa komið að þessu svona. Ég sé mjög mikið eftir þessu og ef þú heldur að þú getið einhverntímann fyrirgefið mér þá vonandi fer þér að líða betur. Ég ætla að leita mér hjálpar með aðstoð pabba og C er veit ég að hjálpa þér og ég vona að þetta muni einhverntímann lagast. Fyrirgefðu. Ég hefði aldrei átt að koma inn í herbergið sem þú varst í og hvað þá að gera það sem ég gerði. Þetta var rangt og ég játa það. Fyrirgefðu mér.

X.“

Einnig eru meðal gagna málsins samskipti brotaþola og ákærða á Facebook frá 17. og 20. mars 2011 og er færsla brotaþola svohljóðandi:

„Jæja vinur.

Hvað gerir vinur þegar „vinkona“ manns deyr áfengisdauða??

Hugsaðu svo úti hvað þú gerðir??

hver er munurinn á því?

Fyrir 1 og hálfu ½ ári var stelpa í afmæli .... og gerði þann skandal að deyja áfengisdauða. Vinkonur hennar ætluðu að koma henni heim en góður vinur okkar var svo góður og tók hana inni herbergi til sín. Með það í huga að láta hana sofa þetta úr sér ... eða er það ekki????

Það var ball þetta kvöld og stelpurnar fara allar á ball og vinur okkar fór með þeim. Svo var ballið búið. Og stelpan ennþá dauð inni herbergi og vinurinn sem var svo góður . Kemur heim og AUÐVITAÐ fer hann i annað herbergi þar sem stelpan sem var dauð var i rúminu hans !

Nei því miður er sumt fólk siðlaust . Hann fer inni herbergi til stelpunnar (sem fór sjalfur með inni herbergi stein dauða fyrr um kvöldið). Lagðist við hliðin á henni og sofnaði .. Nei hann byrjar að njóta ásta með henni ... Eða meira svona að ríða henni án þess að hún sé meðvituð um hvað er að gerast . Hún vaknar .. veit ekki hver er oná sér né hvað sé í gangi ....

þetta gerðist fyrir einu og ½ ári og það kemur ekki dagur sem þessi stelpa hugsar ekki um þetta . Eða vaknar í svitabaði eftir að hafa fengið martröð um þetta atvik .

ótrúlegt hvernig „vinur“ manns getur skemmt líf hans á einni nóttu.

Ps. Ef þú hefðir riðið mér undir réttum kringumstæðum þá myndu allir vita það . Og þú veist það sjalfur “.

Færsla ákærða er svohljóðandi:

„Sæl A

Ég veit að þetta er seint svar, en ég er ekki búinn að hafa mig í það að svara þessu fyrr en nú.

Fyrsta hugsunin eftir að ég las þetta var wtf útaf því að hvað mig varðar þá orsakaðist þetta ekki svona eins og þú lýsir þessu, hvað mig varðar. Ég ætla ekkert að fara rekja minninguna frá einu og hálfu ári síðan nákvæmlega en það voru aldrei, aldrei áform mín að ríða þér þetta kvöld, hvað þá þegar ég var kominn heim eftir þetta ball.

En þá ætla ég að spyrja afhverju núna að segja þetta, afhverju ertu ekki löngu búin að segja mér þetta fyrst að þér er búið að líða svona illa eftir þetta? Það sem þú ert að segja mér og öðrum núna er að ég sé einhver nauðgari sem ég er svo sannarlega ekki og þeir sem þekkja mig vita það alveg. Þú verður bara að átta þig á því að ef þú ætlar að halda þessu fram þá ertu búin að eyðileggja svo ótrúlega margt í lífi mínu og ég get bara ekki sætt mig við það.

En það er rétt hjá þér, það vissi enginn af þessu útaf því að þú sagðir við mig daginn eftir að segja þetta ekki við neinn og ég stóð við það, ekki útaf því að mér fannst ég hafa gert eitthvað rangt af mér, heldur bara útaf því að við vorum vinir á þessum tíma og ég vildi ekki eyðileggja það með einhverju svona fylleríisrugli.“

Brotaþoli svarar með þessum hætti:

uuuu... það að „ríða“ meðvitundarlausri manneskju er ekkert annað en nauðgun, og ef þér finnst eitthvað erfitt að feisa það hefðiru átt að hugsa útí það áður en þú ákvaðst að gera það.“

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 13. júlí 2011 og kvaðst ekki muna eftir því sem gerðist umrætt sinn. Hann kvaðst hafa sofnað í herbergi sínu eftir að hafa verið á dansleik og síðan rankað við sér um morguninn og þá verið í nærbuxum einum fata. Hann kvað brotaþola hafa verið annað hvort frammi á baði eða á ganginum en var ekki viss um það, en hún hafi verið fullklædd. Hún hafi beðið sig að skutla sér heim og kvaðst hann hafa klætt sig en haft á tilfinningunni að eitthvað hefði gerst, en hann hafði ekki trú á því. Í bílnum hafi hún spurt hvað þau hafi verið að gera og hann svarað því hann hafi ekki vitað það en hún hafi virst á „bömmer“ yfir einhverju. Þegar þau hafi verið komin heim til brotaþola hafi hún beðið hann að lofa því að segja þetta ekki við neinn. Ákærði kvað þau brotaþola ekki hafa haft samskipti vegna þessa máls fyrr en í Facebook samskiptum í mars 2011. Hann kvað það í fyrsta skipti sem minnst hafi verið á það við hann að eitthvað miður gott hefði gerst í herbergi hans umrætt sinn. Ákærði taldi að það sem hann hefði átt að þegja yfir hefði verið það að hann og brotaþoli hafi vaknað saman inni í herbergi ákærða og hann hafi síðan skutlað henni heim.

Ákærði kvað að skömmu fyrir skýrslutökuna hafi bróðir brotaþola, C að nafni, haft samband við hann og viljað tala við sig. Hann hafi sagt að hefði þetta gerst fyrir einhverjum árum þá væri ákærði dauður. Hann hafi verið í undirheimunum í Reykjavík, en hann væri betri maður í dag og ætlaði ekki að snerta hann. Þeir hafi farið í bifreið C og þá hafi faðir ákærða komið inn í bifreiðina. Ákærði kvaðst hafa sagt föður sínum um hvað málið snerist, rætt hafi verið um fyrirgefninguna, hve mikilvæg hún væri og að þau ætli ekki að kæra. C hafi verið að fara með brotaþola í Stígamót og hafi hann viljað að faðir ákærða hjálpaði honum. Faðir ákærða hafi þá beðið C að skutla sér heim því hann gæti ekki setið lengur í bílnum. C hafi skutlað föður ákærða heim og síðan ætlast til þess af ákærða að hann skrifaði fyrirgefningarbréf til brotaþola og kvaðst ákærði þá hafa skrifað fyrri hluta bréfsins og afhent C. Honum hafi ekki fundist það nógu gott og kvaðst ákærði þá hafa verið í þeirri stöðu að hann gæti ekki annað en skrifað seinni hluta bréfsins. Ákærði kvaðst hafa verið í þeirri stöðu að hann yrði að skrifa bréfið sökum þess að C hafi sagt honum að gera það. Aðspurður hvort brotaþoli væri að segja satt svaraði ákærði því til að ásökun hennar kæmi flatt upp á hann. Hann kvaðst ekki geta sagt að hún væri að ljúga en heldur ekki að hún væri að segja satt. Hann kvaðst þó ekki játa að hafa haft samfarir við brotaþola.

B, vinkona brotaþola, var yfirheyrð hjá lögreglu þann 6. júlí 2011. Hún kvað brotaþola hafa tjáð sér kvöldið eftir umræddan atburð að hún hefði vaknað við það að ákærði hefði verið ofan á henni. Brotaþoli hafi sagt henni seinna að ákærði hefði verið inni í henni og kvaðst B hafa skilið hana þannig að ákærði hefði haft samfarir við hana um leggöng.

D, sem kvaðst vera vinkona ákærða og brotaþola, var yfirheyrð hjá lögreglu þann 20. desember 2011. Hún kvaðst ekki hafa vitað af ætluðu kynferðisbroti ákærða gagnvart brotaþola fyrr en í júlímánuði sama ár, en þá hafi brotaþoli sagt henni að hún hefði vaknað og hafi ákærði þá verið uppi í rúmi með henni. Hún hafi ekki lýst því nánar hvað gerðist.

E, vinur ákærða var  yfirheyrður hjá lögreglu sama dag og kvaðst hafa vitað af því tveimur dögum eftir afmælið að ákærði og brotaþoli hefðu sofið saman, en ákærði hefði sagt honum og F frá því að þegar hann hafi komið heim af ballinu hafi brotaþoli vaknað, þau farið að spjalla saman og kyssast og síðan hafi þau haft samfarir með vilja beggja.

Lögreglan ræddi við G þann 28. desember 2011, en hann kvaðst vera einn af bestu vinum ákærða en einnig frændi brotaþola. Eftir að kæran hafi borist á hendur ákærða hafi ákærði lýst því fyrir honum hvað hefði gerst og kvað hann brotaþola hafa vaknað þegar hann hafi komið heim og þau farið að tala saman. Það hafi leitt til þess að þau hafi farið að kyssast og endað með því að þau hafi haft samfarir og hafi þær verið með samþykki beggja. Brotaþoli hafi hins vegar lýst því að hún hafi vaknað við að ákærði hafi verið að hafa við hana samfarir og hefðu þær ekki verið með hennar samþykki.

Sama dag ræddi lögreglan við H, en hann kvað ákærða vera besta vin sinn en brotaþoli væri góð vinkona hans. Hann kvað ákærða hafa sagt sér um hálfum mánuði eftir afmælisveisluna að þegar hann hafi komið heim af ballinu hafi brotaþoli verið í rúminu hans og hafi þau haft samfarir og hafi þær verið með samþykki beggja. Hann kvað brotaþola hafa tjáð sér að hún hafi vaknað um morguninn við það að ákærði hefði verið ofan á henni og það sem þarna gerðist hefði ekki verið með hennar vilja. Hafi hún sagt sér þetta eftir að hún hafi verið búin að leggja fram kæru á hendur ákærða.

Sama dag ræddi lögreglan við I, en hún kvaðst vera vinur ákærða og brotaþola. Hún kvaðst ekki hafa frétt af ætluðu kynferðisbroti fyrr en um sumarið sama ár og þá frá D. Hún hafi rætt við brotaþola sem hafi sagt henni frá þessu en ekki lýst því nánar fyrir henni. Hún kvaðst ekkert hafa rætt atvikið við ákærða.

Þann 11. janúar 2012 ræddi lögreglan við J en hann kvað ákærða vera einn sinna bestu vina og þá væri hann jafnframt góður vinur brotaþola. Haft er eftir J að hann hafi frétt af þessu rúmu ári eftir atvikið og hafi ákærði þá sagt honum að brotaþoli væri að ásaka hann um að hafa brotið gegn henni. Ákærði hafi hins vegar ekki lýst því nánar hvað gerst hefði nema að hann hafi hafnað því alfarið að þarna hafi verið um brot að ræða og að það sem þarna gerðist hafi verið með vilja beggja. Hann kvaðst hafa rætt við brotaþola og hafi hún sagt að það sem gerðist hefði ekki verið með hennar vilja, án þess þó að lýsa því nánar hvað hefði gerst.

Lagt hefur verið fram í málinu afrit af skilaboðum sem brotaþoli segist hafa fengið á Facebook frá G 3. apríl 2011. Skilaboðin eru svohljóðandi:

„Flott hjá þér

Svo stór mistök hjá þér að byrja að drulla yfir mig.. þú getur alveg bókað það að þessi mynd sé að fara til allra ef þú ætlar svo lítið sem að REYNA að eyðileggja orðspor besta vinar míns með þessari helvítis þvælu.. til hamingju með að vera fokkin þroskaheft!

Lagt hefur verið fram í málinu vottorð Jóhanns Loftssonar sálfræðings dagsett 30. mars 2012. Þar kemur fram að brotaþoli hafi komið á skrifstofu sálfræðingsins þann 18. júlí 2011 en hún hafi sagst hafa kært nauðgun vikuna áður. Hún hafi sagt að eftir ætlaða nauðgun hafi hún misst áhuga á flestu í lífinu og hætt í skóla. Segir í vottorðinu að allt atferli  hennar sýni að hún hafi lent í verulegu áfalli þar sem þunglyndi og tilgangsleysi hafi gagntekið allt hennar líf. Greind brotaþola sé yfir meðallagi og hún geri sér vel grein fyrir því vitsmunalega hvernig líf hennar helgist nú af tilgangsleysi og markmiðaleysi. Brotaþoli hafi komið til sálfræðingsins í fjögur skipti áður en hún hafi farið til lengri dvalar erlendis. Meðferð á afleiðingum áfallsins hafi því ekki verið komin í gang og því hafi sálfræðingurinn ekki haft möguleika á að meta langtímaáhrifin sem brotaþoli sitji uppi með eða hversu mikla möguleika hún hafi til að vinna sig frá þessu áfalli.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið með afmælisboð heima hjá sér en hann hefði verið að halda upp á 19 ára afmælið sitt þann 22. nóvember 2009. Brotaþoli hafi verið meðal gesta og hafi mikið verið drukkið. Hafi verið ákveðið að fara á ball í [...] en þá hafi vinkona brotaþola komið og sagt að brotaþoli væri ekki að fara á ball og hvort hún mætti ekki leggja sig því hún væri orðin ofurölvi. Ákærða minnti að B og D hafi hjálpað brotaþola inn en hann hélt að hún hefði verið vakandi en mjög drukkin. Hann kvað brotaþola hafa verið færða inn í herbergi ákærða en hann mundi ekki eftir því að hafa fylgt þeim þangað inn. Svo hafi verið farið á ball en ákærði kvaðst ekkert muna eftir sér á ballinu nema að alltaf hafi verið að gefa honum afmælisgjafir, skot o.fl. Hann kvaðst ekki muna hverja hann hitti þar og það næsta sem hann kvaðst muna var þegar hann vaknaði heima hjá sér og þá hafi brotaþoli staðið við dyragættina og verið að biðja hann um að skutla sér  heim. Hann mundi ekki hvernig hann komst heim eða hvenær og þá mundi hann ekki hver var í rúminu hans eða hvort hann hafi farið beint upp í rúm. Hann kvaðst hafa sagt brotaþola að það væri auðvitað ekkert mál að skutla henni heim og hafi hann klætt sig og þau farið út í bíl og hann skutlað henni heim. Hún hafi þá beðið hann að segja ekki neinum frá þessu og kvaðst hann hafa jánkað því og þá hafi hún farið út úr bílnum. Ákærði kvaðst ekki vera viss um það hvað það hafi verið sem hann hafi ekki mátt segja frá, hann var ekki viss hvort hún hafi ekki viljað láta vita að hún hafi verið svona drukkin en hann kvaðst ekkert hafa pælt í því en honum hafi fundist þetta skrýtið. Hann kvað hafa liðið eitt og hálft ár þangað til brotaþoli sendi honum skilaboð á Facebook þar sem hún bar upp á hann sakir.  Hann kvað þetta hafa komið rosalega flatt upp á sig. Hann kvaðst hafa reynt að rifja kvöldið upp og fannst mjög skrýtið að henni skyldi líða svona og kvaðst hafa spurt vini sína hvort þeir hefðu einhverja hugmynd um þetta en enginn þeirra hafi virst vita af þessu. Ákærði kvaðst hafa reynt að svara brotaþola en þetta hafi verið í fyrsta skiptið sem hann kvaðst átta sig á því að eitthvað gæti hafa gerst á milli þeirra. Ákærði kannaðist ekki við að hafa sagt fjórum vinum sínum að þegar hann hafi komið heim af ballinu hafi brotaþoli vaknað, þau farið að spjalla saman og kyssast og síðan haft samfarir. Ákærði gat ekki skýrt þennan framburð vina sinna. Nánar aðspurður fyrir dómi neitaði ákærði því að hafa haft samfarir við brotaþola og rengdi hann framburð hennar að þessu leyti.

Ákærði kvað C bróður brotaþola hafa sumarið 2011 komið á vinnustað sinn og skipað sér að koma með sér. Hann hafi virst frekar æstur og kvaðst ákærði hafa verið gífurlega óttasleginn. Ákærði kvaðst hafa verið logandi hræddur við hann því hann hafi einhvern tíma sagt honum að þekkti mikið af fólki sem væri svona í verri kantinum í samfélaginu. Kvaðst ákærði hafa haldið að bróðir brotaþola ætlaði bara að stúta honum og kvaðst hann ekki hafa átt annan kost en þann að setjast inn í bílinn hans. Hann hafi ekið af stað og kvaðst ákærði hafa stífnað upp af hræðslu og hafi C sagt við hann að hefði þetta gerst fyrir 10 árum þá væri hann búinn að stúta honum. Hann hafi sagt ákærða vera heppinn að hann væri kominn á rétta braut og þá hafi hann upplýst að frændur hans í [...] stundi handrukkun og hann hefði alveg getað hringt í þá. Þeir hafi ekið heim til ákærða og þar hafi faðir ákærða verið fyrir utan og hafi C beðið hann um að koma upp í bíl. Hann hafi gert það og C ekið af stað. Ákærði kvað föður sinn ekki hafa vitað um hvað málið snerist en C hafi beðið ákærða um að segja föður hans af hverju þeir væru þarna. Kvaðst ákærði þá hafa farið að rifja afmælisveisluna upp en á meðan hafi C ekið svolítið glannalega. Ákærði kvaðst hafa sagt föður sínum að brotaþoli segði hann hafa haft samfarir við hana gegn vilja hennar. Ákærði kvað C hafa tekið þetta sem einhverja játningu og hafi þeir farið að tala  um ýmislegt varðandi fyrirgefningu og ekki ætti að verða neitt mál úr þessu. Ákærði taldi föður sinn hafa upplifað bílferðina sem frelsissviptingu, C hafi ekið um, hann hafi verið í símanum og sagt að hann væri með strákinn og pabba hans. Hann hafi ekki einbeitt sér að akstrinum, tekið hvassar beygjur en faðir ákærða sé mjög bílveikur og hafi honum orðið órótt í bílnum við allar þessar beygjur og hafi C þá ekið honum heim. Ákærði kvaðst ekki hafa gert tilraun til þess að fara út úr bílnum og hafi þeir þá keyrt upp á [...]. Þar hafi C sagt ákærða að nú ætti hann að skrifa fyrirgefningarbréf og fannst ákærða hann ekki vera í þeirri stöðu að neita því. Hann kvaðst hafa verið alveg stífur af hræðslu og hafi hann þá ritað fyrri hluta bréfsins út að greinaskilum og hafi hann endað á orðunum „þá vonandi fer þér að líða betur“. C hafi á meðan farið út úr bílnum og tekið myndir af ákærða þegar hann skrifaði bréfið. C hafi skoðað það sem ákærði hafi verið búinn að skrifa og sagt að þetta væri ekki nóg, það vanti játningu fyrir því sem hann hefði gert og þá hafi ákærði skrifað seinni hluta bréfsins og skrifað nafn sitt undir að kröfu C. Ákærði kvað C engu hafa hótað sér þarna en hann hafi verið ógnandi í líkamsbeitingu og raddtóni og kvaðst ákærði hafa verið viss um að ef hann gerði ekki það sem C vildi væri hann í slæmri stöðu.

Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið í afmæli hjá ákærða og hafi hún ætlað á ball. Hún kvaðst hafa þambað úr vodkapela, farið út í garð að æla og síðan ekki muna neitt fyrr en hún vaknaði um sexleytið um morguninn við það að ákærði var að ríða henni. Hún kvaðst ekki vita hvernig á því stóð að hún hafi verið í rúmi ákærða en kvað sér hafa verið sagt síðar að ákærði hefði ásamt öðrum borið hana dauða inn í rúm. Hún kvaðst hafa verið í öllum fötum nema nærbuxum. Hún kvaðst fyrst ekki vita hver hefði verið ofan á henni, það hafi verið svo dimmt og hún í einhverju geðveiku móki. Hún kvaðst hafa hlaupið inn á baðherbergi, sest þar á gólfið og titrað og titrað. Ákærði hafi bankað endalaust á hurðina og beðið hana að opna og þegar hún hafi opnað hafi hann staðið þarna og sagst ætlað að skutla henni heim. Hann hafi gert það og hún hafi ekki sagt neitt í bílnum nema að hún sagði við ákærða að hún myndi örugglega drepa hann ef hann segði einhverjum þetta. Hún mundi ekki hverju ákærði svaraði. Brotaþoli kvað það fáranlega mikla skömm að vakna við að einhver sé að ríða sér og það væri einn af mjög góðum vinum hennar á þessum tíma. Hún kvaðst aldrei hafa kysst hann eða sýnt honum að hún vildi að það væri eitthvað á milli þeirra. Hún kvaðst hafa verið hágrátandi og farið í bað og logið að mömmu sinni að hún hefði verið að rífast við fyrrverandi kærasta sinn. Hafi mamma hennar haldið í mjög langan tíma að þetta hafi verið ástæðan fyrir því að hún hafi verið grátandi þegar hún hafi komið heim. Brotaþoli kvaðst hafa sagt B vinkonu sinni að kvöldi sama dags að ákærði hefði nauðgað henni og kvað hún B hafa sagt móður sinni frá þessu sama kvöld. Hún kvaðst hafa sagt B að hún hefði vaknað við það að ákærði væri að ríða henni og hefði hún verið í öllum fötum nema nærbuxum. Brotaþoli taldi að ákærða hefði skutlað sér heim um 10 mínútum síðar og kvað hún ótrúlegt að hann skyldi ekki muna eftir atburðum og velti fyrir sér hvernig hann hefði getað ekið bíl. Þá kvað hún ákærða ekki hafa litið á hana í eitt og hálft ár og gert allt til þess að mæta henni ekki. Hún kvaðst ekki hafa sagt öðrum frá þessu fyrr en löngu seinna þegar hún var stödd í [...] með móðursystur sinni, K, sennilega um jólin 2010. Hún kvað ástæðu þess að hún sendi ákærða skilaboð á Facebook vera þá að hún hafi búin að vera reið í svo langan tíma, ákærði hafi ekki einu sinni heilsað henni á götu og hún hafi talið hann vita upp á hár hvað gerst hefði. Þau hafi átt sameiginlega vini og þegar hópurinn hafi hist hafi ákærði ekki látið sjá sig ef hann vissi að brotaþoli væri þar. Þá kvaðst hún vilja vita hvað ákærði hefði að segja um þetta. Brotaþoli kvað fjölskyldu sína hafa frétt af þessu máli eftir að hún hefði verið búin að gista fangageymslur í Reykjavík eftir mikla drykkju, en lögreglan hefði hringt í móður hennar og sagt að brotaþoli væri grátandi og talaði um að henni hefði verið nauðgað af vini sínum. Brotaþoli kvaðst ekki hafa vitað fyrr en eftir á að C bróðir hennar hefði hitt ákærða og föður hans, en hún kvaðst hafa verið búin að banna öllum sem henni tengdust að skipta sér af þessu. Hún kvað vini ákærða hafa sagt sér að ákærði hefði aldrei talað um þetta mál við þá.

L, móðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi vaknað umræddan morgun og hafi brotaþoli þá verið inni á baði og hafi hún skriðið upp í rúm til vitnisins. Hún kvaðst hafa spurt brotaþola af hverju hún hafi ekki komið á ballið og hafi hún þá sagt að það hafi verið eitthvert vesen á kærasta hennar og hafi hún verið grátandi.  Um einu og hálfu ári seinna hafi systir vitnisins hringt og sagt að hún hefði slæmar fréttir að færa, því brotaþola hefði verið nauðgað. Hafi brotaþoli verið stödd erlendis hjá systur vitnisins rúmu ári eftir atburðinn, brotnað niður og sagt henni frá þessu. Hafi hún sagt að ekki mætti segja mömmu og pabba hennar frá þessu. Brotaþoli hafi síðar hringt í systur vitnisins og sagt að hún mætti segja vitninu frá þessu. Áður en þetta gerðist hafi lögreglumaður hringt í vitnið og sagt að brotaþoli hefði verið mjög ölvuð á Hótel [...] og hafi hún talað um að henni hefði verið nauðgað. Vitnið kvaðst ekki hafa spurt hana út í þetta þá en hún kvaðst oft hafa lagst upp í rúm til brotaþola og spurt hana hvort hún hefði orðið fyrir kynferðisáreiti sem krakki. Hún kvaðst strax hafa merkt breytingar á brotaþola, hún hafi ekki viljað lifa, sofið illa og fengið martraðir. Vitnið kvað brotaþola síðan hafa sagt sér frá atvikinu, hún hafi verið áfengisdauð og vinkonur hennar eða ákærði hefðu boðið að fara með hana inn í herbergi. Þá hafi hún vaknað með ákærða ofan á sér og hann hafi síðan keyrt hana heim. Hún kvað hafa verið leitað til Stígamóta með brotaþola og hafi hún viljað kæra. Vitnið kvaðst hafa hitt föður ákærða í [...], hann hafi tekið utan um vitnið, tekið í hönd hennar og beðið hana innilega fyrirgefningar og sagt að hann vildi allt gera fyrir brotaþola og hann hafi ætlað að reyna að hjálpa drengnum sínum.

Vitnið I, vinkona brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi ekki farið á ballið, hún hafi verið orðin það drukkin að D hefði farið með hana inn í herbergi að sofa. Vitnið kvaðst fyrst hafa frétt af þessu máli þegar hún var kölluð í skýrslutöku. Hafi D sagt vitninu frá atvikum og síðar brotaþoli.

Vitnið B, vinkona brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að fyrst hafi verið farið í afmæli hjá I og þaðan í afmæli til ákærða og síðan hafi verið farið á ball í [...]. Hún kvað brotaþola hafa verið með í afmælinu hjá I, farið síðan í [...] á einhverja sýningu, síðan hafi hún komið aftur til I og þaðan hafi verið farið til ákærða. Brotaþoli hafi verið í góðu ástandi þar til hún hafi komið heim til ákærða en þar hafi hún orðið mjög full. Hún hafi verið búin að þamba vodka og hafi D og einhver annar farið með hana inn í rúm í kjallaranum heima hjá ákærða. Hún kvað brotaþola varla hafa getað staðið í lappirnar og taldi hana hafa dáið áfengisdauða þegar hún hafi verið sett inn í rúmið. Vitnið vissi ekki hvort ákærði fór með brotaþola inn í herbergið. Vitnið kvaðst hafa farið á ballið og þar kvaðst hún hafa hitt móður brotaþola. Hún kvaðst hafa reynt að hringja í brotaþola en hún hafi ekki svarað og kvaðst vitnið hafa sagt móður hennar að brotaþoli væri örugglega ennþá í partýinu því hún hafi ekki viljað segja henni að brotaþoli væri dauð. Hún kvaðst hafa hitt brotaþola daginn eftir, farið á rúntinn með henni og spurt hana af hverju hún hefði ekki komið. Hefði brotaþoli þá orðið ógeðslega reið og sagst bara hata hann og sagt að hún hefði vaknað með hann ofan á sér, hlaupið inn á bað og verið þar smá stund til að átta sig á því hvað væri í gangi og hver þetta væri. Hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að skilja brotaþola en að vissu marki taldi hún hana vera að tala um kynmök. Hún kvaðst ekki hafa spurt hana út í þetta en síðar hafi brotaþoli nefnt orðið nauðgun. Brotaþoli hafi síðan margoft talað um þetta við vitnið. Hún kvaðst oft hafa spurt brotaþola hvort hún vildi ekki segja mömmu sinni frá þessu en hún hafi aldrei viljað það. Þegar málið hafi verið komið upp á yfirborðið hafi hún ákveðið að kæra, sérstaklega eftir að hún hafi verið komin með bréf sem ákærði hafði skrifað. Vitnið kvað brotaþola og ákærða fyrir þetta hafa verið mjög góða vini en aldrei hafi verið neinn samdráttur milli þeirra. Hún kvað brotaþola hafa byrgt þetta rosalega mikið inni fyrst og hafi þetta komið fram í fáránlegri hegðun hjá henni, hún hafi orðið ógeðslega brjáluð en einnig geðveikt hress. 

Vitnið D, vinkona brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að þau hafi verið í afmæli hjá I um kvöldið og síðan hafi þau farið í afmæli til ákærða. Hafi brotaþoli verið orðin svolítið full og hafi vitnið ásamt einhverjum öðrum, B að hún hélt, farið með hana inn í herbergi og lagt hana í rúm, en ákærði hafði leyft það. Brotaþoli hafi verið búin að þamba svolítið áfengi og hafi hún verið mjög drukkin. Hún hafi lagst sjálf í rúmið og sofnað samstundis. Hún kvað brotaþola ekki hafa sagt sér hvað gerðist fyrr en eftir að vitnið hafði farið í skýrslutöku. Hún kvað þær hafa verið mjög mikið saman á þessum tíma en vitnið hafi flutt upp á land og þá hafi þær verið minna saman. Hún kvað ákærða og brotaþola hafa verið mjög góða vini en hún varð ekki vör við breytingar á því eftir atvikið.

Vitnið E, félagi ákærða, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið í afmælisveislunni og hafi þar verið hátt í hundrað manns. Hann kvaðst hafa séð brotaþola og hafi hún klárlega ekki verið á leiðinni á ball, hún hafi verið það drukkin. Vinkonur hennar hafi spurt ákærða hvort mætti ekki fara inn því hún væri ekki á leiðinni á ball og hafi hann játað því. Brotaþoli hafi ekki getað gengið inn og hafi vinahópur hennar þurft að halda við hana. Ákærði hafi einnig verið þarna og hélt vitnið að hann hefði séð brotaþola. Síðan hafi vitnið farið á ballið ásamt ákærða og fleirum. Ákærði hafi verið nokkuð hress en vitnið mundi ekki ástand hans í lok ballsins. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa heyrt að ákærði og brotaþoli hefðu farið heim eftir ballið og sofið saman. Hafi ákærði sjálfur sagt vitninu frá þessu en vitnið mundi ekki hvenær hann gerði það, hvort það hafi verið í einhverju partýi þar sem strákar voru að tala saman. Hann kvað ákærða ekki hafa lýst þessu nánar, enda fari þeir yfirleitt ekki út í einhverja „díteila“. Hann mundi ekki hvenær ákærði sagði honum þetta, en þetta hafi verið einhvern tíma eftir afmælið þar til hann hafi sagt vitninu frá skilaboðunum á Facebook frá brotaþola. Vitnið kvaðst ekkert hafa rætt þetta mál við brotaþola. Þegar borin var undir vitnið skýrsla hans hjá lögreglu þar sem hann segir að ákærði hafi sagt sér að þegar hann hafi komið heim af ballinu hafi brotaþoli vaknað og þau farið að spjalla saman og sem hafði síðan leitt til þess að þau hafi farið að kyssast og síðan haft samfarir. Hafi þetta verið með vilja beggja. Vitnið staðfesti þennan framburð sinn en benti á að langt væri liðið frá skýrslutökunni og hefði hann munað þetta betur þá.

Vitnið H, vinur ákærða, skýrði svo frá fyrir dómi að hann myndi lítið eftir atvikum en haldin hafi verið veisla í bílskúr heima hjá ákærða og hafi brotaþoli verið orðin mjög full. Hafi vinkonur hennar, sennilega B og annaðhvort D eða I, spurt ákærða hvort hún mætti ekki leggja sig inni hjá honum og hafi þær farið með hana inn og lagt hana í rúmið. Brotaþoli hafi verið mjög drukkin en hún hafi getað staðið í lappirnar. Síðan hafi verið farið á ball og hafi ákærði verið þar. Vitnið kvaðst ekki hafa haft hugmynd um ástand hans þar. Vitnið kvað að stuttu eftir afmælið hafi ákærði sagt að þau hafi riðið þarna og hann hafi síðan skutlað henni heim og hafi brotaþoli sagt að ákærði mætti ekki segja neinum frá þessu. Vitnið kvað brotaþola eitthvað hafa nefnt þetta við sig en hann kvaðst ekkert hafa viljað um þetta tala, enda væri hún líka vinkona vitnisins.

Vitnið G, vinur ákærða og frændi brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið í afmælisveislunni en hann hefði verið rosalega ölvaður. Hann kvaðst fyrst hafa frétt af máli þessu eftir að brotaþoli sendi ákærða bréf og þá hafi ákærði sagt honum að þau hafi sofið saman, haft kynmök, en hún sé að kæra hann fyrir nauðgun. Hann kvað brotaþola nokkrum sinnum hafa nefnt þetta á fylleríum. Vitnið kannaðist við að hafa sent brotaþola skilaboð 3. apríl 2011 eftir eitthvert fyllerí en þá hafi brotaþoli byrjað að tala um þetta við vitnið og hafi hann sagt henni að hann ætlaði ekki að skipta sér af þessu. Hafi hún þá byrjað að drulla yfir sig á fullu, látið hann heyra hversu ógeðslegur hann væri. Hann hafi því sent henni þetta svar á Facebook. Hann kvaðst ekki muna eftir myndinni sem nefnd er í skilaboðunum en það gæti hafa verið einhver djammmynd. Borinn var undir vitnið framburður hans þess efnis hjá lögreglu að ákærði hafi lýst því fyrir honum að brotaþoli hafi vaknað þegar hann kom  heim, þau hafi farið að tala saman sem hafi leitt til þess að þau hafi farið að kyssast og endað með því að þau hafi haft samfarir og hafi þetta verið með samþykki beggja. Vitnið staðfesti að rétt væri eftir honum haft.

Vitnið J, vinur ákærða, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið í afmæli ákærða en hann kvaðst muna eftir brotaþola þar. Hann kvað ákærða hafa sýnt sér skilaboð á Facebook þar sem talað var um að hann hefði nauðgað brotaþola. Hann kvað ákærða hafa sagt sér að hann hefði ekki brotið gegn brotaþola en hann mundi ekki hvort ákærði hefði sagt að hann hefði sofið hjá brotaþola umrætt kvöld. Borin var undir vitnið skýrsla sem lögreglan tók saman um viðtal við hann þann 13. janúar 2012, en þar kemur fram að vitnið hafi frétt af því sem átti að hafa gerst rúmu ári eftir atvikið og hafi ákærði þá sagt honum frá því að brotaþoli væri að ásaka hann um að hafa brotið gegn henni. Ákærði hafi hins vegar ekkert lýst því nánar hvað gerðist nema að hann hafi hafnað því alfarið að þarna hafi verið um brot að ræða og það sem gerðist hefði verið með vilja beggja. Vitnið mundi ekki eftir þessum orðaskiptum við ákærða og gat ekki staðfest að rétt væri eftir honum haft.

Vitnið K, móðursystir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi frétt af máli þessu í desember 2010 þegar hún hafi verið í verslunarferð í [...] með brotaþola. Eitt kvöldið hafi brotaþoli verið eitthvað óörugg og virst líða illa og kvaðst hún þá hafa gengið á hana. Hún hafi þá brotnað saman, farið að hágráta og sagt að henni hefði verið nauðgað. Hún hafi ekki farið út í smáatriði en hún hafi átt virkilega erfitt, bara grátið. Hún hafi ekki sagt hvenær þetta átti að hafa gerst og ekki hver þetta hefði verið. Hún kvaðst hafa hvatt hana til þess að ræða við fagfólk en brotaþoli hafi beðið vitnið um að ræða þetta ekki við neinn. Hún kvað brotaþola hafa hringt í sig nokkrum mánuðum seinna og spurt hvort hún væri til í að segja móður sinni frá þessu. Vitnið kvaðst hafa hringt í systur sína og sagt henni þetta, sennilega í mars 2011.

Vitnið C, bróðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði sagt sér að henni hefði verið nauðgað, hún hefði vaknað við það að ákærði hefði verið að hafa samfarir við hana. Hún hefði ýtt honum strax af sér og öskrað á hann hvað hann væri að gera. Hann kvaðst hafa tjáð henni að hann myndi ekki ráðast á hann eða nokkurn annan en hún hefði verið hrædd um það hvernig hann myndi bregðast við. Vitnið kvaðst aldrei hafa beitt nokkurn mann ofbeldi og aldrei verið dæmdur fyrir slíkt en þegar maður fái svona fréttir sé ýmislegt sem komi upp í  hugann. Hann kvaðst hafa ákveðið að gera þetta öðruvísi, hann kvaðst hafa komist að því hvar ákærði væri að vinna, farið til hans og beðið hann að koma með sér. Ákærði hafi sest inn í bíl vitnisins og hafi hann gert ákærða grein fyrir ástæðu þess að hann vildi tala við hann.  Hann kvaðst einnig hafa gert honum grein fyrir því að hann ætlaði ekki að beita hann ofbeldi en hann ætti að játa brot sitt og það gæti kannski verið lausn fyrir hann. Hann kvaðst hafa ekið heim til föður ákærða og kvaðst hann hafa beðið hann um að koma inn í bílinn. Hann hafi sest inn í bílinn og fannst vitninu eins og hann hefði fundið eitthvað á sér, alla vega hafi honum orðið mjög bilt við. Ákærði hafi þá sagt föður sínum að eitthvað hafi gerst í afmælinu hans og héldi brotaþoli því fram að hann hefði nauðgað henni. Ákærði hafi sagt að hann myndi það ekki en kvað brotaþola enga ástæðu hafa til að ljúga. Þeir hafi síðan ekið föður ákærða heim því honum hafi liðið rosalega illa og þá kvaðst vitnið hafa spurt ákærða hvort hann væri ekki til í að skrifa afsökunarbréf til brotaþola. Vitnið kvaðst hafa stigið út úr bifreiðinni og tekið mynd af ákærða meðan hann var að skrifa bréfið. Vitnið kvaðst hafa séð bréfið og spurt ákærða hvort hann vildi ekki bæta einhverju við. Vitnið sá bréfið í dóminum og sagði að þegar ákærði hafði skrifað „fyrirgefðu ég hefði aldrei átt að koma inn í herbergið sem þú varst í“ hafi hann spurt ákærða af hverju hann hafi ekki klárað línuna. Vitnið tók fram að það myndi ekki hvað ákærði skrifaði en myndi þó að hann hefði beðist afsökunar. Hann kvaðst síðan hafa afhent brotaþola bréfið en sent henni myndirnar af ákærða með tölvupósti. Vitnið kvað mál þetta hafa haft skelfilegar afleiðingar fyrir brotaþola og móður þeirra, sem væri búin að vera á barmi taugaáfalls. Brotaþoli funkeri ekki, hún tali um sjálfsmorð og kvaðst hann hafa tekið hana til [...] til að vinna hjá sér. Borin var undir vitnið frásögn ákærða um afskipti vitnisins af bréfaskriftunum og kvað hann þá frásögn ekki rétta. Vitnið kvaðst ekki hafa verið ógnandi og alls ekki þvingað ákærða til að skrifa bréfið. Þá kvaðst hann ekki hafa merkt að ákærði hefði verið hræddur við sig eða óttasleginn. Hann kvað föður ákærða hafa verið í sjokki, hann hafi bara setið frosinn afturí en hann hafi sagt að ákærði yrði að leita sér hjálpar og þeir yrðu að vinna sig út úr þessu. Vitnið kannaðist ekki við að hafa nefnt það í bílnum að hann væri tengdur undirheimunum og hann kvaðst ekki hafa slík tengsl. Vitnið kannaðist ekki við að hafa sagt ákærða að tveir frændur vitnisins, sem stunduðu handrukkun, væru staddir í [...]. Þá kannaðist vitnið ekki við að hafa sagt ákærða að hefði þetta gerst fyrir 10 árum hefði hann drepið hann. Vitnið kvaðst hafa tekið myndir af ákærða til að sanna að hann hefði skrifað bréfið því það sé mjög erfitt að koma með sannanir í nauðgunarmálum. Vitninu fannst vera léttara yfir ákærða eftir að hann hafði skrifað bréfið.

Vitnið M, faðir ákærða, skoraðist ekki undan vitnisburði og skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði farið inn í bílinn hjá C og ákærða og þar hafi hann fengið að heyra undan og ofan af því að eitthvað hefði gerst milli ákærða og brotaþola. Þetta hafi verið frekar óþægileg ökuferð því ekið hafi verið mjög hratt og bílstjórinn hafi sífellt verið í símanum. Hann hafi hringt mörg símtöl og hvergi stoppað þannig að hann hafi þeyst fram og tilbaka og verið mjög óðamála og æstur. Hafi C sagt að systir hans segði sínar farir ekki sléttar af viðskiptum hennar og ákærða fyrir um tveimur árum en vitnið kvaðst hafa frábeðið sér frekari lýsingar á því. C hafi strax farið að þjarma að vitninu að gera eitthvað, hann sé [...] en þetta hafi verið mjög óljós krafa og kvaðst vitnið ekki hafa áttað sig á því hvað hann vildi en hann kvaðst fljótlega hafa stoppað hann af og sagt honum að fyrst málið varðaði son vitnisins þá sé hann ekki [...] í þessu máli, þá sé hann bara faðir ákærða og myndi ekki hafa nein afskipti af málinu. C hafi þá hætt að pressa á hann um einhverjar aðgerðir og þá hafi hann tilkynnt í símann að vitnið vildi ekkert gera, hann segðist bara vera pabbi hans. Vitnið kvaðst ekki vita við hvern C hafi verið að tala í símann og hafi hann ekki gert sér neina grein fyrir því, en hann hafi hringt mörg símtöl í ferðinni, fjögur til fimm. Það hafi verið eins og hann væri að gefa einhverjum skýrslu um það hverjir væru í bílnum. Vitnið kvaðst fljótlega hafa beðið um að verða settur út úr bílnum því honum fannst óeðlilegt að vera sviptur svona frelsi, hann hefði enga stjórn á atburðarásinni og flengdist um í bílnum. Vitnið kvað C hafa sagt mjög skýrt að fyrir nokkrum árum hefði hann gengið í skrokk á ákærða og lamið hann fyrir þær sakir sem hann hafi talað um. Hann hafi talað um að hann væri orðinn breyttur maður og því hafi vitnið talið ákærða óhætt, enda fulltíða maður og ágætlega hraustur. Eitthvað hafi verið rætt í bílnum að ákærði myndi biðjast afsökunar á einhverju og það yrði skriflegt á einhvern hátt og kvaðst hann síðar hafa frétt af bréfi ákærða. Honum fannst ákærði hafa verið undir mikilli pressu og þrýstingi af hálfu C. Vitninu fannst ákærði hvorki játa né neita sakargiftum í bílnum en talað hafi verið mikið um fyrirgefningu.

Vitnið N gaf símaskýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa unnið með ákærða og brotaþola frá haustinu árið 2010 og fram í ágúst 2011. Hún kvað brotaþola hafa tjáð sér að hún vildi ekki vinna með ákærða því hún væri búin að kæra hann fyrir nauðgun. Hún mundi ekki hvenær brotaþoli sagði henni þetta.

Vitnið Jóhann Bjarni Loftsson sálfræðingur skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að brotaþoli hefði komið í fjögur viðtöl til sín, fyrst 18. júlí 2011 og hafi hún tjáð sér að hún hefði kært nauðgun vikuna áður og hafi hún lýst ástandi sínu sem hún hafi sagt vera afleiðinguna af nauðguninni. Hann hefði lagt próf fyrir brotaþola og hefði komið í ljós að hún sé yfir meðallagi í greind og geri sér skýra grein fyrir því hvað er að gerast í hennar lífi en tilfinningalega sé hún í miklu ójafnvægi. Hún hafi tjáð sig um hina ætluðu nauðgun og taldi hún hugarástand sitt afleiðinguna af þessu áfalli sem hún hafi lýst fyrir vitninu. Hann kvað hana hafa lýst atvikinu og fannst honum hún vera trúverðug í lýsingu sinni. Aðspurður hvort brotaþoli hafi nefnt eitthvað annað sem gæti hafa gerst í lífi hennar sem gæti hafa haft áhrif á líðan hennar svaraði vitnið því til að hún hefði ekkert nefnt sem virtist skipta það miklu máli að það teldist meginmál.

Niðurstaða.

Ákærða er gefin að sök nauðgun, með því að hafa aðfaranótt eða að morgni 19 ára afmælisdags síns þann 22. nóvember 2009 haft samræði við brotaþola á heimili sínu en ákæruvaldið telur hann hafa notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Nægilega er upplýst að brotaþoli var á heimili ákærða í umræddu samkvæmi og ber henni og vitnum saman um að hún hafi orðið ofurölvi og því ekki farið á dansleik ásamt öðrum gestum. Þá er upplýst að ákærði heimilaði að hún yrði lögð til í rúmi hans og þar mun hún hafa sofnað ölvunarsvefni. Ákærði mun hafa farið á dansleikinn og hjá lögreglu kvaðst  hann ekki muna eftir því sem gerðist umrætt sinn. Hann kvaðst hafa sofnað í herbergi sínu og síðan rankað við sér um morguninn og þá verið í nærbuxum einum fata. Brotaþoli hafi verið annað hvort frammi á baði eða á ganginum en hún hafi verið fullklædd. Hann hafi skutlað henni heim en haft á tilfinningunni að eitthvað hefði gerst, en hafði ekki trú á því. Brotaþoli hafi spurt hvað þau hafi verið að gera og hann sagt að hann vissi það ekki. Brotaþoli hafi beðið hann að lofa því að segja þetta ekki við neinn og taldi ákærði að það sem hann hefði átt að þegja yfir hefði verið það að hann og brotaþoli hefðu vaknað saman inni í herbergi ákærða og hann hafi síðan skutlað henni heim. Ákærði neitaði því fyrir dómi að hafa haft samfarir við brotaþola og þá kvaðst hann ekki muna hvernig hann komst heim af ballinu eða hvenær og þá mundi hann ekki hver var í rúminu hans eða hvort hann hafi farið beint upp í rúm.

Brotaþoli hefur við rannsókn og meðferð málsins staðið fast við framburð sinn. Hún hafi orðið ofurölvi í afmæli ákærða og síðan ekki muna neitt fyrr en hún vaknaði um sexleytið um morguninn í rúmi ákærða við það að hann hafi verið að ríða henni. Hafi hún verið í öllum fötum nema nærbuxum. Ákærði hafi skutlað henni heim, þar hafi hún farið í bað, verið hágrátandi og logið að móður sinni að hún hefði verið að rífast við fyrrverandi kærasta sinn. Móðir brotaþola kvaðst hafa vaknað umræddan morgun og hafi brotaþoli þá verið inni á baði og síðan skriðið upp í rúm til vitnisins. Hún kvaðst hafa spurt brotaþola af hverju hún hafi ekki komið á ballið og hafi hún þá sagt að það hafi verið eitthvert vesen á kærasta hennar og hafi hún verið grátandi. Hún kvaðst strax eftir þetta hafa merkt breytingar á brotaþola, hún hafi ekki viljað lifa, sofið illa og fengið martraðir.

Brotaþoli kvaðst hafa sagt B vinkonu sinni að kvöldi sama dags að ákærði hefði nauðgað henni og hefur B staðfest að brotaþoli hefði sagt henni að hún hefði vaknað með ákærða ofan á sér. B taldi brotaþola vera að vissu marki að tala um kynmök. D kvaðst ekki hafa vitað af ætluðu kynferðisbroti ákærða gagnvart brotaþola fyrr en í júlímánuði 2011, en þá hafi brotaþoli sagt henni að hún hefði vaknað og hafi ákærði þá verið uppi í rúmi með henni. Hún hafi ekki lýst því nánar hvað gerðist. I kvaðst ekki hafa frétt af ætluðu kynferðisbroti fyrr en um sumarið sama ár og þá frá D. Hún hafi rætt við brotaþola sem hafi sagt henni frá þessu en ekki lýst því nánar fyrir henni.

Vinum ákærða, þeim E og G ber saman um að ákærði hafi tjáð þeim að þegar hann hafi komið heim af ballinu hafi brotaþoli vaknað, þau farið að spjalla saman og kyssast og síðan hafi þau haft samfarir með vilja beggja. H, vinur ákærða, tók í sama streng og kvað ákærða hafa tjáð sér að þegar hann hafi komið heim af ballinu hafi brotaþoli verið í rúminu hans og þau haft samfarir með samþykki beggja. J, vinur ákærða gaf ekki formlega skýrslu hjá lögreglu en í viðtalsskýrslu er haft eftir honum að ákærði hafi ekki lýst því nánar hvað gerst hefði nema að hann hafi hafnað því alfarið að þarna hafi verið um brot að ræða og að það sem þarna gerðist hafi verið með vilja beggja. J vildi ekki staðfesta þennan framburð sinn fyrir dómi en framburður annarra vitna fyrir dómi var með sama hætti og hér að framan greinir. Ákærði hafnar þessum framburði vina sinna en kveðst enga skýringu hafa á honum.

Ákærði virðist fyrst fá veður af því sem brotaþoli telur hafa gerst umrætt sinn þegar hún sendir honum skilaboð á Facebook í marsmánuði 2011. Þar ber hún ákærða þeim sökum að hafa haft við hana samfarir án þess að hún væri þess meðvituð hvað væri að gerast. Ákærði svaraði brotaþola og kvað þetta ekki hafa gerst eins og hún lýsi en óneitanlega vekur það athygli að ákærði neitar því ekki í þessum samskiptum að hann hafi haft samfarir við brotaþola. Brotaþoli svaraði með þeim hætti að það að ríða meðvitundarlausri manneskju væri ekkert annað en nauðgun. Ákærði lét þessari athugasemd brotaþola ósvarað.

Brotaþoli lagði ekki fram kæru á hendur ákærða fyrr en 5. júlí 2011 eftir að C bróðir hennar hafði fengið henni í hendur nokkurs konar afsökunarbréf sem hann hafði fengið ákærða til að skrifa eftir bílferð með honum og föður ákærða um [...]. Í bréfinu lýsir ákærði því yfir að hann hefði aldrei átt að koma inn í herbergið sem brotaþoli var í og hvað þá að gera það sem hann gerði. Þetta hafi verið rangt og hann játi það. Ákærði lýsir því að hann hafi verið logandi hræddur við bróður brotaþola, hann hafi engu hótað sér þarna en hann hafi verið ógnandi í líkamsbeitingu og raddtóni og kvaðst ákærði vera viss um að ef hann gerði ekki það sem hann vildi væri hann í slæmri stöðu. Faðir ákærða tók í sama streng, hann upplifði bílferðina sem frelsissviptingu, C hafi sífellt verið í símanum og væri eins og hann væri að gefa einhverjum skýrslu um það hverjir væru í bílnum. Þá fannst honum ákærði vera undir mikilli pressu og þrýstingi af hálfu C. Þá verður ekki fram hjá því litið að C hafði afskipti af efni bréfsins með því að ætlast til þess að ákærði skrifaði meira eftir að hann hafði skrifað hluta þess. Með hliðsjón af framansögðu verður umræddu bréfi hafnað sem sönnunargagni í máli þessu.

Framburður brotaþola hefur verið stöðugur í máli þessu og er hún mjög trúverðug að mati dómsins. Sannað er að ölvunarástand hennar var með þeim hætti að hún var lögð til í rúm ákærða en ákærði hefur neitað því að hafa haft samfarir við hana. Ekki verður litið fram hjá framburði þriggja vina ákærða sem allir bera að hann hafi tjáð þeim að hann hafi haft samfarir við brotaþola umrætt sinn. Þá ber að líta til þess að ákærði neitar því ekki í umræddum Facebooksamskiptum við brotaþola að hafa haft samfarir við hana og verða viðbrögð hans ekki skýrð með öðrum hætti en þeim að hann telji að eitthvað hafi gerst á milli þeirra. Þá telur dómurinn ótrúverðugt að ákærði segist ekkert muna eftir samskiptum hans og brotaþola að þessu leyti, en hann muni þó eftir því að hafa ekið brotaþola heim skömmu eftir að hún segist hafa vaknað með ákærða ofan á sér. Þá hefur ákærði ekki verið stöðugur í framburði sínum en hjá lögreglu bar hann að hann gæti ekki sagt að brotaþoli væri að ljúga en hann teldi heldur ekki að hún væri að segja satt. Er ákærði að mati dómsins ótrúverðugur að þessu leyti.

Þegar framanritað er virt telur dómurinn að fram sé komin nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði sættist ákærði á greiðslu 130.000 króna sektar þann 12. janúar 2012 fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf og verður því höfð hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar hans.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður ekki fram hjá því litið að mál þetta hefur dregist úr hömlu. Nú eru liðin 3 ár og 8 mánuðir frá broti ákærða en brotaþoli lagði fyrst fram kæru á hendur honum 1 ári og tæplega 8 mánuðum frá brotinu. Rannsókn málsins virðist lokið 22. febrúar 2012 en ákæra er ekki gefin úr fyrr en 13. mars 2013, eða tæpum 13 mánuðum eftir að rannsókn málsins lauk. Ákærða verður með engum hætti kennt um þennan drátt á málsmeðferðinni. Þá ber til þess að líta að ákærði var einungis 19 ára gamall þegar hann framdi brot sitt. Þegar allt framanritað er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Brotaþoli krefst miskabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur úr hendi ákærða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er rökstudd með þeim hætti að brotaþoli hafi eftir atburðinn átt við svefnerfiðleika að stríða og mikla vanlíðan. Hún hafi fengið grátköst og þjáðst af þunglyndi. Hafi brotið haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir hana sem ákærði beri skaðabótaábyrgð á. Það sé þekkt að þeir sem verði fyrir slíku ofbeldisbroti geti þurft að glíma við afleiðingarnar ævina á enda.

Í máli þessu liggja fyrir gögn sem staðfesta að brotaþoli hefur orðið fyrir miklu áfalli sem telja verður að ákærði beri ábyrgð á, þar á meðal vottorð Jóhanns Loftssonar sálfræðings og vætti móður hennar um líðan hennar eftir atvikið.  Brot ákærða gagnvart brotaþola var til þess fallið að valda henni miska og á hún því rétt á bótum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan 13. júlí 2011. Þykja bætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 800.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað vegna verjanda á rannsóknarstigi, 62.750 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 376.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar verjandans, 26.114 krónur. Þá ber að dæma ákærða til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 561.612 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 77.014 krónur.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Ragnheiði Thorlacius og Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómurum.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði A, kt. [...], miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 22. nóvember 2009 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 13. ágúst 2011 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað vegna vegna verjanda á rannsóknarstigi, 62.750 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 376.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar verjandans, 26.114 krónur. Ákærði greiði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 561.612 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 77.014 krónur.