Hæstiréttur íslands
Mál nr. 21/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Mánudaginn 13. janúar 2014. |
|
Nr. 21/2014. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. janúar 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en honum þess í stað bönnuð brottför af landinu meðan mál hans er til rannsóknar en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 16. janúar 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. janúar 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili hefur því verið frjáls ferða sinna með þeirri takmörkun sem af fyrrgreindu farbanni leiðir. Af hálfu sóknaraðila hefur komið fram að varnaraðili sé ekki lengur undir grun um að hafa framið brot sem varðað getur við 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu hefur sóknaraðili ekki leitt í ljós að nauðsynlegt sé vegna rannsóknarhagsmuna að gera varnaraðila að sæta gæsluvarðhaldi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. janúar 2014.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, f.d. [...], breskum ríkisborgara, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til fimmtudagsins 16. janúar 2014, kl. 16:00.
Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verið hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður styttri tími.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn h. lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, 155. gr. og 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940
Í greinargerð Lögreglustjórans á Suðurnesjum segir m.a. að í gær, þann 8. janúar, hafi lögregla haft afskipti af kærða og samferðarkonu hans, sem kvaðst heita A, á Keflavíkurflugvelli við vegabréfaskoðun en þau hafi verið á leið til Kanada. Kærði hafi verið beðinn um að framvísa vegabréfi og hafi hann framvísað tveimur vegabréfum sem hann hafi geymt í jakkavasa sínum, vegabréfi frá [...] fyrir samferðakonu sína og vegabréfi frá Bretlandi fyrir sig sjálfan. Þegar lögregla hafi skannað vegabréf samferðakonu kærða hafi komið upp SIS smellur þar sem fram hafi komið að vegabréfið væri stolið. Ákveðið hafi verið að ræða frekar við kærða og samferðarkonu hans á varðstofu lögreglu. Kærði hafi þá einnig framvísað kennivottorði samferðakonu sinnar. Bæði vegabréf og kennivottorð samferðakonu kærða segi að hún heiti [...]. Í yfirheyrslum hjá lögreglu hafi hún sagst heita A. Þegar hún hafi verið spurð um hvað kærði héti hafi hún sagt hann heita [...]. Hún hafi ekki vitað hvar hann ætti heima eða vitað mikið um hann. Kærði heiti ekki [...] heldur B. Vegabréf og kennivottorð samferðakonu kærða hafi verið rannsökuð af skilríkjasérfræðingi lögreglu. Við þá rannsókn hafi komið í ljóst að vegabréf samferðakonu kærða reyndist breytifalsað og kennivottorðið að öllum líkindum grunnfalsað. Á þessu stigi sé ekki talið að skilríki kærða séu fölsuð en rannsókn á þeim sé ekki lokið. Kærði og samferðakona hans hafi verið yfirheyrð í gærkveldi og í nótt. Beri gríðarlega mikið á milli framburðar þeirra hjá lögreglu og í raun megi segja að þeim beri á milli í flestum atriðum. Að mati lögreglu sé allur framburður kærða mjög ótrúverðugur og mikið ósamræmi milli framburðar hans og samferðakonu hans, t.d. varðandi það hvenær hann hafi hitt samferðakonu sína í fyrsta skipti. Þá megi einnig nefna að kærði hafi kveðið samferðakonu sína heita [...] en kalli hana [...] en hún segist heita A. Þá kveðst kærði hafa ferðast til [...] og [...] á síðasta ári en sagðist síðan ekki muna hvenær hann hafi farið þangað. Hann hafi ekki gott minni. Að mati lögreglu sé kærði að segja lögreglu ósatt því samkvæmt stimplum í vegabréfi hans hafi kærði verið í [...] og [...] í október og nóvember árið 2013. Þá hafi kærði sagt að vinur hans að nafni B hefði pantað flug og gistingu fyrir þau en samferðakona hans viti ekki hver þessi vinur hans sé. Kærði hafi ekki munað hvenær hann hefði beðið B um að panta flugmiðana og ekki munað hvenær hann talaði síðast við B. Kærði hafi sagt að hann og samferðakona hans hefðu greitt saman fyrir miðana til Kanada. Kærði hafi sagt tilgang ferðarinnar til Kanada vera að taka myndir og skoða sig um. Kærði hafi sagt samferðakonu sína heita [...], minnti að hún ætti afmæli í febrúar og að hún hefði sagst vera 29 ára. Þegar hann hafi verið beðinn um að gefa lögreglu upp einhverjar aðrar upplýsingar um samferðakonu sína hafi hann sagt hana vera frá [...] en ekki getað sagt neitt fleira um hennar einkahagi. Samferðakona kærða hafi sagt að vinur hennar hafi hjálpað henni að kaupa flugmiðanna og að aðili, sem hún viti ekki hvað heiti, hafi greitt flugið fyrir hana og kærða frá Danmörku til Kanada. Samferðakona kærða hafi ekki haft hugmynd um hvernig hún myndi framfleyta sér í Kanada og að hún þekkti engan þar.
Af framansögðu og með vísan til gagna málsins telur lögregla að rannsaka þurfi hvort kærði hafi verið að reyna að smygla samferðakonu sinni með ólögmætum hætti frá meginlandi Evrópu til Kanada. Með vísan til þessa telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar hjá lögreglu og unnið er að því að upplýsa málið frekar. Af framansögðu og með vísan til gagna málsins telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi og einangrun á meðan mál hans er til rannsóknar hjá lögreglu en rannsókn málsins sé á algeru frumstigi.
Fallist verður á með lögreglu að ósamræmi sé í framburði kærða og samferðakonu hans og framburður beggja er um margt ótrúverðugur hvað varðar greiðslur á farmiðum, ferðatilhögun og tilgang ferðarinnar til Kanada. Framangreint nægir þó ekki til þess að rökstuddur grunur geti talist vera fyrir hendi um að kærði hafi gerst sekur um mansal samkvæmt 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Hins vegar hefur verið sýnt fram á að vegabréf samferðakonu kærða, sem kærði hafði í vörslum sínum og framvísaði við vegabréfsskoðun, var falsað. Kærði er því undir rökstuddum grun um brot á ákvæðum h liðar 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og 155. gr. almennra hegningarlaga. Skilyrðum a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt. Rétt þykir hins vegar að beita vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi og banna kærða för úr landi samkvæmt 100. gr. laga nr. 88/2008. Verður varnaraðila því bönnuð brottför af landinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Sóknaraðili hefur ekki gert varakröfu um farbann um ótiltekinn eða nánar tilgreindan tíma. Því er rétt að marka farbanninu sama tíma og gæsluvarðhaldskröfu sóknaraðila.
Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, er bönnuð för úr landi meðan mál hans er til rannsóknar en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 16. janúar nk. kl. 16:00.