Hæstiréttur íslands
Mál nr. 207/2003
Lykilorð
- Skattur
- Endurgreiðsla
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2003. |
|
Nr. 207/2003. |
Samherji hf. (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Skattar. Endurgreiðsla. Dráttarvextir.
Með úrskurði ríkisskattstjóra 16. desember 1997 voru opinber gjöld S endurákvörðuð. Leiddi þetta til þess að á gjaldárinu 1999 voru lögð á S opinber gjöld að fjárhæð samtals 77.857.387 krónur og stóð S skil á þeirri upphæð. Áður hafði S höfðað mál til að fá hnekkt fyrrnefndum úrskurði. Var fallist á kröfur S í dómi Hæstaréttar 25. janúar 2001. Voru gjöld S vegna ársins 1999 endurákvörðuð í ljósi dómsins og taldist hann hafa ofgreitt 50.773.842 krónur. Krafðist S endurgreiðslu þessarar fjárhæðar með dráttarvöxtum frá greiðsludegi en Í greiddi fjárhæðina með vöxtum sem svöruðu til hæstu vaxta af óbundnum sparireikningum á hverjum tíma frá því gjöldin voru innt af hendi og til greiðsludags. Höfðaði S þá mál þetta til heimtu dráttarvaxtanna. Talið var að um endurgreiðslu umræddra gjalda gilti sérregla 2. mgr. 112. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981 eins og henni hafi verið brett með lögum nr. 49/1987 og 31/1995. Í málsókn G um ógildingu fyrrnefnds úrskurðar þótti ekki felast endurgreiðslukrafa og því taldist mál þá ekki höfðað til heimtu kröfunnar í skilningi 4. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 sbr. 2. gr. laga nr. 31/1995. Hin ofteknu gjöld hefðu verið endurgreidd að stærstum hluta daginn eftir að G krafðist greiðslu og eftirstöðvar innan þrjátíu daga. G átti því ekki rétt til greiðslu dráttarvaxta úr hendi Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2003. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 50.770.842 krónur, aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 38.928.694 krónum frá 30. nóvember 1999 til 30. desember sama ár og af 50.770.842 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, en til vara með dráttarvöxtum samkvæmt sömu lagaákvæðum af 26.537.456 krónum frá 30. nóvember 1999 til 30. desember sama ár og af 50.770.842 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til frádráttar komi 53.275.898 krónur og 3.829.325 krónur, sem stefndi hafi greitt 17. og 22. maí 2001. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi á málið rætur að rekja til þess að ríkisskattstjóri tók opinber gjöld áfrýjanda til endurákvörðunar með úrskurði 16. desember 1997. Var þar einkum til úrlausnar hvort og að hvaða marki áfrýjanda væri heimilt að nýta til frádráttar tekjum sínum yfirfæranlegt rekstrartap á gjaldárunum 1996 og 1997, sem hann taldi sig eiga rétt á. Í úrskurðinum varð niðurstaðan sú að þetta væri áfrýjanda aðeins heimilt að nánar tilteknu marki. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki hafi gætt teljandi áhrifa af þessari niðurstöðu við álagningu opinberra gjalda áfrýjanda vegna gjaldáranna 1997 eða 1998, en áhrifin urðu á hinn bóginn veruleg á gjaldárinu 1999 þegar lögð voru á hann gjöld að fjárhæð samtals 77.857.387 krónur. Af þessum gjöldum, sem áfrýjandi stóð réttilega skil á með greiðslum 30. nóvember og 30. desember 1999, nam tekjuskattur 71.421.698 krónum. Áður en gjöldin voru lögð á höfðaði áfrýjandi mál á hendur stefnda 9. febrúar 1999, þar sem hann krafðist þess meðal annars að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi fyrir gjaldárin 1996 og 1997. Með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2001 í máli nr. 202/2000 var þessi krafa áfrýjanda tekin til greina á þann hátt að úrskurðurinn var felldur úr gildi vegna gjaldársins 1997. Í framhaldi af því krafðist áfrýjandi þess með bréfi til ríkisskattstjóra 29. mars 2001 að gjöld hans yrðu ákveðin á ný til samræmis við niðurstöðu dómsins. Féllst ríkisskattstjóri á það með úrskurði 15. maí 2001, þar sem tekjuskattur áfrýjanda gjaldárið 1999 var lækkaður um 52.144.085 krónur, en eignarskattur og sérstakur eignarskattur á gjaldárunum 1998 til 2000 á hinn bóginn hækkaður um samtals 1.370.243 krónur. Lækkuðu gjöld áfrýjanda þannig um samtals 50.773.842 krónur. Með bréfi 16. maí 2001 krafði áfrýjandi sýslumanninn á Akureyri um endurgreiðslu á 50.770.842 krónum ásamt dráttarvöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 1. desember 1999 til greiðsludags. Sýslumaður endurgreiddi áfrýjanda af þessu tilefni 17. og 22. maí 2001 samtals 57.105.223 krónur. Óumdeilt er að með þessu fékk áfrýjandi endurgreiddan höfuðstól ofgreiddra skatta samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra frá 15. maí 2001 ásamt vöxtum, sem svöruðu til hæstu vaxta af óbundnum sparireikningum á hverjum tíma frá því að gjöldin voru innt af hendi í nóvember og desember 1999 til greiðsludags. Áfrýjandi vildi ekki una við þessa niðurstöðu og höfðaði því mál þetta 26. apríl 2002 til að fá sér dæmda dráttarvexti af ofgreiddu gjöldunum vegna fyrrnefnds tímabils í stað þeirra vaxta, sem hann fékk samkvæmt framansögðu.
Í 2. mgr. 112. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, eins og henni var breytt með 17. gr. laga nr. 49/1987 og 2. gr. laga nr. 31/1995, sbr. nú 2. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 um sama efni, var að finna sérreglu, sem gilti eftir hljóðan sinni um greiðslu vaxta af ofteknum sköttum, sem ákvæði laganna tóku til, annarra en tekjuskatta einstaklinga. Af lögskýringargögnum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, er ljóst að ekki var ætlast til þess að ákvæði 2. gr. laganna kæmu í stað sérreglu um vexti af ofteknum tekjuskatti lögaðila í 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981. Verður þetta einnig ráðið beinlínis af 4. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, auk þess sem orðalagi 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 var breytt með áðurnefndum lögum nr. 31/1995, sem tengdust setningu laga nr. 29/1995. Þótt niðurstaða málsins ráðist samkvæmt þessu af ákvæðum 112. gr. laga nr. 75/1981, en ekki af 2. gr. laga nr. 29/1995 eins og lagt var til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi, verður að líta til þess, sem þar kemur réttilega fram, að þessi tvö lagaákvæði eru efnislega á sama veg um þau atriði, sem deila aðilanna snýst um. Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans að öðru leyti.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Samherji hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2003.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 6. febrúar 2003 var höfðað 26. apríl 2002. Stefnandi er Samherji hf., kt. 610297-3079, Glerárgötu 30, Akureyri, en stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, kt. 670269-4779.
Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefndi greiði stefnanda 50.770.842 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, af 38.928.694 krónum frá 30. nóvember 1999 til 30. desember 1999 en af 50.770.842 krónum frá 30. desember 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda 50.770.842 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af 25.707.553 krónum frá 30. nóvember 1999 til 30. desember 1999 en af 50.770.842 krónum frá 30. desember 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til frádráttar kröfu stefnanda komi innborganir 53.275.898 krónur þann 17. maí 2001 og 3.829.325 krónur þann 22. maí 2001. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi gerir þær kröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað. Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.
II
Atvik málsins eru þau að ríkisskattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld stefnanda með úrskurði 16. desember 1997, og lækkaði yfirfæranlegt tap gjaldárið 1997 um 71.202.076 krónur. Byggði úrskurður ríkisskattstjóra á því að stefnandi hefði ekki uppfyllt skilyrði 57. gr. A laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, umrætt gjaldár og því ekki verið heimilt að nýta yfirfæranlegt tap sem var tilkomið vegna sameiningar á Matvælaiðjunni Strýtu hf. og Kirkjusandi hf. sem síðar runnu ásamt fleiri félögum saman í félagið Samherja hf., stefnanda þessa máls.
Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda og krafðist þess a) að úrskurður ríkisskattstjóra 16. desember 1997 um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda fyrir gjaldárin 1996 og 1997 yrði felldur úr gildi og b) að staðfest yrði að skilyrðum 57. gr. A hefði verið fullnægt og að endurákvörðun ríkisskattstjóra hefði brotið í bága við 56. gr. laga nr. 75/1981. c) Þá var krafist viðurkenningar á fjárhæð ónotaðs taps Kirkjusands hf. og Matvælaiðjunnar Strýtu hf. og að heimilt yrði að draga það tap frá tekjum stefnanda við skattauppgjör. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu var sú að staðfestur var sá hluti úrskurðar ríkisskattstjóra sem laut að því að Matvælaiðjunni Strýtu hf. hafi ekki verið heimilt í skattframtali 1996 að nýta til frádráttar skattskyldum tekjum sínum yfirfæranlegt rekstrartap Kirkjusands hf. að fjárhæð 194.331.237 krónur. Þá var felldur úr gildi sá hluti úrskurðar ríkisskattstjóra sem laut að endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda er varðar gjaldaárið 1997. Kröfum samkvæmt b) og c) lið hér að ofan var vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2001 í var staðfest sú niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að fella úr gildi þann hluta úrskurðar ríkisskattstjóra 16. desember 1997 sem laut að endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda vegna gjaldársins 1997.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar var þess krafist af hálfu stefnanda í bréfi til ríkisskattstjóra 29. mars 2001 að hann endurákvarðaði skattskil stefnanda í samræmi við niðurstöðu dómsins. Í bréfinu var þess jafnframt krafist, að ofgreiddir skattar yrðu endurgreiddir ásamt dráttarvöxtum og vísað til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 hvað það varðaði.
Með úrskurði ríkisskattstjóra sem kveðinn var upp þann 15. maí 2001 var fallist á erindi stefnanda eins og það var fram sett og því slegið föstu að tilvitnaður dómur hefði áhrif á skattskil gjaldaáranna 1997-2000.
Með bréfi til sýslumannsins á Akureyri 16. maí 2001 krafðist stefnandi endurgreiðslu á ofteknum sköttum að fjárhæð 50.770.842 krónur og dráttarvaxta að fjárhæð 17.585.454 krónur. Dráttarvaxtakröfu sína studdi stefnandi þeim rökum að hann hefði höfðað dómsmál með stefnu birtri 9. febrúar 1999 og ætti hann rétt á greiðslu dráttarvaxta af hinum ofteknu sköttum frá þeim tíma er skattgreiðslan var innt af hendi og til þess tíma er endurgreiðsla færi fram.
Þann 17. maí 2001 greiddi stefndi stefnanda 53.275.898 krónur og samkvæmt yfirliti ríkisbókhalds voru stefnanda greiddir vextir þann 22. maí 2001 að fjárhæð 3.829.325 krónur. Stefnandi var ósáttur við að ekki væru greiddir dráttarvextir eins og hann hefði krafist og óskaði hann skýringa á því. Með bréfi ríkisbókhalds 15. janúar 2002 kom fram sú niðurstaða ríkisbókhalds að höfðu samráði við ríkiskattstjóra að hafna því að greiða dráttarvexti og greiða vexti í samræmi við 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Þá segir í bréfi ríkisbókhalds að þessi niðurstaða sé byggð á því að í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar væri ekki lagt fyrir ríkissjóð að greiða dráttarvexti. Dómsorðið lyti að því að endurákvarða gjaldstofna og opinber gjöld stefnanda og þeirra aðila sem tekið hefðu við skattalegum réttindum stefnanda. Verði dómar þessir ekki skýrðir á annan veg en þann að um þá endurákvörðun skuli alfarið miðað við lög um tekjuskatt og eignarskatt þar með talið um vaxtaútreikning.
Í málinu lýtur ágreiningur aðila að því hvort stefnda hafi borið að greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem stefndi endurgreiddi stefnanda 17. maí 2001 vegna oftekinna skatta frá þeim tíma sem stefnandi greiddi hina ofteknu skatta til endurgreiðsludags.
III
Kröfu sína um dráttarvexti kveðst stefnandi aðallega byggja á 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Í ákvæði þessu sé kveðið á um að við endurgreiðslu oftekinna skatta skuli greiða dráttarvexti frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu. Sé ákvæði þessu ætlað að ná til þeirra tilvika þegar ágreiningur sé á milli gjaldanda og stjórnvalda um grundvöll eða fjárhæð skattgreiðslu. Sé ljóst að gjaldendur þurfi sjálfir í öllum tilvikum að greiða dráttarvexti greiði þeir ekki álögð gjöld á gjalddaga og hljóti því að teljast sanngjarnt að þeir fái féð til baka með sömu vöxtum ef í ljós komi síðar að þeir hafi greitt of mikið.
Þá kveðst stefnandi einnig byggja á 4. mgr. 112.gr. laga nr. 75/1981 þar sem segi að krefjast megi dráttarvaxta af endurgreiðslu frá þeim tíma sem dómsmál teljist höfðað. Ákvæðið sé í samræmi við ákvæði vaxtalaga, sem geri ráð fyrir að dráttarvexti megi í síðasta lagi reikna frá því tímamarki er dómsmál teljist höfðað.
Með stefnu birtri 9. febrúar 1999 og þingfestri 11. febrúar 1999 hafi verið höfðað mál á hendur stefnda þar sem þess hafi verið krafist að felldur væri úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra frá 16. desember 1997 um endurákvörðun opinberra gjalda fyrir gjaldárin 1996 og 1997. Til vara hafi þess verið krafist að felldur væri úr gildi sá hluti úrskurðarins er varðaði gjaldárið 1997.
Þrátt fyrir málshöfðun stefnanda hafi honum verið gert að greiða opinber gjöld í samræmi við úrskurð ríkisskattstjóra 16. desember 1997. Samkvæmt álagningar- og innheimtuseðli 1999 hafi álögð opinber gjöld stefnda verið 77.857.387 krónur. Hafi stefnandi greitt álögð gjöld samkvæmt þessu með tveimur jöfnum greiðslum þann 30. nóvember 1999 og 30. desember 1999.
Þar sem þá þegar hafði verið höfðað mál til endurákvörðunar skattskila stefnanda heldur stefnandi því fram að með því hafi sannanlega verið lögð fram krafa um endurgreiðslu ofgreiddra skatta í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995. Jafnframt sé því haldið fram að með málshöfðuninni hafi verið höfðað dómsmál til endurgreiðslu skatta í skilningi 4. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 og verði það lagaákvæði talið eiga við um kröfur stefnanda. Með vísan til framangreindra lagaákvæða sé því haldið fram að stefnda beri að endurgreiða honum oftekna skatta ásamt dráttarvöxtum frá þeim tíma er dómsmál var höfðað. Þar sem ofgreiðsla stefnanda hafi fyrst átt sér stað eftir að dómsmál hafi verið höfðað verði eðli málsins samkvæmt að miða við þá dagsetningu er stefnandi hafi ofgreitt umrædda skatta.
Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 15. maí 2001, þar sem skattskil stefnanda hafi verið endurákvörðuð á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 202/2000, hafi lækkun tekjuskatts vegna gjaldársins 1999 numið 52.144.085 krónum. Í sama úrskurði hafi eignarskattsstofn stefnanda hækkað um 1.370.243 krónur. Ef hækkun eignarskattsstofns stefnanda sé bætt við lækkun tekjuskattsstofnsins sé ljóst að ofgreiðsla stefnanda gjaldárið 1999 hafi verið 50.770.842 krónur. Þar sem stefnandi hafi greitt 38.928.694 krónur þann 30. nóvember 1999 sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 30. desember 1999. Þann 30. desember 1999 hafi stefnandi svo greitt 38.928.694 krónur og því sé krafist dráttarvaxta af stefnufjárhæð 50.770.842 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi kveður kröfu sína um endurgreiðslu hafa verið viðurkennda að nokkru leyti enda hafi stefndi greitt stefnanda 53.275.898 krónur og verði við útreikning kröfu stefnanda tekið tillit til þeirrar greiðslu sem innt hafi verið af hendi þann 17. maí 2001 og vaxtagreiðslunnar 3.829.325 krónur sem innt hafi verið af hendi þann 22. maí 2001.
Um lagarök að öðru leyti en greint hefur verið hér að framan vísar stefnandi til vaxtalaga nr. 25/1987 og laga nr. 38/2001, sérstaklega til ákvæða 12. gr. laganna. Varðandi málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála nr. 90/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
IV
Stefndi telur að krafa stefnanda til endurgreiðslu oftekinna skatta og vaxta hafi þegar verið efnd í samræmi við lög enda hafi hvorki verið heimilt né skylt að lögum að greiða stefnanda dráttarvexti.
Stefndi kveður óumdeilt að stefnandi hafi fengið greiddar 53.275.898 þann 17. maí 2001 og vexti að fjárhæð 3.829.325 krónur þann 22. maí 2002 í samræmi við 112. gr. laga nr. 75/1981. Mótmælir hann kröfugerð stefnanda þar sem ekki sé unnt að leggja til grundvallar að hann hafi ofgreitt 38.928.694 krónur þann 30. nóvember 1999 þar sem álagningu gjaldársins 1999 hefði engu að síður verið dreift á tvo gjalddaga í nóvember og desember það ár ef hið yfirfæranlega tap, sem úrskurðað hafi verið um 1997, hefði komið til á gjaldárinu 1999.
Í máli því sem stefnandi höfðaði á hendur stefnda 9. febrúar 1999 og þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. febrúar 1999 hafi stefnandi gert kröfu um að úrskurður ríkisskattsstjóra frá 16. desember 1997 um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda fyrir gjaldárin 1996 og 1997 yrði felldur úr gildi. Ekki hafi verið gerð krafa í málinu um endurgreiðslu skatta enda hafði greiðsla ekki verið innt af hendi þegar málið var höfðað. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og síðar Hæstaréttar hafi verið fallist á kröfur stefnanda að því leyti að úrskurður ríkisskattstjóra hafi verið felldur úr gildi hvað varðaði gjaldárið 1997.
Í samræmi við lög og eðli máls hafi málsókn stefnanda ekki frestað því að félaginu væri gert að greiða opinber gjöld. Með bréfi 29. mars 2001 hafi stefnandi farið fram á það við ríkisskattstjóra að hann hlutaðist til um að endurákvörðuð yrðu skattskil stefnanda í samræmi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar. Hafi ríkisskattstjóri fallist á erindið með úrskurði sínum 15. maí 2001 en einskorðað ákvörðun sína við skattskil félagsins gjaldárin 1997-2000 enda aðrir þættir erindis stefnanda ekki á valdsviði ríkisskattstjóra. Þar sem endurákvörðun skattskila stefnanda hafi ekki legið fyrir fyrr en með úrskurði ríkisskattstjóra hafi ekki verið unnt að taka ákvörðun um endurgreiðslufjárhæð fyrr en úrskurðurinn hafi legið fyrir, en endurákvörðun ríkisskattstjóra í kjölfar dóms Hæstaréttar og samkvæmt beiðni stefnanda hafi varðað gjaldár allt til ársins 2000. Í dómsmálinu hafi eðli málsins samkvæmt á engan hátt verið fjallað um þær álagningar sem ríkisskattstjóri endurákvarðaði um vorið 2001 og gerði breytingar á. Á sama hátt hafi stefnandi ekki getað lýst kröfu sinni eða gert nánar grein fyrir henni fyrr en í fyrsta lagi að gengnum úrskurði ríkisskattstjóra 15. maí 2001, enda hafi fjögur gjaldár verið þar tekin til endurákvörðunar. Í kröfubréfi stefnanda hafi ekki verið gerð nægjanleg grein fyrir kröfunni, enda um mun flóknari útreikninga að ræða en látið sé að liggja í stefnu.
Með endurgreiðslu stefnda til stefnanda hafi verið greiddir vextir á endurgreiðslufjárhæðir vegna skattbreytinga gjaldárið 1999 í samræmi við það hvaða fjárhæðir teldust ofgreiddar miðað við hvaða álagning hefði komið til. Álagning sem hefði komið til gjaldárið 1999 í ljósi úrskurðar ríkisskattstjóra hefði til dæmis numið 26.442.282 krónum og verið skipt á tvo gjalddaga. Vextir hafi þannig verið reiknaðir af þeim fjárhæðum sem ofgreiddar höfðu talist samkvæmt því þann tíma sem það fé var í vörslu ríkissjóðs og til greiðsludags í samræmi við ákvæði 112. gr. laga nr. 75/1981. Um hafi verið að ræða vexti jafnháa hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma svo sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981. Ekki hafi verið tilefni til greiðslu dráttarvaxta samkvæmt 4. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 enda hafi dómsmál ekki verið höfðað til endurgreiðslu skatta samkvæmt lögunum.
Stefndi mótmælir því að kröfur stefnanda eigi stoð í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 þar sem skýrt komi fram í 4. mgr. 2. gr. laganna að ákvæði greinarinnar gildi ekki þar sem lög mæla fyrir um á annan veg. Vísist einnig til 2. mgr. 1. gr. laganna. Segi um 4. mgr. 2. gr. í greinargerð með frumvarpi til laganna að sérstaklega sé tekið fram í málsgreininni að ákvæði hennar gildi ekki þar sem lög mæli fyrir á annan veg, sbr. til dæmis 2. og 3. málslið 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, en þar sé að finna sérreglur um upphafstímamark vaxta og fjárhæð þeirra. Hins vegar geti ákvæði greinarinnar verið til fyllingar sérlagaákvæðum sem ekki hafi að geyma ítarleg ákvæði um endurgreiðslu. Geti ákvæði laga nr. 29/1995 ekki átt við um endurgreiðslukröfu stefnanda þar sem hún eigi undir lög nr. 75/1981. Krafa stefnanda til endurgreiðslu skatta og vaxta hafi því réttilega verið efnd á grundvelli 112. gr. laga nr. 75/1981 og beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi byggt á ákvæðum vaxtalaga nr. 25/1987 og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þar sem við eigi. Málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti sé hins vegar óljós þar sem ekki sé vikið að því hvaða ákvæði vaxtalaga hann skírskoti til eða til hvaða atvika með tilliti til upphafstíma þeirra dráttarvaxta sem hann geri kröfu til. Sérstök áhersla í stefnu á 12. gr. laga nr. 38/2001 sé órökstudd og styðji það ákvæði ekki kröfur stefnanda.
Þá bendir stefndi á að ekki sé unnt að telja 50.770.842 krónur vera þann höfuðstól sem vextir hafi verið reiknaðir af eða eigi að reikna af. Hafi stefnandi lýst þeirri tölu ranglega, þ.e. talið hana vera mun á lækkun tekjuskatts og hækkun eignarskattsstofns gjaldárið 1999. Fyrir utan það að sá útreikningur sé rangur og ekki gerður þar greinarmunur á skattstofni og skatti, sé fjárhæðin 50.770.842 krónur sú sem leiðir af úrskurði ríkisskattstjóra frá maí 2001 um að hækkun hafi orðið á opinberum gjöldum 1998 (445.538), lækkun 1999 (51.692.888 kr.) og hækkun 2000 (476.508 kr.).
Telur stefndi því að krafa stefnanda um endurgreiðslu ásamt vöxtum geti ekki byggst á öðru en 112. gr. laga nr. 75/1981 sem séu sérlög sem gangi framar almennum vaxtalögum. Samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 skuli, ef ljóst verði við endurákvörðun að gjaldandi hafi greitt meira en endanlega álögðum skatti nemi, endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Skuli vextir þessir vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma. Samkvæmt 4. mgr. 112. gr. laganna megi ætíð krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál teljist höfðað til endurgreiðslu skatta samkvæmt lögunum. Af ákvæðinu verði ráðið að greiða hafi átt stefnanda vexti sem skyldu vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga hverju sinni frá þeim tíma er stefnandi innti greiðslur af hendi. Hafi sá vaxtaútreikningur tekið mið af því hve há gjöld hefðu þá talist ofgreidd frá 30. nóvember 1999 og 30. desember 1999 til greiðsludags, allt til 22. maí 2001 og með hliðsjón af öðrum innborgunum eða millifærslum.
Lögvarin krafa stefnanda til endurgreiðslu skatta ásamt vöxtum hafi verið að fullu innt af hendi og engin rök til að greiða dráttarvexti á grundvelli 4. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 enda komi fyrst fram krafa um endurgreiðslu í þessu máli sem þegar hafði verið efnd í samræmi við lög áður en málið var höfðað. Eigi ákvæðið einungis við um það dómsmál þar sem krafist sé endurgreiðslu skatta sem ekki hefur verið innt af hendi og þar leyst úr því hvort og að hvaða marki réttur til endurgreiðslu skatta sé fyrir hendi. Mál það sem stefnandi höfðaði gegn stefnda þann 9. febrúar 1999 hafi ekki verið til endurgreiðslu skatta og engin fjárkrafa þar höfð uppi. Sé því eindregið mótmælt að með þeirri málsókn stefnanda hafi verið lögð fram krafa um endurgreiðslu skatta í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995. Kröfur og málatilbúnaður stefnanda nú eigi sér því enga stoð í því ákvæði.
Þá málsástæðu stefnanda að sanngjarnt sé að gjaldendur fái ofgreitt fé til baka með dráttarvöxtum þar sem þeir þurfi að greiða dráttarvexti kveður stefndi hvorki eiga sér stoð í lögum né öðrum réttarheimildum og mótmælir henni. Þá telur stefndi að málsástæða þessi kunni að byggja á misskilningi enda kæmu ofgreiddir dráttarvextir væntanlega til endurgreiðslu væri því að skipta, en um rétt til vaxta af endurgreiðslufjárhæð færi eftir þeim lagaákvæðum sem að framan sé lýst.
Verði talið að lög nr. 29/1995 ættu við hér telur stefndi að ekki kæmi til álita annað en 1. mgr. 2. gr. sem leiddi til sömu niðurstöðu og fyrr sé rakið. Verði niðurstaðan sú að 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 eigi við eða ákvæði vaxtalaga sé því mótmælt að upphafstími þeirra verði ákveðinn frá 30. nóvember 1999 og 30. desember það ár, svo sem í dómkröfu greini, enda hafi stefnandi í raun ekki sett fram kröfu til endurgreiðslu fyrr en með bréfi þann 16. maí 2001 til sýslumanns, sem þó hafi ekki verið rökstudd með viðhlítandi hætti. Greiðslan hafi farið fram innan 30 daga frá því að endurgreiðslukrafa var höfð uppi, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 og því enginn réttur til dráttarvaxta samkvæmt þeim lögum. Dómkröfur stefnanda eins og þær séu fram settar eigi því enga stoð í ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 eða ákvæðum vaxtalaga. Þá komi fyrri bréf stefnanda að gengnum dómi Hæstaréttar 25. janúar 2001 ekki til álita enda hafi ekki verið á valdi ríkisskattstjóra að fjalla um endurgreiðslukröfu eða unnt af hálfu aðila að gera grein fyrir henni fyrr en að gengnum úrskurði ríkisskattstjóra um endurskoðun skattskilanna.
Verði talið að 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 geti átt við væri ekki unnt að miða við annað upphafsmark en þegar rökstudd krafa til greiðslu hafi verið sett fram, en ekki sé unnt að líta svo á að kröfubréf stefnanda frá 16. maí 2001 uppfylli þau skilyrði. Endurgreiðslan ásamt vöxtum hafi verið efnd svo fljótt sem mögulega var kostur innan 30 daga frá því að hún var þekkt í kjölfar úrskurðar ríkisskattstjóra og beri því að sýkna af öllum kröfum stefnanda, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995.
Þá kveðst stefndi einnig byggja á því að greiddir vextir hafi verið hærri en numið hefði dráttarvöxtum þótt upphafstími væri miðaður við kröfubréf stefnanda. Myndi það leiða til þeirrar niðurstöðu þótt miðað væri við bréf lögmanns stefnanda frá 16. maí 2001 og einnig þótt miðað væri við bréf hans 29. mars 2001 að vextir hærri en sem næmi dráttarvöxtum frá þeim tíma hafi verið inntir af hendi 22. maí 2001.
Til stuðnings varakröfu kveðst stefndi byggja á öllum ofangreindum málsástæðum og lagarökum. Þá sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt með vísan til þess sem framan greinir. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Eins og rakið hefur verið snýst ágreiningur aðila máls þessa fyrst og fremst um það hvort stefnandi hafi átt rétt á því að fá greidda dráttarvexti á ofgreidda skatta, frá þeim tíma er hann innti af hendi greiðslur þessara ofgreiddu skatta, til endurgreiðsludags, í stað þeirra vaxta sem honum voru greiddir í samræmi við ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981. Í greinargerð sinni nefnir stefndi ýmis atriði sem hann telur geta leitt til frávísunar málsins þar sem krafa stefnanda og málatilbúnaður hans sé vanreifaður og ekki alltaf í samræmi við staðreyndir máls. Þá telur stefndi tilvísun stefnanda til vaxtalaga gera málatilbúnað hans óljósan þar sem ekki sé vikið að því hvaða ákvæði vaxtalaga hann skírskoti til eða til hvaða atvika með tilliti til upphafstíma þeirra dráttarvaxta hann geri kröfu til. Þá gagnrýnir hann tilvísun stefnanda til 12. gr. laga nr 38/2001. Stefndi gerir þó ekki kröfu um frávísun málsins og hefur stefnandi að nokkru leyti bætt úr því sem stefndi telur aðfinnsluvert við málatilbúnað hans og er það mat dómsins að málatilbúnaður stefnanda brjóti ekki í bága 80. gr. laga nr. 91/1991 þannig að vísa eigi málinu frá. Tilvísun stefnanda til 12. gr. laga nr. 38/2001 eru lagarök hans fyrir kröfu hans um vaxtavexti.
Stefnandi byggir kröfur sínar fyrst og fremst á 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Stefndi mótmælir því að þessi lög eigi við í tilviki stefnanda enda komi fram í 4. mgr. 2. gr. laganna að ákvæði hennar eigi ekki við þar sem lög mæli fyrir á annan veg. Telur stefndi að í 2. og 3. ml. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt sé að finna sérreglur sem eigi við um tilvik það sem hér er fjallað um. Í þessu ákvæði laga um tekjuskatt og eignaskatt kemur fram að ef ljóst verður þegar álagningu skatta, annarra en tekjuskatts manna, lýkur eða við endurákvörðun þessara sömu skatta að gjaldandi hefur greitt meira en endanlega álögðum sköttum nemur skuli endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Þá segir í niðurlagi ákvæðisins að ætíð megi krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað til endurgreiðslu skatta samkvæmt lögum þessum.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 segir að við endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda skuli greiða vexti sem skuli vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma af því fé sem oftekið var frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað þar til endurgreiðsla fari fram. Í 2. mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli greiða dráttarvexti samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda. Þá byggir stefnandi jafnframt á 4. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt, þar sem segir að ætíð megi krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma sem dómsmál teljist höfðað til endurgreiðslu skatta samkvæmt lögunum. Verður ekki séð annað en lög nr. 29/1995 eigi við um tilvik það sem hér er fjallað um enda óumdeilt að verið er að fjalla um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Hér er um að ræða lög sem eru yngri en lög nr. 75/1981 og er það meginregla að yngri lög gangi framar eldri lögum um sama efni. Þar sem lög þessi kunna að vera ósamrýmanleg hinum eldri ganga þau framar en af því sem rakið hefur verið um þau ákvæði sem hér eru til umfjöllunar verður ekki séð að ákvæði þessi skarist.
Byggir stefnandi á að með höfðun hans á máli til endurákvörðunar skattskila þann 9. febrúar 1999 á hendur stefnda hafi hann sannanlega lagt fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 auk þess sem með þeirri málshöfðun hafi verið höfðað dómsmál til endurgreiðslu skatta í skilningi 4. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981.
Í fyrrgreindu dómsmáli sem stefnandi höfðaði á hendur stefnda þann 9. febrúar 1999 voru gerðar þær dómkröfur að felldur væri úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra frá 16. desember 1997 um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda fyrir gjaldárin 1996 og 1997 og til vara að felldur væri úr gildi sá hluti úrskurðarins sem varði gjaldárið 1997. Þá var þess krafist að skilyrðum 57. gr. A laga nr 75/1981 hafi verið fullnægt við sameiningu Matvælaiðjunnar Strýtu hf og Kirkjusands hf. og að endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda árið 1996 og 1997 bryti í bága við 56. gr. sömu laga. Þá var þess krafist að ónotað tap Kirkjusands hf. og Matvælaiðjunnar Strýtu hf. í árslok 1995 hafi verið 194.331.237 og að heimilt væri að draga það frá tekjum stefnanda við skattuppgjör. Þá var krafist málskostnaðar. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var meðal annars sú að fella skyldi úr gildi þann hluta úrskurðar ríkisskattstjóra 16. desember 1997 sem laut að endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda vegna gjaldársins 1997 og var sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti með dómi 25. janúar 2001.
Í framangreindri málsókn var ekki til umfjöllunar krafa stefnanda um endurgreiðslu ofgreiddra skatta og því ekki unnt að fallast á það með stefnanda að með málsókninni hafi hann sannanlega lagt fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða höfðað mál til endurgreiðslu ofgreiddra skatta enda hafði stefnandi ekki á þeim tíma er málið var höfðað innt af hendi þær skattgreiðslur sem hann hefur nú fengið endurgreiddar sem ofgreiddar. Hinar ofgreiddu skattgreiðslur voru ekki inntar af hendi fyrr en í nóvember og desember árið 1999.
Eins og rakið hefur verið fjallaði framangreint dómsmál um úrskurð ríkisskattstjóra sem með dóminum var felldur niður að hluta. Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkisskattstjóra 29. mars 2001, í kjölfar dóms Hæstaréttar, var þess krafist að ríkisskattstjóri hlutaðist til um að endurákvarða skattskil stefnanda í samræmi við niðurstöðu dómsins og þess krafist að endurgreiddir verði ofgreiddir skattar ásamt hæstu dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995.
Með úrskurði ríkisskattstjóra 15. maí 2001 var fallist á erindi stefnanda og er ekki ágreiningur með aðilum um hversu há endurgreiðslan átti að vera og greiddi stefndi strax þá fjárhæð 50.770.842 krónur og nokkrum dögum síðar greiddi stefndi þá vexti sem hann taldi sér skylt að greiða samtals að fjárhæð 3.829.325 krónur og er ekki deilt um það í málinu að útreikningur þeirra sé réttur miðað við að um sé að ræða vexti samkvæmt 4. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981. Það lá því ekki fyrir fyrr en með úrskurði ríkisskattstjóra þann 15. maí 2001 hver fjárhæð endurgreiðslu til stefnanda væri vegna oftekinna skatta og fyrst þá gat hann gert kröfu um að fá hana greidda. Stefnandi gerði strax í kjölfar úrskurðarins kröfu um endurgreiðslu og var honum greidd sú fjárhæð strax daginn eftir.
Eins og nú hefur verið rakið er ljóst að um oftekna skatta var að ræða og samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 skal í slíkum tilvikum greiða vexti sem eru jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma af ofteknu fé frá þeim tíma sem greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðslan fer fram. Ákvæði 2. mgr. ákvæðisins verður ekki skilið á annan veg en að ef réttmætri kröfu um endurgreiðslu sé ekki sinnt eigi kröfuhafi rétt á dráttarvöxtum frá þeim degi sem hann sannanlega krefur um endurgreiðslu. Sami skilningur verður lagður í 4. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, þannig að ef höfða þarf dómsmál vegna kröfu um endurgreiðslu megi ætíð krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmálið teljist höfðað.
Í þessu máli lagði stefnandi sannanlega fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta með bréfi til sýslumannsins á Akureyri þann 16. maí 2001 og var honum greitt strax daginn eftir og vextir nokkrum dögum síðar. Var krafa stefnanda því efnd strax og á hann því ekki rétt á dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 frá þeim tíma sbr. það sem segir í 3. mgr. um að ekki skuli greiða dráttarvexti fari endurgreiðsla fram innan 30 daga frá því að krafa um endurgreiðslu var gerð.
Í erindi stefnanda til ríkisskattstjóra var krafist endurákvörðunar skattskila í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar og að endurgreiddir yrðu ofgreiddir skattar ásamt hæstu dráttarvöxtum í samræmi við 2. mgr. 2. gr.laga nr. 29/1995. Ríkisskattstjóri fellst á erindið. Verður sú yfirlýsing ríkiskattstjóra ekki túlkuð á annan veg en að hann fallist á að endurákvarða skattskil stefnanda svo sem hans hlutverk nær til. Þótt fram komi í úrskurði hans að hann fallist á erindi stefnanda verður það ekki túlkað svo að hann hafi með því slegið föstu að stefnandi ætti rétt á dráttarvöxtum af kröfu sinni fyrr en eftir að hann legði fram kröfu um endurgreiðslu sbr. það sem rakið hefur verið að ofan.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefndi efnt að fullu kröfu stefnanda um endurgreiðslu ofgreiddra skatta og vexti af þeirri fjárhæð sem ofgreidd var frá þeim tíma er hún var innt af hendi og þar til endurgreiðslan fór fram. Verður stefndi því þegar af þessum sökum sýknaður af kröfum stefnanda.
Eftir atvikum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti málið Eyvindur Sólnes hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Einar Karl Hallvarðsson hrl.
Dóminn kveður upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið er sýknað af kröfum stefnanda, Samherja hf.,
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.