Hæstiréttur íslands
Mál nr. 68/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 22. maí 2014. |
|
Nr. 68/2014. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Líkamsárás. Skaðabætur.
Með dómi
héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var X
sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni, A. Var
háttsemi X talin varða við 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra
hegningarlaga, en hvorki var fallist á með X að 12. gr. né 3. mgr. 218. gr. b.
laganna ættu við í málinu. Við ákvörðun refsingar var litið til 77. og 78. gr.
almennra hegningarlaga auk þess sem X hefði, þegar síðara brotið var framið,
verið kunnugt um að A bæri barn undir belti og hefði annað barn hennar hefði
verið statt á heimilinu í það sinn. Þá þótti 3. mgr. 70. gr. almennra
hegningarlaga mæla með þyngingu refsingar. Á hinn bóginn var litið til þess að
langur tími væri liðinn frá því atvik hefðu átt sér stað sem og að ákærði hefði
náð einhverjum tökum á vímuefnafíkn sinni. Var refsing X ákveðin fangelsi í 5
mánuði. Þá var honum gert að greiða A 400.000 krónur í miskabætur.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða
dóms, til vara sýknu, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst
hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara
að fjárhæð hennar verði lækkuð.
A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hún krefjist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um kröfu sína, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 468.493 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25.
nóvember 2013.
Mál
þetta, sem dómtekið var 15. nóvember 2013, höfðaði lögreglustjórinn á
höfuðborgarsvæðinu með ákæru 3. apríl 2013 á hendur:
„X, kt. [...], [...], [...], fyrir
I.
líkamsárás,
á hendur þáverandi sambýliskonu sinni, A, með því að hafa í neðangreind skipti,
á heimili hennar að [...] í [...]:
1.
Að morgni sunnudagsins 21. nóvember 2010, slegið A nokkur högg í
kjálkann og ýtti henni aftur fyrir sig svo hún lenti með bakið á borði, með
þeim afleiðingum að hún hlaut skurð og bólgu á vörum og mar á baki og
lendahrygg.
Telst
þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10.
gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
2.
Laugardaginn 13. ágúst 2011, gripið í handlegg A og slegið hana í andlit
og enni, með þeim afleiðingum að A hlaut nefbeinabrot, skurð á nefi og
kinnbeini og mar og yfirborðsáverka á hægri handlegg.
Telst
þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11.
gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
II.
fyrir
líkamsárás, á hendur stjúpmóður sinni, B, með því að hafa, að kvöldi
sunnudagsins 9. október 2011, á heimili hennar að [...] í [...], hrint B þannig
að hún datt aftur fyrir sig og lenti á hillu, með þeim afleiðingum að hún hlaut
bólgu og skurð á vinstri kinn, mar yfir hnúa litlafingurs á vinstri hendi og
eymsl yfir vinstra læri.
Telst
þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10.
gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess
er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar.“
Þá
er af hálfu Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., fyrir hönd A, kt. [...], gerð
krafa um „miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000.-, auk vaxta skv. 8. gr.
vaxtalaga nr. 38/2001 frá 13. ágúst 2011 þar til mánuður er liðinn frá því
sakborningi var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta skv. III. kafla
vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags sbr. 9. gr. sömu laga“. Þá er krafist
greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar
framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Ákæruvaldið
hefur fallið frá því atriði í ákærulið I.2 að ákærði hafi gripið í handlegg A
svo að hún hafi hlotið mar og yfirborðsáverka á handlegg. Þá hefur verið fallið
frá II. kafla ákærunnar.
Ákærði
neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfu
ákæruvaldsins og bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist
að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Til
vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.
Hinn
15. október 2012 var lagður dómur á málið en honum var síðan áfrýjað til
Hæstaréttar sem ómerkti dóminn 12. september 2013 og vísaði honum heim í hérað
til löglegrar meðferðar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 716/2012. Í
framhaldinu var boðað til fyrirtöku í málinu og síðar nýrrar aðalmeðferðar. Var
málið síðan dómtekið 15. nóvember sl.
Málavextir
Ákæruliður I.1
Samkvæmt
dagbók lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var það kl. 10:56
sunnudagsmorguninn 21. nóvember 2010 að tilkynnt var um það til lögreglunnar að
maður í [...] væri þar að berja konu sína. Fram kemur að þegar lögregla hafi
komið á vettvang hafi ákærði verið þar úti fyrir en brotaþoli, A, hafi verið
inni í íbúð sinni. Segir í færslunni að blóð hafi verið á gólfi og nokkur
glerílát hafi verið brotin. Þá hafi sést lítillega á brotaþola og hafi hún
verið ölvuð. Einnig kemur fram í dagbók lögreglu að fyrr þennan sama morgun
hafi lögregla einnig þurft að hafa afskipti af ákærðu og brotaþola þar sem þeim
hafi lent saman en tölva brotaþola hafi komið þar við sögu.
Brotaþoli
gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu 23. ágúst 2011 og var skýrslan hljóðrituð. Um
atburði að morgni dags 21. nóvember 2010 sagði brotaþoli að hún hefði verið
sofandi þann morgun en vaknað við það að ákærði hefði verið að berja í sig og
hrista sig til. Síðar sama morgun hefðu þau tekist á um fartölvu sem ákærði
hefði ætlað að taka af heimilinu. Þá hefði ákærði tekið í brotaþola og kýlt
fimm eða sex högg í andlitið svo hún marðist og fékk blóðnasir. Einnig hefði
hann kastað henni á borð þannig að brotaþoli hefði lent á bakinu.
Ákærði
var yfirheyrður um þetta sakarefni hjá lögreglu 3. nóvember 2011 og var
skýrslan hljóðrituð. Neitaði hann því að hafa veitt brotaþola þessa áverka og
kvaðst ekki vita hvernig hún hefði hlotið þá. Hann kvaðst muna eftir því að þau
hefði greint á um tölvu um haustið. Hefðu þau togast á um tölvuna, sem síðan
hefði skemmst.
Ákæruliður I.2
Laugardaginn
13. ágúst 2011 var lögregla enn á ný kölluð að heimili brotaþola. Í skýrslu C,
lögreglumanns, segir að brotaþoli hafi lýst því að hún hafi orðið fyrir ofbeldi
af hálfu ákærða. Sjáanlegir áverkar hafi verið í andliti og á hægri hendi
brotaþola.
Brotaþoli
gaf skýrslu um þetta sakarefni hjá lögreglu 23. ágúst 2011 og var skýrslan
hljóðrituð. Fram kom hjá brotaþola að ákærði hefði heimsótt hana að kvöldi 12.
ágúst 2011 og fengið að gista á sófanum hjá henni. Fyrr um kvöldið hefðu ákærði,
brotaþoli og börn hennar snætt saman. Brotaþoli hefði vaknað snemma næsta
morgun og farið í sturtu en að því loknu orðið vör við að ákærði hefði verið
búinn að klippa brjóstahaldarann hennar í sundur. Hún hefði spurt ákærða af
hverju hann hefði gert þetta, en hann hefði svarað því til að honum hefði þótt
hún tala niður til sín kvöldið áður. Þau hefðu síðan rifist og í framhaldinu
hefði ákærði rokið inn í fataherbergi brotaþola og byrjað að rífa niður kjólana
hennar. Brotaþoli hefði þá reynt að stöðva ákærða, en hann hefði þá „tuskað“
hana til. Hann hefði síðan farið inn á baðherbergi til að setja föt brotaþola
ofan í salernið. Brotaþoli hefði krafist þess að ákærði færi út úr íbúðinni og
tekið upp skæri sér til varnar. Hefði hún sagt ákærða að hún væri hrædd við
hann. Þá hefði hann slegið í hönd hennar þannig að skærin hefðu flogið á
gólfið. Síðan hefði hann „bara buffað“ hana. Myndi hún eftir því að það hefði
tekið að blæða verulega úr nefi sínu en þá hefði ákærði hlaupið út.
Ákærði
var yfirheyrður um þetta sakarefni hjá lögreglu 3. nóvember 2011 og var
skýrslan hljóðrituð. Viðurkenndi hann að hafa slegið brotaþola eitt högg í
andlitið á heimili hennar 13. ágúst sama ár. Hefði hann séð að samstundis tók
að blæða úr nefi brotaþola. Hann hefði misst stjórn á skapi sínu eitt augnablik
og kom fram í máli hans að hann iðraðist gjörða sinna. Hann neitaði þó að hafa
veist að brotaþola að fyrra bragði og sagði hana hafa ráðist á sig með skæri á
lofti. Hann hefði síðan slegið hana í andlitið.
Í
málinu liggur fyrir læknisvottorð D, yfirlæknis á bráðadeild Landspítala, en
hún meðhöndlaði brotaþola vegna áverka bæði 21. nóvember 2010, sbr. ákærulið
I.1, og 13. ágúst 2011, sbr. ákærulið I.2. Um fyrri komuna segir að brotaþoli
hafi leitað á bráðadeild um kl. 14:50. Brotaþoli hafi lýst því að sambýlismaður
hennar hafi ætlað að taka tölvu úr íbúðinni en hún reynt að hindra það. Hafi þá
komið til rifrildis milli þeirra sem endað hafi með því að sambýlismaðurinn
hafi slegið hana í andlit og sparkað í bakið á henni. Í læknisvottorðinu kemur
fram að brotaþoli hafi verið með áverka í andliti og mar á baki. Hún hafi verið
með bólgu og sár á vörum. Ekki hafi verið áverki á tönnum og ekki þurft að
sauma skurði á vörum. Á hrygg hafi sést 5 cm marblettur hægra megin á
lendhryggnum. Brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi og því verið vísað til
skoðunar hjá áfallahjálparteymi á göngudeild.
Um
komu brotaþola 13. ágúst 2011 segir meðal annars í læknisvottorðinu að
brotaþoli hafi komið á spítalann um kl. 14:00 þann dag. Hún hafi lýst því að
hún hafi nýlega slitið sambandi við sambýlismann sinn. Fljótlega eftir það hafi
hún komist að því að hún væri barnshafandi eftir manninn. Hann hafi heimsótt
hana kvöldið fyrir komuna á spítalann og varið kvöldinu með henni og börnum
hennar. Síðan hafi hann gist á sófanum hennar um nóttina. Morguninn eftir hafi
brotaþoli uppgötvað að maðurinn hafi klippt í sundur brjóstahaldara hennar sem
hafi verið inni á baðherbergi. Hafi það orðið kveikja að rifrildi milli þeirra.
Hafi maðurinn vaðið um íbúðina og síðan ruðst inn í fataskáp brotaþola, hent
fötunum hennar út og rifið þau og slitið. Við það hafi hún reiðst mjög og hafi
samskipti þeirra endað á því að hann hafi kýlt hana þungu höggi í andlitið. Um
skoðun á brotaþola segir í læknisvottorðinu að á andliti brotaþola hafi sést
töluvert „haemotoma“ eða bólga á miðju enninu rétt ofan við nefrótina.
Brotaþoli hafi verið með skurð á nefi og kinnbeini. Sneiðmynd af andlitsbeinum
hafi staðfest grun læknisins um brot í nefi. Brotaþoli hafi eftir þessa komu
reynst vera með lítið tilfært nefbeinabrot vinstra megin án teljandi skekkju á
miðsnesi. Gert hafi verið að skurði á nefi og kinnbeinum.
Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi
Ákærði
gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Um ákærulið I.1 sagði ákærði að
umræddan morgun árið 2010 hefði hann líklega verið undir áhrifum fíkniefna.
Hann neitaði að hafa slegið brotaþola. Þau hefðu tekist á um fartölvu, en
ágreiningur hefði verið um eignarhald á henni. Þeim átökum hefði lyktað þannig
að brotaþoli hefði fallið við og lent með bak eða síðu á borði. Ákærði
kannaðist ekki við að hafa séð áverka á brotaþola í framhaldinu.
Um
ákærulið I.2 sagði ákærði að 13. ágúst 2011 hefði brotaþoli í framhaldi af
rifrildi þeirra veist að sér með skærum. Tildrög rifrildisins hefðu verið þau
að ákærði klippti sundur brjóstahaldara brotaþola kvöldið áður. Hann
viðurkenndi að hafa slegið hana eitt högg í andlitið. Hann hefði séð að það
blæddi úr nefi brotaþola. Það hefði ekki verið ásetningur sinn að vinna
brotaþola mein, heldur hefði verið um sjálfsvörn að ræða. Hann viðurkenndi þó
að hafa „misst sig, séð svart“. Aðspurður hvort hann drægi í efa að afleiðing
höggsins hefði verið nefbrot brotaþola svaraði ákærði því til að um það efaðist
hann ekki. Um ástand sitt á þeim tíma sagði ákærði að hann hefði ekki verið
undir áhrifum en brotaþoli hefði verið ölvuð. Eitt barn hefði verið á heimilinu
þegar þessi atvik hefðu átt sér stað.
Brotaþoli,
A, gaf skýrslu fyrir dómi við meðferð málsins. Um ákærulið I.1 sagði hún að
ákærði hefði reiðst aðfaranótt 21. nóvember 2010 þegar hringt hefði verið í
hana úr ókunnu númeri. Hefði ákærði vakið hana með látum út af þessu og hrist
hana til í rúminu. Í framhaldinu hefðu verið „læti“. Síðan hefði hafist
ágreiningur vegna þess að ákærði hefði ætlað að taka fartölvu brotaþola með sér
úr íbúðinni. Hún hefði reynt að ná tölvunni af honum. Tölvan hefði endað á
gólfinu og ákærði hefði þá kýlt hana fimm sinnum og hent henni niður. Við það
hefðu blómapottur og vasi brotnað. Aðspurð hvort brotaþoli hefði fallið á
eitthvað svaraði hún að borð hefði verið þar sem hún féll. Þá hefði ákærði
sparkað í bakið á henni. Í kjölfarið hefði hún verið marin á höku og baki auk
þess sem hún hefði verið með sprungna vör. Um ástand sitt og ákærða sagði hún
að þau hefðu bæði verið búin að drekka nokkra bjóra fyrr um kvöldið. Að lokum
benti brotaþoli á að langt væri liðið frá því að atvik málsins hefðu átt sér
stað og því væri erfitt að rifja þetta allt nákvæmlega upp.
Um
ákærulið I.2 skýrði brotaþoli svo frá fyrir dómi að hún hefði verið ófrísk
eftir ákærða, en þau hefðu verið hætt saman. Ákærði hefði komið í heimsókn
föstudagskvöldið 12. ágúst 2011. Þau hefðu ekki neytt áfengis. Morguninn eftir
hefði hún orðið þess vör að brjóstahaldari hennar hefði verið klipptur í
sundur. Hefði ákærði viðurkennt að hafa átt sök á því. Hún hefði þá vísað honum
á dyr, en hann neitað að fara fyrr en hann fengi poka með fötum sem hefðu verið
í hans eigu. Hann hefði gengið að fataskáp brotaþola. Hún hefði ítrekað beðið
ákærða að yfirgefa heimilið. Brotaþoli viðurkenndi að hafa gripið til
föndurskæra og síðar annarra skæra. Hún hefði hins vegar ekki ógnað ákærða með
þeim heldur hefði hún hugsað sér að verja sig ef þörf krefði. Ákærði hefði þá
slegið hana í framan. Henni hefði sortnað fyrir augum, blætt og síðan hefði hún
séð stóra kúlu á enninu á sér þegar henni hefði stuttu síðar verið litið í
spegil. Þá hefði ákærði hins vegar verið hlaupinn út. Brotaþoli hefði þá verið
ein eftir með einu barna sinna. Um ástand sitt sagði brotaþoli að hún hefði
verið edrú, enda hefðu hún og ákærði ekki farið út að skemmta sér kvöldið áður.
Við
meðferð málsins fyrir dómi gaf D, yfirlæknir á bráðadeild Landspítala, skýrslu,
staðfesti læknisvottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Varðandi
áverka á andliti brotaþola við fyrri komu hennar, sbr. ákærulið I.1, lýsti D
því að þeir gætu samrýmst því að brotaþoli hefði fengið högg á munninn.
E,
lögreglumaður, var einn þeirra sem kvaddir voru að heimili brotaþola 21.
nóvember 2010, sbr. ákærulið I.1. Skýrði hann frá því fyrir dómi að ákærði og
brotaþoli hefðu bæði verið á staðnum og hefðu þau borið þess merki að vera í
annarlegu ástandi. Ummerki hefðu verið um stimpingar í íbúðinni. Í dagbók
lögreglu frá umræddum degi hefur E ritað að lítillega hafi séð á brotaþola en
blóð hafi verið á gólfi og búið að brjóta nokkur glerílát. Aðspurður fyrir dómi
gat E hins vegar ekki rifjað upp áverka á brotaþola og benti hann í því
samhengi á að um þrjú ár væru liðin frá þessum atburðum.
C,
lögreglumaður, var einn þeirra sem kvaddir voru að heimili brotaþola 13. ágúst
2011, sbr. ákærulið I.2. Hann skýrði frá því að við komu lögreglu hefði
brotaþoli verið bólgin í andliti. Fram hefði komið af hálfu hennar að hún hefði
átt í rifrildi við ákærða sem hefði stigmagnast. Brotaþoli hefði sagt að hún
hefði hvorki beitt umræddum skærum gegn ákærða umrætt sinn né notað þau til að
ógna honum. C staðfesti loks lögregluskýrslu sem hann ritaði 13. ágúst 2011 í
tengslum við málið.
F,
lögreglumaður, sinnti útkalli 13. ágúst 2011 vegna heimilisófriðar hjá
brotaþola, sbr. ákærulið I.2. Lýsti F því fyrir dómi að hann hefði tekið ákærða
upp í lögreglubifreið sína og rætt við hann. Ákærði hefði lýst því að einhver
handalögmál hefðu átt sér stað milli sín og fyrrverandi sambýliskonu sinnar, en
ekki sagt neitt nánar frá því. F hefði orðið þess var að ákærði hefði verið með
áverka á hægri hönd, „smávægilega einhverja rispu eða einhvern smá skurð“
annaðhvort í lófa eða á fingrum. Hefði F orðið var við blóð í sárinu, en það
hefði verið farið að storkna. Hefðu lögreglumennirnir ekki metið þetta sem
slíkt sár að ákærði þyrfti að leita sér læknisaðstoðar. Aðspurður um sárið
hefði ákærði svarað því til að hann hefði reynt að slá skæri úr höndum
fyrrverandi sambýliskonu sinnar. Ákærði hefði þó ekki nefnt neina ógnun af
hálfu fyrrverandi sambýliskonu sinnar eða skýrt ástæðu þess af hverju hann sló
skærin úr höndum hennar.
Niðurstaða
Ákæruliður I.1
Fyrir
liggur að lögregla var tvisvar sinnum kölluð að heimili brotaþola 21. nóvember
2010 vegna heimilisófriðar þar sem ákærði kom við sögu. Í dagbókarfærslu
lögreglu kemur fram að við seinni komu lögreglu hafi sést á brotaþola og blóð
verið á gólfi. Reyndar gat lögreglumaðurinn E, sem skráði dagbókarfærsluna,
ekki rifjað upp fyrir dómi áverka á brotaþola, en benti á að um þrjú ár væru
liðin frá atvikinu og því ætti hann erfitt með að muna þetta nákvæmlega. Bar
hann þó að ummerki hefðu verið um stimpingar í íbúðinni. Ákærði neitar sök
vegna þessa ákæruliðar. Á hinn bóginn hefur brotaþoli verið stöðug í frásögn
sinni af atvikinu og er framburður hennar í samræmi við annað sem komið hefur
fram í málinu, einkum framburð E og vottorð D, yfirlæknis, en hvort tveggja
rennir frekari stoðum undir framburð brotaþola. Samkvæmt þessu er sannað að
ákærði hafi veist að brotaþola og veitt henni þá áverka sem greinir í ákæru.
Hefur ákærði með þessu athæfi orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr.
almennra hegningarlaga.
Ákæruliður I.2
Hafa
ber í huga að ákæruvaldið hefur fallið frá þeim hluta ákæruliðar I.2 þar sem
því var haldið fram að ákærði hefði gripið í handlegg brotaþola. Eftir stendur
hins vegar sá hluti ákæruliðarins um að ákærði hafi slegið brotaþola í andlit
og enni, með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið nefbeinabrot, skurð á nefi og
kinnbeini. Ákærði neitar sök vegna þessa ákæruliðar en hefur viðurkennt að hafa
„misst sig“ og slegið brotaþola einu höggi í andlitið. Þrætir hann ekki fyrir
að höggið hafi lent á nefi brotaþola og aðspurður fyrir dómi dró hann ekki í
efa að afleiðing höggsins hefði verið nefbrot. Að þessu virtu en að öðru leyti
með vísan til annarra gagna málsins, einkum staðfests læknisvottorðs D, og loks
til trúverðugs framburðar brotaþola er sannað að ákærði hafi framið þann
verknað sem lýst er í ákærulið I.2 og þar er rétt heimfærður til refsiákvæðis.
Ákærði
hefur borið því við að háttsemi hans umrætt sinn hafi verið neyðarvörn í
skilningi 12. gr. almennra hegningarlaga og sé honum því refsilaus. Þótt telja
megi sennilegt að ákærði hafi hlotið smávægilegan skurð á hendi er hann sló
umrædd skæri úr höndum brotaþola verður ekki fallist á að 12. gr. almennra
hegningarlaga eigi við um atvik málsins, enda verður hvorki séð að brotaþoli
hafi veist að ákærða með skærunum né að nokkurt tilefni hafi verið til
hnefahöggsins sem hann veitti brotaþola í beinu framhaldi af því að hafa slegið
skærin úr höndum hennar. Þá hefur ákærði viðurkennt fyrir dómi að hafa „misst
sig, séð svart“, en við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti hann því áður að hann
hefði misst stjórn á skapi sínu umrætt sinn. Að öllu framangreindu virtu verður
því jafnframt hafnað að 3. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga geti átt við
í málinu ákærða til hagsbóta.
Ákærði
á að baki þó nokkurn brotaferil allt frá árinu 1997. Hefur hann hlotið samtals
tíu dóma, ýmist fyrir umferðar-, fíkniefna- eða hegningarlagabrot. Þá hefur
hann þrisvar sinnum gengist undir lögreglustjórasátt fyrir umferðarlagabrot,
einu sinni fyrir þjófnað og einu sinni fyrir fíkniefnalagabrot. Ákærði hlaut
síðast dóm í apríl sl. en þá var hann dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir
umferðarlagabrot og brot gegn 148. gr. almennra hegningarlaga. Brot þau sem
ákærði er nú sakfelldur fyrir framdi hann fyrir uppkvaðningu fyrrnefnds dóms.
Verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki, sbr. 77. og 78. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940.
Við
ákvörðun refsingar verður ekki fram hjá því litið að þegar ákærði framdi seinna
brot sitt var honum kunnugt um að brotaþoli bar barn undir belti, sbr. 1.
tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá var annað barna brotaþola
viðstatt á heimilinu umrætt sinn. Loks þykir 3. mgr. 70. gr. almennra
hegningarlaga mæla með þyngingu refsingar. Á hinn bóginn verður að líta til
þess langa tíma sem liðið hefur frá því að atvik málsins áttu sér stað, en um
það er ekki við ákærða að sakast. Þá bera gögn málsins loks með sér að ákærði
hafi nú náð einhverjum tökum á vímuefnafíkn sinni. Að öllu þessu virtu þykir
refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði.
Af
hálfu brotaþola hefur verið gerð sú krafa vegna ákæruliðar I.2 að ákærði greiði
henni 1.500.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt
III. kafla laganna frá 17. maí 2012 til greiðsludags. Með broti því sem ákærði
er sakfelldur fyrir samkvæmt ákærulið I.2 hefur hann bakað sér bótaábyrgð
gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Miski brotaþola
þykir hæfilega metinn 400.000 krónur og ber að dæma ákærða til þess að greiða
henni þá fjárhæð í miskabætur ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Þá
ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ómars
Arnar Bjarnþórssonar hdl., 363.950 krónur, og þóknun réttargæslumanns, Guðrúnar
Sesselju Arnardóttur hrl., 125.500 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur
verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Annan sakarkostnað, 34.500 krónur, ber
að dæma ákærða til þess að greiða.
Arnaldur
Hjartarson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði,
X, sæti fangelsi í fimm mánuði.
Ákærði
greiði A 400.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2011 til 17. maí 2012, en með
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði
málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 363.950
krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl.,
125.500 krónur, og greiði jafnframt 34.500 krónur í annan sakarkostnað.