Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-87

Anna Margrét Thoroddsen og Ólafur Ólafsson (Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður )
gegn
Bryndísi Huldu Kristinsdóttur (Hilmar Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Söluyfirlit
  • Afsláttur
  • Matsgerð
  • Upplýsingaskylda
  • Skoðunarskylda
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 17. júní 2022 leita Anna Margrét Thoroddsen og Ólafur Ólafsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. maí 2022 í máli nr. 614/2020: Bryndís Hulda Kristinsdóttir gegn Önnu Margréti Thoroddsen og Ólafi Ólafssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðendum um skaðabætur eða afslátt af kaupverði fasteignar sem gagnaðili keypti af leyfisbeiðendum árið 2016.

4. Með héraðsdómi voru leyfisbeiðendur sýknaðir af kröfu gagnaðila en í dómi Landsréttar var fallist á að gagnaðili ætti rétt til afsláttar af kaupverði fasteignarinnar. Landsréttur féllst hvorki á að leyfisbeiðendur hefðu vanrækt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 26. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup né að upplýsingar í söluyfirliti hefðu verið rangar, sbr. 27. gr. laganna. Landsréttur taldi jafnframt að tilkynningar gagnaðila um galla á fasteigninni hefðu komið fram innan frests samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laganna. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði ekki vanrækt skoðunarskyldu sína samkvæmt 29. gr. laganna, hvorki í heild né um hluta ágallanna. Með matsgerð þótti sannað að verðmætisrýrnun fasteignarinnar vegna ágalla næði því marki að fasteignin teldist gölluð í skilningi 18. gr. laga nr. 40/2002. Samkvæmt því var fallist á að gagnaðili ætti rétt til afsláttar af kaupverði fasteignarinnar á grundvelli 41. gr. laganna sem ákveða bæri í samræmi við kostnað af því að bæta úr gallanum, að teknu tilliti til verðmætisaukningar fasteignarinnar.

5. Leyfisbeiðendur byggja í fyrsta lagi á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og sé fordæmisgefandi um skýringu og beitingu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002 um tilkynningarfrest vegna galla. Þá sé málið fordæmisgefandi um áhrif þess þegar nýir byggingarhlutar koma í stað eldri við úrbætur á galla, einkum um að hve miklu leyti beri að færa kröfur niður af þeim sökum og hvort slík niðurfærsla komi til skoðunar við mat á því hvort galli rýri verðmæti fasteignar svo nokkru varði. Í öðru lagi vísa leyfisbeiðendur til þess að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína. Í þriðja lagi telja þau að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem rétturinn hafi ekki túlkað 1. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002 með réttum hætti, ekki hafi verið tekið tillit til þess að ný klæðning kæmi á húsið við mat á því hvort gallaþröskuldi væri náð auk þess sem nálgun Landsréttar á aðgæsluskyldu kaupenda hafi ekki verið rétt.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laganna. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.