Hæstiréttur íslands
Mál nr. 185/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 17. mars 2014. |
|
Nr. 185/2014. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sökum þess að ekki var talið fullnægt skilyrði lagaákvæðisins um að sterkur grunur væri á að X hefði framið þau brot sem hann var grunaður um.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. apríl 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði eru til rannsóknar hjá lögreglu nokkur mál sem beinast að varnaraðila. Er hann grunaður um þjófnað á veitingastöðum og eignaspjöll á gistiheimili í mars 2014. Einnig eru til rannsóknar líkamsárásir 4. og 13. sama mánaðar. Í fyrra sinnið er varnaraðili sakaður um að hafa af tilefnislausu ráðist að konu að kvöldlagi sem var á gangi í miðbæ Reykjavíkur. Er það brot talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í síðara skiptið er hann sakaður um að hafa skömmu eftir miðnætti ráðist að konu og slegið hana með glerflösku í höfuðið. Er það brot talið varða við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Loks er varnaraðili sakaður um að hafa síðar sömu nótt ógnað manni með hnífi á gistiheimili, en þar var hann handtekinn.
Krafa varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi er reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því ákvæði má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt ekki séu fyrir hendi skilyrði a. til d. liða 1. mgr. sömu greinar, enda leiki sterkur grunur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi og brotið sé þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Varnaraðila verður aðeins gert að sæta varðahaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vegna líkamsárásarinnar sem hann er sakaður um að hafa framið 13. mars 2014, en það brot getur varðað fangelsi allt að 16 árum, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Varnaraðili var ekki handtekinn á ætluðum brotavettvangi heldur nokkru síðar á gistiheimili eftir að þangað hafði verið óskað eftir aðstoð lögreglu. Varnaraðili hefur neitað sök. Brotaþoli hefur gefið lýsingu á þeim manni sem veittist að henni og getur sú lýsing átt við um varnaraðila. Einnig taldi vitni sig skömmu áður hafa séð mann nærri brotavettvangi og getur lýsing á honum svarað til varnaraðila. Annað liggur ekki fyrir sem bendir til að hann hafi verið að verki, en rannsókn málsins er skammt á veg komin svo sem greinir í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt þessu er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa framið brotið en á hinn bóginn er ekki fullnægt því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að sterkur grunur leiki á því. Verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi, enda er krafa sóknaraðila eingöngu reist á því ákvæði laganna.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 10. apríl 2014 kl. 16:00.
Í greinargerð Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kærði hafi í nótt verið handtekinn, grunaður um sérstaklega hættulega líkamsárás gegn konu í Ingólfsstræti, Reykjavík. Þá hafi hann jafnframt hótað sambýlisfélaga sínum með hníf á dvalarstað þeirra að [...].
Kærði sem er frá Erítreu hafi komið til Íslands þann 23. febrúar s.l. frá Noregi og sótt hér um hæli. Þann 5. mars s.l. hafi kærði einnig verið handtekinn grunaður um líkamsárás gegn konu á Bergþórugötu og þjófnaði á töskum á veitingastöðum í miðborg Reykjavíkur og þann 7. mars s.l. hafi lögregla haft afskipti af kærða á dvalarstað hans vegna eignarspjalla.
Fyrri líkamsárásin (M. 007-2014-11466) hafi átt sér stað að kvöldi 4. mars s.l. utan við Bergþórugötu 23 í Reykjavík. Hafi kona sem ekki þekkir kærða verið á gangi heim til sín þegar kærði gaf sig á tal við hana. Að lokum hafi kærði stungið upp á því að konan kæmi með honum heim. Þegar hún hafi hafnað því hafi kærði ráðist á hana með höggum og spörkum, kýlt hana í andlitið og sparkað í hana liggjandi. Vitni hafi verið að árásinni. Teknar hafi verið skýrslur af brotaþola og vitninu. Lýsing þeirra á árásarmanninum passi við lýsingu kærða. Þá hafi árásin átt sér stað mjög nærri dvalarstað kærða. Kærði hafi neitað sök hvað þetta mál varði. Myndsakbending hafi verið framkvæmd og brotaþoli bent á kærða. Hafi brotaþoli hlotið mar og eymsli hægra megin ofan á enni og eymsli og mar um framanvert læri.
Þá sé kærði grunaður um sérstaklega hættulega líkamsárás sem hafi átt sér stað s.l. nótt á Ingólfsstræti í Reykjavík (007-2014-013122). Samkvæmt framburði brotaþola sem tekinn hafi verið á slysadeild var brotaþoli að koma úr verslun 10/11 í [...] Austurstræti og hafi gengið eftir Lækjargötu þegar karlmaður, útlendingur, svartur á hörund, hafi komið upp að henni og tekið utan um hana og látið eins og hann væri vinur hennar. Hafi brotaþola fundist þetta mjög óþægilegt og stjakað manninum frá sér og forðað sér upp brekkuna meðfram Menntaskólanum í Reykjavík. Þegar hún hafi verið komin efst í brekkuna hafi hún veitt því athygli að maðurinn var á eftir henni. Hún hafi gengið áfram að verslun Bónus við Hallveigarstíg og áfram suður Ingólfsstræti og maðurinn enn verið á eftir henni. Skyndilega hafi maðurinn verið kominn alveg upp að henni og hafi ráðist án nokkurs fyrirvara á hana og slegið hana með afli með glerflösku ofan á höfuðið. Sagðist hún aðeins hafa vankast við höggið en forðað sér á hlaupum til baka eftir Ingólfsstræti í átt að Bónus við Hallveigarstíg þar sem hún hafi hitt mann sem sat í bifreið og hafi hann aðstoðað hana. Hafi hún lýst árásarmanninum sem 165-170 cm á hæð, suttklipptum með svart hrokkið hár og klæddum í svartan leðurjakka. Samkvæmt bráðabirgðalæknisvottorði hafi brotaþoli hlotið sár ofan á höfði og bólgu þar við, kúlu á enni og sár þar í, skurð á milli augnbrúna, mar og rispur á nefi, sár yfir og í hægri augnbrún, langan skurð hægra megin á kinn, rétt utan við munnvik sem nái upp að augnkrók og hafi aðeins munað 5 mm að hann næði í augað.
Vitni, starfsmaður A, Ingólfsstræti, hafi verið á vettvangi. Sagðist hann hafa verið að koma úr vinnu og farið í bifreið sína sem lagt var við Bónus. Þá hafi hann séð brotaþola koma hlaupandi norður Ingólfsstræti og hefði hún verið blóðug í framan og í miklu uppnámi. Skömmu áður, þegar vitnið hafi gengið að bifreið sinni, hafi hann séð lágvaxinn, þeldökkan mann í dökkum jakka ganga suður Ingólfsstræti og taldi vitnið sig hafa afgreitt þann mann á A um kl. 01:15.
Rannsókn málsins sé skammt á veg komin. Þrátt fyrir neitun kærða við skýrslutöku hjá lögreglu telji lögregla yfirgnæfandi líkur á að hann hafi gerst sekur um framangreinda háttsemi, þar sem brotaþoli hafi lýst kærða og svari lýsingin til kærða.
Um 30 mínútum síðar hafi lögreglan verið kölluð að [...] þar sem þrír hælisleitendur búi á efstu hæð, en tilkynnt hafi verið um mann með hníf á lofti og væri hann ógnandi (007-2014-13123). Þegar lögregla kom á vettvang hafi þeir séð mann hamast og banka á hurð inni í íbúð á gangi hússins. Lögreglan hafi bankað á dyrnar og kærði komið til dyra. Hafi hann verið rólegur en blóðugur á höndum og þá hafi verið blóðslettur á veggjum á gangi og hurðinni sem hann bankaði á þegar lögregla kom á vettvang. Kærði hafi þá verið handtekinn, þar sem lýsing hans hafi passað við lýsingu á manni sem lögregla leitaði að vegna ofangreindar líkamsárásar.
Brotaþoli, sem deili húsnæði með kærða, sagðist hafa verið heima í herbergi sínu þegar kærði hafi komið heim og greinilega verið æstur. Hafi kærði gengið um húsnæðið og barið á dyr og veggi og barði m.a. á herbergishurð vitnisins. Hafi vitnið opnað dyrnar og kærði þá staðið fyrir utan með hníf í hendi og viljað slást við vitnið. Sagði vitnið kærða hafa verið mjög æstan og til alls líklegan og náði vitnið að loka hurðinni og læsa henni og hringja eftir aðstoð lögreglu.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði játað að hafa náð í hníf í eldhús íbúðarinnar en hafi ekki endilega ætlað að drepa manninn, heldur bara særa hann. Þar sem maðurinn hafi strax farið inn í herbergi og læst að sér, þá hafi kærði ekki haft tíma til að hugsa hvar hann ætlaði að stinga manninn.
Þann 7. mars s.l. hafi lögregla jafnframt haft afskipti af kærða vegna eignaspjalla hans að Flókagötu 7, en þar hafði kærði sparkað í hurð framangreinds íbúa og skorið á rafmagnssnúru fyrir internet.
Frá því að kærði hafi komið til landsins þann 23. febrúar s.l. sé hann grunaður um tvær líkamsárásir gegn konum sem hann þekki ekki og hann hafi hitt fyrir tilviljun á gangi utandyra og ráðist á þær að tilefnislausu.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 6. mars s.l. í máli R-59/2014 hafi kærði verið úrskurðaður í farbann til 3. apríl 2014. Þá hafi Útlendingastofnun tekið ákvörðun um brottvísun kærða til Sviss, þar sem hann hafi gilt dvalarleyfi til 21. október 2014.
Telji lögreglustjóri brot þau sem hér um ræði vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarlega líkamsárás sem honum er gefin að sök og hótað manni slagsmálum, með hníf í hönd á heimili hans, sem og að hann hafi játað að hafa ætlað að særa manninn með hnífnum og hefði stungið hann hefði maðurinn ekki læst á eftir sér. Þyki brotin vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að kærði gangi laus meðan mál hans eru til meðferðar. Þá beri að líta til þess að kærði sé grunaður um ofangreinda líkamsárás frá 4. mars, þar sem brotaþoli hafi bent á kærða við myndsakbendingu. Hann hafi jafnframt játað þjófnað á veitingastaðnum B á bakpoka með verðmætum munum frá sama degi. Á myndbandsupptöku frá þeim sama degi sjáist hann stela handtösku af veitingastaðnum C og munir úr því broti hafi fundist við húsleit á dvalarstað hans. Þá hafi lögreglan haft afskipti af kærða á dvalarstað hans að [...] vegna eignaspjalla.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um, teljist uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, enda geti líkamsárásin aðfararnótt 13. mars varðað að lögum 16 ára fangelsi og sé þess eðlis að telji verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Sakarefni málanna séu talin varða við 1. mgr. 217. gr., 2. mgr. 218. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Eins og rakið hefur verið og að öðru leyti með vísan til rannsóknargagna er kærði undir sterkum grun um að hafa framið þrjú brot á skömmum tíma, þar af tvö sl. nótt. Annað þeirra átti sér stað laust fyrir kl. 02:00 s.l. en um var að ræða fólskulega líkamsárás á vegfaranda, þar sem hættulegri aðferð var beitt með alvarlegum afleiðingum. Brotaþoli gaf greinargóða lýsingu á árásarmanninum auk þess sem að vitni á vettvangi gaf lýsingu á honum sem samræmdist þeirri fyrri. Umrætt brot er réttilega heimfært undir 2. mgr. 218. gr. alm. hgl. og varðar fangelsi allt að 16 árum. Þegar litið er til eðlis þessa tiltekna brots og alvarleika verður að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, að kærði sé úrskurðaður í gæsluvarðhald. Rannsókn málsins er skammt á veg komin en að sögn fulltrúa lögreglunnar miðar henni vel áfram.
Með vísan til ofangreinds eru talin uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. apríl 2014 kl. 16:00.