Hæstiréttur íslands
Mál nr. 559/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Málsóknarumboð
- Lögbann
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
Nr. 559/2008. |
Fimmtudaginn 6. nóvember 2008. |
|
Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar(Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Málsóknarumboð. Lögbann. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Héraðsdómur vísaði frá kröfu félagasamtakanna S á hendur I og SL, þess efnis að viðurkennt yrði að I og SL væri óheimilt að starfrækja vefsíðu, sambærilega nánar tilgreindri vefsíðu sem þeir höfðu starfrækt. Þá var einnig vísað frá héraðsdómi kröfu S um staðfestingu lögbanns. S kærði úrskurð héraðsdóms og krafðist þess að honum yrði hrundið. I og SL kærðu einnig úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kröfðust þess m.a. að vísað yrði frá héraðsdómi öðrum kröfuliðum en gert hafði verið í hinum kærða úrskurði. Þá kærðu þeir einnig úrskurð héraðsdóms um að ákvörðun um málskostnað biði dóms. Vísað var frá Hæstarétti kröfum I og SL varðandi kröfu þeirra um frávísun annarra kröfuliða S, en vísað hafði verið frá í hinum kærða úrskurði, þar sem ekki væri heimild í lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til að kæra til Hæstaréttar synjun héraðsdóms um að vísa máli frá dómi í heild eða hluta. Einnig skorti kæruheimild til að krefjast málskostnaðar í héraði og var því þeirri kröfur I og SL vísað frá dómi. Í málinu lágu fyrir umboð til samtakanna frá um 150 félagsmönnum til S. Með hliðsjóna af fyrri fordæmum Hæstaréttar, og efni umboðanna, var talið að félagsmenn S hefðu veitt samtökunum málsóknarumboð til að fara með kröfu um staðfestingu lögbanns, og felldi Hæstiréttur því úr gildi frávísun héraðsdóms á kröfu um staðfestingu á því. Hæstiréttur staðfesti hins vegar úrskurð héraðsdóms um að vísa frá dómi kröfu S, um að viðurkennt yrði að I og SL væri óheimilt að starfrækja vefsíðu, sambærilega þeirri sem þeir höfðu starfrækt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. september 2008, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði að varnaraðilum væri óheimilt að starfrækja vefsíðu, sambærilega vefsíðunni www.torrent.is, sem geri notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur sóknaraðila eiga höfundarrétt að, án samþykkis rétthafa. Einnig var kröfu sóknaraðila um staðfestingu lögbanns, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði 19. nóvember 2007 við því að varnaraðilar starfræktu vefsíðuna www.torrent.is vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar kærðu úrskurðinn fyrir sitt leyti 10. október 2008. Þeir krefjast þess að fyrsta kröfulið sóknaraðila verði vísað frá dómi í heild sinni, en með honum krefst sóknaraðili að viðurkennt verði með dómi að varnaraðilum sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is, eða aðra sambærilega vefsíðu, sem gerir notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur sóknaraðila eigi höfundarrétt að, án samþykkis rétthafa. Í öðru lagi krefjast þeir staðfestingar á úrskurði héraðsdóms þar sem kröfu sóknaraðila um staðfestingu lögbanns var vísað frá dómi. Í þriðja lagi krefjast varnaraðilar þess að úrskurði héraðsdóms um að hafna öðrum frávísunarkröfum þeirra verði hrundið. Í fjórða lagi er þess krafist af hálfu varnaraðila að hrundið verið úrskurði héraðsdóms þess efnis að ákvörðun um málskostnaðar bíði dóms, og þess krafist að varnaraðilum verði dæmdur málskostnaður í héraði úr hendi sóknaraðila. Loks krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar. Um kæruheimild vísa varnaraðilar til g. og j. liða 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991.
I
Samkvæmt j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 má kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms um að máli sé vísað frá dómi. Í lögum er hins vegar ekki heimild til að kæra til Hæstaréttar synjun héraðsdóms um að um að vísa máli frá dómi í heild eða að hluta. Breytir engu í þessu efni þótt máli hafi að hluta verið vísað frá héraðsdómi og gagnaðili nýti sér kæruheimild í fyrrnefndum j. lið 143. gr. varðandi þá kröfuliði sem frá var vísað. Endurskoðun á úrskurði héraðsdóms verður að þessu leyti aðeins við komið í tengslum við áfrýjun á efnisdómi í málinu, sbr. 1. mgr. 151. gr. laga nr 91/1991. Því er vísað frá Hæstarétti kröfum varnaraðila um frávísun annarra kröfuliða en vísað var frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt g. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 má kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um ómaksþóknun, málskostnað eða gjafsóknarlaun, enda sé ekki kveðið á um annað í úrskurði. Varnaraðila brestur því einnig kæruheimild til að krefjast málskostnaðar í héraði úr hendi sóknaraðila. Er þeirri kröfu því einnig vísað frá Hæstarétti.
II
Málvöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar er rakið hefur menntamálaráðherra veitt sóknaraðila lögformlega viðurkenningu samkvæmt 23. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. B-deild Stjórnartíðinda nr. 215/1996, þar sem í 1. mgr. 23. gr. nefndra laga er skilyrði að samtök annist gæslu hagsmuna fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda. Þá liggur fyrir að sóknaraðili hefur gert gagnkvæma samninga um hagsmunagæslu við erlend systursamtök í fjölmörgum ríkjum. Hann getur því farið með hagsmunagæslu í eigin nafni í skjóli málsóknarumboðs að því er varðar kröfur um greiðslu fyrir nýtingu á höfundarétti á viðkomandi sviði, sbr. forsendur dóms Hæstaréttar 11. apríl 2008 í máli nr. 146/2008, og átt í eigin nafni aðild fyrir dómi að kröfum er lúta að vernd hagsmuna höfunda sem tengst geta greiðslum fyrir slíkan höfundarétt, þar með talið um lögbann og staðfestingu á því, enda hafi höfundar veitt samtökunum umboð til slíkrar hagsmunagæslu, sbr. dóm Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 194/2008. Sóknaraðili hefur lagt fram umboð frá rúmlega 150 félagsmönnum. Í þeim öllum er sóknaraðila veittur réttur til málshöfðunar til verndar höfundarétti. Þau umboð sem félagsmenn hafa veitt sóknaraðila síðustu tuttugu árin eru samhljóða: „Ég undirritaður/undirrituð framsel hér með til Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEFs) einkarétt til gæslu höfundaréttar að öllum tónverkum mínum og/eða tilheyrandi textum. Tekur framsal þetta til hvers konar hagsmunagæslu varðandi höfundarétt minn, hvort heldur sem er á sviði flutnings, fjölföldunar eða sæmdarréttar. Hefur STEF umboð og einkarétt til þess að framkvæma hvaðeina til verndar höfundahagsmunum mínum, þ. á m. til þess að semja um gjöld fyrir afnot verka minna og að innheimta gjöldin, til málshöfðunar til verndar hagsmunum mínum, svo og til þess að framkvæma hvaðeina er hér að lýtur og henta þykir. ...“ Er efni þessara umboða í samræmi við samþykktir sóknaraðila sem staðfestar voru 1996 af menntamálaráðherra eins og að framan er rakið. Verður að skýra orðalag umboðanna svo að í þeim felist heimild til handa sóknaraðila til höfðunar máls til staðfestingar á lögbanni og aðgerða sem eru nauðsynlegur undanfari slíkrar málsóknar. Samkvæmt þessu verður hrundið ákvæði hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila um staðfestingu lögbanns sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði 19. nóvember 2007 við því að varnaraðilar starfræktu vefsíðuna www.torrent.is og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfuna til efnismeðferðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði með dómi að varnaraðilum sé óheimilt að starfrækja vefsíðu sambærilega vefsíðunni www.torrent.is, sem geri notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur sóknaraðila eiga höfundarrétt að, án samþykkis rétthafa.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kærumálskostnað.
Dómsorð:
Kröfum varnaraðila, Istorrent ehf. og Svavars Lútherssonar, um frávísun annarra kröfuliða sóknaraðila, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, en vísað var frá dómi með hinum kærða úrskurði og um málskostnað í héraði er vísað frá Hæstarétti.
Fellt er úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila um staðfestingu lögbanns sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði 19. nóvember 2007 við því að varnaraðilar starfræktu vefsíðuna www.torrent.is og lagt fyrir héraðsdóm að taka þá kröfu til efnismeðferðar.
Staðfest er ákvæði hins kærða úrskurðar að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að varnaraðilum sé óheimilt að starfrækja vefsíðu, sambærilega vefsíðunni www.torrent.is, sem geri notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni, sem umbjóðendur varnaraðila eiga höfundarétt að, án samþykkis rétthafa.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. september 2008.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 3. þ.m., er höfðað 20. maí 2008 af Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), Laufásvegi 40 í Reykjavík, á hendur Istorrent ehf., Borgartúni 25 í Reykjavík, og Svavari Lútherssyni, Burknavöllum 17C, Hafnarfirði.
Í málinu gerir stefnandi eftirfarandi dómkröfur.
„Að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu sem gerir notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarrétt að án samþykkis rétthafa. Til vara að stefndu verði bannað með dómi að gera notendum vefsíðunnar www.torrent.is kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarétt að án samþykkis rétthafa.
Að lögbann sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði þann 19. nóvember 2007, við því að stefndu starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að verði staðfest með dómi.
Að viðurkennd verði bótaskylda stefndu.“
Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þeir gera jafnframt þá kröfu að stefnanda verði gert að greiða þeim skaðabætur fyrir ólögmætar lögbannsaðgerðir, þannig: Stefnda Istorrent ehf. 20.000.000 krónur auk 6.000.000 króna fyrir hvern mánuð sem lögbann stendur yfir eða aðra upphæð að álitum. Stefnda Svavari 5.000.000 krónur auk 500.000 króna fyrir hvern mánuð sem lögbann stendur yfir eða aðra upphæð að álitum.
I.
Í stefnu er málavöxtum lýst svo að stefndu hafi frá árinu 2005 starfrækt vefsíðuna torrent.is. Sé vefsíðan vettvangur netsamfélags sem stefndi Svavar hafi stofnað til og kallast „Istorrent“ og hafi þann tilgang að dreifa milli meðlimanna allskyns hljóð- og myndefni án endurgjalds. Tæknilega sé vefsíðan reist á svokallaðri torrent/BitTorrent tækni sem sé skráarskiptikerfi sem nýti netið (internetið) sem gagnaflutningsleið. Vefsíðan virki þannig að einn leiðarþjónn (e. Tracker) er settur upp, en þar geti síðan netnotendur hlaðið upp litlum leiðarvísi (.torrent) sem sé tilvísun í hvernig nálgast megi ákveðna skrá hjá öðrum. Einn notandi geti þá séð leiðarvísinn fyrir þessa tilteknu skrá hjá öðrum og sótt efnið frá honum og raunar öllum þeim sem dreifa sömu skrám í gegnum vefsíðuna. Það sem geri þetta kleift sé leiðarþjónninn (BitTorrent) sem auðkenni alla tengda notendur og hjálpi leitarhugbúnaði þeirra að skipta á milli sín brotum af þeim skrám sem leitað er að við aðra notendur á öðrum tölvum sem tengdar eru inn á leiðarþjóninn. Leiðarþjónninn sem tengir saman notendur torrent.is og geri skráarskiptin á þeirri vefsíðu möguleg sé starfræktur af stefndu. Aðild að vefsíðunni sé grundvölluð á svokölluðum boðslyklum. Þeir einir fái aðgang að vefsíðunni og skráarskiptum þar sem fái um það sérstakt boð frá stefndu. Aðildin sé síðan bundin ákveðnum kvöðum. Stefndu hvetji með þeim til þess að þeir sem nota vefsíðuna deili með sér sem mestu efni. Stefndu heimili þó einstökum notendum vefsíðunnar lausn undan þeirri kvöð með því að greiða stefndu tiltekna peningaupphæð. Tekjur stefndu af þessari tilhögun hafi numið 500.000 krónum í októbermánuði 2007 og fari vaxandi eftir því sem stefndi Svavar hafi sjálfur upplýst við fyrirtöku lögbannsgerðar 19. nóvember 2007. Ljóst sé því að stefndu hafi verulegan fjárhagslegan ávinning af brotum á höfundaréttindum umbjóðenda stefnanda. Meðlimafjöldi torrent.is hafi aukist jafnt og þétt ár frá ári og notendur vefsíðunnar verið um 26 þúsund talsins þegar gripið var til lögbannsaðgerða gegn starfrækslu hennar 19. nóvember 2007. Í skilmálum síðunnar hafi verið lagt bann við því að samtök höfundarétthafa, lögregla eða aðrir sem gæta hagsmuna höfundarétthafa fái notendaaðgang að vefsíðunni. Hafi stefnandi því ekki haft tækifæri til þess að kanna í þaula umfang skráarskipta á höfundaréttarvörðu efni meðal notenda torrent.is.
Það hljóð- og myndefni sem notendur síðunnar hafi fengið aðgang að og deilt með sér sé að langmestu leyti efni sem njóti höfundarréttarverndar, svo sem íslensk og erlend tónlist, kvikmyndir, sjónvarpsefni ýmiskonar og tölvuleikir, svo það helsta sé nefnt. Öll birting og dreifing á efni þessu sé án heimildar hlutaðeigandi rétthafa. Auk framangreinds hljóð- og myndefnis fari fram töluverð dreifing á vefsíðunni á tölvuforritum sem einnig njóti höfundaréttarverndar. Þannig hafi notendur síðunnar deilt sín í milli nýútkominni tónlist, stundum áður en til formlegrar útgáfu hennar hefur komið, nýjum kvikmyndum sem verið er að sýna í kvikmyndahúsum hér á landi og íslenskum sjónvarpsþáttum sem framleiddir eru fyrir áskriftarsjónvarp, svo dæmi séu tekin. Vefsíðan hafi því verið vettvangur fyrir skipulögð og stórtæk höfundaréttarbrot. Að auki dreifi notendur vefsíðunnar sín í milli klámefni og brjóti með því gegn almennum hegningarlögum, en ætla verði að stór hluti notenda síðunnar séu börn og ungmenni og klámefnið því aðgengilegt þeim.
Í stefnu segir að stefnandi hafi ítrekað bent stefnda Svavari á að milliganga torrent.is til þess að birta og fjölfalda höfundaréttarvarið efni brjóti gegn höfundalögum og árangurslaust skorað á hann, meðal annars bréflega, að láta af þessari starfsemi. Stefndu hafi lýst því yfir að með milligöngu sinni brjóti þeir ekki höfundalög, það sé á ábyrgð notenda síðunnar að þeir hafi heimild til dreifingar á efni. Stefndu geri það hins vegar tæknilega mögulegt fyrir notendur síðunnar að deila með sér efni í gegnum leiðarþjón sem þeir starfrækja og sem tengir saman notendur vefsíðunnar, en það sé tæknileg forsenda þess að þeim sé kleift að skiptast á efninu. Án starfrækslu stefndu á leiðarþjóninum og því sem honum tilheyrir væri notendum torrent.is ókleift að fá aðgang að og deila með sér efni sem nýtur höfundaréttarverndar. Að auki hafi stefndi Svavar lýst því yfir opinberlega að dreifing slíks efnis á vefsíðunni fari ekki á bága við lög.
Þegar í ljós var komið að framangreindar tilraunir stefnanda til þess að stöðva dreifingu höfundaréttarvarins efnis á vefsíðunni torrent.is báru ekki árangur og sökum aðgerðarleysis lögreglu hafi stefnandi sjálfur farið að kanna möguleika á að staðreyna umfang höfundaréttarbrota á torrent.is. Þar sem stefnanda hafi verið bannaður aðgangur að vefsíðunni hafi verið leitað til einstaklinga sem höfðu aðgang að henni um aðstoð til þess að afla þessara upplýsinga. Hafi þá komið í ljós að nánast eingöngu sé um að ræða miðlun á efni sem nýtur höfundaréttarverndar og sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að.
Þessu næst og á grundvelli útprentana af torrent.is í október og nóvember 2007 er staðhæft í stefnu að notendur vefsíðunnar hafi á þessu tímabili meðal annars deilt sín í milli efni sem ýmisst innihaldi íslenska tónlist sem sé í höfundareigu félagsmanna stefnanda eða umbjóðenda erlendra systursamtaka stefnanda sem hann hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hér á landi. Eru þar tilgreindar íslenskar og erlendar kvikmyndir, teiknimyndir, hljómdiskar með íslenskum og erlendum flytjendum og sjónvarpsþættir. Rétthafar hafi ekki gefið leyfi til birtingar eða fjölföldunar á þessu efni meðal notenda torrent.is með þeim hætti sem fyrrgreindar útprentanir beri með sér. Af þeim sökum hafi stefnandi og önnur höfundaréttarsamtök óskað eftir því við sýslumann að lagt yrði lögbann við starfrækslu vefsíðunnar www.torrent.is og því að stefndu gerðu notendum vefsíðunnar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að. Hafi sýslumaður fallist á beiðni um lögbann 19. nóvember 2007. Stefnandi og önnur höfundaréttarsamtök sem að lögbannsbeiðninni stóðu hefðu síðan höfðað mál til staðfestingar á lögbanninu. Því máli hafi hvað stefnanda varðar verið vísað frá dómi, en Hæstiréttur hafi kveðið upp dóm þess efnis 8. maí 2008. Hafi stefnandi í kjölfarið lagt málið að nýju fyrir dóm til staðfestingar lögbanninu og viðurkenningar á öðrum kröfum sínum í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar.
Stefnendur byggja kröfur sínar á því að stefndu hafi ýmist sjálfir eða fyrir hlutdeild staðið að stórfelldum brotum á höfundarétti umbjóðenda stefnanda með því að halda úti vefsíðunni torrent.is í því skyni að skapa vettvang fyrir þúsundir einstaklinga til þess að skiptast með ólögmætum hætti á höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni, það er birta efnið og dreifa því án heimildar rétthafa. Þar sem samþykki þeirra rétthafa sem eru meðlimir í samtökum stefnanda skorti fyrir þessari birtingu og dreifingu efnis meðal notenda www.torrent.is sé um að ræða brot á höfundarétti rétthafanna, sem falli undir fébóta- og refsiábyrgð höfundalaga nr. 73/1972 með síðari breytingu. Vísa stefnendur um þetta til 3. gr. laganna, en samkvæmt því ákvæði hafi höfundur einkarétt á að gera eintök af verki sínu og birta það. Verk teljist birt þegar það er með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega eða eintök af því hafa verið gefin út, sbr. 2. gr. laganna og ákvæði 3. gr. tilskipunar 2001/29/EB, sem tekin hafi verið upp í EES-samninginn. Ákvæði tilskipunarinnar vísi til birtingar á netinu. Það að setja hljóð- eða myndefni á netið þannig að það verði aðgengilegt almenningi teljist birting í skilningi höfundalaga og sé birting ólögmæt ef ekki nýtur við heimildar frá rétthafa. Grannréttindi veiti sömu réttindi til flytjenda, það er til eintakagerðar og dreifingar á flutningi, sbr. 2. mgr. 45. gr. höfundalaga, og framleiðenda, sbr. 2. mgr. 46. gr. laganna, það er til eftirgerðar og dreifingar á hljóðritum og myndritum. Upp- og niðurhal á hljóð- og myndefni af netinu teljist vera eintakagerð í skilningi höfundalaga. Samkvæmt 46. gr. laganna sé eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplatna, óheimil án samþykkis framleiðanda uns 50 ár eru liðin frá gerð frumupptökunnar. Af þessu leiði að sú dreifing á höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni sem eigi sér stað á www.torrent.is án samþykkis rétthafa sé skýlaust brot á framangreindum einkarétti til dreifingar efnisins.
Með því að reka, stjórna og nota www.torrent.is hafi stefndu brotið gegn framangreindum ákvæðum höfundalaga. Hvað svo sem þeirra eigin birtingu og deilingu á höfundarréttarvörðu efni líður þá hafi stefndu, með því að hvetja notendur að www.torrent.is til að birta og deila með sér höfundarréttarvörðu efni, orðið hlutdeildarmenn í framangreindum brotum notenda vefsíðunnar, sbr. 22.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í nánari umfjöllun í stefnu um þá kröfu stefnanda að stefndu verði gert óheimilt að starfrækja vefsíðuna torrent.is segir að hún sé byggð á því að starfsemi vefsíðunnar felist í því að gera notendum að vefsvæðinu kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis ýmsu höfundaréttarvörðu efni á tilskilinnar heimildar rétthafa. Starfsemi vefsíðunnar sé í eðli sínu tæki til skipulagðrar brotastarfsemi. Starfsemin miði að því að brjóta með skipulögðum hætti á höfundarétti félagsmanna stefnanda og annarra höfunda, en hafi ekki annan tilgang. Í ljósi þessa verði hin skipulagða ólögmæta starfsemi stefndu á vefsíðunni www.torrent.is ekki upprætt nema starfsemi vefsíðunnar í því horfi sem stefndu hafa rekið hana verði hætt, en ella megi búast við að skipulögðun höfundaréttarbrotum verði haldið áfram með tilheyrandi tjóni fyrir stefnanda og umbjóðendur hans. Krafan um að stefndu verði bannað að halda úti sambærilegri síðu sé byggð á þeim rökum að stefndu geti með auðveldum hætti sett upp sambærilegt vefsvæði í sama ólögmæta tilgangi og rekstur www.torrent.is miði að. Í ljósi þess að stefndu séu nú þegar aðilar að rekstri sambærilegra vefsíðna megi ætla að verði orðið við kröfu um bann við starfrækslu vefsíðunnar www.torrent.is megi vænta þess að stefndu hefji rekstur samskonar ólögmætrar starfsemi undir öðru léni. Með þessari kröfu sé því leitast við að koma í veg fyrir að stefnandi þurfi að standa í sífelldum málaferlum við stefndu vegna ólöglegra skráarskipta á höfundaréttarvörðu efni fyrir þeirra tilstilli á veraldarvefnum. Varakrafan miði síðan að því að verði ekki fallist á kröfu um bann við starfrækslu vefsíðunnar www.torrent.is og sambærilegra vefsíðna verði stefndu bannað að gera notendum að vefsíðunni kleift að deila innbyrðis höfundaréttarvörðu efni án samþykkis rétthafa, umbjóðenda stefnanda.
Í stefnu og af gefnu tilefni er sérstaklega tekið fram að það sé skoöun stefnanda að starfsemi vefsíðunnar www.torrent.is falli ekki undir lög nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.
Þá tiltekur stefnandi sérstaklega að af 8. gr. höfundalaga leiði að stefndu verði að sýna fram á að þeir hafi haft heimild til þess að standa fyrir dreifingu á framangreindu höfundarréttarvörðu efni. Stefnendur þurfi einungis að sýna fram á höfundarétt sinn að efninu.
Við ákvörðun um hvort skilyrði lögbanns hafi verið uppfyllt beri að hafa í huga að tilskipun 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu hafi verið tekin upp í EES- samninginn og efnislega innleidd í gildandi höfundalög. Vísar stefnandi til þess að 8. gr. tilskipunarinnar hafi þýðingu við úrlausn málsins. Sambærileg ákvæði séu meðal annars einnig í samningi Íslands um Alþjóðaviðskiptastofnunina, sbr. fylgisamning um hugverkarétt í viðskiptum (e. Trade Related Aspects of Intellectual Property Rights). Inntak framangreindra ákvæða sé að tryggja að ekki séu gerðar um of íþyngjandi kröfur til rétthafa höfundarvarins efnis við að vernda réttindi sín, meðal annars með lögbanni.
Stefnandi bendir sérstaklega á að réttarreglur um refsingar og/eða skaðabætur úr hendi gerðarþola tryggi með engu móti þá fjárhagslegu hagsmuni sem hér um ræðir. Í því efni skipti öllu máli að fjárhagslegt tjón af ólögmætri dreifingu á höfundaréttarvörðu efni í gegnum www.torrent.is skipti hundruðum milljóna króna og bersýnilegt sé að stefndu hafa ekki fjárhagslega getu til að standa undir greiðslu fullra skaðabóta til tjónþola. Önnur úrræði en lögbann hafi ekki verið stefnanda fær svo sem hér stendur á.
Með hliðsjón af öllu framangreindu telur stefnandi ótvírætt að skilyrðum lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. hafi hér verið verið fullnægt og því beri að staðfesta lögbannsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði 19. nóvember 2007.
Stefnandi heldur því fram að háttsemi stefndu hafi valdið þeim fjártjóni. Með því að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is gagngert í því skyni að gera notendum hennar kleift að skiptast á höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni án heimildar rétthafa hafi rétthafarnir orðið fyrir verulegu fjártjóni. Í ljósi þessa telur stefnandi að stefndu séu skaðabóatskyldir gagnvart honum og skilyrði séu til slíks viðurkenningardóms, enda sé hinu meinta tjóni lýst í stefnu með nægilega glöggum hætti og sýnt fram á í hverju það sé fólgið. Því sé fullnægt áskilnaði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.
Um aðild vísa stefnendur til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og almennra reglna um umboð og dómvenju um málsóknarumboð höfundaréttarsamtaka fyrir hönd félagsmanna sinna.
II.
Í greinargerð segir að Istorrent ehf. sé félag sem stofnað hafi verið í kringum frjáls skráarskipti yfir Internetið. Félagið hafi rekið samfélagið Istorrent og vefsíðuna www.torrent.is frá október 2007 og allt þar til sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði lögbann á starfsemi vefsins 19. nóvember sl. Stefndi Svavar sé einn af eigendum Istorrent ehf. og starfsmaður fyrirtækisins. Hann hafi verið einn af þeim aðilum sem önnuðust rekstur vefsíðunnar www.torrent.is áður en stefndi Istorrent ehf. tók við rekstri hennar.
Stefndu mótmæla málsatvikalýsingu stefnanda hvað varðar flest meginatriði. Þannig séu tæknilegar skýringar stefnanda ófullnægjandi og rangar, en slíkar skýringar hafi þýðingu fyrir lagalega stöðu aðila. Öllum fullyrðingum um ólögmæta hegðun stefndu er sérstaklega mótmælt.
Þeirri fullyrðingu að stefndu geri engan greinarmun á frjálsum skráarskiptum og ólögmætum brotum á höfundarétti er mótmælt sérstaklega. Hið rétta sé að í reglum stefnda Istorrent ehf. séu hvers konar brot gegn höfundarétti bönnuð, sem og önnur lögbrot. Það sé einfaldlega rangt að öll skráarskipti séu ólögleg eða feli í sér brot á höfundarétti þar til annað sé sannað. Öll samskipti á netinu byggist á því að upplýsingar fari á milli notenda og einungis hluti þeirra upplýsinga sé varinn höfundarétti.
Skráarskipti á Internetinu sé það kallað þegar einn notandi þess sendir öðrum notanda Internetsins gögn með rafrænum hætti. Skráarskipti geti átt sér stað með margvíslegum leiðum og tækni, til dæmis með venjulegum tölvupósti eða samskiptaforritum líkt og MSN og með milligöngu spjallrása (IRC). Einnig fari skráarskipti fram með aðstoð símtækja, til dæmis GSM síma. Ein leið til að skiptast á skrám sé með þar til gerðum vefsíðum, líkt og www.torrent.is, en þar sé tækni sem nefnd hafi verið BitTorrent tækni, notuð við skráarskiptin. Margvíslegar leiðir séu þannig færar fyrir notendur nútímatækni til að fá aðgang að og deila hljóð- og myndefni.
Því verði ekki neitað að sumir notendur Internetsins brjóta gegn lögum um höfundarétt. Notendur www.torrent.is hafi verið um 26.500 þegar umrætt lögbann var sett á og ekki sé hægt að fullyrða að öll skráarskipti þeirra hafi verið í samræmi við höfundaréttarreglur. Slík mál hafi komið upp hjá Istorrent ehf. eins og flestum eða öllum fyrirtækjum sem veita þjónustu yfir Internetið. Óhjákvæmilegt sé til dæmis annað en Síminn hf., Vodafone ehf. og Hive ehf. hafi lent í því að tæknibúnaður þeirra og vefsíður hafi verið notaður við skráarskipti sem brotið hafi höfundarétt.
Í hvert skipti sem Istorrent ehf. barst lögleg tilkynning frá rétthafa um að einhver notandi www.torrent.is væri að dreifa því með tilstuðlan vefsíðunnar án leyfis rétthafans hafi verið brugðist við eins skjótt og mögulegt var og slíkt efni fjarlægt af vefsíðunni. Reglur vefsíðurnar séu skýrar og brot á þeim reglum ekki liðin. Að mati stefndu sé ekki hægt að gera ríkari kröfur á Istorrent ehf. og aðra þjónustuveitendur Internetsins til þess að koma í veg fyrir hugsanleg brot notendanna á höfundarétti.
Fullyrðingu stefnanda um að hann hafi ekki haft aðgang að vefsvæði stefnda þegar lögbannskrafan var sett fram er mótmælt. Á þeim tíma hafi ekkert verið í reglum eða skilmálum Istorrent ehf. sem takmarkað hafi rétt stefnanda til þess að nýta sér þá þjónustu til samskipta og skráarskipta við jafningja sem finna má á vefsvæðinu www.torrent.is. Tilvitnanir í eldri reglur hafi hér enga þýðingu. Við aðalmeðferð fyrra staðfestingarmálsins hafi ennfremur verið upplýst að framlögðum gögnum um meint höfundaréttarbrot hafi verið safnað saman af forsvarsmanni Smáis, eins lögbannsbeiðanda.
Ásakanir um dreifingu klámefnis til ungmenna séu vart svaraverðar enda engum gögnum studdar. Telji stefnandi sig búa yfir upplýsingum um hegningarlagabrot beri honum að tilkynna það til lögreglu. Slíkar ásakanir hafi áður verið rannsakaðar af lögreglu, sem ekki hafi talið ástæðu til þess að aðhafast frekar, enda hvorugur stefndu ábyrgur fyrir hugsanlegum lögbrotum þriðja aðila. Auk þess sé allt efni sem hugsanlega gæti sært blygðunarkennd yngri notenda aðeins aðgengilegt notendum 18 ára eða eldri. Verði því að telja að hér sé um frekari rangfærslur að ræða af hálfu stefnanda og tilraun til þess að meiða mannorð stefndu.
Þessu næst er í greinargerðinni fjallað um tæknilega hlið BitTorrent samskiptastaðalsins. Þykir rétt að taka þá umfjöllun hér upp í heild sinni. Í greinargerðinni segir svo um þetta:
„Um BitTorrent:
BitTorrent er samskiptastaðall sem nýtir jafningjanet til að flytja mikið gagnamagn án þess að upphafsmanneskjan þurfi að taka á sig allan þungann við að dreifa því. Um leið og einhver er kominn með ákveðinn bút af efni er hann um leið að bjóðast til þess að hjálpa til við að dreifa honum. Álagið dreifist eftir því sem fleiri eru komnir með bútinn. Þeir sem eru komnir með alla bútana kallast deilendur en hinir sækjendur. Allir aðilar sem taka þátt í ferlinu kallast jafningjar. Öll samskiptin eru í höndum ákveðinna forrita sem bjóða upp á stuðning við BitTorrent staðalinn.
Deiliskrá inniheldur upplýsingar um gagnabeininn sjálfan og auk þess upplýsingar um efni tiltekinna skráa (“metadata”), sem innihalda efnið sjálft. Deiliskráin er útbúin af þeim aðila sem ætlar að dreifa efninu (upphafsaðili eða “A”) en deiliskráin sjálf inniheldur ekki efnið sjálft heldur aðeins upplýsingar um það. Upphafsaðilinn setur einnig inn tilkynningaslóð en hún beinist að þeim stað á Internetinu þar sem gagnabeinarnir eru staðsettir. Upphafsaðili kemur deiliskrá á framfæri, t.d. með því að setja hana á Internetið eða koma henni á einhvern annan hátt í hendur annarra. Hver sem kemst síðan yfir deiliskránna notar tilkynningarslóðina sem fylgir henni til að hafa samband við gagnabeinana til þess að sækja efnið sjálft.
Til að samskipti milli jafningja geta farið fram þurfa þeir að vita af hver öðrum en þar koma gagnabeinar inn í myndina. Gagnabeinirinn heldur um upplýsingarnar sem jafningjar þurfa á að halda til að geta haft samband við hvern annan. Þegar einhver (“B”) hefur áhuga á að sækja ákveðið efni og rekst á deiliskrána, þá sækir B hana og notar hana til að hafa samband við gagnabeininn. Gagnabeinirinn lætur B vita að A er einnig jafningi og hversu mikið af efninu hann hefur ásamt því að afhenda nauðsynlegar upplýsingar til að B geti haft samband við hann á eigin vegum til að ná í efnið. Gagnabeinirinn, t.d. vefsíðan www.torrent.is sem rekin er af stefnda Istorrent ehf., hefur því eingöngu hlutverk upplýsingaveitu og þarf því ekki að geyma bútana sjálfa né vita hvert innihald þeirra er. Allir jafningjar láta gagnabeininn vita reglulega að þeir séu enn þá virkir og hversu mikið efni þeir hafa. Sum forrit sem bjóða upp á BitTorrent stuðning geta einnig gegnt hlutverki gagnabeina.
A hefur heilt eintak af efni sem spannar 2000 búta og hefur haft samband við gagnabeininn þar sem hann skráir sig sem jafningja. B hefur áhuga á að ná í efnið og nær í deiliskrána. Þegar B skráir sig sem jafningja fær hann upplýsingar um að A sé [jafningi] og hafi allt efnið. B tekur sig til og ákveður að ná fyrst í búta nr. 1, 302, 1423 og 1872. Nú bætist aðili C inn í hópinn eftir að hafa fengið upplýsingar um A og B frá gagnabeininum og spyr B hvaða búta hann hefur. C þarf ekki að spyrja A í þessu tilviki frekar en hann vill þar sem gagnabeinirinn tilkynnti að A hefði alla bútana. Nú hefur C um tvo staði að velja þegar hann óskar eftir bútunum sem B hefur en eingöngu einn fyrir aðra búta. Þá getur C sótt frá bæði A og B á sama tíma og fær því betri hraða ásamt því að A þarf ekki að sjá um að dreifa því sem C nær frá öðrum aðilum. Eftir því sem að fleiri bætast við jafningjalistann því meiri bandvídd er í boði til dreifa bútum.“
BitTorrent staðallinn sé alls ekki ólögmætur. Rétt lýsing á honum leiði í ljós að stefndi Istorrent ehf. og vefsíða fyrirtækisins er ekki beinn aðili að dreifingu efnis á Internetinu og að samskipti þeirra sem komast í samband í gegnum vefsvæði Istorrents ehf. eru á þeirra eigin ábyrgð. Istorrent ehf. geti ekki borið ábyrgð á hegðun notenda sem hafa samskipti í gegnum vefsvæði fyrirtækisins frekar en símafyrirtæki getur borið ábyrgð á því sem notendur þess ræða í samtölum sín á milli.
Frávísunarkröfu sína styðja stefndu í fyrsta lagi þeim rökum að ekki sé fylgt reglum einkamálalaga um samaðild. Aðild að staðfestingarmálinu sé önnur en aðild að lögbannsgerðinni sem krafist er staðfestingar á, en sá háttur sé ekki í samræmi við aðildarskilyrði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefnandi höfði málið til staðfestingar á lögbanni samkvæmt fyrirmælum í 6. kafla lögbannslaga. Í 36. gr. laganna segir að gerðarbeiðandi skuli gefa út réttarstefnu í staðfestingarmáli. Ef gerðarbeiðendur eru fleiri en einn hljóti umrætt ákvæði að eiga við um hvern og einn gerðarbeiðanda. Eins og áður sagði voru gerðarbeiðendur í lögbannsgerðinni fjögur rétthafasamtök, en aðeins eitt þeirra krefjist nú staðfestingar á lögbanninu. Ótvírætt sé að hagsmunir annarra rétthafasamtaka hafi mikla þýðingu við úrlausn um réttmæti lögbannsgerðarinnar. Er bent á að þeir hagsmunir sem krafist var lögbanns vegna lúti bæði að hljóð- og myndefni og hagsmunum sem önnur rétthafasamtök en stefnanda sé ætlað að vernda. Stefnandi gæti aðeins hagsmuna tónskálda og höfunda texta að tónlist á sviði flutningsréttar en ekki annarra rétthafa. Á bls. 4-8 í stefnu sé listi yfir efni sem að sögn stefnanda var dreift á milli notenda vefsvæðisins www.torrent.is. Þar sé tilgreint ýmislegt efni annað en tónlist, svo sem bíómyndir, tölvuleikir og sjónvarpsþættir. Segir stefnandi umbjóðendur sína vera rétthafa að allri tónlist í tilgreindu efni. Þó svo að finna megi tónlist í þessu efni séu þeir hagsmunir, sem lögbann var lagt á vegna, augljóslega miklu víðtækari en svo að þeir taki aðeins til tónlistar eða hagsmuna félagsmanna stefnanda. Hljóti þessi annmarki á aðild að varða frávísun á grundvelli 18. gr. laga um meðferð einkamála, enda eigi allir gerðarbeiðendur óskipt réttindi og skyldur gagnvart nefndri lögbannsgerð, það er samaðild í skilningi þeirrar lagagreinar.
Í öðru lagi er frávísunarkrafan reist á því að stefnandi hafi farið út fyrir málsóknarumboð sitt og geri of víðtækar kröfur. Að mati stefndu samrýmast kröfur stefnanda ekki málsóknarumboði hans og eru of víðtækar. Með dómi Hæstaréttar frá 8. maí 2008 í fyrra staðfestingarmálinu hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að „stefnandi gæti farið með málsóknarumboð fyrir félagsmenn sína og átt í eigin nafni aðild að einstaklingsbundnum kröfum þeirra, þar með talið um lögbann og staðfestingu á því, enda hafi þeir veitt honum umboð til þess og ekki sé um kröfur að ræða sem telst af sérstökum ástæðum óheimilt að sækja á grundvelli slíks umboðs“. Að mati stefndu séu allar kröfur stefnanda einstaklingsbundnar, en ekki liggi fyrir í málinu hvort að þeir félagsmenn stefnanda sem hlut eiga að máli hafi veitt samtökunum umboð til að fara með nefndar einstaklingsbundnar kröfur. Lögð séu fram umboð frá rúmlega 150 félagsmönnum stefnanda, en engin samantekt fylgi eða tenging við rétthafa þeirra hagsmuna sem lögbannið beinist að. Útilokað sé því fyrir stefndu og aðra sem koma að málinu að átta sig á því hvort að allir viðkomandi rétthafar hafi gefið umboð sitt. Hefði stefnandi átt að tiltaka nákvæmlega fyrir hverja hann er að reka málið og með skýrum hætti í samræmi við a. lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga. Sönnunarbyrðin um þetta atriði hvíli á stefnanda og dómur Hæstaréttar frá 8. maí sl. hafi gefið honum tilefni til vandaðra vinnubragða að þessu leyti. Orðalag framlagðra umboða sé mismunandi og þau gefi stefnanda mismunandi víðtækt umboð. Umboðin eiga það þó sameiginlegt að gefa stefnanda ekki umboð til þess að höfða mál í eigin nafni. Ef litið verður á viðurkenningakröfur stefnanda sem kröfu almenns eðlis þá megi ljóst vera að kröfugerð hans sé enn of víðtæk og ekki hafi verið bætt úr því sem Hæstiréttur fann að varðandi hana í dómi sínum frá 8. maí. Líkt og í því máli krefjist stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu. Í dómi Hæstaréttar segi um þetta: „Að því er varðar aðild að viðurkenningarkröfunni verður að líta til þess að hún er víðtækari en svo að taki aðeins til hagsmuna félagsmanna STEFs. Þá miðar krafan að viðurkenningu á að varnaraðilum sé óheimilt að „starfrækja vefsíðuna [...] eða aðra sambærilega vefsíðu.“ Hefur málið ekki verið reifað með það í huga að viðurkenning á þessu sé nauðsynleg til að vernda þá höfundarréttarhagsmuni sem þessi stefnandi fer með eða hvort þrengri viðurkenningarkrafa gæti dugað til þess.“ Stefnandi verði með vísan til þessara orða Hæstaréttar að gera grein fyrir því að krafan sé nauðsynleg til að vernda höfundaréttarhagsmuni hans. Stefnandi hafi ekki brugðist við þessum orðum að öðru leyti en að halda því fram, með frekar óljósum hætti, að allt það efni, sem er vísað til innihaldi að einhverju leyti tónlist. Þessari fullyrðingu stefnanda sé í fyrsta lagi mótmælt sem ósannaðri. Aðeins séu lögð fram gögn um tónlist fyrir hluta að því efni sem lögbannið beinist gegn. Ekkert liggi fyrir um tónlist í öðru efni. Ennfremur, og eins og áður er rakið, sé á bls. 4-8 í stefnu listi yfir efni sem að sögn stefnanda var dreift á milli notenda Istorrent, sem séu þeir hagsmunir sem kröfugerðin beinist að. Þar sé tilgreint ýmislegt efni annað en tónlist, svo sem bíómyndir, tölvuleikir og sjónvarpsþættir. Þó svo að finna megi tónlist í einhverju af þessu efni sé ljóst að viðurkenningarkrafan sé mun víðtækari en svo að taki aðeins til hagsmuna félagsmanna stefnanda. Þetta varði frávísun samkvæmt skýru orðalagi í dómi Hæstaréttar frá 8. maí sl. Því sé einnig hafnað að stefnandi geti á öðrum grundvelli haft uppi dómkröfur sínar í málinu, þá annað hvort í krafti stöðu sinnar samkvæmt höfundalögum eða á grundvelli 3. mgr. 25. gr. einkamálalaga. Heimild stefnanda samkvæmt 23. gr. höfundalaga sé skýrt afmörkuð við innheimtu gjalda fyrir flutningsrétt, svokallað innheimtuumboð rétthafasamtaka eða umboð til þess að innheimta höfundaréttargjöld í eigin nafni í þágu félagsmanna. Samkvæmt framansögðu geti þetta umboð náð til þess að krefjast lögbanns og staðfestingar á því, liggi umboð viðkomandi rétthafa fyrir, sbr. umfjöllun hér að framan. Hins vegar geti það ekki náð til þess að krefjast skaðabóta eða viðurkenningar á skaðabótum. Almenn málsóknarheimild á grundvelli 3. mgr. 25. einkamála sé ennfremur ýmsum takmörkunum háð. Til að mynda verði kröfugerð á grundvelli heimildarinnar að vera takmörkuð við viðurkenningu á réttindum, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 575/2007. Þá megi kröfugerð ekki lúta berum orðum að réttindum og skyldum nafngreindra félagsmanna, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 277/2001, og sakarefni málsins verði að skipta alla félagsmenn máli en ekki bara varða hagsmuni sumra, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 185/1993. Auk þess verði kröfugerðin að sjálfsögðu að vera í samræmi við tilgang viðkomandi félags eða samtaka, sbr. það sem fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 390/1996. Málsóknarheimild veiti því stefnanda ekki aðild að málinu nema ef til vill að því er varðar viðurkenningarkröfur hans. Þær séu eins og áður segir of víðtækar til að vera dómtækar. Að því er varðar kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu þá virðist hún sett fram í þágu hans sjálfs en ekki félagsmanna samtakanna. Þó sé því ekki haldið fram að stefnandi hafi sjálfur orðið fyrir tjóni heldur félagsmennirnir. Stefnandi telji sig engu að síður hafa fullan ráðstöfunarrétt og jafnvel eignarrétt yfir skaðabótum, komi á annað borð til þess að þær verði dæmdar í málinu. Það komi að minnsta kosti fram í vitnaleiðslum fyrir héraðsdómi í fyrra staðfestingarmálinu. Þetta sé alls ekki í samræmi við málsóknarumboð stefnanda og í raun sönnun fyrir því að hann fari út fyrir umboð sitt með kröfugerð sinni.
Í þriðja lagi er frávísunarkrafa studd þeim rökum að málið sé verulega vanreifað að hálfu stefnanda, þar á meðal að því er varðar aðild, kröfugerð og lög nr. 32/2000. Fyrir það fyrsta sé ekki ljóst á hverju hann byggi aðild sína eða erinda hverra félagsmanna hann gangi. Engin samantekt sé lögð fram á þeim umboðum sem stefnandi hefur lagt fram og ómögulegt sé að átta sig á tengingu einstakra umboðsveitenda við þá hagsmuni sem dómkröfur stefnanda lúta að. Ekki liggi heldur fyrir útskýring á tengslum stefnanda við rétthafa sem standa utan samtakanna. Stefnandi geri viðurkenningakröfur sem varði myndefni, en ekkert liggi fyrir um að stefnandi eða félagsmenn hans eigi rétt til þessa myndefnis. Þá sé óútskýrt hvernig stefnandi telur sig hafa eignast skaðabótakröfur félagsmanna sinna. Dómkrafan um að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra „sambærilega vefsíðu“ sé verulega vanreifuð og ekki dómtæk. Með því að skeyta orðinu „sambærilega vefsíðu“ við dómkröfu sína hafi stefnandi farið út fyrir lögbannskröfur gerðarbeiðenda. Það sé ekki í samræmi við 36. gr. laga nr. 31/1991 og varði frávísun staðfestingarmálsins. Einnig sé krafan ónákvæm og of víðtæk þar sem ekki verði ráðið af henni hvert andlag hennar sé. Með orðinu „sambærilegu“ verði krafan í raun teygjanleg yfir fjölbreytilegt athæfi sem sé ágreiningsefninu óviðkomandi og hvergi í málatilbúnaði stefnanda sé það skilgreint hvað sé átt við með þessu orðavali. Sama eigi við orðalagið „vefsíðu sem gerir notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarrétt að án samþykkis stefnanda“. Óljóst sé hvaða vefsíður gætu fallið undir þessa skilgreiningu. Framangreindu til viðbótar sé það svo að frávísunarúrskurður héraðsdóms frá 27. mars 2008 byggi á því að stefnendur þess máls, þar á meðal stefnandi, hafi fullkomlega vanreifað hvaða áhrif lög nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu hafi á lögskipti aðila. Stefnandi bæti alls ekki úr þessari aðfinnslu í stefnu þessa máls. Hann fullyrði aðeins og án rökstuðnings að lögin eigi ekki við um háttsemi stefndu. Í greinargerð stefndu í þessu máli sé fjallað um lögin og rökstutt að þau eigi við um hina umdeildu starfsemi, sem leiði til sýknu af kröfum stefnanda. Málið sé hins vegar áfram vanreifað af hálfu stefnanda að þessu leyti, en sá annmarki á málabúnaði hans eigi að leiða til frávísunar. Vanreifun stefnanda lúti einnig að því að hann geri ekki grein fyrir því hvort meint höfundaréttarbrot stefndu gagnvart erlendum höfundum beinist að höfundum sem eru verndaðir af höfundalögum. Íslensku höfundalögin verndi aðeins verk íslenskra höfunda og höfunda innan EES-sambandsins, sbr. 1. mgr. 60. gr. laganna. Einnig verndi þau verk þeirra höfunda sem eru frá þeim löndum þar sem gagnkvæmni er tryggð, sbr. 2. mgr. 60 gr. þeirra. Að því er varðar gagnkvæmisskilyrðið hafi stjórnvöldum verið gefin víðtæk heimild í 61. gr. a. til þess að víkka gildissvið laganna í samræmi við alþjóðasáttmála og hafi þessari heimild verið beitt um tvo sáttmála kennda við Bern og Genf. Hins vegar liggi ekkert fyrir í málatilbúnaði stefnanda hvort að höfundar, sem hann telur sig vera að vernda, séu frá löndum sem eru aðilar að sáttmálunum og hafa fullgilt þá, en gagnkvæm vernd sé ekki tryggð nema með fullgildingu viðkomandi aðildarríkis. Málið sé því líka vanreifað að þessu leyti af hálfu stefnanda. Í þessu sambandi megi benda á að Bandaríkin hafi ekki staðfest gagnkvæma alþjóðasamninga á sviði höfundaréttar við Ísland eða sáttmálana kennda við Bern og Genf. Því virðist gagnkvæmnisskilyrðið ekki vera uppfyllt gagnvart Bandaríkjunum. Dómkrafa um viðurkenningu á bótaskyldu sé auk þess vanreifuð þar sem rökstuðning fyrir bótagrundvellinum vanti. Hvergi sé að finna sundurliðun á raunverulegu tjóni stefnanda, tilraun til þess að rökstyðja það tjón sem sennilega afleiðingu tiltekinna athafna eða athafnaleysis stefndu eða önnur grundvallarskilyrði til þess að hægt sé að taka afstöðu til kröfunnar.
III.
Svo sem fram er komið er mál þetta höfðað til staðfestingar á lögbanni, sem stefnandi fékk 19. nóvember 2007 lagt við því að stefndu „starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að“. Jafnframt og í samræmi við 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er krafist dóms um þau réttindi sem stefnandi leitaði fyrir sitt leyti verndar á til bráðabirgða með lögbanni. Loks er gerð krafa um viðurkenningu á bótaskyldu.
Stefnandi og þrjú önnur félagasamtök, Samtök myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagið SÍK og Félag hljómplötuframleiðenda, stóðu að þeirri beiðni um lögbann sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði á 19. nóvember 2007 við því að stefndu „starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur gerðarbeiðenda eru rétthafar að“. Máli sem þessi fjögur félagasamtök höfðuðu til staðfestingar á lögbanninu og til viðurkenningar á þeim réttindum sem lögbannið tók til var vísað frá dómi með úrskurði héraðdóms 27. mars 2008. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar. Í dómi réttarins 8. maí 2008 segir svo meðal annars: „Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar er lýst yfir því að aðilaskipti hafi orðið sóknarmegin í málinu, eins og komist er að orði. Félagar í sóknaraðilunum Samtökum myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélaginu SÍK og Félagi hljómplötuframleiðenda hafi nú afturkallað umboð sín til þessara þriggja sóknaraðila og tekið sjálfir við aðild málsins. Eru þessir aðilar taldir upp í greinargerðinni. Aðild STEFs að málinu er hins vegar óbreytt. Aðilaskipti þessi eru ekki af þeim toga sem greinir í 22. gr. laga nr. 91/1991. Í yfirlýsingunni felst hins vegar breyting á grundvelli málssóknar sóknaraðila. Verður ekki talið að hún sé heimil, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Leiðir þetta til þess að málinu verður vísað frá Hæstarétti að því er varðar sóknaraðilana Samtök myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagið SÍK og Félag hljómplötuframleiðenda.“ Þá var kröfum stefnanda vísað frá héraðsdómi af ástæðum sem síðar verða raktar. Stefnandi höfðaði í kjölfar þessa það mál sem hér er til úrlausnar. Stendur hann þannig einn að kröfu um staðfestingu á lögbanni og leitar einn dóms um réttindi sem því var til bráðabirgða ætlað að vernda. Kröfugerð hans í málinu er þó einskorðuð við hagsmuni félagsmanna hans og miðar þannig að því að notendum vefsíðunnar www.torrent.is, sem stefndu hafa starfrækt, verði gert ókleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að. Þessa hagsmuni eiga félagsmenn stefnanda ekki óskipt með öðrum. Að þessu virtu og enda þótt málsúrslit komi til með að hafa þýðingu fyrir þau félagasamtök önnur sem stóðu að lögbannsbeiðni ásamt stefnanda eru ekki efni til að fallast á það með stefndu að ákvæði laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann og ákvæði um nauðsyn samaðildar í 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standi því í vegi að stefnandi standi einn að þessari málssókn.
Um rök fyrir frávísunarkröfu er og vísað til þess að stefnandi hafi farið út fyrir málsóknarumboð sitt og geri of víðtækar kröfur. Stefndu höfðu uppi þessa sömu málsástæðu fyrir frávísun í því máli sem lauk með framangreindum dómi Hæstaréttar 8. maí sl. Í dóminum segir svo um þetta: „Samkvæmt gögnum sem fram hafa verið lögð í málinu og að framan er getið hefur menntamálaráðherra veitt sóknaraðila Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) lögformlega viðurkenningu samkvæmt 23. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. B-deild Stjórnartíðinda nr. 215/1996. Þessi sóknaraðili gæti því farið með málsóknarumboð fyrir félagsmenn sína og átt í eigin nafni aðild að einstaklingsbundnum kröfum þeirra, þar með talið um lögbann og staðfestingu á því, enda hafi þeir veitt honum umboð til þess og ekki sé um kröfur að ræða sem telst af sérstökum ástæðum óheimilt að sækja á grundvelli slíks umboðs, svo sem finna má dæmi um í dómi Hæstaréttar 1997 á blaðsíðu 2691 í dómasafni. Jafnframt gæti hann, með vísan til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 átt í eigin nafni aðild að viðurkenningarkröfu sóknaraðila. Í málinu liggur ekki fyrir að félagsmenn STEFs hafi veitt samtökunum umboð til að fara með nefndar einstaklingsbundnar kröfur fyrir dómstólum. Að því er varðar aðild að viðurkenningarkröfunni verður að líta til þess að hún er víðtækari en svo að taki aðeins til hagsmuna félagsmanna STEFs. Þá miðar krafan að viðurkenningu á að varnaraðilum sé óheimilt að „starfrækja vefsíðuna ... eða aðra sambærilega vefsíðu.“ Hefur málið ekki verið reifað með það í huga að viðurkenning á þessu sé nauðsynleg til að vernda þá höfundarréttarhagsmuni sem þessi sóknaraðili fer með eða hvort þrengri viðurkenningarkrafa gæti dugað til þess. Með hliðsjón af þessu og með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, verður að því er viðurkenningarkröfuna varðar fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um kröfur þessa sóknaraðila.“
Í málinu hefur stefnandi lagt fram umboð frá rúmlega 150 félagsmönnum sínum sem öll eiga það sammerkt að með þeim er stefnanda veitt umboð til málshöfðunar til verndar höfundarétti. Þau umboð sem félagsmenn hafa veitt stefnanda undanfarin 20 ár eru samhljóða. Í þeim segir svo: „Ég undirritaður/undirrituð framsel hér með til [STEFs] einkarétt til gæslu höfundaréttar að öllum tónverkum mínum og/eða tilheyrandi textum. Tekur framsal þetta til hvers konar hagsmunagæslu varðandi höfundarétt minn, hvort heldur sem er á sviði flutnings, fjölföldunar eða sæmdarréttar. Hefur STEF umboð og einkarétt til að framkvæma hvaðeina til verndar höfundahagsmunum mínum, þ. á m. til þess að semja um gjöld fyrir afnot verka minna og að innheimta gjöldin, til málshöfðunar til verndar hagsmunum mínum, svo og til þess að framkvæma hvaðeina er hér að lýtur og henta þykir.“ Er þetta í fullu samræmi við samþykktir stefnanda sem staðfestar voru af menntamálaráðherra 1. mars 1996, en í þeim kemur fram að eitt af höfuðviðfangsefnum samtakanna í samræmi við tilgang þeirra sé að veita leyfi til fjölföldunar tónlistar, innheimta gjöld fyrir leyfin og framkvæma hvaðeina, sem að því lýtur, þar á meðal málshöfðun til gæslu og verndar þessum hagsmunum. Að mati dómsins þykir nærtækt að skýra orðalag framlagðra umboða á þann veg að í þeim felist heimild til höfðunar máls til staðfestingar á lögbanni og aðgerða sem eru nauðsynlegur undanfari slíkrar málssóknar. Á hinn bóginn er það svo að samkvæmt framangreindum forsendum í dómi Hæstaréttar var það mat réttarins að ekki hafi legið fyrir í því máli að félagsmenn stefnanda hafi veitt samtökunum umboð til að fara með kröfur um lögbann og staðfestingu á því. Í málinu lágu þó frammi fjögur sýnishorn umboða tónlistarhöfunda til stefnanda, sem gefin voru út á árabilinu 1959 til 1991, þar á meðal eitt sýnishorn sem hefur að geyma þann texta sem er tíundaður hér að framan. Þá er tekið fram í dóminum að um hafi verið að ræða sýnishorn „almennra umboða“, eins og það er orðað. Í ljósi þessa þykir varhugavert að álykta á annan veg en þann að krafa sé um það gerð að heimild stefnanda til að fara með málsóknarumboð fyrir félagsmenn og eiga í eigin nafni aðild að nefndum einstaklingsbundnum kröfum þeirra sé bundin við það að þeir hafi með skýrum og ótvíræðum hætti veitt honum umboð til að fara með þær. Í ljósi þessa og með vísan til framangreindra forsendna í dómi Hæstaréttar lítur dómurinn svo á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi á grundvelli umboða frá félagsmönnum sínum viðhlítandi heimild til að hafa uppi þá kröfu um staðfestingu lögbanns sem hér er til úrlausnar. Verður þeirri kröfu hans því þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi.
Svo sem fram er komið einskorðar stefnandi kröfu sína um að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða sambærilega vefsíðu við hagsmuni félagsmanna sinna. Hefur hann með því bætt úr annmarka sem var samkvæmt framansögðu á aðild hans að þeirri kröfu í hinu fyrra máli. Er í stefnu teflt fram rökum fyrir því að þessi viðurkenningarkrafa stefnanda sé nauðsynleg til verndar þeim höfundarréttarhagsmunum sem hann fer með. Hún er í raun tvíþætt. Tekur hún sérstaklega til þess, svo sem fram er komið, að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðu, sambærilega vefsíðunni www.tortrent.is, sem geri notendum kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarrétt að án samþykkis rétthafa. Er viðurkenningarkrafan þannig ekki einskorðuð við vefsíðuna www.torrent.is. Um þennan hluta viðurkenningarkröfunnar segir í stefnu að þess megi vænta að stefndu hefji rekstur samskonar ólögmætrar starfsemi undir öðru léni og sé með þessari kröfu leitast við að koma í veg fyrir að stefnandi þurfi að standa í sífelldum málaferlum við stefndu vegna ólöglegra skráaskipta á höfundaréttarvörðu efni fyrir þeirra tilstilli á veraldravefnum. Er í þessu sambandi ekki vísað til þess að stefndu eigi þegar aðild að tiltekinni vefsíðu sem þetta gæti átt við um. Er viðurkenningarkröfunni þannig að þessu marki ætlað að taka til atvika sem síðar kunna að koma fram. Dómur um bann við starfrækslu vefsíðunnar www.torrent.is til samræmis við þann hluta viðurkenningarkröfunnar sem eftir stendur og sem henni er aðallega ætlað að ná til fæli í sér staðfestingu á því að starfræksla fyllilega sambærilegrar vefsíðu sem bryti gegn höfundarréttarhagsmunum félagsmanna stefnanda væri óheimil. Verður ekki séð að það hafi í raun sérstaka þýðingu fyrir vernd þeirra hagsmuna stefnanda sem hann leitar dóms um að mælt sé sérstaklega fyrir í dómi um viðurkenningu umfram þetta. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir rétt að vísa frá dómi þeim hluta viðurkenningarkröfu stefnanda sem að framangreindu lýtur, en hafna kröfu um frávísun hennar að öðru leyti.
Sú krafa stefnanda sem snýr að skaðabótum er viðurkenningarkrafa. Verður að líta svo á að hún sé sett fram í þágu þeirra félagsmanna stefnanda sem telja á rétt sinn gengið með starfrækslu stefndu á vefsíðunni www.torrent.is. Samkvæmt því og með vísan til 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála og þess að það verður talið samrýmast tilgangi stefnanda að hafa uppi viðurkenningarkröfu af þessum toga verður þessari kröfu stefnanda ekki vísað frá dómi á þeim grunni að málsóknarumboð fyrir henni skorti.
Ekki eru næg efni til að fallast á það með stefndu að málsreifun af hálfu stefnanda sé í þeim búningi að því er tekur til þeirra krafna hans sem eftir standa samkvæmt framansögðu að frávísun þeirra varði.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er viðurkenningarkröfu stefnanda að hluta til vísað frá dómi og svo sem nánar greinir í úrskurðarorði, svo og kröfu hans um staðfestingu lögbanns. Að öðru leyti er frávísunarkröfu stefndu hafnað og gengur málið að því marki til efnismeðferðar.
Ákvörðun um málskostnað bíður dóms.
Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar, um að viðurkennt verði að stefndu, Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni, sé óheimilt að starfrækja vefsíðu, sambærilega vefsíðunni www.torrent.is, sem geri notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarrétt að án samþykkis rétthafa.
Kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns er vísað frá dómi.
Að öðru leyti er frávísunarkröfu stefndu hafnað.
Ákvörðun um málskostnað bíður dóms.