Hæstiréttur íslands

Mál nr. 108/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Mánudaginn 25. febrúar 2008.

Nr. 108/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Björn Jóhannesson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 106. gr. sömu laga,  var staðfestur, en gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en þó eigi lengur en til mánudagsins 2. júní 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að varnaraðili skuli sæta gæsluvarðhaldi áfram, þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en því verður markaður sá tími sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 9. maí 2008 klukkan 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2008.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt.], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. júní  2008 kl. 17.00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-2049/2007 hafi X verið dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir nauðgun í félagi við annan mann. Dómfelldi hafi með yfirlýsingu dags. 25. janúar s.l. lýst yfir áfrýjun málsins til Hæstaréttar Íslands og hafi áfrýjunarstefna verið gefin út 31. janúar.

Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi allt frá því að hann hafi verið handtekinn 12. nóvember 2007 vegna máls þessa. Með dómi Hæstaréttar frá 30. janúar s.l., í máli nr. 40/2008, hafi verið staðfest niðurstaða Héraðsdóms í máli nr. R-66/2008 um að dómfelldi skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991, á meðan á 4 vikna áfrýjunarfresti stæði, en þó eigi lengur en til dagsins í dag kl. 16.00. Almannahagsmunir standi enn til þess að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, og miðist tímalengd gæsluvarðhaldsins við að dómur verði fallinn í máli hans í Hæstarétti innan þess tíma.

Dómfelldi var dæmdur í 5 ára fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2008 vegna brota gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en frá refsingunni dregst óslitið gæsluvarðhald frá 12. nóvember 2007. Dómfelldi hefur samkvæmt áfrýjunaryfirlýsingu frá 25. janúar 2008 og áfrýjunarstefnu frá 31. janúar 2008 áfrýjað dómi þessum til Hæstaréttar. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast á meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laganna frá 12. nóvember 2007 og hefur Hæstiréttur staðfest með dómi sínum 30. janúar 2008 að almannahagsmunir hafi staðið til þess að dómfelldi sætti gæsluvarðhaldi á meðan á áfrýjunarfresti í máli hans stóð. Það er mat dómsins að almannahagsmunir standi enn til þess að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi og getur farbann ekki komið í stað gæsluvarðhalds vegna alvarleika og eðli brots dómfellda. Með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga og 106. gr. sömu laga verður krafa ríkissaksóknara tekin til greina  þannig að gæsluvarðhald standi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands en þó ekki lengur en til mánudagsins 2. júní 2008 kl. 16.00.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Dómfelldi, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til mánudagsins 2. júní  2008 kl. 16.00.