Hæstiréttur íslands

Mál nr. 64/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. september 2006.

Nr. 64/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Gunnari Róbert Guðjónssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Líkamsárás. Skaðabætur.

G var sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa stungið nafngreindan mann með hníf í lærið eftir að hafa úðað á andlit hans úr mace-úðabrúasa. Var G dæmdur til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og til að greiða brotaþola skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. janúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu en þyngingar á refsingu. Þá krefst hann þess að ákærði greiði skaðabætur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í ákæru.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Gunnar Róbert Guðjónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 115.956 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2005.

Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 18. maí 2005, á hendur Gunnari Róbert Guðjónssyni, [kt. og heimilisfang], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 31. maí 2004, á veitingastaðnum A, Reykjavík, veist að B, [kt.], og stungið hann með hnífi ofarlega í hægra læri utanvert, eftir að hafa úðað á andlit hans óþekktu efni.

Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verið dæmdur til refsingar.

Í málinu hefur B krafist þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaða- og miskabætur að fjárhæð 518.758 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. maí 2004 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk þess sem gerð er krafa um að ákærða verði gert að greiða bótakrefjanda lögmannskostnað.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að bótakröfu verið vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð verulega. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 31. maí 2004 barst tilkynning frá [veitingastaðnum C] aðfaranótt 31. maí 2004 vegna hnífsstungumáls. Er lögregla kom á vettvang hittust þar fyrir dyravörður á C, D, og ætlaður brotaþoli, B, sem var með stungusár á læri. D kvað árásarmann vera í kjallara hússins, þar sem hann hefði verið læstur inni í herbergi. Þegar niður var komið var árásarmaður, ákærði í máli þessu, á bak og burt. Lögregla ræddi við B á staðnum og kvaðst hann hafa verið inni á öðrum bar, A, þegar ákærði hafi tekið upp úðabrúsa og sprautað úr honum á B og fleiri gesti staðarins. Hann kvað að sér hefði orðið svo mikið um það að hann hefði ekki tekið eftir því hvenær hann var stunginn í lærið. B var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild LSH í Fossvogi. Á staðnum hittist einnig fyrir E, dyravörður á A. Hann tjáði lögreglu að ákærði og B hefðu verið að rífast. Skyndilega hefði ákærði dregið upp úðabrúsa og úðað á B og fleiri gesti á staðnum.

Tilkynning barst síðar um nóttina til lögreglu, þess efnis að hnífur sá sem ákærði beitti hefði fundist og skömmu síðar kom ákærði í fylgd með D á lögreglustöðina. Ákærði tjáði lögreglu að hann hefði verið staddur á A umrædda nótt að ræða við vin sinn F. B hefði komið þar að og F kynnt ákærða fyrir B. Ákærði hefði heilsað B með handabandi, en síðan snúið sér aftur að F. Þá hefði B potað í öxl ákærða og ákærði þá lyft hendinni, en B gripið í hönd ákærða og látið ákærða slá sig með hendinni. Í kjölfar þess hefðu hafist einhver handalögmál þeirra í milli. Ákærði hefði tekið upp úðavopn og sprautað úr því á B. B hefði þá kýlt ákærða í vinstra gagnauga. Ákærði hefði tekið upp hníf og stungið B í lærið. Ákærði kvaðst hafa staðið í öðru þrepi í stiga veitingahússins, en B einu þrepi fyrir ofan hann, þegar ákærði stakk B. Ákærði hefði farið yfir á [veitingastaðinn C] þar sem hann hitti D og hefði D farið með hann niður í kjallara, til þess að vernda ákærða fyrir B.

Samkvæmt gögnum málsins er hnífur sá sem ákærði stakk B með, með 11 sm löngu blaði.

Samkvæmt læknisvottorði Hlyns Þorsteinssonar frá 5. júlí 2004, kom B á slysa- og bráðadeild að morgni 31. maí 2004. Í vottorðinu segir að B hafi gengið lítt eða ekki haltur. Við skoðun hafi komið í ljós 4 sm langur skurður, sem liggi þvert utan og ofanvert á læri. Hann hafi ekki virst mjög djúpur og við komu hafi verið hætt að blæða úr sárinu. Sárið var deyft og saumuð 4 spor. Í vottorðinu kemur og fram að B hafi leitað aftur til slysadeildar sama dag og hafi hann lýst auknum verkjum. Hann hafi verið settur á sýklalyf til öryggis og einnig fengið ibufen verkjatöflur.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa verið staddur á A umrædda nótt ásamt vini sínum F. Þeir hafi verið að ræða við B, en ákærði kvaðst hafa verið mjög drukkinn. Ákærði kvaðst eitthvað hafa verið að fíflast í B og hafi B tekið því illa. B hafi tekið í hönd ákærða og slegið ákærða með hendinni. Ákærði kvaðst hafa spurt B að því hvort hann væri að grínast og B hafi sagt að hann væri ekki að grínast. Dyraverðir hafi þessu næst komið að og reynt að stía þeim í sundur. B hafi gert lítið úr ákærða og ýtt ákærða í gólfið. Þá hafi ákærði tekið úðabrúsa og úðað á B, en B hefði áður kýlt ákærða oft, jafnvel þótt dyravörður stæði á milli þeirra. Síðan hafi dyravörðurinn E komið að og reynt að draga ákærða frá og sagt ákærða að standa ofarlega í stiganum. Þá kvað ákærði að B hefði slegið sig þungu höggi í andlitið. Kvaðst ákærði þá hafa munað eftir því að hann var með hníf í vasanum. Hafi hann ákveðið að taka hann upp og verja sig gegn þeim sem kæmi nálægt honum. Síðan hafi ákærði stungið B. Ákærði kvaðst hafa farið með hnífinn á [veitingastaðinn C] þar sem tekið var við hnífnum og síðar hafi honum verið skilað til lögreglu. Á [Veitingastaðnum C] hafi ákærði hitt félaga sinn, D, sem hafi sagt ákærða að fara niður í kjallara C og bíða þar. D hafi þekkt B og farið yfir á A og náð í B og leitt þá ákærða og B saman. Þeir hafi rætt saman í góðu og B hafi sýnt honum áverkann, en síðan hafi B viljað að ákærði stæði og sæti eins og B vildi og slegið ákærða margoft utan undir. Ákærði hafi síðan ákveðið að fara á lögreglustöðina og gefa skýrslu um atburðinn.

Vitnið G kvaðst muna sama og ekkert eftir atburðum. Hann kvaðst muna eftir því að ákærði hafi verið með úðabrúsa á A umrædda nótt, en kvaðst ekki hafa séð ákærða úða úr brúsanum framan í B. Vitnið kvaðst ekki hafa séð B slá ákærða eða ógna honum. Ítrekað spurt um átök milli B og ákærða kvaðst vitnið hafa séð slagsmál milli ákærða og B, í stiganum á A, en kvaðst ekki muna hvort þau urðu fyrir eða eftir að ákærði úðaði úr brúsanum. Spurt um þann framburð í lögregluskýrslu að hann hafi ekki séð átök milli ákærða og B, kvaðst vitnið ekki geta gefið skýringu á því, en ítrekað spurt breytti vitnið fyrri framburði sínum og kvaðst ekki hafa séð átök milli þeirra. Þá kvaðst vitnið hafa séð B haltra og hafi B sagt vitninu að ákærði hefði stungið sig með hnífi. Vitnið kvaðst þekkja bæði ákærða og B, en vitnið kvað ákærða ekki vera félaga sinn nú, en kvað B vera félaga sinn. Vitnið kvað þá báða hafa verið ölvaða. Vitnið kvaðst ekki hafa fylgst með atburðum allan tímann.

Vitnið B kvaðst hafa verið staddur á A umrædda nótt og hafi hann verið á leiðinni út af veitingastaðnum. Hann hafi gengið niður stigann og þar hafi hann og ákærði rekist saman. Spurt um það hvort vitnið hefði tekið í hönd ákærða, og slegið hann með henni, neitaði vitnið því að það hefði átt sér stað. Þá neitaði vitnið því að sá framburður ákærða væri réttur að vitnið hefði hent ákærða út að vegg. Ákærði hefði spurt vitnið hvers vegna það hefði ýtt við ákærða og vitnið sagt að það hefði vitnið ekki gert. Þá neitaði vitnið því að hafa lamið ákærða fyrir ofan vinstra eyra. Þeir hefðu farið að rífast og dyraverðir komið á vettvang. Tveir dyraverðir hafi staðið við hlið vitnisins og aðrir tveir nokkuð til hliðar. Vitnið hefði reynt að taka í hönd ákærða, en ákærði hefði verið með báðar hendur í jakkavösum. Ákærði hefði svo tekið úðabrúsa og úðað á nærstadda, þar á meðal vitnið. Vitnið hefði gripið í jakka ákærða að framanverðu og spurt hann hvað hann væri að gera. Þegar vitnið hafi spurt hvort hann væri að úða með piparúða, hafi ákærði tekið vinstri hönd sína úr vasanum og stungið vitnið í lærið. Ítrekað spurt kvaðst vitnið ekki hafa slegið ákærða á A. Vitnið kvaðst hafa spurst fyrir um hvert ákærði hefði farið og fengið þær upplýsingar að ákærði hefði farið yfir á C. Vitnið hafi því farið þangað og annar dyravarðanna þar, sem er unnusti frænku ákærða, hafi sagt vitninu að róa sig niður. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða í kjallara hússins á C og spurt ákærða að því hvers vegna hann hefði stungið sig. Ákærði hafi sagt að það væri vegna þess að ákærði væri hræddur við vitnið. Vitnið kvaðst síðan hafa farið aftur upp og ætlað að hringja á lögregluna. Ákærði hafi þá sagst ætla að fara, en vitnið sagt að hann skyldi ekki fara neitt. Ákærði hafi samt sem áður ætlað út, en vitnið hafi gripið í ákærða og fellt hann í gólfið og hafi vitnið sagt ákærða það að ef hann hreyfði sig, fengi hann fyrir ferðina. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis, en ekki ofurölvi. Vitnið kvaðst hafa jafnað sig á áverkum þeim er hann hlaut. Hann kvaðst hafa verið tvo mánuði frá vinnu og í kjölfarið þurft að minnka við sig vinnu. 

Vitnið E kvaðst hafa verið dyravörður á A umrædda nótt. Vitnið kvað að hnífsstungan hefði átt sér í stað á C, en ákærði hefði beitt úðabrúsanum á A. Vitnið kvaðst hafa gengið á milli ákærða og B, en þeir verið að rífast. Ákærði hafi haldið því fram að B hefði sótt að sér. Vitnið hafi tekið þá ákvörðun ásamt dyraverðinum, H, að vísa ákærða út, þar sem hann virtist æstari en B. Ákærði hafi farið fyrstur niður stigann, en vitnið hafi verið fyrir aftan ákærða og B við hlið vitnisins. Efst í stiganum hafi ákærði skyndilega snúið sér við, tekið upp úðabrúsa og úðað í átt að B, en úðinn farið yfir vitnið og H. Vitnið kvaðst hafa séð B slá ákærða nokkuð föstu höggi í höfuð hans, eftir að ákærði úðaði á viðstadda. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða leggja til B með hnífi inni á A og kvaðst vera þess fullviss að ákærði hafi ekki lagt til B inni á A. Vitnið kvað ákærða hafa verið æstan, en B nokkuð rólegan.

Vitnið D  kvaðst þekkja ákærða og B. Vitnið kvað ákærða vera frænda konu vitnisins, en B sé vinur vitnisins. Vitnið kvað ákærða hafa komið yfir á C og sagt vitninu að eitthvað hefði gerst á A og hefði ákærði verið mjög hræddur og stressaður. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að koma niður í kjallara þar sem þeir gætu ræðst við og hafi þá ákærði sagt við vitnið að hann vissi ekki nema hann hefði rispað B með hnífi. Vitnið kvaðst ekki hafa séð áverka á ákærða, en ákærði hefði sagt vitninu að B hefði slegið ákærða, áður en ákærði stakk B. Vitnið hafi þá ákveðið að ná í B og ætlað að fara með hann á spítala, þar sem blætt hefði úr honum og sárið verið bólgið. B hafi viljað ræða við ákærða. Vitnið hafi þá leitt þá saman og ákærði og B rætt rólega saman.

Vitnið H kvaðst hafa verið staddur umrætt kvöld á A, en hann kvaðst hafa verið dyravörður þar. Vitnið og E dyravörður hafi komið að ákærða og B, þar sem þeir stóðu efst í stiga veitingastaðarins og voru að hnakkrífast. Þeir hafi verið að grípa hvor í annan og ýta hvor við öðrum. Ákærði hefði sagt dyravörðunum að B hefði kýlt sig. Ákærði hafi verið mun æstari en B. Vitnið kvaðst hafa tekið B í tök þar sem hann og ákærði hafi verið mjög æstir. Þá hafi ákærði tekið upp lítinn táragasbrúsa og úðað yfir nærstadda, meðal annars vitnið og B. Síðan hafi ákærði hlaupið út, en vitnið hafi misst tökin á B og fólkið í kring hafi dreift sér. Vitnið kvað B ekki hafa verið mjög ölvaðan, en vitnið kvað sér hafa virst ákærði hafa verið undir áhrifum einhverra efna, en ekki ölvaður þó. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða stinga B á veitingastaðnum A, en kvaðst hafa frétt það eftir á að ákærði hefði stungið hann á C.

Niðurstaða.

Ákærði hefur játað sakargiftir samkvæmt ákæru, en bar fyrir sig að hann hefði verið að verjast árás frá brotaþola, B. Ákærði kvaðst hafa stungið B í lærið á veitingastaðnum A og bar B á sama veg fyrir dómi. Er því sannað með framburði ákærða og brotaþola, og að hluta einnig með framburði vitnisins D, að ákærði hafi stungið B á veitingastaðnum A og breytir þar engu um að vitnin H og E dyraverðir á A kváðust þess fullvissir að B hefði ekki verið stunginn á þeim veitingastað.

                Ákærða og brotaþola ber ekki saman um aðdraganda deilna þeirra í milli, en vitnin H og E kváðust hafa verið kallaðir til, til að reyna að stilla til friðar milli þeirra. Vitnið E bar fyrir dómi að tekin hefði verið ákvörðun um að vísa þeim út af veitingastaðnum og hefði ákærði farið fyrstur niður stiga veitingahússins, en vitnið og B hefðu verið fyrir aftan ákærða í stiganum. Skyndilega hefði ákærði snúið sér við og úðað úr úðabrúsa yfir B og dyravörðinn H.

                Framburður vitnisins H fyrir dómi rennir stoðum undir þennan framburð E, þar sem vitnið H kvaðst hafa verið með B í tökum er ákærði úðaði úr úðabrúsa yfir þá báða og aðra nærstadda. Vitnið E kvað B í kjölfar þessa hafa slegið til ákærða í höfuðið og samrýmist það framburði ákærða um að B hefði slegið hann í höfuðið eftir að ákærði úðaði yfir B og aðra nærstadda. Þrátt fyrir að dómurinn telji, með vísan til framangreinds framburðar vitnisins E og ákærða sjálfs, að B hafi slegið ákærða í höfuðið, eftir að ákærði úðaði skyndilega yfir B óþekktu efni, verður ekki talið að framangreint högg B í höfuð ákærða réttlæti þau viðbrögð ákærða að draga upp hníf og leggja til B. Ákærði var á leið út af staðnum í fylgd dyrvarða, er hann lagði til B og engin rök standa til þess, eins og hér stendur á, að líta á árás ákærða sem neyðarvörn.

                Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Refsiákvörðun.

                Ákærði gaf sig fram við lögreglu og játaði brot sitt greiðlega. Verður litið til þess við ákvörðun refsingar og einnig þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum. Þá verður horft til þess að samkvæmt læknisvottorði var áverki B grunnur og þurfti einungis að sauma í læri hans 4 spor. Horfa ber þó einnig til þess að ákærði beitti hættulegu vopni, 11 sm blaðlöngum hnífi, og við beitingu slíkra vopna í átökum getur það verið tilviljunum háð, hvernig áverkar hljótast af. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður, að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Skaðabótakrafa.

                Af hálfu brotaþola hefur verið gerð skaðabótakrafa að fjárhæð 518.758 krónur og sundurliðast krafan í miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur, læknis- og lyfjakostnað að fjárhæð 15.588 krónur, kröfulið vegna ónýtra buxna að fjárhæð 3.170 krónur, auk þóknunar til lögmanns bótakrefjanda. Krafist er vaxta frá tjónsdegi samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, en hafi krafan ekki verið greidd innan mánaðar frá því að hún var kynnt ákærða, er krafist dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr.38/2001 til greiðsludags.

                Í skaðabótakröfunni er vísað til áverka þeirra er brotaþoli hlaut af árás ákærða og þess að hann hafi minnkaða tilfinningu í fætinum.

                Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verða brotaþola dæmdar miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Þá er fallist á kröfu um útlagðan kostnað að fjárhæð 18.758 krónur, auk lögfræðikostnaðar sem er hæfilega ákveðinn 70.000 krónur, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Samtals greiði ákærði brotaþola 238.758 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði.

Sakarkostnaður.

                Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað málsins, 138.925 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 115.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Gunnar Róbert Guðjónsson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en frestað er fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði greiði B 238.758 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. maí 2004 til 8. apríl 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 138.925 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 115.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.