Hæstiréttur íslands

Mál nr. 440/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. ágúst 2008.

Nr. 440/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Ásbjörn Jónsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, þar sem rökstuddur grunur var uppi um að hann hefði gefið rangar upplýsingar um hver hann væri.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili, sem kveðst heita X, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. ágúst 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að beitt verði vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september 2008 kl. 16, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Sóknaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur því ekki til álita krafa hans um að gæsluvarðhaldi verði markaður lengri tími en gert var hinum kærða úrskurði.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði kom varnaraðili hingað til lands 7. júlí 2008 og framvísaði þá belgísku vegabréfi, sem reyndist vera falsað. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 11. júlí 2008 var varnaraðila gert að sæta fangelsi í 30 daga fyrir þessa háttsemi, en honum mun hafa verið veitt reynslulausn af eftirstöðvum þeirrar refsingar 26. sama mánaðar. Hann mun þá hafa sótt um hæli hér á landi sem pólitískur flóttamaður.

Fyrir liggur í málinu að rannsókn lögreglu og Útlendingastofnunar, þar á meðal upplýsingaleit hjá lögregluyfirvöldum erlendis, hefur leitt í ljós að yfirvöld á Ítalíu og í Sviss, Þýskalandi og Noregi hafi ítrekað haft afskipti af varnaraðila allt frá árinu 2000 meðal annars vegna ólöglegrar dvalar. Við þau tækifæri hafi hann gefið upp sjö mismunandi nöfn. Við komu hingað til lands var enn eitt nafn að finna í fyrrnefndu fölsuðu vegabréfi. Að þessu virtu verður að fallast á með sóknaraðila að rökstuddur grunur sé uppi um að varnaraðili hafi gefið rangar upplýsingar um hver hann sé. Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, eru því fyrir hendi skilyrði til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Í hinum kærða úrskurði er lengd gæsluvarðhaldsins markaður tími, sem telja verður hæfilegan fyrir sóknaraðila til að ljúka svo sem frekast er kostur rannsókn á því hver varnaraðili sé. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdómur Reykjanes 9. ágúst 2008.

             Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að úrskurði að X, fd. […], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september 2008, kl. 16:00.

I.

                Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan á Suðurnesjum hafi handtekið umræddan mann í gær, eftir að greinargerð Ríkislögreglustjóra, dags. sama dag, hefði borist embættinu, en maðurinn hafi komið til landsins 7. júlí sl. á grunnfölsuðu belgísku vegabréfi, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness í sakamáli nr. 730/2008. Hinn 25. júlí sl. hafi manninum verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann og ákvörðun Ríkislögreglustjóra um skráningu í Schengen-upplýsingakerfið. Við það tækifæri hafi maðurinn óskað eftir pólítísku hæli sem flóttamaður. Lögreglustjóri vísar til greinargerðar Ríkislögreglustjóra, en þar komi fram að maðurinn, X, hafi sótt um hæli í Noregi sem sami maður, og í Svíþjóð sem A, fd. 12. júlí 1974. Þá komi fram í þeirri greinargerð að maðurinn sé þekktur undir fimm tökuheitum víðsvegar í heiminum.

                Lögregla hafi tvívegis haft afskipti af manninum vegna ölvunar og óspekta. Annars vegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 2. ágúst sl. og hins vegar 6. ágúst sl. á Miðbakkanum í Reykjavíkurhöfn.

                Af framansögðu og með vísan til skýrslu Ríkislögreglustjóra telur lögreglustjóri að rökstuddur grunur leiki á því að maðurinn gefi rangar upplýsingar um það hver hann sé og hann sýni jafnframt af sér hegðun, sbr. lögreglumál nr. 008-2008-9928 og 007-2008-55843, sem gefi til kynna að af honum geti stafað hætta.              Telur lögreglustjóri því nauðsynlegt að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans eru til rannsóknar hjá lögreglu og Útlendingastofnun. 

                Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, og b- og c-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, telur lögreglustjóri nauðsynlegt að manninum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september 2008, kl. 16:00.

II.

                Samkvæmt gögnum málsins kom umræddur maður hingað til lands 7. júlí sl. og framvísaði fölsuðu belgísku vegabréfi á nafninu A. Það mun hafa verið við rannsókn lögreglu, vegna fölsunarinnar, sem hann kvaðst heita X og vera palestínskur ríkisborgari. Með dómi 11. júlí sl. var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir skjalafals með því að hafa framvísað vegabréfinu. Meðan á afplánun refsingar hans stóð var honum birt ákvörðun um brottvísun. Honum var jafnframt tilkynnt að ekki væri unnt að framkvæma brottvísunina vegna þess að ekki væri vitað með vissu hver hann væri. Hann mun hafa fengið reynslulausn 26. júlí sl., eftir að hafa afplánað helming refsingar, og óskaði eftir pólitísku hæli sem flóttamaður.

                Sýni af fingraförum mannsins hafa verið send utan. Samkvæmt þeim svörum sem borist hafa frá Interpol hefur hann ítrekað komið við sögu hjá lögreglu og útlendingayfirvöldum í nokkrum löndum undir nöfnunum X og A, auk fleiri nafna, m.a. sem líbískur ríkisborgari. Var hann eitt sinn fluttur af yfirvöldum í Þýskalandi til Líbíu. Þá hefur komið fram að hann sé kunnur af fíkniefnabrotum og hótunum. 

                Rannsókn lögreglu og Útlendingastofnunar um manninn er ekki lokið en hann er undir rökstuddum grun um að gefa rangar upplýsingar um hver hann er. Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. lög nr. 86/2008, eru því lagaskilyrði fyrir hendi til að hann sæti gæsluvarðhaldi. Að þessu virtu, ítrekuðum afskiptum af honum erlendis vegna ólöglegrar dvalar og afbrota, og tilburðum hans meðan hann var á reynslulausn til að fara af landi brott 2. og 6. ágúst sl., er fallist á kröfu lögreglustjóra um að hann sæti gæsluvarðhaldi, en því markaður skemmri tími, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.   

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Útlendingur sá sem kveðst heita X skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. september 2008, kl. 16:00.