Hæstiréttur íslands

Mál nr. 496/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 23. júlí 2013.

Nr. 496/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 16. ágúst 2013, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 19. júlí 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 16. ágúst nk., kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að síðdegis í gær hafi verslunarstjóri í Bónus í Kjörgarði, Laugavegi 59 í Reykjavík, haft samband við lögreglu vegna aðila sem hann veitti eftirför út úr versluninni en viðkomandi hafi verið að stela matvælum, auk þess sem aðilinn gæti hafa verið að stela úr öðrum verslunum þar sem hann hafi verið með fullan plastpoka af fatnaði samkvæmt upplýsingum vitnisins.

Vitnið hafi verið í stöðugu símasambandi við lögreglu á leið sinni eftir aðilanum og sagt hann hafa stöðvað fyrir utan [...]. Er lögregla kom á vettvang hafi vitnið bent á kærða sem þann aðila sem hafi verið að stela í versluninni en hann hefði náð vörunum af kærða áður en lögregla hafi komið á vettvang. Um hafi verið að ræða matvöru samtals að verðmæti kr. 9.501. Hafi kærði því verið handtekinn og hafi hann viðurkennt á vettvangi að hafa stolið vörunum. Verslunarstjóri Bónuss kvaðst hafa séð kærða, er hann veitti honum eftirför, henda frá sér plastpoka sem í hafi verið fatnaður. Hafi það sennilega verið við [...]. Hafi þessi ábending reynst rétt og um verið að ræða plastpoka sem í hafi verið jakki og tvær hettupeysur. Kærði hafi þá viðurkennt að hafa farið inn í verslunina Woolcano á Laugavegi 100 og tekið þar eitthvað af fatnaði en kvaðst ekki muna hvað það hefði verið. Hafi kærði verið vistaður hjá lögreglu í þágu rannsóknar málanna. Lögreglan hafi farið í Woolcano með fatnaðinn sem fundist hafi og kvaðst starfsmaður verslunarinnar hafa orðið vitni að því þegar flíkunum var stolið.

Í skýrslutöku hjá lögreglu í morgun hafi kærði viðurkennt þjófnaðinn, bæði í Bónus og Woolcano. Hann kvaðst hafa verið í miklum fráhvörfum þegar hann hafi stolið vörunum og hafi ætlað að skipta á þeim og fíkniefnum. Kærði hafi dvalið í fangageymslu lögreglu nóttina áður vegna sterks gruns um afbrot, sbr. mál nr. 007-2013-[...], og hafi verið sleppt um hádegið í gær og síðan verið handtekinn aftur um fjórum klst. síðar fyrir ofangreind brot.

Auk þessara mála sé kærði sterklega grunaður um eftirfarandi brot:

Mál nr. 007-2013-[...] – Þjófnaður og ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni.

Í málinu sé kærða í fyrsta lagi gefið að sök þjófnaður, með því að hafa að kvöldi 9. júní sl. á Gistiheimilinu [...] við [...] í Reykjavík, stolið bakpoka frá nafngreindri konu sem dvalið hafi á gistiheimilinu, en kærði hafi verið með herbergi á leigu á gistiheimilinu á þessum tíma. Bakpokinn hafi fundist undir rúmi í herbergi kærða, ásamt því að ýmsa muni úr bakpokanum hafi verið að finna í herberginu. Við öryggisleit á honum hafi fundist greiðslukort og skilríki konunnar. Kærði hafi sýnt mikinn mótþróa við handtöku og hótað lögreglumönnum á vettvangi. Eftir að hann hafi verið vistaður í fangaklefa sé honum gefið að sök að hafa sparkað í læri lögreglumanns. Kærði neiti sök en málið sé enn til rannsóknar.

Mál nr. 007-2013-[...] – Þjófnaður

Í málinu sé kærða gefið að sök þjófnaður, með því að hafa hinn 14. júní sl. stolið tveimur bjórum í verslun ÁTVR í Austurstræti í Reykjavík, samtals að verðmæti 754 krónur.  Kærði játi sök.

Mál nr. 007-2013-[...] – Þjófnaður

Í málinu sé kærða gefið að sök þjófnaður, með því að hafa hinn 17. júní sl. stolið vörum í versluninni Bónus í Kjörgarði, Laugavegi 59 í Reykjavík, samtals að verðmæti 2.743 krónur. Kærði játi sök.

Mál nr. 007-2013-[...] – Þjófnaður

Í málinu sé kærða gefið að sök þjófnaður, með því að hafa hinn 12. júlí sl. í versluninni CALVI, Laugavegi 85, Reykjavík, stolið farsíma af gerðinni Samsung Galaxy S-4 að verðmæti 100.000 krónur. Kærði játi sök.

Mál nr. 007-2013-[...] – Þjófnaður

Í málinu sé kærða gefið að sök þjófnaður, með því að hafa hinn 17. júlí sl., í félagi við nafngreindan aðila, brotist inn í hjólhýsið [...] sem hafi staðið framan við verslunarhús Ellingsen að Fiskislóð 1 í Reykjavík og stolið þaðan sjónvarpi, dvd-spilara og ljósi úr lofti hjólhýsisins. Kærði neiti sök en málið sé í rannsókn.

Kærði eigi að baki sakaferil frá árinu 1998. Hann hafi átján sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þar af hafi hann tíu sinnum hlotið refsidóma vegna auðgunarbrota. Ákærði hafi síðast verið dæmdur í 9 mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-[...]/2013 frá 19. júní sl. fyrir þjófnaðar- og fíkniefnalagabrot, en sá dómur hafi verið birtur kærða hinn 12. júlí sl. Kærði hafi tekið sér áfrýjunarfrest. Að auki hafi dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. [...]/2012 frá 6. júní 2012 verið áfrýjað til Hæstaréttar, en kærði hafi hlotið 8 mánaða fangelsisdóm í héraði fyrir auðgunarbrot.

Samkvæmt vottorði frá Fangelsismálstofnun ríkisins hafi kærði síðast afplánað tveggja mánaða fangelsisrefsingu, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 25. október 2012. Hann hafi afplánað refsinguna að fullu, eða frá 9. apríl sl. til 8. júní sl.  Þess megi geta að hann sé síðan sterklega grunaður um afbrot strax daginn eftir að hann hafi lokið afplánun, eða hinn 9. júní sl., sbr. mál lögreglu nr. 007-2013-[...], sem getið sé um hér að framan.

Samkvæmt framburði kærða sé hann án atvinnu en á örorkubótum og virðist því sem hann framfleyti sér og fjármagni vímuefnafíkn sína að einhverju leiti með afbrotum. Hann eigi ekki fastan dvalarstað og hafi fengið að dvelja hjá vinum og kunningjum, auk þess sem hann hafi gist í [...] við [...] í Reykjavík.

Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga

Fyrir liggur að lögregla hefur til meðferðar mál á hendur kærða vegna gruns um nokkur þjófnaðarbrot framin í júní og júlí sl., en kærði lauk afplánun fangelsisrefsingar hinn 8. júní sl.  Er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Hefur hann játað sök í fimm þessara mála. Að auki er til þess að líta að kærði hlaut 9 mánaða fangelsisdóm vegna þjófnaðar- og fíkniefnalagabrota hinn 19. júní sl., en kærði tók sér áfrýjunarfrest.   Þá hefur kærði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands 8 mánaða fangelsisdómi, sem hann hlaut 6. júní 2012 vegna auðgunarbrota. Kærði hefur verið í mikilli neyslu fíkniefna og er það ætlun lögreglu að hann fjármagni þá neyslu sína með fyrrgreindum brotum. Í því ljósi og með hliðsjón af brotum þeim sem kærði hefur játað að hafa framið síðasta sólarhringinn verður að ætla að hann muni halda áfram brotum gangi hann laus. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt. Verður því krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald kærða tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykir ástæða til að marka varðhaldinu skemmri tíma.

Hervör Þorvaldsdóttir kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 16. ágúst nk., kl. 16:00.