Hæstiréttur íslands

Mál nr. 312/2012


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Takmörkun ábyrgðar
  • Réttaráhrif dóms
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 6. desember 2012.

Nr. 312/2012.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

gegn

Samskipum hf.

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Vátryggingarsamningur. Takmörkun ábyrgðar. Réttaráhrif dóms. Aðfinnslur.

S hf. flutti jarðbor til landsins fyrir R ehf., en við uppskipun hans varð á honum altjón. Með dómi héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2009 var komist að þeirri niðurstöðu að S ehf. og Á ehf. væru bótaskyld sem verktakar gagnvart S hf. vegna óforsvaranlegrar framkvæmdar við hífingu borsins úr lest skipsins og voru bæði félögin dæmd til greiðslu bóta til S hf. Með dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2010 var Á ehf. sýknað, en málinu var ekki áfrýjað af hálfu S ehf. Höfðaði S hf. mál gegn SA hf. sem vátryggjanda S ehf. SA hf. krafðist sýknu þar sem ábyrgðartrygging S ehf. hafi tekið til vinnuvélastjórnunar og starfa rafvirkja, en uppskipunarvinna gæti ekki fallið þar undir. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt vátryggingaskírteini hafi hið vátryggða verið starfsemi S ehf. og samkvæmt hlutafélagaskrá hafi tilgangur félagsins verið verktaka við húsbyggingar og löndun. Umrætt verk hafi verið fólgið í löndun eða uppskipunarvinnu. Að þessu gættu var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að SA hf. bæri að greiða S hf. bætur á grundvelli ábyrgðartryggingarinnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kom í vátryggingarskírteini, sem útgefið var 1. mars 2007 og var í gildi þegar tjónsatburður varð 7. apríl sama ár, var Sigurtak ehf. vátryggingartaki hjá áfrýjanda og hið vátryggða: „Starfsemi Sigurtaks.“ Samkvæmt hlutafélagaskrá var tilgangur félagsins „verktaka við húsbyggingar og löndun.“ Verkið sem Sigurtak ehf. vann fyrir stefnda var fólgið í löndun eða uppskipunarvinnu með því að hífa jarðbor úr lest flutningaskips sem stefndi hafði á leigu. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað eins og segir í dómsorði.

Samkvæmt e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal greina í forsendum dóms helstu málsástæður aðila og réttarheimildir, sem þeir byggja á, og eftir f. lið sömu málsgreinar rökstudda niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði. Í þessu felst að í forsendum dóms ber að  greina þau atriði, sem vísað er til í fyrrnefnda stafliðnum, áður en leyst er úr ágreiningi aðila um efni máls samkvæmt þeim síðarnefnda. Það athugist að í hinum áfrýjaða dómi var þessum fyrirmælum ekki fylgt, heldur var þessu tvennu fléttað saman.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnda, Samskipum hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2012.

I. Dómkröfur

Mál þetta, sem var dómtekið 2. febrúar 2012 að lokinni aðalmeðferð þess, er höfðað 23. júní 2010 af Samskipum hf. Kjalarvogi 7-15, Reykjavík, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 140.000 Bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 750.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. september 2009 til greiðsludags. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst sýknu af  kröfum stefnanda og að honum dæmdur hæfilegur málskostnaður að mati réttarins.  Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði látinn niður falla.

II. Atvik og ágreiningur aðila

Forsaga máls þessa er sú að árið 2007 flutti stefnandi hingað til lands með skipinu MV /Nordersand 47 tonna jarðbor fyrir Ræktunarfélag Flóa og Skeiða ehf. Félögin Sigurtak ehf. og Á.B. Lyfting ehf. veittu stefnanda þjónustu við losun varnings úr skipinu, þ. á m. uppskipun fyrrgreinds jarðbors. Þegar verið var að hífa borinn frá borði 7. apríl 2007, slitnaði stroffa, sem brugðið hafði verið um styrktarbita á bornum framanverðum, með þeim afleiðingum að borinn féll ofan í lest skipsins og varð á honum altjón. 

Vátryggjandi borsins, St. Paul Fire and Marine Insurance Company greiddi eiganda borsins, Ræktunarfélagi Flóa og Skeiða ehf., fullar bætur vegna tjónsins, þ.e. 1.136.798,67 Bandaríkjadali. Stefnandi kveðst hafa borið ábyrgð á tjóninu gagnvart eiganda borsins samkvæmt ákvæðum siglingalaga nr. 34/1985 þar sem hann hafi flutt borinn til landsins en í ljósi takmörkunarákvæða siglingalaga hafi stefnandi og St. Paul Travelers insurance CO (St. Paul), Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. og Lýsing hf. náð samkomulagi 24. janúar 2008 um að stefnandi greiddi erlenda vátryggingafélaginu 140.000 Bandaríkjadali vegna tjónsins. Því er lýst í stefnu að með samkomulaginu hafi St. Paul, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. og Lýsing hf. framselt rétt sinn til að krefjast skaðabóta úr hendi Sigurtaks ehf. og Á.B. Lyftingar ehf. til stefnanda.  Í kjölfarið krafði stefnandi Sigurtak ehf. og Á.B. Lyftingu ehf. um greiðslu fjárhæðarinnar óskipt. Félögin höfnuðu bótaskyldu og stefnandi höfðaði mál á hendur þeim fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-943/2008, sem kveðinn var upp 17. mars 2009, var komist að þeirri niðurstöðu að bæði Sigurtak ehf. og Á.B. Lyfting ehf. væru bótaskyld sem verktakar gagnvart stefnanda vegna óforsvaranlegrar framkvæmdar við hífingu jarðborsins upp úr lest skipsins 7. apríl 2007. Nánar tiltekið á þeim mistökum að notuð hafði verið stroffa til að hífa borinn upp að framanverðu án þess að koma fyrir nauðsynlegum vörnum til að koma í veg fyrir að stroffan skærist á hvössum brúnum bitans sem henni var brugðið um. Talið var að Sigurtak ehf. hefði tekið endanlega ákvörðun um val á búnaðinum en starfsmönnum Á.B. Lyftingar hefði borið að athuga sjálfstætt hvort óhætt væri að hífa borinn upp með þessum búnaði. Bæði félögin voru dæmd til að greiða stefnanda óskipt stefnufjárhæðina, 140.000 Bandaríkjadali. Á.B. Lyfting ehf. áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar Íslands en ekki Sigurtak ehf. Með dómi 25. febrúar 2010 sýknaði Hæstiréttur Á.B. Lyftingu ehf. þar sem tjónið á bornum yrði ekki rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna Á.B. lyftingar ehf.

Stefnandi  kveðst hafa gert tilraun til þess að innheimta dæmda skaðabótafjárhæð hjá Sigurtaki ehf. Árangurslaust fjárnám var gert hjá Sigurtaki ehf.  6. október 2009 að kröfu stefnanda.

Með bréfi, 7. ágúst 2009, fór stefnandi fram á það við stefnda að hann greiddi stefnanda tjónið sem Sigurtak ehf. hefði valdið stefnanda 7. apríl 2007 í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjaness og á grundvelli frjálsrar ábyrgðartryggingar sem Sigurtak ehf. hafði keypt hjá stefnda.

Stefndi hafnaði bótaskyldu með bréfi 20. ágúst 2009 á þeim grundvelli að Sigurtak ehf. hefði ekki verið með ábyrgðartryggingu í gildi þegar tjónið varð sem tæki á tjóninu. Að kröfu stefnanda rökstuddi stefndi synjunina þannig í bréfi 1. október 2009 að Sigurtak ehf. hefði ekki verið með víðtæka ábyrgðartryggingu í gildi á þeim tíma sem tjónið varð, sem tæki til tjóns sem yrði á munum sem þeir væru með í sínum vörslum. Stefndi vísaði til greinar 6.2 í skilmálum sínum um frjálsar ábyrgðartryggingar fyrir atvinnurekstur þar sem  segir: Vátrygging tekur ekki til ábyrgðar vegna skemmda á munum eða glötunar muna sem: [...] vátryggður hefur að láni, á leigu, til geymslu, sölu, flutnings eða er af öðrum ástæðum í vörslu hans, þar á meðal muna sem vátryggður hefur tekið í heimildarleysi.

Stefnandi leitaði því til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Nefndin kvað upp úrskurð 19. október 2009. Niðurstaða nefndarinnar var að greiðsluskylda væri fyrir hendi samkvæmt  tryggingunni. Sigurtak ehf. væri vátryggt fyrir þá starfsemi sem „þeir höfðu sjálfir tilgreint sem starf rafvirkja og vinnuvélastjórnun“. Greiðsla iðgjalds hefði miðast við þessa tilgreindu áhættu vátryggðs. Gögn málsins yrðu skýrð á þann veg að unnið hefði verið við vinnuvélastjórnun í umrætt sinn og rekja mætti tjónið til sakar starfsmanns Sigurtaks við þá framkvæmd. Ákvæði 6.2. og 6.3. í skilmálum kæmu ekki í veg fyrir greiðsluskyldu.

Með bréfi, dagsettu 27. nóvember 2009, hafnaði stefndi því að hlíta úrskurðinum. Nánar tiltekið var stefndi ósammála því að „unnið hefði verið við vinnuvélastjórnun í umrætt sinn“. Starfsmenn Sigurtaks ehf. hefðu ekki haft með stjórn kranans frá Á.B. Lyftingu, sem hefði híft borinn, að gera heldur einvörðungu unnið að skipaafgreiðslu sem að mati stefnda félli ekki undir vátryggingarvernd þeirra hjá félaginu. Undanþáguákvæði greina 6.2. og 6.3. í skilmálum ættu við.

Í máli þessu er deilt um hvort stefnda beri að greiða stefnanda stefnufjárhæðina á grundvelli frjálsrar ábyrgðartryggingar sem stefndi seldi Sigurtaki ehf.

III. Málsástæður aðila og niðurstöður dómsins

Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttar og meginreglna laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 44. gr. laganna.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að greiðsluskylda stefnda sé til staðar samkvæmt vátryggingunni sem Sigurtak ehf. hafi haft hjá stefnda og í gildi hafi verið á tjónsdegi. Samkvæmt vátryggingarskírteini Sigurtaks ehf. er hið  vátryggða tilgreint „Starfsemi Sigurtaks“ og iðgjaldsgrundvöllur tilgreindur: „001 Vinnuvélastjórnun Fjöldi: 1,0“ og „002 Rafvirki Laun Kr. 4.000.000“.

Stefnandi heldur því fram að með greiðslu 140.000 Bandaríkjadala 15. febrúar 2008 til St. Paul og samkvæmt samkomulagi stefnanda við St. Paul, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. og Lýsingar hf. hafi stefnandi öðlast rétt til að krefjast skaðabóta úr hendi Sigurtaks ehf. enda liggi fyrir staðfesting Héraðsdóms Reykjavíkur á því að Sigurtak ehf. beri ábyrgð á tjóninu á jarðbornum sem varð 7. apríl 2007 eins og fram komi í eftirfarandi forsendum  dómsins:

Fyrir liggur að vangaveltur urðu um það niðri í lest skipsins hvernig best yrði staðið að hífingu jarðborsins og að báðir stefndu komu þar við sögu. Á því verður hins vegar að byggja, enda ekki unnt að ráða annað af gögnum málsins, að það hafi verið stefndi Sigurtak ehf., sem tók endanlega ákvörðun um val á búnaði til að hífa borinn upp úr lest skipsins, þ.e. að nota umrædda stroffu til að hífa borinn að framanverðu án þess þó að koma fyrir vörnum sem verður að telja að nauðsynlegar hafi verið til að varna því að stroffan skærist á hvössum brúnum þess bita sem henni var brugðið um. Var þar um óforsvaranlega framkvæmd verksins að ræða sem leiddi til þess altjóns sem á umræddum jarðbor varð. Á þeim mistökum verður stefndi Sigurtak ehf. sem verktaki og með sérfræðiþekkingu- og reynslu á þessu sviði talinn bera skaðabótaábyrgð á grundvelli skaðabótareglna innan samninga.

Verður nú nánari grein gerð fyrir málsástæðum aðila og tekin afstaða til ágreinings þeirra.

1. Um það hvort stefnandi hafi fallið frá kröfum á hendur Sigurtaki ehf.

Í fyrsta lagi krefst stefndi sýknu á þeim grundvelli að með fyrrgreindu samkomulagi stefnanda frá 24. janúar 2008 við St. Paul, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. og Lýsingu hf. hafi verið fallið frá kröfum á hendur Sigurtaki hf.  Samkvæmt samkomulaginu sé fallið frá öllum frekari kröfum á Samskip, framkvæmdastjóra, starfsmenn, undirverktaka o.fl. með greiðslu 140.000 Bandaríkjadala. Sigurtak ehf. og/eða starfsmenn þess félags hafi verið starfsmenn Samskips og á ábyrgð þess félags, sbr.  68. og 171. grein siglingalaga nr. 34/1985. Verði ekki fallist á að Sigurtak ehf. og/eða starfsmenn þess félags hafi verið starfsmenn Samskips sé í öllu falli ljóst að Sigurtak ehf. og/eða starfsmenn þess félags hafi verið undirverktakar Samskips við uppskipunina en samkomulagið taki einnig til undirverktaka Samskips. Allir þeir sem vinni í þágu skips við uppskipun séu á ábyrgð farmflytjanda og/eða útgerðarmanns og því hafi í sjálfu sér enga þýðingu að lögum að greina á milli þess hvort það hafi verið skipverjar, starfsmenn Samskips eða sjálfstæðir verktakar sem hafi borið ábyrgð á tjóni því sem varð á bornum. Af þessum ástæðum hafi samkomulagið, sem áður er nefnt, verið orðað með þeim hætti að fallið hafi verið frá öllum kröfum á Samskip og aðra sem unnu í þágu skipsins við uppskipunina. Því beri að að sýkna stefnda.

Stefndi hafnaði þessu alfarið við flutning málsins. Grundvallaratriði væri að þarna hefðu svokallaðir farmhagsmunaaðilar lýst því yfir  gagnvart stefnanda að fallið væri frá kröfum á hendur honum vegna tjónsins. Sigurtak ehf. hafi notið þessarar takmörkunar þar sem stefnandi hafi samið um greiðslu mun lægri fjárhæðar en fjárhæð tjónsins. Samningurinn kveði hins vegar beinlínís á um það að stefnanda sé „þó heimilt að hefja lögsókn varðandi tjónið gegn þriðja aðila“ eins og segi í íslenskri þýðingu. Því sé ljóst að stefnanda sé fyllilega heimilt að höfða mál á hendur þeim aðila er þeir telja að beri ábyrgð á tjóninu.

Vissulega má gera ráð fyrir að til grundvallar umræddu samkomulagi liggi m.a. viðurkenning stefnanda á ábyrgð sinni á starfsmanni Sigurtaks við uppskipun borsins. Af samkomulaginu er hins vegar útilokað að draga þá ályktun að stefnandi hafi fallið frá kröfum á hendur Sigurtaki ehf. þótt samkomulagið kveði á um að gagnaðilar stefnanda að samkomulaginu leysi stefnanda, stjórnendur hans, starsfmenn undirverktaka o.fl. undan öllum kröfum og málsóknum o.fl. Þvert á móti verður að telja Sigurtak hf. þriðja aðili í skilningi samkomulagsins en þar er m.a. kveðið á um gagnaðilar stefnanda afsali sér rétti til að krefjast skaðabóta í tengslum við tjónið og  stefnanda sé heimilt að hefja lögsókn gegn þriðja aðila í tengslum við tjónið.  Því verður ekki fallist á það með stefnda að með samningnum hafi stefnandi hafi fallið frá kröfum á hendur Sigurtaki hf.

2. Skaðabótabyrgð Sigurtaks ehf.

Í öðru lagi krefst stefndi sýknu á þeim forsendum að ósannað sé að Sigurtak ehf. beri ábyrgð á því að tjónið varð á bornum. Stefndi sé óbundinn af niðurstöðu héraðsdómsmálsins nr. E-943/2008 enda hafi honum ekki verið stefnt í því máli. Niðurstaða Hæstaréttar í því máli gagnvart Á B. Lyftingu ehf. geti einnig bent til þess að Sigurtak ehf. beri ekki ábyrgð á tjóninu. Af þeim gögnum sem lögð hafi verið fram í málinu verði ekkert fullyrt um það hver beri ábyrgð á því að borinn skemmdist. Málsatvik, eins og þau séu reifuð í dómi Héraðsdóms Reykjaness, bendi til þess að það hafi verið sameiginleg ákvörðun þeirra sem unnu að uppskipun að haga uppskipun á bornum með þeim hætti sem raun varð og leiddi til tjónsins. Ljóst sé að skipverjar á MS Nordersund hafi haft upplýsingar um það hvernig standa bæri að hífingu á bornum og jafnframt sé ljóst að stefnandi hafi haft þær upplýsingar eða átt að hafa þær sem farmflytjandi. Stefnandi og skipverjar hafi ekki komið þessum upplýsingum á framfæri við starfsmenn Sigurtaks ehf. Að mati stefnda beri því stefnandi og starfsmenn hans einir ábyrgð á tjóninu. tjónið við uppskipun borsins verði rakið til mistaka þeirra sem að uppskipuninni hafi unnið en ósannað sé að Sigurtak ehf. beri ábyrgð á tjóninu.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að óumdeilanlegt sé að Sigurtak ehf. beri ábyrgð á tjóninu sem hafi orðið á jarðbornum, eins og staðfest hafi verið með dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. E-943/2008. Við flutning málsins áréttaði stefnandi að með fyrrgreindum dómi hefði stefnandi lagt fram sönnun um skaðabótaskyldu Sigurtaks ehf. vegna tjónsins á bornum 7. apríl 2007 og stefnda hefði ekki tekist að hnekkja þeirri sönnun er fælist í dóminum.

Það má til sanns vegar færa að skaðabótamál stefnda á hendur Á.B. Lyftingu og Sigurtaki ehf., er lauk, hvað Sigurtak ehf. varðar, með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2009, er sjálfstætt dómsmál og stefndi átti ekki aðild að því. Sönnunarfærsla stefnda er þess vegna ekki takmörkuð vegna dómsins. Á hinn bóginn hefur dómurinn fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til hið gagnstæða er sannað eins og kveðið er á um í 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með fyrrgreindum dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að Sigurtak ehf. hefði „tekið að sér sem verktaki að sjá um uppskipun úr nefndu kaupskipi og þar með að sjá til þess að rétt vinnubrögð yrðu viðhöfð og að valinn yrði löndunarbúnaður sem gerði kleift að leysa verkið forsvaranlega af hendi“. Ekki var fallist á að Sigurtak ehf. eða starfsmenn þess hefðu komið að verkinu sem launþegar stefnanda og undir stjórn stefnanda. Þá var það niðurstaða Héraðsdómdóms Reykjaness að Sigurtak ehf., hefði tekið endanlega ákvörðun um val á búnaði til að hífa borinn upp úr lest skipsins, þ.e. að nota umrædda stroffu til að hífa borinn upp að framanverðu án þess þó að koma fyrir vörnum sem telja yrði að nauðsynlegar hefðu verið til að koma í veg fyrir að stroffan skærist á hvössum brúnum bitans sem henni var brugðið um.  Þar hefði verið um „óforsvaranlega framkvæmd verksins að ræða“ sem leitt hefði til altjóns á bornum.

Í því máli sem hér er til úrlausnar hefur stefndi ekki lagt fram nein gögn er breytt geta framangreindri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness um skaðabótaábyrgð Sigurtaks. Með dómi Hæstaréttar í máli Á.B. Lyftingar ehf. var ekki tekin afstaða til skaðabótaábyrgðar Sigurtaks ehf. enda áfrýjaði félagið ekki dóminum. Því verður að leggja til grundvallar hér að Sigurtak ehf. beri skaðabótaábyrgð á tjóninu sem varð á bornum við upphífingu hans úr lest skips stefnda

3. Gildissvið ábyrgðartryggingarinnar og undanskildar áhættur

Kemur þá til skoðunar ágreiningur aðila um það hvort vátryggingin sem Sigurtak ehf.  keypti hjá stefnda taki til skaðabótaábyrgðar Sigurtaks ehf. vegna tjónsins og ef svo er hvort undanþáguákvæði tryggingarinnar eigi við.

Stefndi heldur því fram að sýkna beri hann þar eð ábyrgðartrygging Sigurtaks taki ekki til tjónsins á bornum þar sem uppskipunarvinna falli ekki undir trygginguna. Sú starfsemi sem hafi falist í því að skipa upp vörum úr skipinu MV Nordersand geti í engum tilvikum talist vinnuvélastjórn eða störf rafvirkja. Í öðru lagi byggir stefndi á undantekningarákvæðum vátryggingarskilmálanna eða svokölluðu vörsluákvæði 6. gr. sem þar sem kveðið er á um „almennar undantekningar vegna skemmda á munum“, en nánar tiltekið segir þar í eftirfarandi ákvæðum sem stefndi byggir á: Vátryggingin tekur ekki ábyrgðar vegna skemmda munum eða glötunar muna sem:

… 6.2. vátryggður hefur að láni, á leigu, til geymslu, sölu, flutnings eða eru af öðrum ástæðum í vörslu hans, þar á meðal muna, sem vátryggður hefur tekið í heimildarleysi;

6.3.  vátryggður tekur að sér að gera við, hreinsa, setja upp eða vinna við með einum eða öðrum hætti, ef tjónið verður af verkinu eða við verkið.

Báðum þessum málsástæðum stefnda er mótmælt af hálfu stefnanda. Stefnandi segir ljóst að vátryggingin taki til starfa í tengslum við rafvirkjun og vinnuvélastjórnun og því verði ekki hjá því komist að fella tjónið undir trygginguna enda hafi starfsmenn Sigurtaks ehf. unnið að upphífingu jarðborsins þegar tjónið varð. Þá hafnar stefnandi því að fyrrgreind undanþáguákvæði vátryggingarskilmála leysi stefnda undan greiðsluskyldu. Verður nú nánari grein gerð fyrir málsástæðum aðila.

3.1.

Stefndi byggir sýknukröfuna á því að ábyrgð hans sé takmörkuð við þá starfsemi sem tilgreind hafi verið í vátryggingarskírteini og iðgjald greitt af. Tilgreining á starfsemi í vátryggingarskírteini sé hlutlæg afmörkun á þeirri áhættu sem stefndi hafi borið vegna starfsemi Sigurtaks og þessi grunnsjónarmið vátryggingarréttar leiði til sýknu. Þá sé í öllu falli um að ræða aukna áhættu félagsins sem leiði til sýknu samkvæmt 24. og 25. grein laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, sbr. 21. grein skilmála fyrir frjálsar ábyrgðartryggingar. Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til dóms Hæstaréttar frá 1995, bls. 648 þar sem sýknað hafi verið vegna breytinga á vátryggðri áhættu. Stefndi bendir á í þessu sambandi að fyrirsvarsmaður Sigurtaks ehf. hafi sjálfur litið svo á að hann eða fyrirtæki hans væri ekki vátryggt vegna starfa við uppskipun, en haft sé eftir honum í dómi héraðsdóms að ,,Hefði hann átt að bera einhverja ábyrgð á verkinu hefði hann viljað vita það fyrirfram og hefði hann þá jafnvel keypt tryggingar”.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að tilvikið eigi augljóslega undir þá starfsemi sem félagið hafi verið vátryggt fyrir líkt og staðfest hafi verið með úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Í 2. gr. skilmála tryggingarinnar segi m.a. að hin frjálsa ábyrgðartrygging taki til skaðabótaábyrgðar sem falli á vátryggðan vegna skemmda á munum vegna starfsemi, sem getið er í skírteini eða iðgjaldskvittun, enda verði skemmdirnar raktar til skyndilegs og óvænts atburðar. Sigurtak ehf. hafi verið vátryggt fyrir þeirri starfsemi sem það hafði sjálft tilgreint sem starf rafvirkja og vinnuvélastjórnun. Þá sé tilgangur Sigurtaks ehf. samkvæmt skráningu þess hjá hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra m.a. löndun. Því leiki enginn vafi á því að tilvikið eigi undir þá starfsemi sem Sigurtak ehf. hafi verið vátryggt fyrir líkt og úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi staðfest. 

Samkvæmt skýru orðalagi skírteinisins tekur ábyrgðartryggingin til starfsemi Sigurtaks ehf. Tilgreining svokallaðs iðgjaldsgrundvallar verður ekki túlkuð með þeim hætti að þar með hafi verið ætlun aðila að einskorða tryggingu félagsins við þá þætti í starfsemi félagsins sem aðeins strangt til tekið gætu fallið undir vinnuvélastjórnun eða rafvirkjun. Verkið sem Sigurtak ehf. vann fyrir stefnanda og starfsmaður félagsins gerðist sekur um mistök við verður þvert á móti að telja eðlilegan þátt í starfsemi þar sem unnið er við stjórnun vinnuvéla. Þá verður heldur ekki fallist á það með stefnda að umrætt verk hafi falið í sér aukna áhættu félagsins í skilningi 24. gr. og 25. gr. laga nr. 30/2004 og 21. gr. skilmálanna. Fyrrgreind ummæli forsvarsmanns fyrir Héraðsdómi Reykjaness þykja enn fremur þýðingarlaus hér. Verður því fallist á það með stefnda að tjónið hafi orðið vegna tryggðrar starfsemi í skilningi 2. gr. skilmálanna.

3.2.

Með því að umrætt tjón telst að fyrra bragði falla undir tryggða starfsemi samkvæmt 2. gr. skilmálanna kemur til skoðunar hvort bótaábyrgð vegna tjónsins sé undanþegin samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum 6. gr. skilmálanna um almennar undantekningar vegna skemmda á munum.

Stefndi segir að umrædd ákvæði séu svokölluð vörsluákvæði í skilmálum fyrir ábyrgðartryggingar. Þau séu þekkt í nánast öllum ábyrgðartryggingum bæði hvað varðar atvinnurekstur og heimili þar sem reynir á afmörkun áhættunnar gagnvart munum í eigin eigu eða annarra.  Ákvæði þetta hafi verið í skilmálum hér á landi um áratugi og sé þekkt um alla Evrópu í sambærilegum skilmálum. Ákvæðin þarfnist tæplega skýringa þar sem þau séu afar skýrt orðuð og orðalagið hafi slípast til í áranna rás til að fyrirbyggja vafa um túlkun. 

Hvað varði ákvæði 6.2. leiði orðin „flutning“ og/eða í „vörslu til sýknu þar sem borinn hafi verið til flutnings af hálfu starfsmanna Sigurtaks og því í vörslu. Ákvæði 6.3. sé enn skýrara en þar segi að skemmdir á munum sem vátryggður tekur að sér að vinna við með einum eða öðrum hætti bætist ekki. Reynt hafi á þetta fyrir Hæstarétti, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 189/1999. Farmflytjendur og eigendur krana þekki ákvæðið afar vel þar sem fullyrða megi að þeir viti að það sem hangir í krók fellur ekki undir ábyrgðartryggingu viðkomandi krana. Sumir eigendur krana hafi af þessum ástæðum keypt víðtækari ábyrgðartryggingu sem taki þá til muna í vörslu en vátryggingarfjárhæðir séu þá mjög lágar þar sem þessi áhætta sé mikil og iðgjöld því mjög há. Slík víðtæk vátrygging hafi ekki verið í gildi í umrætt sinn fyrir Sigurtak ehf.

Stefnandi heldur því fram að ekkert í ákvæði 6.2. í vátryggingarskilmálum leiði til þeirrar niðurstöðu að synja skuli bótaskyldu. Í fyrsta lagi sé ljóst að hér sé ekki um lán, leigu, geymslu eða sölu Sigurtaks ehf. að ræða. Sigurtak ehf. hafi, ásamt öðrum aðila, annast hífingu varnings frá borði skipsins MV/ Nordersand en ekki „flutning“ varningsins. Skip stefnanda, MV/ Nordersand, hafi annast „flutning“ varningsins til Íslands. Þá hefði viðtakandi borsins, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf., annast „flutning“ borsins frá hafnarbakkanum og á athafnasvæði félagsins, þ.e. ef borinn hefði ekki skemmst við framangreinda hífingu. Engan veginn sé unnt að líta svo á að borinn hafi verið í „vörslum“ Sigurtaks ehf. Borinn hafi verið í vörslum stefnanda um borð í skipinu MV/ Nordersand og eina aðkoma Sigurtaks ehf. hafi falist í hífingu hans frá borði og upp á hafnarbakkann.

Þá segi í undanþáguákvæði 6.3 í skilmála stefnda: Vátryggður tekur að sér að gera við, hreinsa, setja upp eða vinna við með einum eða öðrum hætti, ef tjónið verður af verkinu eða við verkið. Stefnandi hafnar því að umrætt undanþáguákvæði leysi stefnda undan greiðsluskyldu. Sú aðgerð Sigurtaks ehf. að hífa borinn frá borði skipsins geti ekki fallið undir efnisatriði ákvæðisins. Atriðin feli öll í sér einhvers konar vinnu við sjálfan muninn. Sigurtak ehf. hafi hins vegar einvörðungu verið að hífa muninn, þ.e. jarðborinn, frá borði skipsins en ekki að vinna við hann eða notast við eiginleika hans að nokkru leyti. Ætlunin hafi hins vegar verið sú að Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. myndi vinna við borinn. Undanþágan eigi því ekki við í þessu tilviki og geti ekki leitt til synjunar bótaskyldu. Stefnandi segir að við blasi að Sigurtak ehf. hafi annast uppskipun úr flutningaskipinu MV/ Nordersand og í því m.a. falist að velja bestu leiðina við að leysa verkið, þ.m.t. val á löndunarbúnaði og notkun á honum. Þetta hafi verið staðfest með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 314/2009 frá 25. febrúar 2009 hafi því loks verið slegið föstu að verkstjórn vegna uppskipunarinnar hafi ekki verið í höndum Á.B. Lyftingar ehf. heldur Sigurtaks ehf. Stefnandi segir því ljóst að hvorki sé fullnægt skilyrðum greinar 6.2. né 6.3. í vátryggingarskilmálum. Við flutning málsins mótmælti stefnandi því enn fremur sem ósönnuðu að viðurkennd væri sú túlkun undanþáguákvæða vátryggingarskilmála að það sem hangi í krana væri ótryggt.

Umrædd ábyrgðartrygging tók til vinnuvélastjórnunar. Upphífing muna og ákvarðanir um upphífingarbúnað í tengslum við það hlýtur að teljast hefðbundinn þáttur í slíkri starfsemi. Með hliðsjón af því er ekki unnt að fallast á það með stefnda að túlka beri almenn undanþáguákvæði vátryggingarskilmálanna í greinum 6.2. og 6.3. með þeim hætti að um að hafi verið að ræða vörslu borsins eða vinnu við hann þannig að stefndi sé undanþeginn ábyrgð á tjóninu sem Sigurtak ehf. ber bótaábyrgð á.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður fallist á bótaskyldu stefnda. Í greinargerð stefnda er því mótmælt að stefnandi geti sett kröfu sína fram í Bandaríkjadollurum. Stefndi heldur því fram að stefnandi hefði átt að gera kröfu á gengi Bandaríkjadollarans á þeim tíma sem samkomulag og greiðsla hafi farið fram. Eftir því sem næst verði komist af gögnum málsins hafi það verið 24. janúar 2008. Þá hafi sölugengi verið 66.51 krónur samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands um gengi gjaldmiðla. Því hefði stefnukrafan að réttu lagi átt að vera 9.311.400 krónur að viðbættum 750.000 krónum. Stefndi telur að stefnandi geti ekki að lögum bæði notið gengisáhættu og krafist dráttarvaxta á sama tíma. Kröfu um endurgreiðslu á dæmdum málskostnaði, þ.e. 750.000 krónum í áðurnefndu máli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjaness, er einnig mótmælt af hálfu stefnanda sem málinu óviðkomandi.

Í málflutningi stefnanda var lögð á það áhersla að ekkert í lögum kæmi í veg fyrir að dómkrafa væri sett fram með þessum hætti. Hún væri sett fram með sama hætti og dómur Héraðsdóms Reykjaness  Til vara væri þá þess krafist að stefnufjárhæðin yrði umreiknuð í íslenskrar krónur.

Óumdeilt er að stefndi greiddi stefnufjárhæðina. Þá hefur stefnandi ekki mótmælt því að hann hafi keypt dollara með íslenskum krónum í því skyni. Tjón stefnanda nemur því þeirri fjárhæð sem hann þurfti að leggja út til að kaupa dollara að andvirði  140.000 Bandaríkjadala en af hálfu stefnda var framangreindum útreikningi kröfunnar í íslenskar krónur og forsendum hans út af fyrir sig ekki mótmælt.  Verður því stefnda gert að greiða 9.311.400 krónur vegna tjónsins á bornum. Fallist er á það með stefnda að honum verði ekki gert að stefnanda 750.000 krónur samkvæmt fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness enda skortir rökstuðning af hálfu stefnda fyrir þeirri kröfu.

Málsaðila greinir einnig á um dráttarvexti en stefnandi krefst dráttarvaxta frá 1. mars 2008 og segir kröfuna studda við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Stefndi hefur mótmælt dráttarvöxtum frá fyrri tíma en 7. september 2009 þar sem stefndi hafi ekki fengið vitneskju um kröfuna fyrr en með bréfi 7. ágúst 2009.

Stefnandi hefur ekki rökstutt á einn eða annan hátt að honum beri dráttarvextir úr hendi stefnda frá 1. mars 2008 og er því fallist á það með stefnda að krafa stefnanda beri dráttarvexti frá 7. september 2009 eða mánuði eftir að stefnandi krafði hann um bætur með fyrrnefndu bréfi.

Að öllu framanrituðu athuguðu verður stefnda gert að greiða stefnanda 9.311.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. september 2009 til greiðsludags.

Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir eftir atvikum og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 600.000 krónur. 

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Samskipum hf., 9.311.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 7. september 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.