Hæstiréttur íslands

Mál nr. 46/1999


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Sakarskipting


Fimmtudaginn 16

Fimmtudaginn 16. september 1999.

Nr. 46/1999.

Ísfélag Vestmannaeyja hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Gunnari Þór Þorbergssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Sakarskipting.

G slasaðist við vinnu sína hjá Í. Var hann við málningarvinnu þegar stigi sem hann notaði til verksins rann til á gólfinu með þeim afleiðingum að G féll niður og slasaðist. Ekki var gengið þannig frá stiganum að hann gæti ekki runnið til og voru gólf nýlökkuð og hál. Talið var að rekja mætti slysið til vanbúnaðar stigans og að verkstjóri hefði ekki haft nægilegt eftirlit með vinnubrögðum G, en jafnframt að G hefði getað gert sér grein fyrir að hættulegt væri að nota stigann á hálu gólfinu, án þess að gerðar væru sérstakar ráðstafanir til þess að hann rynni ekki til. Var af þeim sökum talið hæfilegt að G bæri 1/3 hluta tjóns síns sjálfur. Talið var að um bætur til G fyrir varanlega örorku og miska ætti að fara samkvæmt matsgerð örorkunefndar, enda hefði henni ekki verið hnekkt með mati dómkvaddra manna. Þar sem G hafði þegar fengið greiddar frá ábyrgðartryggjanda Í hærri bætur en honum bar samkvæmt framangreindri niðurstöðu var Í sýknað af kröfum hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 1999. Krefst hann aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi slasaðist stefndi við vinnu sína í fiskimjölsverksmiðju áfrýjanda 7. júlí 1993. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins um slysið segir meðal annars svo:

„Tildrög slyssins voru þau að slasaði var að mála rör á vegg í um 2 metra hæð og notaði hann stiga til verksins stiginn rann til á gólfinu með þeim afleiðingum að slasaði féll niður og ristarbrotnaði á vinstra fæti.

Aðstæður á slysstað voru þær að gólfið er lakkað og þar af leiðandi hált. Engir skór úr mjúku efni voru á neðri enda stigans og engar skorður notaðar til að hindra að stiginn geti runnið til á gólfinu.

Stiginn er 3 metra langur og 0,55 m breiður og uppstig er 0,28 m og er uppistaða úr verkpalli, en nothæfur sem stigi ef settir yrðu skór á endann á honum úr t.d. plasti eða gúmmíi og gerðar ráðstafanir til að hann geti ekki runnið til.

Aðalorsök slyssins er sú að ekki eru skór úr mjúku og riffluðu efni á neðri enda stigans eða gengið þannig frá honum að hann geti ekki runnið til.”

Stefndi lýsti aðdraganda slyssins þannig fyrir dómi, að verkstjórinn á vinnustaðnum hafi gefið starfsmönnum fyrirmæli um að mála á soðkjarnalofti fiskimjölsverksmiðjunnar og nota stiga til verksins. Tveir stigar hafi verið á staðnum. Stefndi hafi tekið annan þeirra, en samstarfsmaður hans hinn. Alvanalegt hafi verið að nota fyrrnefnda stigann „þó hann sé ekki löglegur”. Stefndi kvaðst hafa gert sér grein fyrir vanköntum stigans, en starfsmönnum hafi ekki verið bannað að nota hann. Hafi stefndi og margir aðrir notað stigann oft áður. Aðspurður um hvort ekki hefði hvarflað að honum að reyna að festa stigann, kvaðst stefndi hafa prófað stöðugleika hans, en svo haldið að „þetta væri í lagi”.

Guðjón Engilbertsson verkstjóri skýrði svo frá fyrir dómi að gólf soðkjarnaloftsins hafi verið nýlega lakkað og mjög hált. Hann bar einnig að einfalt hefði verið að binda stigann fastan, en til þess hefði stefndi að öllum líkindum orðið að fara upp í stigann. Hann kvað ennfremur að unnt hefði verið að festa stigann með því að leggja planka fyrir neðan hann. Í framburði sínum fyrir lögreglu sagðist Gunnar ekki hafa vitað af því að stefndi notaði stigann, sem ekki var í lagi. Hann bætti því þó við, að hann hefði átt að fylgjast með því að Gunnar notaði þau verkfæri, sem væru í lagi.

Þeirri staðhæfingu stefnda hefur ekki verið andmælt, að áfrýjandi hafi látið viðgangast að starfsmenn í fiskimjölsverksmiðju hans notuðu stiga þann, sem málið er risið af.

Þegar litið er til þess, sem nú var rakið, verður að telja að rekja megi slysið til vanbúnaðar umrædds stiga og að verkstjóri hafði ekki nægilegt eftirlit með vinnubrögðum stefnda.

Við mat á sök verður þó einnig að hafa í huga þátt stefnda. Þegar slysið bar að höndum var hann tæplega sextugur og hafði langa reynslu sem háseti og stýrimaður á fiskiskipum. Hann hafði unnið hjá áfrýjanda á sjó og í landi frá árinu 1985. Telja verður að stefndi hafi getað gert sér grein fyrir að hættulegt var að nota stigann á hálu gólfinu, án þess að gerðar væru sérstakar ráðstafanir til þess að hann rynni ekki til. Verður því að leggja nokkra sök á stefnda. Þykir hæfilegt að hann beri 1/3 hluta tjóns síns, en áfrýjandi 2/3 hluta.

II.

Aðila greinir á um fjárhæð skaðabóta fyrir tjón það, sem stefndi hlaut af slysinu. Lýtur ágreiningurinn að fjórum atriðum, varanlegri örorku, bótum fyrir þjáningar, bótum fyrir varanlegan miska og bótum fyrir tímabundið atvinnutjón í nokkra daga í febrúar og mars 1995.

Um ákvörðun bótafjárhæðar vegna slyss stefnda fer eftir skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru áður en ýmsum ákvæðum þeirra var breytt með lögum nr. 42/1996 og lögum nr. 37/1999.

Svo sem lýst er í héraðsdómi var varanleg örorka stefnda metin tvisvar. Annars vegar af Sigurjóni Stefánssyni lækni 18. mars 1996 og hins vegar af örorkunefnd 12. maí 1997. Niðurstaða fyrrnefnda matsins var sú, að varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 væri 25%, en mats örorkunefndar 8%. Mat eftir 5. gr. laga nr. 50/1993 beinist að því að meta svonefnda fjárhagslega örorku, það er varanlega skerðingu á getu manns til að afla vinnutekna um ókomin ár. Til grundvallar mati á fjárhagslegri örorku liggja því ekki einungis læknisfræðileg atriði, heldur einnig fjárhagslegir og félagslegir þættir. Að örorkumatinu 18. mars 1996 stóð einn læknir, en matið 12. maí 1997 var gert af tveimur læknum og einum lögfræðingi. Fyrirliggjandi matsgerð örorkunefndar er fullgilt sönnunargagn og hefur henni ekki verið hnekkt með mati dómkvaddra manna. Verður því ekki fallist á að örorkubætur til stefnda verði ákveðnar á grundvelli örorkumatsins frá 18. mars 1996.

Ábyrgðartryggjandi áfrýjanda, Tryggingamiðstöðin hf., hefur greitt stefnda fullar bætur fyrir 8% varanlega örorku samkvæmt mati örorkunefndar. Nam sú greiðsla 144.571 krónu eftir að frá hafði verið dregið slysatryggingarfé, sem stefndi fékk úr samningsbundinni atvinnuslysatryggingu launþega.

III.

Ekki er komið fram hve lengi stefndi var rúmfastur vegna slyssins, en Tryggingamiðstöðin hf. greiddi honum 24. nóvember 1997 þjáningabætur fyrir tímabilið frá slysdegi í samtals 42 daga. Nam greiðslan 59.640 krónum og miðaðist við að stefndi hafi verið rúmfastur allan þann tíma. Stefndi krefst þjáningabóta fyrir 145 daga til viðbótar.

Í vottorði læknis á sjúkrahúsi og heilsugæslustöð Vestmannaeyja 14. október 1993 segir, að stefndi hafi verið í gifsi í 6 vikur frá slysdegi og sé enn töluvert aumur. Í vottorði sama læknis 13. janúar 1994 kemur fram að eftir gifsmeðferðina hafi líðan stefnda verið þokkaleg. Síðan hafi farið að bera á miklum verkjum við gang. Í desember 1993 hafi hann enn verið með talsverða verki.  Læknirinn ritaði þriðja vottorðið vegna slyssins 29. ágúst 1997. Segir þar að stefndi hafi enn mjög mikla verki í fætinum og allt álag valdi slæmum verkjum og helti.

Meðal málsgagna er vottorð læknis á bæklunarlækningadeild Borgarspítalans 13. október 1995. Þar kemur fram að stefndi leitaði þrisvar til læknisins. Í fyrsta skiptið 29. nóvember 1993 hafi stefndi kvartað um að hann hefði verki við gang og bólgnaði upp. Hafi verið ákveðið að útvega stefnda spelku á vinstri fót til að minnka einkenni. Næst hafi stefndi haft samband við lækninn 22. ágúst 1994. Hafi stefndi skýrt svo frá, að hann hafi getað unnið í spelkunni og það hafi bjargað sér að verulegu leyti. Síðast hafi stefndi vitjað læknisins 12. janúar 1995 og þá haft nokkur óþægindi frá vinstra fæti.

Læknisfræðilegs mats um hve lengi stefndi teljist hafa verið veikur eftir slysið nýtur ekki við. Skýra verður 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1993 svo, að maður teljist almennt ekki vera veikur í skilningi ákvæðisins þegar liðinn er sá tími, sem hann er til lækninga í kjölfar slyss, sem bóta er krafist fyrir.

Þegar litið er til framangreindra upplýsinga um sjúkrasögu stefnda eftir slysið 7. júlí 1993 verður lagt til grundvallar, að hann hafi verið veikur í merkingu 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1993 þar til síðla sumars eða snemma hausts árið 1993. Verður því ekki fallist á með stefnda að hann teljist hafa verið veikur þar til snemma í janúar 1994.

IV.

Stefndi telur sig með vísun til örorkumats Sigurjóns Stefánssonar 18. mars 1996 eiga rétt á bótum fyrir 15% varanlegan miska, en áfrýjandi heldur fram, að miða beri slíkar miskabætur við mat örorkunefndar, sem taldi miskann vera 12%. 

Telja verður að einróma álit örorkunefndar, sem meðal annars var skipuð tveimur læknum, nægi til að hnekkja mati Sigurjóns Stefánssonar læknis. Tryggingamiðstöðin hf. greiddi 24. nóvember 1997 stefnda 525.338 krónur í bætur fyrir 12% varanlegan miska samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993.

V.

Í héraðsdómsstefnu krafðist stefndi undir sérstökum kröfulið 28.471 krónu úr hendi áfrýjanda. Var kröfuliðurinn skýrður þannig að hann væri „tímabundið tekjutap vegna læknisrannsókna, sbr. dskj. nr. 19.” Skjal þetta er bréf áfrýjanda 14. febrúar 1995, þar sem staðfest er að stefndi hafi ekki komið til vinnu nánar tiltekna sex daga og því ekki fengið laun fyrir þá. Í bréfinu segir einnig, með vísun til nánar tiltekinna upplýsinga um laun starfsmenn, sem unnu sambærileg störf, að gera megi ráð fyrir að laun stefnda á umræddum tíma hefðu orðið 28.471 króna með orlofsfé.

Áfrýjandi vefengir ekki að stefndi hafi orðið fyrir tjóni, sem þessari fjárhæð nemur, vegna nauðsynlegra ferða hans frá Vestmanneyjum til Reykjavíkur í því skyni að leita til læknis vegna afleiðinga slyssins.

Ekki eru efni til að sýkna af þessum kröfulið á grundvelli þess, að um sé að ræða „tímabil eftir að tímabundnu atvinnutjóni var lokið”, eins og áfrýjandi hefur haldið fram.

VI.

Svo sem að framan segir greiddi Tryggingamiðstöðin hf. 24. nóvember 1997 stefnda 144.571 krónu í bætur fyrir varanlega örorku, 59.640 krónur í þjáningabætur og 525.338 krónur í bætur fyrir varanlegan miska. Auk höfuðstólsins, 729.549 króna, voru stefnda greiddir vextir og útlagður kostnaður, þar á meðal þóknun til lögmanns hans. Bætur þessar voru miðaðar við að stefndi bæri engan hlut tjóns síns sjálfur.

Þótt hér að ofan hafi verið fallist á, að stefndi hafi átt rétt á þjáningabótum fyrir nokkuð lengra tímabil en lagt var til grundvallar í uppgjörinu 24. nóvember 1997, svo og bótum að fjárhæð 28.471 krónur vegna tjóns í tengslum við ferðir til læknis, er ljóst að hann hefur fengið meiri bætur en honum ber samkvæmt niðurstöðu dómsins um sakarskiptingu. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfum stefnda.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., er sýkn af kröfum stefnda, Gunnars Þórs Þorbergssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 12. janúar 1999.

Mál þetta höfðaði Gunnar Þór Þorbergsson, kt. 261033-2409, Brekastíg 33, Vestmannaeyjum, með stefnu dagsettri og birtri 12. júní 1998 gegn Ísfélagi Vestmannaeyja hf., kt. 660169-1219. Hann stefndi einnig til réttargæslu Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079. Málið var dómtekið 17. desember sl.

Stefnandi krefst greiðslu á kr. 2.084.966 með 2% vöxtum frá 7. júlí 1993 til 18. apríl 1996, að frádregnum kr. 51.864, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Frá kröfunni verði þó dregnar kr. 729.549.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Stefnandi er verkamaður í fiskimjölsverksmiðju stefnda. Þann 7. júlí 1993 var hann að hreinsa og mála rör í soðkjarnahúsinu. Rörin voru í um tveggja metra hæð frá gólfi og stóð stefnandi í stiga. Stiginn rann og féll niður á gólfið. Við fallið klemmdist vinstri fótur stefnanda undir einu þrepi stigans þannig að hælbein og neðri endi sperrileggs brotnaði.

Ekki voru nein vitni beint að slysinu, en atvik eru óumdeild. Guðjón Engilbertsson, verkstjóri hjá stefnda, hafði falið stefnanda að vinna verkið. Gólfið í salnum var nýmálað og hált. Tveir stigar voru til á staðnum og sagði stefnandi að annar hefði verið í notkun þegar hann hóf verkið og hefði hann því notað þann sem lakari var, en það var ekkert gúmmí á endanum á honum.

Slysið var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins 27. september og segir í skýrslu þess, sem sögð er byggð á lögregluskýrslum og skoðun á vettvangi, að gólfið hafi verið nýlakkað og því hált. Engir skór úr mjúku efni hafi verið á neðri enda stigans og engar skorður verið notaðar til að hindra að stiginn gæti runnið til. Er þetta talið vera aðalorsök slyssins, þ.e. að skó vantaði á stigann og að ekki var gengið þannig frá honum að hann gæti ekki runnið til.

Gert var að meiðslum stefnanda á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. Í stefnu segir að hann hafi átt við stöðuga verki að stríða í fætinum. Hafi hann verið óvinnufær til 10. janúar 1994. 29. nóvember 1993 hafi hann leitað til Ragnars Jónssonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Í gögnum málsins kemur fram að hann hafi verið á biðlista eftir staurliðsaðgerð, en hún hefur ekki farið fram, en mun vera fyrirhuguð á næstunni.

Stefnandi leitaði til Sigurjóns Stefánssonar, sérfræðings í geðlæknisfræði og klínískri taugalífeðlisfræði, um mat á varanlegri örorku sinni. Matsgerð læknisins er dagsett 18. mars 1996 og segir þar m.a.:

„Samantekt:

Þessi 61 árs gamli maður varð fyrir slysi við vinnu sína þann 07.07.1993. Kom í ljós brot á distalt hluta tibiu og einnig hælbeini vinstra megin. Hann var meðhöndlaður conservativt. Röntgenmyndir þann 12.01.1995 sýna slit á milli calcaneus og cuboideum beina.

Hann hefur enn töluverð einkenni frá vinstra fæti og hafa þessi einkenni haft áhrif á vinnugetu hans og daglegt líf. Samkvæmt upplýsingum frá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum, þar sem hann starfar, hafa laun hans skerst talsvert (20%) eftir slysið.

Niðurstaða:

Nú eru um 33 mánuðir liðnir frá því slysið átti sér stað og því ólíklegt að frekari bati verði. Hins vegar má búast við versnandi einkennum þegar frá líður vegna vaxandi slitbreytingar. Enginn vafi virðist leika á að afleiðingar slyssins hafa skert vinnugetu og álagsþol verulega.

Eðlilegt er að meta nú örorku og miska slasaða af völdum slyssins og miðast það mat við skaðabótalög nr. 50/1993.

…[Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skaðabótalaga 100% í sex mánuði. Varanlegur miski skv. 4. gr. 15%. Varanleg örorka skv. 5. gr. 25%.]”

Eftir að matsgerð læknisins lá fyrir óskaði réttargæslustefndi álitsgerðar Örorkunefndar um miskastig og varanlega örorku stefnanda. Álitsgerð nefndarinnar er dagsett 12. maí 1997, en að henni stóðu formaður nefndarinnar, Ragnar Halldór Hall, hæstaréttarlögmaður, og læknarnir Magnús Páll Albertsson og Magnús Ólason. Stefnandi var skoðaður af Magnúsi Páli Albertssyni 21. apríl 1997.

Í álitsgerðinni segir m.a.:

„Líðan nú og afleiðingar slyssins

Gunnar kveðst vera verkjalaus í fætinum í góðri hvíld og segir sér einnig líða ágætlega við gang á jafnsléttu ef hann gengur rólega og án aukaálags eins og við burð eða þess háttar. Gunnar kveðst á þennan hátt ráða við rólegan gang í u.þ.b. einn km áður en hann fer að fá verki í vinstri fótinn.

Gangi Gunnar Þór hins vegar á ósléttu eða með álagi og átökum fær hann alltaf verki í vinstri fót og segir hann gang í stigum mjög erfiðan.

Þá sækir bjúgur eða þroti á fótinn eftir álag og áreynslu og eftir vinnu vaknar hann stundum á morgnana með þrútinn fót en sérstaklega ef dagurinn áður hefur verið erfiður.

Gunnar Þór kveðst ganga með helti en segir ástandið hafa lagast eitthvað upp á síðkastið eftir að hann fór að nota eitthvað krem gegn þrotanum.

Afleiðingar slyssins fyrir utan það sem hér er þegar talið eru aðallega þær að Gunnar Þór ræður ekki við sömu vinnu og áður, er í léttari vinnu nú og ræður heldur ekki við að taka neina aukavinnu eins og hann gerði talsvert af áður fyrr.

Skoðun þann 21. apríl 1997

Gunnar Þór er í ágætu jafnvægi og glaðlegur er samtalið fer fram. Svarar hann greiðlega þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Hann gengur með nokkurri helti vinstra megin og á erfitt með að ganga á tám og hælum en getur það með erfiðleikum.

Aftan frá séð er skekkja í vinstri hæl út á við um 10 – 15°(valgus skekkja) en sambærileg lína hægra megin er 0°.

Þegar Gunnar Þór stendur í fótinn er fóturinn nokkuð útflattur og ilin sigin.

Það eru þreifieymsli neðan við ökklakúlu utanvert vinstra megin eða yfir liðum milli hælbeins og völubeins. Það er vægur þroti í fætinum.

Til staðar eru góðir púlsar í slagæðum bæði ofan á rist og aftan við ökklakúlu innanvert beggja vegna. Ökklar eru stöðugir beggja vegna og ekki merki um los á liðböndum.

Hreyfigeta í vinstri ökkla er vægt minnkuð en Gunnar Þór getur lyft upp um báða ökkla (dorsal extensio) um 40° en beygja niður á við (plantar flexio) hægra megin er 45°en vinstra megin 30°.

Hreyfingar í liðum milli völu- og hælbeins, þ.e. snúningshreyfingar í fætinum (inversio og eversio) eru eðlilegar hægra megin en mikið skertar vinstra megin. Þeim hreyfingum fylgir verkur.

Taugaskoðun í fótum er eðlileg. Þótt sinaviðbrögð séu dauf þá eru þau samhverf. Skoðun á mjöðmum og hnjám er eðlileg.

Niðurstaða:

Gunnar Þór hefur verið sjómaður lengst af starfsævi sinnar. Hann hefur unnið í landi hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum frá 1988 – 89.

Gunnar Þór lenti í vinnuslysi 7. júlí 1993 er stigi sem hann stóð í rann undan honum þannig að hann féll í gólfið. Hlaut hann við þetta brot á hælbeini vinstra megin og afrifubrot í neðri enda sperrileggs. Eftir þetta var hann meðhöndlaður í gipsi í sex vikur. Hælbeinsbrotið hefur gróið með beinið nokkuð útflatt og hefur eftir þetta valdið honum vandræðum bæði hvað varðar þrota og eins hefur hann haft verki við gang og vinnu. Það eru komnar slitbreytingar í liðina milli hælbeins og völubeins og það er skert hreyfigeta í þessum liðum vinstra megin. Gunnar Þór gengur með helti og ræður ekki við sömu vinnu og áður, hvorki hvað varðar erfiði vinnunnar né heldur hvað varðar aukavinnu.

Á tímabili stóð til að gera staurliðsaðgerð milli völubeins og hælbeins en frá því var horfið eftir að Gunnar hafði fengið spelkur til að nota. Það er hins vegar alls ekki útilokað að gera þurfi slíka aðgerð síðar meir.

Örorkunefnd telur að eftir 1. júlí 1994 hafi Gunnar ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum vinnuslyssins 7. júlí 1993. Að öllum gögnum virtum þykir varanlegur miski hans vegna afleiðinga slyssins hæfilega metinn 12% -tólf af hundraði-.

Tekjur tjónþola eftir slys hafa verið lítið eitt lægri en þær voru árin á undan, en hann var á slysdegi rétt tæplega sextugur að aldri. Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins dragi nokkuð úr getu hans til öflunar vinnutekna til loka venjulegs starfsaldurs frá því sem ella hefði verið. Er varanleg örorka hans vegna afleiðinga slyssins metin 8% -átta af hundraði-.”

Er niðurstaða örorkunefndar lá fyrir gengu aðilar til bótauppgjörs á grundvelli þess. Stefnandi tók við greiðslum með þeim fyrirvara að hann hygðist sækja frekari bætur í samræmi við örorkumat Sigurjóns Stefánssonar, en réttargæslustefndi áskildi sér rétt til að bera þá fyrir sig eigin sök stefnanda. Þá áskildi réttargæslustefndi sér rétt til að endurkrefja stefnanda ef greiðslan væri umfram skyldu skv. skaðabótalögum.

Samkvæmt uppgjörsyfirliti frá réttargæslustefnda voru greiddar kr. 1.222.193, en greiðslan sundurliðast svo:

Bætur úr slysatryggingu

1.

Örorkubætur (12% læknisfræðileg örorka)

kr. 284.364

2.

Vextir

kr.   5.431

Samtals greiðsla slysatryggingar

kr. 289.795

Bætur úr ábyrgðartryggingu

1.

Bætur fyrir 8% varanlega örorku

kr. 890.719

Vísitöluhækkun

kr.  84.133

Samtals

kr. 974.852

Frádráttur:

56% lækkun skv. 9. gr. skaðabótalaga

kr. 545.917

Greiðsla slysatryggingar

kr. 284.364

Samtals bætur fyrir varanlega örorku

kr. 144.571

2.

Bætur skv. 3. gr. skaðabótalaga (1420x42 dagar)

kr.  59.640

3.

12% varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga

kr. 525.338

4.

Vextir skv. 16. gr. skaðabótalaga

kr.  51.864

5.

Útlagður kostnaður og lögmannsþóknun

kr. 150.985

Heildargreiðsla ábyrgðartryggingar

kr. 932.398

Stefnandi telur stefnda bótaskyldan vegna tjóns sem hann hlaut af vinnuslysinu samkvæmt reglunni um húsbóndaábyrgð og ábyrgð vinnuveitanda á aðbúnaði á vinnustað.

Stefnandi hafi unnið verkið samkvæmt fyrirmælum verkstjóra og notað til þess þau áhöld sem vinnuveitandi hans lagði til, þ.á m. stiga. Gólf hafi verið hál og verkstjóri hafi ekki varað stefnanda við.

Stefnandi hafi ekki gert sér grein fyrir vanbúnaði stigans. Hann hafi áður verið látinn vinna með þennan stiga og það gengið áfallalaust.

Stefnandi vísar til greinar 6.5 í reglum um húsnæði vinnustaða nr. 493/1987, sbr. 48. gr. reglna nr. 581/1995. Þá vísar hann til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Útreikningur stefnukröfu er byggður á örorkumati Sigurjóns Stefánssonar er áður getur. Því mati hafi ekki verið hnekkt með neinum lögformlegum hætti. Umfjöllun örorkunefndar breyti því ekki, en einn læknir nefndarinnar hafi staðið að raunverulegu mati með skoðun og viðtali við stefnanda.

Þá gerir stefnandi athugasemd við það að örorkunefnd leggi aldur hans til grundvallar niðurstöðu. Telur stefnandi þetta ólögmætt, aldur leiði aðeins til lækkunar bótafjárhæða, sbr. 9. gr. skaðabótalaga. Þá telur stefnandi rangt sem fram kemur í álitsgerð nefndarinnar að laun hans hafi lækkað lítillega. Þau hafi lækkað mun meira en nefndin geri ráð fyrir. Þá mótmælir hann því að örorka hans verði lækkuð vegna þess að hann hafi harkað af sér og stundað vinnu þrátt fyrir verki í fætinum.

Stefnukrafa er sundurliðuð í stefnu:

1.

Varanleg örorka

kr. 2.783.499

Verðbætur

kr.  282.421

Frádráttur vegna greiddrar slysatryggingar

kr. (284.364)

Frádráttur vegna aldurs (56%)

kr. (1.557.671)

2.

Varanlegur miski

kr.  660.900

3.

Þjáningabætur (42 dagar x 1.430)

kr.   60.060

Þjáningabætur (145 dagar x 770)

kr.  111.650

4.

Tímabundið tekjutap vegna læknisrannsókna

kr.   28.471

Samtals

kr. 2.084.966.

Frá kröfunni vill stefnandi draga eins og áður segir fjárhæð þá er réttargæslustefndi greiddi 24. nóvember 1997.

Stefndi telur að slysið verði rakið til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs og því eigi hann sjálfur sök á því. Krefst hann þess aðallega að öll sök verði lögð á stefnanda og hann því sýknaður, en til vara að verulegur hluti sakar á slysinu verði á hann lagður og bætur því skertar vegna eigin sakar.

Stefndi staðhæfir í greinargerð að stefnandi hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að nota umræddan stiga, en ekki þann sem betri var. Stefnandi hafi verði búinn að vinna í nokkur ár í fiskimjölsverksmiðjunni og því verið vel kunnugur öllum aðstæðum. Þá hafi stefnandi ekki gert neina tilraun til að ganga þannig frá stiganum að hann gæti ekki runnið. Stefndi bendir á að Vinnueftirlit ríkisins hafi ekki gert athugasemd við gólfið, aðeins sagt að það væri hált.

Varðandi mat á tjóni stefnanda vill stefndi byggja á álitsgerð örorkunefndar, en telur að örorkumat Sigurjóns Stefánssonar uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu í skaðabótalögunum til mats á fjárhagslegri örorku.

Um mat Sigurjóns Stefánssonar bendir stefndi á að hann hafi ekki haft nein gögn um tekjur stefnanda, mat hans hafi aðeins byggst á þeirri frásögn stefnanda að tekjur hans hefðu skerst talsvert og hafi hann nefnt 20% í því sambandi.

Þá hafi örorkunefnd skoðað stefnanda tveimur árum síðar en Sigurjón Stefánsson. Líklegt sé að mat á miskastigi sé þá nákvæmara þar sem varanlegar afleiðingar slyssins séu ljósari en áður.

Stefndi telur ummæli í greinargerð með skaðabótalögunum benda til þess að einn læknir sé ekki talinn hæfur til að framkvæma mat á fjárhagslegri örorku samkvæmt lögunum. Í örorkunefnd sitji tveir læknar og lögfræðingur og standi þeir allir að matinu, en ekki eingöngu sá læknir er skoðaði stefnanda.

Stefndi telur mat nefndarinnar síst of lágt. Bendir hann á að á síðasta ári hafi stefnandi unnið fullan vinnudag og því verði ekki sagt að vinnugeta hans sé verulega skert.

Stefndi gerir ítarlega athugasemd við uppbyggingu kröfugerðar stefnanda, einkum hvernig hann vilji draga fyrri greiðslu frá. Ekki verður á þessu stigi fjallað nánar um þessar athugasemdir, en leyst verður úr kröfugerð í niðurstöðukaflanum hér á eftir að því leyti sem tilefni er.

Niðurstaða:

Það er óumdeild regla í íslenskum rétti að vinnuveitandi verði bótaskyldur gagnvart starfsmönnum sínum vegna meiðsla er þeir hljóta vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað eða vanbúinna áhalda sem þeim eru látin í té til notkunar við vinnu. Aðstæður á vinnustað stefnanda umrætt sinn voru óvenjulegar með því að gólf var sérstaklega hált. Þá var ekki gúmmí á enda þess stiga er stefnandi notaði. Miðað við það sem fram kom við aðalmeðferð átti stefnandi ekki kost á að nota annan stiga og eru staðhæfingar í greinargerð stefnda í þá veru ósannaðar. Þá verður það ekki metið honum til eigin sakar að hafa ekki gert sérstakar ráðstafanir til að draga úr hættunni sem þarna skapaðist. Því er heldur ekki haldið fram að hann hafi fengið skýr fyrirmæli eða leiðbeiningar í þá veru. Bótaskylda stefnda er því viðurkennd og verður stefnda gert að greiða stefnanda óskertar bætur, þar sem eigin sök hans verður ekki að neinu leyti um slysið kennt.

Við mat á fjárhagslegri örorku stefnanda hafa bæði örorkunefnd og Sigurjón Stefánsson læknir skoðað ástand stefnanda og meiðsl hans. Þá hefur örorkunefnd haft til afnota upplýsingar um tekjur stefnanda fyrir og eftir slysið. Í áliti nefndarinnar virðist byggt á því að tekjur stefnanda hafi ekki lækkað verulega, en nákvæmur útreikningur á því liggur ekki fyrir. Þá hefur ekki verið kannað að hve miklu leyti tekjusveiflur hjá stefnanda verða raktar til heilsufars hans, eða því að mismikil yfirvinna var í boði á vinnustað hans. Þá hefur nefndin ekki litið til þess sem stefnandi staðhæfði í aðilaskýrslu sinni að hann hefði hætt við að fara aftur á sjó eftir slysið.

Við athugun á þeim upplýsingum sem liggja frammi sést að laun stefnanda lækkuðu í krónutölu hvert ár 1993 – 1996, en hækkuðu 1997 og munu sennilega einnig hafa hækkað á síðasta ári. Eins og áður segir er ekki reynt í gögnum málsins að finna skýringu á þeirri tekjulækkun sem varð eða því hvers vegna launin virðast í seinni tíð hafa hækkað á ný.

Þá verður er fjárhagsleg örorka er metin að líta einnig til þess hvort örorka leiðir til þrengri möguleika á starfi. Stefnandi lýsti því í aðilaskýrslu sinni að hann hefði haft hug á að fara á sjó aftur, en hann stundaði sjó til margra ára. Hversu raunhæft það hefur verið er ekki unnt að leggja dóm á, en miða verður við að slysið hefur líklega gert það útilokað fyrir stefnanda að stunda sjómennsku og jafnframt dregið úr möguleikum hans á annarri vinnu í landi.

Í niðurstöðum örorkunefndar er ekki skýrt samhengi milli tiltölulega ítarlegra forsendna og niðurstaðna um fjárhagslega örorku stefnanda. Þá er varanlegur miski ekki skýrður sérstaklega með tilvísun í töflu nefndarinnar. Örorkumat Sigurjóns Stefánssonar greinir heldur ekki skýrlega samhengið á milli lýsingar á áverkum stefnanda og niðurstöðu um fjárhagslega örorku. Af báðum mötunum sýnist þó mega ráða að hugmyndir um tekjuskerðingu sem fram væri komin hafi mikið til ráðið niðurstöðu.

Í niðurstöðu örorkunefndar er ekki fjallað neitt um hið fyrra mat Sigurjóns Stefánssonar, sem þó var brýn ástæða til þar sem nefndin komst að talsvert ólíkri niðurstöðu. Í matgerð Sigurjóns sýnast þó dregnar eðlilegar ályktanir af þeim staðreyndum sem þekktar voru og tekið að einhverju leyti tillit til þess að þrátt fyrir nokkurn aldur stefnanda er eðlilegri starfsævi hans ekki nærri því lokið og sýnilega líkur á að draga muni hratt úr vinnuþreki.

Stefndi vísar til þess að fjárhagsleg örorka skuli ákveðin af örorkunefnd samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Á þetta er ekki hægt að fallast. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. geta aðilar leitað álits nefndarinnar. Þannig er ekki skylt að leita til nefndarinnar og niðurstöður hennar eru nefndar álit, en ekki ákvörðun eða úrskurður. Með vísan til þessa orðalags og fordæma í dómum Hæstaréttar, t.d. dómi 17. desember 1998 í málinu nr. 147/1998, verður að líta á álitsgerð örorkunefndar eins og önnur sönnunargögn og ræðst sönnunargildi hennar fyrst og fremst af þeirri efnislegu umfjöllun um viðfangsefnið sem þar kemur fram.

Samkvæmt framansögðu verður örorkumat Sigurjóns Stefánssonar lagt til grundvallar við ákvörðun bóta til stefnanda.

Varanleg fjárhagsleg örorka skal bætt með 2.783.499, að viðbættri vísitöluhækkun kr. 282.421, en með frádrætti vegna aldurs um 56%, kr. 1.716.915. Réttargæslustefndi greiddi í uppgjörinu 24. nóvember kr. 144.571 vegna varanlegrar örorku. Ógreiddar eru því kr. 1.204.434. Frá þeirri fjárhæð ber að draga greiðslu réttargæslustefnda skv. slysatryggingu, kr. 284.364.

Varanlegan miska skal bæta með kr. 660.900. Greiddar voru þann 24. nóvember 1997 kr. 525.338. Ógreiddar eru kr. 135.562.

Þjáningabætur vegna 42 daga rúmlegu stefnanda voru greiddar með áðurnefndu uppgjöri, en ekki bætur fyrir þann tíma sem stefnandi telst hafa verið veikur, en ekki rúmliggjandi. Krafa stefnanda um bætur vegna 145 daga er ekki skýrð nákvæmlega í stefnu, en af henni og öðrum gögnum málsins er augljóst að stefnandi krefst þessara bóta til þess dags er hann hóf störf að nýju, sem var 10. janúar 1994. Þykir mega fallast á kröfuna þegar litið er til lýsinga þeirra á ástandi hans sem fram koma í málinu. Verður hún dæmd með kr. 111.650.

Loks krefst stefnandi bóta vegna tímabundins tekjutaps vegna læknisrannsókna. Um er að ræða ferðir hans til lækna í janúar og febrúar 1995, þar sem dregnar voru af launum hans kr. 28.471. Er þessar ferðir voru farnar var læknismeðferð í beinu framhaldi af slysinu ekki lokið og nauðsyn þessara ferða vegna þeirrar meðferðar hefur ekki verið dregin í efa. Verður að fallast á þennan kröfulið.

Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.195.753.

Krafan skal bera 2% ársvexti frá slysdegi eins og stefnandi krefst, fram til þess er mánuður var liðinn frá því að krafa var gerð á hendur stefnda. Ekki liggur frammi neitt bréf lögmanns stefnanda þar sem kröfugerð hans er sett upp í samræmi við niðurstöðu örorkumats Sigurjóns Stefánssonar. Hann sendi réttargæslustefnda örorkumatið með bréfi dags. 7. maí 1996. Réttargæslustefndi tilkynnti honum með bréfi 16. ágúst sama ár að hann hefði ákveðið að leita álits örorkunefndar. Í ljósi þessa verða dráttarvextir dæmdir frá þessum síðastgreinda degi, 16. ágúst 1996.

Loks ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 350.000 í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., greiði stefnanda, Gunnari Þór Þorbergssyni, kr. 1.195.753 með 2% ársvöxtum frá 7. júlí 1993 til 16. ágúst 1996, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags og kr. 350.000 í málskostnað.