Hæstiréttur íslands

Mál nr. 282/2001


Lykilorð

  • Höfundarréttur
  • Hugbúnaður


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. janúar 2002.

Nr. 282/2001.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Ólafi Arasyni og

Tæknibæ ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Höfundaréttur. Hugbúnaður.

Í kjölfar kæru fyrirtækisins MC í Bandaríkjunum voru Ó og einkahlutafélagið T ákærð fyrir brot gegn höfundalögum, fyrir að hafa í verslun T afritað stýrikerfið Windows 98 og hugbúnaðinn Microsoft Office 97 inn á hart drif tölva og látið fylgja með við sölu á þeim án sérstaks endurgjalds. Talið var ljóst að MC ætti höfundarétt á umræddum hugbúnaði skv. höfundalögum og að notkun og dreifing búnaðarins væri því háð leyfum og skilmálum þess fyrirtækis. Þá var talið að afritun hugbúnaðarins væri eintakagerð í skilningi höfundalaga. Fyrir lá að hugbúnaðurinn á þeim tölvum sem málið tók til var afritaður af diskum er Ó og T höfðu til afnota. Slík afritun var ekki talin í samræmi við höfundalög og var talin brot gegn einkarétti MC. Við mat á því hvort dreifing afritunarinnar teldist saknæm þótti verða að byggja á því hvort notandaleyfi og viðkomandi diskur hafi legið fyrir og fylgt tölvu. Þótti rétt að sönnunarbyrðin um það hvíldi verulega á seljanda. Talið var sannað að Ó og T hefðu gerst sek um óheimila afritun hugbúnaðar í öllum þeim tíu tilvikum sem tilgreind höfðu verið í ákæru og fyrir dreifingu hans, án þess að tilskilin leyfi fylgdu, í átta þeirra. Við ákvörðun refsingar skv. höfundalögum var litið til þess að brotin voru framin í verslunarrekstri með tölvur. Hins vegar þótti rétt að líta til þess að í meiri hluta þeirra tilvika, sem athugun lögreglu hafði náð til, reyndust leyfi hafa fylgt viðkomandi tölvum. Var refsing Ó ákveðin 400.000 krónur og var T sektað um sömu fjárhæð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2001 og krefst sakfellingar ákærðu samkvæmt ákæru.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu, en til vara, að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

Hinn 26. apríl 1999 barst ríkislögreglustjóranum kæra Hróbjarts Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns fyrir hönd Microsoft Corporation í Bandaríkjunum á hendur hinu ákærða einkahlutafélagi, Tæknibæ, fyrir „skipulega brotastarfsemi sem felst í því að félagið hagnýtir sér, dreifir með eða án endurgjalds, hugbúnaði sem umbj. minn er löglegur rétthafi að og nýtur verndar skv. höfundalögum ...“. Í bréfinu kemur fram að kæran sé reist á því að lögmanninum hafi borist fjöldi kvartana um að viðkomandi aðilar hafi keypt tölvur, sem forritin MS-DOS, WINDOWS og OFFICE hafi verið sett í án þess að nauðsynleg skilríki, diskar eða handbækur hafi fylgt. Þegar þessir aðilar hafi óskað eftir því við fyrirtækið að fá þessa fylgihluti hafi það ekki kannast við að hafa selt þau forrit, sem til sé vitnað og hafi þau verið á tölvunum fyrir slysni eða þá að viðkomandi hafi sett forritin inn sjálfir. Hafi kærandi rökstudda ástæðu til að ætla að kærði stundi víðtæka ólöglega dreifingu á hugbúnaði, er kærandi eigi höfundarétt að. Engu breyti að kærði áskilji sér ekki beina peningagreiðslu fyrir hugbúnaðinn þar sem hann sé boðinn sem „viðbót“ við hið selda í því skyni að ná sér í viðskiptalegt forskot á samkeppnisaðila sína. Þá kemur fram að Windows 98 búnaður, sem hér um ræðir, kosti um það bil 20.000 krónur úr verslun og Office 97 sé almennt seldur á 70.000 – 100.000 krónur.

Í kærubréfinu segir og, að með þeim tölvum, sem hafi að geyma löglega Windows innfærslu fylgi sérstakt skírteini, COA, og notendahandbók. Sé skráð í skírteinið svokallað „product nr.“, sem sé talnaruna, en auk þess sé strikamerki í skírteininu. Það númer slái kaupandinn inn í tölvu sína við uppsetningu búnaðarins, sem þá skráist í tölvuna á nafn kaupanda með upprunanúmeri. Skírteinið og innfærsla þess sé því sönnun um að kaupandinn hafi fengið hugbúnaðinn með lögmætum hætti.

Vegna ofangreindra grunsemda kveðst kærandi hafa látið fara fram reynslukaup hjá ákærðu til að sannreyna ofangreindar ásakanir. Þennan dag, 26. apríl 1999, hafi Guðrún Elín Jónsdóttir keypt tölvu í verslun þeirra, sem afhent verði lögreglu í beinu framhaldi kaupanna. Í viðauka við kæruna 8. júní 1999 segir, að við rannsókn á þessari tölvu hafi komið fram að í henni var hugbúnaðurinn Windows 98 og Office 97. Með henni hafi fylgt upprunaskírteini fyrir Windows 98 forritið, en hins vegar ekki fyrir Office 97 búnaðinn og verði að líta svo á að hann sé ólögmætur.

II.

Eins og fram kemur í héraðsdómi gerði lögregla leit í húsnæði Tæknibæjar ehf. 1. september 1999 og lagði þar hald á tiltekin gögn. Voru meðal annars tekin afrit af öllum reikningum þar sem seldar höfðu verið tölvur í samræmi við ákveðin tilboð. Samkvæmt skýrslu Jóns Lárussonar lögreglufulltrúa hjá ríkislögreglustjóra 27. apríl 2000 voru skoðuð kaup á 67 vélum. Kaupendur sjö véla gátu ekki gert grein fyrir hvort Windows eða Office hugbúnaður hefði verið í tölvunum við kaup. Af þeim 60, sem eftir voru, reyndust 16 hafa verið seldar án stýrikerfis, en af þeim, sem seldar höfðu verið með Windows 98 stýrikerfi, voru 16 án geisladisks og upprunavottorðs. Office hugbúnaður hafi aðeins fundist í þremur tilvikum.

Í skýrslunni segir að viðtöl við kaupendur hafi verið tekin á þann hátt að þeir voru heimsóttir, þeim kynnt tilefni viðtals, svo og vitnaskylda og vitnaábyrgð. Hafi verið settar fram spurningar á eyðublaði, sem viðkomandi hafi verið beðnir að undirrita eftir að hafa svarað þeim. Í nokkrum tilvikum hafi eyðublöðin ekki verið fyllt út, heldur hafi lögreglumaðurinn gert skýrslu um viðtalið. Einnig hafi lögreglumaður stundum gert skýrslu til viðbótar undirrituðu eyðublaði.

Umræddar skýrslur liggja fyrir í málinu og auk viðkomandi skýrslugjafa hefur sá lögreglumaður, sem upplýsingarnar skráði, undirritað skýrslu ásamt votti, sem var viðstaddur skráninguna og undirritun skýrslugjafans.

III.

Ákærði Ólafur hefur viðurkennt fyrir dómi og hjá lögreglu að raðnúmer á þeim Windows stýrikerfum, sem seld voru af honum og fyrirtæki hans hafi verið hið sama. Það hafi verið venja að kerfi hafi verið sett upp af einum sameiginlegum diski á tölvur þær, sem seldar voru, en notendaleyfi og söludiskar frá Microsoft hafi síðan fylgt tölvunni. Hafi þetta verið gert vegna vinnuhagræðingar. Taldi hann að notendaleyfi og diskur frá Microsoft hefðu fylgt til þeirra kaupenda, sem um ræðir í málinu, enda hafi svo átt að vera og það verið venja í versluninni.

IV.

Í 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 segir að höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eigi eignarrétt á því með þeim takmörkunum, sem í lögunum greini. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar njóta verndar uppdrættir, teikningar, mótanir, líkön og önnur þess háttar gögn, sem fræðslu veita um málefni eða skýra þau, með sama hætti og bókmenntaverk og samkvæmt 4. mgr., sbr. 1. gr. laga nr. 57/1992, gildir þetta einnig um tölvuforrit. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er sagt að það sé eintakagerð þegar hugverk sé tengt einum hlut eða fleirum. Hefur höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum, sbr. 3. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. höfundalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 57/1992, telst höfundur verks sá, uns annað reynist, sem nafngreindur er á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk er birt.

Í II. kafla höfundalaganna eru ýmis ákvæði, er fjalla um takmarkanir á höfundarétti. Í 1. mgr. 11. gr. segir að heimilt sé að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu, en enginn megi þó láta gera fleiri en þrjú slík eintök til notkunar í atvinnu sinni. Í 4. tl. 2. mgr. 11. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 57/1992, er hins vegar kveðið svo á, að ákvæði 1. mgr. greinarinnar veiti ekki rétt til eftirgerðar verndaðra tölvuforrita. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. a, sem í gildi var á þeim tíma, er atvik málsins taka til, sbr. 4. gr. laga nr. 57/1992, sagði að þrátt fyrir ákvæði 4. tl. 2. mgr. 11. gr. væri eiganda eintaks af tölvuforriti heimil gerð eintaka eftir forritinu, þar á meðal til gerðar vara- og öryggiseintaka, sem honum væru nauðsynleg til nýtingar þess. Slík eintök megi ekki nota á annan hátt. Í 2. mgr. greinarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 145/1996, segir að þeim, sem öðlast hafa rétt til notkunar tölvuforrits sé heimilt án sérstaks leyfis forritshöfundar að skoða, rannsaka eða prófa forritið í því skyni að kanna virkni þess með vissum skilyrðum.

V.

Microsoft Corporation á höfundarrétt á þeim hugbúnaði, sem um ræðir í máli þessu, þ.e. Windows 98 og Microsoft Office 97, sbr. 3. og 4. mgr. 1. gr. höfundalaga. Er notkun og dreifing þessa búnaðar því háð leyfum og skilmálum fyrirtækisins. Verður að líta svo á að afritun þessa hugbúnaðar sé eintakagerð í skilningi 2. og 3. gr. höfundalaga.

Samkvæmt framburði ákærða Ólafs fyrir dómi og öðrum gögnum liggur fyrir, að Windows 98 og Microsoft Office 97 hugbúnaður í tölvum þeim, sem ákæra málsins tekur til, var afritaður af diskum, er ákærði og hið ákærða fyrirtæki höfðu til afnota. Er ljóst að slík afritun er ekki í samræmi við fyrrgreind ákvæði 4. tl. 2. mgr. 11. gr. og 11. gr. a höfundalaga. Var með þessu brotið gegn einkarétti Microsoft Corporation samkvæmt 3. gr. laganna og hlaut ákærða Ólafi og öðrum forsvarsmönnum Tæknibæjar ehf. að vera þetta ljóst. Þegar metið er hvort dreifing afritunarinnar teljist saknæm þykir hins vegar skipta máli, hvort notandaleyfi og viðkomandi diskur hafi legið fyrir við hverja sölu og fylgt tölvu. Fullyrðir ákærði að svo hafi verið. Við sönnunarmat er óhjákvæmilegt að líta til þess að við sölu á þessum hugbúnaði, sem bundinn er tilteknum leyfum, hlýtur sú krafa að verða gerð til þeirra, sem að henni standa, að þeir geti gert grein fyrir því, hvaða leyfi liggi til grundvallar hverri sölu. Án slíks er hætt við að vernd eiganda hugverks samkvæmt höfundalögum verði næsta lítil. Sérstaklega var brýnt fyrir ákærðu að tryggja sér sönnun í þessum efnum þegar litið er til þess, hvernig staðið var að afritun hugbúnaðarins samkvæmt framansögðu.

Skýrslur þær, sem lögreglumenn tóku af kaupendum umræddra tölva verða metnar sem önnur sönnunargögn í ljósi framburðar fyrir dómi enda var gætt lögbundinna atriða við þær, þær undirritaðar af skýrslugjafa og lögreglumanni ásamt votti.

VI.

Verður nú vikið að einstökum ákæruatriðum.

1. Hinn 5. janúar 1999 keypti Viktoría Eyrún Ragnarsdóttir tölvu í Tæknibæ ehf. og er óumdeilt að Windows stýrikerfi, sem afritað hafði verið hjá fyrirtækinu af diski þess, fylgdi tölvunni. Ekkert kemur fram á reikningi um upprunaskírteini eða númer þess. Við skýrslutöku fyrir lögreglu 6. mars 2000 sagði þessi kaupandi að hvorki hefði fylgt tölvunni upprunaskírteini né diskur með hugbúnaðinum. Fyrir dómi staðfesti kaupandinn skýrslu sína og kvaðst standa við það, sem hann hefði sagt þar um þetta.

Ragnheiður Kristín Ástvaldsdóttir, sem starfaði hjá Tæknibæ ehf. til ársloka 2000, hafði afgreitt fyrrnefndan kaupanda. Mundi hún ekki sérstaklega eftir þessari sölu, en taldi að viðeigandi hugbúnaðarpakki hafi örugglega fylgt með enda hefði það verið venjan.

Engin haldbær gögn hafa komið fram af hálfu ákærðu um að notandaleyfi hafi fylgt með í umræddri sölu og þess er ekki getið í reikningi vegna sölunnar. Með hliðsjón af því og framburði Viktoríu Eyrúnar Ragnarsdóttur þykir, þrátt fyrir framburð starfsmanns ákærðu, fram komin sönnun þess að nefndur hugbúnaður hafi verið seldur án þess að tilskilið leyfi eiganda höfundaréttar fylgdi.

2. Hinn 6. janúar 1999 keypti Bónusvídeó tölvu í Tæknibæ ehf. og er óumdeilt að Windows stýrikerfi, sem afritað hafði verið hjá fyrirtækinu af diski þess, fylgdi tölvunni. Ekki er upprunaskírteinis eða númers þess getið á reikningi, er gefinn var út vegna kaupanna. Í skýrslu Jóns Lárussonar lögreglufulltrúa 22. febrúar 2000 er greint frá samtali hans við Konstantín Mikaelsson, sem sá um tölvukaup fyrir Bónusvídeó. Kvað hann hvorki upprunavottorð né disk hafa fylgt tölvunni. Hafi hann spurst fyrir um þetta hjá Tæknibæ ehf. og hafi honum verið tjáð að leyfi það, sem fyrirtækið hefði væri þannig að ekki væri skylt að láta þessa hluti fylgja. Konstantín staðfesti þetta fyrir dómi. Hann var þar spurður, hvort mögulegt hefði verið að annar en hann hefði keypt tölvuna fyrir fyritækið og kvað hann það mjög fjarlægt því að hann sæi alveg um þessi mál hjá fyrirtækinu. Er honum var bent á að fram hefði komið hjá ákærða Ólafi að annar tiltekinn starfsmaður hefði samið við sig og hann hefði tekið við umræddum hlutum kvað hann það hugsanlegt, en ekki svo hann vissi til.

Ákærði Ólafur bar fyrir dómi að annar starfsmaður kaupandans, Gunnar Már Guðfinnsson, hefði tekið við geisladiski og notandaleyfi um sama leyti og tölvan hefði verið afhent. Gunnar Már kom fyrir dóm og skýrði frá samskiptum sínum við Tæknibæ ehf. í sambandi við umrædd kaup og kvað Bónusvídeó hafa fengið upprunaskírteini og geisladisk með Windows hugbúnaði þegar tölvukaupin áttu sér stað.

Enda þótt engin gögn hafi komið fram af hálfu ákærðu um að notandaleyfi hafi fylgt með umræddri tölvu þykir með hliðsjón af framansögðu varhugavert að telja sannað að svo hafi ekki verið og verða ákærðu því sýknaðir af þessum ákærulið, að því er dreifingu hugbúnaðarins varðar.

3. Hinn 19. janúar 1999 keypti Gyða Sigríður Einarsdóttir tölvu í fyrirtæki ákærðu og fylgdi henni Windows stýrikerfi, sem afritað hafði verið hjá fyrirtækinu af diski þess. Í reikningi er ekki nefnt notandaleyfi. Kaupandi gaf skýrslu fyrir lögreglu 27. mars 2000 og kvað upprunaskírteini eða disk með hugbúnaðinum ekki hafa fylgt með í kaupunum. Fyrir dómi staðfesti kaupandinn skýrslu sína og kvaðst hafa leitað eftir umræddum hlutum í kassa, sem fylgdi tölvunni, er lögreglumenn komu til hennar. Hún kvað starfsmenn Tæknibæjar ehf. hafa haft samband við eiginmann sinn eftir að rannsókn lögreglu hófst. Einnig kom fram að hún hafi keypt tölvuna fyrir milligöngu bróður síns, sem hafi þekkt eiganda Tæknibæjar ehf. og fengið afslátt, en hún hafi sjálf farið og keypt tölvuna.

Sigríður Ólafsdóttir, starfsmaður Tæknibæjar ehf. og dóttir ákærða Ólafs, kvaðst fyrir dómi 2. maí 2001 hafa annast umrædda afgreiðslu og muna eftir því að hafa afhent kaupandanum umrætt notandaleyfi.

Engin haldbær gögn hafa komið fram af hálfu ákærðu um að notandaleyfi hafi fylgt með í umræddri sölu og þess er ekki getið í reikningi vegna sölunnar. Með hliðsjón af því og framburði Gyðu Sigríðar Einarsdóttur þykir, þrátt fyrir framburð starfsmanns ákærðu, fram komin sönnun þess að umrædd tölva hafi verið seld með Windows hugbúnaði án þess að tilskilið leyfi fylgdi.

4. Unnur Carlsdóttir keypti hinn 21. janúar 1999 tölvu hjá ákærðu með Windows stýrikerfi, sem afritað hafði verið af diski Tæknibæjar ehf. Í reikningi er ekki nefnt notandaleyfi eða upprunaskírteini. Kaupandi gaf skýrslu hjá lögreglu 13. mars 2000 og kvað skírteini ekki hafa fylgt með eða disk með hugbúnaðinum. Fyrir dómi staðfesti Unnur Carlsdóttir skýrslu sína. Hins vegar kom þar fram að hún hefði fengið hugbúnaðinn síðar. Hafi vinur búðareigandans, svili vitnisins, komið með diskinn til sín, en hún gat ekki rifjað það upp, hvenær það hefði verið.

Björn Magnússon, svili vitnisins, staðfesti fyrir dómi að hann hefði tekið við umræddum diski með raðnúmeri stuttu eftir að umrædd kaup áttu sér stað.

Engin haldbær gögn hafa komið fram af hálfu ákærðu um að umrætt notandaleyfi hafi fylgt með umræddri tölvu og þess er ekki getið í reikningi vegna sölunnar. Framburður kaupanda og svila hennar fyrir dómi lýtur að því að leyfisgögn hafi verið afhent síðar. Verður samkvæmt þessu að telja sannað að afhending hugbúnaðarins hafi farið fram án þess að notandaleyfi  fylgdi og var þá um fullframið brot að ræða.

5. Árni Özur Árnason keypti tölvu hjá ákærðu 21. janúar 1999 með Windows 98 og Office 97 hugbúnaði, sem afritaður hafði verið hjá Tæknibæ ehf. af diski fyrirtækisins. Hugbúnaðarins eða leyfis vegna hans er ekki getið í reikningi vegna sölunnar. Kaupandi skýrði lögreglu svo frá 28. febrúar 2000 að hvorki upprunaskírteini né diskur hefði fylgt með í kaupunum. Fyrir dómi bar hann hins vegar að þessi gögn hefðu fylgt við kaupin og kvaðst hann ekki hafa verið með þau heima hjá sér þegar lögreglumenn komu og tóku af honum skýrslu, en hann hefði þá staðið í flutningum.

Enda þótt engin gögn liggi fyrir af hálfu ákærðu um að notandaleyfi hafi fylgt umræddri tölvu þykir með hliðsjón af framburði Árna Özurar Árnasonar varhugavert að telja sannað að svo hafi ekki verið. Verða ákærðu því sýknaðir af þessum ákærulið að því er dreifingu búnaðarins varðar.

6. Sverrir Ágústsson keypti tölvu hjá Tæknibæ ehf. 2. febrúar 1999 með Windows 98 hugbúnaði, sem afritaður hafði verið af diski fyrirtækisins. Var hugbúnaðarins eða leyfis vegna hans ekki getið á reikningi vegna sölunnar. Samkvæmt skýrslu kaupanda hjá lögreglu 28. febrúar 2000 fylgdu hvorki upprunaskírteini né viðeigandi diskur með í kaupunum. Þetta staðfesti hann fyrir dómi 2. maí 2001, en hins vegar kvað hann starfsmenn fyrirtækisins hafa komið með þennan búnað til sín skömmu eftir að rannsókn málsins hófst.

Heiðar Örn Kristjánsson, starfsmaður ákærðu, staðfesti að hann hefði afgreitt Sverri umrætt sinn og fullyrti að hann hefði afhent umrædd leyfisgögn við söluna. Hefði hann haldið gögnum varðandi sínar sölur til haga og hefði getað rifjað þetta upp.

Engin haldbær gögn hafa komið fram af hálfu ákærðu um að notandaleyfi hafi fylgt umræddri tölvu og þess er ekki getið í reikningi. Með hliðsjón af því og framburði Sverris Ágústssonar þykir, þrátt fyrir framburð starfsmanns ákærðu, fram komin sönnun þess að tölvan hafi verið seld án tilskilins leyfis.

7. Birgir Stefán Berndsen keypti tölvu hjá Tæknibæ ehf. 8. febrúar 1999 með Windows 98 hugbúnaði, sem afritaður hafði verið af diski fyrirtækisins. Var hugbúnaðarins eða leyfis vegna hans ekki getið á reikningi vegna sölunnar. Samkvæmt skýrslu kaupanda hjá lögreglu 27. mars 2000 fylgdu hvorki upprunaskírteini né diskur tölvunni við kaupin. Staðfesti hann þetta fyrir dómi og sagði jafnframt að hann hefði spurst fyrir um þessi gögn, en sér verið tjáð að þau væru ekki til. Þá skýrði hann svo frá að af hálfu Tæknibæjar ehf. hefði verið haft samband við sig vegna rannsóknar máls þessa og kvöldið eftir að rannsóknarlögreglan hefði komið til sín hefði fyrirtækið afhent sér umrædd gögn.

Bernharð M. Guðmundsson, starfsmaður Tæknibæjar ehf. og tengdasonur ákærða Ólafs, kannaðist við áritun sína á reikning vegna ofangreindrar sölu. Kvað hann sig minna að er tölvan var keypt hafi leyfið ekki verið á staðnum, en rætt hafi verið um að kaupandinn kæmi síðar að sækja það og hafi hann gert það tveimur til þremur vikum síðar.

Engin haldbær gögn hafa komið fram af hálfu ákærðu um að umrætt notandaleyfi hafi fylgt með tölvu þeirri, sem hér um ræðir, og þess er ekki getið í reikningi. Með hliðsjón af því og framburði Birgis Stefáns Berndsen þykir fram komin sönnun þess að tölvan hafi verið seld án tilskilins leyfis.

8. Stefán Andrésson keypti hinn 8. febrúar 1999 tölvu hjá Tæknibæ ehf. með Windows 98 stýrikerfi, sem afritað hafði verið af diski fyrirtækisins. Var hugbúnaðarins eða notandaleyfis ekki getið á reikningi vegna sölunnar. Við skýrslugerð hjá lögreglu 13. mars 2000 sagði kaupandinn að hvorki diskur né upprunaskírteini hefðu fylgt með er kaupin voru gerð. Staðfesti hann þetta fyrir dómi. Hann kvað starfsfólk fyrirtækisins hafa haft samband við sig og afhent sér disk og skírteini eftir að rannsókn lögreglu á máli þessu hófst.

Heiðar Örn Kristjánsson, starfsmaður Tæknibæjar ehf., sem afgreiddi þennan kaupanda, kvaðst þess fullviss að diskur og leyfi hefðu verið afhent við söluna.

Engin haldbær gögn hafa komið fram af hálfu ákærðu um að notandaleyfi hafi fylgt með umræddri tölvu og þess er ekki getið í reikningi. Með hliðsjón af því og framburði Stefáns Andréssonar þykir, þrátt fyrir framburð starfsmanns ákærðu, fram komin sönnun þess að tölvan hafi verið seld án tilskilins leyfis.

9. Anna Lind Pétursdóttir keypti tölvu hjá Tæknibæ ehf. 18. mars 1999 með Windows 98 hugbúnaði, sem afritaður hafði verið af diski fyrirtækisins. Var hugbúnaðarins eða leyfis vegna hans ekki getið á reikningi vegna sölunnar. Samkvæmt skýrslu kaupanda hjá lögreglu 27. mars 2000 fylgdu hvorki diskur né upprunaskírteini tölvunni við kaupin. Var þetta staðfest fyrir dómi, en þar skýrði kaupandi jafnframt svo frá að sér hefði verið tjáð að hún gæti komið síðar og sótt viðeigandi disk. Gat hún ekki útilokað að hún hefði gert það. Þá kvað hún starfsmenn fyrirtækisins hafa haft samband við sig eftir að rannsókn máls þessa hófst hjá lögreglu.

Elías Þorsteinsson, starfsmaður Tæknibæjar ehf., hefur skýrt svo frá fyrir dómi að það hafi komið fyrir að einstakir hlutir hafi ekki verið til við afgreiðslu og kaupendum sagt að þeir gætu nálgast þá síðar. Taldi hann að svo kynni að hafa verið í þessu tilviki.

Engin haldbær gögn hafa komið fram af hálfu ákærðu um að umrætt notandaleyfi hafi fylgt með umræddri tölvu og þess er ekki getið í reikningi. Með hliðsjón af því og framburði Önnu Lindar Pétursdóttur þykir fram komin sönnun þess að tölvan hafi verið seld án tilskilins leyfis.

10. Guðrún Elín Jónsdóttir keypti hinn 27. apríl 1999 tölvu hjá Tæknibæ ehf. með Windows 98 og Office 97 hugbúnaði, sem afritaður hafði verið af diskum fyrirtækisins. Kaup þessi fóru fram að tilhlutan kæranda máls þessa, eins og áður er getið og nánar er greint frá í héraðsdómi. Upprunaskírteini og diskur vegna Windows 98 fylgdu með í kaupunum en ekki vegna Office 97. Samkvæmt skýrslu kaupanda hjá ríkislögreglustjóra sama dag kvaðst hún hafa fest kaup á tölvunni daginn áður, en sótt hana þennan dag, þ.e. 27. apríl. Var tölvan afhent lögreglu í framhaldi afhendingar hjá Tæknibæ ehf. Fyrir dómi  staðfesti kaupandinn skýrslu sína.

Ákærði Ólafur hefur sagt að Office 97 hafi ekki átt að fylgja með við sölu umræddrar tölvu. Elías Þorsteinsson gat ekki skýrt það hvers vegna hugbúnaðurinn hefði verið inni á tölvunni.

Telja verður hafið yfir vafa í málinu í ljósi fyrirliggjandi gagna að umrædd tölva hafi verið afgreidd úr verslun ákærðu með Office 97 hugbúnað afritaðan af diski verslunarinnar án þess að viðeigandi notandaleyfi fylgdi. Var salan þannig brot gegn rétti eiganda höfundaréttar.

VII.

Samkvæmt framansögðu hafa ákærðu gerst sekir um óheimila afritun hugbúnaðar í öllum þeim tíu tilvikum, sem tilgreind eru í ákæruskjali, og fyrir dreifingu hans án þess að tilskilin leyfi fylgdu í átta þeirra, þ.e. samkvæmt liðum 1, 3-4 og 6-10. Verður ákærði Ólafur sem framkvæmdastjóri og daglegur stjórnandi fyrirtækisins talinn bera refsiábyrgð á þessum brotum, sem varða við 3. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 57/1992, sbr. einnig auglýsingu nr. 110/1947 um inngöngu Íslands í Bernarsambandið, sbr. lög nr. 80/1972.

Við ákvörðun refsingar samkvæmt 54. gr. höfundalaga ber að hafa í huga að brotin voru framin í verslunarrekstri með tölvur. Hins vegar er rétt að líta til þess að í meiri hluta þeirra tilvika, sem athugun lögreglu náði til, reyndust leyfi hafa fylgt viðkomandi tölvum. Með hliðsjón af þessu þykir refsing ákærða Ólafs hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð, 400.000 krónur. Vararefsing ákveðst eins og í dómsorði segir.

Samkvæmt 3. mgr. 54. gr.  höfundalaga þykir og rétt að dæma hið ákærða einkahlutafélag Tæknibæ til greiðslu sektar í ríkissjóð, sem einnig þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur.

Eftir framangreindum úrslitum verða ákærðu sameiginlega dæmdir til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ólafur Arason, greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Ákærði, Tæknibær ehf., greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.

Ákærðu greiði sameiginlega málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2000.

Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkislögreglustjóra, dagsettri 15. desember 2000, á hendur Ólafi Arasyni, kt. 280350-4279, Eskiholti 16, Garðabæ, sem tilgreindur er framkvæmdastjóri og daglegur stjórnandi Tæknibæjar ehf., og Tæknibæ ehf., kt. 420797-2819, Skipholti 50c, Reykjavík, en fyrirsvarsmaður félagsins er stjórnarformaður þess, Agnes Arthúrsdóttir, kt. 140950-2979, Eskiholti 16, Garðabæ.

Málið var dómtekið 2. þessa mánaðar.

Málið er höfðað “... vegna brota í starfsemi Tæknibæjar ehf., gegn höfundalögum fyrir að hafa í verslun Tæknibæjar ehf. að Skipholti 50c, Reykjavík á tímabilinu 5. janúar til 27. apríl 1999, afritað stýrikerfið Windows 98 inn á hart drif tölva og látið fylgja með við sölu á þeim til að minnsta kosti níu einstaklinga og félaga, án sérstaks endurgjalds og afritað hugbúnaðinn Microsoft Office 97 inn á harða drif tölva og látið fylgja með í sölu á þeim til að minnsta kosti tveggja einstaklinga án sérstaks endurgjalds.  Var þetta gert án leyfis Microsoft Corporation, sem á höfundarétt að stýrikerfinu og hugbúnaðinum.  Nánar tilgreint var stýrikerfið og hugbúnaðurinn afritað inn á hart drif tölva sem neðangreindir keyptu:

Eyrún Viktoría Ragnarsdóttir, reikningur nr. 5200, dags. 05.01.99 (Windows 98)

Bónusvídeó ehf., reikningur nr. 5253, dags. 06.01.99 (Windows 98)

Gyða Einarsdóttir, reikningur nr. 5699, dags. 19.01.99 (Windows 98)

Unnur Carlsdóttir, reikningur nr. 5771, dags. 21.01.99 (Windows 98)

Árni Özur Árnason, reikningur nr. 5788, dags. 21.01.99 (Windows 98 og Office 97)

Sverrir Ágústsson, reikningur nr. 6177, dags. 02.02.99 (Windows 98)

Birgir Berndsen, reikningur nr. 6395, dags. 08.02.99 (Windows 98)

Stefán Andrésson, reikningur nr. 6403, dags. 08.02.99 (Windows 98)

Anna Lind Pétursdóttir, reikningur nr. 7573, dags. 18.03.99 (Windows 98)

Guðrún E. Jónsdóttir, reikningur nr. 8652, dags. 27.04.99 (Office 97)

Teljast brot ákærða Ólafs varða við 3. gr. sbr. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga nr. 73, 1972, sbr. 2. gr. laga nr. 57, 1992, sbr. 1. tl. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 73, 1972, sbr. 5. gr. laga nr. 78, 1984, sbr. 162. gr. laga nr. 82, 1998 sbr. og 61. gr. a höfundalaga, sbr. 18. gr. laga nr. 57, 1992, sbr. og auglýsingu nr. 110, 1947 um inngöngu Íslands í Bernarsambandið, sbr. lög nr. 80, 1972, sbr. einnig tilskipun Evrópuráðsins 91/250/EBE frá 14. maí 1991 um lögvernd fyrir tölvuforrit sbr. viðauka XVII við lög nr. 2, 1993 um evrópska efnahagssvæðið. Einnig er vísað til viðauka C við Gatt samninginn 15. apríl 1994, sem fullgiltur var með þingsályktunartillögu 1. desember 1995.

Telst þetta varða ákærða Tæknibæ ehf., refsingu samkvæmt 3. gr. sbr. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga nr. 73, 1972, sbr. 2. gr. laga nr. 57,1992, sbr. 1. tl. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 73, 1972, sbr. 5. gr. laga nr. 78, 1984, sbr. 162. gr. laga nr. 82, 1998 sbr. og 61. gr. a höfundalaga, sbr. 18. gr. laga nr. 57, 1992, sbr. 3. mgr. 54. gr. laga nr. 73, 1972, sbr. og nú 19. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. 1. gr. laga nr. 140, 1998, sbr. og auglýsingu nr. 110, 1947 um inngöngu Íslands í Bernarsambandið, sbr. lög nr. 80, 1972, sbr. einnig tilskipun Evrópuráðsins 91/250/EBE frá 14. maí 1991 um lögvernd fyrir tölvuforrit sbr. viðauka XVII við lög nr. 2, 1993 um evrópska efnahagssvæðið. Einnig er vísað til viðauka C við Gatt samninginn 15. apríl 1994, sem fullgiltur var með þingsályktunartillögu 1. desember 1995.”

Ákæruvald krefst þess að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi ákærðu krefst sýknu, til vara vægrar refsingar. 

Rannsókn sem leiddi til útgáfu ákæru hófst 26. apríl 1999 er Ríkislögreglustjóra barst kæra Almennu málflutningsstofunnar f.h. Microsoft Corporation vegna heimildarlausrar dreifingar hugbúnaðar er fyrirtækið ætti höfundarétt að.  Með bréfi 8. júní sama ár var kæran afmörkuð nánar. 

Þegar upphaflega kæran var send sendi kærandi aðila til þess að kaupa tölvu í verslun Tæknibæjar.  Fékk hann til þess Guðrúnu Elínu Jónsdóttur.  Gekk hún frá kaupum á tölvu í versluninni þann 26. apríl 1999 og var hún afhent henni daginn eftir.  Kvaðst hún fyrir dómi hafa farið með tölvuna beint til lögreglunnar.  Verður nánar fjallað um þessa tölvu hér á eftir er rakinn verður framburður vitna fyrir dómi. 

Lögregla leitaði á starfsstöð Tæknibæjar.  Var þessi húsleit gerð 1. september 1999.  Í skýrslu um hana kemur fram að skoðaður hafi verið hugbúnaður í þremur tölvum sem voru uppsettar í versluninni.  Allar voru með Windows-stýrikerfi og tvær auk þess með Office-hugbúnað.  Til staðar voru notandaleyfi fyrir stýrikerfin en haft eftir ákærða Ólafi að Office-hugbúnaðurinn væri þarna samkvæmt þeirra eigin leyfi og yrði eytt úr tölvunum er þær yrðu seldar. 

Kannað var bókhald yfir sölu verslunarinnar fyrstu fjóra mánuði ársins 1999 og var haft samband við fjölda tölvukaupenda.  Var hópurinn takmarkaður til að draga úr umfangi rannsóknarinnar.  Þau tilvik sem talin eru í ákæru eru allt tilvik þar sem kaupendur töldu sig ekki hafa fengið forritið á diski og notandaleyfi og fundu ekki þessa hluti er þeir leituðu í fórum sínum.  Voru þessir kaupendur heimsóttir á tímabilinu janúar til apríl 2000. 

Fram hefur verið lagt yfirlit er unnið var af ákærða og annað er Sævar G. Jónsson, löggiltur endurskoðandi, tók saman.  Þar er tekið saman hve mikið var keypt af tölvum og hve mikið af notandaleyfum fyrir Windows og Office.  Þar segir að samkvæmt vörutalningalista hafi þann 31. desember 1998 verið til á lager hjá Tæknibæ 66 Windows-notandaleyfi.  Á tímabilinu frá 5. janúar til 27. apríl 1999 voru keypt 555 Windows-leyfi.  Á sama tíma voru seldar samtals 544 tölvur, þar af 517 með Windows-stýrikerfi, en auk þess 80 Windows leyfi sérstaklega og 11 leyfi fyrir Offce-hugbúnað. 

Sævar G. Jónsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann gat ekki borið um annað en að staðfesta að hann hefði kannað og staðreynt þessar athuganir. 

Ákærði Ólafur Arason gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Hann sagði að Tæknibær ehf. væri fjölskyldufyrirtæki hans og konu hans, hann væri framkvæmdastjóri.  Félagið stundaði einkum innflutning og sölu á tölvubúnaði, einkum vélbúnaði.  Almennt um sakarefnið sagði ákærði að það hefði verið viðtekin venja á þessum tíma að stýrikerfi eins og Windows 98 kæmi inn í tölvur með sama raðnúmer þar sem það hefði verið afritað af sama diskinum.  Jafnframt hefði verið afhent upprunavottorð og geisladiskur og hann hefði þá verið með annað raðnúmer.  Þetta hefði verið í pakka sem hefði verið tekinn af lager eins og allt annað, lyklaborð, mús og annað sem fylgdi hverri tölvu.  Það hafi ekki verið haldið utan um raðnúmer leyfis sem hverjum kaupanda var afhent.  Það hafi alltaf verið annað númer en það sem var á kerfinu sem var afritað inn í tölvuna. 

Ákærði tók fram að það hefði verið almenna reglan á þessum tíma að Windows stýrikerfi fylgdi öllum tölvum.  Það hafi ekki verið tilgreint sérstaklega á reikningum.  Ef annar hugbúnaður eins og Office hafi verið seldur með hafi þess verið getið á reikningi.  Hann hafi ekki verið innifalinn í tilboðunum. 

Fram kom hjá ákærða Ólafi að ekki hafi verið haldið sérstakt bókhald utan um hugbúnaðarleyfin.  Hann hafi sjálfur annast öll innkaup og haft auga með því hvað væri til og reynt að ímynda sér hvað þyrfti mikið næstu daga.  Það hafi ekki tekið nema tvo daga að fá hugbúnaðarleyfi frá seljanda. 

Agnes Arthúrsdóttir, eiginkona ákærða Ólafs og stjórnarformaður hins ákærða félags, gaf skýrslu við aðalmeðferð.  Hún staðfesti að hún væri stjórnarformaður félagsins.  Hún kvaðst hafa starfað í fyrirtækinu, við símavörslu og bókhald.  Hún kvaðst hafna ákæruatriðunum öllum.  Hún bar ekki um einstök tilvik sem talin eru í ákærunni, en hún kvaðst hafa kynnt sér öll tilvikin eftir að ákæran var gefin út. 

Hér á eftir verður greint frá framburðum þeirra kaupenda sem greindir eru í ákæru og þar er talið að hafi fengið afhent eintak hugbúnaðar án heimildar. 

Viktoría Eyrún Ragnarsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún keypti tölvu í verslun Tæknibæjar og er reikningur dagsettur 5. janúar 1999.  Í skriflegu svari hennar til lögreglu 6. mars 2000 kvað hún Windows-stýrikerfi hafa fylgt með vélinni við kaupin, en að hún hefði ekki óskað eftir því.  Þá hefði ekki verið greitt sérstaklega og upprunaskírteini hefði ekki fylgt með.  Þá hefði hugbúnaðurinn ekki fylgt sérstaklega á disklingi eða geisladiski.  Fyrir dómi bar hún á sama veg.  Hún tók þó fram að stýrikerfið hefði auðvitað átt að fylgja.  Ekki hefði þurft að óska eftir því sérstaklega. 

Ákærði Ólafur bar um þessi viðskipti að þessi kaupandi hefði keypt samkvæmt tilboði sem nefnt var sú ódýrasta.  Þar hafi Windows 98 fylgt með og taldi hann víst að þessi kaupandi hefði fengið upprunaskírteini og geisladisk afhentan um leið og tölvan var afhent. 

Ragnheiður Ástvaldsdóttir, sem var starfsmaður Tæknibæjar á þessum tíma, staðfesti að áritun á afgreiðsluseðil sýndi að hún hefði séð um þessa sölu.  Hún kvaðst þess fullviss að hugbúnaðarpakkinn hefði verið afhentur með tölvunni í þessu tilviki.  Hún kvaðst ekki muna eftir neinu dæmi um annað. 

Konstantín Mikaelsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann annaðist kaup á tölvu fyrir Bónus-videó og er reikningur dagsettur 6. janúar 1999.  Í skriflegu svari til lögreglu 17. febrúar 2000 kvað hann Windows-stýrikerfi hafa fylgt með vélinni við kaupin eins og óskað hefði verið eftir.  Ekki hefði verið greitt sérstaklega fyrir stýrikerfið.  Upprunaskírteini hefði ekki fylgt með og ekki sérstakur geisladiskur eða disklingur með hugbúnaðinum.  Hann bar á sama veg fyrir dómi. 

Ákærði Ólafur bar um þessi viðskipti að annar starfsmaður kaupandans, Gunnar Már Guðfinnuson, hefði tekið við geisladiski og notendaleyfi um sama leyti og tölvan hefði verið afhent. 

Verjandi leiddi Gunnar Má sem vitni og staðfesti hann þennan framburð ákærða.  Hann kvaðst á þessum tíma hafa starfað hjá Bónus-videó, verið starfsmannastjóri og þess háttar.  Þeir hafi séð um tölvukaupin saman, hann og Konstantín, sem hefði verið fróðari um tölvur en hann sjálfur.  Hann kvaðst muna eftir því að geisladiskur og notandaleyfi fyrir Windows hefði fylgt með tölvunni er hún kom. 

Gyða Einarsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi. Reikningur til hennar er dagsettur 19. janúar 1999.  Í skriflegu svari til lögreglu 27. mars 2000 kvað hún Windows-stýrikerfi og Office-hugbúnað hafa fylgt með vélinni við kaupin, en að hún hefði ekki óskað eftir því.  Þá hefði ekki verið greitt sérstaklega og upprunaskírteini hefði ekki fylgt með.  Þá hefði hugbúnaðurinn ekki fylgt sérstaklega á disklingi eða geisladiski. 

Fyrir dómi staðfesti hún að Windows stýrikerfið svo og Office-hugbúnaður hefði fylgt.  Hún sagði að bróðir hennar hefði séð um kaupin fyrir hana.  Hún þorði ekki að fullyrða hvort stýrikerfið hefði fylgt með á diski svo og notandaleyfi.  Það hefði ekki fundist heima hjá henni þegar lögreglan kom og leitaði. 

Um sölu til Gyðu Einarsdóttur sagði ákærði Ólafur að Sigríður Ólafsdóttir hefði séð um hana.  Hann kvaðst þess fullviss að Gyða hefði fengið stýrikerfið á diski og notandaleyfi. 

Sigríður Ólafsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti að hún hefði annast þessa sölu.  Hún kvaðst minnast þess sérstaklega að hafa afhent Gyðu hugbúnaðarpakkann, disk og notandaleyfi.  Þetta hefði hún rifjað upp þegar rannsókn málsins hófst. 

Unnur Carlsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi.  Reikningur til hennar er dagsettur 21. janúar 1999.  Í skriflegu svari til lögreglu 13. mars 2000 kvað hún Windows-stýrikerfi hafa fylgt með vélinni við kaupin, en að hún hefði ekki óskað eftir því.  Þá hefði ekki verið greitt sérstaklega og upprunaskírteini hefði ekki fylgt með.  Þá hefði hugbúnaðurinn ekki fylgt sérstaklega á disklingi eða geisladiski.

Fyrir dómi bar Unnur að Windows stýrikerfið hefði verið uppsett í tölvunni er hún var afhent.  Síðar hefði hún fengið hugbúnaðinn á geisladiski.  Hún kvaðst ekki muna hvenær það var.  Svili sinn, sem væri vinur ákærða Ólafs, hefði komið með diskinn til sín.  Hún áttaði sig ekki á því hvort upprunaskírteini hefði verið afhent henni þá.

Ákærði Ólafur sagði um kaup þessi að svili Unnar, Björn Magnússon, hefði tekið við leyfinu fyrir hana á svipuðum tíma og tölvan var afhent. 

Björn Magnússon kom fyrir dóm og staðfesti hann þessa frásögn ákærða.  Hann sagði þó að leyfið hefði ekki verið til þegar tölvan var afhent.  Það hafi átt að ná í það stuttu síðar.  Hann hafi hins vegar ekki sótt diskinn og leyfið fyrr en löngu síðar er hann átti leið í Tæknibæ í öðrum erindum. 

Árni Özur Árnason gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að diskar og notandaleyfi bæði fyrir Windows og Office hefðu fylgt við kaupin.  Hann bar á annan veg á spurningablaði lögreglu.  Hann kvaðst hafa staðið í flutningum er lögreglan tók skýrslu af honum og hann því ekki náð að svara rétt.  Hann hefði síðar fundið diskinn og leyfið hjá sér. 

Sverrir Ágústsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann keypti tölvu í verslun Tæknibæjar og er reikningur dagsettur 2. febrúar 1999.  Í skriflegu svari til lögreglu 28. febrúar 2000 kvað hann Windows-stýrikerfi hugbúnað hafa fylgt með vélinni við kaupin, en að hann hefði ekki óskað eftir því.  Ekki hefði verið greitt sérstaklega fyrir hugbúnaðinn og upprunaskírteini hefði ekki fylgt með.  Þá hefði hugbúnaðurinn ekki fylgt sérstaklega á disklingi eða geisladiski.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði Sverrir Ágústsson að stýrikerfið hefði ekki komið á sérstökum diski eða með notandaleyfi er hann fékk tölvuna afhenta.  Kvaðst hann fullviss um þetta.  Hann hefði fengið hvort tveggja löngu síðar er haft var samband við hann frá versluninni.  Það hafi verið a.m.k. hálfu ári eftir að hann keypti tölvuna og eftir að lögreglan hafði tekið skýrslu af honum. 

Ákærði Ólafur kvaðst telja víst að Sverrir hefði fengið bæði upprunaskírteini og geisladisk. 

Heiðar Örn Kristjánsson, starfsmaður Tæknibæjar, afgreiddi Sverri Ágústsson.  Hann kvaðst í skýrslu sinni fullviss um að notandaleyfi og diskur með stýrikerfinu hefði fylgt.  Hann kvaðst fyrir dómi hafa rifjað upp þessa sölu fyrir um ári síðan.

Birgir Berndsen gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann keypti tölvu í verslun Tæknibæjar og er reikningur dagsettur 2. febrúar 1999.  Í skriflegu svari til lögreglu 28. febrúar 2000 kvað hann Windows-stýrikerfi hafa fylgt með vélinni við kaupin, en að hann hefði ekki óskað eftir því.  Ekki hefði verið greitt sérstaklega fyrir hugbúnaðinn og upprunaskírteini hefði ekki fylgt með.  Þá hefði hugbúnaðurinn ekki fylgt sérstaklega á disklingi eða geisladiski. 

Fyrir dómi bar Birgir á sama veg.  Hann kvaðst þess fullviss að diskur með stýrikerfinu hefði ekki fylgt með og ekki bók sem notandaleyfið var skráð á.  Sér hefði við kaupin verið sagt að hringja og hann hefði gert það, en hann hefði aldrei getað fengið diskinn.  Hann hefði hringt þrisvar eða fjórum sinnum og alltaf fengið sömu svörin.  Hann hefði þá gefist upp enda ekki þurft að fá þennan disk. 

Ákærði Ólafur kvaðst þess fullviss að þessum kaupanda hefði verið afhent leyfið um leið og tölvan.  Hann kvaðst fullviss um að þetta hefði verið gert svo í öllum tilvikum, en auk þess hefði hann um þennan kaupanda heyrt það hjá einum starfsmanna sinna. 

Bernharð M. Guðmundsson, starfsmaður Tæknibæjar, bar um þessa sölu til Birgis að hann hefði rifjað hana upp er rannsókn málsins stóð sem hæst.  Hann sagði að sig minnti að leyfi hefði ekki verið í versluninni, en hefði verið til á lager.  Hann hefði beðið kaupandann að koma og sækja leyfið, en hann hefði ekki komið fyrr en tveimur til þremur vikum síðar. 

Stefán Andrésson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann keypti tölvu í verslun Tæknibæjar og er reikningur dagsettur 2. febrúar 1999.  Í skriflegu svari til lögreglu 28. febrúar 2000 kvað hann Windows-stýrikerfi hafa fylgt með vélinni við kaupin, en að hann hefði ekki óskað eftir því.  Ekki hefði verið greitt sérstaklega fyrir hugbúnaðinn og upprunaskírteini hefði ekki fylgt með.  Þá hefði hugbúnaðurinn ekki fylgt sérstaklega á disklingi eða geisladiski. Stefán staðfesti þessa frásögn fyrir dómi.  Fram kom þó hjá honum að hann hefði fengið einhverja diska með tölvunni sem hann vissi ekki nákvæmlega hvað væru.  Hann vissi þó að einn hefði verið útvarp.  Hann þóttist samt vera viss um að diskur með Windows-stýrikerfi og notandaleyfi hefðu ekki fylgt með.  Hann staðfesti loks að eftir að rannsókn hófst hefði hann fengið disk og notandaleyfi frá starfsmönnum Tæknibæjar. 

Um þennan kaupanda bar ákærði Ólafur að hann væri þess fullviss að hann hefði fengið afhentan geisladisk og notandaleyfi.  Hann hefði ekki afgreitt hann sjálfur, það hefði einhver starfsmaður gert. 

Heiðar Örn Kristjánsson afgreiddi Stefán.  Hann kvaðst í skýrslu sinni fullviss um að notandaleyfi og diskur með stýrikerfinu hefði fylgt.  Hann kvaðst fyrir dómi hafa rifjað upp þessa sölu fyrir um ári síðan.

Anna Lind Pétursdóttir gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún keypti tölvu í verslun Tæknibæjar og er reikningur dagsettur 5. janúar 1999.  Í skriflegu svari hennar til lögreglu 6. mars 2000 kvað hún Windows-stýrikerfi hafa fylgt með vélinni við kaupin, en að hún hefði ekki óskað eftir því.  Þá hefði ekki verið greitt sérstaklega og upprunaskírteini hefði ekki fylgt með.  Þá hefði hugbúnaðurinn ekki fylgt sérstaklega á disklingi eða geisladiski. 

Fyrir dómi bar Anna Lind að hún hefði við kaupin á tölvunni fengið sérstaka kvittun þess efnis að hún gæti fengið stýrikerfið síðar, en henni hefði verið sagt að það hefði klárast hjá fyrirtækinu.  Stýrikerfið hefði verið uppsett í tölvunni, en sagt hafi verið að hún gæti komið eftir tvær vikur og fengið það á diski. 

Elías Þorsteinsson, sem var verslunarstjóri á þessum tíma, staðfesti í skýrslu sinni að þessum kaupanda hefði verið afhent tölva með stýrikerfinu Windows 98 uppsettu, en hvorki fengið stýrikerfið á diski né notandaleyfi afhent samtímis.  Það hefði vantað Windows-leyfi á þessum tíma og hann hefði skráð það á afgreiðsluseðilinn greinilega. Ekki kom fram í skýrslu hans hvort diskurinn og leyfið hefðu verið til á lager fyrirtækisins í Garðabæ, eða hvort panta hefði þurft leyfið að utan. 

Guðrún Elín Jónsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún sagði að Almenna málflutningsstofan hefði beðið sig að fara í verslun Tæknibæjar og kaupa tölvu.  Hún hefði átt á kaupa eftir tilboði sem auglýst var og biðja aukalega um Office-hugbúnað.  Það kvaðst hún hafa gert.  Hún sagði að starfsmaður Tæknibæjar hefði farið yfir það með sér hvað fylgdi og hún hefði beðið aukalega um Office.  Það hafi ekki verið neitt mál.  Þá hefði hún ekki borgað neitt aukalega fyrir það.  Hún hefði fengið tölvuna á tilboðsverðinu. 

Hún kvaðst ekki hafa rætt neitt um hvað ætti að borga fyrir Office-hugbúnaðinn. 

Hún sagði fyrir dómi að sig minnti að hún hefði fengið tölvuna afhenta strax.  Hún rengdi hins vegar ekki er borin var undir hana skýrsla er hún gaf hjá lögreglu þar sem hún sagði að hún hefði samið um kaupin daginn áður en hún fékk tölvuna í hendur og afhenti lögreglunni. 

Hún kvaðst hafa farið með tölvuna beint til lögreglunnar, ekki átt neitt við hana sjálf. 

Ákærði Ólafur kvaðst ekki þekkja til sölu á tölvu til Guðrúnar Elínar.  Hann benti á að Office-hugbúnaðurinn væri ekki greindur á reikningi og ekki væri greitt neitt fyrir hann.  Hann kvaðst ekki hafa neinar skýringar á því að hugbúnaðurinn hefði verið í vélinni.  Hann hefði ekki verið seldur með.  Hann sagði að Elías Þorsteinsson, sem þá var verslunarstjóri, hefði afgreitt Guðrúnu. 

Skrifleg gögn um kaup þessi eru reikningur dagsettur 27. apríl 1999 þar sem lýst er kaupum á “Tölvutilboð – Sú frábæra” og verðið tilgreint kr. 63.500.  Ekki er neitt annað sagt selt á þessum reikningi.  Á afgreiðsluseðli sem notaður var við frágang tölvunnar í versluninni er talinn upp vélbúnaðurinn, en ekki getið um hugbúnað sem fylgja skyldi.  Við skoðun á tölvunni hjá lögreglu reyndist vera á diski tölvunnar Windows-stýrikerfið og Office-hugbúnaður.  Samkvæmt skráalista sem prentaður var út var mest allur hugbúnaður á tölvunni, þar á meðal Windows-stýrikerfið, afritaður á harða diskinn 1. mars 1999 um klukkan 4 síðdegis, en Office var samkvæmt því afritaður kl. 00:43 þann 27. apríl 1999. 

Elías Þorsteinsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa verið verslunarstjóri.  Hann staðfesti að það hefði verið vinnuregla að afhenda notandaleyfi með Windows-stýrikerfinu um leið og tölvurnar.  Um sölu til Guðrúnar Elínar Jónsdóttur mundi Elías ekki neitt.  Hann neitaði að hafa nokkurn tíma selt Office-hugbúnað án þess að það kæmi fram á fylgigögnum og afhenda notandaleyfi með.  Rifjaði hann upp eina dæmið sem hann vissi um að beðið hafi verið um Office að þá hafi einhver maður komið til að sækja tölvu er kona hefði pantað.  Hann hefði heimtað að fá Office með, en Elías kvaðst hafa sagt honum að það hefði ekki verið pantað og að hann yrði þá að greiða sérstaklega 22.000 krónur fyrir forritið. 

Í skýrslu sinni sagði hann að nokkrum sinnum, ekki oft, hefði notandaleyfi og diskur með Windows ekki verið til í búðinni.  Þá hefði þurft að sækja það á lager sem ákærði Ólafur var með annars staðar.  Fyrir hafi komið að panta hefði þurft leyfið að utan þar sem það hefði ekki verið til hjá fyrirtækinu, en hann nefndi ekki nein ákveðin dæmi um slík tilvik. 

Ragnheiður Kristín Ástvaldsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún kvaðst á umræddum tíma hafa unnið í versluninnni.  Hún hafi bæði verið að selja og eins svarað í síma.  Hún sagði að það hefði verið vinnuregla að afhenda alltaf pakka með Windows leyfi með tölvu.  Hún kvaðst sjálf alltaf hafa fylgt þessum reglum.

Nánar aðspurð kvaðst hún ekki muna eftir tilvikum þar sem tölva hafi verið seld án þess að hugbúnaðarleyfi fylgdi. 

Heiðar Örn Kristjánsson gaf skýrslu fyrir dómi. Hann starfaði sem sölumaður hjá Tæknibæ.  Hann staðfesti að það hefði verið starfsregla að afhenda notandaleyfi með Windows-stýrikerfinu þegar tölvur voru afhentar.  Hann kvaðst geta rifjað upp allar sölur er hann hefði annast, þær væru geymdar í ákveðinni möppu sem hann gæti flett upp í.  Áður er getið framburðar hans um sölu til Stefáns Andréssonar og Sverris Ágústssonar. 

Sigríður Ólafsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi. Hún er dóttir ákærða Ólafs Arasonar.  Hún kvaðst hafa unnið mest við bókhald í versluninni en af og til verið frammi í versluninni við sölu.  Það hefði verið skýrt að notandaleyfi hafi alltaf átt að fylgja með.  Áður er getið framburðar vitnisins um sölu tölvu til Gyðu Einarsdóttur. 

Bernharð M. Guðmundsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann er tengdasonur ákærða Ólafs.  Hann kvaðst hafa starfað í versluninni og komið nálægt flestu.  Hann sagði að það hefðu verið starfsreglur við sölu á tölvum að afhenda skyldi með tölvunni Windows-leyfi.  Hann kvaðst ekki muna dæmi þess að tölva hefði verið seld án þess að slíkt leyfi fylgdi.  Hann sagði að sala til Birgis Berndsen, sem áður er getið, sé eina dæmið sem hann myndi eftir um að hugbúnaðarleyfi hafi ekki verið afhent um leið og tölva. 

Sigurður Rúnar Sigurðsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa starfað sem tæknimaður við samsetningu á tölvum og viðgerðir á þessum tíma.  Hann sagði að við uppsetningu á Windows í tölvum hefði alltaf verið notaður sami masterinn.  Því hafi alltaf komið sama númer inn á tölvurnar.  Hann kannaðist við að hann hefði sett saman tölvu þá er Guðrún Elín Jónsdóttir keypti.  Hann kvaðst aldrei hafa unnið að nóttu í fyrirtækinu og því væri útilokað að hann hefði afritað Office inn á tölvuna klukkan 00:45 aðfaranótt 27. apríl.  Hann sagði að af afgreiðsluseðli að dæma hefði hann sett tölvuna saman 24. apríl.  Hann sagði að hann hefði stundum sett saman samkvæmt tilboðunum til að eiga tölvur tilbúnar er þær seldust.  Hefði verið beðið um Office-forritið og hann sett það upp hefði hann skráð það inn á blaðið. 

Lögreglumennirnir Jón Lárusson, Árni E. Albertsson og Guðmundur Andrés Jónsson gáfu skýrslur fyrir dómi.  Lýstu þeir hvernig staðið var að rannsókn málsins.

Niðurstaða.

Með afritun hugbúnaður af einum diski á annan er gert eintak hugbúnaðarins í skilningi 1. mgr. 2. gr. höfundalaga nr. 73/1972 með síðari breytingum.  Óumdeilt er að bæði stýrikerfið Windows 98 og Office-forritin eru hugbúnaður í þessum skilningi og að Microsoft Corp. á höfundarétt að hvorutveggja.  Sé þessi hugbúnaður afritaður er því áskilið leyfi Microsoft, sbr. 3. gr. höfundalaga. 

Miða verður við að sú framkvæmd að afrita hugbúnaðinn af öðrum diski en þeim ákveðna diski sem framleiðandinn afhenti stangist ekki á við 3. gr. höfundalaga að því tilskyldu að notandaleyfi sé til staðar. Ekki er unnt að skýra höfundalög svo að skilyrði fyrir lögmæti afritunar sé að sönnun fyrir notandaleyfinu sé afhent kaupanda um leið og hugbúnaðurinn, heldur dugar að slíkt leyfi sé í eigu seljandans þannig að hann hafi heimild til selja leyfið og veita þannig kaupandanum þann rétt yfir hugbúnaðinum sem nauðsynlegur er til að hann verði notaður. 

Dómurum er kunnugt af öðru en framlögðum skjölum í þessu máli að Microsoft setur yfirleitt þá skilmála um endursölu hugbúnaðar að leyfisskírteini eða notandaleyfi sé afhent kaupanda samtímis því að sala fer fram.  Þannig verður seljandi hugbúnaðar að uppfylla frekari skilyrði gagnvart Microsoft við framsal réttindanna heldur en leiðir af höfundalögum.  Þó slíkt skilyrði sé sett er ekki hægt að líta svo á að afhending eintaks af hugbúnaði án þess að formlegt notandaleyfi sé afhent samtímis feli í sér refsivert brot gegn 3. gr. höfundalaga, ef seljandi á þau réttindi sem hann lætur af hendi, hefur heimild til að veita hið tiltekna notkunarleyfi.  Hefur heldur ekki verið á þessu atriði byggt beinlínis af hálfu ákæruvaldsins og gögn um slík sérstök skilyrði í þessu tilviki hafa ekki verið lögð fram. 

Ákærði Ólafur og Elías Þorsteinsson, verslunarstjóri, sögðu báðir að fyrir hefði komið að leyfi hafi ekki verið til á lager fyrirtækisins í versluninni og Elías sagði raunar skýrlega að fyrir hefði komið að panta hefði þurft það að utan.  Framburður ákærða er um þetta ekki alls kostar skýr.  Ekki er neitt ákveðið tilvik nefnt í þessu sambandi.  Þó framburður ákærða um plássleysi í versluninni sé ekki mjög sannfærandi, en notandaleyfi eru ekki plássfrek, er ekki fært að hafna því að leyfi hafi að einhverju leyti verið geymd annars staðar.  Það er niðurstaða dómsins að tilvik, ef fundin verða, þar sem ekki var til staðar notandaleyfi í eigu fyrirtækisins er hugbúnaðareintak var afhent, feli í sér brot gegn 3. gr., sbr. 1. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga.  Telur dómurinn á hinn bóginn að brot gegn sérstökum formskilyrðum í samningi um afhendingu hugbúnaðar geti ekki leitt til þess að eintakagerðin verði talin refsiverð. 

Við rannsókn lögreglu voru ekki teknar formlegar lögregluskýrslur af þeim kaupendum sem taldir eru upp í ákæru og gáfu síðar skýrslur fyrir dómi.  Voru skráð svör með já eða nei við ákveðnum spurningum sem ekki náðu að gefa skýra mynd af framburði viðkomandi.  Augljóst er að viðmælendur lögreglu höfðu í sumum tilvikum takmarkaða hugmynd um hvað til rannsóknar var.  Er ekki hægt að líta til þessara gagna sem eiginlegra sönnunargagna.  Þá var langt um liðið frá því að kaup voru gerð og þar til lögregla lagði spurningarnar fyrir.  Er vitni gáfu skýrslur fyrir dómi voru liðin meir en tvö ár frá því að kaup voru gerð og verður að líta til þess við mat á sönnunargildi vitnaframburða. 

Ráða má af þeim yfirlitum sem endurskoðandi félagsins hefur unnið að nokkuð gott samræmi er í tölvukaupum og hugbúnaðarkaupum.  Verður ekki af þeim gögnum dregin nein ályktun um að notandaleyfi hafi ekki verið til fyrir þeim hugbúnaði sem afritaður var. 

Um einstök tilvik í ákæru:

Sala til Árna Özurar Árnasonar og Bónus-videós.  Telja verður að með skýrslum Árna Özurar og Gunnars Más Guðfinnusonar sé fram komin sönnun fyrir því að notandaleyfi hafi verið afhent um leið og tölvur til þessara aðila.  Verða ákærðu sýknuð af þessum liðum. 

Sala til Viktoríu Eyrúnar Ragnarsdóttur.  Viktoría kvaðst fyrir dómi mjög viss um að notandaleyfi hefði ekki fylgt við sölu til hennar.  Vitnið Ragnheiður Ástvaldsdóttir, sem var starfsmaður Tæknibæjar á þessum tíma, þóttist á hinn bóginn viss um að þessum kaupanda hefði verið afhent bæði notandaleyfi og diskur.  Vísaði hún til þess að hún þekkti engin dæmi um annað.  Líta verður til þess að ekki var tekin skýrsla af Viktoríu fyrr en löngu eftir að kaupin voru gerð og framburðarskýrsla var ekki tekin af henni.  Augljóst er að talsvert hefur verið útskýrt fyrir henni áður en hún fyllti út spurningalista lögreglunnar og ekki er sjáanlegt hvernig þeim útskýringum hefur verið hagað.  Er gegn framburði starfsmannsins ekki unnt að telja þennan lið sannaðan. 

Sala til Gyðu Einarsdóttur.  Framburður Gyðu fyrir dómi var ekki afdráttarlaus um að notandaleyfi hefði ekki fylgt.  Þá sagði hún að bróðir sinn hefði aðstoðað sig við kaupin.  Þá ber starfsmaður Tæknibæjar að hann muni skýrlega eftir því að notandaleyfi hafi verið afhent þessum kaupanda um leið og tölvan með stýrikerfinu.  Verður því að sýkna af þessum lið. 

Sala til Unnar Carlsdóttur.  Fyrir liggur framburður Björns Magnússonar, sem kom að viðskiptunum með Unni, þess efnis að hugbúnaðarleyfi hafi ekki verið tiltækt í versluninni en það hafi átt að sækja það síðar.  Ekki er ljóst hve löngu síðar þau voru beðin að sækja leyfið.  Er því ekki fram komin skýr sönnun fyrir því að Tæknibær hafi ekki átt leyfi þegar tölva þessi var seld með afriti af Windows-stýrikerfi. 

Sala til Sverris Ágústssonar.  Sverrir fullyrti fyrir dómi að hvorki diskur með stýrikerfi né notandaleyfi hefði fylgt með tölvunni.  Ákærði Ólafur taldi að Sverrir hefði fengið notandaleyfi eins og allir aðrir.  Heiðar Örn Kristjánsson afgreiddi Sverri og hann fullyrti að hann hefði fengið bæði disk með stýrikerfi og notandaleyfi með tölvunni.  Er að þessum framburði virtum ekki fram komin næg sönnun til sakfellingar samkvæmt þessum lið.

Sala til Birgis Berndsen.  Birgir kvaðst viss um að diskur með stýrikerfinu og notandaleyfi hefði ekki fylgt með tölvunni.  Starfsmaður Tæknibæjar, Bernharð M. Guðmundsson, staðfesti þetta en sagði að leyfið og diskurinn hefði ekki verið tiltækt í versluninni, en verið á lager og hefði Birgir verið beðinn að sækja hvort tveggja síðar.  Framburður Birgis er að öðru leyti óljós um þau símtöl sem hann kveðst hafa átt við verslunina og sérstakar ályktanir verða ekki af honum dregnar umfram það sem getið hefur verið.  Er að virtum framburði Bernharðs M. Guðmundssonar ekki hægt að fullyrða að ekki hafi verið til í eigu fyrirtækisins notandaleyfi vegna þess eintaks stýrikerfisins sem var afhent til Birgis.

Sala til Stefáns Andréssonar.  Framburður Stefáns um að notandaleyfi hefði ekki fylgt var ekki alveg eindreginn, en hann kvaðst nokkuð viss.  Heiðar Örn Kristjánsson, sem afgreiddi Stefán, kvaðst þess fullviss að diskur með stýrikerfi og notandaleyfi hefði verið afhentur Stefáni með tölvunni.  Að þessum framburði virtum er þessi liður ósannaður. 

Sala til Önnu Lindar Pétursdóttur.  Fram er komið að notandaleyfi var ekki tiltækt í verslun Tæknibæjar er Önnu Lind var afhent tölva ásamt afriti af Windows-stýrikerfi.  Staðfestir ákærði Ólafur að svo hafi verið.  Hann gengur ekki svo langt að viðurkenna að í þessu tilviki hafi ekki verið til neitt leyfi hjá fyrirtækinu.  Elías Þorsteinsson, verslunarstjóri, staðfestir að það hafi komið fyrir án þess að nefna ákveðin dæmi.  Leggja verður þann framburð Önnu Lindar fyrir dómi til grundvallar að hún hafi verið beðin að koma aftur tveim vikum síðar.  Eru af þessu fram komnar svo yfirgnæfandi líkur á að hugbúnaðarleyfi hafi ekki verið til er eintak var gert af Windows-stýrikerfinu handa þessum kaupanda að sakfella verður ákærðu fyrir þennan lið. 

Sala til Guðrúnar Elínar Jónsdóttur.  Framburður Guðrúnar Elínar er mjög óskýr um ýmis atriði.  Fram kemur að henni hafi verið sagt að hún gæti fengið Office-hugbúnaðinn gegn einhverri greiðslu.  Ekki er hins vegar skýrt af framburði hennar fyrir dómi um hvað hafi í raun verið samið.  Office-hugbúnaður er ekki tilgreindur á reikningi og heldur ekki afgreiðsluseðli sem notaður var í versluninni.  Allt að einu fylgdi eintak af hugbúnaðinum með tölvunni.  Tímasetning afritunar forritsins sem fram kemur í tölvunni gefur aðeins vísbendingu um tíma, en getur ekki talist staðfesting.  Var þetta eintak af Office afritað á meðan tölvan var í vörslum Tæknibæjar og án þess að lagt hafi verið til hliðar vegna þess tilgreint notandaleyfi.  Þrátt fyrir að verulegar líkur séu á því að starfsmaður Tæknibæjar hafi vitandi vits afritað hugbúnaðinn inn á harðan disk tölvunnar er ekki upplýst nánar um hver gæti hafa verið þar að verki.  Er ekki sú vissa um atvik að unnt sé að telja fram komna næga sönnun um að brotið hafi verið gegn reglu 3. gr. höfundalaga, en samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 54. gr. laganna er áskilið stórfellt gáleysi til að refsað verði fyrir slík brot.  Verður að sýkna ákærðu af þessum lið. 

Samkvæmt framangreindri upptalningu verða ákærðu sakfelld fyrir óheimila afritun Windows-stýrikerfisins í einu tilviki.  Augljóst er að notandaleyfis vegna þessarar afritunar var aflað í beinu framhaldi af sölunni.  Þrátt fyrir það var brotið fullframið og verður ekki tekið aftur.  Varðar það refsingu samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir.  Tilvísun til tilskipunar ráðherraráðs Evrópusambandsins og til Gatt-samnings er þó ofaukið í þessu samhengi.  Verða bæði ákærði Ólafur og Tæknibær ehf. sakfelld fyrir þetta brot. 

Ákærði Ólafur hefur ekki áður sætt refsingum sem máli skipta hér.  Leggja verður til grundvallar að við sölu á tölvum í fyrirtækinu hafi almennt verið virt höfundaréttindi hugbúnaðarframleiðenda og af niðurstöðum rannsóknar lögreglu og sönnunarfærslu hér fyrir dómi verður ekki séð annað en að ákærði hafi brýnt fyrir starfsmönnum sínum að gæta réttra aðferða.  Má telja að afsakanlegt sé að í einu tilviki hafi verið gert afrit af stýrikerfinu og selt án þess að keyptur hefði verið réttur til gerðar þess eintaks, þó þetta tilvik vitni um ákveðið kæruleysi.  Er rétt með hliðsjón af 3., 7. og 8. tl. 74. gr. almennra hegningarlaga að fella refsingu ákærðu niður. 

Í samræmi við þessa niðurstöðu um sakfellingu og samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 er rétt að ákærðu greiði óskipt einn tíunda hluta sakarkostnaðar, en að hann greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.  Málsvarnarlaun verjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hrl., eru ákveðin 350.000 krónur. 

Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, Björn Jónsson, rafmagnsverkfræðingur og tölvunarfræðingur og Guðni B. Guðnason, tölvunarfræðingur.  Dómsuppkvaðning hefur tafist vegna umfangs málsins og anna dómenda. 

D ó m s o r ð

Ákærðu, Ólafi Arasyni og Tæknibæ ehf., verður ekki gerð refsing.

Ákærðu greiði óskipt einn tíunda hluta sakarkostnaðar.  Málsvarnarlaun verjanda, Sveins Andra Sveinssonar hrl., nema 350.000 krónum.