Hæstiréttur íslands

Mál nr. 37/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Þriðjudaginn 29

 

Þriðjudaginn 29. janúar 2002.

Nr. 37/2002.

Búnaðarbanki Íslands hf.

(Lárus L. Blöndal hrl.)

gegn

Þorsteini Ingasyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Þ var með úrskurði héraðsdóms gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 250.000 krónur í máli sem hann höfðaði gegn B hf., en gert hafði verið árangurslaust fjárnám hjá Þ um það bil hálfu ári áður. Með kæru til Hæstaréttar krafðist B hf. þess að fjárhæð tryggingarinnar yrði ákveðin 12.000.000 krónur. Hæstiréttur taldi að Þ hefði  ekki tekist að hnekkja þeim líkum, sem leiddu af fjárnámsgerðinni fyrir því að hann væri ófær um að greiða málskostnað, ef sá kostnaður yrði á hann felldur í ofangreindu máli gegn B hf. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð tryggingarinnar en B hf. gert að greiða Þ kærumálskostnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2002, þar sem varnaraðila var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 250.000 krónur í máli, sem hann höfðaði gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að trygging, sem varnaraðila verði gert að setja fyrir greiðslu málskostnaðar, nemi aðallega 12.000.000 krónum, en til vara annarri lægri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði gerði sýslumaðurinn í Reykjavík árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 15. maí 2001 að kröfu tollstjórans í Reykjavík fyrir skuld að fjárhæð 3.066.675 krónur. Varnaraðila hefur ekki tekist að hnekkja þeim líkum, sem af þessu leiðir fyrir því að hann sé ófær um að greiða málskostnað, ef sá kostnaður verður á hann felldur í ofangreindu máli hans gegn sóknaraðila. Að þessu virtu og með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að varnaraðila beri að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, en við þá niðurstöðu unir varnaraðili samkvæmt málatilbúnaði hans fyrir Hæstarétti. Þegar gögn málsins eru virt má fallast á með héraðsdómara að fjárhæð tryggingarinnar verði ákveðin 250.000 krónur. Verður sóknaraðila gert að setja hana á þann hátt og innan þess frests, sem í dómsorði greinir.

Dæma verður sóknaraðila til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðila, Þorsteini Ingasyni, ber að setja innan tveggja vikna frá uppsögu dóms þessa tryggingu í formi peningagreiðslu, bankabókar eða bankaábyrgðar að fjárhæð 250.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn sóknaraðila, Búnaðarbanka Íslands hf.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2002

Stefnandi málsins er Þorsteinn Ingason, kt. 131055-5369, Hátúni 6, Reykjavík, en stefndi er Búnaðarbanki Íslands hf., kt. 490169-1219, Austurstræti 5, Reykjavík.

Málið var þingfest á reglulegu dómþingi 18. desember sl. Mætt var af hálfu stefnda og sú krafa gerð, að stefnanda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu með vísan til 1.tl. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála (eml.) Kröfunni var mótmælt af lögmanni stefnanda og var ágreiningi málsaðila vísað til dómara til úrlausnar og þinghald ákveðið 20. desember sl.  Málið var tekið fyrir 20. desember sl. en frestað að beiðni lögmanns stefnda til 9. janúar sl. Í þinghaldi í málinu 9. janúar sl. var málið lagt í úrskurð dómsins,  eftir að lögmenn málsaðila höfðu stuttlega gert grein fyrir viðhorfum sínum til ágreiningsefnisins.

Í þessum þætti málsins verður vísað til stefnda sem sóknaraðila, en stefnanda sem varnaraðila.

Sóknaraðili gerir þá kröfu  að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 12 milljónir króna, eða lægri fjárhæð að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess aðallega, að kröfu sóknaraðila verði hafnað en til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð verulega.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því, að varnaraðili sé eignalaus og alls ófær um að greiða málskostnað, sem á hann kynni að falla vegna málsóknar hans á hendur sér. Sóknaraðili vísar til framlagðs endurrits árangurslausrar aðfarargerðar, sem fram fór hjá varnaraðila að kröfu Tollstjórans í Reykjavík 15. maí sl. til lúkningar skuldar að fjárhæð 3.006.675. Sönnunarbyrðin fyrir því, að fjárhagur og eignastaða varnaraðila hafi breyst til batnaðar hvíli á varnaraðila.  Þá bendir sóknaraðili á, að málsókn varnaraðila útheimti mikla og kostnaðarsama vinnu, sem ljóst sé að varnaraðili sé ekki borgunarmaður fyrir, verði honum gert að greiða málskostnað í einhverju samræmi við þann kostnað, sem sýnt sé að ráðast verði í til að mæta málsókn varnaraðila. Stefnukrafa málsins nemi 500 miljónum króna.

Varnaraðili byggir á því, að fjárnám það, sem sóknaraðili vísi til sé u.þ.b. átta mánaða gamalt og verði því fráleitt lagt til grundvallar kröfu hans. Varnaraðili bendir á 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 í þessu sambandi, en þar sé það skilyrði sett fyrir því að krafa um gjaldþrotaskipti fái framgang að árangurslaust fjárnám sé ekki eldra en þriggja mánaða.

Varnaraðili byggir ennfremur á því, að sóknaraðili hafi margsinnis hafnað kröfum hans með þeim orðum að varnaraðila sé opin sú leið að leita atbeina dómstóla. Vísar varnaraðili til framlagðra skjala til stuðnings þessari málsástæðu sinni.

Niðurstaða:

Fyrir liggur, að árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila 15. maí á síðastliðnu ári. Varnaraðili hefur sönnunarbyrðina fyrir því að fyrirliggjandi fjárnám gefi ranga mynd af núverandi fjárhags- og eignastöðu hans. Varnaraðila hefur ekki tekist að sýna fram á, að fjárhagur hans hafi vænkast frá 15. maí sl.

Því þykja líkur vera fyrir því, að varnaraðili muni vera ófær um að greiða sóknaraðila tildæmdan málskostnað. Skilyrðum b. liðar 1. tl. 133.gr. eml. er því fullnægt.

Á hinn bóginn ber til þess að líta, að eitt þýðingarmesta grundvallaratriði í stjórnskipan ríkja, sem hafa vilja mannréttindi í heiðri, er greið og opin leið þegna þeirra til að leggja réttarágreining undir óháðan hlutlausan dómstól til úrlausnar.

Því verður að mati dómsins að skýra tilvitnað ákvæði laga um meðferð einkamála með hliðsjón af þessari meginreglu réttarríkja.

Varnaraðili vísaði til þess, að sóknaraðili hafi margítrekað bent honum á að leggja ágreiningsmál málsaðila fyrir dóm. Í framlögðum gögnum málsins má finna þessari fullyrðingu varnaraðila stað. Má þar nefna dskj. nr. 102, nr. 116 og nr. 119. Í síðastnefndu dómskjali, sem aðeins er tekið í dæmaskyni segir m.a. svo: ,,Búnaðarbankinn vill hins vegar enn á ný ítreka, telji umbjóðandi þinn, (bréfið sent lögmanni varnaraðila, innskot dómara), þrátt fyrir staðreyndir málsins og dóm Hæstaréttar Íslands að hann eigi einhverjar kröfur á bankann, þá er honum unnt að fá skorið úr um réttmæti þeirra fyrir dómstólum landsins."

Dóminum þykir því nokkurri furðu sæta,  að sóknaraðili skuli nú reyna að loka þeirri leið, sem hann sjálfur hefur lagt til við varnaraðila að farin verði, með því að setja fram kröfu um málskostnaðartryggingu að fjárhæð 12 milljónir króna, sem honum hlýtur að vera ljóst, að varnaraðili getur ekki reitt fram. Sama mun eiga við flesta aðra einstaklinga.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið og með hliðsjón af til b. lið 1. tl. 133.gr. eml., þykir verða að fallast að nokkru á kröfu sóknaraðila og gera varnaraðila að sæta því að setja málskostnaðartryggingu, sem telst hæfileg 250.000 krónur. Við ákvörðun þessa er einnig litið til þess, að í röðum starfsmanna sóknaraðila er her sérfræðinga á öllum sviðum, sem sóknaraðili getur leitað til um ráðgjöf og leiðsögn, Sóknaraðili starfrækir m.a. lögfræðideild,  en hefur kosið að leita utanaðkomandi lögfræðiaðstoðar í þessu máli.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Varnaraðili, Þorsteinn Ingason, stefnandi máls þessa, skal setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 250.000 krónur. Trygginguna ber að afhenda dóminum í síðasta lagi 25 janúar n.k. með peningagreiðslu, afhendingu bankabókar með innistæðu að fjárhæð 250.000 krónur, eða bankaábyrgð sömu fjárhæðar.