Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Matsgerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda dómkvöddum matsmönnum, svo og sóknaraðila, samning frá 4. september 2007 milli Glitnis banka hf. og Kristins ehf. um kaup- og sölurétt á hlutum í fyrrnefnda félaginu. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina og varnaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins áttu sóknaraðili og Glitnir banki hf. talsverð viðskipti með afleiðusamningum á árunum frá 2002 til 2008. Meðal þeirra voru tveir samningar um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti, annar gerður 27. ágúst 2008 með lokadag 27. október sama ár og hinn frá 13. október 2008 með lokadag 20. sama mánaðar. Einnig gerðu sóknaraðili og Glitnir banki hf. samning 25. mars 2008 um framvirk gjaldmiðlaviðskipti með lokadag 29. desember sama ár. Þá gerðu þeir fimm vaxtaskiptasamninga og var einn þeirra frá 25. október 2004 með lokadag 28. október 2009, en hinir fjórir voru gerðir 15. mars 2007 og með lokadag 16. mars 2012. Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Á grundvelli laga nr. 44/2009, sem breyttu lögum nr. 161/2002, var félagið tekið til slita 22. apríl 2009. Slitunum lauk með nauðasamningi, sem mun hafa komist á 14. desember 2015, og ber félagið nú heiti varnaraðila.
Þegar slit á varnaraðila stóðu enn yfir höfðaði hann 15. október 2012 mál á hendur sóknaraðila til heimtu kröfu að fjárhæð 747.341.624 krónur, sem varnaraðili studdi við áðurnefnda afleiðusamninga. Sóknaraðili tók til varna í málinu með greinargerð, sem lögð var fram í héraðsdómi 4. apríl 2013. Þar byggði hann meðal annars á því að Glitnir banki hf. hafi á nánar tiltekinn hátt beitt svikum og blekkingum í starfsemi sinni á árunum 2007 og 2008 þannig að varðaði ógildingu afleiðusamninganna á grundvelli 30., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en með þessu hafi félagið meðal annars leynt því að það væri í raun ógjaldfært og þannig ófært um að efna skyldur sínar samkvæmt samningunum.
Í tengslum við framangreindar varnir lagði sóknaraðili fram í þinghaldi 13. febrúar 2014 beiðni um að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta í fyrsta lagi hvert hafi verið hlutfall eigin fjár Glitnis banka hf. 31. desember 2007 og 25. mars 2008 og í öðru lagi hvort félagið hafi „með framvirkum samningum allt frá árinu 2007 byggt upp gjaldeyriseignir í jöfnuði sínum.“ Í þriðja lagi, ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að hlutfall eigin fjár félagsins hafi verið annað en opinber gögn hafi gefið til kynna eða félagið hafi byggt upp gjaldeyriseign í jöfnuði sínum með framvirkum samningum, hver hefðu orðið áhrif af opinberun upplýsinga um þetta í lok árs 2007 eða á fyrsta ársfjórðungi 2008 á gengi íslensku krónunnar, hver áhrif þess hefðu orðið á gengisvísitölu og hver hún hefði þá líklega verið 31. desember 2007 og 25. mars 2008. Loks var í fjórða lagi leitað eftir mati á því „á hvaða tímapunkti“ hafi verið fyrirsjáanlegt að félagið gæti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga og ósennilegt að greiðsluerfiðleikar þess myndu líða hjá innan skamms tíma. Matsmenn voru dómkvaddir samkvæmt þessari beiðni í þinghaldi 15. maí 2014, en af ástæðum, sem skipta hér ekki máli, voru þeir leystir frá störfum og aðrir dómkvaddir í þeirra stað 10. október 2014 og 26. febrúar 2015.
Af gögnum málsins verður ráðið að dómkvöddu matsmennirnir hafi í nokkrum mæli leitað eftir gögnum frá varnaraðila til að notast við í störfum sínum og hann orðið við slíkum óskum. Ágreiningur hefur þó risið bæði um það hvort varnaraðila væri rétt að verða við beiðni matsmanna um gögn og hvort honum bæri einnig að afhenda þau sóknaraðila, en til deilna um þau efni hefur Hæstiréttur tekið afstöðu í dómum 5. júní 2015 í máli nr. 336/2015 og 7. janúar 2016 í máli nr. 787/2015. Í þinghaldi í héraði 18. janúar 2017 lagði sóknaraðili enn fram kröfu um að héraðsdómur „úrskurði um skyldu“ varnaraðila til að „afhenda matsmönnum“ samning frá 4. september 2007 milli Glitnis banka hf. og Kristins ehf., sem áður var getið, svo og um skyldu varnaraðila til að afhenda hann einnig sóknaraðila. Þessum kröfum, sem sóknaraðili studdi við 2. og 3. mgr. 62. gr. og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991, var hafnað með hinum kærða úrskurði.
II
Svo sem rakið er í dómi Hæstaréttar 13. mars 2017 í máli nr. 43/2017 eru ákvæði laga nr. 91/1991 meðal annars reist á þeim meginreglum að aðilar hafi hvor fyrir sitt leyti forræði í einkamáli á sönnunarfærslu og leggi fram sönnunargögn, sem þeir hafi ýmist þegar undir höndum eða afli frá öðrum undir rekstri málsins. Við slíka öflun sönnunargagna geti aðili ekki fengið gagnaðila sinn knúinn til athafna, hvorki til að gefa munnlega skýrslu fyrir dómi né láta af hendi skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn, en verði gagnaðilinn ekki við áskorun um slíkar athafnir megi skýra neitun hans á þann hátt sem aðilanum er hagfelldastur. Aðili geti á hinn bóginn krafist atbeina þriðja manns til sönnunarfærslu undir rekstri máls með því að fá hann skyldaðan til að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni eða til að afhenda tiltekið skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn til framlagningar þar, enda sanni aðili að sönnunargagnið sé til og í vörslum þess manns. Að auki geti aðili að einkamáli aflað matsgerðar dómkvadds manns samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991, en við framkvæmd mats verði aðilinn að stuðla eftir þörfum að framgangi hennar með því að veita eða tryggja matsmanni aðgang að því, sem meta skal, og að þeim gögnum, sem þörf kann að vera á vegna starfa hans, svo og að veita nauðsynlegar skýringar á matsatriði. Í þessu þrennu felist nánar tiltekið að ráði aðilinn í fyrsta lagi ekki aðgangi að því, sem matið lýtur að, geti hann beitt heimild í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 til að fá umráðamann, hvort sem hann er gagnaðili eða þriðji maður, knúinn til að veita matsmanni slíkan aðgang til skoðunargerðar. Sú heimild sé samkvæmt ákvæðinu bundin við aðgang að því, sem meta skal, og verði henni eftir orðalagi og tilgangi ákvæðisins og að gættum fyrrnefndum meginreglum laga nr. 91/1991 ekki beitt sjálfstætt til að knýja aðra, hvort heldur gagnaðila eða þriðja mann, til að veita matsmanni aðgang að gögnum eða upplýsingum, sem hann kynni að þurfa á að halda til að leysa af hendi verk sitt. Hafi aðilinn í öðru lagi ekki undir höndum gögn, sem matsmaður kann að þarfnast til starfa sinna en getur ekki aflað sjálfur samkvæmt 3. málslið 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991, geti aðilinn neytt úrræða samkvæmt lögunum til að fá gögnin afhent til framlagningar í máli og þar með til afnota við matið. Hafi þriðji maður gögnin undir höndum geti aðilinn beitt 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laganna til að fá hann skyldaðan til að láta þau í té. Hafi á hinn bóginn gagnaðili gögnin í sínum vörslum og vilji hann ekki láta þau af hendi geti aðilinn ekki brugðist við á annan hátt en þann, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 67. gr. og 1. mgr. 68. gr. sömu laga, en með því fengi aðilinn ekki gögnin sem slík í hendur. Geti aðilinn í þriðja lagi ekki veitt matsmanni upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til skýringar á matsatriði, en það væri hins vegar á færi einhvers, sem ekki er aðili að málinu, geti aðilinn neytt heimildar í 4. málslið 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 til að fá þann mann leiddan fyrir dóm sem vitni til skýrslugjafar um það efni.
Í dóminum, sem um ræðir, var einnig tekið fram að aðili, sem leitar matsgerðar í einkamáli, hafi ekki að öðru leyti en að framan greinir úrræði samkvæmt lögum nr. 91/1991 til að krefja aðra um atbeina til að dómkvaddur matsmaður geti leyst af hendi starf sitt. Í máli þessu á það sama í öllum atriðum við um heimildir sóknaraðila, en þess er þá jafnframt að gæta að hann getur ekki lengur stuðst við 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, til að krefjast aðgangs að skjölum varnaraðila, enda hefur slitameðferð á honum eins og áður greinir verið lokið með nauðasamningi. Fyrrgreindar dómkröfur sóknaraðila eiga sér þannig að réttu lagi enga stoð í lögum og verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Orkuveita Reykjavíkur, greiði varnaraðila, Glitni HoldCo ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 20. janúar 2017 um kröfu um afhendingu gagna vegna matsgerðar, var höfðað 15. október 2012 af hálfu Glitnis hf., nú Glitnir HoldCo ehf., Sóltúni 26 Reykjavík, á hendur Orkuveitu Reykjavíkur, Hvassaleiti 99, Reykjavík, til greiðslu skuldar, að höfuðstól að fjárhæð 747.341.624 krónur. Stefndi krefst í málinu aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda, en krefst þess til vara að þær verði lækkaðar verulega. Í málinu gera aðilar að auki kröfur um málskostnað úr hendi gagnaðila, en stefndi krefst þess til vara að málskostnaður falli niður.
Dóminum barst þann 5. janúar sl. krafa stefnda, dags. 4. janúar sl., um að stefnanda verði með úrskurði gert að afhenda matsmönnum samning um kaup- og sölurétt á hlutum í Glitni hf., sem gerður hafi verið milli Glitnis hf. og Kristins ehf. í september 2007. Verði fallist á kröfu um skyldu stefnanda til að afhenda matsmönnum samninginn er jafnframt krafist úrskurðar um skyldu stefnanda til að afhenda stefnda afrit hans. Stefnandi krefst þess að kröfum stefnda verði hafnað.
Stefndi er sóknaraðili í þessum þætti málsins og stefnandi er varnaraðili.
Helstu málavextir og ágreiningsefni
Frá árinu 2002 þar til í október 2008 gerðu stefnandi og stefndi með sér fjölmarga afleiðusamninga og er mál þetta höfðað til uppgjörs átta samninga sem nánar er lýst í stefnu, greinargerð og skjölum málsins. Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á gögnum frá þáverandi slitastjórn stefnanda, sem stefndi telur að sýni að stefnandi hafi brotið gegn fjölda ákvæða laga sem gilda á fjármagnsmarkaði á árunum 2007 og 2008, með saknæmum og ólögmætum hætti, allt til þess tíma þegar fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar stefnanda hinn 7. október 2008. Af því leiði að ógilda beri samninga aðila á grundvelli 30., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936, m.a. vegna þess að stefnandi hafi orðið ófær um að efna aðalskyldu samninganna þegar hann hafi í raun og sanni verið ógjaldfær.
Með matsbeiðni 13. febrúar 2014 óskaði stefndi dómkvaðningar tveggja matsmanna í því skyni að færa sönnur á að stefnandi hafi veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína og að raunsönn fjárhagsleg staða matsþola hafi nokkru fyrir samningsgerð aðila, við samningagerðina og allt til 7. október 2008 verið miklum mun verri en opinberar upplýsingar hafi gefið til kynna. Tveir menn voru kvaddir til matsstarfa á dómþingi í máli þessu 15. maí 2014, en þeir hafa frá þeim tíma báðir sagt sig frá starfanum og tveir aðrir matsmenn hafa verið dómkvaddir í þeirra stað.
Matsmenn öfluðu gagna frá stefnanda við matsvinnuna og krafðist stefndi 7. apríl 2015 úrskurðar um afhendingu afrits þeirra gagna frá matsmönnum eða frá stefnanda til sín. Þeim kröfum stefnda var hafnað með úrskurði héraðsdóms 29. apríl 2015. Úrskurðurinn var, að því er varðar afhendingu gagna frá stefnanda til stefnda, staðfestur með dómi Hæstaréttar 5. júní s.á., í máli nr. 336/2015. Krafa stefnda um að fá afhent gögn frá matsmönnum kom ekki til úrlausnar í Hæstarétti. Í forsendum dómsins kom fram að með því að matsmenn yrðu við áskilnaði aðila máls um að halda trúnað um gögn gagnvart gagnaðila gætu þeir farið á svig við meginreglu einkamálaréttarfars um jafnræði aðila og til þess stæði engin heimild.
Með beiðni stefnda 16. september 2015 var enn krafist afhendingar gagna. Í fyrsta lagi var gerð krafa um afhendingu gagna frá stefnanda til matsmanna, í öðru lagi um afhendingu sömu gagna frá stefnanda til stefnda og loks í þriðja lagi um að matsmenn afhendi stefnda gögn sem þeir hefðu fengið frá stefnanda. Stefnandi krafðist þess að kröfum stefnda yrði hafnað. Með úrskurði héraðsdóms 10. nóvember 2015 var þeim hluta af kröfum stefnda sem varðaði gögn sem matsmenn höfðu fengið og þegar hafði verið tekin afstaða til í fyrri úrskurði vísað frá dómi, en öðrum kröfum stefnda var hafnað. Með dómi Hæstaréttar 7. janúar 2016, í máli nr. 787/2015, var stefnanda gert að afhenda stefnda gögn um heildarútlán stefnanda til tólf nafngreindra félaga, þar á meðal til félagsins Kristins ehf. Stefnanda var einnig gert að afhenda stefnda gögn sem stefnandi hefði þegar afhent matsmönnum, önnur en þau gögn sem krafan varðaði sem vísað hafði verið frá dómi í héraði. Niðurstaða héraðsdóms um þá frávísun var staðfest og úrskurður hans að öðru leyti, en héraðsdómur hafði m.a. hafnað því að leggja með úrskurði skyldu á matsmenn til að afhenda stefnda gögn.
Tilefni þessa úrskurðar er sú beiðni stefnda, dags. 4. janúar sl., um úrskurð um afhendingu gagna, sem fyrr er getið. Við fyrirtöku málsins 18. janúar sl. hafnaði stefnandi kröfum stefnda og lagði fram bókun til þess að koma skriflega á framfæri athugasemdum sínum við beiðni stefnda. Þá lagði lögmaður stefnanda 20. janúar sl. fram tölvuskeyti um samskipti sín og lögmanns Kristins ehf. þar sem fram kemur hjá þeim síðarnefnda að félagið telji að um sé að ræða trúnaðargögn úr bókhaldi sínu og leggist gegn því að þau verði gerð opinber. Lögmenn aðila lýstu sjónarmiðum aðila að öðru leyti í munnlegum málflutningi fyrir dóminum þann dag.
Við þann málflutning lagði lögmaður stefnda fyrir dómara sem hliðsjónarrit úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2011 í máli nr. E-1400/2011, sem hann hafði sama dag fengið afhentan að ákvörðun dómstjóra, sbr. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991. Meðferð þess máls var þá lokið fyrir dóminum og hafði það verið fellt niður, en málið höfðaði stefnandi þessa máls á hendur Kristni ehf. til riftunar á ráðstöfun á grundvelli umrædds samnings. Með fyrrnefndum úrskurði var hafnað kröfu Kristins ehf. um að málinu yrði vísað frá dómi. Við málflutning komu einnig fram hliðsjónargögn sem báru það með sér að fjallað hefði verið um þessi viðskipti og málaferli í fjölmiðlum.
Lögmaður stefnda kvaðst við fyrrnefndan málflutning 20. janúar sl. myndu bera það undir matsmenn hvort það sem fram kemur í þessum úrskurði um efni umrædds samnings nægi matsmönnum. Myndi hann upplýsa dómara og gagnaðila um það eigi síðar en eftir eina viku hvort beiðni um afhendingu gagna verði afturkölluð. Með tölvupósti lögmanns stefnda 24. janúar sl. til dómara og lögmanns stefnanda var ítrekuð ósk um úrskurð í málinu. Þar segir að lögmaðurinn hafi komið úrskurðinum til matsmanna. Þar sem ekki sé kveðið á um öll ákvæði samningsins í málsatvikalýsingu úrskurðarins þá telji matsmenn enn þörf á samningnum sjálfum. Sé það einnig til þess að matsmenn geti staðreynt þær tölur sem fram komi í málsatvikalýsingu úrskurðarins.
Matsbeiðnin
Þau atriði sem dómkvöddum matsmönnum var falið að meta eru eftirfarandi.
„1. Lagt verði mat á hlutfall eigin fjár matsþola annars vegar hinn 31. desember 2007 og hins vegar hinn 25. mars 2008.
2. Lagt verði mat á hvort matsþoli hafi með framvirkum samningum allt frá árinu 2007 byggt upp gjaldeyriseignir í jöfnuði sínum.
3. Komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að hlutfall eigin fjár matsþola hafi verið annað en opinber gögn hafi gefið til kynna og/eða að matsþoli hafi með framvirkum samningum byggt upp gjaldeyriseignir í jöfnuði sínum, er þess óskað að lagt verði mat á:
-
áhrif fyrrgreinds á íslensku krónuna ef þessar upplýsingar hefðu verið opinberar í lok árs 2007 eða á fyrsta ársfjórðungi 2008,
-
áhrif fyrrgreinds á gengisvísitölu íslensku krónunnar frá árslokum 2007 til 30. júní 2008, þ.e. er fullvíst eða eru verulegar líkur á að gengisvísitalan hefði orðið hærri eða lægri en sú sem var skráð og opinber á nefndu tímabili, og
-
hver hefði verið líkleg gengisvísitala íslensku krónunnar hinn 31. desember 2007 og hinn 25. mars 2008.
4. Lagt verði mat á það á hvaða tímapunkti fjárhagsleg staða matsþola varð þannig að fyrirsjáanlegt var að hann gæti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga og ekki var sennilegt að greiðsluörðugleikar hans myndu líða hjá innan skamms tíma.“
Beiðni um úrskurð um afhendingu gagna og sjónarmið sóknaraðila, stefnda
Í beiðni stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi í kjölfar dóms Hæstaréttar 7. janúar 2016 afhent matsmönnum og stefnda gögn. Að mati matsmanna þurfi þeir frekari upplýsingar um viðskipti stefnanda við félagið Kristin ehf. Þeir hafi óskað eftir því við stefnanda 27. október 2016 að fá afhentan samning um kaup- og sölurétt á hlutum í Glitni hf., sem gerður hafi verið milli Glitnis hf. og Kristins ehf. í september 2007. Stefnandi hafi neitað að afhenda matsmönnum og stefnda samning þennan. Matsmenn hafi 20. desember 2016 sent lögmanni stefnda greinargerð sína um þýðingu samningsins fyrir matsvinnuna og óskað eftir því að stefndi hlutaðist til um að fá úrskurð héraðsdóms um skyldu stefnanda til afhendingar samningsins.
Að beiðni matsmanna sé þess því krafist af hálfu stefnda að héraðsdómari úrskurði um skyldu stefnanda, Glitnis hf., til þess að afhenda matsmönnum samning um kaup- og sölurétt á hlutum í Glitni hf. sem gerður var milli Glitnis hf. og Kristins ehf., í september 2007.
Verði fallist á kröfu stefnda um úrskurð um skyldu stefnanda til framangreindrar afhendingar til matsmanna sé jafnframt krafist úrskurðar um skyldu stefnanda til afhendingar á afriti umræddra gagna til stefnda.
Stefndi byggi kröfu sína um skyldu stefnanda til afhendingar samningsins á 2. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. sé matsmönnum rétt að afla sér gagna við matið og sé þeim sem hafi umráð gagna sem matsgerð lúti að skylt að veita matsmanni aðgang að því, nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það, skv. 3. mgr. sama ákvæðis.
Matsmenn hafi margsinnis óskað eftir frekari gögnum svo þeim sé fært að ljúka við matsgerð sína. Stefnandi hafi ýmist veitt matsmönnum gögn, veitt þeim aðgang að gögnum með takmörkuðum hætti eða hafnað veitingu gagna. Með beiðni þessari hafi matsmenn nú í þrígang þurft að óska eftir úrskurði héraðsdómara um afhendingu gagna frá stefnanda.
Matsmenn óski nú eftir afhendingu söluréttar-/kaupréttarsamnings milli Kristins ehf. og Glitnis banka hf. frá 4. september 2007 vegna kaup- og söluréttar í Glitni banka hf., sem nefndur sé í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið í bindi 3, kafla 9.5, bls. 14, dæmi 3. Óumdeilt sé að stefnandi hafi umræddan samning undir höndum og hafi ekki orðið við beiðnum matsmanna eða stefnda um afhendingu hans. Stefndi telji að stefnandi hafi farið gegn fyrrgreindum lagaákvæðum með því að hafna beiðni matsmanna og því sé leitað úrlausnar dómsins um þá synjun stefnanda á grundvelli ákvæða 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála um framkvæmd matsgerða.
Í rökstuðningi matsmanna fyrir afhendingu samningsins telji matsmenn „að ofangreindur samningur sem fjallað er [um] í skýrslu RNA falli undir skuldbindingu til kaupa á eigin hlutum og því hefði Glitnir átt að færa upp skuld vegna hans og draga sömu fjárhæð frá eigin fé, en ekki eru neinar vísbendingar um að slíkt hafi verið gert í reikningsskilum Glitnis þann 31. desember 2007 og 31. mars 2008“. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna segi í bindi 3, 9. kafla á bls. 14:
Kaup Glitnis banka hf. á tæplega 40% hlut í Tryggingamiðstöðinni hf. námu um 20 milljörðum króna og voru hlutirnir keyptir frá nokkrum aðilum. Stærsti aðilinn sem seldi var Kristinn ehf., félag að 99,8% í eigu Guðbjargar M. Matthíasdóttur, í gegnum félögin Fram ehf. og Ísfélag Vestmannaeyja hf. 60% hlutur kaupverðsins var greiddur með reiðufé en 40% með hlutabréfum í Glitni banka hf. Til þess að Kristinn ehf. bæri takmarkaða áhættu af lækkun hlutabréfanna gerðu félagið og Glitnir banki hf. samning um kaup- og sölurétt. Kristinn ehf. hafði rétt til þess að selja helming hlutabréfanna í Glitni banka hf. ári síðar á genginu 32,7 sem nam þá 4,15 milljörðum króna. Á móti átti Glitnir banki hf. rétt til þess að kaupa bréfin á sama verði. Þekkt er þegar einn aðili fær kauprétt en mótaðilinn fær sölurétt á sama verði jafngildir það framvirkum samningi. Því greiddi Glitnir banki hf. Kristni ehf. í raun með eigin bréfum en gerði á sama tíma samning um að kaupa bréfin til baka. [....] Öll áhættan af bréfunum var þannig hjá bankanum sjálfum og þar með var komin upp staða hliðstæð þeim tilvikum þar sem rannsóknarnefndin hefur fært rök fyrir því að meðhöndla ætti slík bréf sem eigin hlutabréf við frádrátt samkvæmt 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002.
Samkvæmt samningnum var innlausnartímabilið frá 25. september til 27. september 2008. Í september 2008 ábyrgðist bankinn með skaðleysisyfirlýsingu að Kristinn ehf. myndi ekki bera tap af lækkun bréfanna allt til 15. október 2008. Lyktir málsins urðu síðan þær að Kristinn ehf. seldi bréf sín 26. september 2008 til Glitnis banka hf. og fékk fyrir þau tæpa 4 milljarða eftir að verðið hafði verið leiðrétt vegna arðgreiðslna og þóknunar.
Matsmenn byggi rökstuðning sinn á því að Glitni hf. hafi borið að gera upp reikningsskil sín samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (International Financial Reporting Standards). Glitnir hf. hafi samkvæmt 24. gr. og 33. gr. reikningsskilastaðals IAS 32 átt að færa upp skuld vegna skuldbindingar til kaupa á eigin hlutum í reikningsskilum sínum og jafnframt að draga verðmæti þessara hluta frá eigin fé. Að sögn matsmanna geti þeir ekki eingöngu byggt niðurstöðu sína á þeim takmörkuðu upplýsingum sem komi fram í skýrslu RNA og óski þeir eftir afhendingu umrædds samnings. Samkvæmt skýrslu RNA hafi samningurinn verið undirritaður hinn 4. september 2007. Gagninu sé ætlað að auðvelda matsmönnum að svara fyrstu spurningu matsbeiðni, þ.e að lagt verði mat á hlutfall eiginfjár matsþola (Glitnis hf.) annars vegar hinn 31. desember 2007 og hins vegar 25. mars 2008.
Stefnandi hafi hafnað afhendingu samningsins með þeim sjónarmiðum að honum sé óheimilt að afhenda hann þar sem gagnaðili samningsins, Kristinn ehf., mótmæli afhendingu hans. Telji Kristinn ehf., að um sé að ræða trúnaðargagn úr bókhaldi félagsins. Þeim sjónarmiðum sé hafnað af hálfu stefnda. Samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála sé þeim sem hafi umráð þess sem matsgerð lúti að skylt að veita matsmanni aðgang að því nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 53. gr. sömu laga geti vitni skorast undan að svara spurningum um einkahagi manns sem því hafi verið trúað fyrir eða það hafi komist að á annan hátt í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögfræðingur, lyfsali, læknir, prestur, sálfræðingur eða aðstoðarmaður einhvers þessara, eða í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgi, eða þá samkvæmt d-lið sömu málsgreinar, sé um að ræða leyndarmál um viðskipti sem það hafi komist að í starfi.
Stefndi byggi á því að stefnandi geti ekki skorast undan vitnaskyldu samkvæmt framangreindu ákvæði b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Verði að líta til þess að hlutverk stefnanda í umræddum viðskiptum sé ekki viðlíka þeim störfum sem að framan greini. Um hafi verið að ræða samning á milli stefnanda og einkahlutafélagsins Kristins ehf. Þannig hafi stefnandi ekki verið í sambærilegu hlutverki og þessar starfstéttir, enda stefnandi annar aðilinn í tvíhliða samningi aðila. Sönnunarbyrði hvíli á stefnanda að sýna fram á að hann geti skorast undan vitnaskyldu, sbr. dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum. Þá verði ekki séð að um sé að ræða leyndarmál um viðskipti eða að um sérstök trúnaðargögn sé að ræða, líkt og Kristinn ehf. haldi fram. Óumdeilt sé að viðskipti aðila hafi farið fram fyrir tæplega áratug og varðað viðskipti með bréf í stefnanda. Þau bréf hafi orðið verðlaus við fall bankans, enda sé nú búið að samþykkja nauðasamning stefnanda. Að auki þá hafi umræddar upplýsingar nú þegar verið birtar opinberlega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, líkt og að framan greini. Því verði ekki séð hvernig leynd geti hvílt yfir umræddum viðskiptum. Þá verði ekki séð að um einkahagsmuni sé að ræða, sbr. fyrrgreinda birtingu í skýrslu RNA.
Þá verði ekki séð að stefnandi geti vikið sér undan því að leggja fram umrædd gögn með vísan til þagnarskylduákvæðis 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eða dóms Hæstaréttar frá 23. maí 2014, í máli nr. 281/2014, Glitnir hf. gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Stefndi byggi raunar á því að framangreindur dómur Hæstaréttar sé til stuðnings málsástæðum stefnda varðandi kröfu um afhendingu umrædds samnings, fremur en að af dómi Hæstaréttar verði ráðið að stefnandi geti borið fyrir sig ákvæði laga um þagnarskyldu. Í dómi Hæstaréttar hafi því verið hafnað að veita aðgang að ákveðnum gögnum með þeim rökstuðningi að almennt væri vísað til „tengdra aðila“ eða „félög tengdum starfsmönnum bankans“ og væri sú tilvísun of almenn og óljós.
Staðreyndin sé hins vegar sú að í því máli hafi Hæstiréttur skyldað stefnanda til afhendingar margvíslegra gagna, þar á meðal lánssamninga og framvirkra samninga líkt og hér um ræði, m.a. hjá fyrirtækjum sem enn séu í rekstri. Þá sé beiðni matsmanna skýr að því leyti að óskað sé upplýsinga um einn sérstakan samning milli tveggja aðila á ákveðnum tíma. Stefnandi hafi sjálfur lagt fram sambærileg skjöl í öðrum dómsmálum, m.a. í skaðabótamálum gegn fyrrverandi stjórnendum bankans. Verði því ekki séð að þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki standi því í vegi að umræddur samningur verði afhentur matsmönnum. Að auki hafi stefnandi nú þegar þurft að leggja fram fjölda gagna varðandi viðskipti sín við Kristin ehf.
Þótt stefndi telji að umræddur samningur falli ekki innan þeirra takmarkana sem komi fram í 3. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála, þá bendi stefndi á að tilgangur afhendingarinnar sé að staðreyna þær upplýsingar sem komi fram í skýrslu RNA. Þær upplýsingar hafi nú þegar verið gerðar opinberar og ekki verði séð að það geti ríkt trúnaður um þær. Komist dómari að þeirri niðurstöðu að aðrir hlutar samningsins gætu verið þess eðlis að falla undir takmörkun 3. mgr. 62. gr. laganna geti stefndi fallist á afhendingu samningsins að hluta, þannig að búið væri að strika út aðrar upplýsingar en þær sem lúta að kaup- og sölurétti á hlutum í Glitni hf. milli stefnanda og Kristins ehf.
Stefndi eigi sem matsbeiðandi aðild að kröfugerð um afhendingu umræddra gagna í þágu matsgerðar þessarar að beiðni matsmanna. Stefndi telji ljóst að hlutaðeigandi samningur sé ekki þess eðlis að stefnandi geti komist hjá afhendingu vegna þess að hann geti skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða honum sé óheimilt að bera vitni um það, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa um afhendingu umbeðinna gagna til matsmanna sé studd með vísan til ákvæða IX. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 2. mgr. og 3. mgr. 62. gr. og 66. gr. laganna. Af framangreindu leiði að stefnanda beri að afhenda matsmönnum hlutaðeigandi gögn.
Þá sé þess farið á leit, verði stefnanda gert skylt að afhenda matsmönnum samning stefnanda við einkahlutafélagið Kristin ehf. frá september 2007, að héraðsdómur úrskurði um skyldu stefnanda til þess að afhenda stefnda afrit sömu gagna. Krafa stefnda byggist á ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en skorað hafi verið á stefnanda að afhenda umræddan samning. Vísað sé einkum til 2. mgr. 67. gr. laganna og almennrar jafnræðisreglu einkamálaréttarfars. Krafa stefnda sé háð því að héraðsdómari úrskurði um skyldu stefnanda til afhendingar skjalsins til matsmanna. Byggist krafan jafnframt á meginreglunni um jafnræði málsaðila í dómsmáli, enda verði skjal ekki afhent matsmönnum með áskilnaði um að þau verði ekki afhent gagnaðila, samanber dóm Hæstaréttar 7. janúar 2016 í máli nr. 787/2015 milli sömu aðila.
Sjónarmið varnaraðila, stefnanda, um að hafna beri kröfum sóknaraðila
Stefnandi mótmæli því harðlega að kröfur í bréfi stefnda, dags. 4. janúar 2017, nái fram að ganga og geri athugasemdir við lýsingu stefnda á aðdraganda málsins. Yfirlögfræðingur stefnanda hafi borið beiðni matsmanna um afhendingu „söluréttar- / kaupréttarsamnings milli Kristins ehf. og Glitnis banka hf. sem gerður var 4. september 2007“ undir lögmann Kristins ehf. Lögmaðurinn hafi staðfest að Kristinn ehf. telji að um sé að ræða trúnaðargögn og hafi því lagst gegn því að þau yrðu gerð opinber eða afhent matsmönnum og lögmönnum stefnda.
Stefnandi telji sér hvorki heimilt né skylt að láta af hendi framangreindan samning sem varði viðskipta- og einkamálefni Kristins ehf., sem njóti að mati stefnanda verndar á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002. Skýrlega komi fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 787/2015 á milli aðila þessa máls að ákvæði um heimildir matsmanna til gagnaöflunar séu háð takmörkunum sem meðal annars leiði af þagnarskyldu starfsmanna fjármálafyrirtækja, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002.
Stefndi vísi til þess að stefnandi hafi verið skyldaður til að afhenda lánssamninga og framvirka samninga „líkt og hér um ræðir“ með dómi Hæstaréttar. Ráðið verði af forsendum í dómi Hæstaréttar að tilvísaðir samningar hafi því aðeins verið afhentir að Hæstiréttur hafi ekki talið annars njóta við en „almennrar staðhæfingar“ stefnanda um að gögnin hafi verið háð þagnarskyldu.
Hér komi meira til en almenn staðhæfing stefnanda um að samningurinn sé háður þagnarskyldu. Kristinn ehf. hafi verið viðskiptamaður Glitnis banka hf. og fyrir því séu löglíkindi að upplýsingar sem komi fram í samningnum falli undir þagnarskyldu. Sú regla komi fram í lögskýringargögnum enda bendi atvik ekki til annars en að samningurinn geymi upplýsingar um fjármál Kristins ehf.
Til þess sé að líta að í samningnum komi meðal annars fram upplýsingar um eftirfarandi sem verði að teljast viðskipta- eða einkamálefni Kristins ehf.:
- Upplýsingar um hlutabréfaviðskipti í skráðu félagi.
- Upplýsingar um í hverju sölu/kaupréttur felst og til hversu stórs hluta hlutabréfanna hann nær.
- Innlausnarverð sölu/kaupréttar.
Þá athugist að fordæmisgildi þeirra Hæstaréttardóma (nr. 281/2014 og 787/2015) sem stefndi vísi til takmarkist af því að í forsendum beggja sé vísað til 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæðið eigi ekki lengur við um stefnanda eftir að hann hafi lokið slitameðferð með nauðasamningi við kröfuhafa. Dómarnir geti enn haft leiðbeiningargildi um önnur atriði, en ætla verði að ekki beri lengur að gera eins strangar kröfur til stefnanda.
Í þessu sambandi sé þess að gæta að viðskipta- og einkamálefnin sem um ræði varði Kristin ehf., en ekki aðeins stefnanda eða forvera hans. Bankaleynd eigi ekki við með sama hætti um einstaklinga og félög í rekstri annars vegar og hins vegar félög sem tekin hafi verið til gjaldþrotaskipta. Kristinn ehf. sé í fullum rekstri og hafi neitað beiðni um afhendingu samningsins.
Að þessu gættu skipti ekki máli þótt afmarkaðar upplýsingar um efni samningsins hafi verið opinberaðar. Þá hafi matsmenn ekki útskýrt meinta þýðingu sjálfs samningsins við Kristin ehf., þegar matsspurningum sé svarað, umfram þær upplýsingar sem komi fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Stefnanda dyljist hvers vegna matsmönnum nægi ekki upplýsingar um fjölda hluta í Glitni banka hf., verð og gengi, í þeim tilgangi að leggja mat á samninginn sem skuldbindingu til kaupa á eigin hlutum.
Stefnandi mótmæli því alfarið að héraðsdómur eða matsmenn geti annars vegar byggt niðurstöðu þessa máls og hins vegar niðurstöðu matsgerðar á fullyrðingum stefnanda í öðrum dómsmálum. Fullyrðingar aðila dómsmáls teljist ekki sönnun á málsatvikum, auk þess sem fullyrðingar aðila dómsmáls í öðru dómsmáli teljist ekki ráðstöfun á sakarefni í þessu máli. Ætti að vera nægilegt að vísa til framlagðra skjala úr þeim sömu dómsmálum til upplýsingar um að fullyrðingar í þeim málum séu ekki óumdeildar. Einhver þeirra skjala hafi verið lögð fram í þessu máli.
Þar sem krafa stefnda sé háð því að héraðsdómari úrskurði um skyldu stefnanda til afhendingar samningsins til matsmanna telji stefnandi að hafna beri henni þegar af þeim sökum að dóminum beri að synja um afhendingu til matsmanna.
Stefnandi hafni því að honum sé skylt að afhenda gögn með vísan til ákvæða X. kafla laga nr. 91/1991 og meginreglna einkamálaréttarfars. Það sé á forræði stefnanda í samræmi við málsforræðisreglu einkamálaréttarfars og meginreglur laga nr. 91/1991 að ákveða hvaða gögn hann afhendi stefnda og leggi fram í málinu. Margdæmt hafi verið í Hæstarétti að úrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali í vörslum gagnaðila séu tæmandi talin með vísan til 67. gr. og 68. gr. laga nr. 91/1991. Ákvæðum þessum hafi verið beitt þannig saman að þau geti aðeins leitt til þess, verði gagnaðili ekki við fullnægjandi áskorun, að dómari samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. dóma réttarins í málum nr. 336/2015, nr. 11/2015, nr. 654/2011, nr. 14/2002 og nr. 99/1995.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 leysir dómari úr ágreiningi um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar með úrskurði. Ágreiningur aðila um beiðni stefnda um afhendingu gagna er lögð fyrir dóminn á þeim grundvelli.
Samkvæmt 2. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 er matsmönnum rétt að afla sér gagna til afnota við matið og er hverjum þeim sem hefur umráð þess sem matsgerð lýtur að skylt að veita matsmönnum aðgang að því, nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það. Heimildir matsmanna til gagnaöflunar og skylda umráðamanns gagna til afhendingar þeirra eru þannig háð tilteknum takmörkunum. Meðal annars þeim sem stefnandi ber fyrir sig og leiða af þagnarskyldu starfsmanna fjármálafyrirtækja, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002.
Í 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. b-lið þess ákvæðis, segir m.a. að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut eigi að svara spurningum um einkahagi manns, sem því hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að á annan hátt í starfi sem trúnaðarskylda fylgi. Samkvæmt ákvæðinu getur því sá sem í hlut á leyst vitni undan trúnaðarskyldu. Með svipuðum hætti er samkvæmt 60. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, heimilt að miðla til utanaðkomandi aðila þeim upplýsingum um viðskiptamenn, sem um geti í 58. gr. laganna, að fengnu skriflegu samþykki þess er í hlut eigi. Í samþykki skuli koma fram til hvaða upplýsinga það taki, til hvaða aðila sé heimilt að miðla upplýsingum á grundvelli þess og í hvaða tilgangi upplýsingunum sé miðlað. Slíkt samþykki liggur ekki fyrir um fyrirliggjandi beiðni stefnda. Vísar stefnandi til stuðnings synjun á afhendingu samningsins til þess að gagnaðili stefnanda, Kristinn ehf., leggist gegn því að hann verði afhentur. Í tölvupósti sem stefnandi leggur fram frá lögmanni Kristins ehf. segir nánar að félagið telji að um trúnaðargögn sé að ræða og leggist gegn því að þau verði gerð opinber.
Synjun viðskiptamanns um samþykki til afhendingar og staðhæfing fjármálafyrirtækis um að skjal sé háð þagnarskyldu leiða ekki sjálfkrafa til þess að það verði ekki afhent. Það kemur í hlut dómstóla að leggja mat á það í hverju tilviki hvort það fari í bága við þagnarskyldu að veita upplýsingar eða afhenda gögn og við það mat verður að taka afstöðu til réttmætis beiðni þar um. Sá sem óskar aðgangs að gögnum verður m.a. að tilgreina nægilega skýrt hvaða gagna sé óskað til þess að unnt sé að meta hvort afhending gagna eða upplýsinga fari í bága við þagnarskyldu samkvæmt greininni. Matsmenn hafa tiltekið nákvæmlega hvaða skjal það er sem þeir óska eftir að fá í hendur og einnig í hvaða skyni þeim sé þörf á því. Um er að ræða einkaréttarlegan viðskiptasamning stefnanda og einkahlutafélags sem var viðskiptamaður stefnanda. Telja matsmenn að samningurinn kunni að hafa haft áhrif á fjárhagsstöðu stefnanda á tilgreindum tímamörkum, sem þeim hefur verið falið að leggja mat á.
Matsmenn vísa til þess að félag sem gert hafi samning sem feli í sér skuldbindingu til kaupa á eigin hlutum, eigi að færa upp skuld í reikningsskilum sínum vegna þeirra og draga verðmæti þessara hluta frá eigin fé. Í umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komi fram upplýsingar um að stefnandi hafi gert slíkan samning og hafi því átt að færa upp skuld vegna hans og draga sömu fjárhæð frá eigin fé. Ekki séu neinar vísbendingar um að slíkt hafi verið gert í reikningsskilum stefnanda 31. desember 2007 og 31. mars 2008. Krafa matsmanna um afhendingu samningsins sjálfs er þeim rökum studd að matsmenn geti ekki byggt niðurstöðu sína varðandi þetta á þeim takmörkuðu upplýsingum sem fram komi í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í umfjöllun hennar um samninginn er meginatriðum viðskiptanna lýst. Þar segir m.a. að samið hafi verið um kaup- og sölurétt á helmingi hlutabréfa Kristins ehf. í stefnanda á genginu 32,7, sem þá hafi numið 4,15 milljörðum króna. Kristinn ehf. hafi selt stefnanda bréf sín 26. september 2008 og fengið fyrir þau „tæpa 4 milljarða eftir að verðið hafði verið leiðrétt vegna arðgreiðslna og þóknunar“.
Svo sem fyrr er rakið lagði lögmaður stefnda við málflutning fyrir dómara sem hliðsjónarrit úrskurð um frávísunarkröfu í máli nr. E-1400/2011 frá 22. nóvember 2011, sem hann hafði sama dag fengið afhentan að ákvörðun dómstjóra, sbr. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991. Matsmenn hafa nú fengið þann úrskurð í hendur, en telja sig þrátt fyrir það enn þurfa að fá samninginn sjálfan, þar sem ekki sé „kveðið á um“ öll ákvæði samningsins í málsatvikalýsingu úrskurðarins. Einnig í því skyni að matsmenn geti staðreynt þær tölur sem fram komi í málsatvikalýsingu úrskurðarins.
Í beiðni stefnda kemur m.a. fram að stefndi geti fallist á afhendingu samningsins að hluta, þannig að búið væri að strika út aðrar upplýsingar en þær sem lúta að kaup- og sölurétt á hlutum í Glitni hf. milli stefnanda og Kristins ehf., komist dómari að þeirri niðurstöðu að aðrir hlutar samningsins gætu verið þess eðlis að falla undir takmörkun 3. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála. Þær upplýsingar sem stefndi vísar til með þessum hætti að nauðsynlegar séu matsmönnum koma fram í fyrirliggjandi úrskurði. Meginefni samningsins, þar á meðal um skuldbindingar stefnanda til kaupa á eigin hlutum, er rækilega lýst í málavaxtakafla úrskurðarins og nákvæmlega tilgreindar upplýsingar um fjölda hluta sem kaup- og sölurétturinn tók til, gengi, fjárhæðir og dagsetningar. Þessar upplýsingar má ætla að matsmönnum nýtist við þá matsvinnu sem þeir hafa lýst. Í úrskurðinum er jafnframt gerð grein fyrir afdrifum samningsins og framgangi viðskiptanna lýst með nákvæmari hætti en gert er í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis.
Ekkert er upplýst um það hvaða efnisatriði matsmenn vanti enn upplýsingar um og ætla megi að sé að finna í samningnum, sem nýst geti þeim til að komast að niðurstöðu um fjárhag stefnanda 31. desember 2007 og 25. mars 2008. Ætla verður að lýsing dómara í úrskurðinum á efni samningsins og umræddum viðskiptum, sem voru meginatriði þess máls sem krafist var frávísunar á, hafi verið í samræmi við það sem fram hafi komið í gögnum þess máls. Verður því ekki séð að matsmönnum sé, án þess að fleira komi til, nauðsynlegt að staðreyna þær tölur sjálfir sem þar koma fram.
Samkvæmt framangreindu hafa ekki verið leiddar að því líkur að matsmenn skorti enn upplýsingar til þess að þeir geti við mat sitt á fjárhagsstöðu stefnanda við fyrrgreind tímamörk tekið mið af áhrifum umrædds samnings á hana. Að virtum andmælum stefnanda, afstöðu gagnaðila samningsins og fyrrgreindum ákvæðum um þagnarskyldu, leiðir mat dómsins á réttmæti beiðni matsmanna um afhendingu samningsins sjálfs því til þeirrar niðurstöðu að hafna beri kröfu stefnda um að stefnanda sé skylt að afhenda matsmönnum samninginn.
Síðari kröfuliður stefnda, um skyldu stefnanda til að afhenda stefnda samninginn, er því skilyrði háður að fallist hafi verið á að stefnanda sé skylt að afhenda matsmönnum hann. Þar sem því er hafnað kemur síðari kröfuliður stefnda hér ekki til álita.
Ekki eru gerðar kröfur um málskostnað í þessum þætti málsins.
Úrskurð þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu sóknaraðila, Orkuveitu Reykjavíkur, um að varnaraðila, Glitni HoldCo ehf., sé skylt að afhenda samning um kaup- og sölurétt á hlutum í Glitni hf., sem gerður var milli Glitnis hf. og Kristins ehf. í september 2007, er hafnað.