Hæstiréttur íslands

Mál nr. 483/2014


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir
  • Endurgreiðsla


                                     

Fimmtudaginn 19. febrúar 2015.

Nr. 483/2014.

Þrotabú Rekstrar 90 ehf.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Tæknivörum ehf.

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Óvenjulegur greiðslueyrir. Endurgreiðsla.

Talið var að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 væru fyrir hendi til að rift yrði tilteknum greiðslum frá R ehf. til T ehf. Þótti í ljós leitt að um greiðslu skuldar hefði verið að ræða og að skuldin teldist hafa verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi ákvæðisins. Kröfu þrotabús R ehf. um endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laganna var hins vegar hafnað með vísan til skuldar R ehf. við T ehf., sem hafði í kjölfar fyrrgreindra greiðslna hækkað umfram þá fjárhæð sem endurgreiðslukrafa þrotabúsins nam.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. maí 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 18. júní sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 10. júlí 2014 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst þess að rift verði greiðslu Rekstrar 90 ehf. á skuld að fjárhæð 2.462.604 krónur og að stefnda verði gert að endurgreiða sér sömu fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júlí 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að fjárkrafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í héraðsdómi afhenti einkahlutafélagið Rekstur 90 stefnda fartölvur, myndavélar, litaprentara og sjónvarpstæki 19. júní 2012 að andvirði 2.406.100 krónur og litaprentara 10. júlí sama ár að andvirði 56.504 krónur. Óumdeilt er að þessar greiðslur, samtals að fjárhæð 2.462.604 krónur, hafi gengið til lækkunar á skuld Rekstrar 90 ehf. við stefnda og að þeim hafi þannig verið skuldajafnað við skuld félagsins gagnvart stefnda.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Á það verður fallist með áfrýjanda að fartölva, myndavél, sjónvarpstæki og litaprentari séu almennt ekki venjulegur greiðslueyrir. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að greiðslur með þessum hætti hafi tíðkast milli aðila, heldur liggur þvert á móti fyrir í málinu að Rekstur 90 ehf. greiddi stefnda yfirleitt með peningum fyrir þá vöru sem félagið keypti af honum. Hefur stefndi því ekki sýnt fram á að umræddar greiðslur hafi verið venjulegar eftir atvikum. Jafnframt er haldlaus sú málsástæða stefnda að báðir aðilar hafi haft hag af viðskiptunum, þar sem tilgangur stefnda með vörukaupunum hafi verið að kynna samvirkni vara, sem aðilar höfðu á boðstólum frá sama framleiðanda. Við úrlausn um það hvort fallist verði á riftunarkröfu áfrýjanda skiptir ekki máli þótt uppgjör aðila hafi verið í búningi skuldajafnaðar, enda verður í því sambandi að líta til þess í hvaða horfi greiðslan var þegar hún fór frá skuldara. Stendur ákvæði 136. gr. laga nr. 21/1991 því ekki í vegi að ráðstöfuninni verði rift á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laganna. Verður því fallist á riftunarkröfu áfrýjanda.

Áfrýjandi reisir endurgreiðslukröfu sína að fjárhæð 2.462.604 krónur á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Í þeirri málsgrein segir í 1. málslið að fari riftun fram með stoð í 131. til 138. gr. laganna skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Áfrýjandi byggir á því að fyrrgreind fjárhæð hafi komið stefnda að notum í viðskiptum hans við Rekstur 90 ehf. Stefndi vísar á hinn bóginn til þess að ósannað sé að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni, enda hafi Rekstur 90 ehf. fengið afhentar frá stefnda vörur fyrir mun hærri fjárhæð en nemur þeirri sem áfrýjandi krefst að verði endurgreidd sér.

Eftir greiðsluna 19. júní 2012 að fjárhæð 2.406.100 krónur nam skuld Rekstrar 90 ehf. við stefnda 1.202.855 krónum. Viðskipti þeirra héldu áfram og eftir greiðsluna 10. júlí sama ár að fjárhæð 56.504 krónur skuldaði Rekstur 90 ehf. stefnda 9.506.871 krónu. Eftir þetta héldu viðskiptin enn áfram og þegar þeim lauk 13. september 2012 nam skuld Rekstrar 90 ehf. 3.724.372 krónum. Að virtri viðskiptastöðunni eftir greiðsluna 19. júní 2012 og þegar viðskiptunum lauk, svo og að frádreginni greiðslunni 10. júlí sama ár, hafði skuld Rekstrar 90 ehf. við stefnda hækkað um 2.465.013 krónur, en krafa áfrýjanda er sem fyrr segir að fjárhæð 2.462.604 krónur. Í samræmi við dómaframkvæmd, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 9. desember 1993 í máli nr. 479/1990, sem birtur er í dómasafni réttarins 1993, bls. 2292, og 22. mars 1996 í máli nr. 31/1995, sem birtist í dómasafni 1996, bls. 1132,  kemur fyrrnefnda fjárhæðin til frádráttar, en af því leiðir að stefndi verður sýknaður af endurgreiðslukröfu áfrýjanda.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Rift er greiðslu Rekstrar 90 ehf. á skuld við stefnda, Tæknivörur ehf., að fjárhæð 2.462.604 krónur.

Stefndi er sýkn af fjárkröfu áfrýjanda, þrotabús Rekstrar 90 ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. febrúar 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember sl., höfðaði stefnandi, þrotabú Rekstrar 90 ehf., Ránargötu 18, Reykjavík, hinn 30. apríl 2013, gegn stefnda, Tæknivörum ehf., Víkurhvarfi 4, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru að rift verði með dómi greiðslu Rekstrar 90 ehf. á skuld til stefnda að fjárhæð 2.462.604 krónur og að stefnda verði dæmt til að endurgreiða stefnanda 2.462.604 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júlí 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af riftunar- og endurgreiðslukröfum stefnanda. Til vara krefst stefnda þess að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð í 840.943 krónur. Til þrautavara krefst stefnda þess að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð samkvæmt mati dómsins. Í öllum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Stefnda mun vera dreifingaraðili fyrir Samsung-síma og -spjaldtölvur á Íslandi. Var forveri stefnanda dreifingaraðili fyrir ýmis önnur raftæki frá Samsung. 

Bú Rekstrar 90 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2012 og skiptastjóri skipaður. Að ósk skiptastjóra var unnin skýrsla um viðskipti stefnda og Rekstrar 90 ehf., sbr. framlagða skýrslu Ernst & Young ehf. frá 23. apríl 2013. Tekur skýrslan til tímabilsins frá 1. janúar 2012 til 14. september 2012.

Upplýst er að Rekstur 90 ehf. seldi stefnda fjórar fartölvur, fjórar myndavélar, tvo litaprentara og fimm sjónvarpstæki, sbr. framlagðan reikning, dags. 19. júní 2012. Nam kaupverðið með virðisaukaskatti 2.406.100 krónum. Þá seldi Rekstur 90 ehf. stefnda jafnframt einn litaprentara, sbr. reikning dags. 10. júlí 2012. Kaupverð hans með virðisaukaskatti nam 56.504 krónum. Kemur fram í áður tilvitnaðri skýrslu að þessar vörur, samtals að verðmæti 2.462.604 krónur, hafi verið greiddar með þeim hætti að skuld stefnanda á viðskiptareikningi stefnda hafi verið lækkuð sem nam andvirði hins selda. Umræddar vörur hafi með öðrum orðum verið greiddar með skuldajöfnuði.

Skiptastjóri taldi framangreindan skuldajöfnuð riftanlegan gerning og sendi hann stefnda því riftunarbréf 15. apríl 2013. Í bréfinu var jafnframt krafist greiðslu úr hendi stefnda sem nam hinum umdeilda skuldajöfnuði, eða 2.462.604 krónum. Stefnda svaraði bréfi stefnanda skriflega 29. sama mánaðar og mótmælti yfirlýsingu stefnanda um riftun, fjárkröfu þrotabúsins, sem og málatilbúnaði þess í heild. Stefnandi höfðaði síðan mál þetta degi síðar samkvæmt áðursögðu.

Stefnda hefur vísað til þess í málinu að vörur þær sem stefnandi seldi stefnda samkvæmt hinum umdeildu reikningum, dagsettum 19. júní og 10. júlí 2012, hafi félagið keypt vegna átaksverkefnis sem Samsung hafi haft frumkvæði að. Í verkefninu hafi falist að settur var upp fjöldi sérstakra borða í verslunum viðskiptavina þar sem vörum frá Samsung voru gerð skil. Hafi stefnda lánað allan búnað tengdan átakinu til viðskiptavina. Þann búnað sem stefnda hafi ekki getað keypt beint af eigin birgja, Samsung-mobile, hafi félagið keypt af stefnanda. Kveður stefnda ljóst að báðir málsaðilar hafi haft hag af þessari kynningu á framleiðsluvörum Samsung.

II

Stefnandi kveður almenn skilyrði til riftunar óumdeilanlega fyrir hendi í málinu. Ljóst sé að möguleikar kröfuhafa til að fá fullnustu krafna aukist ef riftun nái fram að ganga. Einnig sé ljóst að greiðsla viðskiptaskuldarinnar til stefnda hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa. Sú greiðsla hafi því leitt til mismununar kröfuhafa.

Kröfu sína um riftun segir stefnandi byggjast á því að greiðsla viðskiptaskuldar Rekstrar 90 ehf. hafi verið innt af hendi með vörum, sem teljist óvenjulegur greiðslueyrir. Greiðslan sé því riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá byggist riftunarkrafa stefnanda einnig sjálfstætt á því að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Hún sé því einnig riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.

Stefnandi segir skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 vera hlutlæg. Í fyrsta lagi þurfi að vera um að ræða greiðslu skuldar. Um það skilyrði vísi stefnandi til könnunar Ernst & Young ehf. á bókhaldi Rekstrar 90 ehf. Skýrslan beri með sér að greiðslur þær sem hér um ræði hafi verið greiðslur skuldar sem stofnast hafði milli aðila áður en greiðslan var innt af hendi og hafi greiðslan gengið til lækkunar þeirri skuld.

Í öðru lagi þurfi greiðslan að hafa verið innt af hendi innan þeirra fresta sem lög um gjaldþrotaskipti geri ráð fyrir. Skuldir Rekstrar 90 ehf. hafi verið greiddar 19. júní og 10. júlí 2012. Frestdagur við skiptin sé 14. september 2012. Skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri.

Í þriðja lagi sé það skilyrði að skuldin hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri. Um þetta skilyrði vísi stefnandi til þess að greiðslur í formi vöruúttekta séu almennt óvenjulegur greiðslueyrir. Þá verði ekki séð að slíkir greiðsluhættir hafi áður tíðkast, eða verið venjulegir, milli aðila. Greiðslan hafi farið fram með vöruúttektum. Hvorki hafi verið um eðlilegan greiðslueyri í viðskiptum aðila að ræða né venjuhelgaðan. Greiðsla á skuld með vöruúttektum geti ekki flokkast undir eðlilegan þátt í viðskiptum félagsins Rekstrar 90 ehf. og stefnda.

Krafa stefnanda um riftun byggist einnig sjálfstætt á 141. gr. laga nr. 21/1991. Telji stefnandi öll skilyrði þeirrar lagagreinar vera uppfyllt. Í fyrsta lagi sé það skilyrði uppfyllt að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg sem slík, meðal annars vegna grandsemi stefnda um ógjaldfærni Rekstrar 90 ehf. á þeim tíma sem greiðslan fór fram. Í öðru lagi hafi Rekstur 90 ehf. verið ógjaldfært þegar greiðslan hafi verið innt af hendi, sbr. meðal annars fyrrnefnda skýrslu Ernst & Young ehf. Þá hafi stefnda vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Rekstrar 90 ehf. á því tímamarki og þau atvik sem gert hafi það að verkum að greiðslan var ótilhlýðileg.

Hvað málatilbúnað stefnda varðar tekur stefnandi sérstaklega fram að ákvæði 100. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við í málinu.

Kröfu stefnanda um endurgreiðslu segir þrotabúið reista á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að því leyti sem riftunarkrafan byggist á 134. gr. laganna, en á 3. mgr. 142. gr. þeirra að því leyti sem hún byggist á 141. gr. Kröfufjárhæðin sé 2.462.604 krónur sem svari til þeirrar fjárhæðar sem komið hafi stefnda að notum til lækkunar á skuld sinni gagnvart stefnanda. Krafist sé vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá næstu mánaðamótum frá því vörunum var afsalað, en  dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi er mánuður var liðinn frá riftunarbréfi, dagsettu 15. apríl 2013.

III

Stefnda kveðst mótmæla öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Segist stefnda hafa átt í stökustu vandræðum með að skilja málatilbúnað stefnanda. Svo virðist sem af hálfu þrotabúsins sé á því byggt að í viðskiptum þar sem báðir aðilar afhendi sams konar vörur, raftæki, sé afhending annars aðilans ólögmætur greiðslueyrir en hins ekki. Enn fremur virðist í riftunarbréfi stefnanda til stefnda frá 15. apríl 2013 á því byggt að um gjafagerning sé að ræða. Þá sé í skýrslu Ernst og Young ehf., sem stefnandi byggi kröfu um riftun á, gengið út frá því að skuldajöfnun stefnda hafi falið í sér ólögmætan greiðslueyri. Allt framangreint hafi gert það að verkum að stefnda hafi átt í erfiðleikum með að skilja kröfu stefnanda, og þar með verjast henni.

Sýknukröfu stefnda segir félagið aðallega byggjast á 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 136. gr. sömu laga sé kveðið á um það að ákvæði um riftun greiðslu gildi einnig um skuldajöfnuð ef ekki mætti beita honum skv. 100. gr. laganna.   Á því sé byggt af hálfu stefnda að félaginu hafi verið heimilt að beita skuldajöfnuði. Þar með sé skuld stefnda við stefnanda greidd, en fyrir liggi í málinu að öllum skilyrðum til að beita skuldajöfnuði hafi verið fullnægt, sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Nefnir stefnda sérstaklega í því sambandi að gagnkrafa félagsins hafi verið eldri en þriggja mánaða, frá frestdegi talið, og því hafi skuldajöfnun verið heimil, með vísan til 100. gr. Þá liggi og fyrir að öll önnur skilyrði skuldajafnaðar hafi verið til staðar.

Stefnda kveður reglurnar um skuldajöfnun sjálfstæðar gagnvart riftunarreglum gjaldþrotalaga. Skuldajöfnuði verði því ekki hnekkt á grundvelli þeirra, séu skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991, fyrir skuldajöfnuði, á annað borð uppfyllt. Stefnda byggi á því að skýrsla Ernst & Young ehf. sýni að framkvæmd hafi verið skuldajöfnun í tvö skipti til greiðslu skuldar á viðskiptareikningi. Hvorug skuldajöfnunin hafi haft nokkuð með sölu á vörum frá stefnanda til stefnda að gera, enda  hafi skuldajöfnunin ekki verið framkvæmd sama dag og salan hafi átt sér stað. Ástæða þess að ekki hafi verið mikið um skuldajöfnun milli aðila sé sú að almennt hafi stefnda ekki keypt mikið af vörum af stefnanda. Vegna kynningar á vegum Samsung hafi stefnda hins vegar þurft að kaupa prentara, sjónvörp o.fl. til að nota við kynninguna. Bendir stefnda á í þessu sambandi að stefnandi hafi haldið áfram að safna viðskiptaskuld við stefnda, hún hafi numið 9.506.871 krónu 10. júlí 2012, þegar reikningur vegna síðari sölunnar hafi verið dagsettur. Hafi hún farið hæst í 9.901.857 krónur 13. júlí sama ár.

Stefnda bendir á að skuld stefnanda við félagið hafi 14. júní 2012, þremur mánuðum fyrir frestdag, numið 3.265.198 krónum, samkvæmt skýrslu Ernst & Young ehf., sem sé hærri fjárhæð en krafa þrotabúsins. Því sé ljóst að skuld stefnanda við stefnda hafi verið eldri en þriggja mánaða og því tæk til skuldajöfnunar gegn kröfu stefnanda samkvæmt framlögðum reikningum, sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Þetta verði jafnframt að skoða í því ljósi að hefði kröfu stefnanda ekki verið skuldajafnað á móti kröfum stefnda hefði hún staðið ógreidd í bókhaldi félagsins við þrot stefnanda. Hefði stefnda því alltaf getað lýst yfir skuldajöfnuði við kröfu þrotabúsins samkvæmt hinum umdeildu reikningum, dagsettum 19. júní 2012 og 10. júlí 2012. 

Verði talið að skuldajöfnun krafna stefnda á móti kröfum stefnanda samkvæmt áðurnefndum reikningum hafi verið óheimil kveðst stefnda byggja sýknukröfu sína á því að hlutlæg skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt í málinu, svo riftun verði talin heimil, enda liggi fyrir að greiðslan var venjuleg. Bendir stefnda á að um viðvarandi viðskiptasamband hafi verið að ræða. Líkt og fyrr greini hafi þó ekki verið mikið um að stefnda fengi afhentar vörur frá stefnanda, enda sé félagið heildsöluaðili og hafi fyrst og síðast keypt vörur af stefnanda til eigin nota.

Stefnda byggi á því að farið hafi verið út í kaup á vörum samkvæmt hinum umdeildu reikningum að kröfu Samsung til að sýna samvirkni þeirra Samsung-tækja sem stefnda og stefnandi hafi flutt inn. Um hafi verið að ræða hluta af kynningarherferð Samsung og hafi kynningarbásar verið settir upp hjá viðskiptavinum stefnda, svo sem Símanum, Vodafone, Elko o.fl. Viðskiptin hafi því verið ívilnandi fyrir stefnanda, bæði á þann hátt að hann hafi selt stefnda vörur með fullri álagningu og fengið um leið kynningu á vörum sínum hjá viðskiptavinum stefnda. Stefnandi hafi enn fremur fengið í staðinn vörur frá stefnda, þ.e. Samsung-síma, sem hann hafi selt viðskiptavinum sínum með fullri framlegð. 

Stefnda byggi á því að ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 tiltaki þrjú skilyrði sem þurfi að vera til staðar til þess að heimilt sé að rifta á grundvelli ákvæðisins. Þau séu að greidd hafi verið skuld með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt hafi verið og að greidd hafi verið fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu skuldarans.

Stefnda segir skýrslu Ernst & Young ehf. sýna að um viðvarandi viðskipta­samband hafi verið að ræða á milli stefnanda og stefnda. Af og frá sé að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða í viðskiptum aðila, þar sem báðir aðilar hafi afhent vörur, þó mest þannig að stefnandi hafi keypt vörur af stefnda. Í gagnkvæmu viðskiptasambandi sé ekkert óeðlilegt eða óvenjulegt við það að greitt sé með skuldajöfnuði. Því sé vandséð hvernig afhending stefnanda á vörum, í viðvarandi viðskiptasambandi, geti talist hafa verið óvenjulegur greiðslueyrir, á meðan afhending stefnda hafi ekki verið það. Sér í lagi sé þetta sérstakt þar sem um vörur frá sama framleiðanda hafi verið að ræða, þ.e. Samsung. 

Þá mótmæli stefnda því sérstaklega að um einhvers konar einhliða vöruúttekt af hálfu félagsins hafi verið að ræða. Báðir aðilar hafi afhent vörur. Því eigi að líta á viðskiptin sem gagnkvæma afhendingu á vörum. Liggi enda fyrir að stefnandi hafi í raun fengið afhentar mun verðmætari vörur fyrir afhendingu á vörum samkvæmt títtnefndum reikningum.

Stefnda segir ekkert liggja fyrir í málinu um að ekki hafi verið um eðlilegan eða venjuhelgaðan greiðslueyri að ræða, eins og stefnandi haldi fram. Í því samhengi bendi stefnda sérstaklega á að skýrsla Ernst og Young ehf. taki aðeins til tímabilsins 1. janúar til 14. september 2012 og segi því ekkert fyrir um viðskipti aðila fyrir það tímabil. Áréttar stefnda að kaup félagsins á vörum frá stefnanda hafi nánast engin verið og eina ástæða þess að stefnda keypti vörur af stefnanda umrætt sinn hafi verið fyrrgreint markaðsátak. Þess vegna eigi allar fullyrðingar og ályktanir Ernst & Young ehf. hér ekki við, enda ljóst að þær sé ekki hægt að draga af hinum örfáu kaupum stefnda af stefnanda.

Þá kveðst stefnda mótmæla sönnunargildi skýrslu Ernst & Young ehf. að svo miklu leyti sem hún sé félaginu í óhag. Ljóst sé að „sérfræðiskýrslur“ sem þessar hafi enga þýðingu að íslenskum rétti. Ætli aðili að færa sönnur á atriði, sem dómari leggi ekki mat á sjálfur, skuli það gert með matsgerðum dómkvaddra matsmanna, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess séu endurskoðandi og viðskipta­fræðingur í þessu tilviki að tjá sig um málefni sem þeir séu ekki sérfræðingar í, svo sem berlega megi sjá á umfjöllun í niðurlagi skýrslunnar um riftanleika ráðstafana í gjaldþrotarétti. Takist þeim þar ekki betur til en svo að þeir telji „skuldajafnanir á viðskipta­reikningi“ óvenjulegan greiðslueyri og því sé um riftanlegar greiðslur að ræða.  

Af hálfu stefnda sé á því byggt að skoða beri þær sérstöku aðstæður sem tengst hafi beint umræddum viðskiptum, þ.e. að um kynningu, að frumkvæði Samsung, á Samsung-vörum, hafi verið að ræða þar sem báðir aðilar hafi haft hag af ráðstöfuninni. Þess utan hafi stefnandi selt þær vörur sem hann hafi fengið afhentar frá stefnda með framlegð, sem stefnda hafi ekki gert, enda hafi félagið nýtt vörurnar til kynningar báðum aðilum til hagsbóta. Því sé ljóst að sá sem hag hafði af þessari ráðstöfun hafi verið stefnandi, en tilgangur stefnda með viðskiptunum hafi eingöngu verið að kynna samvirkni tækja frá Samsung. Í kynningarátak þetta hafi verið farið að undirlagi Samsung, en tilgangur þess hafi verið að auka áhuga markaðarins á Samsung-búnaði sem bæði stefnandi og stefnda seldu. Þegar umrædd viðskipti hafi átt sér stað hafi stefnda þegar verið búið að afhenda stefnanda fjölda vara vegna hinna viðvarandi viðskipta. Stefnda hafi því ekki talið því neitt til fyrirstöðu, og raunar til hagræðis fyrir báða aðila, að kröfur þeirra nettuðust út þeirra í milli.

Þá fullyrðir stefnda að félaginu hafi ekki á nokkurn hátt verið kunnugt um fjárhagsstöðu forvera þrotabúsins. Bendir stefnda á í því sambandi að árangurslaust fjárnám hjá Rekstri 90 ehf. hafi ekki verið skráð á vanskilaskrá fyrr en 6. september 2012. Liggi enda fyrir að stefnda hafi heimilað stefnanda frekari vöruúttektir eftir að fyrri skuldajöfnunin hafði átt sér stað, án staðgreiðslu, en eftir hana hafi skuld stefnanda við stefnda numið 1.202.855 krónum. Þegar síðari skuldajöfnunin hafi átt sér stað 10. júlí 2012 hafi skuld stefnanda við stefnda numið 9.563.375 krónum. Sé af og frá að stefnda hefði heimilað vöruúttektir, án staðgreiðslu, hefði félagið haft vitneskju um fjárhagsstöðu Rekstrar 90 ehf. 

Enn fremur mótmælir stefnda fullyrðingum stefnanda um viðskiptasögu stefnanda og stefnda, en ekkert liggi fyrir í málinu um hana fyrir 1. janúar 2012. Því séu allar ályktanir stefnanda um hvað hafi tíðkast og hvað hafi verið venjulegt í viðskiptum aðila ósannaðar, enda vandséð hvernig um ólögmætan greiðslueyri geti verið að ræða hjá öðrum aðilanum, þegar báðir aðilar greiði með afhendingu raftækja af sömu tegund.

Stefnda bendir á að greitt hafi verið í samræmi við greiðsluskilmála aðila í viðvarandi viðskiptasambandi og á þeim tíma sem reikningar hafi almennt verið greiddir. Reikningarnir hafi því ekki verið greiddir fyrr en eðlilegt mátti teljast. Þá sé af og frá að greiðslan hafi skert greiðslugetu skuldara, enda fjárhæðin óveruleg og stefnandi í staðinn fengið vörur sem hann hafi selt út með álagningu. Greiðslugeta skuldara hafi því frekar styrkst við viðskiptin en hið gagnstæða.  

Stefnda hafnar því að ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við í málinu.   Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt leitast við að sýna fram á að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Bendir stefnda á að það fái ekki staðist að félagið hafi verið grandsamt um ógjaldfærni stefnanda þegar skuldajöfnunin átti sér stað, enda liggi fyrir að árangurslaust fjárnám hafi ekki verið skráð á vanskilaskrá fyrr en 6. september 2012 samkvæmt áðursögðu.

Enn fremur vísar stefnda til þess að eftir að skuldajöfnunin átti sér stað hafi skuldastaða stefnanda hjá stefnda hækkað úr 1.201.855 krónum í 9.506.871 krónu. Augljóst sé að hefði stefnda verið grandsamt um fjárhagsstöðu stefnanda hefði félagið ekki heimilað áframhaldandi vöruúttektir og skuldasöfnun.

Þá komi ekkert fram í skýrslu Ernst og Young ehf. um að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar skuldajöfnunin átti sér stað, svo sem stefnandi haldi fram. Fái stefnda engan veginn séð hvernig félagið hafi átt að vita, eða mátt vita, að greiðslan væri ótilhlýðileg þegar ekkert hafi legið fyrir um ógjaldfærni stefnanda í opinberum gögnum og hann hafi ekki verið upplýstur sérstaklega um það. 

Mótmælir stefnda tilvísun stefnanda til 141. gr. laga nr. 21/1991 á þeim grunni að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni. Um það atriði vísar stefnda til áðurgreindra sjónarmiða varðandi sölu á þeim vörum sem stefnandi fékk í staðinn fyrir þær vörur sem hann seldi stefnda.

Stefnda mótmæli því jafnframt að um gjafagerning hafi verið að ræða þar sem fullt verð hafi verið greitt fyrir umræddar vörur. Auk þess hafi vörurnar verið notaðar í tilgangi sem verið hafi forvera þrotabúsins til hagsbóta samkvæmt áðursögðu. Þá hafi stefnandi fengið aðrar vörur í staðinn.

Nái riftunarkröfur stefnanda fram að ganga kveðst stefnda byggja á því að samt eigi að sýkna hann af endurkröfu stefnanda skv. 142. gr. laga nr. 21/1991. Alls ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og jafnvel þó svo það yrði talið sannað liggi ekkert fyrir um fjárhæð meints tjóns. Ljóst sé að ekki sé hægt að leggja reikninga, dags. 19. júní 2012 og 10. júlí 2012, til grundvallar meintu fjártjóni stefnanda, enda hafi hann fengið afhentar vörur frá stefnda fyrir mun hærri fjárhæðir en endurkröfunni nemi. 

Enn fremur byggir stefnda á því að félagið hafi hvorki haft þann hag af hinni meintu riftanlegu ráðstöfun, né þrotabúið orðið fyrir tjóni, sem nemi stefnufjárhæð málsins. Því beri að sýkna stefnda af fjárkröfu stefnanda með vísan til 142. gr. laga nr. 21/1991, óháð því hvort riftun nái fram að ganga, enda sé ósannað að þrotabúið hafi orðið fyrir tjóni og eftir atvikum hver fjárhæð meints tjóns þess sé. 

Af hálfu stefnda er jafnframt á því byggt, með vísan til framangreindra atriða, að stefnandi myndi með ólögmætum hætti auðgast á kostnað stefnda næði endurgreiðslu­krafa skv. 142. gr. laga nr. 21/1991 fram að ganga. Þannig hafi stefnandi fengið afhenta Samsung-síma sem hann hafi síðan selt með fullri framlegð. Um leið hafi hann selt Samsung-tæki á fullu verði til stefnda. Næði riftun í máli þessu fram að ganga myndi stefnandi í raun fá rúmlega tvígreitt fyrir vörurnar, annars vegar með þeim vörum sem hann hafi fengið afhentar og hins vegar með greiðslu peninga. Væri það því bersýnilega ósanngjarnt gagnvart stefnda ef riftun næði fram að ganga og stefnandi fengi þannig tvígreitt. Sú niðurstaða færi í bága við 36. gr. laga nr. 7/1936 og meginreglur kröfu- og samningaréttar um óréttmæta auðgun.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að fjárkrafa stefnanda nái fram að ganga mótmæli stefnda upphafstíma dráttarvaxta en fyrir liggi að félagið hafi greitt hina umdeildu reikninga á gjalddaga. Fjárkröfu hafi fyrst verið beint að stefnda með bréfi 15. apríl 2013. Sú krafa hafi verið svo ruglingsleg að á engan hátt hafi verið hægt að greina á hvaða grundvelli kröfunni væri beint að stefnda. Því telji félagið að miða eigi upphafstíma dráttarvaxta í allra fyrsta lagi við dómsuppkvaðningu, verði á kröfur stefnanda fallist.

Vara- og þrautavarakröfur stefnda um lækkun segir félagið byggjast á sömu sjónarmiðum og aðalkröfu þess. Stefnda yrði fyrir verulegu óhagræði ef riftunar- og endurgreiðslukröfur stefnanda næðu fram að ganga. Stefnda myndi þá greiða hinar seldu vörur tvisvar. Sú niðurstaða væri bersýnilega ósanngjörn, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, og myndi stefnandi í því tilviki hagnast á kostnað stefnda með ólögmætum og óréttmætum hætti.

Þá telur stefnda að lækka beri kröfu stefnanda, verði fallist á að skilyrði riftunar séu til staðar, meðal annars á þeim forsendum að hann hafi afhent stefnanda verðmeiri vörur að fjárhæð kr. 3.357.966 sem greiðslu fyrir reikninga stefnanda. Ætla megi að álagning stefnanda í smásölu hafi a.m.k. numið 15% eða 503.695 krónum.

Jafnframt sé ljóst að stefnandi hafi haft hag af hinni meintu riftanlegu ráðstöfun þar sem umræddar vörur hafi verið notaðar til kynningar á vörumerkinu Samsung, sem stefnandi hafi haft til sölu. Þá liggi fyrir að stefnda var grandlaust um fjárhagsstöðu stefnanda þegar ráðstöfunin átti sér stað.

Stefnda telur að verði ekki fallist á að allar þær vörur sem tilgreindar séu á reikningum dagsettum í júní 2012 komi á móti vörum sem stefnda keypti samkvæmt reikningum dagsettum 19. júní 2012 og 10. júlí 2012 sé a.m.k. ljóst að reikningar sem gefnir voru út sama dag og degi síðar og fyrri skuldajöfnunin átti sér stað eigi að koma á móti sem greiðsla fyrir vörurnar. Því eigi að lækka kröfu stefnanda um 1.621.661 krónur, eða í 840.943 krónur.

Telji dómurinn að ekki sé grundvöllur til að lækka kröfuna um ofangreinda fjárhæð byggi stefnda á því með sömu rökum að engu að síður eigi að lækka kröfu stefnanda, en þá samkvæmt mati dómsins. Fyrir liggi að ef það sé ekki gert sé stefnandi að hagnast verulega á kostnað stefnda. 

IV

Í 136. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er kveðið á um það að ákvæði um riftun greiðslu gildi einnig um skuldajöfnuð ef ekki mætti beita honum skv. 100. gr. sömu laga. Í ákvæðinu felst að þegar skuldajöfnuður er heimill skv. 100. gr. verður honum ekki rift. Hafa reglur um skuldajöfnuð því sjálfstæða tilveru gagnvart riftunarreglum laga nr. 21/1991 og verður þeim ekki hnekkt á grundvelli þeirra síðarnefndu.

Skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 getur hver sá, sem skuldar þrotabúi, dregið það frá sem hann á hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið, ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Það er þrotabúið sem hefur sönnunarbyrðina fyrir því að framangreind atriði séu fyrir hendi og girði fyrir skuldajöfnuð.

Fyrir liggur í málinu að frestdagur við gjaldþrotaskiptameðferð stefnanda er 14. september 2012. Jafnframt er upplýst að skuld stefnanda við stefnda nam hinn 14. júní 2012, þ.e. þremur mánuðum fyrir frestdag, 3.265.198 krónum, sbr. framlagða skýrslu Ernst & Young ehf. frá 23. apríl 2013, en málatilbúnaður stefnanda sjálfs byggist að verulegu leyti á þeirri skýrslu. Enn fremur er staðreynd að sú skuld stefnda við stefnanda, sem riftunaryfirlýsing stefnanda frá 15. apríl 2013 tók til, grundvallaðist á reikningum sem stefnandi gaf út á hendur stefnda 19. júní og 10. júlí 2012.

Upplýst er með framlagningu á yfirliti úr vanskilaskrá vegna Rekstrar 90 ehf. að árangurslaust fjárnám hjá félaginu var ekki skráð á vanskilaskrá fyrr en 6. september 2012. Þá liggur fyrir að stefnda heimilaði stefnanda umtalsverðar vöruúttektir, án staðgreiðslu, eftir að fyrri skuldajöfnunin, sem tók til mestallrar hinnar umdeildu fjárhæðar, var framkvæmd, en þegar síðari skuldajöfnunin átti sér stað 10. júlí 2012, vegna reiknings að fjárhæð 56.504 krónur, nam skuld stefnanda við stefnda 9.563.375 krónum. Að þessu athuguðu, og þar sem stefnandi hefur engin haldbær gögn lagt fram er benda til annars, þykir með öllu ósannað að stefnda hafi haft vitneskju um bága fjárhagsstöðu stefnanda er hinn umdeildi skuldajöfnuður var framkvæmdur.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að gagnkrafa stefnda var eldri en þriggja mánaða frá frestdegi talið. Þá er ósannað að stefnda hafi haft vitneskju um bága fjárhagsstöðu stefnanda er hann eignaðist kröfuna. Enn fremur er staðreynd að krafa þrotabúsins á hendur félaginu varð til fyrir frestdag. Þá voru öll almenn skilyrði fyrir skuldajöfnuði uppfyllt. Samkvæmt öllu þessu þykir mega slá því föstu að stefnda hafi verið heimilt skv. 100. gr. laga nr. 21/1991 að beita hinum umdeilda skuldajöfnuði. Verður félagið því sýknað af öllum kröfum stefnanda.

Í ljósi niðurstöðu dómsins hér að framan eru ekki efni til að taka afstöðu til annarra þeirra málsástæðna aðila, sem í málatilbúnaði þeirra kunna að felast, en þegar hefur verið vikið að.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem hæfilega þykir ákveðinn, svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, Tæknivörur ehf., skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, þrotabús Rekstrar 90 ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.