Hæstiréttur íslands
Mál nr. 214/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
|
|
Föstudaginn
4. maí 2007. |
|
Nr. 214/2007. |
Snuddi ehf. (Arnar Sigfússon hdl.) gegn Lífeyrissjóði Norðurlands (Árni Pálsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám.
Fjárnám var gert í bát í eigu S ehf. í október 2006 án þess að mætt væri að hálfu kröfuhafa, L. Í desember sama ár var að beiðni L aftur gert fjárnám hjá S ehf. til tryggingar sömu kröfu. Félagið krafðist ógildingar á síðargreinda fjárnáminu. Ekki var fallist á að fyrra fjárnámið hefði verið markleysa þó að framkvæmd þess hafi farið í bága við 1. mgr. 23. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þar sem í lögunum nyti ekki heimildar til að gera fjárnám vegna kröfu sem þegar hefði verið tryggð með fjárnámi, án þess að fyrra fjárnámið hefði verið endurupptekið, fellt úr gildi eða runnið sitt skeið á enda, var fjárnámsgerðin frá desember 2006 felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. apríl 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fjárnám, sem sýslumaðurinn á Akureyri gerði hjá honum 20. desember 2006 að kröfu varnaraðila, yrði fellt úr gildi. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að framangreint fjárnám verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var hinn 26. október 2006 gert fjárnám hjá sóknaraðila í vélbátnum Afa Agga EA 399 til tryggingar kröfu varnaraðila að fjárhæð 2.808.942 krónur. Í málinu er upplýst að fjárnámið var gert án þess að mætt væri af hálfu varnaraðila, þótt annað hafi verið skráð í bókun um gerðina. Fór þetta í bága við 1. mgr. 23. gr. laga nr. 90/1989. Af þessu leiðir þó ekki að fjárnámsgerðin verði markleysa, eins og lagt er til grundvallar í hinum kærða úrskurði, heldur verður sá sem vill hnekkja henni að leita endurupptöku eftir ákvæðum 9. kafla laga nr. 90/1989 eða skjóta henni til héraðsdóms eftir ákvæðum 15. kafla sömu laga séu skilyrði til þess uppfyllt. Í lögunum nýtur ekki heimildar til að gera fjárnám vegna kröfu sem þegar hefur verið tryggð með fjárnámi, án þess að fyrra fjárnámið hafi verið endurupptekið, fellt úr gildi eða runnið skeið sitt á enda. Voru því ekki lögmæt skilyrði til þess að framkvæmd yrði fjárnámsgerð sú 20. desember 2006, sem aðilar deila um í þessu máli.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu sóknaraðila og varnaraðili dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Fjárnám, sem sýslumaðurinn á Akureyri gerði 20. desember 2006 fyrir kröfu varnaraðila, Lífeyrissjóðs Norðurlands, á hendur sóknaraðila, Snudda ehf., er fellt úr gildi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. apríl 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 29. f.m., er til komið vegna
kröfu Arnars Sigfússonar hdl. f.h. Snudda ehf., [kt.], Hafnarbraut 14, 620
Dalvík, sem með kröfu, dagsettri 6. febrúar 2007 og þingfestri 8. s.m., krefst
þess að fjárnámsgerð sýslumannsins á Akureyri nr. 024-2006-00908, sem fram fór
hjá Snudda ehf., sóknaraðilja þessa máls, þann 20. desember 2006, að kröfu
Lífeyrissjóðs Norðurlands, [kt.], verði ógilt með úrskurði dómsins.
Fjárnámið var gert til tryggingar kröfu að fjárhæð kr. 2.808.942 og var
lokið sem árangaurslausu.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðilja að mati dómsins.
Varnaraðilji, Lífeyrissjóður Norðurlands, [kt.], Strandgötu 3, 600
Akureyri, krefst þess að kröfum sóknaraðilja verði hafnað og sóknaraðilji
úrskurðaður til að greiða málskostnað að mati dómsins.
Sóknaraðilji rekur málavexti svo að 10. ágúst 2006 hafi varnaraðilji
afhent sýslumanninum á Akureyri aðfararbeiðni á hendur sóknaraðilja vegna
vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda. Hafi
beiðnin hlotið málanúmerið 2006-00908.
Þann 26. október 2006 hafi málið verið tekið fyrir af fulltrúa
sýslumanns að: „Lögreglustöð Þórunnar,
600 Akureyri“ eins og í endurriti segi.
Fyrir hönd varnaraðilja var mættur skv. endurritinu Gunnar Sólnes hrl.,
en fyrir hönd sóknaraðilja Steinar Agnarsson, stjórnarmaður félagsins. Samkvæmt ábendingu hans, sem fulltrúi
varnaraðilja gerði ekki athugasemd við, hafi verið gert fjárnám fyrir kröfum
varnaraðilja í m/b Afa Agga EA-399.
Þann 20. desember 2006 hafi sama mál verið tekið fyrir aftur af öðrum
fulltrúa sýslumanns, að þessu sinni á lögreglustöðinni á Dalvík. Sama aðfararbeiðni og sömu fylgiskjöl eru
þar lögð fram og sömu aðiljar einnig mættir.
Hvergi komi fram í bókun gerðarinnar að um endurupptöku málsins sé að
ræða og engin beiðni um endurupptöku hafi verið lögð fram. Við þessa fyrirtöku sé bókað að fjárnámi sé,
að kröfu varnaraðilja, lokið án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90.
1989.
Málsástæður og lagarök rekur sóknaraðilji svo, að fjárnámsgerð þessi
samræmist ekki ákvæðum laga nr. 90, 1989 um aðför. Fyrir hafi legið í málinu að þegar hafði verið gert fjárnám vegna
kröfunnar í tiltekinni eign. Því
fjárnámi hafi verið lokið án fyrirvara af hálfu varnaraðilja um að
fjárnámsandlagið væri ekki nægjanlegt til tryggingar kröfunni og ekki hafi
verið krafist mats á verðmæti þess.
Ekki hafi heldur á það reynt við nauðungarsölu hvort andvirði hins
fjárnumda hrykki til greiðslu kröfunnar.
Hvergi sé að finna í lögum nr. 90, 1989 heimild til að gera fleiri en
eitt fjárnám hjá sama gerðarþola í sama máli fyrir sömu kröfu. Því verði ekki á öðru byggt en að hér hafi
verið um endurupptöku fjárnámsgerðarinnar að ræða. Um slíkt gildi ákvæði 9. kafla aðfararlaga og í 66. gr. séu
tæmandi taldar upp heimildir til endurupptöku fjárnámsgerðar skv. kröfu
gerðarbeiðanda. Ljóst sé að ekkert
þessara skilyrða var til staðar. Því
hafi verið óheimilt að taka gerð þessa upp að kröfu varnaraðilja, en augljóst
megi telja að það hafi verið varnaraðilji sem sótti á um þennan málatilbúnað,
því sóknaraðilji hafi ekki hlutast til um hann.
Í endurriti gerðarinnar komi fram stöðluð bókun um að gætt hafi verið
leiðbeiningaskyldu gagnvart fulltrúa sóknaraðilja, sem sé ólöglærður. Ekkert komi fram um í hverju þessar
leiðbeiningar hafi verið fólgnar eða athygli hans vakin á þeim óvenjulegu
vinnubrögðum, sem þarna áttu sér stað.
Af þessu megi ráða að ekki hafi legið fyrir samþykki sóknaraðilja fyrir
endurupptöku í skilningi 1. mgr. 65. gr. aðfararlaga.
Með vísan til þess sem að framan er rakið hefði sýslumaður átt að neita
ex officio um framgang fjárnámsgerðarinnar 20. desember 2006, enda hafi hún
verið ólögleg og því er krafist að hún verði dæmd ógild.
Við þingfestingu málsins hafi lögmaður varnaraðilja lagt fram tölvubréf
frá fulltrúa sýslumanns, er framkvæmdi fjárnámsgerðina 26. október 2006. Þar komi fram að fjárnámið hafi verið gert
án þess að fulltrúi sóknaraðilja væri viðstaddur eða nokkur fyrir hans
hönd. Telji fulltrúinn að vegna þessa
hafi fjárnám þetta verið markleysa.
Þessum skilningi er mótmælt.
Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. aðfararlaga skal aðför ekki gerð nema fulltrúi
gerðarbeiðanda sé viðstaddur. Þrátt
fyrir þetta hafi fulltrúi sýslumanns gert fjárnám og bókað það
athugasemdalaust. Ekki komi fram í
þessari bókun að fulltrúa sóknaraðilja hafi verið gerð grein fyrir því að
óeðlilega eða óvenjulega hefði verið staðið að þessu fjárnámi. Hins vegar sé bókað að honum hafi verið
leiðbeint. Af þessu megi ljóst vera að
framkvæmd fjárnámsgerðar þessarar stóðst ekki lög, þ.e.a.s. skilyrði
aðfararlaga. Sóknaraðilji telur að
þrátt fyrir það sé fjárnámið ekki markleysa eða ógilt frá upphafi heldur sé það
ógildanlegt. Ekki dugi heldur að
sýslumaður áriti endurrit gerðarinnar einhliða og án vitneskju sóknaraðilja
eins og ritað sé á endurritið 28. nóvember 2006 „Málið niðurfellt“. Sóknaraðilji hafi því sýnilega verið í góðri
trú að fjárnám þetta væri í fullu gildi með öllum sínum réttaráhrifum. Til þess að fella fjárnámið frá 26. október
s.l. úr gildi hefði þurft úrskurð dómara.
Slíkur úrskurður liggi ekki fyrir og hans hafi ekki verið krafist, en
frestur til þess skv. 1. mgr. 92. gr. aðfararlaga sé löngu liðinn. Telur sóknaraðilji því ljóst að fjárnám
þetta hafi verið í fullu gildi þegar fjárnámið 20. desember var gert og því sé sú
fjárnámsgerð andstæð lögum og ógildanleg eins og áður er rakið og beri því að
ógilda hana.
Málsástæður og lagarök varnaraðilja eru þær, að fram komi í yfirlýsingu
fullrúa sýslumanns að þá hafi ekki verið mætt af hálfu varnaraðilja við gerð þá
sem bókuð var 26. október 2006 hjá sóknaraðilja. Rétt sé að geta þess að sýslumaður hafi ekki tilkynnt
varnaraðilja um fyrirhugaða fyrirtöku aðfarargerðarinnar, sbr. 20. gr.
aðfararlaga, þannig að af eðlilegum ástæðum hafi ekki verið mætt af hans hálfu
við fyrirtöku gerðarinnar. Sé skýrt á
um það kveðið skv. 1. mgr. 23. gr. aðfararlaga að ekki verði af aðför nema mætt
sé af hálfu gerðarbeiðanda. Þrátt fyrir
að fulltrúi sýslumanns hafi bókað í gerðarbók að aðför hafi farið fram hjá
sóknaraðilja þá hafi sú bókun ekkert gildi.
Bókunin sé markleysa og útilokað sé að líta svo á að fram hafi farið
aðfarargerð hjá sóknaraðilja. Það geti
því ekki komið til álita að það þurfi að ógilda gerð þessa, sem fram fór 26.
október s.l., með dómi.
Varnaraðilji telur að atvik séu í raun og veru mjög einföld, fulltrúi
sýslumanns hafi tekið það upp hjá sjálfum sér, án þess að hafa nokkurt samband
við varnaraðilja, að bóka fjárnám hjá sóknaraðilja. Þetta virðist hann hafa gert vegna þess að fyrirsvarsmenn
sóknaraðilja sinntu ekki boðunum um að mæta í fjárnám. Sé útilokað að líta svo á að þessar athafnir
fulltrúans hafi einhver áhrif að lögum.
Eins sé með öllu óheimilt að taka fyrir aðfararbeiðni nema mætt sé af
hálfu gerðarbeiðanda. Því geti ekki
komið til álita að það þurfi að ógilda þessa gjörð með dómi. Fulltrúi sýslumanns fari ekki með dómsvald
heldur aðeins framkvæmdavald í þessu tilviki.
Hann hafi sjálfur víðtækar heimildir til þess að leiðrétta mistök eins
og þessi og því mjög langsótt að eftir að það hafi verið gert þurfi að ógilda
marklausa aðfarargerð með dómi. Sóknaraðilji
byggi kröfur sínar á því að um endurupptöku hafi verið að ræða, en skilyrði
hennar hafi ekki verið fyrir hendi, sbr. 66. gr. aðfararlaga. Varnaraðilji vísar til þess sem áður er
rakið um gerð þá, sem fram fór 26. október s.l., en af því leiði að ekki sé um
endurupptöku aðfarargerðarinnar að ræða.
Álit dómsins:
Í máli þessu liggur fyrir að við svonefnda aðfarargerð sýslumannsins á
Akureyri 26. október 2006 var ekki mætt af hálfu varnaraðilja, Lífeyrissjóðs
Norðurlands, eins og 1. mgr. 23. gr. aðfararlaga nr. 90, 1989 mælir berlega
fyrir, en þar segir að ekki verði að aðför nema gerðarbeiðandi sé viðstaddur
eða annar maður sem að lögum er heimilt að koma fram fyrir hans hönd. Upplýst er í málinu og óumdeilt að svo var
háttað og fellst dómurinn á þá málsástæðu varnaraðilja að bókun þessi sé
markleysa frá upphafi og standi ekki á nokkurn hátt í vegi fyrir aðfarargerð
þeirri sem gerð var hjá sóknaraðilja þann 20. desember 2006 og er því kröfum
sóknaraðilja hafnað.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Úrskurð þennan kveður upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu sóknaraðilja, Snudda ehf., um að fjárnámsgerð
sýslumannsins á Akureyri 20. desember 2006 í máli nr. 024-2006-00908 að kröfu
varnaraðilja, Lífeyrissjóðs Norðurlands, til tryggingar kröfu að fjárhæð kr.
2.808.942 verði ógilt.
Málskostnaður fellur niður.