Hæstiréttur íslands

Mál nr. 175/2007


Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. desember 2007.

 

Nr. 175/2007.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

Andra Þór Guðmundssyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Fíkniefnalagabrot.

A var sakfelldur fyrir að hafa að beiðni manns sem hann ekki vildi nefna fengið tvo einstaklinga til að flytja 360.51 grammi af kókaíni til landsins. Taldist hann hafa gegnt verulegu hlutverki við innflutninginn og verið virkur milligöngumaður í allri atburðarásinni þótt ekki hefði hann flutt efnið inn sjálfur. Með hliðsjón af þessu sem og magni efnisins og styrkleika var refsing hans ákveðin fangelsi í 15 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst mildunar refsingar og að gæsluvarðhaldsvist hans komi að fullu til frádráttar dæmdri refsingu.

Ákærði var í héraði sakfelldur fyrir þátttöku í innflutningi 360,51 gramms af kókaíni. Var brotið heimfært til 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Málsatvikum er lýst í héraðsdómi og gerð grein fyrir skýrslum ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu. Ákærði einn þriggja dómfelldra áfrýjaði málinu. Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að sannað sé að ákærði hafi gegnt verulegu hlutverki í umræddum innflutningi fíkniefna og verið virkur milligöngumaður í allri atburðarásinni. Ákærði á sér engar málsbætur. Hann hefur ekki áður verið sakfelldur fyrir fíkniefnabrot. Með hliðsjón af framangreindu, magni efnisins og styrkleika þess þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar refsivist koma þeir dagar sem hann sætti gæsluvarðhaldi svo sem nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Áfrýjunarkostnaði málsins, þar með töldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, verður samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skipt þannig að ákærði greiði helming hans en helmingur greiðist úr ríkissjóði allt svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Andri Þór Guðmundsson, sæti fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem hann sætti frá 30. ágúst til 7. september 2006.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, eru ákveðin 224.100 krónur. Þau og annan áfrýjunarkostnað málsins samtals 253.533 krónur skal ákærði greiða að helmingi, en helmingur áfrýjunarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 12. desember 2006 á hendur X, [kt. og heimilisfang], Y, [kt. og heimilisfang], og Andra Þór Guðmundssyni, [kt.], Norðurtúni 21, Egilsstöðum, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2006 nema annað sé tekið fram:

I.

Ákærðu öllum fyrir fíkniefnalagabrot framið í ágóðaskyni í ágúst með því að hafa í félagi staðið að innflutningi á 360,51 g af kókaíni með eftirgreindum hætti:

1. Ákærði Andri Þór:

Að beiðni óþekkts vitorðsmanns haft milligöngu um flutning kókaínsins til Íslands með því að setja sig í samband við meðákærðu X og Y og fengið þau til að flytja efnið hingað til lands frá Amsterdam  í Hollandi, hitt þau á óþekktum stað í Reykjavík, veitt þeim nánari leiðbeiningar um ferðina og afhent þeim peninga til að greiða fyrir efnið, flugmiða og til uppihalds í ferðinni. Farið svo til Amsterdam um miðjan ágúst ásamt meðákærðu X og Y, sett sig í samband við óþekktan milligöngumann í Amsterdam og móttekið kókaínið og haft það í vörslum sínum þar til hann pakkaði því og afhenti það til meðákærðu X og Y mánudaginn 21. ágúst á hóteli í Amsterdam í því skyni að þau flyttu efnið hingað til lands.

2. Ákærðu X og Y:

Að beiðni meðákærða Andra Þórs farið til Amsterdam í því skyni að móttaka og flytja kókaínið til Íslands, sbr. lið I/1. Tekið við efnunum af meðákærða á hóteli í Amsterdam og samkvæmt fyrirmælum hans skipt efninu á milli sín. Ákærða Y faldi efnið innvortis og ákærði X faldi það innanklæða og saman fluttu ákærðu efnið hingað til lands 21. ágúst, en ákærðu voru stöðvuð af tollvörðum við komu til Keflavíkurflugvallar og reyndist ákærði X vera með 198,61 g af efninu og ákærða Y með 161,90 g.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

II.

1Ákærðu X og Y fyrir eftirtalin brot:

1. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 22. ágúst að [...] í félagi haft í vörslum sínum 4 töflur með vímuefninu MDMA, sem lögregla fann við leit.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

2. Vopnalagabrot, með því að hafa í ofangreint skipti haft í vörslum sínum 2 fjaðrahnífa, sem lögregla fann við leit.

Þetta er talið varða við b-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998.

III.

Ákærðu Y fyrir vopnalagabrot, með því að hafa í sama skipti og greinir í II. kafla átt gasvopn, sem lögregla fann við leit.

Þetta er talið varða við 4. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga.

IV.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og jafnframt að 360,51 g af kókaíni og 4 MDMA-töflur sem lagt var hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. 

Verjendur ákærðu krefjast vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

II. og III. kafli ákæru.  

Ákærðu, X og Y, hafa bæði játað sök samkvæmt II. kafla ákæru og ákærða Y samkvæmt III. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar ákærðu, sem samrýmist gögnum málsins, verða ákærðu sakfelld samkvæmt ákæru og er hátt­semi þeirra þar rétt heimfærð til refsiákvæða samkvæmt þessum köflum ákæru.

I. kafli ákæru.

Síðdegis mánudaginn 21. ágúst 2006 voru ákærðu, Y og X, stöðvuð í tollhliði á Leifsstöð og flutt í leitaraðstöðu tollgæslu til skoðunar. Í frumskýrslu kemur fram að fíkniefnahundur hafi verið látinn leita á ákærðu og farangri þeirra og hafi hann „merkti“ á ákærða X. Við líkams­leit á ákærða X fundust þrjár pakkningar og kvað ákærði vera um að ræða fíkniefnið kókaín. Lögreglumenn færðu ákærðu Y til röntgenskoðunar og kom í ljós við rannsóknina að hún var með böggla innvortis sem hún sagði innihalda fíkniefnið kókaín.

Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu var kókaínið sem fannst á ákærða X 198,61 g, en kókaínið sem ákærða Y var með innvortis var 161,9 g. Þá liggur frammi matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents við Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Fram kemur að í sýni af því efni sem fannst á ákærðu Y hafi verið kókaín, fenasetín og vottur af sykuralkóhóli. Hafi efnapróf bent til þess að kókaínið hafi verið á formi kókaínklóríðs að mestu, styrkur kókaínsins hafi verið 38%, sem samsvari 43% af kókaínklóríði. Þrjú sýni voru send til rannsóknar af efninu sem fannst á ákærða X, og kemur fram í matsgerð að kókaínið hafi verið að mestu á formi kókaínklóríðs. Í fyrsta sýninu hafi styrkur kókaíns mælst 35%, sem samsvari 39% af kókaínklóríði. Í öðru sýninu hafi styrkurinn mælst 36% sem samsvari 40% af kókaínklóríði, en í því þriðja hafi styrkur kókaínsins verið 35%, sem samsvari 39% styrk kókaínklóríðs.  

Ákærðu, X og Y, voru handtekin og sættu gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarhagsmuna til 1. september 2006. Ákærði, Andri Þór, var handtekinn 29. ágúst 2006 og var hann næsta dag úrskurðaður í gæsluvarðhald. Var hann látinn laus úr gæsluvarðhaldi 7. september 2006. 

Ákærðu, Y og X, komu fyrir dóminn 10. janúar 2007 og játuðu bæði sök samkvæmt ákæru.

Ákærði Andri mætti við þingfestingu málsins og neitaði sök. Teknar voru skýrslur af ákærða á rannsóknarstigi, bæði hjá lögreglu 29. ágúst og 4., 5. og 20. september 2006 og fyrir dómi 30. ágúst og 7. september 2006. Gerð var krafa um að ákærði sætti gæsluvarðhaldi 30. ágúst 2006 og var þá einnig tekin skýrsla af honum fyrir dóminum. Um atvik bar ákærði 29. ágúst með þeim hætti að hann hafi farið með meðákærðu, Y og X, í ferðina til Amsterdam, fjármagnað og skipulagt hana. Meðákærða X hafi vantað peninga og ákærði boðið honum að hjálpa sér við innflutninginn þannig að hann gæti komið sér út úr vandræðum. Hafi meðákærði X svo fengið meðákærðu Y til að taka þátt í að flytja inn efnin. Þegar út var komið hafi ákærði farið einn síns liðs og hitt mann sem hann hafi kynnst á ferðum sínum. Hafi hann verslað af honum efni, farið með þau til baka á hótelið, pakkað þeim inn og látið meðákærðu fá þau. Hafi hann svo eytt restinni af ferðinni með meðákærðu. Ákærði kvaðst ekkert geta upplýst hver maðurinn væri sem selt hafi honum efnin. Hann kvaðst ekki vita hversu mikið magn hafi verið um að ræða af kókaíni eða hvað það hefði kostað. Ákærði kvaðst hafa safnað peningunum til að kaupa efnið. 

Næst var tekin lögregluskýrsla af ákærða 4. september 2006. Ákærði bar með sama hætti og áður um hvernig hann hafi boðið meðákærða X að flytja fíkniefni til landsins gegn greiðslu. Ákærði kvaðst ekki hafa fjármagnað ferðina á neinn hátt, en tekið einhvern þátt í að skipuleggja hana. Hann kvaðst hafa fengið peninga frá ónafngreindum aðila fyrir flugfari og uppihaldi. Þá hafi hans þáttur í skipulagningunni verið að sjá um að gjaldeyri væri skipt og að þau keyptu sér öll flugmiða. Þá hafi hann einnig gefið fyrirmæli um hvert meðákærðu ættu að fara þegar þau kæmu til Amsterdam, látið þau hafa pening fyrir mat og fært þeim fíkniefni. Kvað ákærði sitt hlutverk hafa verið að ,,passa” meðákærðu. Þá bar ákærði að hann hafi ekki fengið aðstoð við skipulagningu ferðarinnar. Ákærði bar að meðákærðu hafi átt að fá greiddar 200.000 krónur og 10 grömm af kókaíni, hvort fyrir sig, fyrir að fara í ferðina. Ákærði kvaðst hafa látið meðákærða X hafa um það bil eina milljón krónur og sjálfur hafa séð um að 2,5 milljónum yrði skipt í evrur. Nokkru fyrir flugtak á Íslandi hafi þau hist og skipt evrunum á milli sín þannig að þau fóru öll með svipaða fjárhæð út. Á flugvellinum í Amsterdam hafi leiðir skilið, en ákærði farið á Damtorg. Þar hafi hann beðið eftir meðákærðu. Aðili, sem ákærði vildi ekki nafngreina, hafi svo komið og farið með ákærða að hitta meðákærðu. Þegar þau hafi verið búin að ganga frá gistingu á tilteknu hóteli hafi þau farið á Damtorg þar sem þau hafi hitt ónafn­greinda manninn aftur. Þau hafi síðan farið á hótel við torgið þar sem bókað hafi verið herbergi fyrir meðákærðu fyrstu nóttina. Síðan hafi þau farið upp á herbergi þar sem meðákærðu hafi afhent ákærða þær evrur er meðákærðu hafi flutt til Amsterdam. Eftir að þau hafi afhent féð hafi ákærði farið ásamt ónafngreinda manninum á annað hótel þar sem ákærði hafi látið manninn hafa peningana. Hafi ákærði gist á því hóteli fyrstu nóttina, en hinar næturnar á herbergi meðákærðu. Ákærði kvaðst hafa farið með ónafngreinda manninum þangað sem efnin voru keypt annan dag ferðarinnar og þeir fengið að sjá sýnishorn af efninu. Ákærði kvaðst ekki hafa verið viðstaddur þegar greitt hafi verið fyrir efnin og þau afhent. Síðasta daginn hafi hann farið einn og sótt fíkniefnin. Tiltekinn maður, annar en sá ónafngreindi, hafi látið ákærða vita hvert hann ætti að fara. Ákærði hafi sótt efnin, sem búið hafi verið að pakka í blöðrur, í  hús og farið þaðan með blöðrurnar á hótelið til meðákærðu.

Í lögregluskýrslu 5. september 2006 bar ákærði meðal annars að ákærðu hafi ekki þurft að leggja til neina peninga vegna ferðarinnar heldur hafi allt verið greitt, s.s flug, gisting, uppihald, ,,eyðslupeningar” og kaupin á fíkniefnunum.

Ákærði bar við aðalmeðferð málsins fyrir dómi að það væri rangt sem kæmi fram í ákæru að hann hefði sett sig í samband við meðákærðu og fengið þau til að flytja kókaín til landsins. Ákærði kvað hinn óþekkta vitsorðsmann, sem getið væri um í ákæru, hafa sett sig í samband við meðákærðu, farið í heimsókn til þeirra og fengið þau til að flytja inn fíkniefnin. Ákærði kvaðst ekki hafa komið á sambandi milli meðákærðu og ónafngreinda mannsins. Kvaðst hann sjálfur hafa komið þannig inn í málið að aðilinn hafi spurt hvort hann vildi fara í ferðalagið til að skemmta sér með meðákærðu. Kvaðst hann því hafa verið nokkurs konar ,,hjálparhella”. Hann kvaðst allan tímann hafa vitað í hvaða tilgangi ferðin væri farin. Ákærði kvaðst hafa fengið pening fyrir flugmiðanum og keypt miðann sinn sjálfur. Hann kvað meðákærðu hafa greitt fyrir sína flugmiða. Ákærði kvað það ekki vera rétt að hann hafi látið meðákærðu hafa peninga. Ákærði kvað ónafngreinda manninn hafa látið þau hafa íslenskar krónur daginn fyrir ferðina, eða nokkrum dögum fyrir hana, sem þau átt að skipta í evrur. Ákærði kvaðst hafa hjálpað við að skipta peningunum áður en þau fóru til Hollands. Meðákærðu hafi fengið peninga sitt í hvoru lagi sem þau hafi skipt jafnt á milli sín. Ákærði kvað það geta verið að hann hafi látið meðákærðu hafa pening til að borga fyrir flugfarið. Ef til vill hafi það verið hluti af peningunum sem skipta hafi átt í gjaldeyri. Ákærði kvaðst ekki hafa veitt meðákærðu leiðbeiningar varðandi ferðina, hvorki áður en þau lögðu af stað né eftir að út var komið. Hann kvaðst telja að ónafngreindi aðilinn hafi gefið þeim fyrirmæli um hvað þau ættu að gera. Skipulagt hafi verið að hittast á tilteknum stað í Amsterdam. Meðákærðu hafi fundið ónafn­greinda manninn og svo hitt ákærða. Hafi þau látið manninn fá peningana. Eftir að þau hafi látið hann hafa peningana hafi hann látið meðákærðu hafa vasapeninga, en ákærði kvaðst sjálfur hafa farið með ónafngreinda manninum og verið með honum fyrsta kvöldið. Eftir það hafi hann skemmt sér með meðákærðu. Ákærði kvað ónafngreinda manninn hafa látið þau hafa fíkniefni til að nota í Amsterdam. Þau hafi vaknað of seint daginn sem þau flugu til Íslands. Þau hafi farið af hótelinu og skilið eftir ógreiddan hótelreikning, en ónafngreindi maðurinn hafi átt að greiða hótelreikninginn. Þau hafi tekið leigubíl á stað þar sem efnin biðu eftir þeim. Þau hafi öll farið þar inn og meðákærðu gengið frá efnunum. Ákærði kvaðst hafa verið viðstaddur en ekki hafa tekið nein efni sjálfur. Hann kvaðst aldrei hafa haft efnin í sínum vörslum. Þau hafi svo tekið leigubíl á flugvöllinn.

Ákærði var við aðalmeðferð málsins inntur eftir ástæðu þess að framburður hans væri breyttur. Kvaðst hann hafa borið með þeim hætti sem hann gerði í lögreglu­skýrslum í því skyni að hlífa hinum ónafngreinda manni.

Teknar voru skýrslur af ákærðu Y hjá lögreglu á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi 1. september 2006. Í fyrstu yfirheyrslunum, 22. og 24. ágúst 2006, bar ákærða að hún og meðákærði, X, hafi hitt menn í Amsterdam sem hafi beðið þau um að flytja kókaín til Íslands. Í skýrslu sem tekin var af ákærðu 28. ágúst 2006 breytti hún framburði sínum. Bar hún að hún og meðákærði, X, hafi fengið peninga á Íslandi til að kaupa farmiða til Amsterdam. Ákærðu hafi farið á söluskrifstofu Flugleiða til að bóka flug. Ekki kvaðst hún hafa vitað um tilgang ferðarinnar til að byrja með. Unnusti hennar, meðákærði X, hafi látið hana fá evrur sem hún hafi flutt innvortis til Amsterdam, en hún hafi ekki vitað um hversu háa fjárhæð hafi verið að ræða. Kvaðst hún telja að peningarnir hafi komið frá meðákærða Andra. Þegar til Amsterdam kom hafi hún og meðákærði, X, orðið viðskila við meðákærða, Andra, á flugvellinum, en meðákærði, Andri, hafi verið búinn að segja þeim að fara á Damtorg, þar sem þau hafi átt að hitta aðila sem tæki við peningunum. Á torginu hafi komið til þeirra Íslendingur. Hafi sá farið og fundið meðákærða, Andra, og þeir svo komið aftur til ákærðu. Hafi hún og meðákærðu farið á hótel sem þau hafi ætlað að gista á en það verið fullbókað fyrstu nóttina. Þau hafi hitt ,,manninn“ aftur og farið ásamt honum á hótel skammt frá torginu. Þar hafi þau gist fyrstu nóttina. Þegar þau voru komin inn á hótelherbergið hafi hún náð í peningana og afhent meðákærða ,Andra, og hinum íslenska samferðamanni hans þá. Þeir hafi við svo búið farið. Meðákærði, Andri, hafi sagt þeim frá því hóteli sem þau hafi gist á næstu nætur og sagt þeim hvað þau ættu að gera í Amsterdam. Meðákærði, Andri, hafi farið að tala um það hvort þau væru tilbúin að flytja fíkniefni til Íslands. Talað hafi verið um að það stæði til að flytja inn kókaín. Þau hafi samþykkt þetta þar sem þau hafi vantað peninga fyrir skuldum og vegna þess að þau hafi verið í annarlegu ástandi sökum fíkni­efnaneyslu. Meðákærði, Andri, hafi sagt þeim að gengið yrði frá kókaíninu í blöðrur sem þau ættu að setja inn í sig. Hafi hann sagt að þau myndu fá 200.000 krónur fyrir innflutninginn og tíu grömm af kókaíni hvort um sig. Ákærða kvað greiðsluna þó ekki hafa verið fastákveðna. Meðákærði, Andri, hafi farið á fundi með einhverjum mönnum vegna innflutningsins. Kvaðst ákærða telja að komið hafi verið með blöðrur sem innihéldu kókaínið inn í íbúðina sem þau bjuggu í áður en að brott­farardegi kom. Hafi meðákærði, Andri, gist síðustu nóttina hjá þeim á hótelinu. Hann hafi farið í skúffu í herberginu, náð í blöðrur og látið hana fá þær. Hún hafi aðeins komið fyrir tveimur en ekki tekist að koma þeirri þriðju fyrir. Meðákærði X hafi tekið þrjár blöðrur.

Tekin var næst skýrsla af ákærðu hjá lögreglu 1. september 2006. Kvaðst hún engu vilja breyta fyrri framburði. Þá var tekin skýrsla af ákærðu fyrir dómi sama dag. Kvaðst hún ekki geta sagt frá skipulagningunni á Íslandi þar sem hún hafi ekki tekið þátt í henni. Hún kvað sig og meðákærða, X, hafa fengið peninga afhenta en kvaðst ekki vita hvaðan þeir hafi komið. Hún kvað meðákærðu hafa tekið við 100.000 krónum. Hún kvað þau hafa farið að ræða innflutning á fíkniefnum á einhverju ,,djamminu” og kvað sig minna að meðákærði, Andri, hafi beðið þau um að flytja efnin inn. Hún hafi átt að fá fyrir verkið 200.000 krónur og kókaín. Þá hafi átt að borga fyrir þau hótelið og ,,eyðslupening”. Þetta hafi hins vegar ekki verið greitt. Hún kvaðst ekki vita hver hafi átt að sjá um að borga þeim fyrir innflutninginn, en meðákærði, Andri, hafi talað um greiðsluna. Þegar hún hafi komið efnunum fyrir ytra hafi hún verið inni á baðherbergi á hótelherberginu en í herberginu hafi verið staddir meðákærðu, X og Andri, og einn maður sem komið hafi með blöðrurnar. Sá maður sem komið hafi með blöðrurnar hafi verið af erlendum uppruna. 

Tekin var loks skýrsla af ákærðu hjá lögreglu 7. september 2006. Kvað hún það ekki vera rétt sem haft hafi verið eftir meðákærða, Andra, í skýrslu að meðákærði, X, hafi fengið hana til innflutningsins. Hún kvaðst ekki hafa verið viðstödd þegar peningar voru afhentir fyrir ferðina og ekki vita hvort meðákærði, X, hafi fengið eina milljón sem hann hafi átt að skipta í evrur, eða vita til þess að meðákærði, Andri, hafi skipt íslenskum krónum í evrur áður en þau flugu út. Hún kvaðst sjálf hafa keypt fíkniefni fyrir sig til að nota í ferðinni.      

Y mætti fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Kvað hún skýrslur þær sem teknar hafi verið af henni hjá lögreglu og fyrir dómi vera réttar varðandi þátt meðákærða Andra. Staðfesti hún undirritun sína undir skýrslurnar. Kvaðst hún að öðru leyti vilja nota rétt sinn og neita að tjá sig frekar um málið. 

Teknar voru skýrslur af ákærða, X, á rannsóknarstigi málsins, sem og fyrir dómi á rannsóknarstigi 1. september 2006. Ákærði bar í fyrstu skýrslu að hann hafi sjálfur keypt þau efni er hann hafi flutt til landsins fyrir peninga sem hann hafi átt. Í skýrslu hjá lögreglu 25. ágúst 2006 breytti hann framburði sínum. Kvað hann einhvern aðila á Íslandi hafa beðið ákærðu um að fara til útlanda og taka fimm blöðrur með fíkniefnum og flytja þær til Íslands. Rétt áður en þau hafi bókað ferðina hafi meðákærði, Andri, komið með tæpar 100.000 krónur til þeirra sem þau hafi átt að nota til að borga fyrir flugfarið út. Meðákærði, Andri, hafi svo bent þeim á hótel til að gista á sem þau hafi síðan bókað gistingu á. Áður en þau fóru út hafi meðákærði, Andri, afhent þeim evrur innpakkaðar í rúllu. Meðákærði, Andri, hafi gefið þeim fyrirmæli um að vera á ákveðnum stað í Amsterdam, á svokölluðu Damtorgi. Þar hafi þau átt að vera við tiltekin skilti. Þangað hafi átt að koma aðili sem tæki við peningunum. Sá aðili hafi komið til þeirra. Kvaðst ákærði hafa látið manninn hafa peningana sem meðákærði, Andri, hafi látið hann hafa. Þau hafi hitt meðákærða, Andra, er þau hafi ætlað að tékka sig inn á hótelið og svo aftur daginn eftir. Hafi þeim verið sagt að þau ættu að fá fíkniefnin afhent á hótelherberginu daginn sem þau færu heim. Erlendur maður hafi komið á hótelherbergið á þeim tíma og látið þau hafa fimm blöðrur. Hafi þau svo verið á hótelherberginu að reyna að ganga frá fíkniefnunum til að fara heim. Meðákærða, Y, hafi reynt að koma fyrir þrem blöðrum en einungis tekist að koma fyrir tveimur. Hafi ákærði því tekið þrjár. Þau hafi átt að fá 200.000 til 300.000 krónur hvort fyrir flutninginn. Þau hafi einnig átt að fá borgað hótelið, sem og ,,eyðslupening”, allt eftir að þau kæmu heim. Ákærði kvaðst hafa verið í samskiptum við meðákærða, Andra, í tengslum við innflutninginn, en hann hafi boðið þeim að gera þetta og látið þau hafa peninginn.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu 1. september 206 kvaðst ákærði hafa skýrt ranglega frá því hvernig afhendingin hafi farið fram í Amsterdam. Kvað hann ákærðu hafa farið á Damtorg og þar komið til þeirra maður sem hann hafi þekkt þar sem þau hafi setið á bar. Hafi maðurinn farið og leitað að meðákærða, Andra. Ákærðu hafi svo farið á hótelið þar sem þau hafi ætlað að gista en verið fullt þá tilteknu nótt. Þau hafi farið öll fjögur á annað hótel þar sem þau hafi gist fyrstu nóttina. Þegar komið var á hótel­herbergið hafi meðákærða, Y, látið ákærða hafa peninginn og ákærði rétt manninum þá. Maðurinn og meðákærði, Andri, hafi svo farið.

Tekin skýrsla af ákærða fyrir dómi sama dag. Kvað hann meðákærða, Andra, hafa beðið þau um að flytja efnin frá Amsterdam. Meðákærða, Y, hafi vitað af þessu allan tímann. Meðákærði, Andri, hafi látið ákærða fá peninga og ákærði keypt flugfar út. Meðákærði, Andri, hafi beðið þau að taka peninga með út. Hafi hann afhent þeim tvö búnt af evrum. Þau hafi afhent þá peninga á hótelherberginu úti. Meðákærði, Andri, hafi verið með þeim næstum því allan tímann. Hann kvað meðákærða, Andra, haf látið þau hafa blöðrurnar, rétt áður en þau hafi farið út á flugvöll, um kl. 11 um morguninn. Meðákærði, Andri, hafi svo átt að greiða þeim 200.000 krónur hvoru um sig, auk þess að láta þau fá eitthvað af kókaíni til eigin neyslu. Ákærði kvað þau ekki hafa verið búin að fá greitt fyrir ferðina er þau hafi verið handtekin.    

Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins bar ákærði að skýrslur sem teknar hafi verið hjá lögreglu og fyrir dómi væru réttar. Kvaðst hann notfæra sér rétt sinn að öðru leyti og neita að tjá sig frekar um málið.

Lögreglumennirnir Húnbogi Jóhannsson og Hörður Lilliendahl staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins og gerðu grein fyrir framvindu hennar. 

Niðurstaða.

Ákærðu, X og Y, játa bæði sök. Með vísan til þeirrar játningar þeirra, sem samrýmist gögnum málsins, verða þau sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði, Andri Þór, neitar sök. Hefur hann viðurkennt að hafa farið til Amster­dam í Hollandi í ágúst 2006 og komið til baka úr þeirri för 21. ágúst 2006. Hafi honum verið ljóst að meðákærðu væru með fíkniefni í fórum sínum á leið til landsins og hafi hann haft þá vitneskju áður en farið hafi verið út. Kvaðst hann hafa verið nokkurs konar ,,hjálparhella” meðákærðu í ferðinni. Hann hafi sjálfur engin efni borið til landsins.

Ákærðu, X og Y, lýstu fyrir lögreglu þætti meðákærða í málinu. Í upphafi báru þau að þau hafi staðið að innflutningnum ein og að þau hafi keypt efni fyrir eigin pening. Eftir að þau höfðu setið um hríð í gæsluvarðhaldi breyttu þau bæði framburði sínum og greindu þá frá þætti meðákærða, Andra. Báru þau þá að meðákærði hafi komið að máli við þau á Íslandi og boðið þeim að flytja efni til landsins gegn þóknun. Þau hafi fallist á það. Meðákærði hafi síðan haft milligöngu um að útvega fé til fararinnar, sem ákærðu hafi tekið við og flutt út. Meðákærði hafi verið með þeim í för úti og haft ákveðna milligöngu um að þau kæmust í samband við aðila úti sem tekið hafi við peningunum og útvegað hafi þeim efnin. Hann hafi síðan ferðast með þeim heim. Þennan framburð hafa ákærðu staðfest fyrir dómi að sé réttur. Ákærði, Andri Þór, bar í upphafi lögregluyfirheyrslnanna 29. ágúst 2006 að hann hafi ekki komið að innflutningi meðákærðu á fíkniefnum. Í lögregluyfirheyrslu 4. septem­ber 2006 viðurkenndi ákærði þátt sinn í málinu og kvaðst þá hafa komið á sambandi tiltekins ónafngreinds aðila og meðákærðu þar sem meðákærðu hafi staðið til boða að flytja fíkniefni til landsins frá útlöndum. Hafi ákærði, fyrir milligöngu ónafngreinds aðila, látið ákærðu í té peninga til að kaupa fíkniefni. Lýsti ákærði því í framhaldi hvernig hann hafi aðstoðað meðákærðu við fíkniefnin. Ákærði staðfesti þessi atriði í síðari skýrslum sínum hjá lögreglu, sem og í skýrslu er hann gaf fyrir dómi undir rannsókn málsins.

Að mati dómsins eru skýringar ákærða, Andra, á breyttum framburði sínum í málinu ekki trúverðugur. Ákærði gaf endurtekið skýra grein fyrir atvikum málsins hjá lögreglu og fyrir dómi á rannsóknarstigi, sem er í samræmi við þann framburð er með­ákærðu gáfu á síðari stigum í rannsókn málsins. Verður framburður hans hjá lögreglu frá og með yfirheyrslu 4. september 2006, sem og skýrsla hans fyrir dómi 7. september 2006 lagður til grundvallar niðurstöðu. Með vísan til þess telur dómurinn sannað að ákærði hafi, að beiðni óþekkts milligöngumanns, haft milligöngu um að meðákærðu fluttu til landsins 360,51 g af kókaíni frá Amsterdam í Hollandi, en ákærðu voru tekin við heimkomu úr ferðinni 21. ágúst 2006. Hafi ákærði leiðbeint þeim um ferðina og afhent þeim peninga til að greiða með fíkniefnin og flugmiða. Jafnframt að ákærði hafi farið héðan af landi brott með meðákærðu til að aðstoða þau í ferðinni. Þá telur dómurinn einnig sannað að ákærði hafi verið með þeim í för við heimkomu og þannig átt að sjá til þess að ferðin myndi heppnast. Þessi verknaðar­lýsing, sem fram kemur í ákæru, er nægjanleg til að ákærða verði dæmt áfall fyrir brot gegn tilvitnuðum ákvæðum ákæru. Skiptir þá ekki máli gagnvart refsinæmi verknaðarins og refsilögsögu, hvaða liðsinni ákærði veitti til verksins úti, en ekki liggja frammi í málinu ákvæði laga í Hollandi er ákærði kynni að hafa gerst brotlegur við, sbr. 2. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1940. 

Ákærði, X, er fæddur í [...] 1985. Samkvæmt sakavottorði hefur hann í tvígang gengist undir sekt vegna brota á umferðarlögum og í eitt sinn verið dæmdur fyrir samskonar brot. Brot ákærða eru talsverð og er honum refsað sem burðardýr í fíkniefnainnflutningi. Hann hefur játað sök sína greiðlega. Miðað við dóma í sambærilegum málum er refsing hans, að teknu tilliti til 77. gr. laga nr. 19/1940,  ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem ekki er fært að skilorðsbinda að neinu leyti. Frá dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða undir rannsókn málsins.

Ákærða, Y, er fædd í [...] 1988. Hún hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Ákærða hefur einnig játað sök sína greiðlega. Þá var hún ung að árum er hún framdi brot sín. Þá liggur fyrir að ákærða er barnshafandi og ætti henni að fæðast frumburðurinn nú í sumar. Með hliðsjón af þessu og 77. gr. laga nr. 19/1940 verður refsing hennar ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem skilorðsbundið verður með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um. Komi til afplánunar á refsingu dregst frá gæsluvarðhaldsvist ákærðu undir rannsókn málsins.

Ákærði, Andri Þór, er fæddur í september 1983. Ákvörðun refsingar var frestað skilorðsbundið yfir ákærða á árinu 2002 fyrir þjófnað. Frá þeim tíma til dagsins í dag hefur hann alls 8 sinnum sætt refsingum vegna brota á umferðarlögum. Var hann 20. september 2006 dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir hraðakstur og réttinda­leysisakstur. Þá var hann 26. sama mánaðar dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir samkynja brot. Um var að ræða hegningarauka. Brot ákærða í þessu máli eru framin fyrir uppsögu framangreindra dóma og því hegningarauki. Ber því að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að vera milligöngumaður í fíkniefnainnflutningi. Ábyrgð slíkra einstaklinga er mikil, en þeirra er að tryggja að ekki komist upp um þá sem í raun og veru standa að baki og fjár­magna fíkniefnaviðskipti. Á ákærði sér vart málsbætur. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði, sem að engu leyti verður skilorðsbundið. Frá dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða undir rannsókn málsins.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru skulu upptæk gerð til ríkissjóðs 360,51 g af kókaíni og 4 MDMA töflur sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Um sakarkostnað fer sem hér segir. Frammi liggur sakarkostnaðaryfirlit að fjárhæð 365.358 krónur. Fjárhæð yfirlitsins skiptist að jöfnu milli ákærðu. Þá liggur fyrir að Ingimar Ingimarsson héraðsdómslögmaður var skipaður verjandi ákærða, X, við lögreglurannsókn málsins. Var honum ákvörðuð þóknun fyrir störf á rannsóknarstigi að fjárhæð 249.349 krónur. Þá fjárhæð greiði ákærði, X, einn. Þá liggur fyrir að Guðrún Sesselja Arnardóttir héraðsdómslögmaður var skipaður verjandi ákærðu, Y, við lögreglurannsókn málsins. Var lögmanninum ákvörðuð þóknun fyrir störf á rannsóknarstigi að fjárhæð 298.551 króna. Þá fjárhæð greiði ákærða Y ein. Þar fyrir utan greiði ákærðu málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda María Stefánsdóttir fulltrúi lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 21. ágúst 2006 til 1. september 2006.

Ákærða, Y, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar á refsingu dregst frá refsingu gæsluvarðhaldsvist ákærðu frá 21. ágúst 2006 til 1. september 2006.

Ákærði, Andri Þór Guðmundsson, sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 30. ágúst 2006 til 7. september 2006.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 360,51 g af kókaíni og 4 MDMA töflur sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærði, X, greiði 723.968 krónur í sakarkostnað, þar með talin máls­varnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttar­lögmanns, 352.833 krónur.

Ákærða, Y, greiði 773.170 krónur í sakarkostnað, þar með talin máls­varnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 352.833 krónur.

Ákærði, Andri Þór, greiði 769.186 krónur í sakarkostnað, þar með talin máls­varnar­laun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 647.400 krónur.