Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-198

BIT Fondel B.V. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
þrotabúi Sameinaðs Sílikons hf. (Geir Gestsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Umboð
  • Samningur
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 12. júlí 2021 leitar BIT Fondel B.V. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 28. júní sama ár í málinu nr. 319/2021: BIT Fondel B.V. gegn þrotabúi Sameinaðs Sílikons hf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr hendi gagnaðila vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna vanefnda á samningi 31. janúar 2014 milli leyfisbeiðanda og Stakksbrautar 9 ehf. um sölu á kísilmálmi. Síðastnefnda félagið mun hafa sameinast Sameinuðu sílikoni hf. með samruna sem tilkynntur var til fyrirtækjaskrár 24. september 2014. Leyfisbeiðandi krefst þess jafnframt að viðurkenndur verði réttur hans til að fá samþykktan af skiptastjóra gagnaðila hæfilegan hluta af lýstri kröfu sinni upp í væntanlegar skaðabætur.

4. Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfum leyfisbeiðanda. Ekki var fallist á að komist hefði á skuldbindandi samningur 31. janúar 2014 með undirritun þáverandi framkvæmdastjóra Sameinaðs sílikons hf., fyrir hönd Stakksbrautar 9 ehf., enda hefði hann ekki haft til þess gilt umboð. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist sönnun þess að Sameinað sílikon hf. hefði undirgengist þær skuldbindingar sem kveðið væri á um í nefndum samningi og yrði að bera hallann af því samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að hinn kærði úrskurður sé í öllum meginatriðum bersýnilega rangur að efni til og að kæruefnið hafi fordæmisgildi á sviði samningaréttar, félagaréttar og réttarfars. Í fyrsta lagi hafi niðurstaða í málinu fordæmisgildi um hvaða þýðingu háttsemi aðila fyrir stofnun samninga hafi um skuldbindingargildi þeirra og efni. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar fara gegn fyrirliggjandi dómafordæmum og fræðikenningum enda sé það meginregla samningaréttar að löggerningar séu ekki formbundnir. Í öðru lagi um gildi og umfang umboða stjórnarmanna félaga til þriðja aðila og í þriðja lagi hafi kæruefnið fordæmisgildi á sviði réttarfars einkum hvað varðar sönnunargildi óstaðfestra endurrita. Loks varði það almannahagsmuni að fyrirbyggja þá réttaróvissu sem niðurstaða Landsréttar hafi í för með sér.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.