Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2014


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Neyðarvörn
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 30. október 2014.

Nr. 224/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)

Líkamsárás. Neyðarvörn. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa, þá er hann gegndi starfi dyravarðar á veitingastað, snúið A niður og haldið honum föstum með þeim afleiðingum að liðbönd í axlarlið A rifnuðu og hann hruflaðist á kinnbeini og augabrún. X hélt því fram að verknaðurinn hefði verið refsilaus á grundvelli neyðarvarnar samkvæmt 12. gr. almennra hegningarlaga. Í dómi héraðsdóms var lagt til grundvallar að A hefði verið að skipta sér að störfum X og komið ógnandi að X greint sinn. Hinum síðarnefnda hefði því verið heimil valdbeiting eins og á stóð. Í dómi Hæstaréttar var á hinn bóginn tekið fram að X hefði við meðferð málsins í héraði gefið skýrslu í gegnum síma, en slík skýrslugjöf ákærða færi í bága við ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Leiddi þessi háttur á skýrslugjöf til þess að draga mætti í efa að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða hafi verið rétt svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Með vísan til þessa og framburðar vitna fyrir dómi var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2014. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.  

Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að refsing verði látin niður falla eða hann dæmdur til vægustu refsingar.

I

Atvik máls þessa eru þau að A lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás fyrir utan veitingahúsið B í [...] 18. nóvember 2012, en ákærði var þar dyravörður.

Ákærði kom fyrir dóm 16. maí 2013 og játaði verknaðarlýsingu í ákæru, en hafnaði því að afleiðingar árásarinnar hefðu verið þær sem þar greinir. Þá bar hann fyrir sig neyðarvörn.

Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á að atlaga ákærða væri refsilaus á grundvelli 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um neyðarvörn. Til stuðnings þeirri niðurstöðu var rakið að ákærði og vitnið C, sem hafði verið við dyravörslu með ákærða umrætt kvöld, hafi verið sammála um að brotaþoli hefði ,,komið ógnandi að þeim“ og að í sama streng hafi tekið vitnið D. Þá hafi vitnið E lýst því fyrir lögreglu að hún hefði séð brotaþola reyna að slá til ákærða. 

Ákærði kom ekki fyrir dóm til að gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins 12. desember 2013, heldur gaf hann skýrslu í gegnum síma. Hann kvað brotaþola hafa staðið fyrir aftan sig og reist krepptan hnefa í átt til sín. Framburður C fyrir dómi, sem einnig var gefinn símleiðis var óljós og kvað hann eitthvað hafa gerst á milli ákærða og brotaþola og síðan hafi hann séð brotaþola liggja í jörðinni. Hann hafi heyrt brotaþola vera með hótanir og séð hann ,,eitthvað vera að sveifla höndunum“. Er þessi frásögn hans í ósamræmi við skýrslu er hann gaf símleiðis fyrir lögreglu 23. nóvember 2012, þar sem hann sagðist ekki hafa séð hvað gerst hefði milli ákærða og brotaþola.

Vitnið D gaf símaskýrslu fyrir dómi. Hann kvað brotaþola hafa verið ,,aðeins ógnandi en ekki eitthvað mikilvægt“ í garð ákærða og vitnisins C. Brotaþoli hafi ekki verið nægilega nálægt ákærða til að slá hann og hann hafi ekki verið með hnefann ,,hérna upp á lofti fyrir ofan höfuð“.

Í lögregluskýrslu 20. nóvember 2012 kvað vitnið E brotaþola hafa reynt að slá til ákærða eftir að ákærði réðist að honum. Gætir því ónákvæmni í endursögn hins áfrýjaða dóms um frásögn hennar hjá lögreglu varðandi það hvenær í atburðarásinni brotaþoli á að hafa veist að ákærða. Þá bar hún fyrir dómi að brotaþoli hafi ekki verið ógnandi gagnvart ákærða.

Þá gáfu tvö vitni skýrslu fyrir dóminum um að brotaþoli hefði ekki verið með ógnandi  tilburði í garð ákærða og er það í samræmi við framburð brotaþola.

II

Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er mælt fyrir um hina almennu skyldu manns til að koma fyrir dóm sem vitni og svara spurningum sem til hans er beint um málsatvik. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um heimild  til að vitni gefi skýrslu í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, ef það er statt fjarri þingstað eða ef það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm. Þessari heimild verður þó ekki beitt ef ætla má að úrslit máls geti ráðist af framburði vitnisins, enda er hér um að ræða frávik frá meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu, sem ber að skýra þröngt. Í 1. mgr. 113. gr. laganna er mælt svo fyrir um að ákærða sé jafnan rétt og skylt að koma fyrir dóm til skýrslugjafar eftir að mál hefur verið höfðað gegn honum. Þá segir í 3. mgr. sömu lagagreinar að mæti ákærði ekki til skýrslutöku án þess að um lögmæt forföll sé að ræða geti ákærandi lagt fyrir lögreglu að sækja hann eða færa hann síðar fyrir dóm. Heimild til handa ákærða að gefa skýrslu í gegnum síma er ekki að finna í lögum nr. 88/2008, eins og heimilt er um vitni svo sem áður hefur verið rakið. Skýrslugjöf ákærða í gegnum síma braut því í bága við ákvæði XVII. kafla laganna um að ákærði skuli gefa skýrslu milliliðalaust fyrir dómi. Leiðir þessi háttur á skýrslugjöf til þess að draga má í efa að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða hafi verið rétt, svo að einhverju kunni að skipta um úrslit málsins. Það sem að framan er rakið um framburð vitna fyrir dómi rennir að auki stoðum undir þá niðurstöðu. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.

Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins í héraði frá og með þinghaldi 12. desember 2013 og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2014.

                Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans í [...] dagsettri 17. apríl 2013 á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...],[...].

fyrir líkamsárás

með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 18. nóvember 2012 á [...], gegnt skemmtistaðnum B í [...], tekið A, kt. [...], snúið hann niður í götuna og haldið honum föstum nokkra stund, með hendi fyrir bak (svo), með þeim afleiðingum að liðbönd í hægri axlarlið rifnuðu og hann hruflaðist á kinnbeini og augabrún hægra megin.   

Telst ofangrein brot varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 1940 sbr. 10. gr. laga nr. 20 frá 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Málavextir.

                 Aðfaranótt sunnudagsins 18. nóvember 2012 kom A brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöðina í [...] í þeim tilgangi að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás fyrir utan veitingastaðinn B þá um nóttina. Hann kvaðst hafa fundið að því við ákærða og félaga hans að þeir hafi verið komnir út fyrir vinnustað sinn, en þeir hafi verið að vinna sem dyraverðir á veitingastaðnum og hafi þeir verið með mann í tökum á [...]. Kvað brotaþoli ákærða hafa orðið ósáttan við afskipti hans og ráðist á hann með því að skella honum í götuna þannig að hann  hafi fengið áverka í andlit. Ákærði hafi síðan tekið hægri hönd hans og sett hana fyrir aftan bak með þeim afleiðingum að liðbönd í öxl hafi slitnað. Hafi ákærði ekki sleppt brotaþola fyrr en E og F hafi beðið hann um það.

                Brotaþoli leitaði samdægurs til læknis og í vottorði G læknis dagsettu 22. nóvember sama ár segir að hann hafi verið með hrufl á hægri augabrún, hrufl og mar á kinnbeini hægra megin. Hann hafi verið með verki í hægri öxl og verið bólginn á AC lið sem hafi staðið upp úr. Hann hafi einnig verið með verk í hægra herðablaði og abduction bara verið 90° á hægri axlarlið. Yst á hægri augabrún hafi verið smá skurður og á röntgenmynd hafi sést mikil gliðnun og merki um rifin liðbönd í þessum lið.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði komst ekki til þinghaldsins sem háð var í [...] vegna misskilnings um ferðir þangað, en hann gaf símaskýrslu fyrir dómi. Hann skýrði svo frá að dyraverðir hafi þurft að hafa afskipti af manni fyrir utan skemmtistaðinn B, úti á miðri götu, en hann hafi gegnt störfum dyravarðar. Hann kvaðst hafa tekið eftir því að brotaþoli stóð fyrir aftan hann og var að reisa upp krepptan hnefa í áttina að ákærða og gerði sig líklegan til að slá ákærða. Hann kvað brotaþola ekki hafa haldið á neinu í hendinni. Hann kvað brotaþola hafa sagt að hann skyldi drepa þá ef þeir slepptu ekki manninum. Hann kvað sér hafa brugðið við þetta, fundist sér ógnað og á sekúndubroti hafi hann tekið þá ákvörðun að yfirbuga hann og snúa hann niður í jörðina. Hann kvaðst hafa beitt þeirri aðferð að beygja sig niður og undir hendi brotaþola og setja báðar hendur yfir aðra öxl hans og þvinga hann niður.  Hafi hann lent á bringunni og hafi hann haldið honum þar í tökum með báðar hendur fyrir aftan bak. Brotaþoli hafi á meðan barist um en ákærði kvaðst hafa hvatt hann til þess að vera rólegur en hann  hafi haldið áfram að berjast um. Hann hafi róast en þá hafi F komið og spurt hvort brotaþoli mætti ekki fara með honum. Kvaðst hann hafa tekið þá ákvörðun að leyfa brotaþola að fara með F, enda hefði hann treyst honum. Ákærði kvaðst hafa stundað dyravörslu í 15 ár og hafa lært ýmiss konar aðferðir til þess að yfirbuga einstaklinga, m.a. hjá lögreglu og á dyravarðarnámskeiðum. Hann kvaðst einnig hafa æft júdó lengi. Hann taldi sig ekki hafa gengið of langt miðað við aðstæður og hafi hann beitt vægustu úrræðum sem hann mögulega gat miðað við það að brotaþoli hugðist slá  hann í höfuðið. 

                Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið staddur fyrir utan skemmtistaðinn B og kvaðst hann hafa séð tvo dyraverði liggja ofan á strák sem hann þekki og hafi þeir verið hinum megin götunnar. Hann kvaðst hafa rölt yfir til þeirra og spurt hvað væri í gangi og hvort þeir væru dyraverðir á skemmtistaðnum eða úti á [...]. Hann kvaðst hafa verið mjög rólegur og haldið á plastglasi með bjór í. Hafi þá fokið í annan dyravörðinn, ákærða í máli þessu, sem hafi spurt hvað hann ætlaði að gera í því. Hafi hann þá ekki vitað fyrr en hann hafi skollið með andlitið í jörðina og höndina fyrir aftan hnakka. Hann kvaðst hafa fundið fyrir sársauka og ekkert getað hreyft sig. Hann kvaðst hafa beðið ákærða að sleppa sér. E hafi fengið ákærða til að sleppa sér. Brotaþoli kannaðist ekki við að hafa ýtt við ákærða eða að hafa slegið til hans. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa verið með krepptan hnefa og reiðubúinn að slá ákærða.

                H læknir kom fyrir dóm og staðfesti vottorð sem hann gaf í máli þessu. Hann kvað AC- liðinn sem í vottorðinu greinir vera milli viðbeins og herðablaðs, en þessi liður hefði verið rifinn. Hann kvað þurfa talsvert átak og snöggt til þess að liðurinn rifni. Hins vegar sé hægt að rífa liðinn með því að detta á öxlina. Hann kvað brotaþola ekki hafa leitað til sín eftir þetta en hann vissi til þess að hann hefði leitað til bæklunarlæknis í maí sl.

                Vitnið D skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi verið staddur við B við dyravörslu þegar tveir dyraverðir héldu manni niðri úti á miðri götu. Brotaþoli hafi verið að segja eitthvað við dyraverðina en hann heyrði ekki hvað þeim fór á milli. Honum fannst brotaþoli vera aðeins ógnandi en hann hafi ekki staðið það nálægt þeim að hann hefði getað slegið þá. Hann kvað brotaþola hafa verið með krepptan  hnefa en hann kvaðst ekki hafa séð að hann væri með neitt í höndunum. Hann kvaðst ekki hafa fylgst með þeim allan tímann en ákærði hafi stokkið að brotaþola og tekið hann niður. Hann gat ekki lýst því nánar.

                Vitnið F skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi séð ákærða  halda brotaþola niðri í tökum. Hann kvaðst ekki hafa séð hvað gerðist áður og hann kvaðst ekki hafa séð brotaþola berjast um. Hann kvaðst hafa talað við ákærða og spurt hvort brotaþoli mætti ekki koma með honum og hafi það verið auðsótt mál.

                Vitnið E skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hún hafi staðið í dyrunum að B. Hún kvaðst ekki hafa séð hvað hafi verið að gerast á götunni en brotaþoli hafi skipt sér af því sem þar hafi verið að gerast. Hún kvaðst síðan hafa séð að ákærði hafi tekið brotaþola og „bombað“ honum í jörðina. Hún mundi ekki nákvæmlega hvernig það gerðist en ákærði hafi haldið annarri hendi brotaþola mjög hátt uppi á baki hans. Hana minnti að brotaþoli hefði ekki barist um og þá minnti hana að hann hefði ekki verið ógnandi. Hún mundi að F hefði staðið rétt hjá henni en hún kvaðst hafa sagt við ákærða að hún skyldi taka ábyrgð á brotaþola og hefði hann gengið burt með henni. Borinn var undir vitnið framburður þess hjá lögreglu að hún hafi séð brotaþola reyna að slá til ákærða en hún mundi ekki eftir því fyrir dómi.

                Vitnið J skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að tveir dyraverðir hafi legið á honum á Strandveginum móts við B. Hann hafi legið á maganum og höndum hans hafi verið haldið fyrir aftan bak. Brotaþoli hafi komið og beðið þá að fara af vitninu og hafi þá annar þeirra orðið illur og tekið brotaþola niður. Vitnið kvaðst hafa reynt að losa sig en honum hafi verið haldið föstum. Hann kvaðst hafa séð að brotaþola hafi verið haldið föstum niðri með því að halda höndum hans fyrir aftan bak. Hann kvað brotaþola ekki hafa verið ógnandi eða með krepptan hnefa þegar hann kom að dyravörðunum, hann hafi sagt að þeir væru ekki dyraverðir á [...]. Honum fannst tekið fullharkalega á brotaþola.

                Vitnið J skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hún hafi verið stödd við B að tala við vin sinn. Hún kvaðst hafa heyrt læti og séð brotaþola og J eitthvað vera að fíflast. Hún kvaðst síðan hafa séð að dyravörður hafi verið búinn að henda brotaþola í jörðina og hafði hann tekið hægri hönd hans fyrir aftan bak og snúið upp á hana. Hann hafi ekki viljað sleppa brotaþola þrátt fyrir beiðni hennar og annarra um það og hafi verið reynt að ná brotaþola af ákærða. Hún sá ekki að brotaþoli hafi ógnað ákærða. Hún kvaðst ekki hafa séð að dyraverðir hafi haldið J niðri en hana rámaði þó í það ítrekað aðspurð.

                Vitni C skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi starfað við dyravörslu á B umrætt sinn og hafi þeir þurft að hafa afskipti af J sem var að veitast að eldri manni. Hafi þeir náð honum niður og haldið honum í tökum. Hafi brotaþoli þá komið hlaupandi að ákærða með hótanir í garð hans og fannst honum hann vera ógnandi, hann hafi hótað að drepa hann. Eitthvað hafi gerst á milli þeirra, brotaþoli hafi sveiflað höndunum og hafi þetta endað með því að brotaþoli endaði á jörðinni. Hann kvaðst ekki hafa séð nákvæmlega hvernig það gerðist. Hann kvað viðbrögð ákærða hafa verið eðlileg og í samræmi við vinnubrögð dyravarða.

Niðurstaða.

Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa snúið brotaþola niður í götuna og haldið honum föstum nokkra stund með hönd fyrir aftan bak með þeim afleiðingum er í ákæru greinir. Ákærði var að störfum sem dyravörður á veitingastaðnum B í [...] og þurfti hann ásamt öðrum dyraverði að hafa afskipti af mönnum í átökum á götunni fyrir utan veitingastaðinn. Brotaþoli tók þá ákvörðun um að skipta sér af störfum dyravarðanna og eru ákærði og dyravörðurinn C sammála um að hann hafi komið ógnandi að þeim. Í sama streng tók vitnið D. Önnur vitni hafa ekki borið fyrir dómi að brotaþoli hafi verið ógnandi gagnvart ákærða að öðru leyti en því að vitnið E skýrði svo frá hjá lögreglu að hún hefði séð brotaþola reyna að slá til ákærða. Ákærði hefur lýst þeirri aðferð sem hann notaði til þess að yfirbuga brotaþola og hefur ekkert komið fram í máli þessu sem bendir til þess að hann hafi beitt öðrum aðferðum en nauðsynlegar voru til þess að yfirbuga mann sem að sönnu átti ekki að skipta sér af störfum dyravarðanna. Ekki er deilt um afleiðingarnar fyrir brotaþola en ekki er loku fyrir það skotið að þær megi að mestu rekja til þess að hann hafi barist um meðan ákærði hélt honum í tökum. Af framansögðu er ljóst að ákærða var heimil valdbeiting eins og á stóð og var hún nauðsynleg til þess að afstýra atlögu brotaþola. Með vísan til 12. gr. almennra hegningarlaga var verknaður ákærða því refsilaus og ber því að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                 Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála  ber að fella allan kostnað sakarinnar á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar hrl., 640.050 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 57.077 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

Dómsorð:

 Ákærði, X, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                 Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar hrl., 640.050 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 57.077 krónur.