Hæstiréttur íslands

Mál nr. 519/2015

Sigurður Pétur Hauksson (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Halldóri Helga Bachman (Hákon Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Fyrning
  • Skaðabætur

Reifun

S krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda H vegna tjóns sem H hefði, sem lögmaður S, valdið honum með því að höfða skaðabótamál á hendur G banka hf. eftir að krafan á hendur bankanum hafði fyrnst. Var H sýknaður af kröfu S þar sem krafan var fyrnd þegar málið var höfðað, sbr. 2. tölulið 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2015. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda „vegna þess fjártjóns sem áfrýjandi varð fyrir af þeim sökum, að skaðabótakrafa áfrýjanda á hendur Íslandsbanka hf. hafi verið fyrnd, þegar stefna áfrýjanda á hendur bankanum hafi verið birt þann 14.5.2002“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði áfrýjandi 14. maí 2002 mál á hendur Glitni banka hf., sem þá bar heitið Íslandsbanki hf., til heimtu bóta vegna tjóns, er áfrýjandi taldi bankann hafa valdið sér með því að fá því framgengt að bú áfrýjanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 14. maí 1992. Með dómi Hæstaréttar 10. nóvember 2011 í máli nr. 291/2010 var því slegið föstu að upphafstíma fyrningar skaðabótakröfu áfrýjanda á hendur bankanum yrði að miða við þann dag sem krafa hins síðarnefnda barst dómstóli, en ekki þann dag sem hún var tekin til greina með úrskurði. Ekki lægi fyrir hvaða dag bankinn hafi sett fram kröfu um gjaldþrotaskipti, en hún hafi á hinn bóginn verið tekin fyrir á dómþingi 13. maí 1992. Fyrir þann dag sem málið var höfðað hafi áfrýjandi ekkert gert, sem rofið gat fyrningu kröfu hans. Samkvæmt því var krafa áfrýjanda á hendur bankanum talin fyrnd er málið var höfðað, sbr. 2. tölulið 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og bankinn sýknaður af kröfu áfrýjanda.

Skaðabótakrafa áfrýjanda á hendur stefnda er reist á því að hinn síðarnefndi hafi, sem lögmaður áfrýjanda, valdið honum tjóni með því höfða fyrrgreint mál á hendur Glitni banka hf. eftir að krafan á hendur bankanum hafði fyrnst. Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar stofnast skaðabótakrafa þegar hin bótaskylda háttsemi á sér stað og miðast gjalddagi kröfunnar við sama tímamark, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, sem hér eiga við, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Krafa áfrýjanda á hendur stefnda vegna þess tjóns, sem hann telur stefnda hafa valdið sér, stofnaðist samkvæmt framansögðu eigi síðar en 14. maí 2002 og fyrndist tíu árum síðar, sbr. 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905. Mál þetta var höfðað með birtingu héraðsdómsstefnu 12. nóvember 2013, en fyrir þann dag hafði áfrýjandi ekkert gert, sem að lögum gat rofið fyrningu kröfu hans. Þá hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að ákvæði 7. gr. laga nr. 14/1905 eigi við í málinu. Samkvæmt þessu var krafa áfrýjanda fyrnd er mál þetta var höfðað. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. 

Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sigurður Pétur Hauksson, greiði stefnda, Halldóri Helga Backman, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2015.

                Mál þetta höfðaði Sigurður Pétur Hauksson, Vesturbergi 191, Reykjavík, með stefnu birtri 12. nóvember 2013, á hendur Halldóri Helga Backman, Perlukór 12, Kópavogi og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.  Kröfum á hendur Vátryggingafélagi Íslands var vísað frá dómi með úrskurði 2. apríl 2014, en málið dómtekið að öðru leyti að lokinni aðalmeðferð 27. apríl sl. 

                Stefnandi krefst í málinu greiðslu skaðabóta, aðallega að fjárhæð 65.000.000 króna, til vara að fjárhæð 41.900.000 krónur og til þrautavara að fjárhæð 25.000.000 króna.  Í öllum tilvikum krefst hann dráttarvaxta frá 14. maí 2002 til greiðsludags og málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara að þær verði lækkaðar.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

                Við fyrirtöku málsins þann 9. desember 2014 var ákveðið, samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, að skipta sakarefni málsins þannig, að nú yrði fyrst aðeins fjallað um hvort viðurkenna beri skaðabótaskyldu stefnda og hvort skaðabóta­krafa væri þá fyrnd. 

                Stefnandi rak einkafyrirtækið PC-tölvuna á Akranesi frá 1988 til 1992.  Einnig var hann aðalhluthafi í Tækniveröld hf.  Stefnandi átti þá viðskipti við Alþýðu­bankann, en síðan Íslandsbanka eftir að sá banki var stofnaður 1990. 

                Að kröfu Íslandsbanka var fasteign stefnanda, Kirkjubraut 11, Akranesi, seld á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992.  Bankinn varð hæstbjóðandi með 13.500.000 króna boð.  Greiddi bankinn lögveðskröfur að fjárhæð samtals 479.511 krónur og veð­kröfu Landsbankans með 12.642.810,80 krónum.  Eftirstöðvar uppboðsverðsins, 377.678,20 krónur tók bankinn undir sjálfum sér sem ófullnægður veðhafi.  Eignin var lögð honum út þann 8. apríl 1992. 

                Í kjölfar nauðungaruppboðsins var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta, með úrskurði skiptaréttar Akraness 14. maí 1992.  Íslandsbanki var skiptabeiðandi.  Haukur Bjarnason héraðsdómslögmaður var skipaður skiptastjóri í þrotabúinu.  Ekki liggur fyrir hvenær gjaldþrotabeiðni barst skiptaráðanda, en hún var tekin fyrir á dómþingi 13. maí 1992. 

                Samkvæmt kröfuskrá lýsti Íslandsbanki samtals fimm kröfum í búið.  Skipta­stjóri samþykkti fjórar kröfur að fjárhæð samtals 12.158.138,20 krónur.  Hann hafnaði að svo stöddu kröfu að fjárhæð 10.585.668,90 krónur.  Þeirri afstöðu var ekki mót­mælt af hálfu bankans. 

                Skiptum var lokið á skiptafundi 30. september 1996.  Samkvæmt afriti af aug­lýsingu um skiptalok greiddust 2.201.601 króna úr búinu upp í veðkröfur og 279.320 krónur upp í forgangskröfur.  Ekkert greiddist upp í almennar kröfur samtals að fjár­hæð 30.060.454 krónur. 

                Stefnandi höfðaði mál á hendur Íslandsbanka 31. janúar 2001.  Krafðist hann annars vegar endurgreiðslu á 23.074.054,20 krónum, hins vegar viðurkenningar á því að sannvirði fasteignarinnar að Kirkjubraut 11 hefði numið 39.000.000 króna er hún var seld á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992 og að eftirstöðvar veðskulda að fjárhæð 18.344.868,93 krónur yrðu færðar niður að fullu.  Dómur gekk í héraði 10. maí 2002 og í Hæstarétti 15. apríl 2003.  Niðurstaða Hæstaréttar var í fyrsta lagi sú að kröfu um viðurkenningu á tilteknu sannvirði fasteignarinnar var vísað frá dómi þar sem stefnandi hefði ekki hagsmuni að lögum af því að fá slíka viðurkenningu.  Í öðru lagi var bankinn dæmdur til að endurgreiða úttektir af sparisjóðsreikningi stefnanda, sem hann gat ekki útskýrt.  Loks í þriðja lagi var byggt á því að sannvirði fasteignarinnar til staðgreiðslu á uppboðsdegi hefði numið 37.050.000 krónum.  Voru því felldar niður eftirstöðvar áhvílandi veðskulda, sem hvílt höfðu á 2. og 3. veðrétti, samtals að fjárhæð 2.728.316 krónur og víxilkrafa bankans að fjárhæð 9.966.196 krónur, en hún hafði verið tryggð með tryggingarbréfum á 4. og 5. veðrétti.

                Stefnandi höfðaði annað mál á hendur Íslandsbanka þann 14. maí 2002.  Í því máli krafðist hann skaðabóta samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 6/1978 vegna þess að ekki hefðu verið skilyrði fyrir bankann til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi hans í maí 1992.  Meðferð málsins fyrir héraðsdómi tók talsvert langan tíma, en dómur var kveðinn upp 19. febrúar 2010.  Var kröfum stefnanda hafnað.  Áfrýjaði hann þá málinu, en héraðsdómur var staðfestur með dómi Hæstaréttar 20. janúar 2011.  Hæsti­réttur heimilaði endurupptöku málsins fyrir réttinum 15. júní 2011 og gekk nýr dómur 10. nóvember 2011.  Enn var kröfum stefnanda hafnað.  Byggðist niðurstaðan um sýknu bankans á því að krafa stefnanda hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað. 

                Stefndi Halldór Backman höfðaði síðastgreint skaðabótamál fyrir stefnanda.  Stefnandi og stefndi gáfu báðir aðilaskýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð þessa máls, auk þess sem stefnandi lagði fram skriflega aðilaskýrslu.  Fram kemur í gögnum málsins að stefndi sendi öðrum lögmanni sem stefnandi hafi tilnefnt öll gögn málsins með bréfi dags. 22. maí 2003.  Bar stefndi í aðilaskýrslu sinni að hann og stefnandi hefðu orðið ósáttir og sammála um að hann hætti að vinna fyrir hann.  Stefnandi bar einnig um það að þeir hefðu orðið ósáttir.

                Stefnandi hefur lagt fram nokkur gögn sem hann telur styðja skaðabótakröfu sem hann hafi átt á hendur Íslandsbanka. 

                Er þar fyrst að nefna skýrslu Sturlaugs Þorsteinssonar, verkfræðings og viðskiptafræðings, dags. 20. mars 2002.  Þar er áætlað fjárhagslegt tjón stefnanda af aðgerðum bankans gegn honum og einkafyrirtæki hans.  Í niðurstöðu skýrslunnar er talið að virði fyrirtækis stefnanda hefði getað verið orðið 1.457 milljónir króna um mitt ár 2000 og að annað fjárhagslegt tjón hans hefði verið 174 milljónir króna. 

                Í stefnu er þessi skýrsla Sturlaugs Þorsteinssonar kölluð matsgerð, en í skýrslunni er ekki vísað til dómkvaðningar og afrit af dómkvaðningu hefur ekki verið lagt fram. 

                Í öðru lagi hefur stefnandi lagt fram matsgerð Árna Tómassonar, en hann var dómkvaddur við meðferð áðurnefnds skaðabótamáls stefnanda á hendur Íslandsbanka.  Matsgerð hans er dags. 6. febrúar 2007.  Hann skilaði einnig nánari útskýringum með bréfi dags. 3. maí 2007.  Matsspurningar lutu að framangreindri skýrslu Sturlaugs Þorsteinssonar og má heita að Árni Tómasson hafi endurskoðað skýrslu hans og niður­stöður.  Segir í matsgerðinni að leiða megi líkur að því að hrein eign stefnanda í árslok 1991 hafi verið frá 12.500.000 krónum til 32.500.000 króna, „með miðgildi um 20 milljónir króna“. 

                Í þriðja lagi lagði stefnandi fram skjal sem nefnist „Umsögn Ómars Kjartans­sonar varðandi matsgjörðir Árna Tómassonar og Sturlaugs Þorsteinssonar ...“. 

                Í fjórða lagi er matsgerð Jóns Guðmundssonar fasteignasala frá 18. september 2001 og síðan yfirmatsgerð fasteignasalanna Stefáns Hrafns Stefánssonar og Finnboga Kristjánssonar, dags. 13. desember 2001.  Yfirmatsmenn segja í niðurstöðu sinni:  „... að markaðsverð eignarinnar Kirkjubraut 11 á Akranesi miðað við 20. febrúar 1992 hafi verið kr. 39.000.000,- ... er þá gert ráð fyrir almennum greiðslukjörum. Reikna má, að staðgreiðsluafsláttur hafi verið 3-5% á þessum tíma.“  Í undirmatsgerð var talið að eðlilegt staðgreiðsluverð hússins hefði verið 30.500.000 krónur. 

                Stefnandi krafðist bóta af Vátryggingafélagi Íslands vegna ábyrgðartryggingar stefnda hjá félaginu, með bréfi dags. 20. febrúar 2012.  Með bréfi dags. 10. maí 2012 hafnaði félagið því að stefndi væri bótaskyldur gagnvart stefnanda.  Með bréfi dags. 16. apríl 2013 skaut stefnandi þessari synjun til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.  Með úrskurði þann 11. júní 2013 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að viðurkenna bæri rétt stefnanda til bóta úr starfsábyrgðartryggingu stefnda hjá félaginu, að því marki sem sýnt væri fram á fjártjón vegna þess að krafan á hendur bankanum fyrndist. 

                Vátryggingafélag Íslands tilkynnti þann 26. júní 2013 að það hygðist ekki una þessari niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið skilyrði til að taka bú hans til gjaldþrotaskipta í maí 1992 eins og gert hafi verið.  Þetta styður hann við þau atvik sem rakin eru og niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 461/2002.  Bankinn hafi verið dæmdur til að endurgreiða til þrotabúsins fé sem tekið hafði verið af sparisjóðs­reikningi.  Þá hafi verið staðfest að virði fasteignar hans hafi verið 37.050.000 krónur.  Þá vísar hann til áðurgreindra skýrslna og matsgerða um fjárhagsstöðu sína þegar gjaldþrotaskipta var krafist. 

                Stefnandi segir að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 291/2010 hafi því verið slegið föstu að Íslandsbanki hafi verið skaðabótaskyldur.  Málið hafi hins vegar verið höfðað a.m.k. degi of seint og því hafi krafan verið fyrnd.  Þá sé ljóst að bankinn hafi ekki átt þær kröfur á hendur sér sem hann hafi byggt gjaldþrotabeiðni sína á.  Þá hafi stefnandi ekki verið ógjaldfær, en allar kröfur bankans hafi verið nægilega tryggðar í fast­eigninni Kirkjubraut 11.  Gjaldþrotabeiðnin hafi verið ólögmæt. 

                Stefnandi byggir á því að stefndi hafi gerst sekur um saknæma vanrækslu er hann höfðaði skaðabótamál á hendur Íslandsbanka of seint, eftir að krafan var fyrnd.  Vísar hann hér til niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, svo og til 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. 

                Stefnandi mótmælir því að hann hafi sýnt tómlæti við að gæta hagsmuna sinna. 

                Stefnandi kveðst byggja á reglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð, bæði varðandi ólögmæta gjaldþrotabeiðni bankans og vanrækslu stefnda.  Byggir hann enn fremur á því að þegar tjónþoli hafi sannað mistök sérfræðings og líkur séu á því að tjónið sé vegna þeirra, sé sönnunarbyrði um afleiðingarnar snúið við.  Þannig beri stefnda að sanna að saknæm háttsemi hans hafi ekki valdið tjóninu.  Stefndi verði að hnekkja niðurstöðu matsgerðar Árna Tómassonar um fjártjón stefnanda. 

                Um miskabótakröfu sína vísar stefnandi til 2. mgr. 20. gr. skaðabótalaga.  Píslarganga hans vegna hinna ólögmætu aðgerða bankans sé löng og þyrnum stráð.  Ljóst sé af dómum þeim sem fallið hafi að bankinn hafi farið offari. 

                Stefnandi byggir á því að krafan á hendur stefnda sé ekki fyrnd.  Virk sam­sömun sé milli hans og Vátryggingafélags Íslands, sem var stefnt í málinu.  Félaginu hafi borið að tilkynna stefnda um kröfu þá sem stefnandi gerði þann 20. febrúar 2012.  Hafi félagið gætt réttar stefnda eins og fram komi í úrskurði úrskurðarnefndarinnar 13. júní 2013.  Þá kveðst stefnandi einnig byggja á 7. gr. eldri fyrningarlaga nr. 14/1905, sbr. 2. mgr. 22. gr. lögmannalaganna.  Hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að krafa sín væri fyrnd fyrr en dómur Hæstaréttar í máli r. 291/2010 lá fyrir.  Stefnda hafi borið að greina honum frá því eftir að greinargerð stefnda var lögð fram í héraði, að krafan væri hugsanlega fyrnd.  Þá hafi stefndi ekki greint frá því hvers vegna hann hefði sagt sig frá málinu.  Hann hafi ekki komið heiðarlega fram, sbr. 2. mgr. 22. gr. lögmanna­laganna, sbr. 18. gr. sömu laga. 

                Auk þeirra lagareglna sem getið hefur verið vísar stefnandi til meginreglna fjármunaréttar og skaðabótaréttar, bótaákvæða í lögum um nauðungarsölu og eldri lögum um nauðungaruppboð og til 72. gr. stjórnarskrárinnar. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi telur ósannað að stefnandi hafi átt skaðabótakröfu á hendur bankanum, sem hann hafi glatað.  Stefnandi beri sönnunarbyrði um þetta.  Ekki hafi verið viður­kennt í dómi Hæstaréttar í máli nr. 291/2010 að stefnandi hafi átt skaðabótakröfu á hendur bankanum.  Stefnandi hafi ekki sannað að skilyrðum 2. mgr. 20. gr. eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978 hafi verið fullnægt. 

                Stefndi telur ósannað að kröfurnar fjórar sem bankinn byggði löghaldsbeiðni sína á hafi verið óréttmætar.  Löghaldsgerðin hafi reynst árangurslaus og þá hafi verið krafist gjaldþrotaskipta.  Ekkert bendi til þess að bankinn hafi verið í vondri trú um réttmæti krafnanna eða skilyrði gjaldþrotaskipta.  Stefnandi hafi heldur ekki haft uppi nein andmæli. 

                Stefndi bendir á að í máli nr. 461/2002 hafi því verið hafnað að færa niður til­teknar kröfur bankans.  Því hafi hann átt ótryggðar kröfur á hendur stefnanda þegar krafa um gjaldþrotaskipti var sett fram. 

                Þá byggir stefndi á því að hugsanleg krafa stefnanda á hendur bankanum hefði verið fallin niður fyrir tómlæti þegar hann tók skaðabótamálið að sér.  Þá hafi verið liðin átta ár frá því að bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta og stefnandi hafi ekki á þeim tíma beint neinum bótakröfum að bankanum. 

                Því næst byggir stefndi á því að það verði ekki talið saknæmt af honum að höfða málið of seint.  Það ráðist af lögskýringu við hvaða tímamark skuli miða upphaf fyrningarfrests á skaðabótakröfu.  Ekki sé augljóst af 2. mgr. 20. gr. eldri gjaldþrota­laga við hvaða dag eigi að miða upphaf frestsins.  Dómar hafi heldur ekki leyst úr þessu fyrr en með umræddum dómi í máli nr. 291/2010. 

                Enn byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fyrnd.  Telur hann að hér skuli beita 2. mgr. 4. gr. eldri fyrningarlaga nr. 14/1905.  Upphaf 10 ára fyrningarfrestsins skuli reikna frá 14. maí 1992 og krafan hafi því verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað með stefnubirtingu 12. nóvember 2013.  Ákvæði 7. gr. laganna eigi hér ekki við.  Ósannað sé að stefndi hafi sviksamlega leynt stefnanda staðreyndum eða vanrækt að upplýsa hann um atvik. 

                Þá byggir stefndi á því að ósannað sé að tjón stefnanda og miski sé ósannað.  Ósannað sé að stefnandi hefði getað bjargað rekstrinum og komið í veg fyrir gjaldþrot.  Ógreiddar kröfur við lok skipta hafi numið rúmlega 30 milljónum króna.  Ekki verði séð að stefnandi hafi orðið fyrir miska vegna gjaldþrotsins. 

                Stefndi mótmælir því að matsgerð Árna Tómassonar sanni að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.  Niðurstaða hans sé byggð á óvissum forsendum.  Þá reikni hann með fasteignum sem stefnandi hafi ekki átt í eigin nafni.  Loks sé niðurstaða matsins ágiskun en ekki mat á sannanlegu raunverulegu tjóni.  Mótmælir stefndi því að heimilt sé að framreikna tjón stefnanda.  Vegna vafaatriða í matsgerðinni verði tjónið þó ekki meira en 12.500.000 krónur.  Miðist varakrafan við það. 

                Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu.  Vextir frá fyrri tíma en fjórum árum fyrir stefnubirtingu séu fyrndir. 

                Stefndi mótmælir skýrslu Sturlaugs Þorsteinssonar og umsögn Ómars Kjartanssonar.  Þessara gagna hafi stefnandi aflað einhliða. 

                Loks mótmælir stefndi því að Vátryggingafélag Íslands hafi ekki rökstutt nægilega þá ákvörðun sína að hlíta ekki niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátrygginga­málum.  Rök sem færð voru fram séu fullnægjandi.  Þá sé úrskurðurinn ekki sönnunar­gagn um bótaábyrgð eins stefnandi sýnist byggja á, heldur álit sem ekki sé fordæmis­gefandi. 

                Niðurstaða

                Stefnandi krefst skaðabóta vegna tjóns sem hann telur að stefndi hafi valdið honum með því að höfða of seint skaðabótamál á hendur Íslandsbanka, með þeim af­leiðingum að krafa á hendur bankanum féll niður fyrir fyrningu. 

                Í dómi Hæstaréttar í máli stefnanda gegn Íslandsbanka, máli nr. 291/2010, er talið að upphaf fyrningar skaðabótakröfu hans skuli miða við þann dag sem gjaldþrotaskiptabeiðni barst skiptaráðanda.  Krafan hafi borist eigi síðar en 13. maí 1992, en skaðabótamálið var höfðað 14. maí 2002. 

                Skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefnda er skaðabótakrafa innan samninga.  Samningssambandi aðila var slitið í maí 2003.  Skaðabótakrafan er byggð á meintri vanrækslu stefnda í maí 2002.  Um fyrningu skaðabótakröfu þessarar ber því að beita lögum nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. hinna eldri laga um fyrningu fyrndist slík skaðabótakrafa á tíu árum.  Þar sem tjónið varð eigi síðar en 13. maí 2002 var hugsanleg skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefnda vegna þess fallin niður fyrir fyrningu þegar mál þetta var höfðað 12. nóvember 2013.  Málskot til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum slítur ekki fyrningu gagnvart stefnda.  Þegar af þessari ástæðu verður að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. 

                Sakarefni málsins var skipt eins og áður segir og nú einungis leyst úr því hvort stefndi sé bótaskyldur og hvort krafan sé þá fyrnd.  Þar sem niðurstaðan er sú að krafan sé fyrnd er málinu í heild lokið með þessum dómi. 

                Niðurstaða máls þessa sýnist vafalaus, en þó er rétt að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

                Stefndi, Halldór Helgi Backman, er sýknaður af kröfum stefnanda, Sigurðar Péturs Haukssonar.

                Málskostnaður fellur niður.