Hæstiréttur íslands
Mál nr. 361/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2013. |
|
Nr. 361/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) |
Líkamsárás.
X var ákærður fyrir þrjár líkamsárásir gegn fyrrverandi eiginkonu sinni. Sú fyrsta átti sér stað 11. mars 2010 og var í ákæru talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, önnur 1. maí 2010 sem var talin varða við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 og sú þriðja 21. desember 2010 er talin var varða við 1. mgr. 217. gr. laganna. Sakfelldi héraðsdómur X samkvæmt ákæru. Hvað varðar líkamsárásina 1. maí 2010 taldi Hæstiréttur, gegn eindreginni neitun X, það ekki hafið yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að X hafi slegið A með þeim afleiðingum að hún hafi rifbeinsbrotnað. Teldist háttsemi hans varða við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940 en ekki 1. mgr. 218. gr. laganna. Hvað hinar líkamsárásirnar tvær varðar var talið sannið að X hefði í öðru tilvikinu slegið A í kviðinn og í hinu tilvikinu veitt henni högg á andlit en hvoru tveggja hafði hann neitað. Var staðfest sakfelling X hvað varðar þessar tvær líkamsárásir og heimfærslu þeirra til refsiákvæða. Var X gert að sæta þriggja mánaða fangelsi. Til refsiþyngingar horfði, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, að brot hans beindust að fyrrverandi eiginkonu hans og voru tvö þeirra að nokkru í viðurvist ungs barns þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt liðum i og ii í I. kafla ákæru, sýknu af þeirri háttsemi að hafa veitt högg á andlit 21. desember 2010 samkvæmt lið iii í I. kafla ákæru og að honum verði gerð vægasta refsing fyrir aðra háttsemi samkvæmt þeim lið ákæru. Til vara krefst hann sýknu af i lið í I. kafla ákæru, að háttsemi samkvæmt ii lið í I. kafla ákæru verði heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og honum gerð vægasta refsing fyrir þá háttsemi sem og þá háttsemi sem honum er gefin að sök í lið iii í I. kafla ákæru.
I
Framburður brotaþola um það að ákærði hafi slegið hana í kviðinn laugardaginn 11. mars 2010 fyrir utan veitingastaðinn [...] við [...] í Reykjavík fær nokkra stoð í vætti B sem skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði komið til hennar eftir umræddan atburð og lýst fyrir henni atvikum. Hinu sama gegnir um framburð Gísla Jökuls Gíslasonar lögreglumanns sem staðfesti fyrir dómi að brotaþoli og B hefðu komið á lögreglustöð 11. mars 2010 og brotaþoli þá skýrt svo frá að ákærði hafi „veitt sér áverka og hún finni til í maganum ... Ég man að hún talaði um að hún fann til í kringum magann.“ Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt lið i í I. kafla ákæru og heimfærslu til refsiákvæða.
II
Fyrir Hæstarétti lýsti ákæruvaldið því yfir að það felldi sig við þá afstöðu, sem fram komi í hinum áfrýjaða dómi, að tilvísun í ákærulið I.ii til hnífs og þvingunar með ofbeldi sé ekki hluti af lýsingu á líkamsárás þeirri sem ákærða er þar gefin af sök og að ekki felist í þeirri tilvísun sakargiftir á hendur ákærða.
Í læknisvottorði Vilhjálms Ara Arasonar sem skoðaði brotaþola 1. maí 2010 á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi segir meðal annars: „Þá er hún hvellaum yfir cirka 7 og 8 rifi vinstra megin. Sennilega áverkar eftir högg á síðuna eða fall ... Áverkar þannig sem geta passað við lýsingu á líkamsárás og áverkum er hún hlaut ... Rifbrot, S22.3,Obs ... Allt eru þetta áverkar sem ættu að jafna sig ágætlega, spurning með rifbrotið sem er óvíst en gæti haft óþægindi af í margar vikur ... Þrítug kona sem að verður fyrir líkamsárás með aðallega maráverkum í andliti, brjóstkassa og hugsanlegu rifbroti.“ Aðspurður fyrir dómi um það hvort brotaþoli hefði hlotið rifbeinsbrot umrætt sinn sagði læknirinn meðal annars: „Þegar maður sér þetta svona nýlegt þá er svo sem ekki hægt að útiloka að þetta sé brákun eða jafnvel bara slæmt mar þarna. Það bendir allt til þess að þetta sé brákað rifbein ... Alla vega bendir þetta til þess að hafi verið áverki þarna yfir rifbeinið og það hugsanlega líklega brákað eða brotið ... Það getur verið að þetta hafi verið óljóst orðað að hún hafi fengið þarna áverka á rifbeinið, en þegar hún er skoðuð í þetta eina skipti strax á eftir þá hef ég bent henni á það að það væri þarna hugsanlega rifbrot sem hún mætti eiga von á að hafa óþægindi af í framhaldinu. Ef það hefur ekki verið að hún hafi haft nein óþægindi samsvarandi þessum rifjum þá hefur þetta sennilega verið bara mar eða rifjatognun. Klíníska greiningin mín við skoðunina er að þarna sé líklega um rifbrot að ræða.“
Fyrir dómi var brotaþoli beðin um að lýsa því hvaða áverka hún hafi hlotið að [...] í Reykjavík 1. maí 2010. Sagðist hún þá hafa fengið marbletti á mörgum stöðum og meðal annars verið „með sár aftan á bakinu, ég missti mjög mikið af hárum, ég var marin alls staðar og ég var með verki í öllum líkamanum.“ Aðspurð um það hvort hún hefði hlotið einhver beinbrot svaraði brotaþoli því neitandi.
Þegar framangreint er virt þykir, gegn eindreginni neitun ákærða, ekki hafið yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi umrætt sinn veist að brotaþola með þeim afleiðingum að hún hafi rifbeinsbrotnað. Að þessu gættu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms þykir sannað að ákærði hafi eins og í ákærulið I.ii greinir ráðist á brotaþola með því að slá hana í andlit, rífa í hár henni og skella í gólfið með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið mar og eymsli á höfði, brjóstkassa og í andliti auk þess sem hárlokkar losnuðu. Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
III
Hinrik Geir Jónsson lögreglumaður var kvaddur á vettvang á [...] á [...] í Reykjavík 21. desember 2010 vegna þeirra atburða er greinir í ákærulið I.iii. Aðspurður fyrir dómi hvort hann hefði séð áverka á brotaþola umrætt sinn svaraði hann: „Það voru áverkar í andlitinu, ég man ekki hvorum megin nákvæmlega, hvort það var eftir kinnhest eða eitthvað, ég man það ekki nákvæmlega, en að öðru leyti ekki. Svo var hún bara í áfalli.“ Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sakfelling ákærða samkvæmt þessum lið ákæru og heimfærsla þar til refsiákvæða.
IV
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot en hann hefur fjórum sinnum hlotið refsidóma, síðast árið 2004 er hann var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Það þykir horfa refsingu ákærða til þyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, að brot hans beindust að fyrrverandi eiginkonu hans og voru tvö brotanna að nokkru framin í viðurvist ungs barns þeirra. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málsvarnarlaun, sakarkostnað og réttargæsluþóknun skulu vera óröskuð.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málsvarnarlaun, sakarkostnað og réttargæsluþóknun skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 271.656 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2012.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri sl. á hendur ákærða, „X, kennitala [...], [...], Reykjavík,
I.
fyrir líkamsárásir með því að hafa í eftirgreind skipti á árinu 2010 veist að barnsmóður sinni og fyrrum sambýliskonu A:
i. (007-2010-15510)
Að kvöldi laugardagsins 11. mars 2010, utan við veitingastaðinn [...] við [...] í Reykjavík, ráðist á hana og slegið hana hnefahöggi í magann þannig að hún féll í götuna, með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli yfir kviðvöðvum.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.
ii. (007-2010-27131)
Laugardaginn 1. maí 2010, innandyra að [...] í Reykjavík, ráðist á hana, slegið hana í andlitið og rifið í hár hennar, þvingað hana með ofbeldi inn í geymslu inn af eldhúsi og þar otað að henni hníf og slegið hana ítrekað í andlitið, síðan eftir að hafa hleypt henni út úr geymslunni, rifið aftur í hár hennar og skellt henni í gólfið, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut rifbeinsbrot, mar og eymsli á höfði, brjóstkassa og í andliti auk þess sem hárlokkar losnuðu.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.
iii. (007-2010-84885)
Þriðjudaginn 21. desember 2010, á [...] að [...] í Reykjavík, ráðist á hana, sparkað í rassinn á henni og slegið hana einu sinni í andlitið með flötum lófa, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar yfir nefhrygg, mar yfir spjaldhrygg og tognun á hálsi.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.
II. (007-2010-21080)
Fyrir húsbrot með því að hafa, þriðjudaginn 6. maí 2010, sparkað upp útidyrahurð og ruðst í heimildarleysi inn í íbúð að [...] í Reykjavík þar sem fyrrum sambýliskona og barnsmóðir hans, A, var með dvalarstað.
Telst brot þetta varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gerir A þá kröfu að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000,- auk vaxta, skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá 21. desember 2010 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum, skv. 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að kærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga, nr. 38/2001.“
Við meðferð málsins hefur ákæruvaldið fellt niður II. kafla ákærunnar varðandi húsbrot í [...]. Þá hefur það verið leiðrétt sem stendur í ákærunni að A, kt. [...], sé fyrrum sambýliskona ákærða. Hið rétta sé að hún sé fyrrum eiginkona hans.
Málavextir
I.
Samkvæmt dagbók lögreglustjóraembættisins á höfuðborgarsvæðinu kom A til lögreglu laugardagskvöldið 11. mars 2010, ásamt vinkonu sinni B, og kærði yfir því að ákærði hefði þá fyrr um kvöldið veist að henni og slegið hana m.a. í magann. Morguninn eftir fór A aftur til lögreglu og greindi nánar frá þessu atviki. Kvað hún ákærða hafa komið að finna hana þar sem hún var að vinna á [...] við [...]. Hefði hann verið með [...] ára son þeirra með sér. Hefði ákærði tekið af henni símann og kýlt hana í magann í reiði yfir því að hún hefði hringt í lögreglu út af hótunum hans í hennar garð. Kom fram hjá henni að um langvarandi heimilisofbeldi hefði verið að ræða.
A leitaði á slysadeild 12. mars vegna þessa og segir í staðfestu vottorði Jóns H. H. Sen læknis um læknisskoðun á konunni að hún hafi kvartað um vægan kviðverk um ofanverðan kviðinn, yfir kviðvöðvum, sem versnaði við hreyfingu. Þá hafi hún kvartað yfir vægum eymslum yfir blöðrustað. Engin merki hafi fundist um ertingu á lífhimnu. Þá hafi komið í ljós að konan hafi verið með [...] sem væntanlega væri ótengd líkamsárásinni.
Næst er þess að geta að A kom hinn 6. maí 2010 til lögreglunnar til skýrslugjafar m.a. um þetta tilvik. Sagðist henni svo frá að þau ákærði hefðu sest við borð á [...] og farið að ræða sín mál. Hefði hún brugðið sér á salerni en þegar hún kom til baka hefði hann verið búinn að taka síma hennar sem hún hafði skilið eftir á borðinu og neitað að láta hann af hendi. Hefði hún farið út af staðnum en hann fylgt á eftir. Hefði hún beðið hann aftur um að afhenda símann en hann orðið æstur og kýlt hana í magann svo að hún féll. Sonur þeirra hefði verið þarna og setið í bíl ákærða. Ákærði hefði svo ekið á brott.
Loks er að geta þess að A gaf aðra skýrslu hjá lögreglu um þetta tilvik og önnur hinn 27. desember 2010. Var sú skýrsla tekin upp á myndskeið. Sagði hún ákærða hafa einum eða tveimur dögum áður verið með hótanir í hennar garð. Hefði hún hringt í lögregluna vegna þess. Ákærði hefði svo hringt í hana þennan dag þegar hún var að vinna í [...] og viljað hitta hana. Þegar þau höfðu sest og talað saman hefði hún þurft að bregða sér á snyrtinguna og skilið eftir símann. Á meðan hefði hann skoðað í símann og séð að hún hefði hringt í lögregluna. Hefði hann þá komið á eftir henni á klósettið og borið þetta á hana. Hefði hann þá hótað henni lífláti ef hún gerði slíkt aftur og slegið hana utanundir með flötum lófa. Hann hefði svo farið út. Þegar hér var komið sögu var gripið fram í fyrir vitninu og ekki spurt nánar út í þennan þátt málsins.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði neitar sök. Segir hann þau A hafa verið inni á [...] að tala saman, líklegast eitthvað áhrærandi son þeirra. Þegar þeir feðgarnir voru á leiðinni út hafi hún komið á eftir þeim. Þeir hafi sest í bílinn en A rifið upp hurðina og togað í hár hans og rifið í hann og dregið út úr bílnum. Hafi þau rifist eitthvað og hann svo hent henni frá sér. Neitar hann því að hafa kýlt konuna í magann. Hann kveðst ekki muna hvort hann tók símann af henni. Um kviðverkina sem hún hafi sagst finna til eftir þetta segir ákærði að hún hafi gengið með [...] í mörg ár.
A hefur skýrt frá því að síðdegis þennan umrædda dag hafi ákærði komið að finna hana til þess að skila syni þeirra og tala við hana um þeirra samband. Hafi allt farið skaplega á milli þeirra í fyrstu. Hún hafi þurft að bregða sér á snyrtingu og skilið símann sinn eftir á borðinu sem þau sátu við. Á meðan hafi hann skoðað í símann og séð að hún hafði hringt í lögregluna daginn áður. Hafi hann komið á eftir henni og spurt út í þetta og hún sagst hafa hringt. Hafi hann þá farið að hóta henni öllu illu og slegið hana utanundir. Hafi hún beðið um að fá símann en hann sagst ekki vera með hann. Hafi hann svo tekið son þeirra, sem komið hafði með honum, og leitt hann út. Hún hafi elt þá út og heimtað símann aftur en hann neitað. Hafi hann sagt drengnum að fara inn í bílinn sem hún mótmælti, enda ætti drengurinn að vera hjá henni. Hafi hún staðið fyrir hurðinni svo ákærði gat ekki lokað. Hafi hann þá komið út úr bílnum og kýlt hana í magann þar sem hún stóð við bílinn, svo hún féll við. Hafi hann þá ekið á brott. Hún segir lýsingu ákærða á viðskiptum þeirra úti við bílinn vera ranga.
B sem bjó í [...] á þessum tíma segir A hafa komið til sín eftir að ráðist hafði verið á hana. Hafi þær farið saman á lögreglustöð til þess að leggja fram kæru. Hafi B verið hrædd vegna þessa atviks og kveðst vitnið hafa ekið með hana í kvennaathvarfið.
Niðurstaða
Ákærði neitar því að hafa slegið A í kviðinn. Á hinn bóginn er þess að gæta að hún hefur verið stöðug í skýrslum sínum um þetta atriði. Þá kærði hún til lögreglu yfir árásinni þetta sama kvöld. Framburður konunnar í málinu hefur verið trúverðugur að mati dómsins. Þá þykir læknisvottorð Jóns H. H. Sen styðja mjög frásögn hennar. Telur dómurinn það vera sannað með framburði konunnar og læknisvottorðinu, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi slegið hana í kviðinn í umrætt sinn. Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
II.
Samkvæmt staðfestri skýrslu Erlu Daggar Guðmundsdóttur voru þær Inga Birna Erlingsdóttir lögreglumenn á ferð um Vesturlandsveg þegar tilkynning barst um ólæti og barsmíð á [...] [...]. Þegar þær komu þangað hittu þær fyrir A sem kom til dyra grátandi. Þegar af henni bráði gat hún sagt að árásarmaðurinn, fyrrum eiginmaður hennar, væri farinn af staðnum. Hefðu þau verið að ræða um leigusamning og greint á um hann. Hefði maðurinn, ákærði í máli þessu, misst stjórn á sér, rifið í hárið á henni og slegið hana í andlitið oftar en einu sinni. Hefði ungur sonur þeirra orðið vitni að þessu og hlaupið út grátandi. Ákærði hefði haldið barsmíðunum áfram og ýtt henni inn í litla geymslu inn af eldhúsinu. Hefði hann otað að henni eldhúshníf og sagst mundu drepa hana ef hún hringdi í lögregluna. Þvínæst hefði hann tekið hnífinn og sett hann við brjóst sér og stýrt hendi hennar á hnífskaftið og látið hana þrýsta á hnífinn. Þá hefði hann einnig látið hana þrýsta hnífnum að hálsi honum. Eftir þetta hefði hann lokað hana inni í geymslunni. Þegar hann svo opnaði fyrir henni hefði hann rifið í hárið á henni og skellt henni í gólfið. Að því búnu hefði hann farið. Þá segir í skýrslunni að sonur A hefði komið inn hágrátandi og augljóslega mjög hræddur. Er haft eftir honum að hann hefði falið sig þar til hann sá lögreglubílinn við húsið og þá árætt að koma inn. A kvartaði um eymsli víða um líkamann og í höfði. Þá segir í skýrslunni að hár hafi losnað af höfði hennar þegar hún strauk sér um höfuðið.
A gaf skýrslu hjá lögreglu um þetta tilvik hinn 27. desember 2010. Var sú skýrsla tekin upp á myndskeið. Þá kvað hún ákærða hafa komið heim til hennar í [...] út af húsaleigusamningi þeirra á milli um íbúðina. Hefði hann viljað breyta atriðum í samningnum en hún neitað því. Hefði hann reiðst mjög og gripið aftan á hálsinn á henni. Við það hefði sonur þeirra hlaupið út. Hefði ákærði þá slegið hana einu sinni með flötum lófa í andlitið. Hefði hann hótað henni og verið illyrtur. Hefði hann löðrungað hana aftur svo að hún féll við. Hefði hann svo dregið hana á hárinu inn í kompu en hún öskrað. Hefði hann barið hana þar aftur. Svo hefði hann tekið eldhúshníf og sett hann í hönd hennar og látið hana halda um skeftið á hnífnum. Hún kvaðst hafa kastað frá sér hnífnum svo að hann týndist á bak við eitthvað þarna í kompunni. Hefði ákærði þá sótt stóran eldhúshníf og farið eins að. Hann hefði svo tekið hnífinn af henni og hafði þá ermina á milli handar og hnífs. Hefði hann svo borið hnífinn að hálsi sér eins og til að skera. Kveðst hún ekki hafa séð hvort hann skarst á hálsinum við þetta. Hann hefði svo farið út.
Meðal gagna málsins er læknisvottorð Vilhjálms Ara Arasonar sérfræðilæknis á slysadeild. Segir þar að A hafi komið á deildina kl. 15 þennan sama dag, mjög miður sín. Hafi hún verið rauð og bólgin yfir kinnbeini, aðallega hægra megin, en þó ekki áberandi aum þar. Þá hafi hún kvartað um eymsli neðanvert yfir neðri kjálka hægra megin. Töluvert hafi verið um laust hár á henni svo að benti til þess að rifið hefði verið í hárið. Ekki hafi verið áberandi mar eða kúla í hársverðinum en hún kvartað um mikil eymsli „diffust“ yfir höfuðbeinunum. Mar hafi verið fyrir neðan vinstra viðbein (sjá hér á eftir) og smáfleiður fyrir ofan það, sem gæti verið eftir núning eða klór. Bólga og mar hafi verið yfir hryggvöðva á neðanverðum brjósthrygg, vinstra megin á móts við lendhrygg og skrapsár þar, eins og eftir nögl. Þá hafi hún verið mjög aum yfir 7. og 8. rifi vinstra megin, sem líklega hafi hlotist af falli. Er að skilja vottorðið svo að þar undir sé rifbeinsbrot. Loks segir að konan hafi verið lítillega aum í höndum og úlnliðum.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði neitar því að hafa otað hnífi að A og neitar því að hafa þvingað hana inn í geymsluna. Hann segir A hafa tekið eldhúshníf úr statífi og lagt bakkann á hnífsblaðinu að hálsi ákærða. Minni hann að hann hafi sagt við hana: „Af hverju klárar þú þetta ekki?“ Hann segir þau hafa slegist þarna í eldhúsinu og leikurinn borist að dyrum geymslu sem sé inn af eldhúsinu. Hafi þau legið á gólfinu við dyrnar í átökunum. Hafi þetta hlotist af ágreiningi um leigusamning um íbúðina en hún sé í eigu fyrirtækis ákærða. Kveðst hann hafa sagt drengnum að fara út þegar þau fóru að rífast sem hann hafi gert og slagsmálin svo hafist. Hafi þau byrjað með því að A hafi slegið hann og hárreitt, sparkað í hann og klórað. Hafi þau fallið bæði á gólfið þarna í eldhúsinu, tvisvar sinnum. Hann segist ekki hafa slegið A en aftur á móti hafi hann gripið með annarri hendi um andlit hennar neðanvert og reynt að ýta henni frá sér og til hliðar. Kveðst hann einnig hafa rifið í hárið á henni. Hann segir það líklegt að hún hafi fengið áverka við þessi slagsmál og hann sjálfur verið klóraður, marinn á fæti og með hárlos. Kveðst hann hafa farið á slysadeild en svo hætt við að láta skoða sig þar. Aðspurður hvort hann hefði gengið harkalegar fram en hún í þessum átökum svarar hann að hann sé sterkari. Hann tekur þó fram að hún geti verið grimm.
A segir ákærða hafa komið til hennar í [...] til þess að ræða við hana um leigusamning um íbúðina sem hún bjó í. Hafi þau greint á um nokkur atriði og þeim orðið sundurorða. Hafi hann þá sagt syni þeirra að fara út að leika sér. Síðan hafi hann ráðist á hana, gripið aftan á hálsinn á henni, slegið hana og skellt henni á gólfið. Hafi hann dregið á hárinu um gólfin í íbúðinni. Hafi hann dregið hana að kompu sem er inn af eldhúsinu, lyft henni á fæturna aftur og skellt henni inn í kompuna. Hafi hún dottið þar á dót sem þar var inni. Hafi hún æpt upp en hann slegið hana til þess að hún hætti því. Hún hafi legið grátandi inni í kompunni en ákærði komið með hníf í hendi en hafði jakkann um hnífinn. Hafi hann fyrst snúið að henni blaðinu. Hafi hún slegið í hönd hans og hnífurinn þá hratað frá. Hafi hann þá dregið hana fram í eldhúsið, sótt annan hníf og snúið skeftinu að henni og reynt að fá hana til þess að taka hnífinn. Hafi hann tekið hönd hennar og lokið henni um hnífsskaftið. Hafi hann svo tekið hnífinn og gert sig líklegan til að skera sig á háls. Hún segir að höggin sem hún fékk frá ákærða hafi verið með flötum lófa. Hún segir framburð ákærða um átökin vera rangan. Hafi hún engu ofbeldi beitt á móti honum. Hún segir ákærða hafa farið út þegar þessu linnti en lögreglan hafi komið skömmu síðar.
Erla Dögg Guðmundsdóttir lögreglumaður var kvödd til þess að fara heim til A í umrætt sinn. Hafi þær Inga Birna hitt þar fyrir A sem hafi verið í miklu uppnámi og átt erfitt með að segja þeim hvað gerst hafði. Hún hafi svo getað sagt þeim sögu sína. Hefði sambýlismaður hennar fyrrverandi komið til hennar og lagt á hana hendur. Hafi hún sýnt þeim að hár hennar var laust í flygsum og sagt manninn hafa hárreytt sig og barið. Lítill drengur hafi svo komið inn og verið hræddur og grátandi. Hafi komið fram að hann hefði verið heima þegar faðir hans kom og svo hlaupið út og falið sig þegar barsmíðarnar hófust. A hafi sagt þeim að stympingar hefðu orðið og þau dottið. Hefðu stympingarnar endað inni í kompu sem sé inn af eldhúsinu. Þá hafi hún sagt að hnífur hefði komið við sögu. Fyrst hefði hnífnum verið haldið að henni en síðan hefði ákærði beint hnífnum að sjálfum sér og látið hönd hennar um hnífsskaftið og látið hana þrýsta með honum á bringu hans og háls. Hún segist ekki muna eftir að hafa séð aðra áverka á konunni en lausa hárið, en konunni hafi verið ekið á slysadeild til læknisskoðunar.
Inga Birna Erlingsdóttir hefur skýrt frá því að A hafi verið í miklu uppnámi. Hafi hún sagst hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu sambýlismanns og hann hárreytt hana. Hefði hann dregið hana á hárinu og slegið hana í gólfið. Þá hefði hann otað að henni hnífi en síðan snúið hnífnum að sjálfum sér og sett hendur hennar á hnífinn og þannig þrýst hnífnum að sér sjálfum. Konan hafi verið með mikið hárlos, reytt og tætt, og hárið fallið af henni. Barn hennar hafi komið inn eftir að þær komu á staðinn og verið hrætt við föður sinn.
Vilhjálmur Ari Arason læknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt í málinu. Hann segir að þar sem talað sé um mar neðan við vinstra „rifbein“ eigi að standa viðbein. Hann segir um rifbrotið að sú greining sé klínísk og byggð á því að eymsli sem hún hafi fundið fyrir við þrýsting og hreyfingu séu dæmigerð fyrir rifbrot. Þessi greining hafi ekki verið staðfest með myndatöku.
Niðurstaða
Skilja verður þennan ákærulið svo að þar sem talað er um hníf í málinu og þvingun með ofbeldi sé það ekki hluti af lýsingu á líkamsárásinni og ekki felist sakargiftir í þessum atriðum.
Ákærði neitar sök að nokkru leyti. Hann kannast þó við að hafa lent í átökum við A og kannast við að vera sterkari en hún. Hann neitar því að hafa slegið hana en viðurkennir að hafa gripið um neðri hluta andlits hennar í átökunum. Þá játar hann að hafa rifið í hár hennar. Konan hefur verið stöðug í frásögn sinni og dóminum þykir dóminum framburður hennar vera trúverðugur. Læknisvottorð Vilhjálms Ara Arasonar þykir einnig styðja mjög frásögn hennar. Þrátt fyrir neitun ákærða að hluta telur dómurinn það vera sannað með framburði konunnar og læknisvottorðinu svo og sumpart með játningu ákærða, að hann hafi ráðist á hana með því að slá hana í andlitið, rífa í hárið á henni og skella henni í gólfið, og að hafa þannig valdið henni þeim áverkum sem lýst er í ákærunni. Með þessu hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
III.
Fyrir liggur að lögreglumenn voru kvaddir að [...] [...] á [...] kl. 13.27 mánudaginn 21. desember 2010 vegna þess að þar hefði maður áreitt starfsmann hússins. Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu fóru lögreglumennirnir Þórný Þórðardóttir og Hinrik Geir Jónsson á staðinn og hittu þar á [...] hússins A. Segir í skýrslunni að hún hafi verið mjög miður sín og sagt ákærða hafa komið þar, æstan mjög. Kvaðst hún hafa gengið niður stiga og hann á eftir henni. Hefði hann þá sparkað í sitjandann á henni en þegar hún hefði snúið sér við hefði hann einnig slegið hana í andlitið og höggið lent við nefið.
Í staðfestu læknisvottorði Skúla Bjarnasonar segir að A hafi komið á slysadeild þennan dag og sagt frá því að sparkað hefði verið sitjandann á henni yfir spjaldhrygg, þá fyrr um daginn, og hún slegin í andlitið þannig að hún hrökklaðist aftur á bak. Hafi konan verið aum yfir spjaldhryggnum en ekki hafi verið mar að sjá þar. Þá hafi hún verið aum yfir nefhrygg og svolítið bólgin þar. Þá væri roði á báðum kinnum. Loks hafi hún verið aum í hnakkavöðvum í hálsi og niður eftir hálsvöðvum.
A gaf skýrslu hjá lögreglu um þetta tilvik hinn 27. desember 2010. Var sú skýrsla tekin upp á myndskeið. Kvaðst hún hafa verið við vinnu sína á [...] í [...] þegar ákærði kom þar og fór að ásaka hana um að hafa stolið peningum frá sér. Hefði hann verið æstur mjög. Hefði hún beðið ákærða að koma með sér niður til þess að tala við sig um þetta, svo aðrir heyrðu ekki. Hefði hún gengið niður stigann á undan henni en hann þá sparkað í sitjandann á henni. Hefði hún þá snúið sér við en ákærði þá slegið hana með flötum lófa í andlitið og höggið komið á nefið á henni. Hefði hann hótað henni því að hann ætlaði að ganga frá henni. Hefði hún þá farið í síma og hringt á lögregluna en ákærði horfið á brott.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði kveður 3. tl. I. kafla ákærunnar vera réttan að öðru leyti en því að hann hafi ekki slegið konuna í andlitið. Ákærði segist hafa verið búinn að komast að því að A hafði dregið sér fé úr fyrirtækinu eftir að þau höfðu með skriflegu samkomulagi gert upp fjármál sín með atbeina lögmanns. Kvaðst ákærði þá hafa ákveðið að segja yfirmanni hennar á [...] frá þessu svo hún vissi hvern mann hún hefði að geyma. Hafi hann farið þangað og spurt eftir yfirmanninum sem þá hafi ekki verið staddur þar. Hafi A gengið niður stiga eins og til þess að leiða hann út, svo að starfsmenn myndu ekki heyra meira. Kveðst hann hafa fylgt á eftir og sparkað í afturendann á henni í reiði. Hann neitar því að hafa slegið konuna í andlitið. Um marið í andliti hennar eða tognun í hálsi kveðst hann ekkert hafa að segja. Hann segist ekki hafa sparkað svo fast í konuna að hún geti hafa marist við það á spjaldhryggnum.
A hefur skýrt frá því að ákærði hafi komið til hennar á [...] upp á [...]. Hafi hann verið með hótanir og hún þá hlaupið niður til þess að hringja á lögreglu. Á leiðinni niður hafi ákærði sparkað í hana í sitjandann eða öllu heldur neðst á hrygginn. Hafi hún þá snúið sér við og spurt hvað hann væri að gera en hann þá slegið hana í andlitið með flötum lófa. Hafi hana verkjað í bakið eftir þetta og hún verið marin í framan.
Þórný Þórðardóttir lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og staðest skýrslu sína. Hefur hún skýrt frá því að A hafi verið miður sín þegar hún hitti hana á [...]. Hafi hún sagt ákærða hafa sparkað í sig og slegið. Hann hafi verið farinn þegar þau lögreglumennirnir komu á staðinn.
C starfsmaður á [...] segist hafa heyrt mikinn fyrirgang úr stiganum. Hafi A svo sagt ákærða hafa sparkað í sig á leiðinni niður stigann. Hafi hún sagt að hana verkjaði mjög í bakið eftir þetta spark. Vitnið segir ákærða hafa verið mjög æstan og starfsfólkið hafa verið mjög skelkað yfir þessari heimsókn.
D starfsmaður á [...] segist hafa verið stödd á [...] á [...], uppi yfir [...]. Segir hún ákærða hafa komið að finna A, sem þarna var, og farið að ræða við hana einhver peningamál. Hafi ákærði verið reiður. Vitnið kveðst ekki hafa fylgst með hvað fram fór á milli þeirra en A hafi verið í miklu uppnámi eftir þessa heimsókn.
Skúli Bjarnason læknir hefur staðfest vottorð sitt. Hann segir áverkann í andliti A hafa borið það með sér að konan hefði fengið hann fyrr þennan sama dag. Um áverkana á spjaldhrygg og hálsvöðvum segir hann að þeir hafi ekki verið sjáanlegir heldur verið staðreyndir með eymslum hjá konunni og hreyfigetu. Telur hann líklegt að konan hafi fengið hálsmeiðslin þegar hún hrökklaðist niður stigann.
Hinrik Geir Jónsson, lögreglumaður, segir A hafa sagt að ákærði hefði komið og hótað henni. Eftir það hefði hann sparkað í sitjandann á henni og slegið hana í andlitið. Hafi konan verið í áfalli og með áverka í andliti.
Niðurstaða
Ákærði játar að hafa sparkað í konuna en neitar því að hafa slegið hana. Framburður hennar um þetta atriði hefur verið stöðugur og dóminum þykir hann vera trúverðugur. Læknisvottorð Skúla Bjarnasonar þykir einnig styðja mjög frásögn hennar. Telur dómurinn það vera sannað með játningu ákærða, sem er í samræmi við annað í málinu, að hann hafi ráðist á hana með því að sparka í sitjandann á henni. Þá telur dómurinn það enn fremur vera sannað með framburði konunnar og læknisvottorðinu, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi slegið hana í andlitið. Telst ákærði þannig sannur að því að hafa valdið henni þeim áverkum sem lýst er í ákærunni. Hefur ákærði með þessu gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Aftur á móti hefur hann fjórum sinnum áður hlotið refsidóma, síðast árið 2004 að hann var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Það þykir vera refsingu ákærða til þyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, að brot hans beindist að fyrrverandi konu hans og að nokkru leyti í viðurvist ungs barns þeirra. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi hefur dregist nokkuð. Þykir mega ákveða að fresta framkvæmd þriggja mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ekki var sótt þing af hálfu A í tveimur fyrstu þinghöldunum í málinu, þrátt fyrir boðun. Forföllum var ekki borið við og ákærandinn tók ekki að sér að mæta fyrir bótakrefjandann. Ákærði sótti þá heldur ekki þing sjálfur en mætt var af hans hálfu í síðara þinghaldinu af þessum tveimur. Hefur ákærði krafist þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi enda hafi ekki verið mætt af hennar hálfu í málinu í tvö fyrstu þinghöldin í málinu, þrátt fyrir boðun. Samkvæmt 2. mgr. 174. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 skal fella niður einkaréttarkröfu í sakamáli ef kröfuhafi sækir ekki þing við þingfestingu eða þegar málið er tekið fyrir á síðari stigum nema hann hafi lögmæt forföll eða ákærandi hafi tekið að sér að mæta fyrir hans hönd í þinghaldinu. Verður ekki komist hjá því að taka kröfu ákærða til greina og vísa bótakröfunni frá dómi.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Steini S. Finnbogasyni hdl. 275.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti. Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða Margréti Gunnlaugsdóttur hrl. 180.000 krónur í réttargæsluþóknun, sem einnig dæmist með virðisaukaskatti.
Annan sakarkostnað, 108.452 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði. Frestað er framkvæmd þriggja mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Bótakröfu A er vísað frá dómi.
Ákærði greiði verjanda sínum, Steini S. Finnbogasyni hdl. 275.000 krónur í málsvarnarlaun og Margréti Gunnlaugsdóttur hrl. 180.000 krónur í réttargæsluþóknun.
Loks greiði ákærði 108.452 krónur í annan sakarkostnað.