Hæstiréttur íslands

Mál nr. 685/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                                        

Mánudaginn 3. nóvember 2014.

Nr. 685/2014.

 

Fíton ehf.

(Hjördís Birna Hjartardóttir hdl.)

gegn

Íslandsstofu og

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

íslenska ríkinu

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

F ehf. höfðaði mál gegn ÍS og ÍR til heimtu skaðabóta vegna vanefnda ÍS á rammasamningi gagnvart sér í tengslum við markaðsherferðina „Ísland – allt árið“. Í þinghaldi í héraði, eftir framlagningu greinargerða af hálfu ÍS og ÍR, lagði F ehf. fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. ÍS og ÍR mótmæltu beiðninni og kröfðust þess að málið yrði flutt um frávísunarkröfu þeirra, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í hinum kærða úrskurði var beiðninni hafnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með beiðninni hygðist F ehf. renna frekari stoðum undir tiltekin atriði vegna útreiknings á skaðabótakröfu sinni. Talið var að matsgerðin myndi eingöngu leiða í ljós fjárhæð hugsanlegra skaðabóta skv. vara- og þrautavarakröfu F ehf. en myndi engu breyta um aðalkröfu F ehf. í þeirri mynd sem hún hafði verið borin fram. Væri hún því bersýnilega þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um „að hann fái að leggja fram beiðni um að dómkvaddir verði matsmenn og að aflað verði matsgerðar í málinu“ áður en málflutningur færi fram um kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til c. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að áðurgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Á grundvelli rammasamningsútboðs samdi varnaraðilinn Íslandsstofa annars vegar við sóknaraðila og hins vegar við Íslensku auglýsingastofuna ehf. í apríl 2012 um að veita þjónustu vegna markaðsherferðar með heitinu „Ísland – allt árið“. Rammasamningarnir voru að mestu efnislega samhljóða en ákveðið var að Íslenska auglýsingastofan ehf. sæi um mótun á grunnhugmynd verkefnisins. Samningarnir öðluðust gildi 10. janúar 2012 og skyldu þeir standa út árið, en heimilt var að framlengja þá um eitt ár í senn tvisvar sinnum. Samningur varnaraðilans við Íslensku auglýsingastofuna ehf. hefur samkvæmt gögnum málsins verið framlengdur tvívegis og gildir nú til 31. desember 2014 en samningurinn við sóknaraðila rann sitt skeið á enda 31. desember 2012. Öll kaup varnaraðilans á grundvelli samninganna munu hafa verið gerð við Íslensku auglýsingastofuna ehf. en engum viðskiptum beint til sóknaraðila. Fyrir heildarkaup á þjónustu á tímabilinu frá september 2011 til september 2012 greiddi varnaraðilinn 51.593.979 krónur en  65.392.651 krónu fyrir tímabilið upp frá því til september 2013. Samkvæmt fjárhagsáætlun varnaraðilans vegna verkefnisins munu kaup undir liðnum „framleiðsla og hönnun“ á tímabilinu september 2013 til september 2014 hafa átt að nema 56.406.000 krónum.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðilum 14. febrúar 2014 til heimtu skaðabóta vegna vanefnda varnaraðilans Íslandsstofu á rammasamningnum gagnvart sér. Sóknaraðili telur að með framangreindu hafi hann orðið af viðskiptum sem hann hefði með réttu átt að njóta sem annar tveggja viðsemjenda varnaraðilans á grundvelli útboðsins. Krefst sóknaraðili þess aðallega að varnaraðilar verði dæmdir sameiginlega til að greiða sér 86.696.315 krónur, sem sé helmingur þeirrar heildarfjárhæðar sem varið hafi verið til kaupa á þjónustu af Íslensku auglýsingastofunni ehf., til vara að viðurkennd verði skaðabótaskylda varnaraðila vegna missis hagnaðar sem sóknaraðili hefði ella notið og að því frágengnu að viðurkennd verði skaðabótaskylda þeirra vegna kostnaðar sóknaraðila við undirbúning tilboðs og samningsgerð í kjölfarið. Í héraði kröfðust varnaraðilar þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Röksemdir fyrir þeirri kröfu eru raktar í hinum kærða úrskurði en þær lúta aðallega að því að fjárkrafa sóknaraðila sé óviss þar sem hún byggist að hluta á fjárhagsáætlun varnaraðilans Íslandsstofu sem enn sé óljóst hvort muni standast, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, svo og að kröfugerð og málatilbúnaður sóknaraðila sé óljós og vanreifaður.

Í þinghaldi í héraði 27. júní 2014 lagði sóknaraðili fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns og var þá fært í þingbók að hann teldi að taka bæri afstöðu til beiðninnar áður en málið yrði flutt um frávísunarkröfu varnaraðila. Með matsbeiðninni hyggst sóknaraðili afla frekari stuðnings fyrir kröfugerð sinni og telur hann matsspurningarnar varða atriði sem snerti frávísunarkröfu varnaraðila. Þeir mótmæltu því báðir að matsmaður yrði dómkvaddur á þessu stigi og kröfðust þess að málið yrði flutt um frávísunarkröfuna eins og það lægi fyrir, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991.

II

Samkvæmt úrskurðarorði hins kærða úrskurðar var hafnað með honum kröfu sóknaraðila um að hann fengi að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns og að matsgerðar yrði aflað áður en málið yrði flutt um kröfu varnaraðila um frávísun þess. Að réttu lagi verður að líta svo á að í úrskurðinum hafi falist það eitt að hafnað var kröfu sóknaraðila um að matsmaður yrði dómkvaddur, enda lúta önnur framangreind atriði að því hvernig hagað yrði meðferð málsins að fenginni niðurstöðu um þá kröfu. Úrskurður héraðsdóms getur því sætt kæru samkvæmt fyrrnefndum c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991.

Í málinu krefst sóknaraðili að dómkvaddur verði matsmaður til að renna stoðum undir tiltekin atriði vegna útreiknings á skaðabótakröfu sinni. Með matsbeiðninni hyggst sóknaraðili annars vegar fá metinn mögulegan hagnað sinn hefði hann verið fenginn til að vinna helming þeirra verkefna sem unnin voru á grundvelli rammasamninganna við hann og Íslensku auglýsingastofuna ehf. og hins vegar hver hafi verið kostnaður hans af undirbúningi tilboðs, þátttöku í útboðinu og gerð rammasamningsins. Af framangreindu er ljóst að sóknaraðili leitar hér mats á atriðum, sem varakrafa hans og þrautavarakrafa taka til. Matsgerð í samræmi við beiðni sóknaraðila myndi eingöngu leiða í ljós fjárhæð hugsanlegra skaðabóta samkvæmt þessum kröfum, sem lúta eingöngu að viðurkenningu réttar hans til skaðabóta úr hendi varnaraðila af nánar tilgreindum ástæðum og eru ekki um greiðslu tiltekinna fjárhæða. Matsgerðin myndi á hinn bóginn engu breyta um aðalkröfu sóknaraðila í þeirri mynd, sem hún hefur verið borin fram, enda snúa málsástæður að baki henni ekki að missi hagnaðar af verki fyrir varnaraðilann Íslandsstofu, heldur að hann hafi orðið af helmingi heildarþóknunar fyrir slíkt verk. Að því virtu er sú sönnunarfærsla sem sóknaraðili óskar eftir samkvæmt framangreindu bersýnilega þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hafnað er beiðni sóknaraðila, Fítons ehf., um dómkvaðningu matsmanns.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Íslandsstofu og íslenska ríkinu, hvorum um sig 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2014.

Í máli þessu krefst stefnandi þess aðallega að stefndu greiði stefnanda sameiginlega 86.696.315 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 5. október 2013 til greiðsludags, en til vara að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu við stefnanda vegna missis á hagnaði, sem stefnandi hefði notið ef ekki hefði komið til ákvarðana stefnda Íslandsstofu um að hafna því að gera samninga um kaup á þjónustu af stefnanda á grundvelli rammasamnings nr. 332 „Ísland allt árið“, en til þrautarvara að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu við stefnanda vegna kostnaðar stefnanda við að útbúa tilboð og taka þátt í rammasamningsútboði nr. 15134 og vegna kostnaðar við gerð rammasamnings nr. 332 „Ísland allt árið“.

Aðalkrafa beggja stefndu í málinu er að því verði vísað frá dómi.

Í þinghaldi þegar taka átti ákvörðun um málflutning um frávísunarkröfu stefndu var þess krafist af hálfu stefnanda að hann fengi fyrst að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna og afla matsgerðar sem lögð yrði fram í málinu áður en tekin yrði afstaða til frávísunarkröfu stefndu. Myndu matsspurningar snúa að því að meta hvaða hagnað stefnandi hefði haft ef hann hefði verið fenginn til að vinna helming þeirra verkefna sem unnin voru á grundvelli rammasamningsútboðs nr. 15134 og rammasamninga nr. 3332 og 3333 „Ísland allt árið“, sem og hver hafi verið kostnaður stefnanda við að undirbúa tilboð og taka þátt í rammasamningsútboði nr. 15134 og gera rammasamning nr. 3332 „Ísland allt árið“. Af hálfu beggja stefndu var því mótmælt að stefnandi fengi að leggja fram matsbeiðni með framangreindum matsspurningum og afla matsgerðar áður en leyst verður úr frávísunarkröfu þeirra.

Á dómþingi 4. september sl. var ákveðið að taka ofangreindan ágreining aðila um framlagningu á matsbeiðni og öflun matsgerðar áður en fjallað yrði um frávísunar- kröfur stefndu til úrskurðar og var málið tekið til úrskurðar 11. september sl. hvað varðar þann tiltekna ágreining eftir munnlegan málflutning um þennan þátt málsins.  

Krafa stefnanda í þessum þætti málsins er sú að honum verði heimilað að afla mats dómkvaddra matsmanna áður en málflutningur fer fram um frávísunarkröfur stefndu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu. Af hálfu beggja stefndu er þess krafist að því verði hafnað að stefnandi fái að afla matsgerðar áður en fjallað verði um frávísunarkröfu stefndu í samræmi við meginreglu 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er þess krafist að ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíði úrlausnar um framkomna frávísunarkröfu, en af hálfu stefnda Íslandsstofu er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að þótt mál skuli almennt flytja munnlega um frávísunarkröfu sem komi fram í greinargerð áður en fjallað verði frekar um efni þess sé þó gert ráð fyrir undantekningum ef krafa þar að lútandi byggist á ástæðum sem varði einnig efnishlið málsins og nægilegar upplýsingar þykja ekki komnar fram að því leyti, sbr. 2. málslið, 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Byggir stefnandi á því að frvísunarkrafa stefndu varði efni máls og úr hinum meintu ágöllum á málatilbúnaði stefnanda verði þar af leiðandi unnt að bæta undir rekstri málsins. Af hálfu stefndu er þessu mótmælt og telja stefndu að ofangreind undantekingarregla í 2. málslið 2. mgr. 100. gr. eigi ekki við eins og hér stendur á.

Frávísunarkröfur stefndu í málinu teljast í megindráttum samhljóða en byggja á mismunandi ástæðum. Í fyrsta lagi á því að fjárkrafa stefnanda teljist óviss þar sem hún byggi á fjárhagsáætlun Íslandsstofu sem enn sé óljóst hvort fái staðist og sé stefnandi því að krefjast hlutfalls af kostnaði sem enn hafi ekki fallið til. Þannig fari kröfugerð hans að því leyti í bága við 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Í öðru lagi að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé óljós og vanreifaður, sbr. d-, e-, f- og g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Virðist stefnandi ekki fara fram á efndabætur eða bætur fyrir missi hagnaðar, heldur virðist hann miða meint tjón sitt við greiðslur sem hann telji að hann hefði átt að njóta samkvæmt samningnum. Sé sú fjárkrafa vanreifuð þar sem í stefnu hafi t.d. ekki verið gerð nein grein fyrir því hvers vegna stefnandi dragi engan kostnað frá kröfu sinni sem hann miði við helming andvirðis af keyptri þjónustu Íslandsstofu af samkeppnisaðila sem tvímælalaust hafi borið rekstrarkostnað. Í þriðja lagi skorti á framlagningu skjala sem skjóti stoðum undir fjárkröfu stefnanda, svo sem hver sé sá hagnaðarmissir sem orðið hafi, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Í fjórða lagi sé málsgrundvöllur óskýr og meðal annars sé óljóst hvort krafa stefnanda sé bótakrafa innan eða utan samninga. Í fimmta lagi skorti á að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um vara- og þrautavarakröfu sína þar sem úrlausn um aðalkröfu stefanda hljóti einnig að fela í sér dóm um bótaskyldu stefndu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, en þær kröfur séu enn fremur vanreifaðar, sbr. e- og f-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að frávísunarkrafa stefndu byggi á ástæðum er varði einnig efnishlið máls. Frávísunarkröfur stefndu byggi á því að málatilbúnaður stefnanda sé óljós og vanreifaður, meðal annars fyrir þær sakir að ekki hafi verið lögð fram fullnægjandi gögn sem sýni fram á tjónið eða skjóti stoðum undir kröfu hans að öðru leyti og að ekkert liggi t.d. fyrir um það hver hefði orðið hagnaður stefnanda ef samningurinn hefði verið efndur. Með matsbeiðni freisti stefnandi þess að renna frekari stoðum undir kröfugerð sína að því leyti sem henni þyki áfatt. Með ósk um dómkvaðningu matsmanna og öflun matsgerðar á þessu stigi máls miði stefnandi að því að renna stoðum undir útreikning á skaðabótakröfu sinni. Eini rökrétti tíminn til að gera þetta sé áður en tekin sé afstaða til frávísunarkröfu stefndu en hafa verði í huga að stefnandi gerði áskilnað í stefnu um slíka öflun matsgerðar ef á þyrfti að halda. Eigi því undantekningarreglan í 2. málslið 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 við um þessar aðstæður þar sem byggt sé á vanreifun af hálfu stefndu. Þá sé því mótmælt að gögnin sem kanna þurfi sé öll að finna í bókhaldi stefnda en matsmaður hafi frjálsar hendur um gangaöflun. Matsspurningar varði matsatriði sem snerti frávísunarkröfu stefndu.

Af hálfu stefndu er vísað til þess að túlka beri þröngt þá undantekningarreglu sem stefnandi beri fyrir sig, en hann hafi ekki sýnt fram á hvaða mikilvægu hagsmuni hann hafi af því að afla matsgerðar áður en leyst verði úr frávísunarkröfum stefndu. Matsgerð lúti að efni máls en ekki formi. Í stefnu sé engin grein gerð fyrir því hvers vegna stefnandi dragi ekki kostnað frá kröfu sinni en áskilji sér greiðslu er nemi helmingi greiðslu keyptrar þjónustu stefnda af samkeppnisaðila sem augljóslega hafi haft ýmsan kostnað sem ætti að koma til frádráttar. Stefnandi byggi ekki á því að bótagrundvöllur séu bætur fyrir missi hagnaðar og engin gögn liggi fyrir um hver hefði orðið hagnaður stefnanda ef samningurinn hefði verið efndur með þeim hætti sem hann telji réttar efndir. Krafa stefnanda styðjist við áætlanir um kostnað vegna verkefnisins sem nú sé óljóst hvort fái staðist. Málsgrundvöllur og kröfugerð sé svo óljós að ómögulegt sé fyrir stefndu að verjast málatilbúnaði stefnanda. Frávísunarkrafa stefndu byggi einnig á öðrum atriðum en þeim sem matsbeiðnin taki til. Þannig geti matsgerð ekki bætt úr þeim óskýrleika sem snýr að bótagrundvelli kröfugerðar stefnanda. Frávísunarástæður stefndu varði einnig formhlið máls. Það mat sem stefnandi sækist eftir, um það hver meintur hagnaður og ætlaður kostnaður hefði orðið, muni auk þess að meginstefnu til fara fram með skoðun á bókhaldi hans sjálfs. Stefnandi hafi enga viðhlítandi grein gert fyrir meintu fjártjóni í stefnu né lagt fram gögn því til stuðnings eins og áskilið sé í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Kröfugerð stefnanda sé því ódómtæk og undantekningarskilyrði í 2. málslið, 2. mgr. 100 gr. laga nr. 91/1991, eigi hér ekki við.

Krafa stefnanda um að honum verði leyft að afla matsgerðar áður en fjallað verður um og leyst úr frávísunarkröfu stefndu í málinu felur í sér undantekningu frá meginreglunni í 1. málslið, 2. mgr. 100 gr. laga nr. 91/1991, um að úr kröfu um frávísun máls, sem kemur fram í greinargerð stefndu, beri að leysa áður en fjallað verður frekar um efni málsins. Við mat á því hvort undantekningarregla 2. málsliðar, 2. mgr. 100. gr. kunni að eiga hér við þarf að leggja heildstætt mat á það hvort þær frávísunarástæður sem stefndi byggir á í greinargerð séu þess eðlis að úr þeim verði mögulega bætt með öflun slíkrar matsgerðar á þessu stigi málsins. Eins og hér háttar til, og lýst hefur verið að framansögðu, þá grundvalla stefndu frávísunarkröfu sína meðal annars á ástæðum sem snúa alfarið að formi en ekki efni máls. Enn fremur verður hér að líta til þess að fyrirætlanir stefnanda um það hvernig hann hyggst bæta úr ætluðum annmörkum á málatilbúnaði með öflun matsgerðar eru um margt óljósar.

Með vísan til alls ofangreinds, og með vísan til 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, ber því með hliðsjón af andmælum stefndu, að hafna þeirri kröfu stefnanda að hann fái að afla matsgerðar í málinu samkvæmt fyrirliggjandi matsbeiðni áður en flutningur fer fram um frávísunarkröfu stefndu og leyst er úr henni í úrskurði.

Ákvörðun um málskostnað verður tekin við endanlega úrlausn málsins.

Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu stefnanda, um að hann fái að leggja fram beiðni um að dómkvaddir verði matsmenn og að aflað verði matsgerðar í málinu, áður en fram fer munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu og leyst verður úr henni með úrskurði.