Hæstiréttur íslands
Mál nr. 195/2003
Lykilorð
- Áfrýjunarstefna
- Stefnufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 9. september 2003. |
|
Nr. 195/2003. |
Björn B. Kristþórsson(Kristján Stefánsson hrl.) gegn Ingibjörgu Kristjánsdóttur (enginn) |
Áfrýjunarstefna. Stefnufrestur. Máli vísað frá Hæstarétti.
Áfrýjunarstefna var birt stefndu að liðnum stefnufresti. Vegna þessa og þar sem stefnda lét ekki málið til sín taka fyrir Hæstarétti var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2003. Hann krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða sér 6.828.986 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. ágúst 2002 til greiðsludags að frádregnum innborgunum 2.549.687 krónum 24. september 2002 og 4.358.968 krónum 19. nóvember sama árs. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt 5. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 9. gr. laga nr. 38/1994, verður að birta áfrýjunarstefnu ekki síðar en viku áður en frestur stefnda til að tilkynna Hæstarétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu er á enda, sbr. e. lið 1. mgr. 155. gr. laganna. Við útgáfu áfrýjunarstefnu var ákveðið að síðasti dagur stefndu til að koma fram tilkynningu um þetta yrði 2. júlí 2003. Lauk því stefnufresti 25. júní sama árs. Áfrýjunarstefna í málinu var birt fyrir starfsmanni á sjúkrastofnun þar sem stefnda mun hafa dvalist 28. júní 2003. Vegna þessa og þar sem stefnda hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Málskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá Hæstarétti.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.