Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2017

B (Tómas Hrafn Sveinsson hrl.)
gegn
Arion banka hf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A hf. gegn B var frestað þar til fyrir lægi niðurstaða rannsóknar héraðssaksóknara á meintri refsiverðri háttsemi B og eftir atvikum dómur héraðsdóms í sakamáli yrði það höfðað í kjölfar rannsóknarinnar. Var málinu frestað að frumkvæði héraðsdómara en fyrir lá að báðir málsaðilar voru því mótfallnir. Í dómi Hæstaréttar kom fram að heimild til frestunar máls samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fæli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu einkamálaréttarfars að hraða beri málsmeðferð og yrði að beita henni því til samræmis. Þótt að einhverju leyti kynni að vera hagfellt að fresta málinu þar til fyrir lægi niðurstaða rannsóknarinnar og eftir atvikum niðurstaða héraðsdóms í sakamáli á hendur B, yrði það ekki gert af þeim sökum einum gegn andmælum beggja málsaðila. Var því ekki talið að skilyrði væru til að frestað málinu frekar á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 6. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. febrúar 2017, þar sem máli varnaraðila gegn sóknaraðila var frestað þar til fyrir liggja niðurstöður rannsóknar héraðssaksóknara á meintri refsiverðri háttsemi sóknaraðila og eftir atvikum dómur héraðsdóms í sakamáli verði það höfðað í kjölfar rannsóknarinnar. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka til málið til aðalmeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að hann krefst þess að kærumálskostnaður verði felldur niður.

Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili upphaflega starfsmaður Sparisjóðs Siglufjarðar er síðar varð AFL-sparisjóður sem sameinaðist varnaraðila 15. október 2015. Starfaði sóknaraðili þar í um aldarfjórðung þar til hann lét af störfum í lok júní 2015 og gerður var við hann starfslokasamningur. Eftir starfslokin mun hafa vaknað grunur um misferli af hálfu sóknaraðila í starfi og kærði AFL-sparisjóður hann til embættis sérstaks saksóknara 4. september 2015. Í kærunni sagði að hið meinta misferli sóknaraðila fælist í misnotkun bankareikninga tiltekins einkahlutafélags, mögulegri misnotkun bankareikninga annarra viðskiptamanna varnaraðila og misnotkun fjármuna varnaraðila.

Mál þetta höfðaði AFL-sparisjóður upphaflega á hendur sóknaraðila 16. október 2015 og krafðist þess í fyrsta lagi að sá síðarnefndi greiddi sér 178.261.094 krónur og í öðru lagi að staðfest yrði kyrrsetningargerð sem fram fór 5. október 2015 í ýmsum eignum sóknaraðila. Fjárkröfu sína lækkaði varnaraðili í 107.031.085 krónur þegar málið var flutt um frávísunarkröfu sóknaraðila 4. mars 2016. Með úrskurði 29. apríl 2016 var fjárkröfum varnaraðila vísað frá dómi en hafnað kröfu sóknaraðila um frávísun á kröfu varnaraðila um staðfestingu kyrrsetningargerðar. Varnaraðili höfðaði 29. júní 2016 mál á hendur sóknaraðila sem þingfest var 30. sama mánaðar og krafðist greiðslu á 105.835.254 krónum auk nánar tilgreindra vaxta. Er fjárkrafa varnaraðila á því reist að sóknaraðili hafi valdið honum tjóni með annars vegar fjárdrætti og hins vegar umboðssvikum. Eru í stefnu tíundaðar þær athafnir sem varnaraðili telur að sóknaraðili hafi haft í frammi og falið hafi í sér fjárdrátt eða umboðssvik.

Í þinghaldi 4. júlí 2016 voru framangreind mál sameinuð. Eftir sameininguna var málið tekið fyrir fjórum sinnum frá 5. september 2016 til 3. nóvember sama ár en í þinghaldi þann dag var aðalmeðferð ákveðin 25. janúar 2017. Málið var næst tekið fyrir 7. febrúar sama ár og var þá eftirfarandi bókað: „Lögmönnum aðila hefur verið kynnt með tölvubréfi að dómurinn hafi til athugunar hvort rétt sé að fresta meðferð máls þessa þar til séð verði fyrir enda sakamálarannsóknar sem nú stendur yfir í framhaldi af kæru AFL-sparisjóðs á hendur stefnda og eftir atvikum hugsanlegrar höfðunar sakamáls í kjölfar hennar. Gefur dómari lögmönnum nú kost á að tjá sig um það álitaefni. Lögmaður stefnanda segir misferli stefnda liggja skýrt fyrir og sé ekki þörf á að bíða niðurstöðu sakamálarannsóknar. Hagsmunum stefnanda sé best borgið með því að halda einkamálinu áfram án hlés. Stefndi segist ekki vilja gera hlé á málarekstrinum. Eignir hans hafi verið kyrrsettar og sé það honum hamlandi. Niðurstaða einkamáls sé ekki bindandi fyrir úrslit mögulegs sakamáls enda kunni að verða byggt á öðrum gögnum í sakamáli ef til kemur. Í stefnu sé sagt að stefndi hafi framið umboðssvik en ekki sérstaklega vísað til umboðssvikaákvæðis almennra hegningarlaga.“ Með hinum kærða úrskurði var málinu eins og áður segir frestað „þar til fyrir liggja niðurstöður rannsóknar héraðssaksóknara á meintri refsiverðri háttsemi stefnda og eftir atvikum dómur héraðsdóms í sakamáli, verði það höfðað í kjölfar rannsóknarinnar.“

Ef dómari einkamáls fær vitneskju um að sakamál hafi verið höfðað eða rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis, og telja má að úrslit þess máls eða rannsóknar skipti verulegu máli um úrslit einkamálsins, er dómara samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 heimilt að fresta einkamálinu þar til séð er fyrir enda sakamálsins eða rannsóknarinnar. Í þessari heimild til frestunar máls felst undantekning frá þeirri meginreglu einkamálaréttarfars að hraða beri málsmeðferð og verður að beita henni því til samræmis. Þótt að einhverju leyti kunni að vera hagfellt að fresta þessu máli þar til fyrir liggur niðurstaða rannsóknar héraðssaksóknara á ætlaðri refsiverðri háttsemi sóknaraðila, og eftir atvikum niðurstaða héraðsdóms í sakamáli á hendur honum, verður það ekki gert af þeim sökum einum gegn andmælum beggja málsaðila. Eru því ekki skilyrði til að fresta máli þessu frekar á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. febrúar 2017.

I

Mál þetta er í öndverðu höfðað 16. október 2015 með með réttarstefnu útgefinni af dómstjóra héraðsdóms Norðurlands eystra 5. október 2015. Stefnandi var við útgáfu réttarstefnu AFL sparisjóður, Aðalgötu 34, Siglufirði en hinn 15. október 2015 sameinaðist hann Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík og er sá banki nú stefnandi málsins. Stefndi er B, [...], [...]. Stefnukröfur málsins voru upphaflega af tvennum toga, annars vegar krafðist stefnandi þess að staðfest yrði kyrrsetningargerð sem framkvæmd hefði verið hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra hinn 5. október 2015 í fasteignunum [...], [...], fnr. [...] og eignarhluta stefnda í [...], [...], fnr. [...], ökutækjunum [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...] og [...], fnr. [...], hestakerru, fnr. [...], 6% eignarhluta stefnda í fyrirtækinu [...] ehf., kt. [...] og eignarhluta stefnda í fyrirtækinu [...] ehf., kt. [...], ásamt innstæðum bankareikninga stefnda [...], nr. [...], nr. [...], nr. [...], nr. [...] og nr. [...], nr. [...], og hins vegar krafðist stefnandi greiðslu nánar greindrar fjárhæðar, sem hann lækkaði í 107.031.085 krónur er málið var flutt um frávísunarkröfu stefnda.

Með úrskurði, upp kveðnum 29. apríl 2016 var fjárkröfum stefnanda vísað frá dómi en hafnað kröfu stefnda um frávísun kröfu um staðfestingu kyrrsetningargerðar. Hæstiréttur Íslands staðfesti úrskurðinn með dómi í máli nr. 402/2016 hinn 9. júní 2016.

Hinn 29. júní 2016 höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda og krafðist þar greiðslu á 105.835.254 krónum auk nánar greindra dráttarvaxta og voru málin sameinuð.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

II

Stefndi var starfsmaður stefnanda og mun hafa starfað þar í um aldarfjórðung þar til hann lét af störfum í lok júní 2015 og gerður var við hann samningur um starfslok.

Eftir starfslokin mun grunur hafa vaknað hjá stefnanda um misferli af hálfu stefnda í starfinu og kærði stefnandi stefnda til embættis sérstaks saksóknara samkvæmt þág. lögum nr. 135/2008 hinn 4. september 2015. Í kærunni segir að hið „meinta misferli“ felist í misnotkun á bankareikningi einkahlutafélagsins [...], mögulegri misnotkun bankareikninga annarra viðskiptamanna stefnanda og misnotkun fjármuna stefnanda. Segir í kærunni að stefndi tengist umræddu einkahlutafélagi með beinum hætti.

Fjárkröfur sínar í því máli sem nú er til meðferðar fyrir dómi byggir stefnandi á því að stefndi hafi valdið sér tjóni með annars vegnar fjárdrætti og hins vegar umboðssvikum. Tíundar stefnandi í stefnu þær athafnir sem hann telur stefnda hafa haft í frammi og falið hafi í sér fjárdrátt eða umboðssvik.

Dómurinn tók til athugunar að eigin frumkvæði hvort rétt væri að fresta frekari meðferð einkamáls þessa þar til séð yrði fyrir enda þeirrar rannsóknar, sem fyrir liggur að hófst í framhaldi af kæru upphaflegs stefnanda á hendur stefnda. Áður en aðalmeðferð málsins skyldi hefjast hinn 7. febrúar gaf dómurinn lögmönnum aðila kost á að tjá sig um það álitamál. Fyrir dómi lýstu báðir aðilar þeirri skoðun að ekki væri ástæða til að bíða niðurstöðu rannsóknarinnar. Lögmaður stefnanda sagði misferli stefnda liggja skýrt fyrir og væri ekki þörf á að bíða niðurstöðu sakamálarannsóknar. Hagsmunum stefnanda væri bezt borgið með því að halda einkamálinu áfram án hlés.

Stefndi sagðist ekki vilja gera hlé á málarekstrinum. Eignir hans hefðu verið kyrrsettar og væri það honum hamlandi. Niðurstaða einkamáls væri ekki bindandi fyrir úrslit mögulegs sakamáls enda kynni að verða byggt á öðrum gögnum í sakamáli ef til kemur. Í stefnu væri sagt að stefndi hefði framið umboðssvik en ekki sérstaklega vísað til umboðssvikaákvæðis almennra hegningarlaga.

Álitaefnið var í framhaldi af þessu tekið til úrskurðar eða ákvörðunar eftir atvikum.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi haft í frammi nánar greinda háttsemi, fjársvik og umboðssvik, og með henni valdið sér tjóni. Tilgreinir stefnandi í stefnu í hverju háttsemin hafi falizt. Fyrir liggur að fyrst sérstakur saksóknari samkvæmt þág. lögum nr. 135/2008 og síðar héraðssaksóknari hafa haft til rannsóknar meint brot stefnda, sbr. kæru stefnanda til sérstaks saksóknara. Stefnandi hefur lagt fram í málinu afrit yfirheyrslu af stefnda vegna rannsóknar sakamálsins og gögn um yfirheyrslur yfir fleira fólki. Í stefnu er lýst aðgerðum sérstaks saksóknara í upphafi rannsóknar og sagt að ljóst sé að aðgerðir saksóknarans styðji „við það hversu stórfellt brot“ stefndi hafi framið. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi í yfirheyrslu hjá saksóknara játað „brot sín“. Í greinargerð sinni kveðst stefndi mótmæla staðhæfingum í stefnu um að hann hafi sýnt af sér misferli í störfum sínum hjá stefnanda. Hafi stefndi dregið játningar sínar til baka og hafi lagt fram gögn um að of nærri sér hafi verið gengið við yfirheyrslu. Í máli þessu byggir stefndi meðal annars á að hvorki hafi verið sýnt fram á ólögmæta né saknæma háttsemi sína. Þá byggir hann meðal annars á því að ósannað sé að stefndi hafi framkvæmt einstakar millifærslur auk þess sem unnt hafi verið „að fara í kerfi stefnanda og breyta einstökum færslum og fjárhæðum þeirra.“

Að mati dómsins blasir við að telja má að niðurstöður sakamála­rannsóknarinnar og eftir atvikum sakamáls sem kann að verða höfðað í framhaldi hennar skipti verulegu máli um úrslit þess einkamáls sem hér er til meðferðar. Þykir því rétt að neyta heimildar 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 til að fresta málinu þar til séð verður fyrir enda rannsóknarinnar og eftir atvikum sakamáls í framhaldi hennar. Þau atriði sem aðilar bentu á, er þeir tjáðu sig um álitaefnið, þykja ekki breyta þessu. Umrædd heimild 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 er frávik frá almennri reglu einkamálaréttarfars um að hraða skuli málsmeðferð. Þykir því ekki rétt að ákveða hér lengri frestun en sem nemur lokum rannsóknar og eftir atvikum dómi héraðsdóms komi til útgáfu ákæru.

Katrín Rúnarsdóttir hdl. fer með mál þetta af hálfu stefnanda en Tómas Hrafn Sveinsson hrl. af hálfu stefnda. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er frestað þar til fyrir liggja niðurstöður rannsóknar héraðssaksóknara á meintri refsiverðri háttsemi stefnda, og eftir atvikum dómur héraðsdóms í sakamáli, verði það höfðað í kjölfar rannsóknarinnar.