Hæstiréttur íslands

Mál nr. 696/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                     

Mánudaginn 3. nóvember 2014.

Nr. 696/2014.

Geirlaug Þorvaldsdóttir

Margrét Guðnadóttir

Ólafur Þór Jónsson

Reykjaprent ehf.

Sauðafell sf.

Sigríður S. Jónsdóttir

Bjarney Guðrún Ólafsdóttir

STV ehf.

Skúli Þorvaldsson og

Katrín Þorvaldsdóttir

(Guðjón Ármannsson hrl.)

gegn

Landsneti hf. og

(Þórður Bogason hrl.)

íslenska ríkinu

(enginn)

Kærumál. Hæfi dómara.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu G, M, Ó, R ehf., S sf. S, B, S ehf., SÞ og K um að sérfróðum meðdómsmanni yrði gert að víkja sæti í máli þeirra gegn L hf. og Í.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Gnýr Guðmundsson viki sæti sem sérfróður meðdómsmaður í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Landsnet hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn íslenska ríkið hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilanum Landsneti hf. kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Geirlaug Þorvaldsdóttir, Margrét Guðnadóttir, Ólafur Þór Jónsson, Reykjaprent ehf., Sauðafell sf., Sigríður S. Jónsdóttir, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, STV ehf., Skúli Þorvaldsson og Katrín Þorvaldsdóttir, greiði sameiginlega varnaraðilanum Landsneti hf. 350.000 krónur í kærumálskostnað. Kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2014.

Mál þetta, sem rekið er sem flýtimeðferðarmál samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, var þingfest fyrir dóminum 18. ágúst 2014.

Stefnendur krefjast þess að úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta í málum nr. 4/2014, 5/2014, 6/2014, 7/2014 og 8/2014, og sem allir voru kveðnir upp 29. júlí 2014, verði ógiltir með dómi. Með úrskurðum þessum var stefnda, Landsneti hf., veitt heimild til umráðatöku lands innan jarða stefnenda vegna áforma Landsnets hf. að leggja svokallaða Suðurnesjalínu 2 í lofti. Stefndu, Landsnet hf. og íslenska ríkið, krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda. Bæði stefnendur og stefndu krefjast málskostnaðar úr hendi gagnaðila.

Með tölvubréfi dómara til lögmanna aðila 9. september sl. upplýsti dómari að hann hefði ákveðið að dóminn skipuðu auk hans annar embættisdómari, sem meðdómandi, svo og sérfróður meðdómsmaður. Var þar greint frá nafni beggja meðdómenda. Skömmu síðar hafði lögmaður stefnenda símasamband við dómara og lýsti efasemdum um hæfi hins sérfróða meðdómsmanns og áréttaði þá afstöðu sína í þinghaldi 16. september sl. Ákvað dómari því að leita annars sérfróðs meðdómsmanns, sem gæti tekið sæti í dóminum. Í tölvubréfi 17. september sl. kynnti dómari lögmönnum að Gnýr Guðmundsson, rafmagnstæknifræðingur, væri reiðubúinn til að taka sæti í dóminum sem sérfróður meðdómsmaður. Lét dómari þess getið að Gnýr hefði tjáð honum að hann hefði engin tengsl við aðila málsins, hvorki nú né fyrr. Um leið óskaði dómari eftir athugasemdum lögmanna við tilnefningunni, ef einhverjar væru. Með tölvubréfi til dómara 24. september sl. lýsti lögmaður stefnenda því yfir að stefnendur teldu hinn sérfróða meðdómsmann ekki hæfan til að taka sæti í dóminum og gerðu kröfu um að hann viki sæti á grundvelli 5. gr. laga um meðferð einkamála.

Í þinghaldi 1. október 2014 ítrekuðu stefnendur kröfu sína um að Gnýr Guðmundsson viki sæti sem sérfróður meðdómsmaður í máli þessu. Byggist krafa þeirra einkum á því að Gnýr sé millistjórnandi hjá álframleiðslufyrirtækinu Rio Tinto Alcan í Straumsvík, en mikil viðskiptatengsl og fjárhagsleg tengsl séu á milli þess fyrirtækis og stefnda, Landsnets hf. Því til stuðnings bentu stefnendur á að raforkusamningar milli Rio Tinto Alcan og Landsnets hf. vörðuðu mjög háar fjárhæðir og hefði álfyrirtækið því ríka fjárhagslega hagsmuni af því að samningsverð hækkaði ekki, en byggt sé á því í málinu að jarðstrengir leiði til kostnaðarauka. Jafnframt var á því byggt að umrædd fyrirtæki hefðu haft með sér samráð við umhverfismat vegna Suðvesturlínu. Í ljósi ofanritaðs telja stefnendur sig ekki geta treyst því að meðdómsmaðurinn líti á málavexti af óhlutdrægni. Til stuðnings kröfunni vísuðu þeir til 1. mgr. 6. gr. og g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  

Stefndi, Landsnet hf., mótmælti kröfu stefnenda og krafðist þess að henni yrði hafnað, enda fengi hann ekki séð að hinn sérfróði meðdómsmaður hefði nokkur tengsl við aðila eða úrlausnarefni málsins. Þá benti hann á að sá raforkusamningur sem stefnendur vísuðu til væri á milli Rio Tinto Alcan og Landsvirkjunar, en ekki Landsnets hf. Landsnet hf. væri á hinn bóginn fyrirtæki sem annaðist flutning og dreifingu orkunnar á afhendingarstað. Lögmaður íslenska ríkisins lét kröfu stefnenda ekki til sín taka.    

 Meðdómsmaðurinn Gnýr Guðmundsson er menntaður rafmagnstæknifræðingur á sterkstraumssviði og starfar hann hjá Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Samkvæmt skipuriti fyrirtækisins sinnir hann verkefnastjórnun og heyrir starf hans undir tækni- og þjónustusvið fyrirtækisins. Hann er hvorki hluthafi í fyrirtækinu né situr hann í stjórn þess. Að eigin sögn felst starf hans einkum í skipulagningu og framkvæmd lítilla og meðalstórra fjárfestingaverkefna sem aðallega snúast um endurnýjun búnaðar verksmiðjunnar. Þá kveðst hann engan aðgang hafa að samningum fyrirtækisins við Landsvirkjun, Landsnet hf. eða aðra aðalbirgja fyrirtækisins og hafi honum aldrei verið kynnt efni þeirra. Ekki verður heldur séð að hann hafi nokkru sinni tjáð sig opinberlega, hvorki í ræðu né riti, um kosti eða ókosti þess að leggja raflínur í jörð, um umhverfismat vegna lagningar Suðvesturlínu, né um fjárhagslega hagsmuni Rio Tinto Alcan eða annarra álframleiðslufyrirtækja af því að flutningur raforku verði með óbreyttum hætti. Að þessu virtu, en einnig þegar þess er gætt að Rio Tinto Alcan á enga aðild að því máli sem hér er til úrlausnar, er það mat dómsins að ekki séu fyrir hendi neinar þær aðstæður sem til þess eru fallnar að unnt sé að draga í efa óhlutdrægni meðdómsmannsins. Kröfu stefnenda um að hann víki sæti er því hafnað.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu stefnenda um að Gnýr Guðmundsson víki sæti sem sérfróður meðdómsmaður í máli þessu.