Hæstiréttur íslands
Mál nr. 408/2009
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
- Þagnarskylda
- Kærumál
- Vitni
- Kröfugerð
|
|
Þriðjudaginn 25. ágúst 2009. |
|
Nr. 408/2009. |
Davíð Heiðar Hansson(Grímur Sigurðsson hrl.) gegn Hlyni Jónssyni (sjálfur) |
Kærumál. Vitni. Fjármálafyrirtæki. Þagnarskylda. Kröfugerð. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta.
D krafðist þess að H, formanni skilanefndar
SPRON, yrði gert að svara því fyrir dómi, hver hefði verið seljandi
stofnfjárbréfa í SPRON sem D hafði keypt 24. júlí 2007, en fyrir dómi neitaði H
að svara þeirri spurningu og bar fyrir sig þagnarskylduákvæði 1. mgr. 58. gr.
laga nr. 161/2002. Vísað var til þess að samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr.
161/2002 hefði SPRON borið að færa skrá um stofnfjáreigendur og skyldu þeir
allir eiga aðgang að henni. Með því að stofnfjáreigendum væri að lögum tryggður
aðgangur að skrá, sem með samanburði frá einum tíma til annars gæti leitt í
ljós hverjir hefðu átt viðskipti með stofnfjárbréf sín á milli, gætu
upplýsingar til kaupanda stofnfjárbréfa um það eitt, hver seljandi þeirra hefði
verið, ekki varðað viðskipta- eða einkamálefni seljandans þannig að stjórnarmönnum
eða starfsmönnum sparisjóðs væri óheimilt að veita þær vegna ákvæðis 1. mgr.
58. gr. laga nr. 161/2002. Var krafa D um skyldu H til að svara spurningunni
því tekin til greina. Á hinn bóginn var kröfu D um skyldu H til að afhenda
honum hluta af lista sem lagður hafði verið fram á stjórnarfundi og hafði að
geyma umræddar upplýsingar, vísað frá Hæstarétti, þar sem ekki hafði verið
leitað úrskurðar héraðsdóms um hana.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði við vitnaleiðslu gert að svara nánar tilgreindri spurningu. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að lagt verði fyrir varnaraðila að afhenda sér „lista yfir viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON á tímabilinu 17. júlí til og með 23. júlí 2007, sem samþykkt voru á stjórnarfundi SPRON þann 24. júlí 2007, að gættu ákvæði 1. mgr. 69. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þannig að upplýsingar um aðra en sóknaraðila og viðsemjanda hans verði afmáðar úr skjalinu.“ Til vara krefst sóknaraðili að varnaraðila verði gert að svara spurningu, sem sóknaraðili beindi til hans á dómþingi 18. júní 2009, um hver væri „framseljandi stofnfjárbréfa sem samþykkt var á fundi stjórnar SPRON, dags. 24. júlí 2007, að framselja til sóknaraðila.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega „frávísunar á kröfu sóknaraðila“, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins keypti sóknaraðili hjá SPRON Verðbréfum hf. stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 24. júlí 2007 fyrir 55.543.371 krónu, en nafnverð bréfanna var 4.890.062 krónur. Á kvittun SPRON Verðbréfa hf. fyrir kaupunum var þess ekki getið hver væri seljandi stofnfjárbréfanna, en tekið var fram að framsal stofnfjárhluta væri háð samþykki stjórnar sparisjóðsins og myndu kaupin falla niður ef hún hafnaði að veita það. Samkvæmt fundargerð frá fundi stjórnar sparisjóðsins, sem haldinn var sama dag og kaupin voru gerð, var þar lagður fram „listi yfir viðskipti á stofnfjármarkaði á tímabilinu 17. júlí til og með 23. júlí 2007“ og var fært í fundargerðina að „þessi viðskipti voru samþykkt.“ Ekki var getið þar nánar um hver viðskiptin hafi verið, en í bréfi til stjórnarinnar, sem virðist hafa fylgt áðurnefndum lista, kom fram að þau hafi alls tekið til 225.714.312 stofnfjárhluta.
Sóknaraðili kveður starfsmenn sparisjóðsins hafa haft milligöngu um þessi kaup, en hann hafi ekki fengið að vita hver væri seljandi stofnfjárbréfanna þótt hann hafi leitað eftir því. Eftir kaupin hafi verðmæti stofnfjárbréfanna og hlutabréfa, sem síðar komu í þeirra stað, lækkað verulega og hafi sóknaraðili selt þau með verulegu tapi í nóvember 2007. Fram hafi komið opinberlega eftir þetta að stjórnarmenn í sparisjóðnum hafi selt verulegan hluta stofnfjárbréfa sinna dagana eftir 17. júlí 2007, en þá hafi verið ákveðið á stjórnarfundi að breyta honum í hlutafélag. Í tengslum við þá ákvörðun hafi stjórnarmenn haft undir höndum upplýsingar um verðmæti sparisjóðsins, sem aðrir hafi ekki haft aðgang að.
Fyrir liggur í málinu að Fjármálaeftirlitið hafi ákveðið 21. mars 2009 að víkja stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá störfum og setja í hennar stað skilanefnd yfir félagið, en varnaraðili er formaður hennar. Í bréfi til skilanefndarinnar 27. sama mánaðar lýsti sóknaraðili fyrrgreindum kaupum sínum á stofnfjárbréfum og kvaðst hafa ríka ástæðu til að ætla að seljandi þeirra hafi verið stjórnarmaður í sparisjóðnum. Hefði sóknaraðili í hyggju að „leita réttar síns vegna þess tjóns sem hann varð fyrir við kaup umræddra stofnfjárbréfa“, en til þess skorti hann upplýsingar um hver hafi verið seljandi þeirra, sem hann óskaði eftir að skilanefndin léti honum í té. Skilanefndin tilkynnti sóknaraðila 27. apríl 2009 að hún yrði ekki við þessari ósk nema staðfest yrði að henni bæri skylda til þess.
Með beiðni 18. maí 2009 fór sóknaraðili þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur með vísan til XII. kafla laga nr. 91/1991 að varnaraðili yrði kvaddur fyrir dóm og skyldaður til að afhenda skjal til að upplýsa hver hafi verið seljandi stofnfjárbréfa í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem sóknaraðili keypti 24. júlí 2007, eða tjá sig um efni slíks skjals. Af þessu tilefni kom varnaraðili fyrir dóm 18. júní 2009 og afhenti þar útdrátt úr áðurnefndri fundargerð stjórnar sparisjóðsins frá 24. júlí 2007, sem lá þegar fyrir meðal gagna málsins. Í skýrslu, sem tekin var af varnaraðila í þinghaldinu, kom meðal annars fram að hann hefði aðgang að lista yfir viðskipti með stofnfjárhluti, sem samþykkt hafi verið á stjórnarfundi í sparisjóðnum síðastgreindan dag, og kæmu þar fram upplýsingar um hver hafi selt sóknaraðila stofnfjárbréfin. Hann kvaðst á hinn bóginn vísa til þess að hann bæri þagnarskyldu um þessar upplýsingar samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Að þessu fram komnu var fært í þingbók að lögmaður sóknaraðila legði fyrir varnaraðila spurningu um „hver sé framseljandi stofnfjárbréfa sem umbjóðandi hans fékk framseld skv. ákvörðun stjórnar 24. júlí 2007. Hlynur Jónsson hdl. neitar að svara með vísan til 58. gr. laga nr. 161/2002. Krafan er tekin til úrskurðar.“ Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila hafnað.
II
Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður að líta svo á að úrskurður héraðsdóms snúi að því einu hvort varnaraðila beri sem vitni að svara spurningu, sem sóknaraðili lagði fyrir hann í þinghaldi 18. júní 2009 um hver hafi verið seljandi stofnfjárbréfa í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem sóknaraðili keypti 24. júlí 2007. Aðalkrafa sóknaraðila fyrir Hæstarétti lýtur sem áður segir að því að varnaraðila verði gert að afhenda honum hluta af lista, sem mun hafa verið lagður fram á stjórnarfundi í sparisjóðnum 24. júlí 2007, þar sem upplýsingar um þetta efni komi fram. Með því að ekki var leitað úrskurðar um þessa kröfu fyrir héraðsdómi verður henni ekki komið að fyrir Hæstarétti og ber af þeim sökum að vísa henni héðan frá dómi. Að öðru leyti eru ekki annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila, sem valdið gætu því að málinu verði vísað í heild frá Hæstarétti eða héraðsdómi.
Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 er mælt svo fyrir að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir, sem taka að sér verk í þágu þess, séu bundnir þagnarskyldu um allt það, sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna varðandi viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna fyrirtækisins, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Um þá þagnarskyldu, sem ákvæði þetta leggur á varnaraðila sem formann skilanefndar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, verður að líta til þess að sóknaraðili krefur hann ekki um upplýsingar, sem hann hefur aðgang að vegna starfsemi sparisjóðsins við miðlun verðbréfa í eigu annars manns, heldur um upplýsingar úr gögnum, sem lögð voru fyrir stjórnarfund í sparisjóðnum. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 161/2002 bar Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis á þeim tíma, sem sóknaraðili keypti stofnfjárbréf í honum, að færa skrá um stofnfjáreigendur og skyldu þeir allir eiga aðgang að henni. Augljóst er að samanburður á slíkri skrá frá einum tíma til annars getur í einstaka tilvikum sýnt hverjir hafi átt viðskipti sín á milli um stofnfjárbréf í sparisjóði. Með því að stofnfjáreigendum er að lögum tryggður aðgangur að skrá, sem leitt getur þetta í ljós, geta upplýsingar til kaupanda stofnfjárbréfa um það eitt, hver seljandi þeirra hafi verið, ekki varðað viðskipta- eða einkamálefni seljandans þannig að stjórnarmönnum eða starfsmönnum sparisjóðs sé óheimilt að veita þær vegna ákvæðis 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Þegar af þessum sökum verður varakrafa sóknaraðila tekin til greina á þann hátt, sem í dómsorði segir.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Vísað er frá Hæstarétti kröfu sóknaraðila, Davíðs Heiðars Hanssonar, um að varnaraðila, Hlyni Jónssyni, verði gert að afhenda sér lista yfir viðskipti á stofnfjármarkaði Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem samþykkt voru á stjórnarfundi sparisjóðsins 24. júlí 2007.
Varnaraðila er skylt að svara fyrir dómi spurningu sóknaraðila um hver hafi verið seljandi stofnfjárbréfa í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem sóknaraðili keypti 24. júlí 2007.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2009.
Mál
þetta barst dóminum með beiðni mótekinni 20. maí 2009 og var tekið til
úrskurðar 18. júní sl. Í beiðninni kemur fram að Grímur Sigurðsson, hrl., þurfi
fyrir hönd Davíðs Heiðars Hanssonar, kt. 280763-5439, að leita sönnunar fyrir
Héraðsdómi Reykjavíkur um atvik sem varði lögvarða hagsmuni hans og geti ráðið
úrslitum um málshöfðun, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála nr.
91/1991.
Beiðnin lúti að upplýsingum sem hafi komið fram á fundi
stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), sem haldinn hafi verið
þann 24. júlí 2007 eða 1. ágúst 2007. Nánar tiltekið sé óskað eftir því að
upplýst verði hver hafi verið seljandi stofnfjárbréfa sem Davíð Heiðar Hansson
keypti þann 24. júlí 2007, en framsalið hafi verið samþykkt á stjórnarfundi
SPRON annað hvort 24. júlí eða 1. ágúst 2007.
Þann 21. mars 2009 hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun að víkja stjórn SPRON í heild sinni frá störfum. Fjármálaeftirlitið hafi á sama tíma sett skilanefnd yfir SPRON sem hafi tekið við öllum heimildum stjórnar frá og með þeim tíma. Réttur fyrirsvarsmaður SPRON skv. 4. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sé því skilanefnd SPRON og formaður fyrir hennar hönd. Beiðni þessi beinist því að formanni skilanefndar SPRON, enda hafi sú stjórn og sá framkvæmdastjóri sem stýrði sparisjóðnum á þeim tíma sem atvik málsins áttu sér stað engan aðgang að þeim gögnum sem um ræðir. Hann hafi aðeins skilanefndin.
Með hliðsjón af framansögðu sé
þess krafist að dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur boði Hlyn Jónsson, hdl.,
formann skilanefndar SPRON, kt. 190470-4159, Breiðási 7, 210 Garðabæ á
dómþing sem haldið verði á grundvelli 2. mgr. 68. gr. eml., sbr. 2. og 4. mgr.
67. gr. laganna, og í kjölfarið kveði dómari upp úrskurð um skyldu skilanefndar
SPRON til að afhenda skjalið, þó að teknu tilliti til 1. mgr. 69. gr. laganna,
enda séu einu upplýsingarnar úr umræddri fundargerð, sem hafi þýðingu fyrir
umbjóðanda minn, hver hafi verið seljandi stofnfjárbréfanna.
Við fyrirtöku
málsins á dómþingi 18. júní sl. afhenti Hlynur Jónsson hdl. fundargerð stjórnar
SPRON dags. 24. júlí 2007. Kom þá í ljós að þar koma ekki fram upplýsingar um
hver hafi verið framseljandi stofnbréfa sem sóknaraðili fékk framseld samkvæmt
ákvörðun stjórnar þann 24. júlí 2007. Í kjölfarið neitað varnaraðili, með vísan
til 58. gr. laga nr. 161/2002, að svara spurningu varðandi það hver sé
framseljandi stofnfjárbréfanna.
II.
málavextir eins og þeim er lýst af hálfu sóknaraðila
Sóknaraðili
keypti þann 24. júlí 2007 stofnfjárbréf í SPRON að fjárhæð kr. 55.543.371,-.
Verðbréfasvið SPRON hafði milligöngu um söluna, en sóknaraðili var ekki
upplýstur um hver seljandi bréfanna var.
Sala bréfanna var háð því skilyrði að stjórn SPRON
myndi samþykkja framsal þeirra, enda er framsal stofnfjárbréfa óheimilt nema
með samþykki stjórnar sparisjóðs skv. 64. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr.
161/2002.
Á fundi stjórnar SPRON, sem haldinn var 24. júlí eða
1. ágúst 2007 samþykkti stjórn SPRON framsal á umræddum stofnfjárhlutum til
sóknaraðila. Við það varð sóknaraðili eigandi bréfanna.
Þann 7. ágúst 2007 voru viðskipti með stofnfjárbréf
SPRON stöðvuð. Í kjölfarið var sparisjóðnum breytt í hlutafélag og það skráð
opinberri skráningu í kauphöll. Skemmst er frá því að segja að verðmæti
stofnfjárbréfanna og síðar hlutabréfanna hríðlækkaði frá því sóknaraðili keypti
bréfin. Nokkrum mánuðum eftir kaup stofnfjárbréfanna seldi sóknaraðili þau með
miklu tapi.
Nafnverð stofnfjárhlutanna sem sóknaraðili keypti
þann 24. júlí 2007 var kr. 4.890.062,-. Um var að ræða stóran hlut í
sparisjóðnum, u.þ.b. 0,1% útgefinna stofnfjárbréfa. Ljóst er að ekki gátu
margir stofnfjáreigendur selt slíkt magn hluta í einu lagi og eðlilega koma
eingöngu stærstu stofnfjáreigendur sparisjóðsins til greina.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða
stofnfjáreigendur seldu hluti sína á þessum tíma, aðrar en þær að þrír af fimm
stjórnarmönnum sjóðsins seldu verulegan hluta stofnfjárbréfa sinna eftir 17.
júlí 2007, en þann dag samþykkti stjórnin að breyta sparisjóðnum í hlutafélag
og skrá hlutafé félagsins í kauphöll.
Ekki
liggur þó fyrir hvort sóknaraðili hafi keypt stofnfjárbréf af stjórnarmönnum
sjóðsins eða öðrum.
Ljóst er að staða stærstu stofnfjáreigenda
sparisjóðsins á þessum tíma var misjöfn þegar kemur að aðgengi að upplýsingum
um verðmæti stofnfjárbréfa sjóðsins. Stjórnarmenn sjóðsins höfðu nákvæmar og
ítarlegar upplýsingar um stöðu sparisjóðsins og þar með verðmæti bréfanna,
langtum ítarlegri upplýsingar en utanaðkomandi aðilar. Má m.a. benda á verðmat
Capacent á sparisjóðnum, dags. 23. maí 2007, sem lagt var fyrir stjórnina á
fundi hennar þann 17. júlí 2007, en aðrir höfðu ekki aðgang að verðmatinu.
Stjórnarmenn gátu því spáð fyrir um verðþróun stofnfjárbréfa og hlutabréfa í
sparisjóðnum með miklu meiri nákvæmni en aðrir aðilar.
Þann 25. september 2008 voru þáverandi stjórnarmenn
SPRON, Hildur Petersen, Gunnar Þór Gíslason og Ásgeir Baldurs kærð til lögreglu
fyrir brot á 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk þess sem
stjórnarmennirnir Erlendur Hjaltason og Ari Bergmann Einarsson, auk Guðmundar
Haukssonar, sparisjóðsstjóri, voru kærðir fyrir hlutdeild í brotum
stjórnarmannanna. Þann 18. desember 2008 tók ríkislögreglustjóri þá ákvörðun að
hefja ekki rannsókn á málinu, en ríkissaksóknari felldi þá ákvörðun úr gildi
þann 10. febrúar 2009. Sala umræddra stjórnarmanna á stofnfjárbréfum sínum er
því til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum sem hugsanleg fjársvik og þar með
brot á 248. gr. almennra hegningarlaga.
Þá telur sóknaraðili að einnig verði að skoða sölu
stjórnarmannanna á stofnfjárbréfum sínum út frá þágildandi IX. kafla laga nr.
33/2003 um verðbréfaviðskipti, þar sem m.a. er lagt bann við misnotkun á
innherjaupplýsingum. Þar sem stjórn SPRON hafði samþykkt að breyta sjóðnum í
hlutafélag og skrá hlutafé þess opinberri skráningu á markað þann 17. júlí
2007, hljóta ákvæði verðbréfaviðskiptalaga um innherjaviðskipti að hafa gilt um
viðskipti stjórnarmanna upp frá því.
III.
málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili telur
verulegar líkur fyrir því að þau stofnfjárbréf sem hann keypti þann 24. júlí
2007, hafi fyrir söluna verið í eigu stjórnarmanns SPRON. Sé það rétt, telur
sóknaraðili að hann eigi kröfu á hendur viðkomandi stjórnarmanni vegna þess
tjóns sem hann varð fyrir vegna kaupanna. Krafan er byggð á almennum reglum
kröfuréttar um eiginleika söluhlutar, sbr. ákvæði laga nr. 50/2000, og á
ógildingarreglum samningaréttarins, sbr. ákvæði laga nr. 7/1936. Nánar tiltekið
yrði krafa sóknaraðila byggð á eftirfarandi röksemdum:
1.
Stjórnarmaður í SPRON hafði á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram
upplýsingar um verðmæti sparisjóðsins og þar með bréfanna, sem sóknaraðili
hafði ekki.
2.
Stjórnarmanninum bar að eyða þeirri misfellu sem þannig skapaðist milli
aðila á grundvelli upplýsinga um hið selda. Það var ekki gert og því nýtti
stjórnarmaðurinn sér upplýsingar sem hann fékk sem stjórnarmaður í SPRON með
óheiðarlegum og saknæmum hætti, sjálfum sér til hagsbóta en til tjóns fyrir
viðsemjanda sinn.
3.
Stofnfjárbréfin voru því haldin galla, sem réttlætir kröfu um afslátt,
skaðabætur eða riftun á grundvelli laga nr. 50/2000.
4.
Þá verður að telja sölu bréfanna hafa verið óheiðarlega skv. 33. gr.
samningalaga nr. 7/1936 og ósanngjarna skv. 36. gr. sömu laga. Gerningurinn sé
því ógildanlegur. Þá er verið að rannsaka hvort sala bréfanna hafi falið í sér
fjársvik, sem réttlætir ógildingu samningsins á grundvelli 30. gr. laganna.
5.
Almennar reglur skaðabóta- og kröfuréttarins leiða til sömu niðurstöðu,
þ.e. að umbjóðandi minn eigi kröfu á hendur viðkomandi stjórnarmanni til að
bæta það tjón sem sóknaraðili varð fyrir vegna viðskiptanna.
Af
framansögðu sést að umbjóðanda mínum er nauðsynlegt að fá upplýsingar um hver
það var sem var seljandi þeirra bréfa sem hann keypti þann 24. júlí 2007.
Þörfin fyrir upplýsingarnar er tvenns konar:
1.
Í fyrsta lagi er sóknaraðila nauðsynlegt að fá upplýsingar um seljanda
bréfanna einfaldlega til að geta höfðað mál vegna sölunnar. Ef viðsemjandi
sóknaraðila er óþekktur er sóknaraðila ómögulegt að höfða slíkt dómsmál.
2.
Í öðru lagi er sóknaraðila nauðsynlegt að vita hvort seljandi bréfanna
hafi verið stjórnarmaður í SPRON, eða annar aðili sem bjó yfir
innherjaupplýsingum um stöðu sparisjóðsins. Þá og því aðeins að þær upplýsingar
liggi fyrir getur sóknaraðili tekið ákvörðun um hvort umrædd viðskipti gefi
tilefni til höfðunar dómsmáls.
Af þessu
tilefni sendi lögmaður sóknaraðila kröfu til skilanefndar SPRON þann 27. mars
sl., þar sem farið var fram á upplýsingar um seljanda bréfanna. Beiðnin byggði
á því að á stjórnarfundi 24. júlí eða 1. ágúst 2007 var framsal bréfanna
samþykkt á grundvelli 64. gr. laga nr. 161/2002. Því er að finna í bókun
stjórnarfundarins upplýsingar um seljanda bréfanna.
Í
beiðninni var m.a. vísað til fordæmis fyrir sams konar gagnaframlagningu af
hálfu stjórnar SPRON. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var rekið málið nr.
E-928/2008, Insolidum ehf., Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson gegn Saga
Capital Fjárfestingabanka hf. Undir rekstri málsins fóru stefnendur fram á að
dómari úrskurðaði að stjórn SPRON væri skylt að leggja fram gögn um framsal á
stofnfjárbréfum til stefnanda Insolidum ehf. á grundvelli 2. mgr. 68. gr. laga
nr. 91/1991. Fyrir lá að stjórn SPRON heimilaði framsal á stofnfjárhlutum til
Insolidum ehf. á stjórnarfundi þann 24. júlí 2007 og kom fram í ákvörðuninni
hver væri seljandi hlutanna. Voru það upplýsingarnar sem stefnandi fór fram á.
Dómari sendi þáverandi sparisjóðsstjóra kvaðningu
fyrir dóm þann 3. desember 2008. Ekki kom þó til fyrirtöku þar sem stjórn SPRON
lagði bæði fram upplýsingar um framsalið sem samþykkt var 24. júlí 2007, sem og
upplýsingar um verðmat Capacent, sem lagt var fyrir stjórnarfund 17. júlí 2007.
Það er því skýrt fordæmi fyrir því að kaupendur
stofnfjárbréfa hafi aðgang að upplýsingum um seljanda, sem lagðar eru fyrir
stjórn sparisjóðsins á grundvelli 64. gr. laga nr. 161/2002. Umbjóðandi minn
verður að vera eins settur og aðrir stofnfjáreigendur að þessu leyti, og á ekki
að skipta máli þó skilanefnd stýri bankanum í dag, en stjórn áður.
Skilanefnd SPRON sendi hins vegar lögmanni sóknaraðila
tölvupóst þann 27. apríl sl., þar sem segir: „Við munum ekki afhenda þessi gögn nema staðfest verði að okkur beri
skylda til þess.“
Krafan um framlagningu bókunar á stjórnarfundi SPRON
þann 24. júlí eða 1. ágúst 2007, þar sem fram koma upplýsingar um hver seljandi
í viðskiptunum var, byggist á eftirfarandi rökum og sjónarmiðum:
Krafan
er sett fram á grundvelli 3. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála nr.
91/1991, sbr. 2. mgr. 77. gr. laganna. Sóknaraðili telur skilyrði 2. mgr. 77.
gr. laganna ótvírætt uppfyllt, enda varðar það lögvarða hagsmuni hans hver var
seljandi stofnfjárbréfanna í júlí 2007, auk þess sem sú staðreynd hefur
úrslitaáhrif um hvort höfðað verði dómsmál vegna sölunnar, sbr. það sem áður
segir.
Þá telur
umbjóðandi minn að skilanefnd SPRON sé skylt að afhenda honum skjalið, auk þess
sem efni þess er slíkt að skilanefndarmönnum sé skylt að bera vitni um það
fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 67. gr. eml.
Sóknaraðili á rétt á að fá skjalið þ.e. bókun
stjórnarfundar SPRON um framsal á stofnfjárbréfum til hans þar sem í skjalinu
koma fram upplýsingar um hann sjálfan. Þegar af þeirri ástæðu er skjalið ekki
bundið þagnarskyldu gagnvart sóknaraðila, sbr. m.a. 60. gr. laga um
fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Þá hefur stjórn SPRON áður afhent kaupanda stofnfjárbréfa
sams konar gögn, sbr. fyrr. Þar af leiðandi dugar ekki skilanefnd SPRON að bera
fyrir sig þagnarskyldu í tilviki sóknaraðila það sama verður að ganga yfir
alla.
Skilanefnd SPRON er því skylt að afhenda sóknaraðila
skjalið. Þá er skilanefnd SPRON og fyrrverandi stjórnarmönnum SPRON einnig
skylt að bera vitni um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 51. gr. eml., enda engin
ákvæði í lögum nr. 91/1991 eða 161/2002 sem réttlæta það að halda upplýsingunum
leyndum. Þá verður að taka mið af því við hagsmunamatið að fái sóknaraðili ekki
umbeðnar upplýsingar er hann sviptur stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að fá
úrlausn fyrir dómi um réttindi sín og skyldur, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar
nr. 33/1944. Með öðrum orðum getur sóknaraðili ekki höfðað dómsmál gegn
seljanda stofnfjárbréfanna ef hann veit ekki hver hann er. Hagsmunir
sóknaraðila eru því langtum þyngri á metunum en meintir hagsmunir stjórnar eða
skilanefndar SPRON af því að halda upplýsingunum leyndum.
Þá verður að benda á að af svari skilanefndar SPRON
má ráða að ekki liggi efnislegar forsendur að baki synjuninni, heldur þurfi
skilanefnd SPRON að hafa í höndunum úrskurð yfirvalds sem kveður á um skyldu
skilanefndarinnar til að afhenda upplýsingarnar.
IV
NIÐURSTAÐA
Varnaraðili
hefur afhent sóknaraðila skjal það sem beiðni hans lýtur að. Varnaraðili neitar
hins vegar, með vísan til 58. gr. laga nr. 161/2002, að svara spurningu
sóknaraðila varðandi það hver sé framseljandi stofnfjárbréfa sem sóknaraðili
keypti hinn 24. júlí 2007.
Í 58.
gr. laga nr. 161/2002, sem er sérákvæði um þagnarskyldu starfsmanna
fjármálafyrirtækja, eru starfsmennirnir bundnir þagnarskyldu um allt það sem
þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða
einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt
lögum.
Samkvæmt ákvæðinu víkur þagnarskyldan því aðeins þegar skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögum.
Þar sem
engin lagaskylda hvílir á varnaraðila að veita umkrafðar upplýsingar verður
ekki hjá því komist að hafna kröfu sóknaraðila.
Þorgerður
Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu
sóknaraðila, Davíðs Heiðars Hanssonar, er hafnað.