Hæstiréttur íslands

Mál nr. 681/2012


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Líkamsárás
  • Fíkniefnalagabrot
  • Hegningarauki
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 2. maí 2013.

Nr. 681/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Eggerti Jens Birgissyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Páll Arnór Pálsson hrl. f.h. brotaþola)

Brot gegn valdstjórninni. Líkamsárás. Fíkniefnalagabrot. Hegningarauki. Skaðabætur.

E var sakfelldur í héraði fyrir brot gegn valdstjórninni samkvæmt 1. mgr. 106. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, líkamsárás á lögreglumanninn A samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laganna auk brots gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist að lögreglumanninum B og vörslur fíkniefna. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir líkamsárás á C samkvæmt 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að árás E á lögreglumanninn A hafi verið afar fólskuleg og hættuleg. Þá hafi árás hans á lögreglumanninn B verið gróf og árásin á C algerlega tilefnislaus. Lagaheimild var ekki talin vera fyrir hendi til að taka upp óskilorðsbundinn dóm er E hafði hlotið 18. maí 2012 líkt og héraðsdómur hafði gert. Var refsing E talin hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði  sem ekki voru talin efni til að skilorðsbinda í ljósi alvarleika málsins og sakarferils E. Þá voru miskabætur til handa A hækkaðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2012 og krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur, en til vara að ákærði verði sakfelldur samkvæmt tveimur ákærum og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að refsing verði milduð.

A krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 548.300 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2011 til 13. október 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

I

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru ríkissaksóknara 27. ágúst 2012 fyrir að hafa aðfaranótt 2. júlí 2011, í fangageymslu lögreglustöðvarinnar á [...], ráðist með ofbeldi á lögreglumanninn A, sem þar var að gegna skyldustöfum, og slegið hann hnefahöggi í andlit og skallað hann því næst í andlit, veitt honum ítrekuð hnefahögg í höfuð og tvö hnéspörk í andlit. Afleiðingar árásarinnar voru þær að A nefbrotnaði, hlaut bólgu og mar á vinstra eyra og kúlu hægra megin á hnakka. Þá var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sömu nótt, skömmu eftir fyrrgreinda árás, í fangaklefa á lögreglustöðinni, ráðist með ofbeldi á lögreglumanninn B, sem þar var að gegna skyldustörfum, með því að þrífa í hálsmál hans, þrengt að hálsinum og slegið hann hnefahöggi í andlit með þeim afleiðingum að nefið bólgnaði. Ennfremur var ákærði sakfelldur fyrir að hafa að kvöldi 1. júlí 2011 haft í vörslum sínum 0,36 g af marihúana, sem lögreglumenn fundu við leit á ákærða. Ákærði var einnig sakfelldur með hinum áfrýjaða dómi samkvæmt ákæru lögreglustjórans á [...] 17. september 2012 fyrir að hafa að kvöldi 1. júlí 2011, í veitingasal á [...], [...] [...], veist að C með því að slá hann hnefahöggi í andlit svo hann féll við og eftir það sparkað í kvið hans þar sem hann lá í gólfinu, allt með þeim afleiðingum að C hlaut eymsli í vinstri brjósthelming, sár á nefi og glóðarauga á vinstra auga. Brot ákærða eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi.

II

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var ákærði dæmdur 18. maí 2012 í tveggja  mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti.  Héraðsdómari tók þann dóm upp og dæmdi bæði málin í einu lagi „eftir reglum 78. gr. sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940“ og gerði ákærða að sæta 8 mánaða skilorðsbundinni fangelsisrefsingu. Umrætt ákvæði almennra hegningarlaga er í VI. kafla þeirra, en hann tekur til skilorðsbundinnar frestunar ákæru og skilorðsbundinna dóma. Var því engin lagaheimild til þess að taka upp hinn óskilorðsbundna dóm, en það leiðir þó ekki til þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.

III

Árás ákærða á lögreglumanninn A, þar sem ákærði sló hann ítrekað hnefahöggum í höfuð og sparkaði með hné í andlit hans, var afar fólskuleg og hættuleg. Þá var atlaga ákærða að hálsi lögreglumannsins B gróf, en jafnframt sló ákærði lögreglumanninn hnefahöggi í andlit. Einnig var árás ákærða á C algerlega tilefnislaus. Á móti kemur að ákærði játaði brot sín greiðlega. Að þessu virtu og með vísan til 1., 3. og 6. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, svo og með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. sömu laga, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem ekki eru efni til að skilorðsbinda í ljósi alvarleika málsins og sakaferils ákærða.

Miskabætur til handa A eru hæfilega ákveðnar 350.000 krónur og þá verður krafa hans um þjáningabætur að fjárhæð 48.300 krónur tekin til greina. Samkvæmt því verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 398.300 krónur í bætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. júlí 2011 til 13. október 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærða verður gert að greiða brotaþola 150.000 krónur við að halda kröfunni fram í héraði, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og 125.000 krónur fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Eggert Jens Birgisson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði A 398.300 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2011 til 13. október 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði brotaþola 150.000 krónur í málskostnað í héraði og 125.000 krónur fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 222.564 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 11. október 2012.

                Mál þetta sem dómtekið var í dag er höfðað með tveimur ákærum, hinni fyrri útgefinni af ríkissaksóknara 27. ágúst 2012 og hinni síðari útgefinni 17. september 2012 af lögreglustjóranum á […] á hendur Eggerti Jens Birgissyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin á lögreglustöðinni á [...]:

1.     Fíkniefnalagabrot með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 1. júlí 2011, haft í vörslum sínum 0,36 g af maríhúana, sem lögreglumenn fundu við öryggisleit á ákærða.

M. 031-2011-1954

                Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

2.     Brot gegn valdstjórninni og líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 2. júlí 2011, í fangageymslu lögreglustöðvarinnar á [...], ráðist með ofbeldi á lögreglumanninn A, sem var þar að gegna skyldustörfum. Ákærði sló A hnefahöggi í andlitið og skallaði hann því næst í andlitið, þá veitti hann A ítrekuð hnefahögg í höfuðið, og loks veitti hann A tvö hnéspörk í andlitið. Við atlöguna nefbrotnaði A, hlaut bólgu og mar á vinstra eyra og kúlu hægra megin á hnakka.

M. 033-2011-4593

                Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3.     Brot gegn valdstjórninni með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 2. júlí 2011, skömmu eftir atvik þau sem lýst er í ákærulið 2, í fangaklefa nr. 1 á lögreglustöðinni, ráðist með ofbeldi á lögreglumanninn B, sem var þar að gegna skyldustörfum, en ákærði þreif í hálsmál B og þrengdi að hálsinum og sló því næst B hnefahöggi í andlitið, með þeim afleiðingum að nefið bólgnaði.

M. 033-2011-4593

                Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er krafist upptöku á 0,36 g af maríhúana, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

                Einkaréttarkrafa:

                Af hálfu A, kt. [...], gerir Grímur Hergeirsson hdl. þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola, bætur að fjárhæð kr. 548.300,- með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu á þóknun lögmanns brotaþola að teknu tilliti til virðisaukaskatts, aðallega samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi en til vara samkvæmt mati héraðsdóms.

                Seinni ákæran fékk málanúmerið S/-766/201 og voru málin sameinuð við þingfestingu undir númerinu S-687/2012.

                Í seinni ákærunni er sakborningurinn ákærður  fyrir líkamsárás með því að hafa að kvöldi föstudagsins 1. júlí 2011 í veitingasal á [...], [...], veist að C, kt. [...] með því að slá hann hnefahöggi í andlitið svo hann fell við og eftir það sparkað í kvið hans þar sem hann lá í gólfinu, allt með þeim afleiðingum að C hlaut eymsli í vinstri brjósthelmingi, sár á nefi og glóðarauga á vinstra auga.

                Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Einkaréttarkrafa:

                Í málinu gerir Jón Ármann Guðjónsson, f.h. brotaþola, C, þá kröfu að brotamanni verði gert að greiða skaðabætur að fjárhæð 500.000 krónur.

                Ákærði hefur krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi kröfu um málsvarnarlaun.

                Um málavexti er vísað til ákæru.

                Ákærði hefur í þinghaldinu í dag játað þær sakir sem hann er borinn í ákæru. Hann hefur ekki mótmælt bótaskyldu en krafist þess að bætur verði lækkaðar verulega frá því sem krafist er. Varðandi bótakröfu brotaþolans C telur dómari hana svo vanbúna, bæði varðandi gögn, uppsetningu og rökstuðning að óhjákvæmilegt sé að vísa henni frá dómi án kröfu. Bótakrafa A verður tekin til greina með þeirri breytingu til lækkunar að miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 lækka úr 500.000 krónum í 250.000 krónur. Þjáningabætur standa óbreyttar í 48.300 krónum.

                Verður mál þetta því dæmt samkvæmt heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en með skýlausri játningu ákærða, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar eru réttilega heimfært til refsiákvæða. Hvorugur málsaðili hefur gert kröfu um að aðalmeðferð fari fram.

                Dómari gaf sækjanda og verjanda kost á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærði hefur lagt fram vottorð um meðferð á Sjúkrahúsinu Vogi frá 3. til 12. nóvember 2011 dvöl í eftirmeðferð á Staðarfelli frá 16. ágúst til 13. september 2011. Ákærði fer nú sameiginlega við móður með forsjá tveggja sona sinna, tveggja og þriggja ára og er í fullri vinnu.

Ákærði sem fæddur er [...] á ekki að baki neinn sakaferil þar sem ofbeldi kemur við sögu. Ákærði hlaut þann 18. maí 2012 tveggja mánaða fangelsi og var sviptur ökurétti ævilangt frá þeim degi fyrir að aka sviptur ökuréttindum undir áhrifum fíkniefna (1. sbr. 2. mgr. 45a gr. umferðarlaga).

Verður síðastnefndur dómur því dæmdur upp og málin bæði tekin til meðferðar og dæmd í einu lagi eftir reglum 78. gr. sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 8 mánaða fangelsi. Ljóst er af málsgögnum að ákærði framdi brot sín með eins dags millibili í áfengisvímu sem hann sjálfur ber ábyrgð á að hafa komið sér í. Hann hefur sannanlega reynt að ráða bót á þeim vanda sem hún kom honum í. Vísað er til 5. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. laga 88/2008. Eins og staða ákærða er nú og rakið hefur verið og í ljósi þess að hann baðst strax afsökunar á framkomu sinni og lét í ljós iðrun sína, þykir að öllu virtu rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og ákveða að hún skuli niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr.4. gr. laga nr. 22/1955.

Samkvæmt 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar eins og segir í dómsorði.

Einar Tryggvason aðstoðarsaksóknari sótti málið.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Eggert Jens Birgisson, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hólmgeirs Elíasar Flosasonar 151.310 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti sækjanda vegna læknisvottorðs 17.250 krónur.

Þá skal ákærði greiða A 298.300 krónur í skaðabætur, auk 87.850 króna vegna kostnaðar við að halda kröfunni til laga.

Bótakröfu C er vísað frá dómi.