Hæstiréttur íslands

Mál nr. 104/2003


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ítrekun
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. október 2003.

Nr. 104/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Bjarna Leifi Péturssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Ítrekun. Miskabætur.

B var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að S með vasahníf að vopni og skorið hann í andliti. Hlaut S skurð frá vinstra gagnauga og niður undir neðri vör sem þurfti að sauma með 20 sporum, auk annarra áverka. B átti að baki afar langan sakaferil. Refsing hans, að teknu tilliti til ákvæðis 218. gr. a, svo og 77. gr. laganna, var ákveðin fangelsi í 6 mánuði með vísan til 1. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. B var og dæmdur til greiðslu bóta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms, þó þannig að bætur til handa brotaþola beri almenna vexti frá 5. janúar 2000 til 1. apríl 2000 en dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og  verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

 Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu S verði vísað frá dómi.

Mál þetta var höfðað með ákæru 22. maí 2000 þar sem ákærða var gefin að sök líkamsárás með því að hafa að morgni 9. nóvember 1999 veist að S með vasahníf að vopni og skorið hann í andlit. Er áverkum S nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Brotið er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Þar er því einnig lýst að ekki hafi tekist að birta ákærða fyrirkall fyrr en 18. nóvember 2002 vegna dvalar hans erlendis.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis með þeirri athugasemd að héraðsdómari vitnar ranglega til 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála varðandi umfjöllun um skýrslu SB hjá lögreglu 4. janúar 2000 og vitnisburð hans fyrir dómi við framhald aðalmeðferðar málsins 3. febrúar 2003.

Ákærði á að baki afar langan sakaferil. Með dómi Hæstaréttar 4. maí 1995, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1276, var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Verður því að ákveða honum refsingu nú að teknu tilliti til ákvæðis 218. gr. a laganna, sbr 12. gr. laga nr. 20/1981. Við ákvörðun refsingar verður á hinn bóginn einnig að líta til 77. gr. almennra hegningarlaga og þess að nokkuð langt er um liðið síðan brotið var framið, en ekki verður af gögnum málsins ráðið að við ákærða sé að sakast þótt dvöl hans erlendis hafi valdið því að ákæra var ekki birt honum fyrr. Að þessu virtu og að teknu tilliti til 1. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans varðandi ákvörðun refsingar ákærða.

Með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur, en ekki hefur verið krafist hækkunar þeirra fyrir Hæstarétti. Bera bæturnar vexti samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989, frá 5. janúar 2000 til 1. apríl sama árs, en dráttarvexti frá þeim tíma eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að tildæmdar miskabætur bera 0,9% ársvexti frá 5. janúar 2000 til 21. þess mánaðar, 1,2% ársvexti frá þeim degi til 21. febrúar 2000, 1,4% ársvexti frá þeim degi til 1. apríl 2000 en dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100. 000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2003.

Málið er höfðað með ákæruskjali dags. 22. maí 2000 á hendur Bjarna Leifi Péturs­syni, [ . . . ],

“fyrir líkamsárás með því að hafa, að morgni þriðjudagsins 9. nóvember 1999, í íbúð að Lindargötu 60 í Reykjavík, veist að S með vasahníf að vopni og skorið hann í andliti.  Hlaut S skurð frá vinstra gagnauga og niður undir neðri vör sem þurfti að sauma með 20 sporum og auk þess tvo litla skurði á vinstri augabrún sem voru saumaðir með 2 sporum hvor skurður.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Af hálfu S er gerð krafa um það að ákærði verði dæmdur til að greiða honum samtals bætur að fjárhæð kr. 500.000 auk lögmanns­kostnaðar kr. 58.515.  Þá er krafist dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá 5. janúar 2000.

Verjandi ákærða gerir þær kröfur aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfu ákæru­valdsins.  Til vara er þess krafist að ákærða verði ekki gerð sérstök refsing í málinu en til þrautavara að ákærði hljóti vægustu refsingu er lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin.  Þá er þess krafist að bótakröfu S verði vísað frá dómi en til vara er krafist verulegrar lækkunar hennar.  Þá verði sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda greiddur úr ríkissjóði

 

Mál þetta var endursent ríkissaksóknara með bréfi, dagsettu 8. desember 2000, þar sem ekki hafði tekist að birta fyrirkall á hendur ákærða vegna dvalar hans erlendis.  Málið barst héraðsdómi að nýju með bréfi, dagsettu 13. nóvember 2002, þar sem upp­lýs­ingar lágu fyrir um að ákærði væri staddur hér á landi. Ákærða var birt fyrirkall þann 18. nóvember 2002.

 

Málavextir:

Þriðjudaginn 19. nóvember 1999 kl. 11.07 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um líkamsárás að Lindargötu 60.  Þegar lögreglumenn komu á staðinn stóð S þar utan dyra.  Var hann alblóðugur og með skurð vinstra megin á and­liti.  Greindi hann frá því að ákærði, Bjarni Leifur, hefði skorið hann í andlitið vegna deilna um áfengisflösku í húsnæðinu.  Kvað hann ákærða vera farinn af vett­vangi.  Var S færður með sjúkrabifreið á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur til meðferðar.  Á staðnum var einnig E og var hann skv. frumskýrslu áber­andi ölvaður en hann kvaðst hafa verið vitni að atburðunum.  Var hann færður á lög­reglustöðina og vistaður í fangageymslu.

Í frumskýrslu kemur fram að Lindargata 60 sé tveggja hæða hús sem greinilega hafi verið yfirtekið af útigangs- og óreglumönnum.  Innan dyra var þar allt í óreiðu, mat­arleifar og alls kyns rusl um alla ganga.  Ekki sé hiti eða rafmagn á húsinu.  Á efri hæð þess, sem er stofa, eldhús, baðherbergi og tvö svefnherbergi, en í öðru svefn­herbergja voru ummerki eftir átök og þar var blóðpollur á gólfi og einnig blóðblettur á teppi við stigagang efri hæðar og í þrepum stigans.  Leit innan dyra að meintu árásar­vopni var án árangurs. 

Lýst var eftir ákærða auk þess sem tæknideild lögreglu myndaði vettvang.  Sama dag lagði S fram kæru á lögreglustöðinni í Reykjavík vegna at­­burðarins.  Kvaðst hann hafa verið staddur á efri hæð hússins ásamt ákærða og þeim SB og Ó.  Þá hafi verið þar annar maður sem hann vissi ekki deili á.  Þeir hafi verið þarna við drykkju.  Ákærði hafi komið inn í húsið í annarlegu ástandi en hann hafði verið búinn að vera í LSD neyslu í 3-4 daga og verið mjög ruglaður.  Hafi hann byrjað að ásaka kæranda um að hafa stolið frá honum víni.  Hafi hann orðið mjög æstur og skyndilega dregið vasahníf úr jakkavasa sínum og opnað hann.  Hafi ákærði reynt að stinga hann með hnífnum en SB hafi náð að stoppa það af.   Hafi ákærði síðan skorið hann í andlitið með hnífnum. Að því búnu hafi ákærði farið af vettvangi.

Samkvæmt vottorði Egils R. Sigurgeirssonar, læknis á slysa- og bráðamóttöku Sjúkra­húss Reykjavíkur, var komið með kæranda á slysadeild um kl. 11.27.  Við skoðun var hann sagður undir áhrifum áfengis og líklega einhverra efna.  Á andliti var að sjá skurð sem náði frá vinstra gagnauga niður eftir kinn og niður undir vör.  Var sárið saumað saman með tuttugu sporum og tvö spor í sitt hvorn skurðinn á augabrún en hann var auk áðurgreindra áverka með tvo litla skurði á vinstri augabrún. 

 

Við þingfestingu málsins 26. nóvember neitaði ákærði sök. Kvaðst hann ekki hafa komið nálægt S á nokkurn hátt og kvaðst ekkert um málið vita.  Dómari brýndi fyrir ákærða að mæta við aðalmeðferð málsins og benti honum afleið­ingar þess ef hann gerði það ekki.  Ákærði boðaði ekki forföll við aðalmeðferð en lög­maður hans var mættur.

 

Vitnið, S, kvaðst hafa verið við áfengisneyslu ásamt ákærða umrætt sinn.  Hafi þeir verið á þvælingi húsnæðislausir og ratað í autt hús á Lind­argötu.  Þar hafi þeir falið smávegis af víni þegar vitnið fór úr húsinu.  Hann hafi síðar um daginn verið ásamt R, SB og E á Lindargötu 60 þegar ákærði kom og bar upp á vitnið að hann hefði stolið áfenginu.  Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða í áratugi en umrætt sinn hafi ákærði verið ruglaður af neyslu og með ofskynjanir.  Hafi vitnið reynt að segja honum að vínið væri þarna ennþá en ákærði hafi þá tryllst.  Ákærði hafi verið með flugbeittan vasa­hníf, að hann minni með rauðu plastskafti, sem hann hafi reynt að stinga hann með en vitnið hafi getað vikið sér undan.  Hnífinn hafi hann að öllum líkindum verið með á sér en það hafi verið hans vandi.  Síðar hafi honum tekist að slá til hans með hnífnum og hafi lagið lent í andlitinu.  Ákærði hafi í beinu framhaldi horfið úr húsinu og sömuleiðis SB og R.  E hafi hins vegar hringt í lögreglu úr far­síma.  Beri hann enn ör vegna þessa og sé hann enn svolítinn dofinn kringum sárið.  Vitnið kvaðst á þessum tíma hafa verið í mikilli neyslu amfetamíns og því ekki sofið á þriðja sólarhring þegar atvikið varð.  Í skýrslu sinni hjá lögreglu, sem er dagsett 9. nóvember 1999, kemur fram að ákærði hafi verið mjög æstur og dregið vasahníf úr jakka­vasa sínum og opnað hann. Hafi ákærði reynt að stinga hann með hnífnum en SB hafi náð að stoppa það af. Þá hafi ákærði skorið hann í andlitið með hnífnum. SB og R hafi þá ýtt ákærða í burtu en þó hafi hann náð að slá hann tvö högg í andlitið.

Vitnið, R, kvaðst ekki hafa verið vitni að atviki því sem hér um ræðir.  Hann hafi hitt S á Hlemmi ásamt fleirum sem hann man ekki hverjir voru.  Hann kvaðst hafa verið í umræddu húsi en hann hafi verið mikið drukk­inn og muni hann að ákærði hafi komið þangað.  Þar sem ekkert rafmagn hafi verið í hús­inu hafi ekki sést mikið en hann kveðst muna að blætt hafi úr S. 

Í skýrslu vitnisins hjá lögreglu, sem dagsett er  24. febrúar 2000, kvaðst hann hafa verið ásamt SB á Hlemmtorgi og hafi þeir hitt S og einhvern mann. Þeir hafi farið með honum í yfirgefið hús á Lindargötu. Síðar hafi ákærði komið og er hann hafi séð S hafi hann tekið upp hníf úr vasa sínum og skorið hann í andlitið. Hafi vitninu brugðið mjög við að sjá þetta og farið út úr húsinu.

Fyrir dómi kveður vitnið skýrsluna um það sem segir um hnífinn ekki sann­leik­anum samkvæmt enda hafi hann ekki séð ákærða skera manninn.  Bendir hann á að samkvæmt nafnritun sinni á skýrsluna hafi hann ekki verið í lagi þegar skýrslan var gefin.

Vitnið, SB, gaf skýrslu hjá lögreglu 4. janúar 2000.  Þar kvaðst hann hafa verið dauðadrukkinn að þvælast á Hlemmtorgi og slegist í för með R.  Þeir hafi hitt S og einhvern mann og saman hafi þeir farið inn í hús við Lindargötu.  Ákærði hafi síðan komið til þeirra og farið að rífast út af einhverju brennivíni við S.  Undir vitnið er borinn framburður hans: „Það næsta sem hann hafi séð var að B var farinn að sveifla hnífi í áttina að S og segir SB hafa gengið á milli.  SB segir að B hafi fljótlega róast niður og hafi hann þá litið af honum augnablik á meðan hann var að fá sér í glas.  Þegar hann hafi litið næst á S þá hafi hann séð að hann var kominn með stóran skurð á vinstri vangann sem fossblæddi úr.“ 

Fyrir dómi kvaðst vitnið ekkert muna eftir málinu og bar við að hann ætti sig minn­isvandamál að stríða.  Vitnið las skýrslu sína yfir og kvaðst ekki gera athuga­semdir við hana og teldi ekki tilefni til annars en að hún væri réttur framburður hans.

Vitnið, E, kvaðst hafa verið staddur í húsinu við Lindargötu ásamt S.  Ákærði, sem hafi snúið baki við vitninu, hafi verið að rífast við S og hafi hann verið með hníf í hendinni.  Ákærði hafi síðan rokið út en S hafi staðið eftir stjarfur en síðan hafi blóð runnið niður andlit hans.  S hafi sagt vitninu að ákærði hefði skorið sig. Vitnið hafi farið með S út og hafi hann hringt á sjúkrabíl.  Vitnið kvaðst aðspurður ekki vita hvort ákærði kom einn inn í húsið en taldi þó frekar að hann hafi komið einn en fyrir í húsinu hafi verið fjórir.  Vitnið kveðst hafa verið að drekka en ekki mikið ölvaður.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu, dagsettri 10. nóvember 1999, kvaðst vitnið hafa verið á Hlemmtorgi og hitt þar S. Tveir menn hafi slegist í för með þeim og hefðu þeir farið í hús á Lindargötu sem enginn bjó í og hafi þeir sest að drykkju. Ákærði hafi síðan komið og byrjað að rífast við S.  Hann hafi ekki fylgst með hvað þeim fór á milli vegna þess að hann hafi setið á dýnu á gólfinu. Eftir nokkurt orðaskak á milli ákærða og S hafi ákærði farið burt og hafi hann þá séð blóðugt andlit S.

Ítrekað aðspurður fyrir dómi hvers vegna hann hafi ekki tekið fram við yfirheyrslu hjá lög­reglu að hann hafi séð ákærða með hníf, kveðst hann muna það nú.  Hann gat hins vegar ekki lýst hnífnum en taldi hann hafa verið frekar stóran. 

 

Niðurstaða

          Í máli þessu liggur fyrir að S, brotaþoli í málinu, R, SB og E, fóru saman í íbúð að Lindargötu 60 en þar sátu þeir að drykkju þegar ákærði kom þangað. Telja verður upplýst af framburði vitna að S og ákærði hafi þar rifist vegna áfengisflösku.

Vitnið R dró til baka framburð sinn fyrir lögreglu þar sem fram kemur að hann hafi séð ákærða taka upp hníf og skera S. Hann kvaðst þó muna að ákærði hafi komið í íbúðina og að blætt hafi úr S.

Vitnið SB bar fyrir sig minnisleysi hér fyrir dómi þegar borinn var undir hann framburður hans hjá lögreglu um hnífaburð ákærða og blóðugt andlit S en gerði þó ekki athugasemdir við skýrsluna og taldi hana vera efnislega rétta. Við skýrslu­töku hjá lögreglu bar vitninu og S saman um að ákærði hafi lagt til hans með hnífi en SB hafi gengið á milli og reynt að róa ákærða. Áverkana sem hér um ræðir hafi S síðan hlotið rétt á eftir.

Vitnið E bar að ákærði hafi snúið baki við vitninu er hann reifst við S og hafði hann þá hníf í hendinni. Þetta hafi hann ekki munað er lögreglu­skýrsla var tekin af honum. Þá hafi S verið blóðugur í andliti eftir að ákærði rauk út úr íbúðinni og kvað hann ákærða hafa skorið sig.

Við mat á sönnunargildi framburða vitna í máli þessu verður að hafa í huga að langt er um liðið frá því að atvik þetta átti sér stað. Allir sem að málinu koma voru undir áhrifum langvarandi notkunar vímuefna og áfengis á þeim tíma og eru sumir enn í óreglu.

Framburður S hér fyrir dómi er í öllum meginatriðum samhljóða því sem fram kemur í skýrslu hans hjá lögreglu sem gefin var 9. nóvember 1999.  Fær hann nokkra stoð af vitnisburði R auk þess sem að líta verður til fram­burðar SB fyrir lögreglu, sbr. 2. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá fær framburður S stoð af vitnisburði E. Einnig er til þess að líta að þó nokkuð blóð fannst á vettvangi og engum öðrum til að dreifa sem hafði tilefni til að ráðist á S með þessum hætti. Að öllu framangreindu virtu þykir ekki var­huga­vert að telja sannað að ákærði hafi veitt S áverka í andliti með vasahníf eins og í ákæru greinir og þar með gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegn­ing­ar­laga.

Ákærði, B, á að baki langan og mikinn sakaferil.  Hann hefur frá árinu 1975 hlotið 40 refsidóma, aðallega fyrir hegningarlagabrot.  Refsing ákærða nú verður hegn­ingarauki sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga við tvo dóma, þ. e. frá 7. janúar, fangelsi í 60 daga og dóm 29. mars 2000, fangelsi í 6 mánuði. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði veitti S alvarlega áverka með hættulegu vopni. Refs­ingin þykir hæfilega ákveðin, þegar litið er til þess að mál þetta hefði verið dæmt með fyrri málum, fangelsi í 6 mánuði. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem ákvarðast 100.000 krónur.

Hilmar Baldursson hdl. hefur fyrir hönd brotaþola lagt fram skaðabótakröfu sem sund­urliðast þannig:

Bætur fyrir miska skv. 26. gr. skaða­bóta­laga 350.000 krónur.  Bætur fyrir þján­ingu skv. 3. gr. skaða­bóta­laga 150.000 krónur. Inn­heimtu­þóknun lög­manns 58.515 krónur.  Sam­tals 558.815 krónur.  Er krafist dráttar­vaxta af þeirri fjár­hæð skv. III. kafla vax­ta­l­aga frá 5. janúar 2000 til greiðslu­dags.   Byggir skaða­bóta­krafan á því að ákærði hafi með hátt­semi sinni gerst sekur um brot á ákvæðum almennra hegn­ingar­laga með því að beita hættu­legu vopni.  Hann hafi valdið brota­þola tjóni sem skylt sé að bæta skv. lögum.

Krafa um miskabætur og bætur vegna þjáningar er ekki sérstaklega rökstudd en ákveðst í samræmi við dómvenju 100.000 krónur. Fallist er á kröfu um dráttarvexti frá 5. janúar 2000.  Þá ber ákærða að greiða 70.000 krónur í þóknun réttargæslumanns brota­þola Hilmars Baldurssonar hdl. vegna réttargæslu.

Af hálfu ákæru­valdsins flutti má­lið Kol­brún Sæ­vars­dóttir.

Val­týr Sigurðs­son héraðs­dómari kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Bjarni Leifur Péturs­son, skal sæta fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Hilmars Ingimundar­sonar hæstaréttarlögmanns, kr. 100.000.

Ákærði skal greiða S kr. 100.000 í skaðabætur með drátt­ar­vöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. janúar 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi reiknast dráttarvextir skv. III. kafla laga nr. 38/2001 auk þókn­unar til réttargæslumanns síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, 70.000 krónur.