Hæstiréttur íslands

Mál nr. 109/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Börn
  • Gjafsókn


Mánudaginn 7. mars 2011.

Nr. 109/2011.

K

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

Kærumál. Innsetningargerð. Börn. Gjafsókn.

M krafðist þess að fá þrjú börn sín afhent sér með beinni aðfarargerð, á grundvelli laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. M og K fóru sameiginlega með forsjá barnanna en deila þeirra um forsjána var fyrir erlendum dómstól er K fór með börnin til Íslands. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að K hefði flutt börnin til Íslands og haldið þeim hér á landi með ólögmætum hætti í skilningi 11. gr. fyrrnefndra laga. Þá var ekki talið að synja bæri um afhendingu á grundvelli undantekningarákvæða 2. og 4. töluliðar 12. gr. sömu laga. Var krafa M um afhendingu barnanna með beinni aðfarargerð því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 7. febrúar 2011, þar sem varnaraðila var heimilað að fá þrjú börn aðilanna tekin úr umráðum sóknaraðila og afhent sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem nánar segir í dómsorði.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðila, M, er heimilt að liðnum sex vikum frá uppsögu þessa dóms að fá A, B og C teknar úr umráðum sóknaraðila, K, og afhentar sér með beinni aðfarargerð hafi sóknaraðili ekki áður fært þær til [...] samkvæmt því, sem nánar er mælt fyrir um í hinum kærða úrskurði.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 7. febrúar 2011.

Innsetningarbeiðni sú sem hér er til úrlausnar barst héraðsdómi 15. nóvember 2010. Var málið tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 19. janúar 2011.

Gerðarbeiðandi, hér eftir nefndur sóknaraðili, er M, [...],[...] [...].

Gerðarþoli, hér eftir nefnd varnaraðili, er K, nú til heimilis að [...] í [...]. 

Sóknaraðili krefst þess að úrskurðað verði að börn hans og varnaraðila, þær A, fædd [...], B, fædd [...] og C, fædd [...], allar með lögheimili í [...], en taldar með dvalarstað að […], [...] verði teknar úr umráðum gerðarþola og afhentar gerðarbeiðanda eða öðrum þeim aðila sem hann setji í sinn stað. Hann krefst þess og að ekki verði fallist á þá kröfu varnaraðila að kveðið verði á um það í úrskurði að kæra til Hæstaréttar fresti réttaráhrifum hans. Einnig krefst sóknaraðili þess að verði aðfararfrestur ákveðinn þá verði hann ekki lengri en 15 dagar. Þá krefst hann málskostnaðar.  Við munnlegan flutning málsins var fallið frá kröfu um að gerðarþola verði gert að greiða ferðakostnað barnanna til [...].

Varnaraðili krefst þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað og henni dæmdur málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi. Þá krefst hún þess, verði aðför heimiluð, að mælt verði fyrir um það í úrskurði að kæra til Hæstaréttar fresti aðför og að aðfararfrestur verði ákveðinn í samræmi við dómaframkvæmd.

Krafa sóknaraðila er reist á lögum nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. og Haag samningnum frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, en bæði Ísland og [...] hafa fullgilt þann samning.

I

Mál þetta var þingfest 29. nóvember 2010 og lagði varnaraðili þá fram beiðni um að dómkvaddur yrði sérfræðingur til þess m.a. að ræða við börnin til að kanna afstöðu þeirra til málsins, sem og til að gera úttekt á högum þeirra hér á landi. Af hálfu sóknaraðila var kröfu þessari mótmælt. Fór fram munnlegur málflutningur um þetta atriði í þinghaldi 7. desember 2010 en í því þinghaldi voru einnig lagðar fram greinargerðir aðila. Með úrskurði, dags. 14. desember 2010, var kveðið á um að kallaður yrði til sálfræðingur, sérfróður um börn, til að kanna afstöðu barnanna, A, fæddrar [...], B, fæddrar [...] og eftir atvikum C, fæddrar [...], til þeirrar dómkröfu sem uppi er í máli þessu og hefðu þær slíka afstöðu, á hvaða forsendum hún væri byggð að mati sálfræðingsins. Þá var þess óskað að sálfræðingurinn léti uppi afstöðu sína til þess hvort þroski stúlknanna væri slíkur að rétt væri að líta til afstöðu þeirra við úrlausn málsins. Skyldi könnunin framkvæmd í samræmi við aldur og þroska hverrar stúlku fyrir sig og skyldi sálfræðingurinn skila skriflegri rökstuddri niðurstöðu og vera tilbúinn til að svara spurningum um efni hennar fyrir dómi. Á dómþingi 17. desember 2010, eftir að yfirlýsingar lágu fyrir frá báðum aðilum um að þau hygðust una úrskurðinum, var Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur kvaddur til að vinna umrædda könnun. Liggur skýrsla Gunnars Hrafns fyrir dóminum og er dagsett 10. janúar 2011, en lögð fram á dómþingi 11. sama mánaðar. Kemur fram í skýrslunni að hún byggi á viðtölum við börnin sem fram fóru þar sem þær búa nú með móður sinni þann 6. janúar sl. Munnlegur málflutningur í máli þessu fór fram 18. janúar sl. og var þá tekin skýrsla af Gunnari Hrafni. Þá gáfu bæði sóknaraðili og varnaraðili aðilaskýrslur.

II

Í aðfararbeiðni er málavöxtum lýst með þeim hætti að aðilar málsins hafi verið í óvígðri sambúð þegar þau hafi eignast börnin er málið varði. Hafi þau gengið í hjúskap […] [...] í ráðhúsinu í […] í [...]. Fari þau því sameiginlega með forsjá allra þriggja barnanna.

Þann 22. mars 2010 hafi varnaraðili farið með börnin til Íslands án samráðs eða samþykkis sóknaraðila. Hafi brottnámið verið tilkynnt til lögreglu og hafi verið lögð fram beiðni til fjölskyldudeildar [...] dómsmálaráðuneytisins en ekki hafi þá komið til samskipta ráðuneytanna vegna málsins. Varnaraðili hafi komið með börnin til baka til [...]  26. apríl 2010. Ekki hafi komið til nýrrar sambúðar aðila eftir brottnám barnanna í marsmánuði og hafi samvistum þeirra því verið slitið frá því tímamarki.

Sóknaraðili hafi ekki fengið að hitta börnin eftir heimkomuna til [...] og hafi krafa um ákvörðun um inntak umgengnisréttar verið send til dómstóla þar sem varnaraðili hafi neitað allri samvinnu um umgengnina. Þann 1. júní 2010 hafi varnaraðili flutt með börnin á leynilegt heimilisfang og viti sóknaraðili enn ekki hvar börnin eigi heimili. Hafi varnaraðili haldið áfram umgengnishindrunum sínum eftir það tímamark og hafi borið þungar sakir á sóknaraðila, sem hann hafni alfarið.

Hafi sóknaraðili leitað til stjórnvalda til að fá fram umgengni við börnin og hafi ákvörðun verið tekin 19. maí 2010 um að varnaraðili ætti að afhenda börnin í umgengni við sóknaraðila og að honum yrði bætt upp sú umgengni sem varnaraðili hefði hindrað. Vegna hindrana varnaraðila hafi umgengni sóknaraðila við börnin ekki hafist fyrr en í júlímánuði og hafi börnin dvalið hjá honum annan hvern laugardag að lágmarki frá þeim tíma. Hafi sóknaraðili þá ekki fengið að hitta börn sín, vegna andstöðu og hindrana varnaraðila, um tæplega fjögurra mánaða skeið.

Þann 17. september 2010 hafi farið fram aðalmeðferð varðandi kröfu sóknaraðila um forsjá og umgengni til bráðabirgða meðan á rekstri málsins stæði.

Í því þinghaldi hafi sóknaraðili gert kröfu um að vegabréf barnanna yrði tekið af varnaraðila og hafi varnaraðili samþykkt að afhenda lögmanni sínum vegabréf barnanna til geymslu meðan á rekstri forsjármálsins stæði. Hafi sóknaraðili hræðst mjög að varnaraðili myndi að nýju nema börnin á brott frá [...]. Hafi lögmaður varnaraðila lýst því yfir í þinghaldinu að engin hætta væri á því að varnaraðili færi með börnin úr landi og hefði varnaraðili engar slíkar áætlanir. Eftir að varnaraðili hafi fallist á afhendingu vegabréfanna og yfirlýsingu lögmanns hennar, hafi sóknaraðili fallið frá kröfu sinni um forsjá til bráðabirgða en hafi ítrekað kröfu sína um að umgengni barnanna yrði vikulega til skiptis meðan á rekstri málsins stæði. Varnaraðili hafi krafist óbreyttrar umgengni frá niðurstöðu stjórnvalda frá 19. maí sama ár.

Í þinghaldinu hafi verið dómkvaddur sérfróður aðili til að kanna hagi aðila og barnanna. Hafi aðilar lagt fram kröfur sínar um hvernig umgengni barnanna við sóknaraðila yrði háttað meðan á rekstri málsins stæði og hafi dómari tekið kröfurnar til úrskurðar og hafi tilkynnt að úrskurður yrði kveðinn upp 24. september 2010.

Þann dag hafi verið kveðinn upp úrskurður þess efnis að börnin skyldu á meðan á rekstri málsins stæði eiga umgengni við sóknaraðila aðra hverja viku, í tvö fyrstu skiptin 25. september og 9. október frá klukkan 10 á laugardegi til klukkan 12 á sunnudegi og skyldu börnin sótt og þeim skilað við innganginn á brautarstöðinni í [...]. Eftir þessi umgengnistilvik skyldi umgengni vera aðra hverja viku frá föstudags eftirmiðdegi til klukkan 12 á sunnudegi. Börnin yrðu þá sótt í skóla/leikskóla og þeim skilað við innganginn á brautarstöðina í [...]. Forsjáin skyldi vera áfram sameiginleg meðan á rekstri málsins stæði.

Hafi úrskurður héraðsdóms verið kærður af beggja hálfu til [...] sem staðfest hafi hann með vísan til forsendna 28. október 2010. Eftir því sem sóknaraðili viti hafi varnaraðili ekki staðið við afhendingu vegabréfa barnanna til lögmanns síns sem þó hafi verið grundvöllur þess að sóknaraðili hafi fallið frá kröfu sinni um forsjá til bráðabirgða.

Varnaraðili hafi ekki virt niðurstöðu dómsins og hafi sóknaraðili ekki fengið umgengni við börn sín þann 25. september 2010 en þann 9. október s.á. hafi sóknaraðili fengið börnin í umgengni yfir eina nótt í samræmi við úrskurð dómsins.

Næsta umgengni hafi átt að hefjast föstudaginn 22. október 2010 og standa fram á sunnudag. Að morgni föstudagsins hafi sóknaraðili átt fyrsta fund með hinum sérfróða aðila sem dómkvaddur hafi verið í þinghaldinu þann 17. september. Hafi sóknaraðili átt að sækja telpurnar í skóla/leikskóla síðar um daginn en í ljós hafi komið að telpurnar hafi ekki verið þar. Hafi sóknaraðila borist tölvupóstur frá varnaraðila um klukkan 14 sama dag, þar sem hún hafi tilkynnt honum að hún og telpurnar væru fluttar til Íslands.

Hafi sóknaraðili þegar í stað kært hið ólögmæta brottnám til lögreglu og sé það mál til meðferðar í [...]. Þá hafi sóknaraðili lagt fram beiðni til fjölskyldudeildar dómsmálaráðuneytis [...] þann 25. október 2010 þar sem óskað hafi verið aðstoðar við að fá börnin afhent til [...] að nýju á grundvelli Haag samningsins um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa.

Hafi Valborgu Þ. Snævarr hrl. verið falin meðferð málsins á Íslandi og hafi varnaraðila, þegar er gögn málsins hafi borist lögmanninum, verið sendur tölvupóstur þar sem henni hafi verið bent á að för hennar úr landi í [...] væri ólögmæt og skorað á hana að koma á lögmætu ástandi að nýju. Varnaraðili hafi ekki svarað þeim tölvupósti en hafi kosið að fara með málið í fjölmiðla og megi skilja umfjöllun á […] þannig að erindinu sé hafnað. Sé því aðfararbeiðni þessi send þar sem fullvíst megi telja miðað við viðbrögð varnaraðila að lögmætu ástandi verði ekki komið á með öðrum aðferðum.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um afhendingu barnanna á því að aðilar fari sameiginlega með forsjá þeirra samkvæmt lögmætri skipan, en fram komi í bréfi [...] dómsmálaráðuneytisins til hins íslenska að samkvæmt 3. gr. [...] barnalaganna þurfi samþykki beggja foreldra, sem fari sameiginlega með forsjá, til að flytja börn úr landi.

Þann 22. október 2010 hafi sóknaraðili átt að fá börnin til sín í umgengni á grundvelli úrskurðar dómsins í [...] en hafi þá komist að því að varnaraðili hafi verið farin með börnin til Íslands. Hafi hún gert það án samþykkis og án vitneskju sóknaraðila sem teljist brot gegn ákvæðum [...] laga sem og ákvörðun héraðsdómsins í [...] um umgengni barnanna við sóknaraðila.

Þá liggi fyrir í skjölum málsins að varnaraðila hafi verið vel ljóst að henni væri óheimilt lögum samkvæmt að fara úr landi með börnin, sbr. bréf lögmanns hennar til dómstólsins í [...] þar sem forsjármál aðila sé til meðferðar. Komi fram í bréfi hennar að hún hafi upplýst varnaraðila um réttarstöðuna og ítrekað skorað á hana að koma þegar í stað til [...] með börnin en því hafi varnaraðili alfarið hafnað.

Hald varnaraðila á börnunum hér á Íslandi og vera barnanna hérlendis sé ólögmætt og geri sóknaraðili því kröfu með vísan til 11. gr. laga nr. 1560/1995, að börnin verði tekin úr umráðum varnaraðila og afhent sóknaraðila verði lögmætu ástandi ekki komið á með öðrum hætti. Börnin eigi lögheimili í [...] og hafi verið búsett þar í skilningi 1. mgr. 11. gr. laganna áður en hið ólögmæta brottnám hafi átt sér stað.

Engin þau ákvæði sem tilgreind séu í lögum nr. 160/1995, sem komið geti í veg fyrir afhendingu eigi við í máli þessu, enda ljóst að mikið þurfi til að koma þannig að þeim ákvæðum verði beitt í málum sem þessum.

Mat á hagsmunum barnanna til frambúðar fari fram í forsjármáli því sem rekið sé fyrir dómstólnum  í og hafi sérfróður aðili verið skipaður til að kanna aðstæður aðila og hagi barnanna. Sjónarmið sem varði hagsmuni barnanna komist ekki að í máli þessu enda Haag samningurinn á því byggður að hagsmunum barnanna sé best borgið með því að dómstóll í heimalandi barnanna eigi lögsögu í málum þeirra til frambúðar og meti hvernig hagsmunum þeirra verði best borgið. Það land sé [...] í tilviki þessara barna og beri því að fallast á kröfu sóknaraðila um afhendingu þeirra til [...] þannig að það mat geti farið fram. Ljóst sé að dómstóll hér á landi geti ekki tekið forsjármál til meðferðar þar sem lögsagan sé í [...] og mál vegna forsjár barnanna rekið fyrir þarlendum dómstól.

Varnaraðili hafi lýst því yfir við lögmann sinn ytra að hún muni ekki mæta frekar í forsjármáli því sem til meðferðar sé fyrir dómstólnum í [...], sbr. bréf lögmanns hennar til dómsins. Breyti það engu um lögsögu þess dómstóls sem væntanlega muni þá dæma í málinu án frekari aðkomu varnaraðila.

Sé þess krafist að fallist verði á kröfu um afhendingu barnanna á þeim grundvelli sem rakinn sé í beiðni. Sé ljóst að brýnir hagsmunir barnanna krefjist þess að þau verði afhent sóknaraðila eins fljótt og verða megi eða að lögmætu ástandi verði komið á með öðrum hætti.

Að öðru leyti sé vísað til ákvæða laga nr. 160/1995 sem og Haag samningsins um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, eftir því sem við eigi.

Um málsmeðferðina sé vísað til 13. gr. laga nr. 160/1995 sem kveði á um að við málsmeðferð skuli beitt ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Í greinargerð varnaraðila kemur fram að málsaðilar hafi verið í sambúð frá árinu [...] er þau hafi gengið í hjúskap í […] [...]. Málsaðilar hafi þá verði búin að búa saman um skamma hríð í [...] og [...] þegar þau hafi flutt til Íslands í [...] [...]. Sóknaraðili hafi svo flutt til [...] í [...] [...] en varnaraðili hafi flutt til hans með börnin í [...] [...]. Varnaraðili hafi flutt aftur heim með börnin í [...] [...]. Hafi varnaraðili ekki talið sig eiga neinn annan kost en að flytja með börnin heim til Íslands án samþykkis sóknaraðila þar sem hún hafi talið hagsmunum þeirra best borgið þannig. Varnaraðili hafi sætt bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili jafnframt beitt börn sín og son varnaraðila andlegu og líkamlegu ofbeldi. Telji varnaraðili því að börnum sínum stafi beinlínis hætta af umgengni við sóknaraðila. Fljótlega eftir að aðilar máls þessa hafi kynnst hafi farið að bera á skapgerðarbrestum hjá sóknaraðila. Hafi hann beitt varnaraðila andlegu ofbeldi og hafi átt mjög erfitt með að hemja skap sitt og reiði. Reiðiköst sóknaraðila hafi bitnað á allri fjölskyldunni. Hafi hann m.a. átt það til að henda hlutum og rjúka út og láta sig hverfa svo tímum skipti. Í lögregluskýrslu dags. 26. júlí 2010 hafi varnaraðili tilkynnt andlegt og líkamlegt ofbeldi sóknaraðila. Komi m.a. fram í umræddu skjali að þann 27. júní 2008 hafi sóknaraðili slegið varnaraðila í eitt af mörgum skiptum. Hafi varnaraðili verið að gefa barni þeirra brjóst þegar sóknaraðili hafi reiðst skyndilega og hafi slegið hana. Skýrslunni fylgi ljósmynd af áverka varnaraðila. Vakin skuli athygli á því að í lögregluskýrslunni sé tekið fram að lögreglan á [...] hafi vitað að sóknaraðili ætti til að fá bræðisköst sem hann hafi látið bitna á fjölskyldu sinni en ekki hafi verið vitað nákvæmlega hvernig hegðun hans hafi verið háttað. Þá hafi sóknaraðili einnig slegið varnaraðila í andlitið og hrint henni upp á eldhúsborð en varnaraðili hafi þá verið ólétt af yngsta barni þeirra.

Börnin séu hrædd við sóknaraðila að sögn varnaraðila. Sem dæmi um misgjörðir við börnin megi nefna að hann hafi hent syni varnaraðila niður stiga í reiðikasti, sparkað í bak einnar dótturinnar, hent púða í aðra og ítrekað öskrað og verið ónærgætinn við öll börnin. Börnin hafi einnig oftsinnis orðið vitni af andlegu ofbeldi sóknaraðila gegn varnaraðila.

Það hafi svo verið í mars á þessu ári að sóknaraðili, í framhaldi af einu af bræðisköstum sínum hafi horfið af heimili varnaraðila og barnanna í tvær vikur og hafi skilið fjölskyldu sína eftir peningalausa. Varnaraðili hafi ekki vitað hvar sóknaraðili hafi verið og hafi ekki getað náð í hann. Á þessum tímapunkti hafi varnaraðila verið allri lokið og hafi ákveðið að leita sér hjálpar og segja frá ofbeldinu. Hafi hún m.a. talað við skólayfirvöld, heimilislækni og félagsráðgjafa í [...]. Félagsráðgjafinn hafi ráðlagt henni að fara í frí með börnin til Íslands og hugsa málin. Móðir varnaraðila hafi komið út til að aðstoða hana þ.á.m. fjárhagslega og hafi varnaraðili ákveðið að senda eldri börnin með henni til Íslands í frí í samræmi við áðurnefndrar ráðleggingar félagsráðgjafa. Varnaraðili hafi svo ákveðið að fara einnig til Íslands með tvö yngri börnin eftir að sóknaraðili hafi snúið heim þar sem hún hafi óttast um öryggi sitt og barna sinna. Hafi hún tilkynnt sóknaraðila um það strax með tölvubréfi daginn eftir. Þegar varnaraðili hafi verið komin til Íslands hafi hún haldið áfram að leita sér aðstoðar og hafi m.a. leitað til Kvennaathvarfsins í Reykjavík, bráðamóttöku geðdeildar LSH og til heimilislæknis á [...]. Eftir hótanir sóknaraðila og eftir að hafa ráðfært sig sérfróða aðila hafi varnaraðili ekki séð sér annað fært en að fara aftur til [...], en sóknaraðili hafi m.a. hótað henni að hún fengi aldrei að sjá börnin aftur. Þegar hún hafi komið til baka í lok [...] [...] hafi sóknaraðili verið fluttur af heimili þeirra og hafi verið búinn að taka með sér mest allt innbú. Varnaraðili hafi jafnframt fengið bréf um að hún ætti að mæta hjá yfirvöldum þann 10. maí 2010 til að ganga frá skilnaði og forsjá vegna barna aðila. Sóknaraðili hafi þann 19. maí 2010 fengið úrskurðaða mjög litla umgengni við börnin, eða annan hvern laugardag í 6 klukkutíma. Í niðurstöðukafla úrskurðarins sé vísað í hvað börnunum sé fyrir bestu.

Þegar sóknaraðili hafi komið í fyrstu umgengni hafi börnin alls ekki viljað fara með honum. Hafi varnaraðili í framhaldi af því flutt með börnin á leynilegt heimilisfang í samráði við félagsmálayfirvöld ([...]). Í lok júní hafi varnaraðili verið kölluð aftur fyrir yfirvöld í [...] þar sem umgengni sóknaraðila hafi ekki náð fram að ganga en þetta hafi verið tvö skipti sem hann hafi ekki fengið þær og hafi í framhaldinu verið staðfestur sami umgengnisréttur. Umgengni í framhaldinu hafi verið mjög erfið en börnin hafi alls ekki viljað fara til sóknaraðila og þegar þær hafi komið úr umgengni hafi þær lýst hræðslu við sóknaraðila og að þær hafi óttast að hann yrði reiður. Við réttarhöld í september sl. hafi umgengni ennþá verið ákvörðuð mjög takmörkuð svo sem lýst sé í aðfararbeiðni.

Þegar umgengni hafi átt að fara fram þann 25. september sl. hafi varnaraðili mætt með móður sinni á þann stað þar sem aðilar hafi ætlað að hittast á. Sóknaraðili hafi ekki mætt og hafi varnaraðili verið að búa sig undir að fara til baka þegar sóknaraðili hafi rifið skyndilega upp hurðina á bifreiðinni farþegamegin þar sem móðir varnaraðila hafi setið og hafi kallað hana öllum illum nöfnum, þ.á.m. hóru. Móðir varnaraðila hafi stigið út úr bifreiðinni og hafi spurt sóknaraðila hvort hann væri að tala við hana. Hann hafi þá rifið í hálsmálið á henni þannig að hún hafi flúið aftur inn í bifreiðina og varnaraðili hafi keyrt í burtu á meðan sóknaraðili hafi ennþá verið öskrandi fyrir utan. Varnaraðili hafi keyrt grátandi og í uppnámi í Kvennaathvarfið og hafi þar verið ráðlagt að leita til lögreglu. Varnaraðili og móðir hennar hafi leitað á lögreglustöðina og móðir varnaraðila lagt þar fram kæru en hafi jafnframt fengið þær upplýsingar þar að voða lítið væri hægt að gera í svona tilvikum. Þá kveði varnaraðili að í eitt skipti hafi sóknaraðili elt hana á bíl og verið með hnefann á lofti. Hafi það verið á þeim tíma er varnaraðili hafi ekki gefið upp dvalarstað sinn af ótta við sóknaraðila og hafi sonur hennar verið með í bílnum. Varnaraðili og sonur hennar hafi orðið mjög hrædd og hafi hringt á neyðarlínuna í [...] og hafi lögregla komið til aðstoðar í það skipti.

Umgengni 9. október hafi farið fram en þegar stelpurnar hafi komið til baka úr þeirri umgengni hafi þeim liðið mjög illa og hafi varnaraðili tekið þá ákvörðun að vernda börnin og flytja með þau til Íslands þar sem henni hafi ekki fundist að hún fengi þá aðstoð sem hún og börnin hafi þurft í [...]. Varnaraðili hafi ekki fengið neina fjárhagslega aðstoð með börnin frá sóknaraðila og hafi hann strax í upphafi látið loka sameiginlegum bankareikningi svo varnaraðili hefði ekki aðgang að neinu fjármagni en hún hafi frá upphafi verið fjárhagslega háð sóknaraðila þar sem það hafi verið samkomulag á milli aðila að hún væri heima og hugsaði um börnin. Þegar varnaraðili hafi leitað eftir aðstoð hjá yfirvöldum í [...] hafi hún fengið þau svör að ekki væri hægt að veita henni aðstoð þar sem hún væri gift. Varnaraðili hafi þurft að sofa með börn sín í bíl í tvær nætur þar sem hún hafi alls staðar komið að lokuðum dyrum. Fjölskylda varnaraðila hafi reynst henni vel á þessum tíma og hafi aðstoðað hana mikið fjárhagslega á meðan sóknaraðili hafi neitað allri aðstoð og hafi þannig brotið gegn framfærsluskyldum sínum. Hann hafi skilið fjölskylduna eftir án bjargar í mars þegar hann hafi horfið fyrirvaralaust, en aðilar hafi þá ekki verið skilin að skiptum. Sóknaraðili neiti einnig að greiða meðlag með börnunum og hafi mótmælt meðlagsákvörðun og ekki greitt neitt til framfærslu barna sinna. Fjölskylda varnaraðila hafi aðstoðað varnaraðila við að sjá fyrir börnunum og muni gera það áfram.

Varnaraðili beri hagsmuni barna sinna fyrir brjósti sem hún telji mun betur borgið á Íslandi og telji alvarlega hættu á því að afhending barnanna til [...] muni skaða þau andlega, líkamlega og koma þeim í óbærilega stöðu sbr. 2. tl. 12. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Varðandi þetta atriði sé jafnframt vísað til 3. gr. samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem kveði á um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ráðstafanir séu gerðar varðandi börn og 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem girði fyrir vanvirðandi meðferð eins og börnin hafi þurft að sæta af hálfu föður síns.

Þá sé farið fram á að afstaða barnanna verði tekin til skoðunar í samræmi við 3. tl. sömu greinar og 17. gr. laga nr. 160/1995. Varnaraðili leggi fram fjölmörg vottorð umönnunaraðila og sérfræðinga bæði frá [...] og Íslandi sem sýni fram á að börnin sýni miklar framfarir síðan þau hafi flutt til Íslands og virðist þroskast og þrífast mjög vel hér á landi. Börnunum hafi ekki liðið vel í [...], þau hafi verið orðin hrædd, taugatrekkt og hafi iðulega vaknað um miðjar nætur með martraðir. Þau séu nú öll að koma til og virðist líða mun betur. Þessu til stuðnings sé vísað til vottorðs séra I héraðsprests […] ásamt fleiri vottorðum frá umönnunaraðilum í [...9. Vottorð I lýsi vel andlegu ástandi fjölskyldunnar og hvernig það hafi breyst til batnaðar eftir að þau hafi komið til Íslands. Taki hann m.a. fram að börnin uni sér afskaplega vel á þeim stað þar sem þau búi nú og það væri ekki skynsamlegt í hans huga að fara að breyta högum þeirra á einhvern hátt en slíkt myndi ógna andlegri heilsu þeirra til frambúðar.

Þess beri að geta að börnin hafi aðeins verið búin að búa í [...] í nokkra mánuði og landið sem þau þekki sem heimaland sitt sé Ísland. Hér séu vinir þeirra og fjölskylda sem alla tíð hafi staðið við bakið á varnaraðila og börnum hennar. Börnin hafi aldrei myndað fjölskyldutengsl við föðurfjölskyldu sem hafi heldur ekki sýnt því áhuga. Yrði úrskurðað svo að varnaraðili ætti að afhenda börnin til [...] sé ljóst að varnaraðili hefði engan stað til að hverfa að í [...] eða fjárhagslegt eða félagslegt bakland og gæti því ekki flutt þangað með börnum sínum. Því sé haldið fram að það væri skaðlegt fyrir andlega heilsu barnanna að vera rifin úr eðlilegu umhverfi sínu og flutt til [...9 gegn vilja sínum og aðskilin við móður og hálfbróður sinn. Börnin séu mjög náin og hænd að móður sinni enda hafi hún verið heimavinnandi og annast þau frá fæðingu. Brotið væri gegn grundvallarmannréttindum barnanna bæði með því að stofna velferð þeirra í hættu og með því að skilja þau frá móður sinni. Sé í þessu sambandi vísað til 2. tl. og 4. tl. 12. gr. laga nr. 160/1995 og til samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins einkum 3. gr. Jafnframt sé vísað til 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944.

Því sé haldið fram að brottnám hafi ekki verið ólögmætt þar sem sóknaraðili hafi verið með skráð lögheimili á Íslandi þegar varnaraðili hafi flutt með börnin heim til Íslands.

Í greinargerð er einnig tilgreint að sóknaraðili hafi tvisvar leitað sér hjálpar vegna reiði- og skapofsakasta sinna að sögn varnaraðila. Hann hafi leitað til heimilislæknis á E eftir að hafa slegið varnaraðila eitt sinn og svo til heimilislæknis í [...] síðar eftir að hafa fengið reiðikast í bíl. Varnaraðili kveði hann hafa fengið ávísað lyfinu [...] sem sé [...] og sé notað við [...],[...]- og [...],[...],[...]og [...]. Varnaraðili skori á sóknaraðila að undirgangast geðrannsókn og leggja fram læknisvottorð um geðheilsu sína.

Þá er í greinargerð farið fram á að skýrsla verði tekin af börnunum þremur og syni varnaraðila J, fæddum [...]. Sé þess krafist að dómkvaddur verði sérfræðingur til að ræða við öll börnin. Sé það fyrst og fremst hlutverk hans að ræða við börnin og meta hvort þau séu nægilega þroskuð til að hægt sé að kanna afstöðu þeirra til málsins, sbr. 17. gr. laga nr. 160/1995. Þá sé þess jafnframt óskað að sérfræðingurinn meti hvort það sé alvarleg hætta á að afhending muni skaða börnin andlega eða líkamlega eða koma þeim á annan hátt í óbærilega stöðu, sbr. 2. tl. 12. gr. laga nr. 160/1995 og að lokum hvort börnin séu andvíg afhendingu og hafi náð þeim þroska og aldri að rétt sé að taka tillit til skoðana þeirra, sbr. 3. tl. 12. gr. sömu laga. Ef ekki verði fallist á beiðni um dómkvaðningu sé farið fram á frest fyrir varnaraðila til þess að afla sjálf álits sérfræðings og leggja fram undir rekstri málsins.

Um lagarök kveðst varnaraðili vísa til laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., einkum 12. gr. Einnig sé vísað til Haag samningsins um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa. Þá sé vísað til barnalaga nr. 76/2003, laga nr. 18/1992 um samning sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og laga nr. 33/1944 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Varnaraðili vísi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt vegna kröfu um virðisaukaskatt af málskostnaði.

IV

Eins og fyrr er nefnt var Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur fenginn til að ræða við börnin til að kanna afstöðu þeirra til þeirrar kröfu sem hér er til úrlausnar. Kemur fram í skriflegri greinargerð hans að niðurstaða viðræðna hans við systurnar A fædda [...] og B fædda [...] sé að þær óski eftir að fá að vera hjá móður sinni á Íslandi. C fædd [...] hafi færst undan að tjá sig en af nánum samskiptum hennar við eldri systur sínar megi gera ráð fyrir að hún fylgi þeim að málum. Telur Gunnar Hrafn að með tilliti til þroska og ungs aldurs stúlknanna sé óráðlegt að byggja alfarið á afstöðu þeirra, sem sé talsvert hafnandi gagnvart föður, en hann telji jafnframt mikilvægt að líta til upplýsinganna frá þeim við ákvarðanatökur í framhaldinu.

Að mati Gunnars Hrafns séu stúlkurnar ekki dómbærar á það hvað sé þeim fyrir bestu í máli þessu. Þær taki afstöðu með móður á móti föður og þeim hætti til að líta á þetta mál á svart-hvítan hátt, þannig að móðir sé nærri algóð og geri allt rétt en faðir nær alvondur og geri margt rangt. Að mati Gunnars Hrafns sé mikilvægt að telpurnar verði losaðar úr því að líta á málin með þessum hætti og að foreldrar standi saman um að leiðrétta þetta.

Framburður telpnanna í viðtölum þessum bendi að mati Gunnars Hrafns hvorki til þess að þær systur þrjár hafi orðið fyrir ofbeldi né orðið vitni að því. Sálrænt ástand þeirra bendi heldur ekki til þess að þær hafi orðið fyrir áföllum af völdum heimilisofbeldis eða annars. Þrátt fyrir það séu þær óöruggar gagnvart föður og hafi áhyggjur af því að hann kunni að taka þær frá móður þeirra. B hafi áhyggjur af því að móðir þeirra verði af völdum föður skilin eftir ein á Íslandi.

Afstaða telpnanna í málinu virðist byggja á því að þær taki afstöðu með móður og vilji vera hjá henni. Þær virðist vera óöruggar og í varnarstöðu gagnvart föður. Þær hafi ekki skilning á orsökum þess að fjölskyldan hafi rofnað en þær virðist kenna föður um það og finna sig knúnar til að velja á milli foreldra sinna. Í umræðum telpnanna um föður virðist neikvæð atriði, t.d. það að faðir hafi hent púða í B, hafa verið blásin út þannig að stúlkurnar hafi sannfærst um að faðir þeirra sé vondur maður.

Athygli veki að telpurnar hafi frá tiltölulega litlu neikvæðu að segja um föður beinlínis af eigin reynslu. Þær virðist heldur ekki hafa frá neikvæðu að segja um hann sem þær hafi eftir öðrum, annað en það að hann ætli sér að taka þær frá móður og skilja hana eftir eina. Þær virðist horfa framhjá eða ekki leyfa sér að minnast góðra samverustunda með föður og séu hikandi að tala jákvætt um hann. Þær virðist magna upp hjá sér nokkurn ótta við hvað hann gæti hugsanlega gert þeim eða móður þeirra. Þær virðist að nokkru leyti álíta föður ógna öryggi þeirra.

Telpurnar virðist lítið muna eða vita um hvað hafi gerst í samskiptum foreldra þeirra í [...] í aðdraganda þess að móðir hafi flutt með þau systkinin til Íslands. Svo virðist sem móðirin hafi lent í erfiðri stöðu þar verandi útlendingur í landinu og einstæð með fjögur börn. Telpurnar virðist lítið vita um þær aðstæður sem þá hafi skapast hjá þeim og móður.

Sú spurning vakni hvaða möguleika móðirin hafi átt til að bjarga sér í framandi umhverfi og skapa börnunum öryggi þar úti eftir sambúðarslitin. Einnig vakni spurning um það hvernig faðir hafi hugað að hagsmunum barnanna við þær aðstæður og hvort hann hafi staðið að því með ábyrgum hætti gagnvart börnunum þegar móðir hafi verið með þau í þessari erfiðu stöðu. Út frá þessari athugun sem byggist á viðtölum við börnin fáist þeim spurningum ekki svarað.

Ljóst sé að A og B treysti móður og vilji vera hjá henni frekar en föður. Svo virðist að C sé sama sinnis. Það að telpurnar virðist sjá þá lausn eina í deilu foreldranna að þær snúi baki við föður eða hann hverfi úr lífi þeirra, gangi að mati Gunnars Hrafns gegn bestu hagsmunum þeirra og velferð. Ráðlegt sé að foreldrarnir taki höndum saman um að bæta samvinnu sína með dæturnar, að þeir standi saman að því að koma á umgengni feðginanna hið fyrsta og að því að hlúa að jákvæðum samskiptum dætra sinna við báða foreldra.

Gunnar Hrafn gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins, staðfesti hina skriflegu skýrslu og svaraði spurningum um efni hennar.

V

Mál þetta er afhendingarmál á grundvelli laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., sbr. samning um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa sem gerður var í Haag 25. október 1980 og oft nefndur Haagsamningurinn.

Fyrir liggur að málsaðilar bjuggu saman í [...] og deila nú fyrir þarlendum dómstól um forsjá barna sinna. Þá liggur fyrir að þau fara sameiginlega með forsjá barnanna að [...] lögum, en í því mun m.a. felast að öðru foreldri sé óheimilt að fara með börnin úr landi án samþykkis hins. Má sjá í málinu niðurstöðu hins [...] dómstóls um umgengni sóknaraðila við börnin meðan á rekstri málsins stendur, en þau bjuggu hjá varnaraðila. Umgengni sóknaraðila við börnin var ákveðin aðra hverja helgi frá því síðdegis á föstudegi til klukkan 12 á sunnudegi.  Í niðurstöðu dómstólsins kemur fram að með hliðsjón af möguleikum barnanna til að endurvekja nánara samband við föður sinn og til þess að dómkvaddur sérfræðingur fái betri grundvöll til að leiða fram hagsmuni barnanna telji dómurinn að sóknaraðili eigi undir rekstri málsins að hafa meiri samvistir við börnin en hann hafi fram að því haft. Varnaraðili fór með börnin úr [...] lögsögu og til Íslands án þess að forsjármálið hefði verið til lykta leitt og áður en hinn dómkvaddi sérfræðingur hafði náð að ræða við börnin eða varnaraðila. Byggir málatilbúnaður sóknaraðila á því að þetta hafi verið ólögmætt brottnám í skilningi framangreindra laga, en varnaraðili byggir á að ekki hafi verið um ólögmætt brottnám að ræða, en að því frágengnu að við eigi nánar tilgreindar undantekningarreglur 12. gr. laga nr. 160/1995 þannig að hafna beri beiðni sóknaraðila.

Í 11. gr. laga nr. 160/1995 segir að barn sem flutt sé hingað til lands með ólögmætum hætti eða sé haldið hér á ólögumætan hátt, skuli samkvæmt beiðni afhent þeim sem rétt hafi til þess ef barnið hafi verið búsett í ríki, sem sé aðili að Haagsamningnum, rétt áður en það hafi verið flutt brott eða hald hafi hafist. Fyrir liggur að [...] og Ísland eru aðilar að nefndum samningi og gildir hann því í samskiptum landanna í málum af þessu tagi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 160/1995. Í 2. mgr. 11. gr. sömu laga kemur fram, sbr. 1. tl. málsgreinarinnar að ólögmætt sé að flytja barn eða halda því ef sú háttsemi brjóti í bága við rétt forsjáraðila eða annars aðila, án tillits til þess hvort hann fari einn með réttinn eða með öðrum, til að annast barnið samkvæmt lögum þess ríkis þar sem barnið hafi verið búsett rétt áður en það hafi verið flutt á brott eða hald hafi hafist.

Fyrir liggur, eins og fyrr greinir, að sóknaraðili og varnaraðili fara sameiginlega með forsjá þeirra þriggja barna sinna sem mál þetta snýst um. Börnin voru búsett í [...] þegar varnaraðili fór með þau til Íslands og er óumdeilt að fjölskyldan var þar búsett saman frá miðju ári 2009. Með vísan til framantilvitnaðrar 11. gr. laga nr. 160/1995 er það búseta barnanna í [...] sem máli skiptir. Eru þýðingarlaus fyrir niðurstöðu málsins þau rök varnaraðila að för hennar með börnin frá [...] til Íslands hafi ekki verið ólögmæt vegna þess að sóknaraðili hafi átt skráð lögheimili á Íslandi þegar varnaraðili fór með börnin frá [...] 15. október 2010. Liggur reyndar ekki annað fyrir en að sóknaraðili hafi frá janúar 2009 verið með skráð lögheimili í [...], þótt sú skráning hafi ekki ratað inn til Þjóðskrár á Íslandi.

Fyrir [...] dómstólum er rekið forsjármál milli aðila og hafði hinn [...] dómstóll ákvarðað sóknaraðila nánar tilgreinda umgengni við börn sín meðan á rekstri málsins stæði. Komið var þar í málsmeðferð að búið var að kalla til sérfræðing til að meta forsjárhæfni málsaðila og kom fram hjá sóknaraðila að til hafi staðið að hann hitti sérfræðinginn ásamt telpunum þegar þær hafi átt að koma til hans í umgengni 22. október 2010. Þann dag hafi hann fengið tölvubréf frá varnaraðila þar sem honum hafi fyrst verið kynnt að hún væri farin með börnin til Íslands.

Verður að fallast á með sóknaraðila að för varnaraðila úr landi með börn sín og sóknaraðila sé ótvírætt ólögmæt í skilning 11. gr. laga nr. 160/1995 og með þeirri aðgerð hafi varnaraðili brotið gegn þeim rétti sóknaraðila sem tilvitnaðri lagagrein er ætlað að vernda.

Þegar framangreint liggur fyrir ber dómstól að fallast á afhendingu nema við eigi undantekningarreglur sem fram koma í 1. til 4. tl. 12. gr. laganna en þá er dómara heimilt að hafna beiðni um afhendingu. Framangreindar reglur eru undantekningarreglur og ber að skýra þær þröngt og ber sá sem byggja vill á því að slíkar aðstæður séu uppi sönnunarbyrði fyrir þeim fullyrðingum sínum.

Í máli þessu byggir varnaraðili á því að hafna beri afhendingu og vísar í fyrsta lagi til 2. tl. 12. gr. laga nr. 160/1995 þar sem mælt er fyrir um að hafna megi afhendingu ef alvarleg hætta sé á að afhending muni skaða barnið líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu. Í öðru lagi byggir varnaraðili á í málinu að börnin séu andvíg afhendingu og telur að þau hafi náð þeim aldri og þroska að taka beri tillit til skoðana þeirra en um heimild til að synja um afhendingu barns á þessum grunni sé mælt fyrir í 3. tl. sömu lagagreinar. Til stuðnings fullyrðingum sínum hefur varnaraðili m.a. vísað til ofbeldis af hálfu sóknaraðila í sinn garð og barnanna. Hefur sóknaraðili lagt fram fjölda gagna sem hún telur renna stoðum undir fullyrðingar sínar í þessa veru. Þá hefur sóknaraðili byggt á að börnin óttist sóknaraðila. Er einnig á grundvelli framangreinds byggt á því af hálfu varnaraðila að afhenging stríði gegn grundvallarmannréttindum barnanna, sem og það að þurfa að skiljast frá móður sinni, þannig að við eigi 4. tl. 12. gr. sömu laga.

Hér að framan hefur verið ítarlega rakin niðurstaða sérfræðings sem dómurinn fékk til að leita afstöðu barnanna til afhendingar til sóknaraðila, en börnin eru [...], [...] og [...] ára gömul. Var það mat dómara að þrátt fyrir að börnin væru yngri en svo að almennt mætti telja að unnt væri að líta til afstöðu þeirra við úrlausn mála af þessu tagi þá gæti sú afstaða veitt vísbendingar um hvort börnin hefðu annaðhvort orðið fyrir ofbeldi eða orðið vitni að ofbeldi af hendi sóknaraðila sem kynni að geta haft áhrif á úrlausn málsins. Niðurstaða Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, sem hefur áratuga reynslu af að vinna með börnum í tengslum við mál er varða forsjá þeirra og velferð, var sú að hann sæi engin merki þess að telpurnar þrjár hefðu orðið fyrir ofbeldi sjálfar eða að þær hafi orðið vitni að ofbeldi. Sálrænt ástand þeirra bendi heldur ekki til þess að þær hafi orðið fyrir áföllum af völdum heimilisofbeldis eða annars. Þá svaraði Gunnar Hrafn því afdráttarlaust í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi ekki orðið var við neitt sem benti til þess að telpunum gæti stafað hætta af sóknaraðila málsins. Taldi Gunnar að í umræðum telpnanna hefðu neikvæð atriði varðandi föður verið blásin út þannig að stúlkurnar hafi sannfærst um að hann væri vondur maður. Hann telji þó athygli vert að þær hafi frá tiltölulega litlu neikvæðu að segja um föður sinn beinlínis eftir eigin reynslu.

Með vísan til niðurstöðu Gunnars Hrafns Birgissonar er það mat dómsins að varnaraðila hafi ekki tekist að gera það líklegt að telpunum stafi hætta af sóknaraðila eða að önnur atriði sem átt gætu undir 2. tl. 12. gr. laga nr. 160/1995 séu fyrir hendi þannig að hafna megi afhendingu af þeim ástæðum. Varnaraðili vísar einnig til þess að aðbúnaður hennar í [...] hafi ekki verið nægilega góður. Hefur hún rakið ýmis dæmi þess að sóknaraðili hafi vanrækt að huga að því að hún og börnin byggju við viðunandi aðstæður og hefur, máli sínu til stuðnings, rakið ýmis atvik sem hafi gerst frá því sambúð hennar og sóknaraðila lauk. Þá kom fram í aðilaskýrslu hennar að hún hafi ekki talið [...] yfirvöld veita henni fullnægjandi aðstoð þegar hún hafi leitað eftir því. Sóknaraðili hefur hafnað því að hann hafi á einhvern hátt vanrækt skyldur sínar gagnvart varnaraðila eða börnunum. Hvað sem þessum atriðum líður verður einkum að horfa til þess við hvaða aðstæður varnaraðili bjó þegar hún ákvað að fara með börnin til Íslands, en af hennar hálfu hefur ekki verið gerð grein fyrir því á hvern hátt þeim aðstæðum hafi verið ábótavant. Er ekki unnt að fallast á með varnaraðila að framangreind sjónarmið geti leitt til þess að afhendingu barnanna verði synjað.

Af hálfu sóknaraðila eru ekki bornar brigður á að aðbúnaður barnanna hér á landi sé með ágætum, en fallast verður á þá röksemd sem lögmaður hans tefldi fram við munnlegan málflutning að slík sjónarmið hafi takmarkaða þýðingu í málum af þessu tagi, en eigi fremur heima í forsjármáli aðila.

Fram kemur hjá Gunnari Hrafni Birgissyni að hann telur að það sé mikilvægt að börnin séu losuð út úr því að taka afstöðu með móður á móti föður og verður niðurstaða hans ekki skilin öðruvísi en hann telji það andstætt hagsmunum barnanna verði þetta ekki gert. Kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til greina að byggja í málinu á viljaafstöðu barnanna en einnig vegur hér þungt að elsta telpan er aðeins [...] ára.

Engin efni eru til að telja að það geti með einhverju móti talist að afhending barnanna til [...] sé ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda, sbr. 4. tl. 12. gr. laga nr. 160/1995.

Liggur því ekki annað fyrir en að fallast á kröfu sóknaraðila. Felst í þeirri niðurstöðu dómsins engin afstaða til ágreinings málsaðila um forsjá barnanna, enda verður skorið úr þeim ágreiningi fyrir hinum [...] dómstól og hafa báðir málsaðilar þar fullu möguleika á að tefla fram öllum þeim röksemdum sem þeir hafa hér byggt á máli sínu til stuðnings.

Í samræmi við dómaframkvæmt hefur varnaraðili þann kost að aflétta sjálf hinu ólögmæta ástandi og fara með börnin til [...] þar sem hún getur séð um þau eins og hún gerði áður en hún fór með þau til Íslands og kveðið var á um í úrskurði hins [...] dómstóls, sem hér fyrr hefur verið rakinn, og gilda átti meðan forsjármál aðila væri rekið. Verður í málinu ákveðinn aðfararfrestur þannig að varnaraðila gefist nokkurt ráðrúm til að bregðast við með þeim hætti. Þá eru ekki efni til annars en að fallast á þá kröfu varnaraðila að kæra úrskurðarins til Hæstaréttar fresti framkvæmd hans. Er nánar kveðið á um þessi atriði í úrskurðarorði.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar Sveins Andra Sveinssonar hrl. sem þykja hæfilega ákveðin 502.000 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.

Halldór Björnsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Sóknaraðila M er heimilt að liðnum sex vikum frá uppsögu þessa úrskurðar að fá, A, fædda [...], B, fædda [...] og C, fædda [...], teknar úr umráðum varnaraðila, K og afhentar sér með beinni aðfarargerð, hafi varnaraðili ekki áður fært þær til [...] eftir því sem nánar greinir í forsendum þessa úrskurðar.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar Sveins Andra Sveinssonar hrl. sem þykja hæfilega ákveðin 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kæra úrskurðarins til Hæstaréttar frestar framkvæmd hans.