Hæstiréttur íslands
Mál nr. 267/2005
Lykilorð
- Fasteign
- Galli
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 20. desember 2005. |
|
Nr. 267/2005. |
Björn Helgi Snorrason(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) gegn Sigurði Sigurjónssyni (Jón Magnússon hrl.) |
Fasteign. Galli. Skaðabætur. Sératkvæði.
Verktakafyrirtæki tók að sér að slá upp parhúsi í Garðabæ samkvæmt samningi við S, en B tók að sér að vera byggingarstjóri. S hélt því fram að verulegir gallar væru á verkinu, en verktakafyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta síðla árs 2001. Beindi S skaðabótakröfu að B einvörðungu á þeim grunni að B bæri ábyrgð á göllum sem byggingarstjóri við verkið. Fyrir lá að verulegir gallar voru á verkinu samkvæmt mati dómkvaddra manna, en miðað var við matsgerð þeirra um umfang gallanna. Ekkert þótti fram komið í málinu um að S hafi komið í veg fyrir að B gæti bætt úr göllum á verkinu, svo sem B hélt fram. Þá voru heldur engin rök til þess að sýkna bæri B vegna þess að S hafi ekki freistað þess að halda eftir greiðslum til handa vertökunum vegna galla á verkinu, enda hafi S ekki verið það skylt. Aðila greindi á um hversu víðtæk ábyrgð byggingarstjóra væri og hvort B bæri sem byggingarstjóri skaðabótaábyrgð gagnvart S vegna þeirra galla sem matsgerð leiddi í ljós. Þegar ákvæði skipulags- og byggingarlaga voru virt og litið til forsögu þeirra og tilgangs, sem og matsgerðar sem staðreyndi óvenju umfangsmikla galla á verkinu, varð að virða það byggingarstjóra til vanrækslu að hafa látið slík vinnubrögð viðgangast. Var B því ábyrgur gagnvart S vegna þess tjóns sem af hlaust.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Eins þar kemur nánar fram tóku S.I. verktakar ehf. að sér að slá upp tveggja hæða parhúsi að Hraunási 10-12 í Garðabæ samkvæmt samningi við stefnda 6. desember 2000. Jafnframt tók áfrýjandi, sem er húsasmíðameistari, að sér að vera byggingarstjóri. Kom hann í stað Björns Stefánssonar samkvæmt yfirlýsingu 18. desember 2000. Var þá búið að steypa sökkla og botnplötu hússins. Áfrýjandi mun hafa verið eigandi S.I. verktaka ehf. að hálfu á móti eiginkonu Engilberts Imsland er vann við verkið ásamt áfrýjanda. Stefndi heldur því fram að verulegir gallar hafi verið á verki S.I. verktaka ehf. Bú S.I. verktaka ehf. mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta síðla árs 2001. Beinir stefndi skaðabótakröfu að áfrýjanda einvörðungu á þeim grunni að hinn síðarnefndi beri ábyrgð á göllum sem byggingarstjóri við verkið.
Áfrýjandi reisir mál sitt í fyrsta lagi á því að ósannað sé að stefndi hafi orðið fyrir tjóni. Fram er komið að S.I. verktakar ehf. luku ekki verkinu á þeim tíma sem kveðið var á um í framangreindum samningi, auk þess sem verulegir gallar voru á því samkvæmt mati dómkvaddra manna. Á matsgerð þeirra eru ekki formgallar og hefur henni ekki verið hnekkt. Verður því við hana miðað um umfang galla á verkinu. Er efni matsgerðarinnar ítarlega rakið í héraðsdómi en gallarnir fólust annars vegar í miklum skekkjum á veggjum og við plötuskil og hins vegar voru sum gluggaop ekki í samræmi við teikningar. Ekkert er heldur fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu áfrýjanda að stefndi hafi komið í veg fyrir að áfrýjandi gæti bætt úr göllum á verkinu, sem þeim sem honum var fullkunnugt um. Verður raunar ekki ráðið af gögnum málsins að áfrýjandi hafi tilkynnt stefnda að hann hygðist bæta úr verkinu. Af því sem er fram komið í málinu um samskipti stefnda við S.I. verktaka ehf. meðan á byggingartíma stóð verður ekki talið að greiðslur stefnda til S.I. verktaka ehf. vegna verksins hafi gefið áfrýjanda ástæðu til þess að ætla að ekki yrðu hafðar uppi kröfur vegna galla á því. Standa heldur engin rök til þess að sýkna beri áfrýjanda vegna þess að stefndi freistaði þess ekki að halda eftir greiðslum til handa S.I. verktökum ehf. vegna galla á verkinu, enda var stefnda það ekki skylt.
II.
Aðila greinir á um hversu víðtæk ábyrgð byggingarstjóra sé og hvort áfrýjandi beri sem byggingarstjóri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnda vegna galla þeirra sem matsgerð leiddi í ljós.
Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 eru lagðar umfangsmiklar skyldur á byggingarstjóra. Þannig skal byggingarstjóri samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laganna vera við stjórn framkvæmda við hvert mannvirki og samkvæmt upphafsákvæði 3. mgr. greinarinnar er hann framkvæmdastjóri þeirra. Sérstaklega er tekið fram í þeirri málsgrein að hann beri ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Er hér vísað til þeirra fyrirmæla, almennra og sérstaka, sem lög og reglugerðir setja um byggingarframkvæmdir og mannvirkjagerð þar á meðal fyrirmæla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar er til dæmis það ákvæði í 118. gr. að tryggt skuli að framkvæmdir séu með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti. Þá eru ýmsar sérstakar skyldur lagaðar á byggingarstjóra varðandi þá iðnmeistara sem að framkvæmdum koma. Skal hann samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laganna ráða þá í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkja ráðningu þeirra og sama gildir um uppsögn iðnmeistara. Ber iðnmeistari ábyrgð samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda á að þeir verkþættir, sem hann tekur að sér að hafa umsjón með, séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þá skal byggingarstjóri, samkvæmt 3. mgr. 44. gr. laganna, áður en byggingarframkvæmir hefjast undirrita yfirlýsingu um ábyrgð sína og tilkynna byggingarfulltrúa nöfn iðnmeistara. Er byggingarstjóri samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laganna skyldur til að hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gildi að minnsta kosti fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda er hann stýrði.
Ákvæði laga nr. 73/1997 um byggingarstjóra leystu af hólmi ákvæði V. kafla byggingarlaga nr. 54/1978, en með þeim voru fyrst í lög leidd ákvæði um byggingarstjóra. Samkvæmt 16. gr. þeirra laga var heimilt „að hafa einn ábyrgan aðila“ við gerð hvers mannvirkis er nefndist byggingarstjóri. Sagði í athugasemdum frumvarps um þetta ákvæði að byggingarstjóri væri ábyrgur gagnvart húsbyggjanda og byggingaryfirvöldum og yrði tengiliður allra iðnmeistara, sem störfuðu við framkvæmdina. Ákvæði núgildandi laga má um sumt rekja til byggingarlaganna frá 1978, til dæmis varðandi verksvið hans. Önnur ákvæði núgildandi laga voru nýmæli þar á meðal að skylt væri að hafa byggingarstjóra við stjórn framkvæmda hvers mannvirkis og að hann skyldi hafa ábyrgðartryggingu. Athugasemdir með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 73/1997 eru ekki margorðar um tilganginn með breytingunum. Þar segir þó að með þeim séu hertar til muna reglur um byggingarstjórn.
Þegar framangreind ákvæði skipulags- og byggingarlaga eru virt og litið til forsögu þeirra og tilgangs verður að telja að með þeim séu lagðar skyldur á byggingarstjóra til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum þeim sem hann stýrir, þar á meðal með því að iðnmeistarar þeir sem að verkinu koma fyrir hans atbeina sinni sínum skyldum og að framkvæmdin sé með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti. Vanræki byggingarstjóri þessa umsjónar- og eftirlitsskyldu sína með saknæmum hætti getur hann orðið skaðabótaskyldur gagnvart eiganda mannvirkis vegna tjóns sem af því hlýst.
Í matsgerð hinna dómkvöddu manna kemur fram í kaflanum um vettvangsskoðun að í ljós hafi komið að margt hafi farið úrskeiðis. Oft verði „einhver áföll í uppslætti sem þessum en ekki svo víðtæk sem í þessu verki.“ Þetta sé hægt að lagfæra með auknu ákasti í múr og múrbroti. Þá segir að skekkja í gluggum sé víða mjög mikil, þannig að saga þurfi þá lausa og festa að nýju. Múrvinna að utan sé mikið vandmál því skekkjur séu miklar. Ljóst er af þessari lýsingu að gallar á uppslætti hússins að Hraunási 10-12 voru mun meiri en eðlilegt eða venjulegt getur talist og að því fari fjarri að við framkvæmdina hafi verið gætt fullnægjandi faglegra vinnubragða. Verður að virða það byggingarstjóra til vanrækslu að hafa látið slík vinnubrögð viðgangast og er hann því ábyrgur gagnvart stefnda vegna þess tjóns sem af hlaust. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Björn Helgi Snorrason, greiði stefnda, Sigurði Sigurjónssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Ég er samþykkur forsendum og niðurstöðum meirihluta dómsins um þau atriði er greinir í I. kafla atkvæðis þeirra. Hins vegar er ég ósammála þeim um önnur atriði er lúta að ábyrgðarsviði áfrýjanda sem byggingarstjóra að umræddu verki.
Í 51. gr. skipulags- og byggingaralaga nr. 73/1997 er kveðið á um „umsjón með byggingarframkvæmdum.“ Þar kemur fram í 1. mgr. að við stjórn framkvæmda hvers mannvirkis skuli vera byggingarstjóri. Í 2. mgr. ákvæðisins eru svo taldir upp þeir aðilar sem geta orðið byggingarstjórar, þar á meðal eru húsasmíðameistarar. Í 3. mgr. segir svo: „Byggingarstjóri er framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hann ræður iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkir ráðningu þeirra. Samsvarandi gildir um uppsögn iðnmeistara. Byggingarstjóri ber ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Hann skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gildi a.m.k. í fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði. Að öðru leyti fer um umboð byggingarstjóra, verksvið hans og ábyrgð gagnvart eiganda byggingarframkvæmda eftir samningi þeirra á milli. Í byggingarreglugerð skulu vera nánari ákvæði um slíkan samning. Áður en byggingarframkvæmdir hefjast skal byggingarstjóri staðfesta ábyrgð sína fyrir byggingarfulltrúa.“ Í 4. mgr. segir svo að byggingarstjóri geri byggingarfulltrúa viðvart um lok úttektarskyldra verkþátta og að við lok framkvæmda skuli byggingarstjóri staðfesta að byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.
Reglur um byggingarstjóra komu fyrst fram í byggingarlögum nr. 54/1978. Í 17. gr. þeirra sagði: „Byggingarstjóri er framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hann ræður iðnmeistara í upphafi verks í samráði við eiganda eða samþykkir ráðningu þeirra. Sama gildir um uppsögn iðnmeistara. Að öðru leyti fer um umboð byggingarstjóra, verksvið hans og ábyrgð gagnvart eiganda byggingarframkvæmda eftir lögum og samningi þeirra.“ Samkvæmt þessu bar byggingarstjóri ábyrgð á því að til verks yrðu ráðnir hæfir iðnmeistarar, nema annað væri tekið fram í samningi. Í 18. gr. laganna var svo að finna sérstök ákvæði um ábyrgð byggingarstjóra, en í 1. mgr. þeirrar greinar sagði: „Byggingarstjóri ber ábyrgð gagnvart byggingarnefnd og öðrum aðilum á því, að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkta uppdrætti og að öðru leyti í samræmi við lög.“ Í 2. mgr. sagði svo að byggingarstjóri skyldi áður en byggingarframkvæmdir hæfust „undirrita yfirlýsingu um ábyrgð sína, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð.“ Af lestri 2. mgr. verður sú ályktun helst dregin að vísað væri til ábyrgðar samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Ekki voru í eldri byggingarreglugerð nr. 177/1992 frekari ákvæði um ábyrgð byggingarstjóra en fram komu í lögum nr. 54/1978.
Þrátt fyrir að í greinargerð með núgildandi skipulags- og byggingarlögum segi að með lögunum séu hertar til muna reglur um byggingarstjórn þá hafði V. kafli laga nr. 54/1978 að geyma sambærileg ákvæði annars vegar um verksvið og hins vegar um ábyrgð byggingarstjóra og 51. gr. núgildandi laga þar sem 17. gr. og 18. gr. eldri laga er steypt saman að þessu leyti. Segir meðal annars í athugasemdum með núgildandi ákvæði: „Ákvæðin um verksvið byggingarstjóra eru samhljóða 17. gr. gildandi laga en nýmæli er að í byggingarreglugerð skuli kveðið á um samning milli byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda.“ Þá segir jafnframt: „Ákvæði um ábyrgð byggingarstjóra er að mestu samhljóða 1. mgr. 18. gr. byggingarlaga en bætt er við að byggingarstjóri skuli við lok framkvæmda staðfesta að byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.“ Þess ber að geta að í lögum nr. 54/1978 var einungis um að ræða heimildarákvæði um að byggingarstjóri kæmi að verki, en slíkt er gert að skilyrði í núgildandi lögum og einnig varð breyting á reglum um úttektir. Þá var það nýmæli að byggingarstjóri skuli við lok framkvæmda staðfesta að byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir og gera byggingarfulltrúa viðvart um lok úttektarskyldra verkþátta. Einnig varð sú breyting að byggingarstjóri skyldi kaupa ábyrgðartryggingu.
Núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 hefur ekki að geyma sérstök ákvæði um ábyrgð byggingarstjóra umfram það sem fram kemur í lögunum, en í greinum 31.1 og 31.2 eru einungis ítrekuð framangreind ákvæði 51. gr. laganna um það efni. Þá er heldur ekki að finna í reglugerðinni nánari ákvæði um samning milli byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda þrátt fyrir fyrirmæli í 51. gr. laganna þar um. Hins vegar er í 33. gr. reglugerðarinnar kveðið nánar á um hvernig byggingarstjóri geti uppfyllt tryggingarskyldu sína samkvæmt 51. gr. laganna. Er tekið fram að um sé að ræða tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi hans í starfi og að tryggingin skuli nema minnst 5.000.000 krónum vegna hvers einstaks tjónsatviks, en heildarfjárhæð tryggingarbóta innan hvers tólf mánaða tímabils skuli nema minnst 15.000.000 krónum. Skulu fjárhæðirnar breytast í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu.
Áfrýjandi og stefndi gerðu ekki með sér samning eins og þann sem að áður er nefndur um ábyrgð áfrýjanda sem byggingarstjóra og tókst áfrýjandi því ekki, sem byggingarstjóri, á hendur ríkari ábyrgð gagnvart stefnda en greinir í ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerð. Eins og að framan er rakið er verksviði byggingarstjóra þar lýst sem allvíðtæku, þar sem hann kallast „framkvæmdarstjóri“ byggingarframkvæmda og kemur að ráðningum iðnmeistara að verki, auk þess að hafa umsjón með því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Í 52. gr. laganna er jafnframt kveðið á um að iðnmeistarar beri ábyrgð gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda á að þeir verkþættir, sem þeir taka að sér að hafa umsjón með, séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Ekki er fallist á með héraðsdómi að af þessum ákvæðum um ábyrgð iðnmeistara gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda verði dregin sú ályktun að byggingarstjóri skuli þess vegna bera sérstaka ábyrgð á verkum iðnmeistara gagnvart eiganda framkvæmdanna. Verður ákvæðið frekar túlkað þannig að með því sé annars vegar áréttuð ábyrgð iðnmeistara gagnvart byggingarstjóra á þeim þáttum sem hinn síðarnefndi ber ábyrgð á gagnvart eiganda framkvæmda og hins vegar ábyrgð iðnmeistara á verkum sínum gagnvart eiganda framkvæmda, en að ákvæðinu sé ekki ætlað að afmarka ábyrgð byggingarstjóra gagnvart eiganda framkvæmda. Þá hefur ákvæðið augljóslega heldur ekki þann tilgang að draga úr ábyrgð iðnmeistara sem „ber ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst“, eins og segir 2. mgr. 8. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978. Líta ber einnig til þess að sá munur er á ákvæðum 51. gr. og 52. gr. skipulags- og byggingarlaga um ábyrgð byggingarstjóra annars vegar og iðnmeistara hins vegar, að í síðarnefnda ákvæðinu er kveðið á um að iðnmeistari beri ábyrgð á því að verkþættir séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, en í fyrrnefnda ákvæðinu er ekki getið um slíka ábyrgð byggingarstjóra.
Eins og að framan er rakið er það eitt tilgreint sérstaklega um ábyrgð byggingarstjóra í 51. gr. skipulags- og byggingarlaga að ábyrgðin felist í að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þá er gerður greinarmunur í ákvæðinu á umboði og verksviði byggingarstjóra annars vegar og ábyrgð hans hins vegar. Í ákvæðinu er ekki kveðið á um faglega ábyrgð byggingarstjóra á hinum margvíslegu verkum ýmissa iðnmeistara sem að verki geta komið þótt byggingarstjóri skuli koma að ráðningu þeirra og bera þannig ábyrgð á því að hæfir menn veljist til starfans. Verða tilvitnuð orð 51. gr. laganna ekki skýrð svo að um sé að ræða ábyrgð byggingarstjóra á framkvæmd eða gæðum verks að öðru leyti en þar er sérstaklega tilgreint. Önnur ákvæði laganna og byggingarreglugerðar bera heldur ekki með sér að um sé að ræða almenna verkábyrgð byggingarstjóra en slíkar reglur hefðu þurft að koma fram með skýrum hætti. Fram er komið að gluggaop í umræddum parhúsum voru ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti og tel ég að áfrýjandi sem byggingarstjóri sök á þessum verulegu frávikum og beri honum að greiða stefnda það tjón sem af því hlaust samkvæmt matsgerð. Um fjárhæð bótanna eru þó ekki efni til að fjalla nánar, eins og úrslitum málsins er varið. Þá tel ég að áfrýjanda beri að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2005.
Mál þetta var þingfest 29. júní 2004 og dómtekið 1. þ. m.
Stefnandi er Sigurður Sigurjónsson, Haukanesi 6, Garðabæ.
Stefndi er Björn Helgi Snorrason, Kálfafelli 1 B, Kirkjubæjarklaustri. Réttargæslustefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að upphæð 1.684.000 krónur með dráttarvöxtum frá 7. desember 2001 til greiðsludags samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu auk málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara lækkunar á kröfum stefnanda, dráttarvextir verði eingöngu dæmdir frá dómsuppsögudegi og málskostnaður falli niður.
I
Í málinu reynir á úrlausn dómsins um ábyrgð stefnda sem byggingarstjóra vegna galla á parhúsum sem stefnandi lét byggja.
Með verksamningi, dags. 6. desember 2000, milli stefnanda sem verkkaupa og S.I. verktaka ehf. sem verktaka tók verktaki að sér að slá upp parhúsi (parhúsum) að Hraunási 10-12 í Garðabæ fyrir verkkaupa. Tekið er fram að verkið skuli unnið samkvæmt gildandi stöðlum og reglugerðum og almennt góðum hefðum í byggingariðnaði. Forsvar fyrir verkinu skyldu hafa starfsmenn verktaka, stefndi í máli þessu en hann er húsasmíðameistari og Engilbert Imsland smiður. Heildarverð var ákveðið 5.946.000 krónur sem skyldi breytast í samræmi við magntölur. Tilboðið fælist í því að slá upp tveggja hæða, tveggja íbúða parhúsi og innifalið í uppsteypu öll mótavinna, leiga á mótum og tengi en verkkaupi skyldi útvega allt efni og rafmagn. Verð skyldu ekki verðbætast og virðisaukaskattur vera innifalinn. Samningsupphæðina skyldi verkkaupi greiða eftir á í samræmi við framvindu verksins og eigi síðar en 12 dögum eftir samþykkt reikninga verktaka. Verktími skyldi vera frá 10. desember 2000 og verkinu vera lokið 15. apríl 2001. Þá er í samningnum svofellt ákvæði (7. gr.): “Björn Snorrason skal verða húsasmíðameistari og byggingarstjóri á verkinu án sérstakrar greiðslu í stað Björns Stefánssonar. Meistarar og iðnaðarmenn aðrir skulu vera við verkið í samráði við verktaka.”
Fyrir dóminum upplýsti stefndi að hann hefði verið eigandi S.I. verktaka ehf. að hálfu á móti Margréti Hannesdóttur, eiginkonu Engilberts Imsland sem hafi verið framkvæmdastjóri félagsins. Bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta seint á árinu 2001.
Þann 18. desember 2002 skrifaði stefndi sig sem húsasmíðameistara og byggingarstjóra að framangreindum parhúsum. Áður, eða 6. júlí 2000, hafði Björn Stefánsson verið skráður byggingarstjóri. Samkvæmt framlagðri tilkynningu um byggingarstjóraskipti, 18. desember 2000, sem er undirrituð af málsaðilum og Birni Stefánssyni, fráfarandi byggingarstjóra, segir um verkstöðu: “Búið er að steypa sökkla og botnplötu.”.
Í stefnu segir að þegar á leið hafi verið ljóst að vinnubrögð hafi verið einstaklega óvönduð og ófullnægjandi að öllu leyti og hafi verið víðtækir ágallar á uppslætti hússins. Afhending húsanna hafi dregist úr hömlu vegna ofangreindra annmarka enda hafi stefnandi orðið að láta endurvinna stóra verkþætti og koma við lagfæringum svo húsin kæmust í söluhæft ástandi. Hann hafi orðið fyrir miklu tjóni og óþægindum af þessum sökum. Stefnandi hafi orðið að ráða nýja iðnmeistara til að ljúka frágangi á húsunum en stefndi hafi algjörlega vanrækt skyldur sínar og hlaupist á brott frá verkinu. Stefnandi kveðst hafa greitt S.I. verktökum ehf. 5.348.000 krónur en félagið hafi einungis framvísað reikningum fyrir 2.859.940 krónur.
Í greinargerð stefnda segir að framkvæmdum hafi ekki lokið á tilsettum tíma, aðallega vegna þess að teikningar hafi borist seint og illa auk þess sem vetrarveður hafi tafið framkvæmdir. Stefnandi hafi aldrei kvartað vegna tafa á verktíma verktaka. Þegar komið hafi verið fram í ágúst 2001 og séð fyrir endann á þeim verkliðum, sem S.I. verktakar ehf. hafi haft með höndum, hafi komið upp ágreiningur milli verktaka og verkkaupa með þeim afleiðingum að verktaki hafi hætt. Þá hafi verið ólokið nokkrum þáttum, sem verktaki hafi ætlað að framkvæma, s.s. að laga skekkjur í gluggum en honum hafi ekki verið gefinn kostur á því. Þegar hér hafi verið komið hafi verkkaupi ráðið menn í smíði þaksins án samráðs við stefnda sem byggingarstjóra. Þessi framkoma verkkaupa hafi orðið til þess að verktaki og starfsmenn hans hafi horfið frá verkinu. Óumdeilt hafi verið á þessu stigi að nokkrar skekkjur hafi komið til við byggingu og hafi verktaki ætlað að bæta úr þeim eftir því sem unnt væri en aðrar hafi verið unnt að laga í múrverki með litlum kostnaði.
Stefndi hafði keypt ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda vegna starfa sinna sem byggingarstjóri, sbr. 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Réttargæslustefndi staðfesti 4. desember 2001 að vátryggingarfjárhæð væri 5.348.129 krónur í hverju einstöku tjóni en þó ekki hærri en 16.044.387 krónur alls á vátryggingarárinu svo og að eigin áhætta vátryggðs væri 267.000 krónur í hverju tjóni.
Með bréfi 28. ágúst 2001 tilkynnti stefnandi réttargæslustefnda um ætlað tjón sitt við byggingu parhúsanna nr. 10-12 í Garðabæ en stórfelldir gallar á smíðinni hafi verið staðreyndir við skoðun hönnuða húsanna, þeirra Einars V. Tryggvasonar arkitekts og Emils Þórs Guðmundssonar tæknifræðings. Frá því er skýrt að bæði húsin hafi verið seld óskyldum aðilum og að stefnandi óttist að fram kunni að koma kröfur af þeirra hálfu vegna missmíðar og vanrækslu byggingarstjóra. Sett er fram ósk um að félagið grípi til skjótra aðgerða og staðreyni og skilgreini hina ætluðu ágalla.
Þann 5. september 2001 voru Magnús Þórðarson byggingameistari og Tryggvi Jakobsson, byggingafræðingur og múrarameistari, dómkvaddir í Héraðsdómi Reykjaness að beiðni stefnanda til að framkvæma mat á ætluðum göllum á framangreindum húsbyggingum. Í matsbeiðni er þess óskað að matsmenn “. . . tilgreini sérstaklega ef þeir telja að ábyrgð byggingarstjóra og byggingameistara, sem í þessu tilviki eru sami aðili, fari ekki saman. Er það einkum vegna þess að byggingarstjóri er tryggður ábyrgðartryggingu í samræmi við byggingalög og reglugerðir en húsasmíðameistari eða verktaki virðast ekki hafa neinar slíkar tryggingar.” Matsgerð, dagsett 5. október 2001, sem liggur frammi og var staðfest af matsmanninum Magnúsi Þórðarsyni við aðalmeðferð málsins, er að meginefni svohljóðandi:
„Vettvangsskoðun.
Við skoðun kom í ljós að margt hafði farið úrskeiðis. Oft verða einhver áföll í uppslætti sem þessum en ekki svo víðtæk sem í þessu verki. Þetta er hægt að lagfæra með auknu ákasti í múr og múrbroti. Einnig hefur ekki steypst undir bogaglugga. Skekkja í gluggum er víða mjög mikil, þannig að saga þarf þá lausa og festa að nýju. ( Sumir hafa nú þegar verið sagaðir úr )
Múrvinna að utan er mikið vandamál því skekkjur eru miklar. Vegna þess hvað skekkjur eru miklar á yfirborði verður efnisnotkun og vinna töluvert meiri. Og undirbúnings vinna töluvert mikið umfangsmeiri.
Númer: 10
Ljóst er við skoðun að við uppsteypu á húsi haf hlutir ekki tekist sem skildi veggir eru töluvert úr lóð og ekki í plani, einnig eru horn ekki fullkomlega rétt miðað við þær venjur sem viðgengist hafa við uppslátt og mótavinnu undir múrhúðun. Einnig hafa veggir gengið eitthvað til við steypu og gluggar skekkst í mótum og karmar og póstar bognað. Tveir gluggar hafa verið brotnir úr vegg og færðir til í veggfleti. Ljóst er að veggir við slétt þak yfir bílgeymslu og eldhúsi hafa ekki verið steyptir í fulla hæð og tengijárn ekki sett í veggi við þakflöt. Uppsláttur fyrir svalahandriði var fjarlægður. Lítill munur er á hæð svalagólfs og plötu í húsi. Á teikningum er gert ráð fyrir 20 millimetra mun á hæð gólfs í íbúð og svalagólfi.
Neðri hæð.
o Skekkjur eru víða á samskeytum við plötuskil milli jarðhæðar og hæðar.
o Veggir eru á flestum stöðum úr lóð um 15mm til 25mm.
o Einnig eru veggir í láréttri línu ekki vel í plani.
o Við bogaglugga á jarðhæð eru miklar skrekkur á yfirborði flatar.
o Miklar skekkjur eru á steyptum fleti undir bogaglugga á jarðhæð.
o Mikið ósamræmi er á steypu undir glugga á jarðhæð og sökkli.
o Gluggi á jarðhæð á suðurhlið hefur verið sagaður úr og færður til opi.
Efri hæð.
o Gluggi við svalahurð hefur verið færður til var settur rangt í.
o Ekki hefur tekist að steypa undir bogaglugga við svalir, girði vantar undir glugga.
o Horn á vegg við boga er mikið úr lóðlínu það er um 30 til 35 millimetra á tveggja metra réttskeið.
o Bogaveggur er töluvert úr lóðlínu, skekkja er um 25millimetrar á tveggja metra réttskeið.
o Biti við í stofu við stiga er skakkur og snúinn.
o Veggur milli húsa hefur sprungið út í steypu og eru miklar skekkjur á honum.
o Veggur í stigahúsi að bílgeymslu er mjög ósléttur. Þar þarf að lagfæra glugga.
Númer 12.
Ljóst er við skoðun að mjög hliðstæðar skekkjur eru við uppsteypu á húsi númer 12. og sem vart hefur orðið við á húsi númer 10. Einnig hér hafa hlutir ekki tekist sem skildi, veggir eru töluvert úr lóð og ekki í plani, einnig eru horn ekki fullkomlega rétt miðað við þær venjur sem viðgengist hafa við uppslátt og mótavinnu undir múrhúðun. Einnig hafa veggir gengið eitthvað til við steypu og gluggar skekkst í mótum og karmar og póstar bognað. Tveir gluggar hafa verið brotnir úr vegg og færðir til í veggfleti. Ljóst er að veggir við slétt þak yfir bílgeymslu og eldhúsi hafa ekki verið steyptir í fulla hæð og tengijárn ekki sett í veggi við þakflöt. Uppsláttur fyrir svalahandriði var fjarlægður. Miðhluti plötu yfir jarðhæð er lægri en útbrúnir sem nemur um 11 millimetrum. Töluverðar plastískar sprungur eru í plötu yfir jarðhæð og í svalagólfi. Þessar sprungur hafa myndast vegna of mikils þurrks á yfirborði plötu þetta gerist vegna ónógrar eftirmeðhöndlunar á yfirborði plötu svo sem yfirbreiðslu þegar steypu er lokið, yfirbreiðsla kemur í veg fyrir of þurrk á yfirborði og fyrirbyggir sprungumyndun. Ekki er óþekkt að sprungur myndist í yfirborði platna vegna of þurrks eða of þornunar og hefur það yfirleitt ekki valdið miklum áhyggjum hjá aðilum þegar plötur eru innanhúss. Hafa verður hugfast að hér er aðeins um sjón skoðun að ræða. Einnig var gerð og hæðarmælinga á plötu og lofti yfir jarðhæð. Þar kemur fram að um 11 millimetra munur er á yfirborði plötu. Við mælingu á loftum kemur fram að það er hæðarmunur sem er um 8 millimetrum. Samkvæmt mælingum virðist ekki vera um verulegt sig að ræða í plötu. Hæðarmunur er á hæð svalagólfs og plötu í húsi er samkvæmt mælingu um 17- 18 millimetrar. Á teikningum er gert ráð fyrir 20 millimetra mun á hæð gólfs í íbúð og svalagólfi.
Neðri hæð.
o Skekkjur eru víða á samskeytum við plötuskil milli jarðhæðar og hæðar.
o Veggir eru á flestum stöðum úr lóð um 15mm til 25mm.
o Einnig eru veggir í láréttri línu ekki vel í plani.
o Við bogaglugga á jarðhæð eru miklar skekkjur á yfirborði flatar.
o Miklar skekkjur eru á steyptum fleti undir bogaglugga á jarðhæð.
o Mikið ósamræmi er á steypu undir glugga á jarðhæð og sökkli.
o Gluggi á jarðhæð á suðurhlið hefur verið sagaður úr og færður til opi.
Efri hæð.
o Miklar sprungur eru á gólfum yfir jarðhæð sama er að segja um svalagólf. Einnig er hæðarmunar á yfirborði plötu um 11 millimetra.
o Ekki hefur tekist að steypa undir bogaglugga við svalir, girði vantar undir glugga.
o Bogaveggur er töluvert úr lóðlínu, skekkja er um 15 til 20. millimetrar á tveggja metra réttskeið.
o Stóri gluggi í stofu boginn og skakkur, búið er að brjóta frá honum að hluta.
o Veggur í stigahúsi að bílgeymslu er mjög ósléttur. Þar þarf að lagfæra glugga.
Leiðir til úrbóta við múrvinnu.
1. Til að rétta af veggi inni er nauðsynlegt að setja aukafyllingar á veggfleti sama gildir um einangraða útveggi og steypta veggi. Einnig gildir það sama um loft, þar eru staðbundnar skekkjur sem talið er að þurfi að rétta af.
2. Utandyra þarf að setja aukafyllingar á fleti til að jafna yfirborð veggflata.
3. Á húsi númer 12. er gert ráð fyrir aukaílagi við ílögn gólfa og sérstakri þéttingu á plötu fyrir ílögn.
4. Einnig þarf að brjóta utan af sökkli við bogaglugga á neðri hæð.
Gluggar.
Nokkrir gluggar hafa skekkst í mótum þegar steypt var, vegna ónógrar stýfingar glugga. Ekki er um annað að ræð en að saga nokkra glugga lausa og festa að nýju. Höggva þarf upp sagarfar til að yfirborð verið gróft og skapi betri viðloðun ( festu ) við flötinn þegar steypt verður með glugga. Til að fyrirbyggja hugsanlegan leka með gluggum sem settir eru í að nýju þarf að vanda þann verkþátt sérstaklega.
Hús númer 10.
Losa þarf glugga yfir bílskúr á framhlið og einnig bogna gluggann á neðri hæð.
Hús númer 12.
Losa þarf betur um stóra gluggann í stofunni (hægra hliðarstykki séð að innan ) einnig báða bognu gluggana á neðri og efri hæð.
Þá þarf að huga betur að öðrum gluggum sem nú þegar hafa verið sagaðir úr í þá vantar girði, nauðsynlegt er að hafa girði á gluggum einnig þarf að setja girði neðan á bognu gluggana.
Í matsbeiðninni er þess farið á leit við matsmenn að þeir skilgreini hver séu skil á milli byggingastjóra og húsasmíðameistara. Ekki treysta matsmenn sér til að fara út í lögfræði atriði og láta dómurum það eftir.
|
|
|
|
|
|
KOSTNAÐARMAT: |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Verkefni: Hraunás 10 - 12. Garðabæ. |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Almennt. |
|
|
|
|
Kostnaðarmat miðast við verðlag í september 2001. Matið innifelur |
|
||
|
alla skatta og skyldur. |
|
|
|
|
Í magnskrá er sundurliðun á efni og vinnu. |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Númer 10. |
|
|
|
|
Múrhúðun: |
Efnisliður |
Vinnuliður |
Samtals |
|
|
|
|
|
|
Múrhúðun á einangrun. |
36.000 |
96.000 |
132.000 |
|
Múrhúðun á steypta veggi inni. |
71.000 |
170.000 |
241.000 |
|
Múrhúðun steyptra veggja úti. |
20.000 |
55.000 |
75.000 |
|
Múrhúðun lofta |
24.000 |
50.000 |
74.000 |
|
Múrbrot og undirbúningur. |
45.000 |
35.000 |
80.000 |
|
|
|
|
602.000 |
|
Númer 12. |
|
|
|
|
Múrhúðun: |
Efnisliður |
Vinnuliður |
Samtals |
|
|
|
|
|
|
Múrhúðun á einangrun. |
36.000 |
96.000 |
132.000 |
|
Múrhúðun á steypta veggi inni. |
71.000 |
170.000 |
241.000 |
|
Múrhúðun steyptra veggja úti. |
20.000 |
55.000 |
75.000 |
|
Múrhúðun lofta |
24.000 |
50.000 |
74.000 |
|
Ílögn gólfa og frágangur |
45.000 |
55.000 |
100.000 |
|
Múrbrot og undirbúningur. |
45.000 |
35.000 |
80.000 |
|
|
|
|
702.000 |
|
|
|
|
|
|
Númer 10. |
|
|
|
|
Gluggar: |
|
|
154.000 |
|
|
|
|
|
|
Númer 12. |
|
|
|
|
Gluggar: |
|
|
226.000 |
|
|
|
|
|
|
Áætlaður heildarkostnaður samtals: |
|
|
1.684.000.”
|
|
|
|
|
|
Með bréfi stefnanda til réttargæslustefnda 7. nóvember 2001 vísar hann til niðurstöðu matsgerðar og krefst þess að félagið taki afstöðu til þeirrar kröfu sinnar að það greiði 1.682.000 krónur að viðbættum matskostnaði. Í tölvupósti réttargæslustefnda til stefnanda 13. desember 2001 er því lýst að félagið telji rétt að hafna greiðsluskyldu úr starfsábyrgðartryggingunni.
II
Dómkrafa stefnanda er miðuð við niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna. Ljóst sé þó að kostnaður stefnanda við viðgerðir á parhúsunum hafi farið langt umfram þann kostnað og sé þá ótalið það tjón sem hlotist hafi af afhendingardrætti og töfum vegna þess að riftun kaupenda að húsinu nr. 10 hafi farið fram og endursala dregist verulega. Þá hafi stefnandi orðið að hlíta aðfinnslum og kröfum um afslátt frá kaupendum að húsinu nr. 12 vegna ágalla og lækkun söluverðs af þeim sökum.
Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að byggingarstjóri sé framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Með því að setja til ábyrgðar einn aðila, byggingarstjóra, eigi að vera tryggt að einn aðili gæti samræmingar og sé ábyrgur fyrir framkvæmdum á verkstað. Af framlögðum gögnum sé ljóst að byggingarstjóri (stefndi) hafi gjörsamlega vanrækt eftirlitsskyldu sína og umsjón með framkvæmdum m.t.t. gæða og byggingarreglugerðar.
Dómkröfur stefnanda eru í öðru lagi byggðar á því að byggingarstjóri beri ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir en það hafi ekki verið gert í þessu tilviki né í samræmi við venjur í byggingarframkvæmd vegna gáleysis og vanrækslu stefnda.
Í þriðja lagi er á því byggt að miðað við hina miklu ágalla parhúsanna að Hraunási 10-12, Garðabæ virðist stjórn framkvæmdanna hafa verið ófullnægjandi og eftirlit með þeim lítið sem ekkert en byggingarstjóri beri á því ábyrgð ef hann vanrækir stjórnunar- og eftirlitsskyldur sínar með iðnmeisturum.
Í fjórða lagi er byggt á því að strangt sakarmat gildi um byggingarstjóra sem eigi að vera sérfræðingar við mannvirkjagerð.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu vegna þeirrar ábyrgðartryggingar sem stefndi hafði keypt hjá félaginu.
Stefnandi byggir kröfur sínar á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, einkum 44. gr. og 51. gr., og byggingarreglugerð nr. 441/1998, einkum 32. gr., 118. gr. og 119. gr.
III
Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni við byggingu húsanna og matsgerðinni er mótmælt sem ómarktækri. Í þeim kafla greinargerðar stefnda, sem fjallar um málavexti, eru gerðar athugasemdir við matsgerð: 1) Engin grein sé gerð fyrir því hver sé eðlilegur heildarkostnaður við múrhúðun ef húsin hefðu verið ógölluð. 2) Engin grein sé gerð fyrir hver sé virðisaukaskattur af vinnulið sem húsbyggjandi geti fengið endurgreiddan. 3) Fram komi að brjóta þurfi utan af sökkli en sökklar hafi verið reistir er verktaki og starfsmenn hans komu að verkinu. 4) Varðandi staðsetningu glugga í mótum er tekið fram að hún hafi verið í samráði við hönnuði. 5) Ráð sé gert fyrir sérstakri ílögn og þéttingu gólfa í húsi nr. 12 en fram komi í framlögðu ástandsmati að skekkjumörk séu innan leyfilegra marka.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi komið í veg fyrir að stefndi bætti úr því sem hann hafi viðurkennt að aflaga hafi farið og geti því ekki krafið um bætur. Vísað er til þess að síðasta greiðsla samkvæmt verksamningi hafi verið 3. ágúst 2001 en um 10. ágúst s.á. hafi verktaki horfið frá verkinu og þá átt eftir að fá greiddar rétt rúmar 600.000 krónur af verksamningi auk greiðslu fyrir aukaverk. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að halda eftir greiðslum og með greiðslum sínum hafi hann fyrirgert öllum hugsanlegum rétti til bóta vegna galla.
Á því er byggt af hálfu stefnda að ábyrgð byggingarstjóra taki eingöngu til þess að gæta að því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir en taki ekki til faglegra mistaka verktaka og/eða starfsmanna hans.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að hann hafi verið framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda húsanna. Í fyrsta lagi hafi hann ekki komið til verksins fyrr en eftir að sökklar og botnplata höfðu veri steypt. Í öðru lagi hafi stefndi eingöngu haft með höndum takmarkaðan þátt við byggingu húsanna. Í þriðja lagi hafi enginn samningur um byggingarstjórn verið gerður við stefnda. Í fjórða lagi hafi stefndi horfið frá verkinu í ágúst 2001 án þess að stefnandi hafi hlutast til um að ráða annan byggingarstjóra. Í fimmta lagi sé ljóst að stefnandi hafi sjálfur stýrt framkvæmdum; hann hafi t.d. ráðið aðra meistara en stefnda og hann hafi sjálfur ráðið stefnda að verkinu og reyndar hrakið hann frá því. Þá hafi stefnandi séð um öll efniskaup, þ.m.t. kaup á gluggum og m.a. ráðið menn til að reisa þökin án atbeina stefnda.
Af hálfu stefnda er dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega andmælt. Komi til þess að stefndi verði að einhverju leyti talinn bera ábyrgð er þess krafist að dráttarvextir verði einungis dæmdir fá dómsuppsögu.
IV
Verulegur hluti metins kostnaðar felst í úrbótum á göllum með múrhúðun og er ekki fallist á að það sé galli á matsgerð að ekki er gerð grein fyrir því hver sé eðlilegur heildarkostnaður við múrhúðun ef húsin hefðu verið ógölluð. Af hálfu stefnda hefur engum stoðum verið rennt undir þá fullyrðingu að staðsetning glugga í mótum hafi verið í samráði við hönnuði og er ekki fallist á andmæli að þessu leyti. Athugasemd varðandi sökkul hefur of óljósa skírskotun til matsniðurstöðu. Fallist er andmæli stefnda varðandi matsliðinn “ílögn gólfa og frágangur” að upphæð 100.000 krónur” þar sem gólfhalli er innan viðurkenndra viðmiðunarmarka. Fram er komið að matið tekur ekki mið af því að virðisaukaskattur fyrir vinnu á byggingarstað fæst endurgreiddur að 60 hundraðshlutum. Vinnuliðir samkvæmt matinu, að undanskildum liðnum “ílögn gólfa og frágangur” nema samtals 812.000 krónum og lækkar sú fjárhæð samkvæmt því um 94.080 krónur. Samkvæmt matsgerð, sem í samræmi við dómvenju verður lögð til grundvallar um tjón stefnanda að því leyti sem henni hefur ekki verið hnekkt samkvæmt framansögðu, nemur tjónið 1.489.920 (1.684.000 100.000 94.080) krónum.
Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi komið í veg fyrir að stefndi bætti úr því sem hann hafi viðurkennt að aflaga hafi farið og er ekki fallist á málsástæður hans sem að þessu lýtur. Þá er ekki fallist á að stefnandi hafi firrt sig rétti með því að greiða að meginhluta það sem honum bar samkvæmt verksamningi enda varð ekki ætlast til að hann gerði sér fulla grein fyrir ágöllunum fyrr en mat dómkvaddra manna hafði farið fram.
Ekki er fallist á þau andmæli stefnda að hann hafi ekki verið framkvæmdastjóri byggingarframkvæmdanna þar sem kveðið er á um það í 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grein 32.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 að “byggingarstjóri er framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda.”
Áður en byggingarframkvæmdir hefjast skal byggingarstjóri staðfesta ábyrgð sína fyrir byggingarfulltrúa, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997 og gr. 31.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í 5. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997 svo og grein 36.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er kveðið á um að hætti byggingarstjóri sem framkvæmdastjóri mannvirkis áður en verki er lokið skuli það tilkynnt byggingarfulltrúa. Byggingarframkvæmdir skulu þá stöðvaðar uns nýr byggingarstjóri er ráðinn og skal gera úttekt á þeim verkhluta sem lokið er. Í málinu liggur frammi frá byggingafulltrúa Garðabæjar “byggingasaga” umræddra parhúsa á lóð nr. 10-12 við Hraunás. Samkvæmt henni varð engin breyting á skráningu stefnda sem byggingastjóra, sem fram hafði farið 18. desember 2000, og enginn annar var eftir það skráður byggingarstjóri. Ætluð ábyrgð stefnda tekur samkvæmt því til alls tjóns stefnanda samkvæmt því sem hér að framan hefur verið tekin afstaða til.
Byggingarstjóri ber ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grein 32.2. í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þetta er skilyrðislaust en að öðru leyti fer eftir samningi milli byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda sé um hann að ræða sem er ekki í þessu tilviki. Það skal einnig áréttað að S.I. verktakar ehf. en ekki stefndi var aðili að verksamningnum við stefnanda.
Með ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar um byggingarstjóra, sbr. einkum ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997, um að byggingarstjóri skuli vera við stjórn framkvæmda hvers mannvirkis, og 3. mgr. sömu greinar um að hann skuli hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gildi a.m.k. í fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði, er fengin sú niðurstaða að ávallt sé einn aðili sem sé ábyrgur gagnvart eiganda byggingarframkvæmdar fyrir því að rétt sé staðið að byggingu mannvirkis af hálfu allra iðnmeistara sem að byggingu koma þannig að tæknilegar og faglegar kröfur á viðkomandi sviði séu uppfylltar, án þess þó að dregið sé úr ábyrgð einstakra iðnmeistara. Um þetta vísast einnig til ákvæðis 52. gr. laga nr. 73/1997 um að iðnmeistari ber ábyrgð gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda á að þeir verkþættir, sem hann tekur að sér að hafa umsjón með, séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti og lög og reglugerðir, sbr. einnig 2. mgr. 8. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978 sem kveður á um það að meistari skuli bera ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst.
Stefndi ber ábyrgð gagnvart stefnanda á því að brotið var gegn 118. grein byggingarreglugerðar nr. 441/1998 að því leyti að ekki var tryggt að framkvæmdirnar væru með faglega fullnægjandi hætti. Af því leiddi tjón stefnanda sem staðfest er með matsgerð eftir því sem áður er greint.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda 1.489.920 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Einnig ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem er ákveðinn 550.000 krónur.
Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Gísli Norðdahl byggingarfulltrúi og Magnús Guðjónsson húsasmíðameistari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Björn Helgi Snorrason, greiði stefnanda, Sigurði Sigurjónssyni, 1.489.920 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. desember 2001 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.