Hæstiréttur íslands
Mál nr. 324/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 15. júní 2009. |
|
Nr. 324/2009. |
Ákæruvaldið(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, nú á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. júlí 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2009.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X kt. [...], til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til föstudagsins 10. júlí 2009 kl. 16:00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að morgni fimmtudagsins 21. maí sl. klukkan 7:16 hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um að fara að [...] vegna ætlaðrar líkamsárásar. Segi í frumskýrslu lögreglu að þegar komið var á vettvang hafi lögreglan séð kæranda, Y, sitja grátandi á hækjum sér innan við grindverk sem sé á milli húsa númer 6 og 4 við [...]. Hún hafi verið með sár á báðum hnjám og á sköflungum og verið nærbuxnalaus. Y hafi einnig verið með glóðarauga á vinstra auga og bólgin á vinstra kinnbeini. Við bæði munnvik hafi verið roði og talsverð bólga vinstra megin. Hár hennar verið allt í flóka og rusl í hárinu og hafi hún verið afar illa áttuð. Þá segi í skýrslu lögreglu að Y hafi verið í miklu uppnámi og grátið mikið.
Y kvaðst hafa verið að skemmta sér með vinnufélögum sínum kvöldið áður en hópurinn hafi tvístrast og farið niður í miðbæ Reykjavíkur. Hún hafi farið ásamt vinkonu sinni og manni hennar á skemmtistaðinn [...] og þar hafi Y hitt mann sem hafi verið dökkur á hörund, klæddur Adidas galla. Kvað hún þennan mann hafa boðið sér í glas og hafi „verið að reyna við hana“ inni á staðnum en hún hafi ekki sýnt honum áhuga. Hins vegar hafi farið vel á með þeim og hann hafi verið almennilegur. Hafi hún því talið ástæðulaust að óttast kærða.
Um klukkan 4 aðfaranótt fimmtudagsins kvaðst Y hafa ætlað heim til sín og reynt að hringja í dóttur sína og eiginmann. Hún hafi hitt þennan mann aftur fyrir utan skemmtistaðinn og hafi hann boðið henni far. Kvað hún þau síðan hafa ekið af stað og skömmu síðar hafi þau bæði farið út úr bifreiðinni og þá hafi kærði ætlað að reyna kyssa hana en hún hafi ýtt honum í burtu og sagt honum að hún væri gift. Við það hafi kærði gjörbreyst og ráðist á hana með því að rífa í hár hennar og lemja höfði hennar upp við húsvegg. Hafi hann „dröslað“ henni til og frá eftir mölinni og hafi henni fundist sem hann ætlaði að „slíta af mér höfuðleðrið.“ Kvað hún hann hafa slitið nærbuxurnar af henni og muni hún eftir því að hafa séð hann halda utan um getnaðarliminn og ota honum að henni. Hann hafi snúið henni við og byrjaði að hafa við hana samræði. Hafi kærði ýtt henni upp að húsveggnum og rifið fast í hár hennar. Hún kvað kærða á einhverjum tímapunkti hafa orðið flóttalegan og svo hafi hann hlaupið í burtu. Y kvaðst hafa óttast um líf sitt þegar hann hafi ráðist að henni því hann hafi allt í einu orðið „kolbrjálaður.“
Y kvaðst einnig hafa verið búinn að taka upp grjóthnullung sem hún hafi ætlað að berja kærða með til þess að reyna flýja undan en svo hafi hún ekki þorað því og hætt við það. Þess beri að geta að hún hafi haldið á þessum steini í vinstri hendi skv. því sem vitni og lögregla beri um.
Á meðal gagna málsins séu gögn frá neyðarmóttöku en þar hafi Y verið skoðuð. Þar komi fram að hún hafi verið illa til reika, blá og marin. Hún hafi verið í miklu uppnámi. Áverkar í andliti verið fjölmargir, mar á vinstri kinn og vanga og glóðarauga, mjög bólgin og aum. Mar og rauðar rákir hafi verið við munnvik, rispur á hægri kinn og utanvert við hægri augabrún var sár. Hár verið í miklum flóka, aðallega vinstra megin og sjá hafi mátt punktablæðingar í hársverði, eymsli og lausar hárflyksur. Áverkar verið á baki, rasskinnum og herðum. Þar hafi mátt sjá hrufl, roða, mar og eymsli yfir spjaldhrygg. Djúpt þríhyrningslaga mar haf verið yfir miðri rasskinn og roði og rispur hér og hvar yfir herðasvæði. Þá hafi verið stórt djúpt mar utanvert á vinstra læri, ca. 13x5 cm. og nær jafnlöng rauð rispa í miðið. Hrufl og fleiður hafi verið á hnjám. Einnig hafi verið rispur og mar á leggjum og fleiður við ökkla utanvert. Þá segi í skýrslunni að áverkar Y geti komið heim og saman við frásögn hennar.
Kærði hafi viðurkennt að hafa farið í leigubifreið með Y í [...] en hann kvað hana hafa sagt sér að þar ætti hún heima. hafi hann ekki getið þess í þeirri skýrslutöku að dvalarstaður hans hafi verið að [...], sem sé skammt frá vettvangi. Kærði kvaðst hafa átt samfarir við brotaþola í húsasundi með fullu samþykki Y. Hafi hún fyrst legið á bakinu og hann haft við hana samræði um leggöng en svo hafi hún snúið sér við og hann haft samræði við hana þannig. Kvaðst hann ekki hafa fengið sáðlát. Hafi hann „lokið sér af og hysjað upp um sig buxurnar og farið af vettvangi“. Kærði kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna Y hafi verið með áverka. Kvaðst hann enga áverka hafa séð á henni. Þau hafi eitthvað hrasað en það hafi ekki verið alvarlegt og engir áverkar hafi hlotist af því. Í skýrslum sem teknar voru af kærða 29. maí sl. og 11. júní hafi hann borið í meginatriðum á sama veg. Nánar spurður um áverka Y kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa ráðist á hana.
Af upptökum úr öryggismyndavélum skemmtistaðarins [...] megi sjá kærða og Y á skemmtistaðnum. Einnig megi sjá þegar Y kom út af skemmtistaðnum en kærði hafi þá staðið fyrir utan og leitt hana í burtu og stutt við hana en á upptökunni hafi sést hversu óstöðug hún hafi verið á fótunum. Þá hafi klukkan verið 5:37-5:39. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi ætlunin verið að fara í bifreið kærða sem lagt hafi verið í miðbænum. Bifreiðinni hafi hins vegar verið stolið og hafi kærði óskað eftir aðstoð lögreglu sem hafi átt leið um Hafnarstræti. Fram komi í skýrslu þeirra lögreglumanna að þeir hafi veitt eftirtekt að kona sem hafi verið með kærða hafi verið talsvert ölvuð. Talið hafi verið að þetta hafi verið um kl. 5:39 og því ljóst að þetta hafi gerst fljótlega eftir að kærði og Y hafi farið út af skemmtistaðnum. Lögreglan kvaðst hafa séð á eftir þeim í leigubifreið.
Teknar hafi verið skýrslur af vitnum. Vitni hafi séð kærða og Y í grennd við [....]. hafi kærði borið Y á bakinu og hafi vitnið veitt því eftirtekt að hún hafi verið skólaus. Taldi hann þetta hafa verið um kl. 6:00.
Þá hafi verið teknar skýrslur af tveimur vitnum sem hafi verið við [...] og séð Y ganga óstöðugum fótum í átt til þeirra um kl. 7:13. Hún hafi verið ölvuð og illa til reika, berfætt og í rifnum kjól, með sjáanlega áverka. Hún hafi hringt á lögreglu og beðið um aðstoð. Annað vitnið hafi hlúið að Y og kvað hana hafa verið í uppnámi og að gráti komin. Kvaðst hún hafa orðið fyrir líkamsárás. Lögreglan hafi kom á vettvang fljótlega eftir þetta.
Skýrsla hafi verið tekin af fyrrverandi sambýliskonu kærða sem kvað hann hafa hringt í sig umræddan morgun kl. 7:20 og beðið um gistingu. Hafði hann þá uppgötvað að húslyklar hans hafi verið í bifreið hans sem hafði verið stolið fyrr um morguninn.
Skoðaður hafi verið sími Y og megi þá sjá að hún hafi reynt að hringja í dóttur sína og samferðarmenn nokkrum sinnum frá kl. 3:28-4:39. Þá hafi hún hringt í fjölskyldu sína og lögreglu frá kl. 7:13-7:15.
Gögn frá tæknideild séu á meðal gagna málsins en sæði hafi fundist á fatnaði kærða og Y sem nothæft sé til DNA-kennslagreiningar.
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði hafi mælst 2,20 í blóði Y og yfir 3 í þvagi og hafi hún því verið undir miklum áhrifum áfengis þegar blóðsýnið hafi verið tekið. Ljóst sé að hún hafi því síður verið í stakk búin til þess að sporna gegn verknaðinum en ella.
Rannsókn máls þessa sé nú á lokastigi. Verði það yfirfarið af aðstoðarsaksóknara og að því búnu sent ríkissaksóknara til ákvörðunar. Að mati ákæruvaldsins sé, eins og rakið hefur verið, fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Fyrir liggi að hann og Y hafi átt samleið umræddan morgun og að meint árás gegn henni hafi átt sér sennilega stað laust eftir kl. 6:00 og sé yfirstaðin um klukkustund síðar. Þyki útilokað að Y hafi verið beitt ofbeldi af öðrum en kærða en eins og áður segi hafi hún leitað aðstoðar vitna sem hafi verið þar skammt frá um kl. 7:13. Hafi hún verið í uppnámi og borið eins og áður segir verulega áverka sem samræmist þeirri lýsingu sem hún hafi gefið á árás kærða gegn henni.
Ætlað brot teljist varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um mjög grófa atlögu sé að ræða þar sem ráðist sé með ofbeldi gegn konu sem hafi verið greinilega ölvuð. Þá sé um að ræða verknað sem framinn hafi verið á sársaukafullan og meiðandi hátt.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Eins og rakið hefur verið er kærði undir sterkum grun um að hafa ráðist á ölvaða konu á almannafæri og nauðgað henni. Dómurinn fellst því á það með lögreglustjóra að brot hans sé þess eðlis að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Það verður því orðið við kröfunni eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. júlí 2009 kl. 16:00.